Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ er í nánd

‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ er í nánd

19. kafli

‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ er í nánd

1. (a) Hvað munu þjóðirnar bráðlega gera óhjákvæmilegt fyrir alvaldan Guð að skrifa í ‚bókina um bardaga Jehóva‘? Hver var þessi bók? (b) Með hvaða stríði mun frásögn bókarinnar ná hámarki?

 SÁ TÍMI er nú runninn upp að óhjákvæmilegt er fyrir alvaldan Guð að skrifa stórbrotinn lokakafla ‚bókarinnar um bardaga Jehóva.‘ (4. Mósebók 21:14) Í þessa bók voru skráðir forðum daga þeir bardagar sem Jehóva háði fyrir þjóð sína. Augsýnilega las Móse hana. Vera kann að bókin hafi byrjað með frásögn af hernaði Abrahams gegn konungunum sem tóku Lot og lýsingu á því hvernig Jehóva barðist fyrir Abraham. (1. Mósebók 14:1-16, 20) Bráðlega mun frásaga ‚bókarinnar um bardaga Jehóva‘ ná hápunkti þegar bætt verður við nýjum kafla — frásögunni af dýrlegasta sigri hans í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón, endalokum þessa heimskerfis. (Opinberunarbókin 16:14, 16) ‚Bókin‘ öll mun sýna að alvaldur Guð hefur aldrei tapað stríði eða bardaga.

2, 3. (a) Hefur Jehóva farið í hernað frá upphafi kristninnar? (b) Hvað verður til þess að Jehóva gengur fram í bardaga fyrir þjóna sína á okkar tímum?

2 Að vísu hefur Jehóva frá upphafi kristninnar til þessa verndað þjóna sína með öðrum aðferðum en stríði og hernaði. Jehóva hefur aldrei barist fyrir kristna votta sína eins og hann barðist fyrir Ísrael undir lagasáttmála Móse. En sá tími kemur í náinni framtíð að hann mun heyja stríð fyrir trúa þjóna sína. Hvað mun koma stríðinu við Harmagedón af stað?

3 Áður en stríð Guðs brýst út verður búið að eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Satan djöflinum og pólitískum eyðendum Babýlonar hinnar miklu gremst að einn trúarhópur, vottar Jehóva, skuli standa eftir. Valdhafar veraldar hafa ekki náð því markmiði sínu að gera heiminn guðlausan. Því gera þeir allsherjarárás á dýrkendur Jehóva, en drottinvaldi hans yfir alheimi bjóða þeir byrginn og afneita því! Þeir munu því í reynd berjast gegn Guði. — Opinberunarbókin 17:14, 16; samanber Postulasöguna 5:39.

‚Jehóva hersveitanna‘ fer aftur í hernað

4. (a) Hvernig bregst Jehóva við árás Gógs? (b) Hvað munu viðbrögð hans sanna í samræmi við nafnið ‚Jehóva hersveitanna‘?

4 Satan djöfullinn, hinn táknræni Góg frá Magóg, leggur á ráðin um þessa árás á þjóna Jehóva. Þegar Góg teflir fram guðlausum herjum sínum til að ráðast á þjóna Jehóva, ræna þá og eyða, skerst Jehóva í leikinn og berst fyrir þjóna sína eins og sagt er fyrir í Esekíel 38:2, 12, 18-20. Viðbrögðum Jehóva er líka lýst í Sakaría 14:3: „[Jehóva] mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum.“ Á þennan hátt mun Guð Biblíunnar sýna öllum þjóðum að hann er enn stríðsguð eins og hann var á dögum Forn-Ísraels, en þá var hann 260 sinnum nefndur ‚Jehóva hersveitanna‘ í Hebresku ritningunum. — Sálmur 24:10; 84:13.

5, 6. (a) Hvaða stríð brýst nú út og hver leiðir himneskar hersveitir fram í bardaga? (b) Hvernig segir Jóhannes postuli frá herför hinna himnesku hersveita?

5 Þegar ‚hinn mikli dagur Guðs hins alvalda‘ rennur upp hefst einnig ‚stríðið‘ sem skal háð þann dag. Jehóva gefur yfirhershöfðingja sínum, Jesú Kristi, merki. Í nafni Jehóva steypir hann og himneskar hersveitir engla sér út í bardagann, eins og þeir væru ríðandi fráum herfákum. (Júdasarbréfið 14, 15) Eins og stríðsfréttaritari flytur Jóhannes okkur fyrirfram fréttir af algerum sigri yfirhershöfðingja Jehóva í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘:

6 „Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. . . . Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heitarreiði Guðs hins alvalda. Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: ‚Konungur konunga og Drottinn drottna.‘“ — Opinberunarbókin 19:11-16.

