Hamingjusamt mannkyn í umsjá nýs föður
20. kafli
Hamingjusamt mannkyn í umsjá nýs föður
1. Hvers vegna eru það góð tíðindi fyrir mannkynið að það skuli fá nýtt faðerni?
EFTIR Harmagedón á allt mannkyn nýtt faðerni í vændum. Það eru góð tíðindi. Hið nýja faðerni gerir mögulegt eilíft líf fullkominna manna á jörð sem verður paradís, því að hinn nýi faðir mannkynsins deyr aldrei. Hann ræður yfir krafti til að veita fullkomið líf öllum þeim jarðarbúum sem hann ættleiðir.
2. Hvers vegna er þörf á nýju faðerni?
2 Mannkynið þarf nýjan föður því það missti upphaflegt faðerni sitt, það er að segja faðerni skapara mannkynsins. Ættartölunni frá Jesú til fyrsta mannsins, Adams, lýkur með þessari upptalningu: „ . . . sonar Kenans, sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.“ — Lúkas 3:37, 38.
3. Hve mikil ógæfa var það fyrir mannkynið að missa Jehóva Guð sem föður sinn?
3 Það hafði hörmulegar afleiðingar fyrir allt mannkyn að missa Jehóva Guð sem föður. Afkomendur Adams tóku fordæmingu dauðans í arf. Því er lýst skýrum orðum í Rómverjabréfinu 5:12: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ Þessi ‚eini maður‘ var Adam, og hann missti skaparann, Jehóva, sem föður sinn vegna syndar sinnar sem hann drýgði vitandi vits.
4. Hvern eignaðist Adam og mannkynið fyrir föður?
4 Hvaða faðerni eignaðist Adam þá? Hvaða faðerni gaf hann mannheiminum? Mannkynið hlaut að eignast að föður þann sem fékk Adam til að stíga fyrsta skrefið út úr fjölskyldu hlýðinna sona Guðs á himni og jörð. Þessi faðir var sá hinn sami og fór með fyrstu lygina, Satan djöfullinn. Hvernig fór þessi andstæðingur Jehóva að því?
5. (a) Hvað notaði Satan djöfullinn til að tæla konu Adams til óhlýðni við Guð? (b) Hvers vegna og hvernig bar Adam fulla ábyrgð á breytni sinni?
5 Í 2. Korintubréfi 11:3 lýsir Páll málinu þannig: „Höggormurinn tældi Evu með flærð sinni.“ Með kænsku notaði Satan höggorm í Eden til að koma fyrstu lyginni á framfæri við Evu sem var algerlega grunlaus. Hann sakaði Jehóva ranglega um lygi. (1. Mósebók 3:1-7; Jóhannes 8:44) Adam leiðrétti ekki konu sína. Hann neitaði ekki að eta með henni til að leiðrétta það sem aflaga fór. Með yfirvegaðri misgjörð sinni gekk hann rakleiðis í gildru höggormsins. Fyrra Tímóteusarbréf 2:14 skellir skuldinni á þann sem hana ber og segir: „Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.“
Verðugur faðir mannkyns
6, 7. Hvaða faðerni sýndi Jesús að mætti treysta honum fyrir og hvernig tóku spádómar Biblíunnar það fram?
6 Úr því að Jesús neitaði að tilbiðja „guð þessarar aldar“ var honum treyst til að verða annar faðir mannkynsins. (2. Korintubréf 4:4; Matteus 4:1-11; Lúkas 4:1-13) Frá því að hann fæddist sem maður árið 2 f.o.t. átti spádómur Jesaja 9:6 við hann:
7 „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ Friðarhöfðinginn gegnir því öðru þýðingarmiklu hlutverki í þágu mannkyns — að vera „Eilífðarfaðir“ þess.
8. Hvernig var Jesú gert fært að verða Eilífðarfaðir mannkynsins og hvernig staðfesti Páll postuli það?
8 Sonur Guðs á að verða Eilífðarfaðir mannkynsins sem hann lagði fullkomið mannslíf sitt í sölurnar fyrir. Páll postuli lýsti því þannig: „Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs. Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn.“ — Rómverjabréfið 5: 15, 18.
9. Hvernig varð Jesús hinn síðari Adam gagnvart mannkyninu, en af hvaða tilverusviði kemur hann fram sem faðir mannkynsins?
