Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem Guð sór að gera fyrir mannkynið er nærri!

Það sem Guð sór að gera fyrir mannkynið er nærri!

10. kafli

Það sem Guð sór að gera fyrir mannkynið er nærri!

1, 2. (a) Hvers vegna sver Guð eið? (b) Hvað segir Guð í Jesaja 45:23? (c) Hvaða orð spámannsins Jesaja ættum við að geta samþykkt?

 SVER Guð eið? Já, Guð hefur stundum svarið eið en alltaf til að staðfesta það sem hann segir tilgang sinn. Með því veitir hann aukna fullvissu þeim sem málið varðar. Því ætti allt mannkyn að gefa gaum orðum hans í Jesaja 45:23: „Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.“

2 Erum við sannfærð núna, meira en 2700 árum eftir að þessi spádómur var borinn fram, um að orð spámannsins í Jesaja 45:24 séu sönn? Þar stendur: „‚Hjá [Jehóva] einum, . . . er réttlæti og vald.‘ Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.“ Ef svo er, þá getum við líka verið sammála orðum Jesaja í 25. versi: „Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir [Jehóva] og miklast af honum.“

3, 4. (a) Hvers vegna ætti Jesaja 45:25 ekki að koma okkur til að hugsa um lýðveldið Ísrael? (b) Hefur eitthvað vantað á að Jesaja 45:23-25 uppfylltist? Rökstyddu svarið.

3 Eigum við að hugsa um lýðveldið Ísrael þegar við lesum Jesaja 45:25? Nei, þessir Ísraelsmenn þakka ekki Guði Hebresku ritninganna sigra sína. Vegna misskilinnar lotningar vilja þeir ekki einu sinni nefna hann með nafni.

4 Erum við þá að halda því fram að Jesaja 45:23-25 hafi enn ekki uppfyllst? Nei! Spádómurinn hefur uppfyllst eftir tímaáætlun Jehóva. Óhugsandi er að spádómar hans rætist ekki! Orð hans er áreiðanlegt og óhagganlegt, hvað þá ef hann leggur eið við til enn frekari staðfestingar.

Guð sver eið

5. Hvernig skýrir Hebreabréfið 6:13-18 að Guð skyldi staðfesta fyrirheitið við Abraham með eiði?

5 Um þetta lesum við í Hebreabréfinu 6:13-18: „Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá ‚sór hann við sjálfan sig,‘ þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði: ‚Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt.‘ Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi. Menn sverja eið við þann, sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum.“

6. (a) Hvað gekk Guði til er hann sór við sjálfan sig í sambandi við fyrirheitið við Abraham? (b) Hvernig gat Jehóva notað vin sinn?

6 Eiður er yfirleitt ekki svarinn nema af ærnu tilefni, sér í lagi ef Guð sver hann. Hér er okkur sagt að Jehóva hafi svarið við sjálfan sig og því hlýtur rík ástæða að hafa legið að baki. Hið eiðbundna fyrirheit, sem Jehóva gaf Abraham, vini sínum, varðar okkur öll. Jehóva kunni að meta það þegar Abraham fór að boði hans og yfirgaf heimaland sitt, til að fara til þess lands sem Jehóva ætlaði að gefa afkomendum hans til eignar. Jehóva gat óhikað gert nafn þessa vinar síns mikið og notað hann til blessunar öðrum. Jehóva gat auðveldlega sagt við hann: „Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ — 1. Mósebók 12:3; Jesaja 41:8.

7. (a) Hvaða kraftaverk gerði Guð fyrir Abraham þegar kona hans var níræð? (b) Með hvaða einstökum hætti sýndi Abraham trú sína og hlýðni?

7 Þegar Sara, kona Abrahams, var níræð, löngu komin úr barneign, gerði Guð það kraftaverk að láta hana eignast soninn Ísak til framdráttar fyrirheiti sínu við Abraham. Abraham var fús til að fórna þessum ástkæra syni sínum að boði Jehóva Guðs. Þetta einstaka merki trúar og hlýðni snart Jehóva svo djúpt að hann sagði við vin sinn Abraham:

8, 9. (a) Hvernig brást Jehóva við trú og hlýðni Abrahams? (b) Gagnvart hverjum gerði Guð sig ábyrgan?

8 „‚Ég sver við sjálfan mig,‘ segir [Jehóva], ‚að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.‘“ — 1. Mósebók 22:15-18.

9 Biblían getur þess ekki fyrr að Jehóva hafi svarið eið. Með því að hann gat við engan æðri svarið sór hann við sjálfan sig og þannig gerði hann sjálfan sig ábyrgan. Það er honum til lofs að hann skuli halda sér við yfirlýstan tilgang sinn.

Að hvaða marki?

10. Hve langt er síðan Guð gerði sáttmála sinn við Abraham og hvaða spurning vaknar því?

10 Abraham gekk inn í fyrirheitna landið fyrir nálega 4000 árum. Að hvaða marki hefur sáttmálinn, sem var gerður árið 1943 f.o.t., uppfyllst núna?

11. (a) Hvað gefur aðild lýðveldisins Ísraels að Sameinuðu þjóðunum til kynna og hvaða afleiðingar hefur hún? (b) Standast afkomendur Abrahams að holdinu þær kröfur sem þarf til að vera hið fyrirheitna sæði?

