Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að umgangast hver annan í kærleika

Að umgangast hver annan í kærleika

28. kafli

Að umgangast hver annan í kærleika

1. (a) Hvernig getur þú orðið hluti af sýnilegu skipulagi Guðs? (b) Hvaða boði þarft þú þá að hlýða?

 ÞEGAR ÞÚ eykur þekkingu þína og lærir að meta Jehóva Guð og fyrirætlanir hans betur, munt þú vilja hafa reglulegt samfélag við menn sem hafa sömu trú og von og þú. Með því verður þú hluti af sýnilegu skipulagi Guðs, sönnu, kristnu bræðrafélagi. „Elskið bræðrafélagið,“ er boð sem þú þarft þá að hlýða. — 1. Pétursbréf 2:17; 5:8, 9.

2. (a) Hvaða nýtt boðorð gaf Jesús fylgjendum sínum? (b) Hvað er auðsætt af orðunum „hver annan“ og „hver til annars“? (c) Hversu þýðingarmikið er að hafa kærleika?

2 Jesús Kristur lagði á það áherslu hversu þýðingarmikið væri að fylgjendur hans elskuðu hver annan. Hann sagði þeim: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. . . . Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Orðin „hver annan“ og „hver til annars“ sýna að allir sannkristnir menn áttu að vera eitt samfélag eða skipulag. (Rómverjabréfið 12:5; Efesusbréfið 4:25) Þetta skipulag skyldi einkennast af þeim kærleika sem menn bæru hver til annars. Hafi einhver ekki kærleika er allt sem hann gerir til einskis. — 1. Korintubréf 13:1-3.

3. Hvernig leggur Biblían áherslu á mikilvægi þess að sýna kristnum bræðrum sínum ást og umhyggju?

3 Þess vegna voru frumkristnir menn oft áminntir svo: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð.“ „Takið . . . hver annan að yður.“ „Þjónið hver öðrum.“ „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir.“ „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ „Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan.“ „Lifið í friði yðar á milli.“ „Hafið brennandi kærleika hver til annars.“ — Rómverjabréfið 12:10; 15:7; Galatabréfið 5:13; Efesusbréfið 4:32; Kólossubréfið 3:13, 14; 1. Þessaloníkubréf 5:11, 13; 1. Pétursbréf 4:8; 1. Jóhannesarbréf 3:23; 4:7, 11.

4. (a) Hvað sýnir að kristnir menn verða að elska fleiri en trúbræður sína? (b) Hverja eiga kristnir menn einkum að elska?

4 Þessi áminningarorð merkja þó ekki að sannkristnir menn eigi aðeins að elska þá sem tilheyra söfnuði Guðs. Þeir eiga að elska aðra líka. Biblían hvetur þá meira að segja til að ‚vaxa í kærleika hver til annars og til allra.‘ (1. Þessaloníkubréf 3:12; 5:15) Páll postuli lét í ljós öfgalaust sjónarmið þegar hann sagði: „Þess vegna skulum vér . . . gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Kristnir menn eiga með öðrum orðum að elska alla, þeirra á meðal óvini sína, en einkum þó trúbræður sína í söfnuði Guðs, andlega bræður sína og systur. — Matteus 5:44.

5. Hvað sýnir að sannkristnir menn fyrr og nú eru kunnir fyrir kærleika sinn?

5 Frumkristnir menn voru alkunnir fyrir þennan kærleika sem þeir báru hver til annars. Að sögn rithöfundarins Tertúllíanusar á annarri öld sagði fólk um þá: ‚Sjáið hvernig þeir elska hver annan og eru jafnvel fúsir til að deyja hver fyrir annan!‘ Slíkur kærleikur sést líka meðal sannkristinna manna nú á dögum. En þýðir það að aldrei komi upp vandamál eða ósamkomulag milli sannkristinna manna?

