Upplýsing við ‚endalok veraldar‘
5. kafli
Upplýsing við ‚endalok veraldar‘
1. Hvaða sérstakt brúðkaup sagði Friðarhöfðinginn myndu eiga sér stað nú við ‚endalok veraldar,‘ og í hvaða dæmisögu sagði hann það?
Í SPÁDÓMI sínum um ‚endalok veraldar‘ sagði Friðarhöfðinginn að fólk myndi ‚kvænast og giftast.‘ Á sama tíma hefst á himnum stærsta brúðkaup sem haldið hefur verið. Það er brúðkaupið sem Jesús talaði um í dæmisögu sinni um meyjarnar tíu með lampana. — Matteus 24:3, 38, 39; 25:1-12.
2. (a) Á hvaða tíma dags á brúðkaupið í dæmisögunni sér stað? (b) Hvað gerist eftir hjónavígsluna og hvernig er leiðin lýst upp?
2 Sögusvið þessa brúðkaups er í Miðausturlöndum. Það á sér stað síðla kvölds þegar nálgast tekur miðnætti. Brúðhjónin eru fyrst gefin saman og síðan fylgir þeim skrúðganga til hússins þar sem veislan fer fram. Götulýsing er ekki á leið hátíðargöngunnar heldur lýsa þátttakendur í göngunni upp leiðina. Fólk stendur við veginn, horfir á skrúðgönguna fara fram hjá og óskar brúðhjónunum til hamingju.
3, 4. (a) Hverjar sýna skrúðgöngunni áhuga og hvernig hafa þær undirbúið sig? (b) Hvað á uppfylling þessarar dæmisögu þátt í að sanna? (c) Hvað getur veitt okkur hamingju?
3 Í samræmi við kvenlegt eðli sitt hafa meyjar mikinn áhuga á brúðkaupinu. Við gönguleiðina bíða þess vegna tíu meyjar þess að skrúðgangan fari fram hjá. Þær vilja gjarnan lýsa upp þennan viðburð og því bera þær allar logandi handlampa. Aðeins fimm þeirra hafa þó tekið með sér varaolíu á lampana. Þessar fimm meyjar eru hyggnar. Uppfylling dæmisögunnar ætti að höfða til okkar, því að sögn Jesú Krists er hún enn ein staðfesting þess að við lifum endalokatíð þessa gamla heimskerfis. — Matteus 25:13.
4 Við megum teljast sæl ef við erum nógu hyggin til að bera skynbragð á að þetta þýðingarmesta brúðkaup sögunnar fer nú fram og veitum athygli þeim atburðum sem eru því samfara! Hverjir njóta nú þeirrar náðar að fá aðgang að veislunni? Er hún opin hverjum sem er? Við skulum athuga það.
5. Hvað skipti meyjunum tíu í tvo hópa og hvað gerðist þegar brúðgumanum seinkaði?
5 Dæmisaga Jesú um meyjarnar tíu stendur í sambandi við „himnaríki,“ heimsstjórn Guðs til blessunar öllu mannkyni. Jesús Kristur hélt því áfram: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.“ — Matteus 25:1-5.
6. (a) Hverja tákna meyjarnar tíu? (b) Hvers vegna er brúðar ekki getið í dæmisögunni?
6 Hverja táknuðu þessar tíu meyjar? Þær táknuðu þá sem áttu í vændum að verða hluti brúðar hins andlega brúðguma, Jesú Krists. Vafalaust er það ástæðan fyrir því að brúðarinnar er ekki getið í dæmisögu Jesú; það er aðeins brúðguminn sem kemur. Enginn ruglingur er því varðandi skýringu dæmisögunnar, rétt eins og meyjarnar táknuðu einhvern annan hóp.
7. Hvenær virtist sem brúðgumanum hefði seinkað og hvers vegna?
7 Verðandi meðlimir brúðarhópsins sameinuðust ekki himneskum brúðguma sínum í hjónabandi við lok ‚heiðingjatímanna‘ árið 1914, eins og þeir höfðu vænst. (Lúkas 21:24) Skiljanlega kom það þeim fyrir sjónir eins og brúðgumanum hefði seinkað, þótt nærvera hans í ríkinu á himnum hafi byrjað árið 1914. Fyrir meyjahópinn voru þessi sorgarár fyrri heimsstyrjaldarinnar eins og niðdimm nótt.
