Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Farsælt fjölskyldulíf

29. kafli

Farsælt fjölskyldulíf

1. (a) Hvernig varð fjölskyldan til í upphafi? (b) Hver var vilji Guðs með fjölskylduna?

 ÞEGAR Jehóva Guð skapaði fyrsta manninn og konuna leiddi hann þau saman til að þau kæmu upp fjölskyldu. (1. Mósebók 2:21-24; Matteus 19:4-6) Það var ætlun Guðs að þessi hjón eignuðust börn, og börnin giftust síðan og mynduðu sínar eigin fjölskyldur þegar þau yrðu fullvaxta. Ætlun Guðs var sú að með tíð og tíma myndu hamingjusamar fjölskyldur búa út um allan heim. Þær áttu að gera alla jörðina að fagurri paradís. — 1. Mósebók 1:28.

2, 3. (a) Hvers vegna er það ekki Guði að kenna þótt illa gangi í mörgum fjölskyldum? (b) Hvað þarf að gera til að fjölskyldulífið sé farsælt?

2 Nú leysast fjölskyldur unnvörpum upp og margar, sem búa saman, eru ekki hamingjusamar. Sumir spyrja því: ‚Ættum við ekki að vænta betri árangurs ef Guð er í rauninni höfundur fjölskyldunnar?‘ Ekki er hægt að kenna Guði um það sem fer úrskeiðis í fjölskyldulífinu. Ef verksmiðja framleiðir hlut og lætur fylgja honum notkunarleiðbeiningar, er það þá sök framleiðandans ef hluturinn skemmist vegna þess að kaupandinn fylgir þeim ekki? Að sjálfsögðu ekki. Hversu vandaður sem hluturinn er getur hann skemmst eða bilað ef ekki er rétt með hann farið. Eins er það með fjölskylduna.

3 Jehóva Guð hefur í Biblíunni gefið leiðbeiningar um fjölskyldulíf. En hvað gerist ef leiðbeiningunum er ekki fylgt? Þótt fjölskyldufyrirkomulagið sem slíkt sé fullkomið getur fjölskyldan sundrast og þeir sem mynda hana verið óhamingjusamir. Ef meginreglum Biblíunnar er aftur á móti fylgt mun það stuðla að farsælu og hamingjuríku fjölskyldulífi. Þess vegna er brýnt að við skiljum hvernig Guð hefur gert hina einstöku meðlimi fjölskyldunnar úr garði, og hvaða hlutverk hann ætlaði hverjum fyrir sig.

HVERNIG GUÐ GERÐI MANNINN OG KONUNA ÚR GARÐI

4. (a) Í hverju eru maður og kona ólík? (b) Hvers vegna skapaði Guð þau ólík?

4 Allir sjá að Jehóva skapaði ekki manninn og konuna eins. Víst eru þau lík á marga vegu. Hins vegar er greinilegur munur á útliti þeirra og tilfinningalífi. Hvers vegna? Guð skapaði þau þannig vegna þess að hann ætlaði þeim ólík hlutverk. Eftir að Guð hafði skapað manninn sagði hann: „Ekki er gott að maðurinn sé einsamall. Ég ætla að gera honum meðhjálp sem sé fylling hans.“ — 1. Mósebók 2:18, NW.

5. (a) Í hvaða skilningi var konan ‚fylling‘ mannsins? (b) Hvar fór fyrsta hjónavígslan fram? (c) Hvers vegna getur hjónabandið veitt mikla hamingju?

5 „Fylling“ er eitthvað sem fellur að eða á vel við eitthvað annað þannig að úr verður ein heild. Guð gerði konuna að hæfilegri fyllingu mannsins til að þau gætu saman framfylgt þeim fyrirmælum Guðs að uppfylla jörðina og annast hana. Eftir að Guð hafði notað efni úr manninum til að skapa konuna framkvæmdi hann fyrstu hjónavígsluna þar í Edengarðinum með því að ‚leiða hana til mannsins.‘ (1. Mósebók 2:22; 1. Korintubréf 11:8, 9) Hjónaband getur veitt fólki mikla hamingju vegna þess að manninum og konunni voru hvoru um sig áskapaðar þarfir sem hitt gat uppfyllt. Hinir ólíku eiginleikar þeirra eru sem mótvægi hver við annan. Þegar hjón skilja hvort annað, kunna að meta hvort annað og vinna saman í samræmi við það hlutverk sem hvoru um sig er ætlað, stuðla þau bæði tvö að farsælu og hamingjuríku heimili.