AFLEIÐINGAR ÓFULLKOMLEIKANS

6. Hvers vegna syndga jafnvel sannkristnir menn stundum hver gegn öðrum?

6 Af námi þínu í Biblíunni hefur þú lært að við höfum öll tekið ófullkomleika í arf frá fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu. (Rómverjabréfið 5:12) Okkur er því gjarnt að gera það sem rangt er. „Allir hrösum vér margvíslega,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 3:2; Rómverjabréfið 3:23) Og þú ættir að muna að þeir sem tilheyra skipulagi Guðs eru líka ófullkomnir og gera stundum það sem ekki er rétt. Það getur valdið vandamálum og ósamkomulagi jafnvel milli sannkristinna manna.

7. (a) Hvers vegna þurfti að segja Evodíu og Sýntýke að „vera samlyndar“? (b) Hvað sýnir að þær voru í rauninni góðar kristnar konur?

7 Við skulum athuga hvernig ástatt var hjá tveim konum í söfnuðinum í Filippí til forna, en þær hétu Evodía og Sýntýke. Páll postuli skrifaði: „Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins.“ Hvers vegna hvatti Páll þessar tvær konur til að „vera samlyndar“? Bersýnilega vegna þess að eitthvert sundurlyndi var milli þeirra þótt Biblían segi ekki hvers eðlis það var. Vera kann að þær hafi öfundað hvora aðra á einhvern hátt. En í rauninni voru þetta góðar kristnar konur. Þær höfðu verið kristnar um alllangt skeið og tekið þátt í prédikuninni með Páli mörgum árum áður. Þess vegna skrifaði hann söfnuðinum: „Hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins.“ — Filippíbréfið 4:1-3.

8. (a) Hvaða ósamkomulag varð milli Páls og Barnabasar? (b) Hvað hefðir þú getað hugsað ef þú hefðir orðið vitni að deilu þeirra?

8 Einhverju sinni varð ósamkomulag milli Páls postula og ferðafélaga hans Barnabasar. Þegar þeir voru að leggja af stað í aðra trúboðsferð sína vildi Barnabas taka Markús frænda sinn með. En Páll vildi ekki að Markús færi með þeim, vegna þess að hann hafði yfirgefið þá og farið heim þegar þeir voru í fyrstu trúboðsferð sinni. (Postulasagan 13:13) Biblían segir: „Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim.“ (Postulasagan 15:37-40) Hvað hefðir þú hugsað ef þú hefðir orðið vitni að þessari þrætu þeirra? Hefðir þú ályktað að Páll og Barnabas gætu ekki tilheyrt skipulagi Guðs fyrst þeir hegðuðu sér þannig?

9. (a) Hvaða synd drýgði Pétur og hvað kom honum til þess? (b) Hvað gerði Páll þegar hann sá hvað var að gerast?

9 Öðru sinni urðu Pétri postula á alvarleg mistök. Hann hætti náinni umgengni við kristna menn af heiðnum þjóðum, vegna þess að hann óttaðist að hann félli í áliti hjá nokkrum kristnum mönnum af hópi Gyðinga sem litu niður á bræður sína af öðru þjóðerni. (Galatabréfið 2:11-14) Þegar Páll postuli sá hvað Pétur gerði fordæmdi hann hegðun hans í allra áheyrn. Hvernig hefði þér liðið í sporum Péturs? — Hebreabréfið 12:11.

ÁGREININGSMÁL LEYST Í KÆRLEIKA

10. (a) Hvernig brást Pétur við leiðréttingunni? (b) Hvað getum við lært af fordæmi Péturs?

10 Pétur hefði getað reiðst Páli. Hann hefði getað móðgast við það hvernig Páll leiðrétti hann í annarra viðurvist. En hann gerði það ekki. (Prédikarinn 7:9) Pétur var auðmjúkur. Hann meðtók leiðréttinguna og lét hana ekki draga úr kærleika sínum til Páls. (1. Pétursbréf 3:8, 9) Sjáðu hvernig Pétur talar um Pál í hvatningarbréfi sínu til kristinna bræðra sinna: „Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.“ (2. Pétursbréf 3:15) Pétur lét kærleikann breiða yfir vandann sem röng breytni hans sjálfs hafði valdið. — Orðskviðirnir 10:12.