7. Hvað táknar það fyrir þjóðirnar að vínþröng reiði Guðs skuli troðin?

7 Hinn konunglegi yfirhershöfðingi, Jesús Kristur, leiðir himneskar hersveitir í árás á allan hinn sameinaða óvinaher við Harmagedón. Hann breytir stríðsvellinum í risastóra vínþröng! Að konungur konunga skuli troða „vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda“ táknar að þjóðirnar verða gersamlega kramdar. Þeim verður steypt eins og þroskuðum vínberjaklösum í hina stóru „vínþröng“ þar sem „heiftarreiði Guðs hins alvalda“ leggst á þær og kremur. Hinar himnesku hersveitir munu taka þátt í að troða „reiði-vínþröng Guðs hina miklu.“ — Opinberunarbókin 14:18-20.

8. Hvernig lýsir Jehóva stríðstækni sinni?

8 Vottar Jehóva á jörðinni grípa ekki til sverðs gegn herjum Gógs. Það er Jehóva sem gerir það og þetta er hans bardagi! Og nú munu þjóðir þessa háþróaða heims tækni og vísinda loks sjá hann berjast! Heyrum hvernig hann lýsir hernaði sínum: „Á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum [Góg] — segir [Jehóva] Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum. Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru. Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnugan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Esekíel 38:21-23.

Vopn Guðs gegn óvininum

9. Nefndu nokkur þeirra vopna sem Jehóva mun beita gegn óvinum sínum.

9 Jehóva mun beita náttúruöflunum sem stríðsvopnum — úrfelli og flóðum, lífshættulega stóru hagli, eldi og brennisteini af himni ofan, vatnsflaumi úr iðrum jarðar og eldingum af himni ofan. Þessi aftökuvopn Guðs munu glampa svo skært bæði dag og nótt, að engu líkara verður en sólar og tungls gerist ekki lengur þörf til að veita birtu. Það lítur út fyrir að þau standi kyrr, að þau séu ekki lengur ljósberar heldur muni glampandi skeyti Jehóva lýsa upp heiminn. (Habakkuk 3:10, 11) Jehóva ræður yfir gnægð náttúruafla til að beita í bardaga. — Jósúabók 10:11; Jobsbók 38:22, 23, 29.

10. Hvað annað mun Jehóva nota á komandi ‚ófriðardegi,‘ samkvæmt Sakaría 14:12?

10 Á hinum komandi ‚ófriðardegi‘ mun Jehóva líka nota drepsótt og ‚plágur.‘ Spámaðurinn Sakaría skrifaði um það: „Þetta mun verða plágan, sem [Jehóva] mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum.“ — Sakaría 14:12.

11. Hvað gerist þegar „plágan“ ríður yfir stríðsmennina sem ráðast á þjóna Jehóva?

11 Hvort heldur „plágan“ verður bókstafleg eða ekki mun hún þagga niður í þeim sem hafa opnað munninn með hræðilegum hótunum. Tungan visnar í munninum! Sjónin mun bregðast mönnum svo að árásarmenn með hatursfullu augnaráði geta einungis barið frá sér í blindni. Augun hjaðna í augnatóttunum! Stæltir hermannavöðvar tapa styrk sínum meðan mennirnir eru enn uppistandandi — ekki eftir að þeir liggja liðin lík á jörðinni. Holdið, sem klæðir bein þeirra, þornar upp! — Samanber Habakkuk 3:5.

12. Hvaða áhrif mun „plágan“ hafa á herbúðir óvinarins og vígvélar?

12 „Plágan“ skellur skyndilega yfir herbúðir þeirra. Alls kyns árásartæki stöðvast og verða ónothæf! (Sakaría 14:15; samanber 2. Mósebók 14:24, 25.) Orð Sakaría 14:6 (NW) gefa til kynna hve gagnslausar vígvélar þeirra verða: „Á þeim degi mun ekkert dýrmætt ljós skína — allt mun stífna.“ Ekkert himneskt ljós hylli Guðs mun skína á þá. Gerviljós nútímavísinda mun ekki geta bægt frá myrkri vanþóknunar Guðs. Öll tæki og tól verða kyrrsett eins og í fimbulfrosti — þau stífna.

