Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Baráttan að gera það sem rétt er

Baráttan að gera það sem rétt er

26. kafli

Baráttan að gera það sem rétt er

1. Hverju tvennu þurfa kristnir menn að berjast gegn?

 SVO LENGI SEM heimur Satans stendur verða kristnir menn að berjast til að verða ekki fyrir slæmum áhrifum af honum. Páll postuli skrifaði: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:11-18) En okkur nægir ekki að berjast aðeins gegn Satan og heimi hans; við þurfum líka að berjast gegn löngunum sjálfra okkar til að gera það sem rangt er. Biblían segir: „Hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans.“ — 1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12.

2. (a) Hvers vegna langar okkur stundum mjög mikið til að gera eitthvað rangt? (b) Hvers vegna ættum við að berjast gegn röngum tilhneigingum?

2 Hjörtu okkar girnast ef til vill að gera það sem er rangt, vegna syndarinnar sem við höfum erft frá fyrsta manninum, Adam. Ef við látum undan þeirri löngun hljótum við ekki eilíft líf í nýrri skipan Guðs. Við þurfum því að berjast til að gera það sem rétt er. Meira að segja Páll postuli þurfti að heyja slíka baráttu eins og hann sjálfur segir: „Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.“ (Rómverjabréfið 7:21-23) Vera má að þér þyki baráttan líka erfið. Stundum getur þú átt í mikilli baráttu innra með þér. Hvað ætlar þú þá að gera?

3. (a) Í hvaða innri baráttu eiga margir? (b) Margir gera það sem rangt er þótt þeir vilji gera rétt. Hvaða sannindi Biblíunnar undirstrikar það?

3 Þú hefur kynnst stórkostlegum fyrirheitum Guðs um eilíft líf við fullkomin skilyrði á jörðinni. Þú trúir þessum fyrirheitum og vilt gjarnan fá að njóta þess að sjá þau uppfyllt. Þess vegna veist þú að til langs tíma litið er þér fyrir bestu að þjóna Guði. En í hjarta þér þráir þú kannski að gera það sem er rangt. Komið getur yfir þig sterk löngun til að drýgja hór, stela eða gera eitthvað annað sem rangt er. Sumir sem nema þessa bók iðka jafnvel sumt af þessu enda þótt þeir viti að Guð fordæmir það. Sú staðreynd að þeir gera rangt, enda þótt þá langi til að gera rétt, undirstrikar orð Biblíunnar: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ — Jeremía 17:9.

ÞÚ GETUR SIGRAÐ Í BARÁTTUNNI

4. (a) Hver ræður því hvort sigur vinnst í baráttunni eða ekki? (b) Hvers er krafist til að sigra í baráttunni að gera það sem rétt er?

4 Hér er þó ekki verið að segja að ekki sé hægt að hafa hemil á sterkri löngun til að gera eitthvað rangt. Ef þú vilt það í raun og veru getur þú styrkt hjarta þitt svo að það leiði þig rétta braut. Það er undir sjálfum þér komið að gera það. (Sálmur 26:1, 11) Enginn getur unnið sigur fyrir þig. Þess vegna skalt þú umfram allt halda áfram að afla þér biblíuþekkingar sem getur gefið þér líf. (Jóhannes 17:3) Þó nægir ekki aðeins að fylla hugann þekkingu. Það sem þú lærir þarf líka að ná til hjartans. Þú þarft að láta það hafa sterk áhrif á tilfinningar þínar, þannig að þú viljir í alvöru lifa eftir því.

5. Hvernig getur þú lært að meta í hjarta þér lög Guðs?

5 En hvernig getur þú lært að meta lög Guðs í hjarta þér? Þú þarft að ígrunda þau, hugleiða þau vandlega. Spyrðu til dæmis sjálfan þig: Hverju breytir það að hlýða lögum Guðs? Síðan skalt þú hugleiða hvernig farið hefur fyrir fólki sem hefur virt lög hans að vettugi, til dæmis nítján ára stúlkunni sem sagði: „Ég hef þrisvar fengið kynsjúkdóm. Nú get ég ekki lengur eignast börn því að síðast þurfti að taka legið.“ Það er sorglegt að íhuga alla þá erfiðleika sem fólk kallar yfir sig þegar það óhlýðnast lögum Guðs. (2. Samúelsbók 13:1-19) Kona, sem drýgt hafði hór, sagði hrygg í bragði: „Það er einskis virði í samanburði við sársaukann og tilfinningatjónið sem hlýst af óhlýðninni. Ég líð fyrir það núna.“

6. (a) Hvers vegna er það ekki þess virði að gera það sem rangt er, þótt það geti veitt vissan unað? (b) Hvers konar lífs hefði Móse getað notið í Egyptalandi?

