Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þannig verða menn þegnar Guðsríkis

Þannig verða menn þegnar Guðsríkis

15. kafli

Þannig verða menn þegnar Guðsríkis

1, 2. Hvað þarf að gera til að verða þegn Guðsríkis?

 LANGAR ÞIG til að lifa að eilífu á jörðinni undir stjórn Guðs? Sérhver heilvita maður hlýtur að vilja það. Menn munu njóta þar stórfenglegra gæða. En til að hljóta þau nægir ekki að rétta upp höndina og segja: ‚Ég vil verða þegn Guðsríkis.‘ Þú þarft að gera meira.

2 Setjum sem svo að þú vildir hljóta ríkisborgararétt í öðru landi. Til að gera það myndir þú þurfa að fullnægja þeim skilyrðum sem stjórn viðkomandi lands setur. En áður en þú getur gert það þarft þú að kynna þér hverjar kröfurnar eru. Eins þarft þú að læra hvers Guð krefst af þeim sem vilja verða þegnar stjórnar hans. Síðan þarft þú að uppfylla þessar kröfur.

ÞEKKINGAR ER ÞÖRF

3. Nefnið eina kröfu til þeirra sem vilja verða þegnar Guðsríkis.

3 Afar mikilvægt skilyrði fyrir því að fá að verða þegn Guðsríkis er að læra „tungumál“ þess. Það er eðlileg og sanngjörn krafa. Sumar stjórnir manna krefjast þess einnig að nýir ríkisborgarar geti talað tungu þjóðarinnar. En hvaða „tungumál“ þurfa þeir að læra sem vilja öðlast líf undir stjórn Guðs?

4. Hvaða „hreint tungumál“ verða þjónar Guðs að læra?

4 Taktu eftir því sem Jehóva segir um það í orði sínu, Biblíunni: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir [hreint tungumál, NW], svo að þær ákalli allar nafn [Jehóva] og þjóni honum einhuga.“ (Sefanía 3:9) Þetta ‚hreina tungumál‘ er sannleikur Guðs sem er að finna í Biblíunni. Einkum er þar átt við sannleikann um ríkisstjórn Guðs. Til að verða þegn Guðsríkis þarft þú þess vegna að læra þetta „tungumál“ með því að afla þér þekkingar á Jehóva og ríki hans. — Kólossubréfið 1:9, 10; Orðskviðirnir 2:1-5.

5. (a) Hvað ættum við að vita um stjórn Guðs? (b) Hvaða þekkingu þurfum við að hafa til að hljóta eilíft líf?

5 Sumar stjórnir manna krefjast þess að þeir sem hljóta þegnrétt í landi þeirra þekki eitthvað til sögu stjórnarinnar og viti í grundvallaratriðum hvernig hún er uppbyggð og starfar. Þú ættir líka að vita slíkt um stjórn Guðs ef þú ætlar að verða þegn hennar. Sú vitneskja getur fært þér eilíft líf. Í bæn til föður síns sagði Jesús: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

6. (a) Nefnið nokkrar spurningar sem þegnar Guðsríkis ættu að geta svarað. (b) Getur þú svarað þeim?

6 Hafir þú numið fyrri kafla þessarar bókar ættir þú nú að hafa aflað þér þessarar afarmikilvægu þekkingar að miklu leyti. Hefur þú gert það? Getur þú sýnt fram á það með því að svara spurningum svo sem: Hvenær nefndi Guð fyrst þá ætlun sína að koma stjórn Guðsríkis á fót? Nefndu suma af þjónum Guðs sem hlökkuðu til að verða jarðneskir þegnar hennar. Hversu marga stjórnendur eða konunga mun ríkisstjórn Guðs hafa? Hvaðan munu þessir konungar stjórna? Hverjir voru þeir fyrstu sem voru valdir til að verða konungar í ríkisstjórn Guðs? Hvernig sannaði Jesús að hann yrði góður konungur? En til að verða þegn ríkisstjórnar Guðs þarft þú að gera meira en aðeins að þekkja til hennar.