8. (a) Hvernig byrjuðu meyjarnar að dotta og sofna? (b) Í hvaða tilgangi hafði brúðguminn komið til musterisins og hvers vegna varðaði það brúðarhópinn?
8 Táknrænt talað tók meyjunum að renna í brjóst og síðan sofnuðu þær. Opinber prédikun fagnaðarerindisins um komandi þúsundáraríki Krists til blessunar öllu mannkyni svo til stöðvaðist. Á síðasta ári fyrri heimsstyrjaldarinnar hófst örlagaríkt dómstímabil meðal þessara táknrænu meyja. Það stafaði af því að konungurinn Jesús Kristur var kominn til hins andlega musteris síns. Við komu sína tók hann að dæma til að hreinsa þá sem skipaðir voru til að veita Jehóva Guði musterisþjónustu. (Malakí 3:1-3) Þetta var tími opinberunar hans þegar hann átti sem himneskur brúðgumi að taka til sín til himna þá meðlimi brúðarhópsins sem dánir voru.
9. Hvenær var tímabært að meyjahópurinn vaknaði af aðgerðarleysi og hvers vegna?
9 Eftir að átta helstu forvígismönnum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn var sleppt úr fangelsi árið 1919 var kominn tími fyrir meyjahópinn, sem enn lifði á jörðinni, að vakna af svefni athafnaleysis. Fyrir þeim lá það starf að veita heiminum upplýsingu. Nú skyldu þær með logandi lömpum ganga til fundar við brúðgumann sem kominn var til hins andlega musteris. Þá gæti fólk af öllum þjóðum streymt til ‚húss‘ Jehóva sem táknrænt talað var hátt upp hafið yfir fjallatindana. — Jesaja 2:1-4.
Lömpunum komið í lag
10. Hvað táknaði olían sem hyggnu meyjarnar tóku úr könnum sínum?
10 Hyggnu meyjarnar höfðu tekið með sér aukaolíu á könnum fyrir lampa sína. Þær biðu ekki boðanna að fylla lampa sína olíu á ný. Ljósaolían táknar upplýsandi orð Jehóva og heilagan anda. Hvað táknar þá olían sem hyggnu meyjarnar höfðu meðferðis í könnum? Hún táknar þann varasjóð anda Jehóva sem varpar ljósi á upplýst orð hans og leifar andagetinna lærisveina brúðgumans höfðu í sér þegar hefjast skyldi upplýsingarstarf um „himnaríki“ um allan heim eftir stríðið.
11. Hvað táknuðu könnurnar sem olían var geymd í?
11 Könnurnar tákna hyggnu meyjarnar sjálfar sem geyma í sér hina táknrænu ljósaolíu. Þetta merkir ekki að meyjahópurinn hafi fyrst þá verið smurður anda Jehóva. Meyjarnar smyrja sig ekki sjálfar með anda hans. Það er hann sem smyr þær! — Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:16-21.
12. (a) Hvaða spádómur Jóels átti að rætast á hyggnu meyjunum? (b) Hvenær áttu þær að láta lampa sína lýsa?
12 Til að hyggnu meyjarnar gætu valdið því viðamikla verki að upplýsa heiminn um „himnaríki“ uppfylltist á þeim spádómurinn í Jóel 3:1, 2. Pétur postuli vitnaði í þessi vers með svofelldum orðum: „Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.“ (Postulasagan 2:17) Frá og með 1919 áttu því hyggnu meyjarnar að byrja að nota ljósfæri sín, hina táknrænu lampa, það er að segja sjálfar sig. Þær gerðu það til að geta upplýst alla sem enn voru í andlegu myrkri. Með því að lifa í samræmi við orð Guðs og anda urðu þær „ljós í heiminum.“ (Filippíbréfið 2:15) Þær fóru því að feta í fótspor brúðgumans um leið og hann bjóst til að taka til sín í ríkið á himnum alla meðlimi brúðarhópsins þegar þeir dæju á jörðinni. — Matteus 5:14-16.
Afleiðingar andlegrar fávisku
13. Hvernig svöruðu hyggnu meyjarnar beiðni fávísu meyjanna?
13 En hvað um fávísu meyjarnar? Jesús heldur áfram: „Þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ‚Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘ Þær hyggnu svöruðu: ‚Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.‘“ — Matteus 25:8, 9.