HLUTVERK EIGINMANNSINS

6. (a) Hver var skapaður til að vera höfuð fjölskyldunnar? (b) Hvers vegna er það skynsamlegt og raunhæft?

6 Í hjónabandi eða fjölskyldu þarf að vera forysta. Manninum voru í ríkari mæli áskapaðir þeir eiginleikar og styrkur sem þarf til að veita slíka forystu. Þess vegna segir Biblían: „Maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins.“ (Efesusbréfið 5:23, Ísl. bi. 1912) Þetta er hagnýt skipan mála því að ringulreið og erfiðleikar eru á næsta leiti ef forystuna skortir. Fjölskylda án forystu er eins og stýrislaus bifreið. Og keppi hjónin hvort við annað um forystuna má líkja því við tvo bílstjóra í einum bíl með tvö stýrishjól sem tengd eru sitt hvoru framhjóli.

7. (a) Hvers vegna fellur sumum konum sú hugmynd illa að maðurinn skuli eiga að vera höfuð fjölskyldunnar? (b) Eiga allir sér höfuð, og hvers vegna er sú skipan Guðs hyggileg?

7 Mörgum konum fellur illa sú hugmynd að maðurinn eigi að vera höfuð fjölskyldunnar. Ein aðalástæðan fyrir því er sú að margir eiginmenn hafa ekki fylgt fyrirmælum Guðs um hvernig veita skuli forystu. Þó er almennt viðurkennt að engin stofnun fær þrifist nema einhver taki forystuna og lokaákvarðanirnar. Biblían segir því: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Í skipulagi Guðs er Guð sá eini sem ekki hefur eitthvert höfuð yfir sér. Allir aðrir, þeirra á meðal Jesús Kristur, svo og eiginmenn og eiginkonur, þurfa að lúta fyrirmælum og ákvörðunum annarra.

8. (a) Fordæmi hvers um yfirráð eiga eiginmenn að fylgja? (b) Hvað ættu eiginmenn að læra af því fordæmi?

8 Það þýðir að menn verða að viðurkenna Krist sem höfuð sitt til að gegna hlutverki sínu sem eiginmenn. Og þeir verða að fylgja fordæmi hans með því að vera höfuð eiginkvenna sinna á sama hátt og hann er höfuð safnaðarins. Hvernig kom Kristur fram við fylgjendur sína á jörðinni? Hann var alltaf góðviljaður og tillitssamur. Hann var aldrei hörkulegur né skapstirður, ekki einu sinni þegar þeir voru seinir á sér að fylgja fyrirmælum hans. (Markús 9:33-37; 10:35-45; Lúkas 22:24-27; Jóhannes 13:4-15) Meira að segja lagði hann fúslega líf sitt í sölurnar fyrir þá. (1. Jóhannesarbréf 3:16) Kristinn eiginmaður ætti að íhuga vandlega fordæmi Krists og gera sitt besta til að fylgja því gagnvart fjölskyldu sinni. Þá verður hann hvorki ráðríkur, eigingjarn né tillitslaus sem höfuð fjölskyldunnar.

9. (a) Hverju kvarta margar eiginkonur undan? (b) Hvað er hyggilegt af eiginmönnum að hafa í huga í sambandi við yfirvald sitt?