11 Núna er uppi lýðveldið Ísrael í Miðausturlöndum. Það á aðild að Sameinuðu þjóðunum í eiginhagsmunaskyni. Sameinuðu þjóðirnar eru tákn þess að ríki Jehóva Guðs í höndum hins fyrirheitna sæðis Abrahams sé hafnað. Þeim verður því gereytt í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. Sérhvert aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þeirra á meðal lýðveldið Ísrael, verður þurrkað út. Því miður standast afkomendur Abrahams að holdinu ekki þær kröfur sem uppfylla þarf, til að vera hið fyrirheitna messíasarsæði sem Jehóva Guð ætlar að nota til að blessa mannkynið með. — Opinberunarbókin 16:14-16.

12, 13. (a) Hvað er ólíkt með stjórn Friðarhöfðingjans og forföður hans Davíðs? (b) Urðu smurðir kristnir menn að bíða stofnsetningar Guðsríkis árið 1914 til að hljóta hina fyrirheitnu blessun? Hvernig vitum við það?

12 Það er greinilegt hverjum sem vill sjá að hinn fyrirheitni Messías ríkir ekki í jarðneskri Jerúsalem í Miðausturlöndum til að uppfylla Abrahamssáttmálann. Ólíkt forföður sínum Davíð, á Messías, Friðarhöfðinginn, ekki að ríkja einn. Hann hét því að hafa með sér í stjórn sinni tólf trúfasta postula sína og aðra andagetna lærisveina, alls 144.000 að tölu. (Opinberunarbókin 7:1-8; 14:1-4) Enn eru leifar þeirra á jörðinni. Hvað hefur verið gert fyrir þá jafnhliða uppfyllingu Abrahamssáttmálans sem Guð lagði eið að? Einn þeirra, sem átti í vændum að verða meðstjórnandi í því ríki, Páll postuli, sagði í Galatabréfinu 3:8: „Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: ‚Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.‘“

13 Kristnir menn, útvaldir af þjóðunum, þurftu ekki að bíða stofnsetningar Guðsríkis árið 1914 til að hljóta þá blessun sem heitið var, því að Páll hélt áfram: „Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.“ (Galatabréfið 3:9) Páll var kristinn maður og hlaut ríkulega blessun, og svo var einnig um alla aðra andagetna kristna menn á hans dögum. * Eins er það núna að leifar andagetinna kristinna manna, sem trúa á Messías sem aðalsæði Abrahams til blessunar mannkyni, njóta hinnar fyrirheitnu blessunar.

14. (a) Hvaða sérstaka blessun hafa smurðir kristnir menn hlotið í samræmi við Abrahamssáttmálann? (b) Á hvaða hátt hefur það upphafið Jehóva?

14 Með því að vígja sig Jehóva, tjá vígslu sína með vatnsskírn og vera síðan getnir með anda Guðs til andlegrar arfleifðar, hafa þessir kristnu menn orðið andlegir synir hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. Þeir eru líka orðnir samerfingjar með Jesú Kristi, Ísak hinum meiri. (Rómverjabréfið 8:17) Vissulega eru þeir sérstakrar blessunar aðnjótandi samkvæmt Abrahamssáttmálanum. Jehóva hefur verið að framkvæma það sem hann sór, og þar með að upphefja sig sem sannsöglan, hann sem getur fullkomlega gert það sem hann sór í eigin nafni að gera.

15. Hvað segir Páll postuli að allir andagetnir kristnir menn séu?

15 Hver sá sem eftir er af andagetnum kristnum mönnum er í andlegum skilningi Gyðingur. Páll postuli sagði: „Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf.“ — Rómverjabréfið 2:28, 29.

16. Hvaða hóp mynda andlegir Gyðingar samkvæmt spádómi Sakaría 8:23?

16 Núna við ‚endalok veraldar‘ mynda þessir andagetnu kristnu menn, sem eru Gyðingar hið innra og umskornir á hjörtum sér, þann gyðingahóp sem spáð var um í Sakaría 8:23. Þar segir: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“

17. (a) Hverja tákna ‚mennirnir tíu‘ sem vilja tilbiðja Jehóva með leifum andlegra Ísraelsmanna? (b) Hvers njóta hinir ‚aðrir sauðir‘ núna með samfélagi sínu við andlegu Gyðingana í tilbeiðslunni á Jehóva?

17 Þeir sem mennirnir tíu vilja fara með til að tilbiðja Jehóva Guð eru nú á dögum leifar andlegu Gyðinganna, hópurinn sem myndar ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ í Matteusi 24:45-47. Þar eð talan tíu táknar fullkomleika þess sem á jörðu er hljóta ‚mennirnir tíu af þjóðum ýmissa tungna‘ að vera allir hinir táknrænu sauðir sem um er talað í Matteusi 25:32-46. Þeir eru af hópi hinna ‚annarra sauða‘ sem Jesús sagðist myndu leiða til samfélags við sauðumlíkar leifar hinna smurðu, svo að úr yrði „ein hjörð“ í gæslu ‚eins hirðis,‘ hans sjálfs. (Jóhannes 10:16) Á þennan hátt fá þeir forsmekk af þeirri blessun sem Abrahamssáttmálinn veitir fyrir milligöngu sæðis hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. Vissulega er það í nánd sem Guð sór að gera fyrir allt mannkynið!

[Neðanmáls]

^ gr. 13  Í neðanmálsathugasemd við Postulasöguna 11:26 segir Reference Bible við orðið ‚kristnir‘: „Á hebresku Meshichiyim, ‚messíanistar.‘“

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 89]

Biblían sagði fyrir að fólk allra þjóða myndi koma til samfélags við hinn andlega Ísrael.