9 Fulls jafnvægis er því gætt. „Misgjörð eins“ var misgjörð fyrsta mannsins á jörð, Adams. ‚Réttlætisverk eins‘ var unnið af eina fullkomna manninum sem verið hefur á jörð auk Adams, Jesú. Þar með gat hann orðið Eilífðarfaðir afkomenda hins synduga Adams. Þannig verður hann hinn síðari Adam gagnvart mannkyninu. Að hann skyldi fórna fullkomnu mannslífi sínu og bera lífsrétt sinn sem maður fram fyrir dómarann mikla á himnum, gerir honum kleift að vera Eilífðarfaðir mannkynsins. Þegar Guð reisti hann upp frá dauðum var það á andlegu tilverusviði, og hann var upp hafinn til að sitja við hægri hönd Guðs sem reisti hann upp. Því segir: „Þannig er og ritað: ‚Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,‘ hinn síðari Adam að lífgandi anda.“ (1. Korintubréf 15:45) Hinn nýi fósturfaðir mannkynsins veitir því þá bestu byrjun í lífinu sem hugsast getur.
Fyrstu mennirnir sem hann gengur í föðurstað
10. Hvaða mönnum gengur hann fyrst í föðurstað?
10 Eilífðarfaðirinn, konungurinn Jesús Kristur, mun sýna hverjir verða þeir fyrstu sem hann gengur í föðurstað. Hvernig? Með því að vernda lífs í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ milljónir núlifandi manna sem eru Guði vígðir. Það er „mikill múgur“ manna sem nefndir eru ‚aðrir sauðir.‘ — Opinberunarbókin 7:9, 14.
11. Hvaða tækifæri blasir við þeim sauðumlíku mönnum sem lifa af ‚þrenginguna miklu‘?
11 Það tækifæri, sem ‚múginum mikla‘ opnast eftir ‚þrenginguna miklu,‘ á sér enga hliðstæðu í sögunni. ‚Hafrarnir‘ í dæmisögu Jesú — sögð sem hluti ‚táknsins‘ um ‚endalok veraldar‘ — verða afmáðir af jörðinni, endi bundinn á líf þeirra fyrir fullt og allt. En þannig mun ekki fara fyrir ‚miklum múgi‘ sauðumlíkra manna sem fullir kærleika og hollustu gerðu gott þeim sem eftir voru af andlegum „bræðrum“ Krists á jörðinni. (Matteus 25:31-46) Verndun þessara ‚sauða‘ í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og inn í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans gerir að verkum að þeir fá notið ríkulegrar blessunar undir Guðsríki. Þeir verða jarðneskir þegnar Friðarhöfðingjans.
12. Hvaða orð Jesú um upprisuna gefa til kynna að þeir sem ganga inn á jarðneskt yfirráðasvið Guðsríkis eigi eilíft líf í vændum?
12 Þá munu rætast á þeim sem ganga inn á jarðneskt yfirráðasvið Guðsríkis orðin sem Jesús mælti áður en hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Hann sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ (Jóhannes 11:25, 26) Vegna hlýðni sinnar við hann munu þeir hljóta mannlegan fullkomleika í jarðneskum hluta Guðsríkis. Jafnvel hinn samúðarfulli illvirki, sem dó við hlið Jesú á Hauskúpuhæð, fær tækifæri til að ganga inn í paradís. (Lúkas 23:43) Jesús mun rísa undir öllu því sem nafnið Eilífðarfaðir felur í sér.
Framtíðarhorfur látinna
13. Hvaða nafntogaðir menn fortíðar munu sjást í jarðneskum hluta Guðsríkis vegna upprisunnar frá dauðum?
13 Jesús, sá fremsti af afkomendum Abrahams, sagði að þessi forfaðir, sonur hans Ísak og sonarsonurinn Jakob myndu ganga fram á jarðnesku yfirráðasvæði Guðsríkis. (Matteus 22:31, 32) Það myndi gerast vegna upprisunnar. Eins og Jesús sagði skyldu allir dánir menn í minningargröfunum heyra raust Mannssonarins og ganga fram. Framtíð þeirra ræðst síðan af því hvaða stefnu þeir taka. — Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:12-15.
14. Hvað þarf að undirbúa fyrir þá sem eiga að rísa upp, og hverjir verða fyrstir til að taka þátt í þeim undirbúningi?
14 Gífurlegan viðbúnað þarf til að taka á móti þeim sem Eilífðarfaðirinn leiðir fram úr gröfinni. Fyrst munu þeir sem lifa af ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón annast hann. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Við vitum ekki núna hve fjölmennur hinn mikli múgur annarra sauða Friðarhöfðingjans verður orðinn þá, en þeir verða nógu margir til að valda verkinu.