9 En eiginmenn ættu líka að hugsa um þetta: Kvartar konan þín undan að þú gegnir ekki forystuhlutverki þínu í fjölskyldunni? Segir hún að þú takir ekki forystuna heima fyrir, skipuleggir ekki athafnir fjölskyldunnar né axlir þá ábyrgð að taka lokaákvarðanir? Guð krefst þess að þú sem eiginmaður gerir það. Vitanlega er hyggilegt að þú sért opinn fyrir tillögum og skoðunum hinna í fjölskyldunni og takir þær til íhugunar þegar þú tekur ákvarðanir. Augljóst er að þú, eiginmaðurinn, ferð með erfiðasta hlutverkið í fjölskyldunni. En gerir þú þitt besta til að gera hlutverki þínu góð skil er sennilegt að konan þín hjálpi þér og styðji þig. — Orðskviðirnir 13:10; 15:22.

HLUTVERK EIGINKONUNNAR

10. (a) Til hvers hvetur Biblían eiginkonur? (b) Hvað gerist þegar eiginkonur hlýða ekki ráðum Biblíunnar?

10 Eins og Biblían segir var konan gerð til að vera manni sínum stoð og stytta. (1. Mósebók 2:18) Biblían hvetur því: „Verið því hver öðrum undirgefnir . . . Konurnar eiginmönnum sínum.“ (Efesusbréfið 5:21, 22) Nú á dögum er algengt að konur bjóði karlmönnum byrginn og keppi við þá. En reyni eiginkonan að ná forystunni í sínar hendur er næstum öruggt að það veldur vandræðum. Margir eiginmenn segja, eða í það minnsta hugsa: ‚Ef hún vill stýra heimilinu er best að hún fái að gera það.‘

11. (a) Hvernig getur eiginkona hjálpað manni sínum að taka forystuna? (b) Hvaða áhrif mun það líklega hafa á eiginmanninn ef konan gegnir því hlutverki sem Guð hefur ætlað henni?

11 Vera kann að þér finnist þú tilneydd að taka forystuna vegna þess að maðurinn þinn gerir það ekki. En gætir þú gert meira til að hjálpa honum að bera þá ábyrgð að vera höfuð fjölskyldunnar? Lætur þú í ljós að þú væntir þess af honum? Spyrð þú hann um tillögur og leiðbeiningar? Forðast þú að gera á nokkurn hátt lítið úr því sem hann gerir? Leggir þú þig fram um að gegna því hlutverki, sem Guð hefur falið þér í fjölskyldunni, mun maðurinn þinn líklega fara að gegna sínu hlutverki. — Kólossubréfið 3:18, 19.

12. Hvað sýnir að eiginkonur mega gjarnan láta skoðanir sínar í ljós þótt þær séu ekki sammála mönnum sínum?

12 Þar með er ekki sagt að eiginkonan ætti ekki að láta skoðanir sínar í ljós ef þær eru ólíkar skoðunum mannsins. Vera kann að hún hafi rétt viðhorf og fjölskyldunni yrði það til góðs að maðurinn hennar hlustaði á hana. Bent er á Söru, eiginkonu Abrahams, sem fordæmi kristnum eiginkonum, vegna þess að hún var manni sínum undirgefin. (1. Pétursbréf 3:1, 5, 6) Einu sinni stakk hún upp á að vandamál í fjölskyldunni yrði leyst á ákveðinn veg en Abraham var henni ekki sammála. Guð sagði honum þá: „Hlýð þú Söru.“ (1. Mósebók 21:9-12) En auðvitað ætti eiginkona að styðja ákvörðun eiginmanns síns, svo framarlega sem hún þarf ekki að brjóta lög Guðs til þess. — Postulasagan 5:29.

13. Hvað mun góð eiginkona gera og hvaða áhrif hefur það á fjölskylduna?

13 Eiginkona, sem skilur hlutverk sitt, getur gert margt til að annast fjölskyldu sína. Hún getur eldað næringarríkan mat, haldið heimilinu hreinu og snyrtilegu og átt þátt í að fræða börnin, svo dæmi séu nefnd. Biblían hvetur giftar konur til að „elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.“ (Títusarbréfið 2:4, 5) Eiginkona og móðir, sem sinnir þessum skyldum, mun hljóta varanlega ást og virðingu fjölskyldu sinnar. — Orðskviðirnir 31:10, 11, 26-28.

STAÐUR BARNANNA Í FJÖLSKYLDUNNI

14. (a) Hver er staða barnanna í fjölskyldunni? (b) Hvað geta börnin lært af fordæmi Jesú?