6 En sumir segja það skemmtilegt og gaman að lifa siðlausu lífi, drekka sig drukkinn og neyta fíkniefna. En slíkt gaman endist stutt. Láttu ekki tælast til að gera það sem mun ræna þig ósvikinni og varanlegri hamingju. Hugsaðu um Móse sem var alinn upp sem „dóttursonur Faraós.“ Hann bjó við auð og velsæld konungsfjölskyldunnar í Forn-Egyptalandi. En Biblían segir að hann hafi, þegar hann varð fulltíða, fremur kosið „illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.“ (Hebreabréfið 11:24, 25) Einhver unaður eða gaman hlýtur því að hafa verið af því siðleysi og lauslæti sem var við egypsku hirðina. Hvers vegna sneri Móse þá baki við því öllu?

7. Hvers vegna kaus Móse að njóta ekki „skammvinns unaðar af syndinni“ við egypsku hirðina?

7 Móse gerði það vegna þess að hann trúði á Jehóva Guð. Hann vissi að til var nokkuð sem var langtum betra en sá skammvinni unaður af syndinni sem hann gat notið í egypsku konungsfjölskyldunni. Biblían segir: „Hann horfði fram til launanna.“ Móse ígrundaði, hugleiddi gaumgæfilega það sem Guð hafði lofað. Hann trúði á þá ætlun Guðs að skapa réttláta nýja skipan. Djúpur kærleikur Jehóva og umhyggja fyrir mannkyninu snart hjarta hans. Móse hafði ekki bara heyrt eða lesið um Jehóva. Biblían segir að hann hafi verið „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:26, 27) Jehóva var Móse raunverulegur og loforð hans um eilíft líf einnig.

8. (a) Hvers þörfnumst við til að sigra í baráttunni að gera það sem rétt er? (b) Hvaða afstöðu, sem ungur maður lét í ljós, er hyggilegt að taka?

8 Verður hið sama sagt um þig? Lítur þú á Jehóva sem raunverulega persónu, föður sem elskar þig? Getur þú, þegar þú lest um loforð hans um eilíft líf í paradís á jörð, séð sjálfan þig njóta þeirrar blessunar? (Sjá bls. 156 til 162.) Við verðum að hafa náið samband við Jehóva til að sigra í baráttunni við það sem reynir að fá okkur til að gera rangt. Og við þurfum, eins og Móse, að ‚horfa fram til launanna.‘ Tvítugur maður, sem stóð frammi fyrir freistingu til að drýgja hór, leit málin sömu augum og Móse. Hann sagði: „Von mín um eilíft líf var of dýrmæt til að glata henni í skiptum fyrir nokkurra mínútna siðleysi.“ Er þetta ekki rétta hugarfarið?

LÆRT AF MISTÖKUM ANNARRA

9. Að hvaða leyti fór Davíð konungur halloka í baráttunni að gera það sem rétt er?

9 Þú mátt aldrei sofna á verðinum eins og Davíð konungur gerði einu sinni. Dag einn var hann uppi á þaki hallar sinnar og kom auga á hina fögru Batsebu sem var að baða sig spölkorn frá. Hann hélt áfram að horfa í stað þess að líta undan áður en rangar hugsanir komu upp í hjarta hans. Löngun hans til að hafa kynmök við Batsebu varð svo sterk að hann lét færa hana í höll sína. Þegar hún síðar varð barnshafandi og honum tókst ekki að breiða yfir hjúskaparbrot þeirra, bjó hann svo um hnútana að maðurinn hennar félli í bardaga. — 2. Samúelsbók 11:1-17.

10. (a) Hvernig var Davíð refsað fyrir synd sína? (b) Hvað hefði getað hindrað hann í að fremja hjúskaparbrot?