11. (a) Hvernig sýndu Páll og Barnabas að þeir voru sannkristnir menn þrátt fyrir harða deilu sína? (b) Hvaða gagn getum við haft af fordæmi þeirra?

11 Hvað um deilu Páls og Barnabasar? Hún var líka leyst í kærleika. Þegar Páll síðar skrifaði söfnuðinum í Korintu talaði hann um Barnabas sem náinn samverkamann. (1. Korintubréf 9:5, 6) Og þótt Páll virðist hafa haft ærið tilefni til að efast um ágæti Markúsar sem ferðafélaga, þroskaðist þessi ungi maður síðar svo að Páll gat skrifað Tímóteusi: „Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:11) Við getum lært af þessu fordæmi hvernig útkljá beri missætti.

12. (a) Hvers vegna getum við ímyndað okkur að Evodía og Sýntýke hafi leyst ágreiningsmál sín? (b) Hvers vegna er brýnt að kristnir menn leysi ágreiningsmál sín í kærleika, samkvæmt Galatabréfinu 5:13-15?

12 Hvað þá um Evodíu og Sýntýke? Unnu þær bug á ósamlyndi sínu og létu kærleikann breiða yfir þær syndir sem þær kunna að hafa drýgt hvor gegn annarri? Biblían getur ekki um hvernig það mál fór. En þær voru góðar kristnar konur og höfðu unnið við hlið Páls að hinni kristilegu þjónustu, og við getum með nokkurri vissu gengið út frá því að þær hafi verið auðmjúkar og tekið til sín þau ráð sem þeim voru gefin. Við getum ímyndað okkur að þegar bréf Páls barst söfnuðinum hafi þær jafnað ágreining sinn í anda kærleikans. — Galatabréfið 5:13-15.

13. Hvaða fordæmi um að sýna kærleika hefur Jehóva Guð gefið?

13 Vera má að þér finnist líka erfitt að umgangast einhvern eða einhverja í söfnuðinum. Vera má að þeir eigi enn langt í land með að þroska með sér sannkristna eiginleika, en þú skalt samt hugsa um eftirfarandi: Bíður Jehóva með að sýna mönnum kærleika þangað til þeir hafa hætt öllu röngu hátterni? Nei, Biblían segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:8) Við þurfum að fylgja þessu fordæmi Guðs og sýna kærleika þeim sem hegða sér illa eða heimskulega. — Efesusbréfið 5:1, 2; 1. Jóhannesarbréf 4:9-11; Sálmur 103:10.

14. Hvernig ráðlagði Jesús okkur að gagnrýna ekki aðra?

14 Öll erum við mjög ófullkomin og Jesús kenndi okkur að við ættum þess vegna ekki að gagnrýna aðra. Að vísu hafa aðrir ýmsa galla en það höfum við líka. „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ spurði Jesús. (Matteus 7:1-5) Slík heilræði hjálpa okkur að umgangast bræður okkar og systur árekstralaust.

15. (a) Hvers vegna er mikilvægt að fyrirgefa öðrum, jafnvel þótt við höfum ástæðu til að finna að þeim? (b) Hvernig kenndi Jesús nauðsyn þess að fyrirgefa, í dæmisögu sinni í Matteusi 18. kafla?

