Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru boðorðin tíu bindandi fyrir okkur?

Eru boðorðin tíu bindandi fyrir okkur?

24. kafli

Eru boðorðin tíu bindandi fyrir okkur?

1. Hverju miðlaði Móse Ísraelsmönnum?

 HVAÐA LÖGUM vill Jehóva Guð að við hlýðum? Eigum við að halda það sem Biblían kallar ‚lögmál Móse,‘ eða oft aðeins ‚lögmálið‘? (1. Konungabók 2:3; Títusarbréfið 3:9) Stundum kallar Biblían það ‚lögmál Jehóva‘ vegna þess að það var hann sem gaf það. (1. Kroníkubók 16:40) Móse hafði aðeins milligöngu um að koma lögmálinu til þjóðarinnar.

2. Hvernig var lögmálið samsett?

2 Í Móselögunum eru rúmlega 600 einstök lagaákvæði eða boðorð, þar á meðal grundvallarboðorðin tíu. Móse sagði: „Hann [Jehóva] bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur.“ (5. Mósebók 4:13; 2. Mósebók 2:18) En hverjum gaf Jehóva lögmálið, þar á meðal boðorðin tíu? Gaf hann það öllu mannkyninu? Hvaða tilgangi þjónaði lögmálið?

GEFIÐ ÍSRAEL Í SÉRSTÖKUM TILGANGI

3. Hvernig vitum við að lögmálið var gefið Ísraelsþjóðinni einni?

3 Lögmálið var ekki gefið öllu mannkyninu. Jehóva gerði sáttmála eða samkomulag við afkomendur Jakobs sem var faðir Ísraelsþjóðarinnar. Jehóva gaf þessari einu þjóð lögmál sitt. Það kemur glöggt fram í Biblíunni í 5. Mósebók 5:1-3 og Sálmi 147:19, 20.

4. Hvers vegna var lögmálið gefið Ísraelsþjóðinni?

4 Páll postuli varpaði fram þessari spurningu: „Til hvers var þá lögmálið?“ Já, í hvaða tilgangi gaf Jehóva Ísrael lögmál sitt? Páll svaraði: „Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. . . . Þannig hefur lögmálið orðið tyftari [eða kennari] vor, þangað til Kristur kom.“ (Galatabréfið 3:19-24, Ísl. bi. 1859) Lögmálið gegndi því sérstaka hlutverki að vernda Ísraelsþjóðina og leiðbeina henni til að hún yrði reiðubúin að taka á móti Kristi þegar hann kæmi. Þær mörgu fórnir, sem lögmálið krafðist, minntu Ísraelsmenn á að þeir væru syndarar sem þyrftu á frelsara að halda. — Hebreabréfið 10:1-4.

„KRISTUR ER ENDALOK LÖGMÁLSINS“

5. Hvað varð um lögmálið þegar Kristur kom og dó fyrir okkur?

5 Hinn fyrirheitni frelsari var vitanlega Jesús Kristur eins og engillinn tilkynnti við fæðingu hans. (Lúkas 2:8-14) Hvað varð þá um lögmálið þegar Kristur kom og færði fullkomið líf sitt að fórn? Það féll úr gildi. ‚Við erum ekki lengur undir tyftara,‘ útskýrði Páll. (Galatabréfið 3:25) Afnám lögmálsins var Ísraelsmönnum léttir. Það hafði sýnt fram á að þeir væru syndarar því að enginn þeirra gat haldið það fullkomlega. „Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins,“ sagði Páll. (Galatabréfið 3:10-14) Þess vegna segir Biblían líka: „Kristur er endalok lögmálsins.“ — Rómverjabréfið 10:4; 6:14.

6. (a) Hvaða áhrif hafði það á Ísraelsmenn og aðrar þjóðir þegar lögmálið féll úr gildi, og hvers vegna? (b) Hvað gerði Jehóva í sambandi við lögmálið?

