Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Biblían í raun og veru frá Guði?

Er Biblían í raun og veru frá Guði?

5. kafli

Er Biblían í raun og veru frá Guði?

1. Hvers vegna er skynsamlegt að ætla að Guð gefi okkur vitneskju um sjálfan sig?

 HEFUR Jehóva Guð gefið okkur vitneskju um sjálfan sig? Hefur hann sagt okkur hvað hann hefur gert og ætlar sér að gera? Faðir, sem elskar börnin sín, segir þeim margt, og það sem við höfum séð sýnir að Jehóva er ástríkur faðir.

2. (a) Hver væri besta leið Jehóva til að segja okkur frá sjálfum sér? (b) Hvaða spurningar vekur það?

2 Hvernig gat Jehóva miðlað mönnum, sem bjuggu víðs vegar um jörðina á mismunandi tímum, upplýsingum? Einhver heppilegasta leiðin væri sú að láta skrifa bók og sjá til þess að hún yrði öllum aðgengileg. Er Biblían slík bók frá Guði? Hvernig getum við vitað hvort hún er það?

ENGIN ÖNNUR BÓK ER EINS OG BIBLÍAN

3. Nefnið dæmi um það hvernig Biblían er einstök bók.

3 Ef Biblían er í raun og veru frá Guði getum við ætlast til að hún beri af öllum bókum sem skrifaðar hafa verið. Gerir hún það? Já, það gerir hún á margan hátt. Í fyrsta lagi er hún afar gömul enda varla við því að búast að orð Guðs til alls mannkynsins sé ritað nýverið. Byrjað var að skrifa hana fyrir um það bil 3500 árum á hebreskri tungu. Fyrir rúmlega 2200 árum var síðan farið að þýða hana á önnur tungumál. Nú getur næstum hver einasti jarðarbúi lesið Biblíuna á sínu eigin móðurmáli.

4. Í hve stóru upplagi hefur Biblíunni verið dreift í samanburði við aðrar bækur?

4 Engin önnur bók kemst í námunda við Biblíuna hvað útbreiðslu áhrærir. Bók er stundum kölluð „metsölubók“ ef hún selst í nokkrum þúsundum eintaka. En árlega eru prentaðar margar milljónir eintaka af Biblíunni. Og samanlagt hafa verið prentaðar þúsundir milljóna af henni! Sá staður er tæpast til á jörðinni, hversu einangraður sem hann er, þar sem Biblíuna er ekki að finna. Er ekki eðlilegt að vænta slíks af bók sem er frá Guði?

5. Hvaða tilraunir hafa verið gerðar til að eyðileggja Biblíuna?

5 Þessi mikla útbreiðsla Biblíunnar er einstök fyrir þá sök að óvinir hennar hafa reynt að eyðileggja hana. En er ekki við því að búast að sendimenn djöfulsins reyni að koma bók, sem er frá Guði, fyrir kattarnef? Það hefur gerst. Áður fyrr voru biblíubrennur tíðir viðburðir, og þeim sem voru staðnir að því að lesa Biblíuna var oft refsað með lífláti.

6. (a) Hvaða mikilvægum spurningum svarar Biblían? (b) Hvaðan segjast biblíuritararnir hafa fengið vitneskju sína?

6 Þú munt ætlast til að bók frá Guði ræði mikilvæg málefni sem við öll ættum að vilja vita. ‚Hvaðan kom lífið?‘ ‚Hvers vegna erum við hér?‘ ‚Hvað ber framtíðin í skauti sér?‘ eru dæmi um þær spurningar sem hún svarar. Og hún segir skýrt og greinilega að vitneskjan, sem hún hefur að geyma, sé frá Jehóva Guði. Einn biblíuritaranna sagði: „Andi [Jehóva] talaði í mér og hans orð er á minni tungu.“ (2. Samúelsbók 23:2) Annar skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Úr því að Biblían segir svona afdráttarlaust að hún sé orð Guðs hlýtur að vera hyggilegt að kanna hvort hún er það.

HVERNIG BIBLÍAN VAR RITUÐ

7. (a) Hverjir skrifuðu Biblíuna? (b) Hvernig er þá hægt að segja að hún sé orð Guðs?

7 ‚En hvernig getur Biblían verið frá Guði fyrst menn skrifuðu hana?‘ spyrð þú kannski. Það er að vísu rétt að um 40 menn áttu þátt í að skrifa Biblíuna. Þeir færðu texta hennar í letur að undanskildum boðorðunum tíu sem Guð beitti heilögum anda sínum til að skrifa sjálfur á steintöflur. (2. Mósebók 31:18) En það sem þeir skrifuðu er ekkert síður orð Guðs fyrir það. Biblían útskýrir: „ . . . töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:21) Guð beitti sínum máttuga, heilaga anda til að stýra ritun Biblíunnar alveg eins og hann notaði hann til að skapa himininn og jörðina og allar lífverur.

