Munurinn á jarðneskri Jerúsalem og himneskri
11. kafli
Munurinn á jarðneskri Jerúsalem og himneskri
1. (a) Yrði það einhver nýlunda ef Jerúsalem yrði eytt? (b) Hvers vegna yrði það ekki ógæfa fyrir allt mannkyn ef Jerúsalem yrði eytt á ný?
NÚTÍMAGYÐINGAR að holdinu hafa einsett sér að Jerúsalem í Miðausturlöndum skuli standa að eilífu. Jafnvel kristni heimurinn metur enn mjög mikils borgina þar sem Jesús lauk þjónustu sinni. En nægir það til að tryggja tilveru borgarinnar um ókomnar aldir? Henni hefur áður verið eytt, bæði árið 607 f.o.t. fyrir hendi Babýloníumanna og árið 70 fyrir hendi Rómverja. Yrði það öllu mannkyni ógæfa ef henni yrði eytt enn á ný? Nei, borgarinnar er ekki þörf til að blessun Abrahamssáttmálans streymi til mannkynsins. Jafnvel um Abraham er skrifað: „Hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ — Hebreabréfið 11:10.
2. (a) Hvernig sýnir Páll postuli að til sé önnur æðri Jerúsalem? (b) Hver er eiginmaður þeirrar Jerúsalem og hverjir eru synir hans með henni?
2 Páll postuli skrifaði: „En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor.“ (Galatabréfið 4:26) Hann sýnir hér fram á að hin himneska Jerúsalem samsvari Söru og sé skipulag hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. Því er líkt við eiginkonu. Þess vegna eru synir ‚Jerúsalem í hæðum‘ andagetnir kristnir menn eins og Páll.
‚Jerúsalem í hæðum‘ verður konungleg borg
3. (a) Hvenær hóf Jehóva Guð sjálfur að ríkja? (b) Hvenær var Jesús Kristur settur í hásæti og hvaða áhrif hafði það á konungdóm Jehóva?
3 ‚Jerúsalem í hæðum‘ hefur tekið á sig konunglegan brag síðan ‚tímum heiðingjanna‘ lauk árið 1914. (Lúkas 21:24) Þaðan í frá hefur Sálmur 97:1 átt við: „[Jehóva] er konungur orðinn! jörðin fagni.“ Sálmur 99:1, 2 á hér einnig við: „[Jehóva] er konungur orðinn! . . . [Jehóva] er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.“ Árið 1914 kom tími hans til að stöðva átroðninginn á ríkinu í konungsætt Davíðs sem hið fyrrverandi konungssetur, Jerúsalem, táknaði. Þess vegna setti hann son sinn Jesú Krist í hásæti sér við hægri hönd í ‚Jerúsalem í hæðum,‘ hinni himnesku Jerúsalem, og gerði hana þar með að konungssetri. Með þessari athöfn, að setja Jesú Krist í hásæti sem konung, eflir Jehóva eigin konungdóm.
4. Vegna hvaða atburða er ‚Jerúsalem í hæðum‘ orðin að konungssetri frá 1914?
4 Eftir fæðingu ríkisins á himni árið 1914, og eftir að Satan og illum öndum hans var úthýst á himnum, var við hæfi að tilkynna: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.“ (Opinberunarbókin 12:1-10) „Veldi hans Smurða“ fólst í því að Kristur skyldi ríkja sem konungur í ‚Jerúsalem í hæðum.‘ Því má með sanni segja að hún hafi orðið konungssetur heillaárið 1914.
Dóttirin ‚Jerúsalem í hæðum‘
5, 6. (a) Hvaða nýja táknræna borg sér Jóhannes í Opinberunarbókinni 21:1, 2? (b) Hverjir bjóða konunginn velkominn, eins og fram kemur í Sakaría 9:9, 10, og með hvaða orðum?
