Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð – hver er hann?

Guð – hver er hann?

4. kafli

Guð – hver er hann?

1. (a) Hvaða guði hafa menn tilbeðið? (b) Hvaða greinarmun gerir Biblían á „guðum“ og „Guði“?

 UM HEIM ALLAN eru tilbeðnir margir guðir. Í shinto-, búddha- og hindúatrúnni, og þjóðflokkatrúarbrögðum eru tilbeðnar milljónir guða. Guðir eins og Seifur og Hermes voru dýrkaðir á dögum postula Jesú. (Postulasagan 14:11, 12) Biblían tekur því undir að til séu „margir guðir“ en hún segir líka að við „höfum . . . ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá.“ (1. Korintubréf 8:5, 6) Hverju myndir þú svara ef þú værir spurður hver þessi Guð sé?

2. Hvaða mismunandi skoðanir hafa menn á Guði?

2 ‚Hann er Drottinn,‘ svara margir. Sumir segja: ‚Hann er andi á himnum.‘ Orðabók skilgreinir Guð sem ‚æðri veru.‘ Þegar menn eru spurðir hvert sé nafn Guðs svara sumir: ‚Jesús.‘ Aðrir líta ekki á Guð sem persónu heldur kraft eða mátt sem er alls staðar. Og sumir efast jafnvel um að Guð sé til. Getum við verið viss um að hann sé til?

GUÐ ER SANNARLEGA TIL

3. Hvernig verður hús til?

3 Hefur þú nokkurn tíma, þegar þú hefur horft á fagra byggingu, velt fyrir þér hver hafi byggt hana? Myndir þú trúa því ef einhver segði þér að enginn hefði byggt hana, að hún hefði hreinlega orðið til af sjálfu sér? Auðvitað ekki! Biblíuritari einn sagði: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum.“ Það vita allir. Getum við þá ekki fallist á hina rökréttu ályktun biblíuritarans: „En Guð er sá, sem allt hefur gjört“? — Hebreabréfið 3:4.

4. Hvernig urðu stjörnurnar í milljarðatali til?

4 Hugsaðu um alheiminn með öllum sínum stjörnum í milljarðatali. Þær hreyfast um himininn samkvæmt lögmálum sem viðhalda fullkomnu jafnvægi þeirra á milli. „Hver hefir skapað stjörnurnar?“ var spurt endur fyrir löngu. Svarið, sem gefið var, er mjög rökrétt: „Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni.“ (Jesaja 40:26) Vitaskuld væri fráleitt að halda að stjörnurnar í milljarðatali hafi orðið til af sjálfu sér, og hafi án nokkurrar stjórnar eða stýringar myndað hin miklu stjörnukerfi sem hreyfast af svo stórfenglegri reglufestu! — Sálmur 14:1.

5. (a) Hvaða líkur eru á að hakkavélarhlutar geti raðast saman af sjálfu sér til að mynda hakkavél? (b) Hvað sýnir það um alheiminn?

5 Óhugsandi er að þessi þrautskipulagði alheimur hafi orðið til af sjálfu sér. Til þess þurfti skynsemigæddan og afar máttugan skapara. (Sálmur 19:2, 3) Kaupsýslumaður, sem var að því spurður hvers vegna hann tryði á Guð, útskýrði að í verksmiðjunni hans tæki það stúlku tvo daga að læra að setja saman hakkavél sem gerð er úr sautján hlutum. „Ég framleiði nú bara eldhúsáhöld,“ sagði hann. „En það veit ég að hægt er að hrista þessa sautján hakkavélarhluta í þvottabala næstu 17 þúsund milljón árin og það verður aldrei hakkavél úr því.“ Alheimurinn, þar á meðal hin mörgu lífsform á jörðinni, er langtum flóknari en hakkavél. Ef snjallan hönnuð þurfti til að gera slíka vél getum við verið viss um að alvaldan Guð þurfti til að skapa alla hluti. Ættum við ekki að gefa honum heiðurinn af því sem hann hefur gert? — Opinberunarbókin 4:11; Postulasagan 14:15-17; 17:24-26.

ER GUÐ RAUNVERULEG PERSÓNA?

