Guð Friðarhöfðingjans verður „allt í öllu“
22. kafli
Guð Friðarhöfðingjans verður „allt í öllu“
1. Í hverju gefur Jesús Kristur fordæmi öllum öðrum sköpunarverum á himni og jörð?
SKÖMMU eftir upprisu sína sagði Friðarhöfðinginn við einn af lærisveinum sínum: „Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ (Jóhannes 20:17) Með þessum orðum viðurkenndi hann að himneskur faðir hans væri líka Guð hans, sá eini sem hann dýrkaði. Með því að tilbiðja hann einan gaf hann öllum vitibornum sköpunarverum á himni og jörð fordæmi til eftirbreytni.
2, 3. (a) Hvernig lýsir 1. Korintubréf 15:24-26, 28 því er Jesús leggur sig í sérstökum skilningi undir föður sinn? (b) Hver verður árangurinn af því?
2 Friðarhöfðinginn verður líka fögur fyrirmynd öllu fullkomnuðu mannkyni þegar hann beygir sig í sérstökum skilningi undir hann sem er réttmætur drottinvaldur alheimsins. Þessi atburður mun eiga sér stað við lok þúsund áranna sem hann fer með völd yfir mannkyninu, þegar hann hefur komið aftur á friði, öryggi og einingu um alla jörðina. Við erum fullvissuð um það í óbrigðulum spádómi:
3 „Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður. En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.“ (1. Korintubréf 15:24-26, 28) Eða, eins og The Amplified Bible orðar síðari hluta 28. vers: „Svo að Guð geti verið allt í öllu — það er að segja öllum allt, æðstur, hinn búandi og ráðandi þáttur lífsins.“
4. (a) Hvernig munu allir jarðarbúar líkja eftir fordæmi fósturföður síns? (b) Hvaða nýtt samband mun þá takast milli Guðs og manna?
4 Þegar Friðarhöfðinginn afhendir Guði sínum ríkið við lok þúsund áranna verður athygli jarðarbúa vakin á þessari athöfn fósturföður þeirra. Með hann að fyrirmynd munu þeir líka beygja sig í nýjum skilningi fyrir hinum hæsta Guði. Nú munu þeir fyrst geta lotið Jehóva og dýrkað beint í allri einlægni og sannleika, án þess að þurfa til prestþjónustu Jesú, jafnvel þegar þeir biðja.
5. Hvað munu 144.000 meðkonungar Jesú Krists gera?
5 Með þessum hætti mun hinn hæsti Guð aftur verða konungur alheimsins án þess að eiga sér nokkurn, konunglegan fulltrúa á himni eða jörð. Það segir sig sjálft að hinir 144.000 meðkonungar, sem Jesús Kristur hefur keypt frá jörðinni, munu líka beygja kné sín fyrir konunginum æðsta og þar með í víðari skilningi viðurkenna hann sem alheimsdrottinvald.
Lokaprófraun alls mannkyns
6. (a) Hvað verður um óhlýðna menn í þúsundáraríki Jesú? (b) Hvert verður ástand þeirra sem Jesús afhendir himneskum föður sínum?
6 Jesús Kristur viðurkennir Jehóva sem hinn æðsta dómara og vill að verk hans í þúsundáraríkinu hljóti velþóknun hans sem öllu skiptir. Meðan Jesús var við völd voru þeir menn afmáðir sem ekki vildu samlaga sig kröfum réttlætisins og óhlýðnuðust konunginum. Þeir sem Jesús Kristur afhendir Jehóva Guði, hinum endanlega dómara, verða því hlýðnir menn sem lyft hefur verið upp til mannlegs fullkomleika.
7. (a) Hvað verður prófað eftir að Jesús afhendir föðurnum ríkið? (b) Hvernig verður fullkomið mannkyn prófreynt?
7 Þegar hér er komið sögu reynir á það hve úthaldsgóð hollusta manna við alheimsdrottinvaldinn, Jehóva Guð, er. Eins og var um Job verður spurt um sérhvern mann: Elskar hann og tilbiður Guð aðeins vegna alls hins góða sem Guð hefur gert fyrir hann, eða elskar hann Guð vegna þess hver hann er — réttmætur drottinvaldur alheimsins? (Jobsbók 1:8-11) En hvernig verður hollusta fullkomins mannkyns reynd? Biblían svarar: Satan djöflinum og illum öndum hans verður sleppt lausum „um stuttan tíma“ úr undirdjúpinu þar sem þeir hafa verið fjötraðir um þúsund ár. (Opinberunarbókin 20:3) Með því að leyfa djöflinum að prófreyna endurreist mannkyn geta fullkomnir menn hver og einn sannað ráðvendni sína við Guð. — Samanber Jobsbók 1:12.