14 Jehóva sagði fyrstu mannlegu hjónunum að þau ættu að ‚vera frjósöm og margfaldast.‘ (1. Mósebók 1:28) Guð sagði þeim að eignast börn, og börnin áttu að vera fjölskyldunni blessun. (Sálmur 127:3-5) Börnin eiga að lúta lögum og boðorðum foreldra sinna og því líkir Biblían stöðu þeirra við stöðu þræls. (Orðskviðirnir 1:8; 6:20-23; Galatabréfið 4:1) Jafnvel Jesús var foreldrum sínum undirgefinn þegar hann var barn. (Lúkas 2:51) Hann hlýddi þeim og gerði það sem þau sögðu. Ef öll börn gerðu það myndi það stuðla mjög að hamingjuríku fjölskyldulífi.

15. Hvers vegna eru börn foreldrum sínum oft til mæðu?

15 En í stað þess að vera foreldrum sínum blessun eru börnin þeim oft til mæðu. Hvers vegna? Vegna þess að hvorki börnin né foreldrarnir fylgja í lífi sínu fyrirmælum Biblíunnar um fjölskyldulíf. Hver eru þessi lög og ákvæði Guðs? Við skulum skoða nokkur þeirra á næstu blaðsíðum. Íhugaðu hvort þú getir ekki stuðlað að hamingjusömu fjölskyldulífi með því að fylgja þeim.

Elskaðu og virtu konuna þína

16. Hvað er eiginmönnum sagt að gera og hvað er fólgið í því að fylgja því?

16 Biblían segir: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami.“ (Efesusbréfið 5:28-30) Reynslan hefur sýnt og sannað að eiginkonur þurfa, til að vera hamingjusamar, að finna að mennirnir þeirra elski þær. Það þýðir að eiginmaður ætti að gefa konunni sinni sérstakan gaum, sýna henni blíðu og skilning og fullvissa hana um að hann elski hana. Hann þarf að ‚veita henni virðingu‘ eins og Biblían segir. Hann gerir það með því að taka tillit til hennar í öllu sem hann gerir. Þannig ávinnur hann sér virðingu hennar. — 1. Pétursbréf 3:7.

Virtu eiginmann þinn

17. Hvað er eiginkonum sagt að gera og hvernig geta þær fylgt því?

17 Og hvað um eiginkonur? „Konan beri lotningu fyrir manni sínum,“ segir Biblían. (Efesusbréfið 5:33) Aðalástæðan fyrir því að sumum eiginmönnum gremst við konur sínar er sú að þær hlýða ekki þessu ráði. Eiginkona sýnir manni sínum virðingu með því að styðja ákvarðanir hans, og vinna af öllu hjarta með honum að þeim markmiðum sem fjölskyldan hefur sett sér. Hún gerir manni sínum auðvelt að elska sig með því að vera ‚meðhjálp og fylling‘ hans eins og Biblían segir henni að gera. — 1. Mósebók 2:18, NW.

Verið hvort öðru trú

18. Hvers vegna ættu hjón að vera hvort öðru trú?

18 Biblían segir: „Eiginmenn og eiginkonur eiga að vera hvoru öðru trú.“ Hún segir manninum: „Vertu hamingjusamur með konu þinni og hafðu yndi af stúlkunni sem þú kvæntist. . . . Hví skyldir þú gefa annarri konu ást þína? Hví skyldir þú taka töfra annars manns konu fram yfir hennar?“ (Hebreabréfið 13:4; Orðskviðirnir 5:18-20, þýtt úr Today’s English Version) Hjúskaparbrot er brot á lögum Guðs og veldur vandamálum í hjónabandinu. „Fjöldi fólks heldur að ástarævintýri utan hjónabands kryddi hjónabandið,“ sagði kona sem vinnur að rannsóknum á ýmsu sem varðar hjónabandið. En hún bætti því við að ástarævintýri valdi alltaf „miklum erfiðleikum.“ —Orðskviðirnir 6:27-29, 32.