8, 9. Hvaða dæmi úr nútímanum geta hjálpað okkur að skilja hvernig Guð lét skrifa Biblíuna?

8 Þetta þýðir að höfundur Biblíunnar er aðeins einn, Jehóva Guð. Hann notaði menn til að færa upplýsingarnar í letur alveg eins og kaupsýslumaður lætur einkaritara sinn skrifa bréf. Einkaritarinn skrifar bréfið, en í því standa hugsanir og hugmyndir kaupsýslumannsins. Þess vegna er bréfið frá honum, ekki einkaritaranum, alveg eins og Biblían er bók Guðs, ekki bók mannanna sem voru notaðir til að skrifa hana.

9 Guð skapaði mannshugann og á varla í neinum erfiðleikum með að komast í samband við hugi þjóna sinna, til að sjá þeim fyrir vitneskju til að færa í letur. Nú á dögum geta menn setið heima í stofu hjá sér og heyrt og séð í útvarpi eða sjónvarpi upplýsingar sem eru sendar langt að. Raddirnar eða myndirnar eru sendar um langan veg með hjálp náttúrulögmála sem Guð skapaði. Þess vegna er auðskilið að Jehóva gat, frá fjarlægum bústað sínum á himnum, leiðbeint mönnum þannig að þeir skrifuðu á blað það sem hann vildi að mannkynið vissi.

10. (a) Hversu margar eru bækur Biblíunnar, og á hvaða tímabili voru þær skrifaðar? (b) Hver er rauði þráðurinn í gegnum Biblíuna alla?

10 Frá þessu hefur orðið til stórfengleg bók. Í raun réttri er Biblían safn 66 lítilla bóka. Orðið biblía er komið beint af gríska orðinu biblía sem merkir „litlar bækur.“ Þessar bækur, eða bréf, voru skrifaðar á 1600 ára tímabili, frá árinu 1513 fyrir okkar tímatal til ársins 98 eftir okkar tímatali, en höfundur þeirra allra var aðeins einn og þess vegna eru þær allar í samræmi hver við aðra. Í gegnum þær allar er sami, rauði þráðurinn, það er að Jehóva Guð muni láta ríki sitt koma á réttlæti á jörðinni á nýjan leik. Fyrsta bókin, 1. Mósebók, segir frá því hvernig uppreisn gegn Guði varð til þess að paradísarheimili mannsins glataðist, og síðasta bókin, Opinberunarbókin, lýsir hvernig jörðin verður aftur gerð að paradís undir stjórn Guðs. — 1. Mósebók 3:19, 23; Opinberunarbókin 12:10; 21:3, 4.

11. (a) Á hvaða tungumálum var Biblían skrifuð? (b) Í hvaða tvo meginhluta má skipta Biblíunni, en hvað sýnir að þeir eiga saman?

11 Fyrstu 39 bækur Biblíunnar voru að mestu ritaðar á hebresku, en örlítill hluti á arameísku. Síðustu 27 bækurnar voru skrifaðar á grísku, hinu almenna alþjóðatungumáli sem var á þeim tíma þegar Jesús og kristnir fylgjendur hans voru á jörðinni. Þessa tvo hluta Biblíunnar má með réttu kalla „Hebresku ritningarnar“ og „Grísku ritningarnar.“ Það ber glöggt vitni um samræmi þessara tveggja meginhluta Biblíunnar að Grísku ritningarnar vitna í Hebresku ritningarnar yfir 365 sinnum, og vísa óbeint til þeirra um 375 sinnum.

BIBLÍAN GERÐ ÖLLUM FÁANLEG

12. Hvers vegna lét Jehóva gera afrit af Biblíunni?

12 Hvernig gætu allir lesið orð Guðs ef einungis frumritin væru til? Það væri ekki hægt. Jehóva bjó því svo um hnútana að gerð voru afrit af hebresku frumritunum. (5. Mósebók 17:18) Nefna má sem dæmi að Esra er kallaður „fræðimaður [leikinn skrifari], vel að sér í Móselögum, er [Jehóva], Ísraels Guð, hefir gefið.“ (Esra 7:6) Enn fremur voru gerð mörg þúsund afrit af Grísku ritningunum.

13. (a) Hvað þurfti að gera til að sem flestir gætu lesið Biblíuna? (b) Hvenær var fyrsta þýðing Biblíunnar gerð?