8. (a) Hvað munu Satan og illir andar hans reyna að gera eftir að þeir eru leystir úr undirdjúpinu? (b) Hvaða stefnu eru þeir að taka sem leyfa Satan djöflinum að leiða sig á villigötur?
8 Sjö þúsund árum áður tókst Satan djöflinum að fá Adam og Evu, sem voru fullkomin, til að syndga, með því að höfða til eigingirni. Ritningin lætur ósagt með hvaða aðferðum Jehóva mun leyfa Satan og illum öndum hans að freista manna eftir að þeim er sleppt úr undirdjúpinu. En vafalaust verður höfðað til eigingirni og löngunar í sjálfstæði frá Guði. Djöfullinn verður enn sem fyrr uppreisnarseggur gegn drottinvaldi Jehóva og ráðinn í að snúa mannkyninu líka til uppreisnar. Þess er ekki getið nákvæmlega í hvaða mæli þessum djöflasveitum mun verða ágengt, en nógu margir menn munu þó gera uppreisn til að þeir virðist mikill fjöldi. Sá sem syndgar á þeim tíma verður þá orðinn fullkominn og gerir það því að yfirlögðu ráði, af ásetningi. Með því snýr hann baki við tilbeiðslunni á hinum eina, sanna og lifandi Guði og gengur í lið með Satan djöflinum. (Opinberunarbókin 20:7, 8) Jehóva verður ekki „allt í öllu“ gagnvart þessum uppreisnarseggjum.
9. (a) Hvað verður um þá sem ekki sýna Jehóva Guði ráðvendni? (b) Hvernig verður hið ósýnilega tilverusvið losað við alla uppreisnarseggi? (c) Hvaða ástand mun þá ríkja á himni og jörð?
9 Drottinhollir þjónar Guðs láta samt sem áður ekki blekkjast af rökum og þvingunum afvegaleiddra, þjóðernissinnaðra uppreisnarmanna. Óhikað kjósa þeir að láta Jehóva vera „allt í öllu“ í sínu lífi. Réttlætisins vegna verður að halda drottinvaldi Jehóva til streitu. Þar af leiðandi verða allir uppreisnarseggir á jörð afmáðir fyrir fullt og allt. Þeirra verður ekki saknað! Hið ósýnilega tilverusvið þarf líka að losna við alla uppreisnarseggi. Til að fullkomna alheimshreinsunina verða því Satan djöfullinn og illir andar hans þurrkaðir út, gerðir að engu. Þannig verða himinn og jörð hreinsuð af sérhverju merki syndar. (Opinberunarbókin 20:9, 10) Heilagleiki Jehóva mun ríkja alls staðar. (Samanber Sakaría 14:20.) Hið heilaga nafn hins hæsta Guðs verður helgað á himni og jörð. Allir búendur himins og jarðar munu glaðir gera háleitan vilja hans.
10. Hvaða sérstöðu mun jörðin um alla eilífð hafa fram yfir aðrar reikistjörnur?
10 Þótt jörðin verði kannski ekki alltaf eina, byggða reikistjarnan, mun hún alla tíð hafa sérstöðu meðal allra reikistjarna alheimsins. Það er aðeins á henni sem Jehóva hefur upphafið drottinvald sitt yfir alheimi og sett eilíft, lagalegt fordæmi. Hún verður eina reikistjarnan þar sem Jehóva hersveitanna hefur háð ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Hún verður eina reikistjarnan þangað sem Guð hefur sent ástkæran son sinn til að verða maður og deyja, til að kaupa búendur hennar lausa undan synd og dauða. Hún verður eina reikistjarnan þaðan sem Jehóva hefur tekið 144.000 einstaklinga til að verða „erfingjar Guðs, en samarfar Krists.“ — Rómverjabréfið 8:17.
Serafar, kerúbar og englar
11, 12. (a) Hvers konar andaverur sá Jesaja í sýn? (b) Hvaða áhuga hafa þær á okkur mönnunum?
11 Guð, hinn dýrlegi frumkvöðull allrar sköpunar á himni og jörð, verður „allt“ bæði 144.000 samerfingjum Krists og öllum öðrum á himnesku tilverusviði. Í 6. kafla Jesajabókar er okkur gefin innsýn í hinn himneska hirðsal. Þar lesum við: „Sá ég [Jehóva] sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: ‚Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.‘“ — Jesaja 6:1-3.
12 Það voru mikil sérréttindi fyrir Jesaja að sjá hinn allra helgasta í öllum alheiminum sitjandi í himnesku hásæti sínu umkringdan dýrlegum seröfum sér til þjónustu! Þessi ægiþrungna sýn opinberar hvílíkrar stöðu serafarnir njóta, því að þeir hylla hinn allra heilagasta með því að lýsa heilagleika hans þrívegis! Serafarnir láta sér annt um að hjálpa dýrkendum Jehóva að vera heilagir eins og Guð er heilagur. — Jesaja 6:5-7.