6. Hvers vegna getum við verið viss um að Guð sé raunveruleg persóna?

6 Enda þótt flestir segist trúa á Guð líta margir ekki á hann sem raunverulega persónu. Er hann það? Augljóst er að þar sem eru vitsmunir er líka hugur. Við segjum til dæmis ‚Ég get ekki gert upp hug minn.‘ Og við vitum að þar sem er hugur er líka heili í líkama sem hefur ákveðna lögun. Mikill hugur, sem er höfundur alls sköpunarverksins, hlýtur því að tilheyra mikilli persónu, alvöldum Guði. Þótt hann hafi ekki efnislíkama hefur hann andlegan líkama. Hefur andavera líkama? Já, Biblían segir: „Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.“ — 1. Korintubréf 15:44; Jóhannes 4:24.

7. (a) Hvað sýnir að Guð hefur dvalarstað þar sem hann býr? (b)  Hvað sýnir að hann hefur líkama?

7 Vegna þess að Guð er persóna með andlegan líkama hlýtur hann að hafa einhvern aðseturstað. Biblían segir okkur að himnarnir séu ‚aðseturstaður‘ Guðs. (1. Konungabók 8:43) Og okkur er sagt að ‚Kristur hafi gengið inn í sjálfan himininn, til þess að birtast fyrir augliti Guðs okkar vegna.‘ (Hebreabréfið 9:24) Sumum mönnum verður umbunað með lífi á himnum hjá Guði og þá munu þeir fá andlegan líkama. Þeir munu þá sjá Guð, segir Biblían, og verða honum líkir. (1. Jóhannesarbréf 3:2) Það sýnir einnig að Guð er persóna og að hann hefur líkama.

8, 9. (a) Hvernig er raforkuver hliðstætt hinum langdræga mætti Guðs? (b) Hvað er heilagur andi Guðs og hvað getur hann gert?

8 En einhver kann að spyrja: ‚Ef Guð er raunveruleg persóna sem býr á ákveðnum stað á himnum, hvernig getur hann séð allt sem gerist alls staðar? Og hvernig er þá hægt að finna fyrir mætti hans alls staðar í alheiminum?‘ (2. Kroníkubók 16:9) Sú staðreynd að Guð er persóna takmarkar engan veginn mátt hans né mikilleik. Það ætti ekki heldur að draga úr virðingu okkar fyrir honum. (1. Kroníkubók 29:11-13) Til að hjálpa okkur að skilja það skulum við íhuga hversu langt áhrif raforkuvers geta náð.

9 Raforkuver er staðsett á ákveðnum stað en raforkunni frá því dreift yfir stórt svæði og notuð sem ljós- og aflgjafi. Eins er með Guð. Hann er á himnum. (Jesaja 57:15; Sálmur 123:1) Þó er hægt að finna áhrif heilags anda hans eða ósýnilegs starfskraftar alls staðar, um allan alheiminn. Með sínum heilaga anda skapaði Guð himnana, jörðina og allar lífverur. (Sálmur 33:6; 1. Mósebók 1:2; Sálmur 104:30) Guð þurfti ekki að vera bókstaflega viðstaddur til að skapa þessa hluti. Hann getur sent út anda sinn eða starfskraft til að gera allt sem hann vill, enda þótt hann sé sjálfur víðs fjarri. Þetta er undursamlegur Guð! — Jeremía 10:12; Daníel 4:35.

HVERS KONAR PERSÓNA ER GUÐ?

10. Nefnið dæmi um hvernig við getum kynnst Guði.

10 Er Guð þess konar persóna sem við hljótum að elska ef við kynnumst honum vel? ‚Það getur verið,‘ kannt þú að segja, ‚en hvernig getum við kynnst Guði úr því að við getum ekki séð hann?‘ (Jóhannes 1:18) Biblían bendir á eina leið til þess þegar hún segir: „Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Það sem Guð hefur skapað getur því hjálpað okkur að skilja hvernig Guð er, ef við raunverulega athugum það og hugsum um það.

11. Hvað getum við lært um Guð af því sem hann hefur gert?

11 Eins og við höfum séð segir hinn stjörnum prýddi himingeimur frá mikilleik Guðs og gífurlegum mætti! (Sálmur 8:4, 5; Jesaja 40:26) Lítum nú á jörðina. Guð staðsetti hana þannig í himingeimnum að hún fengi mátulega mikinn varma og ljós frá sólinni. Og líttu á hringrás vatnsins. Regnið fellur til jarðar og vökvar hana. Vatnið seytlar út í ár sem síðan renna í hafið. Sólin lætur vatnið gufa upp úr höfunum og það fellur aftur til jarðar til að vökva jörðina. (Prédikarinn 1:7) Þær eru margar og stórfenglegar hringrásirnar sem Guð kom af stað til að sjá mönnum og skepnum fyrir fæðu, skjóli og öllu sem þær þurfa! Og hvað segir allt þetta okkur um það hvers konar persóna Guð sé? Það segir okkur að hann búi yfir mikilli visku, að hann sé einstaklega örlátur og láti sér annt um sköpunarverk sitt. — Orðskviðirnir 3:19, 20; Sálmur 104:13-15, 24, 25.