14. Hvers vegna var það hyggilegt en ekki eigingjarnt af meyjunum að gefa ekki af olíu sinni?
14 Þær sem neituðu að deila olíu sinni með hinum fávísu voru ekki eigingjarnar, aðeins hyggnar. Þær voru ráðnar í að halda sér við upphaflegan tilgang sinn að lýsa upp myrkrið fyrir brúðgumann. Þeim bar engin skylda til að hverfa frá þeim ásetningi, að taka af því sem þær höfðu af heilögum anda Jehóva fyrir andlega fávísu meyjarnar. Fávísu meyjarnar höfðu ekki búið sig undir að grípa strax þau þjónustusérréttindi sem þeim opnuðust árið 1919.
15. (a) Hverjir af meyjahópnum byrjuðu að sýna merki andlegrar fávisku þegar friður gekk í garð? (b) Hvers vegna gátu hyggnu meyjarnar ekki hjálpað andlega fávísu meyjunum?
15 Þegar friður gekk í garð tóku sumir af þeim sem játuðu sig vígða og skírða kristna menn að sýna merki andlegrar flónsku. Eftir dauða fyrsta forseta Varðturnsfélagsins, Charles Taze Russells, urðu þeir ekki fyllilega samstíga framfaraanda þess sýnilega verkfæris sem Jehóva Guð notaði undir forystu hins nýja forseta, J. F. Rutherfords. Hjörtu þeirra voru ekki samstillt því hvernig farið var að. Þeir létu sér ekki skiljast með hvaða hætti Jehóva átti samskipti við þjóna sína. Þeir sem voru eins og hyggnar meyjar gátu því ekki gefið þessum fávísu ósvikinn samstarfsanda og þeir fóru stöðugt meira afvega.
16. Hvernig kom andleg fáviska meyjanna upp á yfirborðið?
16 Andleg fávísi þeirra kom því upp á yfirborðið á þann hátt að þeir höfðu ekki handbæra táknræna olíu á þeim örlagaríku tímum þegar þörfin var brýn á andlegri upplýsingu og ný þróun mála átti sér stað sem sýndi að brúðguminn var kominn. Núna var að því komið að ganga út til fundar við hann með skært logandi lampa. En þeir sem líktust fávísum meyjum, með lampa sem var að slökkna á, sögðu sig úr félagi við þá hyggnu.
17. Fyrir hvaða óbætanlegu tjóni verða þeir sem fávísu meyjarnar tákna, samkvæmt Matteusi 25:10?
17 Þegar sá sem segist tilheyra meyjahópnum lætur ganga sér úr greipum þau óafturkræfu sérréttindi og tækifæri að bjóða velkominn hinn andlega brúðguma, Jesú Krist, bakar hann sjálfum sér óbætanlegt tjón! Þær fávísu meðal meyja nútímans valda sjálfum sér slíku tjóni eins og fram kemur í dæmisögu Jesú: „Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.“ — Matteus 25:10.
18. (a) Hvaða sérréttindi ganga fávísu meyjunum úr greipum á okkar öld? (b) Hvers vegna eru fávísu meyjarnar of seinar til að eiga þátt í skrúðgöngunni inn í veisluna?
18 Hinar fávísu meyjar nútímans verða fyrir sorglegri reynslu. Á myrkustu tímum mannkynssögunnar taka þær ekki þátt í því verki að upplýsa þá sem sitja í andlegu myrkri og skugga dauðans í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘! (Opinberunarbókin 16:14) Þær þurfa að feta sig áfram í þreifandi miðnæturmyrkri án olíu á táknrænum lömpum sínum til að lýsa sér leiðina. Þar af leiðandi koma þær of seint til að feta í fótspor brúðgumans í hinni fagnandi skrúðgöngu inn um dyrnar inn í bjartan salinn þar sem veislan er haldin. Þær hafa glatað því sem sýnir að þær séu fylgjendur hans er eiga í vændum að giftast honum í ríkinu á himnum. Þær eru ekki „viðbúnar“ á tilsettum tíma. Þær eru mikilvægt fordæmi til viðvörunar!
19. Hvað mun athugun á endi dæmisögunnar veita okkur?
19 Þessari sáru staðreynd er lýst í síðasta hluta dæmisögu Jesú Krists, brúðgumans, og er einkum ætluð okkur sem lifum við ‚endalok veraldar.‘ Við skulum því skoða þetta málefni nánar! Okkar bíður ánægjuleg upplýsing eins og við munum sjá í næsta kafla.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 45]
Þeir sem líkjast fávísu meyjunum fá ekki inngöngu í brúðkaupsveisluna.