KRAFIST ER RÉTTLÁTRAR BREYTNI

7. Hvernig eru kröfur mannlegra stjórna til væntanlegra ríkisborgara mismunandi?

7 Ríkisstjórnir nútímans krefjast þess að nýir ríkisborgarar fullnægi ákveðnum hegðunarkröfum. Þær segja ef til vill að maður megi aðeins hafa eina konu og kona aðeins einn mann. Þó eru lög sumra ríkja á annan veg. Þau leyfa þegnum sínum að eiga fleiri en einn maka. Hvaða breytni er vænst af mönnum sem vilja verða þegnar Guðsríkis? Hvað segir Guð vera rétt viðvíkjandi hjónabandi?

8. (a) Hver er mælikvarði Guðs í sambandi við hjónaband? (b) Hvað er hórdómur og hvað segir Guð um hann?

8 Í upphafi setti Jehóva undirstöðureglu um hjónabandið þegar hann gaf Adam aðeins eina konu. Hann sagði: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:21-24) Jesús útskýrði að þetta væri sá mælikvarði sem kristnir menn ættu að fylgja. (Matteus 19:4-6) Þar eð hjón eru orðin „eitt hold“ vanheiðra þau hjónabandið ef þau hafa kynmök við einhvern annan. Slíkur verknaður er kallaður hórdómur, hjúskaparbrot, og Guð segist muni refsa hórdómsmönnum. — Hebreabréfið 13:4; Malakí 3:5.

9. (a) Hvert er viðhorf Guðs til kynmaka milli ógiftra einstaklinga? (b) Hvað er saurlifnaður eða frillulífi?

9 Mörg hjón búa hins vegar saman í óvígðri sambúð og hafa kynmök en láta samt ekki gefa sig saman. En Guð ætlaðist ekki til að þetta nána samband karls og konu skyldi vera nein tilraunastarfsemi. Óvígð sambúð er því synd gegn Guði sem er höfundur hjónabandsins. Hún er í Biblíunni kölluð saurlífi eða frillulífi. Frillulífi er það að hafa kynmök við einstakling sem þú ekki ert giftur. Og Biblían segir: „Það er vilji Guðs . . . að þér haldið yður frá frillulífi.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3-5) Það er því rangt af einhleypum einstaklingi að hafa kynmök.

10. Hvaða aðrar kynlífsathafnir eru brot á lögum Guðs?

10 Algengt er nú á dögum að karlar og konur hafi í frammi kynlífsathafnir með öðrum af sama kyni — karlmenn með karlmönnum og konur með konum. Slíkt er kallað kynvilla og þeir sem iðka það kynvillingar. En orð Guðs segir að slíkt sé rangt og kallar það „skömm.“ (Rómverjabréfið 1:26, 27) Enn fremur er það brot á lögum Guðs að hafa kynmök við skepnu. (3. Mósebók 18:23) Hver sem vill lifa undir stjórn Guðs þarf að halda sér frá þessum siðlausu athöfnum.

11. (a) Hvernig lítur Guð á neyslu áfengra drykkja? (b) Hvaða heilsuspillandi ósiði verða þeir sem vilja verða þegnar Guðsríkis að forðast?

11 Hófleg neysla áfengra drykkja er ekki röng samkvæmt lögum Guðs. Biblían bendir meira að segja á að lítið eitt af víni geti verið heilsusamlegt. (Sálmur 104:15; 1. Tímóteusarbréf 5:23) Aftur á móti er það brot á lögum Guðs að verða ölvaður eða taka þátt í taumlausum samkvæmum þar sem fólk hefur í frammi siðlausar athafnir. (Efesusbréfið 5:18; 1. Pétursbréf 4:3, 4) Auk þess að drekka áfengi til að komast í vímu eða verða „hátt uppi“ nota margir ýmis fíkniefni í sama tilgangi. Unaðarins vegna reykja sumir hass, marijúana eða tóbak, en aðrir tyggja betelhnetur eða kókalauf. En allt slíkt saurgar líkami þeirra og skaðar heilsuna. Viljir þú verða þegn Guðsríkis verður þú að forðast alla slíka skaðlega ósiði. — 2. Korintubréf 7:1.