13 Lest þú hebresku eða grísku? Ef svo er ekki getur þú ekki lesið hin fornu, handskrifuðu afrit af Biblíunni sem sum hver eru til enn þann dag í dag. Til að þú getir lesið Biblíuna þarf einhver að snúa orðunum yfir á tungumál sem þú þekkir. Þessi þýðing úr einu tungumáli á annað hefur gefið fleirum tækifæri til að lesa orð Guðs. Um það bil 300 árum fyrir daga Jesú varð gríska að eins konar alþjóðamáli sem flestir töluðu. Því var byrjað að þýða Hebresku ritningarnar á grísku árið 280 f.o.t. Þessi forna þýðing var kölluð „Sjötíumannaþýðingin,“ „Septuaginta.“

14. (a) Hvers vegna börðust sumir trúarleiðtogar gegn því að Biblían yrði þýdd? (b) Hvað sýnir að þeir töpuðu baráttunni?

14 Löngu síðar varð latína að almennu máli mikils fjölda manna og Biblían var þýdd á latínu. En þegar aldir liðu fækkaði þeim sífellt sem töluðu latínu. Flestir töluðu þá önnur tungumál svo sem arabísku, frönsku, spænsku, portúgölsku, ítölsku, þýsku, ensku og norrænu. Um hríð háðu trúarleiðtogar kaþólskra harða baráttu gegn því að Biblían yrði þýdd á mál sem almenningur skildi. Þeir brenndu menn jafnvel á báli fyrir að eiga Biblíuna, vegna þess að hún afhjúpaði falskar kenningar og vond verk kirkjunnar. En um síðir urðu trúarleiðtogarnir að láta í minni pokann og farið var að þýða Biblíuna á fjölda tungumála og dreifa í stóru upplagi. Nú er Biblían fáanleg í heild eða að hluta til á meira en 1700 tungumálum!

15. Hvers vegna er gott að gerðar eru nýjar þýðingar af Biblíunni?

15 Þegar tímar liðu voru gerðar margar mismunandi þýðingar á Biblíunni á sama tungumáli. Á ensku eru til dæmis til tugir biblíuþýðinga. Hvers vegna? Nægir ekki ein? Ekki má gleyma að með tímanum taka tungumál miklum breytingum. Berir þú saman gamlar biblíuþýðingar og nýjar tekur þú eftir að málið hefur breyst. Enda þótt hugsunin í þeim sé hin sama sérð þú að þær þýðingar, sem gerðar hafa verið fremur nýlega, eru auðskildari en hinar eldri. Við megum því vera þakklát fyrir nýjar biblíuþýðingar, vegna þess að þær koma orði Guðs til skila á almennu, auðskildu máli samtíðarinnar.

HEFUR BIBLÍAN BREYST?

16. Hvers vegna halda sumir að Biblíunni hafi verið breytt?

16 Vera má að þú spyrjir hvernig við getum treyst að Biblían, sem við höfum nú, hafi að geyma sömu vitneskjuna og biblíuritararnir fengu frá Guði. Hafa ekki slæðst inn mistök við afritun og endurafritun bóka Biblíunnar um hundruð eða jafnvel þúsundir ára? Jú, en þessi mistök hafa fundist og verið leiðrétt í nútímaþýðingum Biblíunnar. Sú vitneskja, sem stendur í nútíma biblíuþýðingum, er sú sama og Guð gaf þeim sem skráðu hana fyrst. Hvaða sönnun er fyrir því?

17. Hvað bendir til að Biblíunni hafi ekki verið breytt?

17 Á árunum 1947 til 1955 fundust handrit sem eru kölluð Dauðahafshandritin. Meðal þessara fornu bókrolla voru afrit af bókum Hebresku ritninganna. Þau voru frá því 100 til 200 árum fyrir fæðingu Jesú. Ein þessara bókrolla er afrit af bók Jesaja. Áður en hún fannst var elsta afrit Jesajabókar, sem til var á hebresku, frá því nálægt þúsund árum eftir fæðingu Jesú! Þegar þessi tvö afrit Jesajabókar voru borin saman kom í ljós að munurinn var sáralítill, og oftast fólginn í lítillega breyttri stafsetningu! Á meira en þúsund ára tímabili, sem bókin hafði verið afrituð, hafði hún í rauninni ekkert breyst!

18. (a) Hvernig hafa mistök afritara verið leiðrétt? (b) Hvað má segja um nákvæmni Grísku ritninganna?