15. Hvaða sérstöku hlutverki munu margir gegna undir umsjón fósturföður mannkynsins?
15 Sálmur 45 ávarpar þennan Friðarhöfðingja sem konung, og úr því að hann á að verða Eilífðarfaðir mannkynsins segir sálmurinn við hann: „Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.“ (Sálmur 45:17) En jafnvel áður en þessir trúföstu ‚feður‘ hljóta upprisu munu karlmenn af ‚múginum mikla,‘ sem lifir af Harmagedón, verða skipaðir til höfðingjastarfa. Þúsundir þeirra, sem eiga í vændum að bjargast í gegnum Harmagedón, þjóna nú þegar starfi öldunga í meira en 55.000 söfnuðum votta Jehóva og hafa hver um sig umsjón með andlegri velferð síns safnaðar.
16. (a) Hvaða starf munu þeir sem bjargast úr Harmagedón vinna undir höfðinglegri umsjón? (b) Hvaða spurningar vakna varðandi röð upprisunnar?
16 Undir höfðinglegri umsjón munu þeir sem bjargast úr Harmagedón þjóna kostgæfir hlið við hlið. Tíminn verður að leiða í ljós hvaða fyrirmæli ‚höfðingjarnir um land allt‘ fá frá Friðarhöfðingjanum himneska, en öruggt er að spennandi tímar bíða allra sem lifa af. Hugsaðu þér öll fötin sem sauma þarf til að klæða með sæmandi hætti þá sem koma fram í upprisunni! Hugsaðu þér öll þau matvæli sem hafa þarf til reiðu eða geyma í forðabúri! Húsaskjól þarf einnig að vera til reiðu. Þetta verða spennandi tímar fyrir alla sem verða þátttakendur í þessum undirbúningi! Hverjir munu fyrst koma fram? Koma þeir fram í öfugri röð við það sem þeir voru lagðir í minningargrafirnar? Verður píslarvottunum Abel og Enok, sem Guð nam burt, svo og Nóa, Abraham, Ísak, Jakob og öllum hinum trúföstu spámönnum, umbunað sérstaklega með því að reisa þá upp fyrst?
17. Hver ákveður í hvaða röð hinir dánu snúa aftur til lífs á jörð, og hvaða titill gefur til kynna að hann rísi undir þeirri ábyrgð?
17 Friðarhöfðinginn veit það og ákveður. Hann mun rísa fyllilega undir ábyrgð sinni sem nýr faðir endurkeypts mannkyns. Einn af titlunum, sem hann átti að bera, er „Guðhetja.“ Þessi titill merkir að hann verður máttugur og öflugur. Guðdómur hans mun birtast meðal annars í því máttarverki að reisa upp alla endurleysta, dána menn, að muna nöfn þeirra hvers um sig og persónuleika. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 10:42) Hann er fullkomlega fær um að bæta allt það tjón sem Satan djöfullinn hefur unnið þau 6000 ár sem maðurinn hefur verið til.
18. (a) Hvernig var sneitt hjá því að Adam yrði forfaðir Jesú Krists? (b) Hvernig gat Jesús orðið annar faðir afkomenda Adams?
18 Hinn fyrsti Adam arfleiddi alla afkomendur sína að dauðadómi. Var Adam forfaðir mannsins Jesú Krists? Nei, Jesús átti sér ekki mennskan föður, heldur var hann fæddur af mey á þann hátt að Guð flutti lífskraft hans af andlegu tilverusviði í móðurlíf hennar. Syndarinn Adam varð því ekki forfaðir þessa jarðneska sonar Guðs. Hinn síðari Adam varð samt sem áður lífgandi andi. Sem slíkur getur hann uppfyllt spádóm Jesaja og orðið Eilífðarfaðir afkomenda hins fyrri Adams, með því að kaupa þá og ganga í föðurstað í þeim tilgangi að gefa þeim fullkomið mannslíf á jörð sem verður paradís.
19. Hvaða nýtt samband við mannkynið mun Jehóva Guð eignast, og hvaða áformi Satans djöfulsins mun hann þar með kollvarpa?
19 Á þennan hátt verður himneskur faðir Jesú Krists himneskur afi hins endurreista mannkyns. Þar af leiðandi mun mannkynið eignast nýtt samband við skapara himins og jarðar. Aldrei var minnsti möguleiki á að upphaflegur tilgangur Jehóva brygðist. Jehóva hefur þar með gert að engu illskeytt, óguðlegt ráðabrugg Satans djöfulsins. Öllu endurleystu mannkyni verður sú staðreynd ljós. Dýrlegur verður sá dagur þegar Jesús Kristur verður faðir alls mannkynsins til að ala það upp í endurreistri paradís á jörð!
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 164, 165]
Konungurinn Kristur verður „Eilífðarfaðir“ allra sem hann gengur í föðurstað.