10 Synd Davíðs var sannarlega mikil og hann átti eftir að þjást fyrir hana. Davíð varð örvilnaður út af því sem hann hafði gert og auk þess refsaði Jehóva honum með erfiðleikum í fjölskyldunni það sem eftir var ævinnar. (Sálmur 51:5, 6; 2. Samúelsbók 12:10-12) Hjarta Davíðs var svikulla en hann hafði gert sér grein fyrir; rangar langanir hans yfirbuguðu hann. Síðar sagði hann: „Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ (Sálmur 51:7) En syndin, sem Davíð drýgði með Batsebu, þurfti ekki að eiga sér stað. Hann gerði þau mistök að halda áfram að horfa á hana; hann forðaðist ekki þær aðstæður sem komu honum til að girnast annars manns konu.

11. (a) Hvað ættum við að læra af reynslu Davíðs? (b) Hvað getur að þínu mati vakið upp „losta“? (c) Hvað er hyggilegt að forðast eins og sautján ára unglingur sagði?

11 Við ættum að læra það af reynslu Davíðs að vera á verði gagnvart þeim aðstæðum sem geta örvað rangar, kynferðislegar langanir. Hvað gerist til dæmis ef þú lest bækur eða horfir á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem leggja áherslu á kynlíf? Líklega örvar það kynhvöt þína. Forðastu því athafnir og skemmtanir sem geta vakið með þér „losta.“ (Kólossubréfið 3:5; 1. Þessaloníkubréf 4:3-5; Efesusbréfið 5:3-5) Komdu þér ekki í þær aðstæður með annarri manneskju sem geta leitt til siðleysis. Sautján ára unglingur sagði þessi viturlegu orð: „Allir geta sagt: ‚Við vitum hvenær við eigum að hætta.‘ Að vísu er hægt að vita hvenær, en hversu margir geta gert það? Það er betra að forðast slíkar aðstæður.“

12. Hvaða fordæmi Jósefs ættum við að hafa í huga?

12 Hefði Davíð haft fordæmi Jósefs í huga hefði hann aldrei drýgt þessa miklu synd gegn Guði. Í Egyptalandi hafði Jósef verið gerður ráðsmaður í húsi Pótífars. Meðan Pótífar var að heiman reyndi vergjörn eiginkona hans að táldraga Jósef sem var myndarlegur, ungur maður. Hún sagði: „Leggstu með mér.“ Jósef neitaði. Dag einn greip hún í hann og reyndi að fá hann til að leggjast með sér. Jósef sleit sig lausan og forðaði sér. Hann styrkti hjarta sitt með því að hugsa ekki um að fullnægja kynferðislöngunum sínum heldur að gera það sem rétt væri í augum Guðs. „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ spurði hann. — 1. Mósebók 39:7-12.

HJÁLPIN SEM ÞÚ ÞARFT TIL AÐ SIGRA

13, 14. (a) Hvers er þörf til að sigra í þessari baráttu? (b) Hvaða breytingu tóku þeir sem gerðust kristnir menn í Korintu, og hvað hjálpaði þeim? (c) Hvers konar menn höfðu Páll og Títus verið?

13 Til að sigra í þessari baráttu þarft þú að láta biblíuþekkingu þína festa rætur í hjarta þér þannig að það knýi þig til að lifa eftir henni. En þú þarft líka að hafa samfélag við fólk Guðs, verða hluti af skipulagi Jehóva. Þú getur breytt þér með hjálp þess, óháð því hversu djúpt þú hefur verið sokkinn í ranga breytni. Páll postuli skrifaði eftirfarandi um fólk í Korintu til forna sem hafði breytt sér: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.

14 Hugsaðu þér! Sumir þessara frumkristnu manna höfðu áður verið saurlífismenn, kynvillingar, þjófar og drykkjumenn, en með hjálp kristna safnaðarins breyttu þeir sér. Páll postuli hafði sjálfur gert margt rangt áður fyrr. (1. Tímóteusarbréf 1:15) Hann skrifaði einum trúbræðra sinna, Títusi: „Því að þeir voru tímarnir, að vér vorum einnig óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda.“ — Títusarbréfið 3:3.

15. (a) Hvað sýnir að Páll átti ekki auðvelt með að gera það sem rétt var? (b) Hvað getum við lært af fordæmi Páls?

15 Átti Páll auðvelt með að gera það sem rétt var þegar hann tók kristna trú? Nei, Páll þurfti að heyja ævilanga baráttu gegn þeim röngu tilhneigingum og löngunum sem áður höfðu gert hann að þræli sínum. Hann skrifaði: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur vera gjörður rækur.“ (1. Korintubréf 9:27) Páll var harður við sjálfan sig. Hann neyddi sig til að gera það sem var rétt, jafnvel þótt líkama hans langaði stundum til að gera eitthvað rangt. Þú getur líka unnið sigur í baráttunni ef þú gerir eins og hann.

