Óvinur eilífs lífs
2. kafli
Óvinur eilífs lífs
1. Hvaða spurningar vakna vegna þess að menn njóta oft ekki friðar né hamingju?
NÆR ALLIR þrá að vera hamingjusamir. Hvers vegna eru þá svo margir óhamingjusamir? Hvað amar að? Hvers vegna halda þjóðirnar áfram að berjast og fólk að hata hvert annað þótt flestir vilji frið? Er mönnum ekki sjálfrátt? Er eitthvert afl sem teymir þá til illskuverka? Getur hugsast að ósýnileg máttarvöld stýri þjóðum heimsins?
2. Hvaða glæpir í sögu mannkynsins koma mörgum til að hugleiða hvort ósýnileg, ill máttarvöld stjórni mönnum?
2 Þessar spurningar hafa komið upp í hugum margra þegar þeir hafa leitt hugann að skelfilegum grimmdarverkum mannkynsins — svo sem notkun hræðilegra gastegunda í hernaði til að kæfa fólk og brenna til bana, og ekki síður íkveikjusprengjur, eldvörpur og kjarnorkusprengjur. Þá eru ónefndar fangabúðirnar og fjöldamorðin á milljónum hjálparvana manna eins og framin hafa verið í Kambódíu á síðustu árum. Heldur þú að öll þessi drápstól og illskuverk stafi aðeins af tilviljun? Maðurinn getur að vísu af eigin hvötum framið óttaleg vonskuverk, en þegar litið er á það mikla grimmdaræði, sem verk hans bera vott um, lítur þá ekki helst út fyrir að honum sé stjórnað af illum, ósýnilegum máttarvöldum?
3. Hvað segir Biblían um stjórnina yfir heiminum?
3 Við þurfum ekki að geta okkur til um svarið. Biblían sýnir skýrt og greinilega að ósýnileg vitsmunavera hefur stjórnað bæði mönnum og þjóðum. Í Biblíunni kallar Jesús Kristur þessa máttugu veru „höfðingja þessa heims.“ (Jóhannes 12:31; 14:30; 16:11) Hver er hún?
4. Hvað sýndi djöfullinn Jesú og hvað bauð hann honum?
4 Til að hjálpa okkur að svara því skulum við leiða hugann að því sem gerðist þegar Jesús hóf þjónustu sína hér á jörð. Biblían segir okkur að Jesús hafi, eftir að hann var skírður, farið út í eyðimörkina þar sem ósýnileg vera, kölluð Satan djöfullinn, freistaði hans. Þessari freistingu er að hluta til lýst svo: „Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: ‚Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.‘“ — Matteus 4:8, 9.
5. (a) Hvað sýnir að allar ríkisstjórnir eru eign djöfulsins? (b) Hver er, að sögn Biblíunnar, „guð þessarar aldar“?
5 Taktu eftir hvað það var sem djöfullinn bauð Jesú Kristi. Það voru „öll ríki heims.“ Tilheyrðu öll hin veraldlegu ríki í rauninni djöflinum? Já, því að hvernig hefði hann að öðrum kosti getað boðið þau Jesú? Jesús neitaði því ekki að þau tilheyrðu Satan, sem hann hefði gert ef Satan hefði ekki átt þau. Satan er í rauninni ósýnilegur stjórnandi allra þjóða heims! Biblían segir blátt áfram: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Orð Guðs kallar Satan meira að segja „guð þessarar aldar,“ þessa heimskerfis. — 2. Korintubréf 4:4.
6. (a) Hvað hjálpar þessi vitneskja um stjórn Satans okkur að skilja? (b) Hvað vill Satan að við gerum, og hvað þurfum við að gera?