18 Til eru yfir 1700 forn afrit ýmissa hluta Hebresku ritninganna. Með nákvæmum samanburði á þessum mörgu, ævafornu handritum er hægt að finna og leiðrétta jafnvel þau fáu mistök sem afritararnir gerðu. Einnig eru til þúsundir mjög gamalla handrita af Grísku ritningunum, sum hver næstum frá dögum Jesú og postula hans. Þess vegna sagði Sir Frederick Kenyon: „Stoðunum hefur verið kippt undan síðustu efasemdunum um að Ritningin hafi borist okkur næstum eins og hún var rituð.“ — The Bible and Archaeology (Biblían og fornleifafræðin), bls. 288, 289.

19. (a) Nefnið dæmi um tilraun til að bæta við Biblíuna. (b) Hvers vegna á 1. Jóhannesarbréf 5:7, eins og það er orðað í sumum biblíum, ekki heima í Biblíunni?

19 Einstaka tilraunir hafa þó verið gerðar til að breyta orði Guðs. Eftirtektarvert dæmi er 1. Jóhannesarbréf 5:7. Þar stendur í íslensku Biblíunni frá 1981: „Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. . . . ].“ En orðin innan hornklofanna er ekki að finna í neinum af elstu handritum Biblíunnar. Þau eru viðbót einhvers sem vildi reyna að styðja þrenningarkenninguna. Úr því að ljóst er að þessi orð eru í rauninni ekki hluti af orði Guðs hefur textinn verið leiðréttur og þau standa í fæstum nýlegum biblíuútgáfum.

20. Hvers vegna getum við treyst að Biblían hafi varðveist óspillt?

20 Sá sem segir að Biblían hafi ekki að geyma sömu vitneskjuna og hún hafði í upphafi, þegar hún var skrifuð, er hreinlega ekki kunnugur staðreyndunum. Jehóva Guð hefur séð til þess að orð hans hafi verið verndað, ekki aðeins gegn mistökum afritara, heldur einnig tilraunum annarra til að bæta við það. Í Biblíunni sjálfri er að finna loforð Guðs fyrir því að orð hans verði varðveitt hreint og óspillt fram til okkar daga. — Sálmur 12:7, 8; Daníel 12:4; 1. Pétursbréf 1:24, 25; Opinberunarbókin 22:18, 19.

ER BIBLÍAN Í RAUN OG VERU SÖNN?

21. Hvernig leit Jesús á orð Guðs?

21 Jesús Kristur sagði í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Á þessi fullyrðing sér stoð í veruleikanum? Komumst við að þeirri niðurstöðu að Biblían sé í raun og veru sannleikur þegar við skoðum hana gaumgæfilega? Sagnfræðingar, sem hafa athugað Biblíuna, hafa oft undrast nákvæmni hennar. Í Biblíunni er að finna ákveðin nöfn og smáatriði sem hægt er að staðfesta. Athugum nokkur dæmi.

22-25. Nefnið fáein dæmi sem sýna að Biblían er nákvæmt sagnfræðirit.

22 Líttu á myndirnar og áletrunina á þessum musterisvegg í Karnak í Egyptalandi. Þær segja frá sigri Sísaks Faraós yfir Júdaríki á dögum Rehabeams Salómonssonar, fyrir nálega 3000 árum. Biblían skýrir frá sama atburði. — 1. Konungabók 14:25, 26.

23 Líttu einnig á Móabítasteininn. Steinninn sjálfur er geymdur í Louvre safninu í París. Áletrunin greinir frá uppreisn Mesa, konungs í Móab, gegn Ísrael. Biblían segir líka frá þessum atburði. — 2. Konungabók 1:1; 3:4-27.

24 Á myndinni lengst til hægri er Sílóamlaug og endi 533 metra langra vatnsganga í Jerúsalem. Margir, sem hafa heimsótt Jerúsalem á síðari árum, hafa vaðið eftir vatnsgöngunum endilöngum. Tilvist þeirra er enn ein sönnun um sannsögli Biblíunnar. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían skýrir svo frá að Hiskía konungur hafi látið gera þessi göng fyrir meira en 2500 árum, til að sjá borginni fyrir vatni þegar óvinaher settist um hana. — 2. Konungabók 20:20; 2. Kroníkubók 32:2-4, 30.