Þóknastu maka þínum

19. Hvernig geta hjón haft mest yndi af kynlífinu?

19 Kynlífið veitir hjónunum ekki hamingju ef þau hugsa mest um sína eigin fullnægju, heldur ef þau hugsa líka um að þóknast maka sínum. Biblían segir: „Maðurinn á að veita konu sinni það sem henni ber sem eiginkonu og konan ætti að gera hið sama fyrir mann sinn.“ (1. Korintubréf 7:3, Lifandi orð) Hér er lögð áhersla á að gefa, ekki þiggja. Og sá sem gefur hefur líka ósvikna ánægju af því. Jesús Kristur sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

Gefðu börnunum af sjálfum þér

20. Hvers vegna er mikilvægt að gefa börnunum af tíma sínum?

20 Átta ára barn sagði: „Pabbi er alltaf að vinna. Hann er aldrei heima. Hann gefur mér peninga og fullt af leikföngum, en ég sé hann næstum aldrei. Mér þykir vænt um hann og ég vildi að hann væri ekki alltaf að vinna svo að ég gæti séð hann oftar.“ Heimilislífið er miklu betra ef foreldrarnir fylgja því boði Biblíunnar að kenna börnum sínum ‚þegar þeir eru heima og þegar þeir eru á ferðalagi, þegar þeir leggjast til hvíldar og þegar þeir fara á fætur‘! Gefðu börnunum af sjálfum þér, vertu með þeim og notaðu þann tíma vel. Það mun stuðla að hamingju í fjölskyldu þinni. — 5. Mósebók 11:19; Orðskviðirnir 22:6.

Veittu þeim þann aga sem þau þurfa

21. Hvað segir Biblían um það að aga börnin?

21 Himneskur faðir okkar setur foreldrum gott fordæmi með því að aga fólk sitt, leiðrétta það og kenna því. Börn þarfnast aga. (Hebreabréfið 12:6; Orðskviðirnir 29:15) Biblían viðurkennir það og hvetur: „Þér feður, . . . alið [börn ykkar] upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ Þótt þurft geti að refsa börnum, jafnvel flengja þau eða svipta vissum sérréttindum, ber aginn því vitni að foreldrarnir elski þau. Biblían segir: „Sá sem elskar [son sinn], agar hann snemma.“ — Efesusbréfið 6:4; Orðskviðirnir 13:24; 23:13, 14.

Unglingar — standið gegn háttum heimsins

22. Hvað er unglingum skylt að gera og hvernig fara þeir að því?

22 Heimurinn leggur sig í framkróka til að reyna að fá unglinga til að brjóta lög Guðs. Og Biblían segir að ‚fíflska sitji föst í hjarta sveinsins.‘ (Orðskviðirnir 22:15) Þess vegna er það barátta að gera það sem rétt er. Eigi að síður segir Biblían: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.“ Það mun borga sig margfalt. Þið börn, verið hyggin og hlýðið því heilræði að ‚muna eftir skapara ykkar á unglingsárum ykkar.‘ Látið ekki freistast til að neyta fíkniefna, drekka ykkur drukkin, drýgja hór né gera nokkuð annað sem er brot á lögum Guðs. — Efesusbréfið 6:1-4; Prédikarinn 12:1; Orðskviðirnir 1:10-19.

Nemið Biblíuna saman

23. Hvaða gagn mun fjölskyldan hafa af því að nema Biblíuna saman?

23 Ef einn í fjölskyldunni nemur Biblíuna og lifir eftir kenningum hennar mun það stuðla að hamingju í fjölskyldunni. En ef allir gera það — eiginmaðurinn, eiginkonan og börnin — hlýtur það að vera fjölskyldulífinu mikil blessun! Þá verður ástúðlegt og náið samband milli allra í fjölskyldunni, leið samræðna og skoðanaskipta verður opin og allir reyna að hjálpa hinum til að þjóna Jehóva Guði. Gerið það að venju að nema Biblíuna saman sem fjölskylda! — 5. Mósebók 6:4-9; Jóhannes 17:3.