12. (a) Nefnið dæmi um óheiðarleika sem er brot á lögum Guðs. (b) Hvernig getur sá sem iðkar eitthvað af þessu hlotið hylli Guðs?

12 Augljóst er að mannanna stjórnir vilja ekki glæpamenn sem nýja þegna. Jehóva gerir jafnvel enn strangari kröfur. Hann krefst þess að við hegðum okkur heiðarlega í öllum greinum. (Hebreabréfið 13:18) Þeim sem hlýða ekki lögum Guðs verður ekki leyft að lifa undir ríki hans. Menn þykjast oft heiðarlegir en brjóta þó lögin. Guð sér aftur á móti alla hluti og enginn getur farið á bak við hann. (Hebreabréfið 4:13; Orðskviðirnir 15:3; Galatabréfið 6:7, 8) Jehóva mun því tryggja að þeir sem brjóta lög hans, svo sem lög gegn lygi og þjófnaði, verði ekki þegnar stjórnar hans. (Efesusbréfið 4:25, 28; Opinberunarbókin 21:8) Guð er þó þolinmóður og fús til að fyrirgefa. Ef því ranglátur maður hættir sínum illu athöfnum og fer að gera gott mun Guð taka við honum. — Jesaja 55:7.

13. Hvernig ættu þjónar Guðs að líta á lög mannlegra stjórna?

13 En hvað um það að halda lög mannlegra stjórna? Svo lengi sem stjórnirnar standa gerir Guð þá kröfu að þjónar hans séu undirgefnir þeim „yfirvöldum.“ Þeim ber að greiða þá skatta sem þau krefjast enda þótt þeir kunni að vera háir og einstaklingurinn ekki sammála því hvernig yfirvöld fara með skattféð. Einnig ber að hlýða lögum stjórnarinnar. (Rómverjabréfið 13:1, 7; Títusarbréfið 3:1) Eina undantekningin er sú ef hlýðni við landslög útheimtir óhlýðni við lög Guðs. Þegar svo ber undir ‚ber framar að hlýða Guði en mönnum,‘ eins og Pétur og hinir postularnir sögðu. — Postulasagan 5:29.

14. Hvernig getum við sýnt að við berum sömu virðingu fyrir lífinu og Guð?

14 Guð telur lífið afar dýrmætt. Þeir sem vilja verða þegnar stjórnar hans verða að skilja það. Augljóst er að morð er brot á lögum Guðs, en hatur er oft undanfari morðs, og jafnvel sá sem heldur áfram að hata náunga sinn getur ekki orðið þegn stjórnar Guðs. (1. Jóhannesarbréf 3:15) Áríðandi er því að fylgja því sem sagt er í Biblíunni í Jesaja 2:4, þess efnis að taka sér ekki vopn í hönd til að drepa náunga sinn. Orð Guðs sýnir að jafnvel líf ófæddra barna í móðurkviði er dýrmætt í augum Jehóva. (2. Mósebók 21:22, 23; Sálmur 127:3) Engu að síður eru fóstureyðingar gerðar í milljónatali ár hvert. Slík eyðing á lífi er brot á lögum Guðs vegna þess að mannvera í móðurkviði er lifandi vera sem ekki má deyða.

15. Hvaða skipunum konungs Guðs verða allir þegnar Guðsríkis að hlýða?

15 Þeir sem vilja verða þegnar stjórnar Guðs þurfa að gera meira en aðeins að forðast það sem er rangt eða siðlaust. Þeir verða líka að leggja sig fram um að gera öðrum það sem er gott og óeigingjarnt. Þeir verða að lifa eftir reglunni sem konungurinn, Jesús Kristur, gaf: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Kristur setti fordæmið í því að sýna öðrum kærleika. Hann gaf jafnvel líf sitt fyrir mannkynið og bauð fylgjendum sínum: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ (Jóhannes 13:34; 1. Jóhannesarbréf 3:16) Það er þessi óeigingjarni kærleikur og umhyggja fyrir öðrum sem mun gera lífið unaðslegt undir stjórn Guðsríkis. — Jakobsbréfið 2:8.