12. Hvað kennir líkami þinn þér um Guð?

12 Líttu á þinn eigin líkama. Augljóst er að hann var skapaður til að gera meira en aðeins að lifa. Hann var stórkostlega úr garði gerður til þess að þú nytir þess að lifa. (Sálmur 139:14) Augu okkar sjá ekki aðeins í svart-hvítu heldur í litum, og heimurinn er fullur af alls kyns litum og litbrigðum sem við getum notið. Við getum skynjað ilm og bragð. Að matast er því ekki aðeins athöfn sem er nauðsynleg til viðhalds lífinu, heldur veitir það okkur yndi og ánægju. Þessi skilningarvit eru ekki ómissandi til að þú getir lifað heldur eru þau gjafir Guðs sem er elskuríkur, örlátur og hugulsamur. — 1. Mósebók 2:9; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

13. Hvað lærir þú um Guð af því hvernig hann kemur fram við menn?

13 Skoðum hvernig Guð hefur komið fram við mannkynið; það hjálpar okkur einnig að sjá hvers konar Guð hann er. Hann hefur sterka réttlætiskennd. Hann er ekki vilhallur ákveðnum kynþætti manna. (Postulasagan 10:34, 35) Hann er líka miskunnsamur og góðviljaður. Biblían segir um framkomu hans við Ísraelsþjóðina sem hann frelsaði úr þrælkun í Egyptalandi: „Hann er miskunnsamur, . . . Hann minntist þess, að þeir voru hold.“ Þó voru Ísraelsmenn oft óhlýðnir og það hryggði Guð. Biblían segir: „Þeir særðu hann . . . og hryggðu hinn Heilaga í Ísrael.“ (Sálmur 78:38-41, Íslenska biblían 1981, New World Translation; 103:8, 13, 14) Þegar þjónar Guðs eru hlýðnir lögum hans fagnar hann aftur á móti. (Orðskviðirnir 27:11) Og Guð lýsir því hvernig honum líður þegar þjónar hans þjást af hendi óvina sinna: „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.“ (Sakaría 2:12) Finnur þú ekki hjá þér löngun til að elska Guð sem ber slíka ást til smárra, lítilsverðra manna af öllum kynþáttum og þjóðum? — Jesaja 40:22; Jóhannes 3:16.

ER GUÐ JESÚS EÐA ÞRENNING?

14. Hvað er þrenningarkenningin?

14 Hver er þessi dásamlegi Guð? Sumir segja að nafn hans sé Jesús. Aðrir segja að hann sé þrenning enda þótt orðið „þrenning“ komi hvergi fyrir í Biblíunni. Samkvæmt þrenningarkenningunni eru þrjár persónur í einum Guði, það er að segja „einn Guð, faðir, sonur og heilagur andi.“ Mörg trúfélög kenna þessa hugmynd enda þótt þau játi að hún sé „leyndardómur.“ Er slíkur skilningur á Guði réttur?

15. Hvernig sýnir Biblían að Guð og Jesús eru tvær aðgreindar persónur sem eru ekki jafnar?

15 Sagði Jesús nokkru sinni að hann væri Guð? Nei, það gerði hann aldrei. Þess í stað kallar Biblían hann ‚son Guðs.‘ Og hann sagði: „Faðirinn er mér meiri.“ (Jóhannes 10:34-36; 14:28) Jesús útskýrði að sumt vissu hvorki hann né englarnir heldur aðeins Guð einn. (Markús 13:32) Við það bætist að Jesús bað til Guðs og sagði einhverju sinni: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Ef Jesús var alvaldur Guð hefði hann varla farið að biðja til sjálfs sín. Ritningin segir raunar eftir dauða Jesú: „Þennan Jesú reisti Guð upp.“ (Postulasagan 2:32) Auðséð er því að alvaldur Guð og Jesús eru tvær aðgreindar persónur. Jafnvel eftir dauða sinn, upprisu og uppstigningu til himna var Jesús enn ekki jafn föðurnum. — 1. Korintubréf 11:3; 15:28.