13. Hvað mun auka á skelfinguna sem Jehóva slær árásarmennina með?

13 Og eins og þetta sé ekki nógu ógnvekjandi eykur Guð á skelfinguna með því að láta verða algera ringulreið meðal árásarsveitanna. Eining þeirra í árásinni á votta Jehóva breytist í martröð. Eins og skylmingaþrælar á rómverskum leikvangi með hjálm er byrgir sýn, höggva þeir í blindni hver til annars. Ringulreiðin verður allsráðandi þegar þeir slátra hver öðrum. — Sakaría 14:13.

14. (a) Hve umfangsmikil verður slátrunin og hvernig munu fuglarnir og dýrin fá hlutdeild í sigri Jehóva? (b) Hvernig munu hinir eftirlifandi líta á ‚þá sem Jehóva hefur fellt‘?

14 Fjöldaslátrunin á þeim degi daganna verður hrikaleg, því að hersveitirnar, sem fylkja sér Gógsmegin í bardaganum, verða gífurlega fjölmennar. (Opinberunarbókin 19:19-21) Þetta verður heimsstríð því að enginn jarðarskiki mun sleppa við tortíminguna. Og þeir sem slátrað verður í Harmagedón verða ekki lagðir í gröf með merki eða legsteini svo megi minnast þeirra. Alls kyns fuglar og dýr merkurinnar munu njóta góðs af sigri Guðs, og um leið stuðla að því að hreinsa jörðina af þeim hræjum sem liggja eins og áburður á jörðinni. Þeir verða ekki harmaðir og ekki jarðaðir; hina eftirlifandi mun hrylla við þeim. (Esekíel 39:1-5, 17-20; Opinberunarbókin 19:17, 18) „Þeir sem [Jehóva] hefir fellt“ hafa áunnið sér eilífa fyrirlitningu. — Jeremía 25:32, 33; Jesaja 66:23, 24.

Nafn Jehóva upphafið

15. Hvaða einstökum atburði verður þá lokið og hver verða áhrif hans á nafn Jehóva?

15 Þannig mun ‚Jehóva hersveitanna‘ ávinna sér óendanlega dýrð með herför yfirhershöfðingjans Jesú Krists. Þá verður mesti atburður heimssögunnar fullnaður —  drottinvald Jehóva yfir alheimi viðurkennt og heilagt nafn hans upphafið. (Esekíel 38:23; 39:6, 7) Jehóva mun skapa sér nafn mun háleitara en nokkuð sem lýst var í ‚bókinni um bardaga Jehóva‘ og í hebreskum ritningum Heilagrar biblíu. (Samanber Jesaja 63:12-14.) Hversu fagurt verður ekki það nafn sem Jehóva ávinnur sér með sínum ógnþrungna sigri í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘! Allir unnendur þessa nafns munu þá syngja því fagnandi lof um alla eilífð!

16. Hvaða bæn ber ‚múgurinn mikli‘ fram með hið yfirvofandi ‚stríð á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ í huga?

16 Gakk því fram til bardaga, þú Jehóva hersveitanna, með konunginn og son þinn Jesú Krist þér við hlið! (Sálmur 110:5, 6) Megi trúfastir vottar þínir á jörðinni verða vitni að óviðjafnanlegum sigri þínum fyrir tilstyrk konungsins Jesú Krists í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Megi ‚múgurinn mikli‘ koma fagnandi „úr þrengingunni miklu“ til að verða jarðneskir vottar þínir að eilífu. (Opinberunarbókin 7:14) Megi þeir í ástríkri gæslu þinni lifa inn í hið friðsæla þúsundáraríki hins sigursæla Friðarhöfðingja. Megi þeir verða hinum upprisnu sýnilegur vitnisburður og upphefja fyrir þeim það drottinvald sem er réttilega þitt yfir öllum alheimi. Þakka þér fyrir að skrifa hinn mikilfenglega lokakafla ‚bókarinnar um bardaga Jehóva.‘ Megi þessi frásögn af óviðjafnanlegum sigri þínum um alla eilífð prýða annála alheimssögunnar!

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 156, 157]

‚Jehóva hersveitanna‘ heyr stríð gegn þjóðunum.