16. Hvaða nútímadæmi geta hjálpað okkur að sigra í baráttunni að gera það sem rétt er?

16 Eigir þú erfitt með að sigrast á einhverjum slæmum ósið skalt þú sækja næsta meiriháttar mót votta Jehóva. Sennilega mun hreinlífi og gleði viðstaddra hafa djúp áhrif á þig. En margir þeirra voru einu sinni hluti af þessum heimi þar sem saurlífi, hjúskaparbrot, drykkjuskapur, kynvilla, reykingar, fíkniefnaánauð, þjófnaður, svik, lygar og fjárhættuspil er svo algengt. Margir þeirra iðkuðu eitthvað af því áður. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Og þegar þú hefur félagsskap við votta Jehóva á hinum smærri safnaðarsamkomum, sem þú ættir ekki að láta dragast, verður þú meðal manna sem hafa þurft að berjast til að yfirstíga sömu langanir og athafnir sem þú ert að berjast við. Vertu því hugrakkur! Þeir eru sigursælir í baráttunni að gera það sem rétt er, og það getur þú líka verið með Guðs hjálp.

17. (a) Hvaða félagsskapur er nauðsynlegur til að sigra í baráttunni? (b) Hverjir geta hjálpað þér ef þú átt við vandamál að stríða?

17 Hafir þú numið Biblíuna um skeið með vottum Jehóva hefur þú vafalítið sótt samkomur í Ríkissalnum. Gerðu það að venju að sækja þær. Við höfum öll þörf fyrir þá andlegu hvatningu sem samveran við aðra kristna menn er okkur. (Hebreabréfið 10:24, 25) Kynnstu ‚öldungunum‘ í söfnuðinum, þeir hafa þá ábyrgð að ‚gæta hjarðar Guðs.‘ (1. Pétursbréf 5:1-3, Ísl. bi. 1912; Postulasagan 20:28) Hikaðu ekki við að leita til þeirra ef þú þarfnast hjálpar til að sigrast á einhverjum ávana sem brýtur í bága við lög Guðs. Þú munt uppgötva að þeir eru vingjarnlegir, kærleiksríkir og tillitssamir. — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.

18. Hvaða framtíðarhorfur geta styrkt þig til að halda baráttunni áfram?

18 Bæði heimur Satans og okkar syndugu tilhneigingar innra með okkur reyna að fá okkur til að gera það sem rangt er. Að vera Guði trúr er því dagleg barátta. Til allrar hamingju þarf baráttan þó ekki að standa að eilífu! Brátt verður Satan rutt úr vegi og allt óguðlegt kerfi hans þurrkað út. Í nýrri skipan Guðs, sem er í nánd, verður réttlætið ríkjandi og það mun gera okkur tilveruna miklu auðveldari. Að því kemur að syndin hverfur fyrir fullt og allt og enginn þarf lengur að heyja þessa hörðu baráttu til að gera það sem rétt er.

19. Hvers vegna ættir þú að vera fús til að leggja hvað sem er á þig til að þóknast Jehóva?

19 Hugsaðu oft um þá blessun sem mun veitast í hinni nýju skipan. Klæddu þig „von hjálpræðisins sem hjálmi.“ (1. Þessaloníkubréf 5:8) Megir þú hafa sama hugarfar og unga konan sem sagði: „Ég hugsa um allt sem Jehóva hefur gert fyrir mig og lofað. Hann hefur ekki gefist upp á mér. Hann hefur blessað mig á svo marga vegu. Ég veit að hann vill mér aðeins hið besta og ég vil þóknast honum. Eilíft líf er virði hvaða erfiðis sem er.“ Ef við erum trúföst og ástundum réttlæti munum við sjá rætast ‚öll þau góðu fyrirheit sem Jehóva hefur gefið‘ þeim sem elska hann. — Jósúabók 21:45.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 219]

Hvers vegna sneri Móse baki við lífsháttum Egypta til forna, úr því að þeir veittu mönnum unað?

[Mynd á blaðsíðu 220, 221]

Davíð hélt áfram að horfa; hann forðaðist ekki þær aðstæður sem leiddu hann út í siðleysi.

[Mynd á blaðsíðu 222]

Jósef flúði þegar kona Pótífars hafði í frammi siðlausa tilburði við hann.