16. Hvað sýnir að Jesús er ekki alvaldur Guð enda þótt hann sé kallaður „Guð“?

16 ‚En er Jesús ekki kallaður guð í Biblíunni?‘ spyr einhver. Jú, það er satt. En Satan er líka kallaður guð. (2. Korintubréf 4:4) Í Jóhannesi 1:1, sem kallar Jesú „Orðið,“ segja sumar biblíuþýðingar: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.“ En taktu eftir að 2. versið segir að Orðið hafi verið „í upphafi hjá Guði.“ Og enda þótt menn hafi séð Jesú bendir 18. vers á að „enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.“ (Íslenska biblían 1981) Sumar aðrar biblíuþýðingar koma merkingu frummálsins rétt til skila þegar þær orða 1. versið svo: „Orðið var hjá Guði og Orðið var guðlegt,“ eða var „guð,“ það er að segja, Orðið var máttug, guðleg vera. (An American Translation) Auðsætt er að Jesús var ekki alvaldur Guð. Jesús talaði meira að segja um föður sinn sem ‚Guð sinn‘ og „hinn eina sanna Guð.“ — Jóhannes 20:17; 17:3.

17. Hvernig sannar úthelling heilags anda yfir fylgjendur Jesú að hann er ekki persóna?

17 Hvað viðkemur „heilögum anda,“ hinni svonefndu þriðju persónu þrenningarinnar, höfum við þegar séð að hann er ekki persóna heldur starfskraftur Guðs. Jóhannes skírari sagði að Jesús myndi skíra með heilögum anda eins og Jóhannes hafði skírt með vatni. Heilagur andi er ekki persóna frekar en vatn er persóna. (Matteus 3:11) Það sem Jóhannes sagði fyrir um rættist þegar heilögum anda var úthellt yfir fylgjendur Jesú, samankomna í Jerúsalem, eftir dauða hans og upprisu. Biblían segir: „Þeir fylltust allir heilögum anda.“ (Postulasagan 2:4) „Fylltust“ þeir persónu? Nei, þeir fylltust starfskrafti Guðs. Augljóst er því að þrenningarkenningin á sér ekki stoð í Biblíunni. Reyndar voru tilbeðnar guðaþrenningar löngu áður en Jesús steig fæti á jörðina, svo sem í Egyptalandi og Babýlon til forna.

NAFN GUÐS

18. (a) Er „Guð“ einkanafn Guðs hins alvalda? (b) Hvert er einkanafn hans?

18 Allir menn bera eitthvert nafn. Guð hefur líka einkanafn sem aðgreinir hann frá öllum öðrum. ‚Er ekki „Guð“ nafn hans?‘ spyr einhver. Nei, því að „Guð“ er aðeins titill, alveg eins og „forseti,“ „konungur“ og „dómari“ eru titlar. Við lærum nafn Guðs í Biblíunni þar sem það kemur fyrir um 7000 sinnum. Til dæmis stendur í Sálmi 83:18 í biblíunni sem Jakob Englandskonungur lét fyrst gefa út árið 1611: „Að menn megi vita að þú, sem einn heitir JEHÓVA, ert hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ Nafn Guðs er einnig að finna í flestum biblíum í Opinberunarbókinni 19:1-6, en þar er það hluti af orðinu „Hallelúja.“ Það merkir „lofið Jah“ sem er stytting nafnsins Jehóva.

19. (a) Hvers vegna er það sumum nýlunda að finna nafn Guðs í Biblíunni? (b) Hvar er nafnið að finna í íslensku biblíunni?

19 Sumum kemur á óvart að finna nafn Guðs í Biblíunni. Ástæðan er oft sú að þeir nota biblíu þar sem nafn Guðs kemur sjaldan eða aldrei fyrir. Í algengustu útgáfum íslensku biblíunnar kemur nafnið „Jehóva“ eða „Jahve“ hvergi fram í meginmálinu. Þess í stað er sett orðið „Drottinn.“ Þess er getið í neðanmálsathugasemdum við 1. Mósebók 2:5, 2. Mósebók 6:3; 17:15 og Sálm 104:35. Í Heimilisútgáfu íslensku biblíunnar, sem gefin var út á árunum 1908 til 1969, stóð nafnið í myndinni „Jahve“ alls staðar í Hebresku ritningunum.

20. (a) Hvers vegna hefur nafni Guðs oft verið sleppt úr Biblíunni? (b) Ætti að gera það?

