Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Endalok veraldar‘ eru í nánd!

‚Endalok veraldar‘ eru í nánd!

18. kafli

‚Endalok veraldar‘ eru í nánd!

1. Hvernig gætu fylgjendur Krists á jörðinni vitað hvenær hann hefði tekið völd á himnum?

 ÞEGAR JESÚS KRISTUR varpaði Satan og englum hans niður af himnum og tók völd sem konungur þýddi það að endalok Satans og hans illa kerfis væru í nánd. (Opinberunarbókin 12:7-12) En hvernig gætu fylgjendur Krists á jörðinni vitað að þessi atburður hefði gerst á himnum, ósýnilegur augum þeirra? Hvernig gætu þeir vitað að Kristur væri ósýnilega nærverandi sem konungur Guðsríkis og að ‚endalok veraldar‘ væru í nánd? Þeir gætu vitað það með því að athuga hvort ‚táknið,‘ sem Jesús sagði fyrir um, væri að koma fram.

2. Hvers spurðu lærisveinar Krists hann?

2 Skömmu fyrir dauða sinn sat Jesús á Olíufjallinu og komu þá fjórir af postulunum til hans og báðu hann um „tákn.“ Spurning þeirra er orðuð svo í íslensku biblíunni: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) En hvað merkja í raun og veru orðin ‚koma þín,‘ og ‚endalok veraldar‘?

3. (a) Hvað merkir orðalagið ‚koma þín,‘ og ‚endalok veraldar‘ í raun og veru? (b) Hvernig hljóðar þá spurning lærisveinanna í réttri þýðingu?

3 Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚koma,‘ er parousia og merkir „nærvera.“ Þegar því ‚táknið‘ sést merkir það að Kristur sé nærverandi enda þótt hann sjáist ekki, að hann sé þegar kominn sem konungur Guðsríkis. Orðalagið ‚endalok veraldar‘ eða „heimsendir“ er líka mjög villandi. Með því er ekki átt við endalok jarðarinnar heldur endalok þess kerfis sem Satan hefur byggt upp. (2. Korintubréf 4:4) Spurning postulanna var því þessi, sé hún nákvæmlega þýdd: „Segðu okkur, hvenær verður þetta og hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ — Matteus 24:3, New World Translation.

4. (a) Hvað myndar ‚táknið‘ sem Jesús lýsti? (b) Hvernig má líkja ‚tákninu‘ við fingrafar?

4 Jesús nefndi ekki aðeins einn atburð sem „tákn“ heldur sagði frá mörgum atburðum og aðstæðum. Aðrir biblíuritarar en Matteus nefna ýmsa fleiri viðburði sem skyldu einkenna hina ‚síðustu daga.‘ Allt var þetta sagt myndu gerast á þeim tíma sem biblíuritararnir kölluðu ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:3, 4) Þessir atburðir yrðu eins og hinir ýmsu drættir sem mynda fingrafar einhvers manns, fingrafar sem enginn annar getur haft. Hinir ‚síðustu dagar‘ hafa sína eigin drætti eða atburði. Þeir mynda ákveðið „fingrafar“ sem ekkert annað tímabil getur haft.

5, 6. Hvað verður þér ljóst viðvíkjandi ‚endalokum heimskerfisins‘ þegar þú skoðar á næstu blaðsíðum ellefu sönnunargögn fyrir því að við lifum á hinum „síðustu dögum“?

5 Í 16. kafla þessarar bókar skoðuðum við biblíulegar sannanir fyrir því að Kristur hafi snúið aftur og tekið við konungdómi mitt á meðal óvina sinna árið 1914. Skoðaðu nú vandlega hina ýmsu þætti ‚táknsins‘ um nærveru Krists og frekari sannanir fyrir því að ‚síðustu dagar‘ hins illa kerfis Satans standi yfir. Taktu eftir, þegar þú skoðar þessa atburði og kringumstæður á næstu fjórum blaðsíðum, hvernig þær hafa uppfyllst frá 1914.

 „ÞJÓÐ MUN RÍSA GEGN ÞJÓÐ OG RÍKI GEGN RÍKI.“ — Matteus 24:7.

 Vissulega hefur þú séð þennan hluta ‚táknsins‘ uppfyllast frá 1914! Fyrri heimsstyrjöldin braust út það ár. Aldrei áður hafði verið háð jafnskelfileg styrjöld í sögu mannkynsins. Hún var allsherjarstyrjöld. Fyrri heimsstyrjöldin var langtum umfangsmeiri en allar meiriháttar styrjaldir sem háðar höfðu verið í 2400 ár fyrir 1914. En ekki leið nema 21 ár frá lokum hennar þar til síðari heimsstyrjöldin hófst. Hún olli fjórfalt meira tjóni en fyrri heimsstyrjöldin.