25 Á safninu British Museum í London má sjá Nabónídusarkróníku sem er hér á myndinni til hægri. Hún lýsir falli Babýlonar til forna eins og Biblían gerir einnig. (Daníel 5:30; 6:1) En Biblían segir að Belsasar hafi þá verið konungur Babýlonar. Nabónídusarkróníka segir ekki aukatekið orð um Belsasar. Allar fornar heimildir, sem þekktar voru til skamms tíma, sögðu að Nabónídus hefði verið síðasti konungur Babýlonar. Þeir sem sögðu að Biblían væri ekki sönn fullyrtu því að Belsasar hefði aldrei verið til og Biblían færi með rangt mál. En á síðari árum hafa fundist fornar áletranir sem skýra frá því að Belsasar hafi verið sonur Nabónídusar og meðstjórnandi föður síns í Babýlon á þeim tíma! Já, Biblían er í raun og veru sönn eins og ótal dæmi sanna.

26. Hvað sýnir að Biblían er vísindalega nákvæm?

26 Biblían er nákvæm ekki aðeins í sagnfræðilegum atriðum. Allt sem hún segir er satt. Meira að segja þegar hún drepur á vísindi er hún stórkostlega nákvæm. Tökum aðeins tvö dæmi. Til forna var sú skoðun almenn að jörðin hvíldi á einhverri sýnilegri undirstöðu, svo sem á bakinu á risa. En í fullkomnu samræmi við vitnisburð vísindanna segir Biblían að Guð láti „jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Og í stað þess að segja jörðina flata, eins og margir álitu fyrrum, segir Biblían að Guð sitji „hátt yfir jarðarkringlunni.“ — Jesaja 40:22.

27. (a) Hver er besta sönnunin fyrir því að Biblían sé frá Guði? (b) Hvað sögðu Hebresku ritningarnar fyrir um son Guðs?

27 En besta sönnun þess að Biblían sé í raun og veru frá Guði er það hvernig hún segir nákvæmlega frá ókomnum atburðum. Engin bók frá mönnum segir nákvæmlega frá mannkynssögunni áður en hún gerist; en það gerir Biblían. Hún er full af nákvæmum spádómum, já, sögu ritaðri áður en atburðirnir gerðust. Eitthvert eftirtektarverðasta dæmið um það eru spádómarnir um komu sonar Guðs til jarðar. Hebresku ritningarnar sögðu nákvæmlega fyrir um það, með margra alda fyrirvara, að hinn fyrirheitni myndi fæðast í Betlehem, hann myndi fæðast af mey, hann yrði talinn með syndurum, að ekkert bein í líkama hans yrði brotið, að hlutkesti yrði varpað um flíkur hans, og fjölda annarra smáatriða. — Míka 5:1; Matteus 2:3-9; Jesaja 7:14; Matteus 1:22, 23; Sakaría 11:12, 13; Matteus 27:3-5; Jesaja 53:12; Lúkas 22:37, 52; 23:32, 33; Sálmur 34:21; Jóhannes 19:36; Sálmur 22:19; Matteus 27:35.

28. (a) Hvers vegna getum við treyst að jafnvel þeir biblíuspádómar, sem enn hafa ekki ræst, muni rætast? (b) Um hvað mun áframhaldandi biblíunám sannfæra þig?

28 Eins og sagt var í fyrsta kafla þessarar bókar spáir Biblían því einnig að þetta gamla heimskerfi muni brátt taka enda og réttlát, ný skipan koma þess í stað. (Matteus 24:3-14; 2. Pétursbréf 3:7, 13) Getum við treyst slíkum spádómum sem enn hafa ekki uppfyllst? Ef einhver segði þér sannleikann hundrað sinnum myndir þú tæplega véfengja orð hans þegar hann segði þér eitthvað nýtt. Myndir þú gera það ef þú hefðir aldrei staðið hann að ósannsögli? Það væri mjög órökrétt! Engin ástæða er heldur til að véfengja neitt af því sem Guð lofar í Biblíunni. Við getum treyst orði hans! (Títusarbréfið 1:2) Þegar þú heldur áfram námi þínu í Biblíunni munu staðreyndirnar líka sannfæra þig æ betur um að Biblían sé í rauninni frá Guði.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 49]

Guð lét menn skrifa Biblíuna líkt og kaupsýslumaður lætur ritara skrifa bréf.

[Mynd á blaðsíðu 50]

Sumir kirkjuleiðtogar börðust gegn því að Biblían kæmist í hendur almennings, og brenndu jafnvel á báli þá sem höfðu hana undir höndum.

[Mynd á blaðsíðu 52, 53]

Jesajabók sem fannst við Dauðahafið

[Mynd á blaðsíðu 54, 55]

Musterisveggur í Karnak í Egyptalandi.

[Mynd á blaðsíðu 55]

Móabítasteinninn

[Mynd á blaðsíðu 55]

Nabónídusarkróníka

[Mynd á blaðsíðu 55]

Sílóamlaug og endinn á vatnsleiðslu Hiskía.