6 Lögmálið var í rauninni eins konar ‚veggur‘ milli Ísraelsmanna og annarra þjóða sem ekki voru undir því. En með því að fórna lífi sínu „afmáði [Kristur] lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum [Ísraelsþjóðinni og öðrum þjóðum].“ (Efesusbréfið 2:11-18) Við lesum um það sem Jehóva Guð gerði sjálfur við Móselögmálið: „Hann fyrirgaf oss öll afbrotin. Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss [vegna þess að það fordæmdi Ísraelsmenn sem syndara] með ákvæðum sínum [þar á meðal boðorðunum tíu]. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.“ (Kólossubréfið 2:13, 14) Lögmálið féll því úr gildi um leið og Kristur fórnaði fullkomnu lífi sínu.

7, 8. Hvað sannar að lögmálið skiptist ekki í tvennt?

7 Sumir segja að lögmálið hafi skipst í tvennt: boðorðin tíu og öll hin lagaákvæðin. Þeir segja að hin lagaákvæðin hafi fallið úr gildi en boðorðin tíu standi. Það er ekki rétt. Í fjallræðu sinni vitnaði Jesús í boðorðin tíu og önnur ákvæði lögmálsins og gerði engan greinarmun á þeim. Jesús sýndi þannig fram á að lögmáli Móse væri ekki skipt í tvennt. — Matteus 5:21-42.

8 Gefum einnig gaum því sem Guð innblés Páli postula að skrifa: „Nú erum vér leystir undan lögmálinu.“ Voru það aðeins önnur lagaákvæði en boðorðin tíu sem Gyðingar voru leystir undan? Nei, því að Páll heldur áfram: „En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: ‚Þú skalt ekki girnast.‘“ (Rómverjabréfið 7:6, 7; 2. Mósebók 20:17) „Þú skalt ekki girnast“ er síðasta boðorðið af þeim tíu; af því leiðir að Ísraelsmenn voru líka leystir undan boðorðunum tíu.

9. Hvernig sjáum við að ákvæðið um vikulegan hvíldardag féll einnig úr gildi?

9 Þýðir það að boðorðið um að halda vikulegan hvíldardag, sem er hið fjórða af þeim tíu, hafi einnig fallið úr gildi? Já, af orðum Biblíunnar í Galatabréfinu 4:8-11 og Kólossubréfinu 2:16, 17 má sjá að kristnir menn eru ekki bundnir af lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsmönnum, en það lagði þeim þá skyldu á herðar að halda vikulegan hvíldardag og aðra hátíðisdaga á ýmsum árstímum. Í Rómverjabréfinu 14:5 kemur einnig fram að kristnum mönnum er ekki skylt að halda vikulegan hvíldardag.

LÖG SEM KRISTNIR MENN ERU BUNDNIR AF

10. (a) Hvaða lögum eru kristnir menn bundnir af? (b) Hvaðan eru mörg þeirra tekin, og hvers vegna er það eðlilegt?

10 Eru kristnir menn ekki bundnir af neinum lögum fyrst þeir eru ekki bundnir af boðorðunum tíu? Jú, vissulega. Jesús gerði „nýjan sáttmála“ við kristna menn, byggðan á betri fórn, sínu eigin mannslífi. Kristnir menn eru bundnir af nýja sáttmálanum og verða að lúta kristilegum lögum. (Hebreabréfið 8:7-13; Lúkas 22:20) Mörg þessara laga eru tekin úr lögmáli Móse. Það þarf ekki að koma okkur á óvart, því að eitthvað svipað gerist oft þegar ný stjórn tekur við völdum í einhverju landi. Stundum er stjórnarskrá síðustu stjórnar numin úr gildi og ný sett í hennar stað, en í nýju stjórnarskránni eru gjarnan mörg af ákvæðum þeirrar gömlu. Eins var með lagasáttmálann; hann leið undir lok en kristnin tileinkaði sér mörg af grundvallarlögum hans og meginreglum.