 Enn eru háðar hræðilegar styrjaldir. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945 hafa yfir 25 milljónir manna fallið í um 150 styrjöldum sem hafa verið háðar víðs vegar um hnöttinn. Að meðaltali hafa dag hvern verið háðar 12 styrjaldir einhvers staðar í heiminum. Og menn óttast stöðugt að ný heimsstyrjöld kunni að brjótast út. Bandaríkin ein ráða yfir nægum kjarnorkuvopnum til að tortíma hverjum karli, konu og barni á jörðinni tólf sinnum!

 „ÞÁ VERÐUR HUNGUR.“ — Matteus 24:7.

 Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar kom mesta hungursneyð í sögunni. Í norðurhluta Kína dóu daglega 15.000 manns úr hungri. Matvælaskorturinn var jafnvel enn meiri eftir síðari heimsstyrjöldina. Þá svalt fjórðungur jarðarbúa! Og allar götur síðan hefur stór hluti jarðarbúa búið við þröngan kost.

 „Með 8,6 sekúndna millibili deyr einhver í vanþróuðu ríki vegna sjúkdóms af völdum vannæringar,“ sagði New York Times árið 1967. Enn deyja milljónir manna úr hungri — um 50 milljónir á ári! Árið 1980 var um fjórðungur jarðarbúa (1.000.000.000 manna) hungraður vegna þess að ekki var nægan mat að fá. Jafnvel þar sem matvæli eru næg eru margir of fátækir til að kaupa þau.

 „ÞÁ VERÐA . . . DREPSÓTTIR Á ÝMSUM STÖÐUM.“ — Lúkas 21:11.

 Rétt eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk dóu fleiri úr spænsku veikinni en höfðu áður dáið úr nokkurri farsótt í sögu mannkynsins. Alls lést um 21 milljón manna! En drepsóttir og sjúkdómar eru enn í algleymingi. Milljónir manna deyja ár hvert úr hjartasjúkdómum og krabbameini. Kynsjúkdómar eru í örum vexti. Aðrir ógnvekjandi sjúkdómar, svo sem malaría, sniglahitasótt og árblinda, geisa í einu landi af öðru, einkanlega í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku.

 ‚ÞÁ VERÐA LANDSKJÁLFTAR Á ÝMSUM STÖÐUM.‘ — Matteus 24:7.

 Frá árinu 1914 fram til þessa hafa verið fleiri meiriháttar jarðskjálftar en á nokkru öðru áþekku tímabili frá því að sögur hófust. Á rúmlega 1000 ára tímabili, frá árinu 856 til 1914, voru aðeins 24 meiriháttar jarðskjálftar sem kostuðu um 1.973.000 manns lífið. En á þeim 63 árum, sem liðu frá 1915 til 1978, létust alls um 1.600.000 manns í 43 miklum jarðskjálftum.

 „LÖGLEYSI MAGNAST.“ — Matteus 24:12.

 Úr öllum heimshlutum berast fregnir af vaxandi lögleysi og glæpum. Ofbeldisverk svo sem morð, nauðganir og rán eru nú í algleymingi. Í Bandaríkjunum einum er framinn alvarlegur glæpur að meðaltali á hverri sekúndu. Víða telja menn sig ekki óhulta á götum úti, jafnvel ekki að degi til. Að kvöldlagi er fólk heima við fyrir læstum, rammbyggðum dyrum, hrætt við að fara út.

 „MENN MUNU GEFA UPP ÖNDINA AF ÓTTA.“ — Lúkas 21:26.

 Ótti er sennilega sú tilfinning sem mest fer fyrir í lífi manna núna. Skömmu eftir að fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru sprengdar sagði kjarnvísindamaðurinn Harold C. Urey: „Við munum nærast á ótta, sofa í ótta, lifa í ótta og deyja í ótta.“ Þetta á við stóran hluta mannkynsins. Ástæðan er ekki aðeins hinn stöðugi ótti við að kjarnorkustyrjöld brjótist út, heldur einnig ótti við glæpi, mengun, sjúkdóma, verðbólgu og margt annað sem ógnar öryggi manna og lífi.

 „FORELDRUM ÓHLÝÐNIR.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

 Nútíma foreldrar hafa oft litla stjórn á börnum sínum. Unglingar rísa öndverðir gegn hvers kyns yfirvaldi. Glæpafaraldurinn meðal unglinga snertir því öll þjóðlönd. Í sumum löndum fremja börn á aldrinum 10 til 17 ára yfir helming allra alvarlegra glæpa. Morð, nauðganir, líkamsárásir, rán, innbrot, bifreiðastuldur — börn fremja öll þessi afbrot. Sagan hefur aldrei áður séð svo almenna óhlýðni við foreldra.