HVERNIG LEYSA MÁ VANDAMÁL Í FJÖLSKYLDUNNI

24. Hvers vegna ættu hjón að umbera mistök hvors annars?

24 Jafnvel í fjölskyldum, sem eru að jafnaði hamingjusamar, koma endrum og eins upp vandamál. Ástæðan er sú að við erum öll ófullkomin og gerum mistök. „Allir hrösum vér margvíslega,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 3:2) Hjón ættu því ekki að krefjast fullkomleika hvort af öðru heldur umbera mistök hvors annars. Þess vegna ætti hvorugt hjónanna að vænta þess að hjónabandið sé alveg fullkomlega hamingjusamt, vegna þess að slíkt er utan seilingar ófullkominna manna.

25. Hvernig ætti að leysa erfiðleika í hjónabandinu í kærleika?

25 Vitanlega munu hjón vilja vinna að því að forðast það sem fer í taugarnar á hinu. En stundum munu þau gera eitt og annað sem kemur hinu úr jafnvægi, óháð því hversu mjög þau leggja sig fram. Hvernig ætti þá að leysa vandann? Biblían ráðleggur: „Kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Ástríkur maki mun því ekki sífellt klifa á mistökum hins. Kærleikurinn segir í reynd: ‚Já, þér urðu á mistök en mér verður það líka stundum. Ég skal sjá í gegnum fingur við þig og vona að þú gerir það sama við mig.‘ — Orðskviðirnir 10:12; 19:11.

26. Hvernig má stuðla að því að leysa vandamál í hjónabandinu?

26 Þegar hjón eru fús til að játa mistök sín og reyna að leiðrétta þau má komast hjá mörgum deilum og sorgum. Markmið þeirra ætti að vera að leysa vandamálin, ekki að sigra í þrætu. Jafnvel þótt maki þinn eigi sökina skalt þú gera honum auðveldara að leysa vandamálið með því að vera vingjarnlegur. Ef sökin er þín skalt þú vera auðmjúkur og biðjast fyrirgefningar. Dragðu það ekki; taktu tafarlaust á vandamálinu. „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ — Efesusbréfið 4:26.

27. Hvaða ráð Biblíunnar getur hjálpað hjónum að leysa vandamál sín?

27 Hjón þurfa öðrum fremur að fylgja þeirri reglu að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Filippíbréfið 2:4) Þau þurfa að hlýða eftirfarandi boði Biblíunnar: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:12-14.

28. (a) Er hjónaskilnaður rétta leiðin til að leysa vandamál? (b) Hverja segir Biblían vera einustu skilnaðarástæðuna sem gefur fólki frelsi til að giftast á ný?

28 Fjöldi hjóna vill ekki láta ráðleggingarnar í orði Guðs hjálpa sér að greiða úr vandamálum sínum heldur slítur þess í stað sambúðinni. Er Guð sáttur við þá leið til að leysa vandamál? Nei. (Malakí 2:15, 16) Hann ætlaðist til að hjónabandið entist alla ævina. (Rómverjabréfið 7:2) Aðeins hórdómur (á grísku porneia, gróft kynferðislegt siðleysi) heimilar hjónum að skilja og giftast aftur. Ef annað hjónanna drýgir hór getur hitt ákveðið hvort hann (eða hún) vill skilja eða ekki. — Matteus 5:32.

29. (a) Hvað ættir þú að gera ef maki þinn tilbiður Guð ekki með þér? (b) Hvaða afleiðingar getur það haft?

29 Hvað átt þú að gera ef maki þinn vill ekki nema orð Guðs með þér, er jafnvel andsnúinn kristilegu starfi þínu? Biblían hvetur þig eftir sem áður til að halda saman við maka þinn og líta ekki á sambúðarslit sem auðvelda lausn á vandamálinu. Gerðu það sem þú getur til að bæta ástand mála á heimilinu með því að fylgja því sem Biblían segir. Vera má að kristileg breytni þín fái unnið maka þinn með tíð og tíma. (1. Korintubréf 7:10-16; 1. Pétursbréf 3:1, 2) Og hvílík laun eru það ekki ef kærleikur þinn og þolinmæði ber slíkan ávöxt!