15 Við verðum að vera miskunnsöm og fús til að fyrirgefa. Víst getur verið að þú hafir fullt tilefni til að setja út á bróður þinn eða systur, en mundu eftir ráðum Ritningarinnar: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ En hvers vegna ættir þú að fyrirgefa öðrum þegar þú hefur fullt tilefni til að finna að þeim? Vegna þess að ‚Jehóva hefur fyrirgefið þér,‘ svarar Biblían. (Kólossubréfið 3:13) Ef við eigum að fá fyrirgefningu verðum við að fyrirgefa öðrum. (Matteus 6:9-12, 14, 15) Jehóva hefur, eins og konungurinn í einni af dæmisögum Jesú, fyrirgefið okkur mörg þúsund sinnum. Getum við þá ekki fyrirgefið bræðrum okkar nokkrum sinnum? — Matteus 18:21-35; Orðskviðirnir 19:11.

16. (a) Hvernig er kærleikur til Guðs tengdur kærleika til trúbræðra okkar, samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 4:20, 21? (b) Hvað er nauðsynlegt að þú gerir ef bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér?

16 Við getum hreinlega ekki iðkað sannleikann ef við erum kærleikslaus og ófús að fyrirgefa bræðrum okkar og systrum. (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21; 3:14-16) Ef þú hefur einhvern tíma eitthvað á móti kristnum bróður þínum eða systur skalt þú þess vegna ekki hætta að tala við hann. Þú skalt ekki ala með þér gremju í hans garð heldur útkljá málið í anda kærleikans. Hafir þú móðgað bróður þinn skalt þú vera fús til að biðjast afsökunar og fyrirgefningar. — Matteus 5:23, 24.

17. Hvað er rétt að gera ef einhver gerir á hlut þinn?

17 En hvað átt þú að gera ef einhver móðgar þig eða gerir á hlut þinn? Biblían ráðleggur: „Seg þú ekki: ‚Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra.‘“ (Orðskviðirnir 24:29; Rómverjabréfið 12:17, 18) Jesús Kristur ráðlagði: „Slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ (Matteus 5:39) Sá sem slær annan á kinnina gerir það til að móðga hann eða reita til reiði, ekki til að meiða. Jesús var því að kenna fylgjendum sínum að láta ekki draga sig inn í baráttu eða deilu. Í stað þess að gjalda „illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli“ átt þú að ‚ástunda frið og keppa eftir honum.‘ — 1. Pétursbréf 3:9, 11; Rómverjabréfið 12:14.

18. Hvað ættum við að læra af fordæmi Guðs um að elska alla menn?

18 Mundu að við eigum að ‚elska allt bræðrafélagið.‘ (1. Pétursbréf 2:17) Jehóva Guð hefur gefið fordæmið. Hann er óhlutdrægur. Allir kynþættir eru jafnir í hans augum. (Postulasagan 10:34, 35; 17:26) Þeir sem fá vernd í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ eru „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14-17) Við ættum því ekki að elska fólk mismikið eftir kynþætti, þjóðerni, stöðu í þjóðfélaginu eða hörundslit, heldur líkja eftir Guði.

19. (a) Hvernig ættum við að líta á og koma fram við trúbræður okkar? (b) Hvaða sérréttindi geta fallið okkur í skaut?

19 Kynnstu öllum í kristna söfnuðinum vel, þá munt þú læra að elska þá og kunna að meta þá. Komdu fram við aldraða eins og feður og mæður, þá yngri sem bræður og systur. (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Það eru sannarlega mikil sérréttindi að tilheyra sýnilegu skipulagi Guðs sem er eins og stór fjölskylda þar sem allir eru kærleiksríkir í umgengni sinni við aðra. Hugsaðu þér hversu stórfenglegt verður að lifa að eilífu í paradís á jörð með slíkri ástríkri fjölskyldu! — 1. Korintubréf 13:4-8.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 233]

Hvað getum við lært af ósamlyndi Evodíu og Sýntýke?

[Mynd á blaðsíðu 235]

Þýðir deilan milli Páls og Barnabasar að þeir hafi ekki tilheyrt skipulagi Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 236]

Sannkristnir menn láta kærleikann breiða yfir ávirðingar.

[Mynd á blaðsíðu 236]

Í skipulagi Guðs láta kristnir menn kærleikann ráða og umgangast hver annan sem jafningja.