 „FÉGJARNIR.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

 Hvert sem litið er blasir ágirndin við. Margir myndu gera næstum hvað sem er fyrir peninga, stela eða jafnvel fremja morð. Ekki er óalgengt að ágjarnir menn framleiði og selji varning sem vitað er að veldur öðrum heilsu- eða fjörtjóni á einn eða annan hátt. Menn segja um peningana, annaðhvort opinskátt eða með líferni sínu: ‚Þetta er minn guð.‘

 „ELSKANDI MUNAÐARLÍFIÐ MEIRA EN GUÐ.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

 Flestir hugsa aðeins um að þóknast sjálfum sér eða fjölskyldu sinni, ekki Guði. Einkum elska margir það sem Guð fordæmir, þar á meðal saurlifnað, hjúskaparbrot, drykkjuskap, fíkniefnanotkun og aðrar svokallaðar unaðsemdir. Jafnvel afþreying og unaðsemdir, sem í sjálfu sér geta verið heilnæmar, eru teknar fram yfir viðleitni til að kynnast Guði og þjóna honum.

 „ÞEIR HAFA Á SÉR YFIRSKYN GUÐHRÆÐSLUNNAR, EN AFNEITA KRAFTI HENNAR.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:5.

 Veraldarleiðtogar og almenningur reynir oft að sýnast guðhræddur út á við. Menn sækja guðsþjónustur og gefa fé til að styrkja trúarlegan málstað. Stjórnmálamenn leggja gjarnan hönd á Biblíuna þegar þeir taka við embætti. En oft er það ekki annað en „yfirskyn guðhræðslunnar.“ Eins og Biblían sagði fyrir um er sönn guðsdýrkun ekki það afl sem ræður lífi flestra. Þeir láta ekki mótast af afli sem knýr þá til góðra verka.

 ‚EYÐA JÖRÐINA.‘ — Opinberunarbókin 11:18.

 Loftið sem við öndum að okkur, vatnið sem við drekkum og jarðveginn sem fæða okkar vex í, er sífellt verið að menga. Mengunin er svo alvarleg að vísindamaðurinn Barry Commoner aðvaraði: „Ég hygg að verði haldið áfram að menga jörðina, og ekki spyrnt við fótum, fái mannlegt líf ekki þrifist á þessari reikistjörnu þegar fram líða stundir.“

6 Er þér ekki ljóst, eftir að þú hefur skoðað blaðsíðurnar hér á undan, að ‚táknið,‘ sem Kristur gaf, og sönnunargögnin, sem lærisveinar hans sögðu fyrir um, eru nú að koma fram? Enda þótt sannanirnar séu margar og fleiri, ættu þær sem hér eru tíundaðar að nægja til að sýna að við lifum í raun og sannleika þá tíma sem Biblían sagði myndu vera hinir ‚síðustu dagar.‘

7. (a) Hvað gerir spádóma Biblíunnar um nærveru Krists og hina ‚síðustu daga‘ svo eftirtektarverða? (b) Hverju spáðu veraldarleiðtogar skömmu fyrir 1914, ólíkt því sem Biblían sagði fyrir um?

7 Sumir benda þó á að styrjaldir, hungursneyð, drepsóttir og jarðskjálftar hafi oftsinnis átt sér stað í sögu mannkynsins; ekki sé því erfitt að segja fyrir um að þeir gerist aftur. En Biblían sagði ekki aðeins fyrir um þessa atburði heldur einnig að þeir myndu eiga sér stað á heimsmælikvarða. Biblían sagði líka að allt þetta myndi koma yfir kynslóðina sem var á lífi árið 1914. En hverju spáðu þekktir veraldarleiðtogar skömmu fyrir árið 1914? Þeir sögðu að aldrei hefðu verið hagstæðari skilyrði til friðar í heiminum. En hinir skelfilegu erfiðleikar, sem Biblían boðaði, hófust nákvæmlega á réttum tíma árið 1914! Veraldarleiðtogar segja nú að árið 1914 hafi orðið straumhvörf í sögu mannkynsins.

8. (a) Hvaða kynslóð gaf Jesús í skyn að myndi sjá endalok þessa heimskerfis? (b) Um hvað getum við þess vegna verið örugg?

8 Eftir að Jesús hafði dregið athyglina að þeim mörgu atburðum, sem hafa einkennt tímabilið frá 1914, sagði hann: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta [þar á meðal endalok þessa heimskerfis] er komið fram.“ (Matteus 24:34, 14) Hvaða kynslóð átti Jesús við? Hann átti við þá kynslóð manna sem var uppi árið 1914. Þeir sem enn lifa af þeirri kynslóð eru nú háaldraðir. En sumir þeirra munu lifa það að sjá þetta illa kerfi taka enda. Við getum því verið viss um að innan skamms verður öll mannvonska og óguðlegir menn skyndilega afmáðir í Harmagedón.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 149]

Jesús sagði lærisveinum sínum hver yrði sýnileg sönnun þess að hann væri ósýnilega nærverandi sem konungur Guðsríkis.

[Mynd á blaðsíðu 154]

1914 - HARMAGEDÓN

Sumir af kynslóðinni, sem lifði árið 1914, munu sjá endalok heimskerfisins og lifa þau af.