6 Þessi vitneskja hjálpar okkur að skilja hvers vegna Jesús sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Hún hjálpar okkur einnig til að skilja hvers vegna þjóðirnar hata og reyna að tortíma hver annarri, enda þótt allir venjulegir menn þrái frið. Já, „Satan . . . afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Hann vill gjarnan afvegaleiða okkur líka. Hann vill ekki að okkur hlotnist eilíft líf að gjöf frá Guði. Því þurfum við að berjast til að láta hann ekki koma okkur til að gera það sem illt er. (Efesusbréfið 6:12) Við þurfum að vita deili á Satan og hvernig hann starfar til að geta staðið gegn tilraunum hans til að leiða okkur á villigötur.
HVER ER DJÖFULLINN?
7. Hvers vegna getum við ekki séð djöfulinn?
7 Satan djöfullinn er raunveruleg persóna. Hann er ekki aðeins eitthvað illt í öllum mönnum eins og sumir álíta. Auðvitað geta menn ekki séð djöfulinn af sömu ástæðu og þeir geta ekki séð Guð. Bæði Guð og djöfullinn eru andaverur, lífsform sem er mönnum æðra og ósýnilegt augum okkar. — Jóhannes 4:24.
8. Hvers vegna trúa margir að Guð hafi skapað djöfulinn?
8 Einhver spyr kannski hvers vegna Guð hafi gert djöfulinn fyrst Guð er kærleikur. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Sannleikurinn er sá að Guð skapaði ekki djöfulinn. ‚En ef Guð skapaði alla,‘ segir einhver, ‚hlýtur hann að hafa skapað djöfulinn. Hver annar hefur getað gert það? Hvaðan kom djöfullinn?‘
9. (a) Hvers konar persónur eru englarnir? (b) Hvað merkja orðin „djöfull“ og „satan“?
9 Biblían útskýrir að Guð hafi skapað fjöldann allan af andaverum er líktust honum sjálfum. Í Biblíunni eru þessar andaverur kallaðar englar. Þær eru líka kallaðar „guðssynir.“ (Jobsbók 38:7; Sálmur 104:4; Hebreabréfið 1:7, 13, 14) Guð skapaði þær allar fullkomnar. Engin þeirra var djöfull eða satan, en orðið „djöfull“ merkir rógberi og orðið „satan“ andstæðingur.
10. (a) Hver gerði Satan djöfulinn? (b) Hvernig getur góður maður gert sig að glæpamanni?
10 Hins vegar kom að því að einn þessara andasona Guðs gerði sig að djöflinum, það er að segja að hatursfullum lygara sem lýgur ýmsum sökum upp á aðra. Hann gerði sig einnig að Satan, það er að segja andstæðingi Guðs. Hann var ekki skapaður þannig heldur varð þannig af sjálfsdáðum. Lýsum þessu með dæmi: Þjófur er ekki fæddur þjófur. Hann getur verið af góðu fólki, átt heiðarlega foreldra og löghlýðin systkini. En löngun hans í það sem hægt er að kaupa fyrir peninga hefur ef til vill gert hann að þjófi. Hvernig atvikaðist þá að einn af andasonum Guðs gerði sig að Satan djöflinum?
11. (a) Um hvaða fyrirætlun Guðs vissi uppreisnargjarn engill? (b) Hvaða löngun bar þessi engill í brjósti og hvað kom hún honum til að gera?
11 Engillinn, sem varð djöfullinn, horfði á þegar Guð skapaði jörðina og síðar fyrstu mannlegu hjónin, Adam og Evu. (Jobsbók 38:4, 7) Hann hefur því heyrt Guð segja þeim að eignast börn. (1. Mósebók 1:27, 28) Hann vissi að bráðlega yrði öll jörðin full réttlátum mönnum sem tilbæðu Guð. Það var ætlun Guðs. En þessi engill hugsaði mikið um eigin fegurð og gáfur og langaði til að fá sjálfur þá tilbeiðslu sem Guð myndi fá. (Esekíel 28:13-15; ) Í stað þess að afmá þessa röngu löngun úr huga sér hélt hann áfram að hugsa um hana. Það varð til þess að hann lét til skarar skríða að næla sér í þá upphefð og tign sem hann girntist. Hvað gerði hann? — Matteus 4:10Jakobsbréfið 1:14, 15.