30. Hvers vegna er svo þýðingarmikið að foreldrar setji börnum sínum gott fordæmi?

30 Mörg fjölskylduvandamál eru tengd börnunum. Hvað getið þið foreldrar gert ef svo er í ykkar fjölskyldu? Í fyrsta lagi þurfið þið að setja börnunum gott fordæmi, vegna þess að börnin fylgja frekar því sem þið gerið en því sem þið segið. Börnin koma fljótt auga á það ef orð ykkar og verk fara ekki saman. Ef þið viljið að börnin ykkar hegði sér sem góðir kristnir menn verðið þið að setja þeim fordæmið. — Rómverjabréfið 2:21, 22.

31. (a) Hvaða þýðingarmikla ástæðu til að hlýða foreldrunum þarf að brýna fyrir börnunum? (b) Hvernig getur þú sýnt börnum þínum að viturlegt sé að hlýða lögum Guðs gegn saurlifnaði?

31 Nauðsynlegt er að rökræða við börnin. Ekki er nóg einungis að segja unglingi: ‚Ég vil ekki að þú drýgir hór vegna þess að það er rangt.‘ Sýna þarf börnunum fram á að það er skapari þeirra, Jehóva Guð, sem segir að hórdómur og annað honum líkt sé rangt. (Efesusbréfið 5:3-5; 1. Þessaloníkubréf 4:3-7) Meira að segja það er ekki nóg. Hjálpa þarf börnunum að sjá hvers vegna þau ættu að hlýða lögum Guðs og hvernig það er þeim til góðs. Þú gætir til dæmis vakið athygli sonar þíns eða dóttur á því hversu stórfengleg tilurð barns er þegar sáðfruma manns og eggfruma konu sameinast. Síðan gætir þú spurt: ‚Heldur þú ekki að hann, sem er höfundur þess kraftaverks sem barnsfæðing er, viti best hvernig mennirnir ættu að nota getnaðarmáttinn sem Guð hefur gefið þeim?‘ (Sálmur 139:13-17) Þú gætir líka spurt: ‚Heldur þú að skapari okkar setji lög sem ræna okkur ánægjunni af lífinu? Heldur þú ekki að við verðum hamingjusamari ef við hlýðum lögum hans en ef við gerum það ekki?

32. (a) Hvað ættir þú að gera ef barn þitt hefur ekki sama sjónarmið og Guð? (b) Hvernig getur þú hjálpað barni þínu að sjá viskuna í því sem Biblían segir?

32 Slíkar spurningar geta komið barni þínu til að hugleiða þau lög sem Guð hefur sett um notkun kynfæranna. Hlustaðu á sjónarmið barnsins. Gættu þess að reiðast ekki þótt þau séu ekki alveg eins og þú vildir. Reyndu að skilja að sú kynslóð, sem barn þitt tilheyrir, er orðin mjög fjarlæg réttlátum kenningum Biblíunnar, og reyndu síðan að sýna barninu fram á hvers vegna siðlausar athafnir jafnaldra þess séu óhyggilegar. Ef til vill gætir þú bent á ákveðin dæmi um að siðleysi hafi leitt til þess að börn hafi fæðst utan hjónabands, fólk hafi fengið kynsjúkdóma eða lent í öðrum erfiðleikum. Þannig má hjálpa barninu að gera sér grein fyrir að það sem Biblían segir sé bæði skynsamlegt og rétt.

33. Hvernig getur von Biblíunnar um eilíft líf í paradís á jörð hjálpað okkur að gera fjölskyldulífið farsælt?

33 Von Biblíunnar um eilíft líf í paradís á jörð getur hjálpað okkur mikið til að gera fjölskyldulífið farsælt. Hvers vegna? Vegna þess að við munum, ef við í raun og veru viljum fá að lifa í nýrri skipan Guðs, leggja okkur fram um að lifa núna eins og við vonumst til að lifa þá. Við munum fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum Jehóva Guðs nákvæmlega. Þá mun Guð veita okkur hamingju nú þegar, og auk þess eilíft líf og ríkulega hamingju um alla eilífð. — Orðskviðirnir 3:11-18.

[Spurningar]