5 Meira en aldarfjórðungi eftir að rómverskur her eyddi Jerúsalem árið 70 voru Jóhannesi postula veittar hinar miklu sýnir sem Opinberunarbókin geymir. Í Opinberunarbókinni 21:1, 2 talar Jóhannes um „nýja Jerúsalem.“ Það eru þeir sem mynda hina ‚nýju Jerúsalem‘ sem bjóða fagnandi velkominn hinn nýkrýnda konung er kemur í nafni Jehóva. Í Sakaría 9:9, 10 eru þeir kvaddir til þess með svofelldum orðum:
6 „Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna . . . Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum. Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar.“
7. Á hverjum hefur þessi spádómur ræst nú við ‚endi veraldar‘ og á hvaða hátt?
7 Þessi spádómur uppfylltist að hluta þegar Jesús Kristur reið sem sigursæll konungur inn í Jerúsalem árið 33. Eftir 1919 hefur spádómurinn fengið lokauppfyllingu á leifum hins andlega Ísraels. Engin sundrung er meðal leifanna eins og sú er upp kom milli ættkvísla Efraíms og Jerúsalem, höfuðborgar tveggjaættkvíslaríkisins Júda. Með því að þjóna í einingu í þágu Messíasarríkisins, í þeim tilgagni að uppfylla spádóm Jesú í Matteusi 24:14 og Markúsi 13:10, halda þeir áfram að hylla hinn sigursæla konung, Jesú Krist. Í órjúfanlegri einingu lúta þeir sem einn maður konungsstjórn hans nú við ‚endalok veraldar.‘ — Matteus 24:3.
8. (a) Hverjir bjóða hinn sigursæla konung ekki velkominn? (b) Hvert stefna þeir fylktu liði?
8 Sér til háðungar taka þjóðir kristna heimsins sömu afstöðu og borgin Jerúsalem í lýðveldinu Ísrael — þær bjóða ekki velkominn hinn sigursæla konung sem kemur í nafni Jehóva. Samt eru þeir til sem þjóna honum fagnandi í musteri hans. Hann kemur í nafni þess Guðs sem þeir eru vottar fyrir. (Jesaja 43:10-12) Andleg augu þeirra hafa opnast fyrir því að lýðveldið Ísrael, og öll önnur ríki utan sem innan Sameinuðu þjóðanna, eru nú langt komin á göngu sinni til ‚þess staðar sem á hebresku kallast Harmagedón.‘ (Opinberunarbókin 16:16) Stríð hins alvalda Guðs er í nánd!
9. Hvernig stingur framtíð Jerúsalem á jörð mjög í stúf við framtíð hinnar nýju Jerúsalem?
9 Framtíðarhorfur hinnar jarðnesku Jerúsalemborgar eru sorglegar en hinnar nýju stórkostlegar. Að því kemur að ‚tíu horn‘ hins pólitíska villidýrs, svo og dýrið sjálft, munu fá mikið hatur á skækjunni Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Þau munu með ofbeldi láta í ljós heift sína gegn jarðneskri Jerúsalem sem nýtur mikillar virðingar trúmálaheimsins, og eyða henni sem í æðandi stórbruna. (Opinberunarbókin 17:16) En þau munu ekki geta snert hina himnesku, nýju Jerúsalem.
10. Hvað er ólíkt með stefnu Jerúsalem á jörð og stefnu andagetinna kristinna manna og ‚mikils múgs‘ félaga þeirra?
10 Leifar andagetinna kristinna manna, sem vænta þess að verða hluti hinnar nýju himnesku Jerúsalem, hylla konunginn Jesú Krist í félagi við ‚mikinn múg‘ annarra votta Jehóva. Með þessari drottinhollu stefnu sinni stinga þeir mjög í stúf við hina gömlu Jerúsalem. Allar götur síðan lýðveldið Ísrael var sett á stofn hafa borgarbúar, sem nú eru að mestu Gyðingar, fetað í fótspor Jerúsalembúa fyrstu aldar. Borgin er ósveigjanleg í því að hafna Jesú Kristi vegna trúarlegra áhrifa, sem blinda hugi manna, honum sem hefur réttinn til ríkis og mátt til að ríkja á himnum sem konungur.
11, 12. (a) Hverjir hafa uppfyllt spádóm Jesú í Matteusi 24:14? (b) Hvað hefur félagið, sem þeir starfa með, í lýðveldinu Ísrael núna?