20 Þú kannt að spyrja hvers vegna nafn Guðs sé ekki notað alls staðar þar sem það stendur í frumtexta Biblíunnar. Hvers vegna eru titlarnir Drottinn og Guð venjulega settir í staðinn fyrir það? Í formála biblíunnar American Standard Version er útskýrt hvers vegna hún notar nafn Guðs Jehóva, og hvers vegna það var ekki notað um langt skeið: „Þeir sem unnu að endurskoðun þessarar útgáfu sannfærðust allir um, að undangenginni gaumgæfilegri athugun, að sú hjátrú Gyðinga að nafn Guðs væri of heilagt til að nefna það eigi ekki lengur að ráða enskum útgáfum Biblíunnar né nokkrum öðrum. . . . Einkanafn þetta, ásamt allri þeirri helgi sem því er tengd, endurheimtir nú aftur stöðu sína í hinum helga texta eins og það á óvéfengjanlegan rétt til.“ Þeir sem þýddu þessa biblíu á ensku töldu ástæðurnar fyrir því að nafn Guðs hafði verið fellt niður, ekki góðar. Þess vegna létu þeir það standa í Biblíunni þar sem það á að vera.

21. Hvað segir kaþólska Douay-biblían um nafnið Jehóva?

21 Þeir eru samt sem áður til sem segja að ekki skuli nota nafnið „Jehóva,“ vegna þess að það sé í rauninni ekki nafn Guðs. Til dæmis segir kaþólska Douay-biblían, sem notar nafn Guðs ekki í meginmálinu, í neðanmálsathugasemd við 2. Mósebók 6:3: „Sumir nýhyggjumenn hafa búið til nafnið Jehóva . . . réttur framburður nafnsins, sem er í hebreska textanum, er nú algerlega glataður af löngu notkunarleysi.“

22. (a) Hvernig er nafn Guðs skrifað á hebreskri tungu? (b) Hvers vegna er erfitt að vita hvernig nafn Guðs var borið fram í upphafi?

22 Eins og kaþólska biblían segir hér stendur nafn Guðs í hebreska textanum, en hebreska er það mál sem fyrstu 39 bækur Biblíunnar voru skrifaðar á. Nafnið er skrifað þar með fjórum hebreskum bókstöfum sem samsvara JHVH. Í fyrndinni var hebresk tunga skrifuð án sérhljóða, stafa svo sem a, e, i, o, u og svo framvegis. Vandinn er því sá að við höfum enga leið nú til að vita nákvæmlega hvaða sérhljóða Hebrear notuðu með samhljóðunum JHVH.

23. Hvernig getur skammstöfunin „Rkvk“ í staðinn fyrir „Reykjavík“ hjálpað okkur að skilja vandkvæðin á því að bera nafn Guðs rétt fram?

23 Til að hjálpa okkur að skilja þetta vandamál skulum við líta á nafn eins og „Reykjavík.“ Setjum svo að sú venja hafi skapast að skrifa það alltaf „Rkvk“ og að með tíð og tíma hafi verið hætt að bera nafnið fram. Hvernig ætti þá einhver, 1000 árum síðar, að vita hvernig hann ætti að bera „Rkvk“ fram þegar hann sæi það á prenti? Hann hefði aldrei heyrt það borið fram og vissi ekki hvaða sérhljóðar voru í orðinu; þess vegna gæti hann aldrei vitað réttan framburð þess með vissu. Það er eins með nafn Guðs. Ekki er vitað með vissu hvernig það var borið fram enda þótt sumir fræðimenn telji „Jahve“ rétta framburðarmynd. En myndin „Jehóva“ hefur verið notuð um aldaraðir og er þekktust.

24. (a) Hvers vegna er rétt að nota nafn Guðs til að vera sjálfum okkur samkvæm? (b) Hvers vegna er þýðingarmikið að nota nafn Guðs samkvæmt Postulasögunni 15:14?

24 En ættum við að nota nafn Guðs þrátt fyrir að við berum það kannski ekki eins fram og var í upphafi? Við notum nöfn annarra persóna í Biblíunni enda þótt við berum þau ekki fram eins og gert var í upphafi á hebresku. Nafn Jesú er til dæmis borið fram „Jeshúa“ á hebresku. Á sama hátt er rétt að nota nafn Guðs, sem er opinberað í Biblíunni, hvort sem við berum það fram „Jahve,“ „Jehóva“ eða á einhvern annan veg sem er algengur á okkar tungu. Það sem er rangt er að nota ekki þetta nafn. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem nota það ekki geta ekki kennt sig við þá sem Guð velur til að vera ‚lýður er ber nafn hans.‘ (Postulasagan 15:14) Við ættum ekki einungis að þekkja nafn Guðs heldur heiðra það og lofa í áheyrn annarra eins og Jesús gerði þegar hann var á jörðinni. — Matteus 6:9; Jóhannes 17:6, 26.