16, 17. (a) Nefnið góðar og gildar ástæður til að breyta lífi sínu til að uppfylla kröfur Guðs. (b) Hvernig getum við treyst að við getum gert nauðsynlegar breytingar?

16 Biblían sýnir að menn verða að breyta lífi sínu til að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar til þegna Guðsríkis. (Efesusbréfið 4:20-24) Vinnur þú að því að gera slíkar breytingar? Vissulega er það virði hvaða erfiðis sem vera skal! Hvers vegna? Vegna þess að það mun ekki aðeins þýða fyrir þig betri tilveru í fáein ár undir stjórn manna. Þú munt hljóta eilíft líf og fullkomna heilsu í paradís á jörð undir stjórn sem Guð stýrir!

17 Tilvera þín mun vera hamingjuríkari nú þegar ef þú uppfyllir kröfur Guðs, en þú kannt að þurfa að gera margar breytingar. Óteljandi menn, sem voru hatursfullir eða ágjarnir, hafa breytt sér. Saurlífismenn, hórkarlar, kynvillingar, drykkjumenn, morðingjar, þjófar, fíkniefnaneytendur og reykingamenn hafa líka breytt um lífsstefnu. Þeim hefur tekist það með því að leggja sig fram í sannleika og notfæra sér hjálp Guðs. (1. Korintubréf 6:9-11; Kólossubréfið 3:5-9) Þess vegna skalt þú ekki gefast upp þótt þú eigir erfitt með að breyta þér til að uppfylla kröfur Guðs. Þú getur gert það!

HOLLUSTA VIÐ STJÓRN GUÐS

18. Á hvaða sérstakan hátt ætlast Guð til að við sýnum ríki hans drottinhollan stuðning okkar?

18 Engan skyldi furða að Jehóva Guð skuli krefjast að þegnar hans styðji ríkisstjórn hans af hollustu. Stjórnir manna krefjast hins sama af þegnum sínum. En á hvaða sérstakan hátt ætlast Guð til að við styðjum stjórn hans af hollustu? Á þann hátt að við tökum okkur vopn í hönd og berjumst fyrir ríki hans? Nei. Eins og Jesús Kristur og fyrstu fylgjendur hans verðum við að vera drottinhollir talsmenn ríkis Guðs, að kunngera það. (Matteus 4:17; 10:5-7; 24:14) Jehóva vill að allir geti vitað hvað ríki hans er og hvernig það mun leysa vandamál mannkynsins. Hefur þú sagt ættingjum, vinum og öðrum frá því sem þú hefur lært af orði Guðs? Guð vill að þú gerir það. — Rómverjabréfið 10:10; 1. Pétursbréf 3:15.

19. (a) Hvers vegna getum við vænst mótspyrnu þegar við tölum við aðra um ríki Guðs? (b) Hvaða spurningum þarft þú að svara?

19 Kristur og fyrstu fylgjendur hans þurftu að vera hugrakkir til að tala við aðra um Guðsríki, því að oft mættu þeir mótspyrnu. (Postulasagan 5:41, 42) Eins er það nú á dögum. Heimurinn, sem djöfullinn stjórnar, vill ekki að fagnaðarerindið um ríkið sé prédikað. Því er spurningin: Hvar stendur þú? Munt þú styðja ríki Guðs af hollustu? Hann vill að gefinn sé mikill vitnisburður um ríkið áður en endirinn kemur. Munt þú eiga þátt í að gefa hann?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 128]

Þeir sem verða þegnar Guðsríkis verða að búa yfir þekkingu á því.

[Mynd á blaðsíðu 131]

Þegnar Guðsríkis verða að forðast athafnir sem Guð fordæmir.

[Mynd á blaðsíðu 133]

Þegnar Guðsríkis verða að segja öðrum frá því.