12. (a) Hvernig talaði þessi engill við Evu og hvað sagði hann henni? (b) Hvernig varð þessi engill Satan djöfullinn? (c) Hvernig lítur djöfullinn ekki út?
12 Þessi uppreisnargjarni engill notaði lítilmótlegan höggorm til að tala við fyrstu konuna, Evu. Hann fór að því eins og leikinn maður getur látið líta út fyrir að dýr eða brúða tali. En sá sem talaði við Evu var þessi uppreisnargjarni engill, hann sem Biblían kallar ‚hinn gamla höggorm.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Hann sagði að Guð segði henni ekki sannleikann og meinaði henni auk þess um þekkingu sem hún ætti að hafa. (1. Mósebók 3:1-5) Þetta var hatursfull lygi sem gerði hann að djöfli. Um leið varð hann að andstæðingi Guðs eða Satan. Eins og þú sérð er rangt að líta á djöfulinn sem skepnu með horn og kvísl sem gætir einhvers píningarstaðar neðanjarðar. Hann er í rauninni afar voldugur en óguðlegur engill.
ORSÖK VANDAMÁLANNA Í HEIMINUM
13. (a) Hvernig brást Eva við lygi djöfulsins? (b) Hvað fullyrti djöfullinn?
13 Lygin, sem djöfullinn sagði Evu, hafði tilætluð áhrif. Hún trúði henni og óhlýðnaðist Guði. Henni tókst að fá manninn sinn til að brjóta lög Guðs líka. (1. Mósebók 3:6) Djöfullinn fullyrti að menn gætu spjarað sig án Guðs. Hann sagði að menn gætu stjórnað sjálfum sér svo vel færi án hjálpar Guðs. Hann fullyrti líka að hann gæti snúið frá Guði öllum væntanlegum afkomendum Adams og Evu.
14. Hvers vegna tortímdi Guð ekki Satan þá þegar?
14 Guð hefði vitanlega getað tortímt Satan á stundinni. Það hefði hins vegar ekki svarað þeim spurningum, sem Satan hafði slegið fram, spurningum sem gátu verið í hugum englanna sem á horfðu. Þess vegna gaf Guð Satan tíma til að reyna að sanna fullyrðingar sínar. Með hvaða árangri?
15, 16. (a) Hvað hefur tíminn leitt í ljós í sambandi við fullyrðingar djöfulsins? (b) Hvaða atburður er í nánd?
15 Tíminn hefur leitt í ljós að menn geta ekki stjórnað sjálfum sér svo vel fari án hjálpar Guðs. Tilraunir þeirra hafa brugðist hrapallega. Fólk hefur liðið skelfilegar þjáningar undir stjórn manna sem djöfullinn hefur, eins og Ritningin sýnir, stjórnað að tjaldabaki. Sá tími, sem Guð úthlutaði Satan, hefur enn fremur sýnt að Satan hefur ekki tekist að láta alla menn snúa baki við tilbeiðslu á Guði. Alltaf hafa verið til menn sem hafa verið trúir stjórn Guðs. Þú getur til dæmis lesið í Biblíunni hvernig Satan reyndi árangurslaust að fá Job til að hætta að þjóna Guði. — Jobsbók 1:6-12.
16 Þannig hefur verið sannað að fullyrðingar djöfulsins eru rangar. Hann verðskuldar sannarlega tortímingu fyrir að hafa verið frumkvöðull uppreisnar gegn Guði. Til allrar hamingju er nú kominn sá tími er Guð bindur enda á stjórn Satans. Biblían lýsir fyrsta skrefi þess svo að háð hafi verið afdrifaríkt stríð á himnum sem menn á jörðinni sáu auðvitað ekki né heyrðu. Lestu vandlega eftirfarandi frásögn Biblíunnar:
17. (a) Hvernig lýsir Biblían stríðinu á himnum? (b) Hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá sem eru á himnum og jörð?