11 Að vísu hefur Friðarhöfðinginn allt frá lokum heiðingjatímanna árið 1914 ríkt á himnum, ósýnilegur mennskum augum. Eigi að síður hefur fagnaðarerindið um hið himneska ríki í höndum Messíasarsonar Davíðs konungs verið „prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar,“ eins og Jesús Kristur sagði fyrir, alla tíð síðan Bretar hernámu Jerúsalem í fyrri heimsstyrjöldinni og Þjóðabandalaginu voru falin forráð hennar. — Matteus 24:14.
12 Vottar Jehóva hafa uppfyllt þennan spádóm með merkum hætti undir yfirumsjón Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn. Þetta félag á sér meira að segja útibú í Tel Aviv en þaðan er starfi votta Jehóva út um allt Ísraelsland stjórnað. Þar eru nú söfnuðir starfssamra votta Jehóva sem prédika fagnaðarerindið um Guðsríki.
13. (a) Hvað kemur í kjölfar þess að prédikun fagnaðarerindisins um ríki Guðs lýkur? (b) Verður einhvern tíma þörf nýrrar Jerúsalemborgar á jörð, til dæmis til að taka á móti Davíð í upprisunni?
13 Jesús Kristur spáði að eftir að þessari prédikun ‚fagnaðarerindisins um ríkið‘ lyki, hún væri fullnuð, myndi „endirinn“ koma yfir þetta heimskerfi. (Matteus 24:14) Endalok hinnar jarðnesku Jerúsalem eru því nálæg. Nú sem stendur virðist engin þörf á að önnur Jerúsalem verði byggð á gamla borgarstæðinu, ekki einu sinni til að taka á móti Davíð sem var konungur borgarinnar endur fyrir löngu. Hann hlýtur upprisu frá dauðum í þúsundáraríki konunglegs afkomanda síns, Jesú Krists. (Jóhannes 5:28, 29) Davíð mun þó líklega koma fram á þeim slóðum þar sem hann áður þjónaði Jehóva.
Fagnaðartími
14, 15. (a) Hvernig lýsir Jóhannes postuli hinni dýrlegu nýju Jerúsalem og því er hún stígur niður af himni til blessunar mannkyni? (b) Hvers vegna eru núna fagnaðartímar og hvaða annar fagnaðartími nálgast?
14 Hin nýja Jerúsalem stendur í sambandi við hið dýrlega nýja heimskerfi. Jóhannes postuli segir: „Ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.‘“ (Opinberunarbókin 21:1-3) Hin nýja Jerúsalem á því að vera blessun öllu mannkyni.
15 Þess vegna eru okkar tímar miklir fagnaðartímar. Við allt þetta bætist annar atburður sem varðar allan alheim og verður honum til gleði. Það er brúðkaup alls brúðarhópsins með tölu, hinnar nýju Jerúsalem, og konungsins Jesú Krists. Því er svo lýst í Opinberunarbókinni 19:6-9: „Þá heyrði ég [Jóhannes postuli] raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: ‚Hallelúja, [Jehóva] Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins [Jesú Krists] og brúður hans hefur búið sig. Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra.‘ Og hann segir við mig: ‚Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins.‘“
16. (a) Móðir hverra verður hin nýja Jerúsalem með himnesku brúðkaupi sínu við lambið? (b) Í samræmi við hvað verður hin nýja Jerúsalem til blessunar?
16 Þessi sameining við lambið Jesú Krist í hjónabandi hefur í för með sér ólýsanlega gleði fyrir hina táknrænu nýju Jerúsalem á himnum. Í gegnum það verður hún ‚glöð barnamóðir.‘ (Sálmur 113:9) Hún verður himnesk móðir allra manna, lifandi sem dauðra, þeirra sem ástríkur eiginmaður hennar endurleysti með fullkominni mannsfórn sinni fyrir 1900 árum. Í fullkominni samhljóðan við Abrahamssáttmálann fyrir þúsundum ára verður hin nýja Jerúsalem blessun öllum þjóðum jarðarinnar.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 96]
Í nýrri heimsskipan verður hin nýja Jerúsalem öllu mannkyni til blessunar.