11. Hvaða lög eða kenningar, sem tilheyra kristninni, eru mjög líkar boðorðunum tíu?

11 Þetta er auðsætt ef við lesum boðorðin tíu, sem birt eru á blaðsíðu 203, og berum þau saman við eftirfarandi lög og meginreglur kristninnar: „[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Matteus 4:10; 1. Korintubréf 10:20-22) „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21; 1. Korintubréf 10:14) „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn [skal ekki lagt við hégóma].“ (Matteus 6:9) „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar.“ (Efesusbréfið 6:1, 2) Og Biblían lætur ótvírætt í ljós að morð, hórdómur, þjófnaður, lygi og ágirnd eru brot á lögum kristinna manna. — Opinberunarbókin 21:8; 1. Jóhannesarbréf 3:15; Hebreabréfið 13:4; 1. Þessaloníkubréf 4:3-7; Efesusbréfið 4:25, 28; 1. Korintubréf 6:9-11; Lúkas 12:15; Kólossubréfið 3:5.

12. Hvernig er andinn að baki hvíldardagslögunum yfirfærður á hina kristnu skipan?

12 Þótt kristnum mönnum sé ekki fyrirskipað að halda hvíldardag einu sinni í viku getum við lært sitthvað af því ákvæði. Ísraelsmenn hvíldust í bókstaflegum skilningi en kristnir menn eiga að hvílast í andlegum skilningi. Hvernig? Vegna trúar og hlýðni hætta sannkristnir menn eigingjörnum verkum. Af þessum eigingjörnu verkum má nefna viðleitni til að sýna fram á sitt eigið réttlæti. (Hebreabréfið 4:10) Þeir hvílast andlega ekki aðeins einn dag í viku heldur alla daga vikunnar. Það ákvæði að halda bókstaflegan hvíldardag til að gefa andlegum málum gaum, kom í veg fyrir að Ísraelsmenn notuðu allan sinn tíma til að vinna að efnalegum ávinningi. Sé sú meginregla höfð í heiðri á hverjum degi í andlegum skilningi er það enn betri vernd gegn efnishyggju.

13. (a) Hvaða lög eru kristnir menn hvattir til að uppfylla og hvernig gera þeir það? (b) Hvaða lagaboð lagði Jesús sérstaka áherslu á? (c) Hvaða lagaákvæði er undirstaða Móselaganna allra?

13 Kristnir menn eru hvattir til að ‚uppfylla lögmál Krists‘ í stað þess að halda boðorðin tíu. (Galatabréfið 6:2) Jesús gaf mörg boðorð og fyrirmæli og með því að hlýða þeim höldum við eða uppfyllum lögmál hans. Jesús lagði einkum áherslu á mikilvægi kærleikans. (Matteus 22:36-40; Jóhannes 13:34, 35) Að elska aðra er kristilegt lagaboð. Það er grundvöllur Móselaganna allra eins og Biblían segir: „Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ — Galatabréfið 5:13, 14; Rómverjabréfið 13:8-10.

14. (a) Hvaða gagn hlýst af því að kynna sér og fylgja meginreglunum að baki Móselögunum? (b) Hvað mun kærleikur til Jehóva fá okkur til að gera?

14 Lögmálið, sem Móse miðlaði, þar á meðal boðorðin tíu, var safn réttlátra laga frá Guði, og jafnvel þótt lögmálið sé ekki bindandi fyrir okkur nú á tímum hafa meginreglur Guðs, sem liggja að baki því, mikla þýðingu fyrir okkur. Með því að kynna okkur þær og fylgja þeim lærum við að meta betur löggjafann mikla, Jehóva Guð. En einkum ættum við að nema og fylgja í lífi okkar lögum og kenningum kristninnar. Kærleikur til Jehóva mun fá okkur til að hlýða öllu því sem hann nú krefst af okkur. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 203]

BOÐORÐIN TÍU

1. „Ég er [Jehóva] Guð þinn, . . . þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

2. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær . . .

3. Þú skalt ekki leggja nafn [Jehóva] Guðs þíns við hégóma . . .

4. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður [Jehóva] Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín . . .

5. Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem [Jehóva] Guð þinn gefur þér.

6. Þú skalt ekki morð fremja.

7. Þú skalt ekki drýgja hór.

8. Þú skalt ekki stela.

9. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

10. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ — 2. Mósebók 20:2-17.

[Myndir á blaðsíðu 204, 205]

Lögmálið var eins og veggur milli Ísraelsmanna og annarra þjóða.