17 „Þá hófst stríð á himni: Míkael [sem er hinn upprisni Jesús Kristur] og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. ‚Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.‘“ — Opinberunarbókin 12:7-9, 12.
18. (a) Hvenær átti stríðið á himnum sér stað? (b) Hvað hefur gerst á jörðinni síðan Satan var „varpað niður“?
18 Hvenær átti þetta stríð á himnum sér stað? Staðreyndir sýna að það var háð um svipað leyti og fyrri heimsstyrjöldin sem braust út árið 1914. Eins og Opinberunarbókin bendir á var Satan gerður rækur frá himnum á þeim tíma sem þýðir að við höfum síðan þá lifað á þeim ‚nauma tíma‘ sem hann hefur til umráða. Nú standa því yfir „síðustu dagar“ heims Satans. Hið vaxandi lögleysi, óttinn, styrjaldirnar, matvælaskorturinn, sjúkdómarnir og annað það sem þjakar mannkynið, og við höfum mátt þola, er sönnun um það. — Matteus 24:3-12; Lúkas 21:26; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
19. (a) Hvað keppist Satan nú við? (b) Hvað væri hyggilegt af okkur að gera?
19 Sökum þess að Satan veit að hinn ‚naumi tími‘ hans er brátt útrunninn reynir hann meira en nokkru sinni fyrr að koma í veg fyrir að menn þjóni Guði. Hann vill draga eins marga og hann getur með sér þegar honum verður tortímt. Ekki að ófyrirsynju lýsir Biblían honum sem öskrandi ljóni leitandi að þeim sem hann getur gleypt. (1. Pétursbréf 5:8, 9) Ef við viljum ekki að hann hrífi okkur með sér þurfum við að fræðast um baráttu- og blekkingaraðferðir hans. — 2. Korintubréf 2:11.
ÞANNIG LEIÐIR SATAN FÓLK AFVEGA
20. (a) Hvernig hefur árás Satans tekist? (b) Hvers vegna megum við búast við að vélabrögð hans virðist saklaus, jafnvel gagnleg?
20 Láttu þér ekki til hugar koma að Satan beiti augljósum aðferðum til að fá fólk til að fylgja sér. Hann er mikill blekkingameistari. Aðferðir hans um þúsundir ára hafa meira að segja verið svo snjallar að margir nútímamenn trúa ekki einu sinni að hann sé til. Í þeirra augum er illska og mannvonska aðeins eðlilegur hlutur sem alltaf mun vera. Satan starfar mjög líkt og glæpaforingjar nútímans sem eru út á við virðingarverðir menn en vinna alls kyns vonskuverk á bak við tjöldin. Biblían útskýrir: „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.“ (2. Korintubréf 11:14) Við getum þess vegna búist við að blekkingaraðferðir hans virðist oft saklausar, jafnvel gagnlegar.
21. Nefnið dæmi um vélabrögð Satans.
21 Við munum að Satan kom fram við Evu eins og vinur. Síðan ginnti hann hana til að gera það sem hún hélt vera henni sjálfri til góðs. (1. Mósebók 3:4-6) Eins er það nú. Í gegnum mennska fulltrúa sína hvetur Satan fólk kænlega til að láta hagsmuni mannlegra stjórna ganga fyrir þjónustu þeirra við Guð. Þetta hefur fætt af sér anda þjóðernishyggjunnar sem síðan hefur valdið skelfilegum styrjöldum. Á síðari tímum hefur Satan komið mönnum til að setja á fót ýmiss konar stofnanir í leit sinni að friði og öryggi. Ein þeirra er Sameinuðu þjóðirnar. En hefur það komið á friði í heiminum? Því fer fjarri! Það hefur öllu heldur reynst vera leið til að beina athygli manna frá ráðstöfun Guðs til að færa mannkyninu frið, frá hinu komandi ríki hans í höndum Jesú Krists, ,Friðarhöfðingjans.‘ — Jesaja 9:6; Matteus 6:9, 10.