13. (a) Hvers konar aðrar andaverur talar Biblían um? (b) Hvernig er Jehóva í samanburði við þær?
13 Alveg eins og hér á jörðinni eru fjölbreyttar sköpunarverur sem bera mætti Jehóva Guðs vitni, eru líka sköpunarverur annarrar tegundar í andaheiminum. Biblían sýnir að það eru hinir dýrlegu kerúbar sem hljóta að vera mjög fljótir í förum. (Sálmur 18:11; samanber Hebreabréfið 9:4, 5.) Eftir að Adam og Eva höfðu syndgað gegn Guði himnanna með því að neyta forboðna ávaxtarins setti Guð kerúba með „loga hins sveipanda sverðs“ til að varna mönnum inngöngu í paradís unaðarins á ný. (1. Mósebók 3:24) Jehóva er svo lýst að hann sitji „yfir kerúbunum.“ — Sálmur 99:1; Jesaja 37:16.
14. (a) Hvers konar andaverum megum við ekki gleyma? (b) Hve fjölmennar eru þær?
14 Ekki má heldur gleyma englunum meðal hinna fjölmörgu andavera. Þeir eru margar milljónir. (Daníel 7:9, 10) Sumir þeirra hafa það verkefni að þjóna tilbiðjendum Jehóva á jörðinni. Jesús varaði menn við því að hneyksla nokkurn af dýrkendum Jehóva því að „englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður,“ eins og hann sagði. (Matteus 18:10; Hebreabréfið 1:14) Við lok 40 daga föstu Jesú í eyðimörkinni, og eftir að hann hafði staðist þrjár freistingar djöfulsins voru það mikil sérréttindi fyrir englana að þjóna líkamlegum þörfum hins hungraða Jesú. — Matteus 4:11.
15, 16. (a) Lýstu þeirri einingu sem ríkja mun á himni og jörð. (b) Hvaða umbun frá Jehóva munu þeir menn hljóta sem standast prófið? (c) Hvernig mun Jehóva líta á það er tilgangur hans hefur fullnast?
15 Á himnesku tilverusviði verða hinar dýrlegu andaverur bræður hvers annars, en hér á jörðinni verða fullkomnir menn allir bræður og systur. Þeir verða í mynd og líkingu Guðs í sama mæli og Adam og Eva voru strax að sköpun þeirra lokinni. (1. Mósebók 1:26, 27) Eftir að hafa staðist lokaprófraunina verður fullkomnum mönnum gefinn réttur til eilífs lífs og Guð mun í kærleika ganga þeim í föðurstað. Þeir verða ‚Guðs börn‘ og gleðjast yfir dýrðarfrelsi sínu. Þeir verða hluti sameinaðrar fjölskyldu Jehóva á himni og jörð. — Rómverjabréfið 8:21.
16 Með djúpri og innilegri gleði mun Jehóva Guð sjá upphaflegan tilgang sinn verða að veruleika. Allt verður í samræmi við þá ákvörðun sem hann tók í upphafi. Allar sköpunarverur verða tengdar honum órjúfanlegum kærleiksböndum!
17. Hvað mun enginn geta látið vera, í ljósi alls þessa?
17 Getur nokkur látið vera að blessa þennan stórfenglega Guð sem hefur látið tilgang sinn rætast? Það var engan veginn óviðeigandi af sálmaritaranum að ávarpa ofurmannlegar andaverur með þessum orðum: „Lofið [Jehóva], þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans. Lofið [Jehóva], allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.“ — Sálmur 103:20, 21.
18. Hvernig lýkur Sálmunum?
18 Glaður lýkur sálmaritarinn bókinni með þessum orðum: „Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans! Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans! Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju! Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum! Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum! Allt sem andardrátt hefir, lofi [Jehóva]! Halelúja!“ — Sálmur 150:1-6.
19. (a) Með hvaða böndum verður alheimurinn þá sameinaður? (b) Hvað munu allar skynsemigæddar sköpunarverur þá segja?
19 Loksins verður allur alheimurinn sameinaður fullkomnum, ævarandi böndum, böndum tilbeiðslunnar á hinum eina himneska föður. Sú tilbeiðsla á sér að baki ást og aðdáun barna hans. Já, þá munu allar skynsemigæddar sköpunarverur í reynd segja eins og serafarnir: „Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.“ Þá mun Guð Friðarhöfðingjans sannarlega vera orðinn „allt í öllu“ — um alla eilífð.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 188, 189]
Allur alheimurinn verður sameinaður í friðsamlegri tilbeiðslu á drottinvaldi sínum.