22. Hvaða þekkingu vill Satan ekki að við höfum?
22 Ef við eigum að hljóta eilíft líf þörfnumst við nákvæmrar þekkingar um Guð, son hans og konung og ríki. (Jóhannes 17:3) Þú mátt vera viss um að Satan djöfullinn vill ekki að þú eignist þessa þekkingu, og að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að hindra að þú gerir það. Hvernig mun hann fara að því? Ein leiðin er að valda þér mótlæti, ef til vill í þeirri mynd að gert sé grín að þér. Biblían segir okkur: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:12.
23. (a) Hvernig getur Satan jafnvel notað ættingja og vini til að draga úr okkur kjark? (b) Hvers vegna ættir þú aldrei að láta undan andstöðu?
23 Vera má að jafnvel nánir vinir eða ættingjar segi þér að þeim líki ekki að þú sért að kynna þér Ritninguna. Jesús Kristur aðvaraði jafnvel: „Og heimamenn manns verða óvinir hans. Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér er mín ekki verður.“ (Matteus 10:36, 37) Ættingjar geta reynt í fullri einlægni að letja þig vegna þess að þeir þekkja ekki þau stórfenglegu sannindi sem er að finna í Biblíunni. En hvernig mun Guð líta á þig ef þú hættir námi þínu í orði hans þegar á móti blæs? Og hvernig getur þú hjálpað þessum vinum og ástvinum til að skilja að nákvæm þekking á Biblíunni skiptir sköpum um líf og dauða, ef þú gefst upp? Haldir þú fast við það sem þú hefur lært í orði Guðs getur það með tíð og tíma komið þeim til að læra sannleikann einnig.
24. (a) Nefnið dæmi um aðrar leiðir sem djöfullinn notar til að koma í veg fyrir að fólk afli sér lífsnauðsynlegrar þekkingar. (b) Hversu mikilvægt finnst þér að nema orð Guðs?
24 Satan getur beitt öðrum aðferðum, til dæmis að freista þín til einhvers siðlauss athæfis sem er Guði vanþóknanlegt. (1. Korintubréf 6:9-11) Hann getur látið þér finnast þú vera of upptekinn til að nema Biblíuna. En getur nokkuð verið þýðingarmeira en að afla sér þessarar þekkingar? Láttu ekkert hindra að þú aflir þér þessarar þekkingar sem getur orðið til þess að þú hljótir eilíft líf í paradís á jörð!
25. Hvað mun djöfullinn ekki geta gert okkur ef við höldum áfram að standa gegn honum?
25 Biblían hvetur: „Standið gegn djöflinum.“ Ef þú gerir það „þá mun hann flýja“ frá þér. (Jakobsbréfið 4:7) Ber að skilja þetta svo að standir þú gegn árásum Satans muni hann gefast upp og hætta að valda þér erfiðleikum? Nei, hann mun reyna aftur og aftur að koma þér til að gera það sem hann vill. En ef þú heldur áfram að standa gegn honum mun hann aldrei geta komið þér út á braut sem er í andstöðu við Guð. Þess vegna skalt þú leggja þig fram um að afla þér hinnar þýðingarmiklu þekkingar um Biblíuna, og iðka það sem þú lærir. Það er lífsnauðsynlegt til að koma í veg fyrir að þú látir aðra aðferð Satans til að afvegaleiða fólk, fölsk trúarbrögð, leiða þig á villigötur.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 16, 17]
Hefði Satan getað boðið Jesú öll ríki veraldar ef þau hefðu ekki tilheyrt honum?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Þjófur er ekki fæddur þjófur; djöfullinn var ekki heldur skapaður „djöfull.“
[Mynd á blaðsíðu 20, 21]
Stríð var háð á himnum sem lauk með því að Satan og árum hans var kastað niður á jörðina. Þú finnur nú fyrir afleiðingunum.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Sumir kunna að vera á móti því að þú nemir Biblíuna.