GUÐ SEM HEFUR TILGANG

25. (a) Hvað getur okkur fundist erfitt að skilja í sambandi við Guð? (b) Hvað kom Jehóva til að fara að skapa?

25 Enda þótt hugur okkar eigi erfitt með að skilja slíkt hefur Jehóva ekkert upphaf og hann mun aldrei hafa neinn endi. Hann er ‚konungur eilífðarinnar.‘ (Sálmur 90:2; 1. Tímóteusarbréf 1:17) Áður en Jehóva fór að skapa var hann aleinn í alheiminum. Þó hefur hann ekki getað verið einmana því hann er sjálfum sér nógur og skortir ekkert. Það var kærleikur sem kom honum til að hefja sköpun, að gefa öðrum líf sem þeir gætu notið. Fyrstu sköpunarverk Guðs voru andaverur líkar honum sjálfum. Hann átti þegar stórt skipulag himneskra sona áður en jörðin var búin undir ábúð mannsins. Jehóva ætlaðist til að þeir hefðu mikið yndi af því lífi sem hann gaf þeim, og þeirri þjónustu sem hann fól þeim. — Jobsbók 38:4, 7.

26. Hvers vegna getum við treyst að fyrirætlun Guðs með jörðina nái fram að ganga?

26 Þegar jörðin var tilbúin setti Jehóva hjón, Adam og Evu, á þann hluta jarðarinnar sem þegar hafði verið gerður að paradís. Ætlun hans var sú að þau eignuðust börn sem myndu hlýða honum og tilbiðja, og myndu færa út mörk paradísar þar til hún næði um alla jörðina. (1. Mósebók 1:27, 28) En eins og við höfum lært var þessari dýrlegu fyrirætlun raskað. Adam og Eva kusu að óhlýðnast Guði og tilgangur hans hefur ekki náð fram að ganga. En hann mun ná fram að ganga því að Jehóva væri að játa á sig ósigur ef hann framkvæmdi ekki það sem hann áformaði. Það gæti hann aldrei gert! „Allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég,“ lýsir hann yfir. „Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma.“ — Jesaja 46:10, 11.

27. (a) Hvers vegna þurfum við að standa Guði reikningsskap? (b) Hvaða spurningum ættum við þess vegna að gefa alvarlegan gaum?

27 Sérð þú hvar er rúm fyrir þig innan þess ramma sem fyrirætlun Guðs setur? Þú sérð það ekki með því að gera það sem sjálfum þér þóknast án þess að taka tillit til vilja Guðs. Það gerðu Satan, Adam og Eva. Þau vissu hver var vilji Guðs en gerðu hann ekki. Og Guð lét þau svara til saka fyrir það. Verðum við líka að standa Guði reikningsskap gerða okkar? Já, vegna þess að Guð er uppspretta lífs okkar. Líf okkar er háð honum. (Sálmur 36:10; Matteus 5:45) Í hvaða mæli er líf okkar þá í samræmi við fyrirætlun Guðs með okkur? Við ættum að hugsa alvarlega um það, því að tækifæri okkar til að hljóta eilíft líf er undir því komið.

HVERNIG TILBIÐJA Á JEHÓVA

28. Hvaða hjálpargögn nota sumir til að tilbiðja Guð?

28 Miklu máli skiptir hvernig við tilbiðjum Jehóva. Við ættum að tilbiðja hann á þann hátt sem hann segir, enda þótt það kunni að vera ólíkt því sem okkur hefur verið kennt. Sumir hafa til dæmis þann sið að nota líkneski við guðsdýrkun sína. Þeir segja að þeir tilbiðji ekki líkneskið, heldur hjálpi það þeim að tilbiðja Guð þegar þeir sjá það og snerta. En vill Guð að við tilbiðjum hann með hjálp líkneskja?

29. Hvernig sýnir Biblían að það er rangt að nota líkneski við guðsdýrkun?

29 Nei, það gerir hann ekki. Það var einmitt af þeirri ástæðu sem Móse sagði Ísraelsmönnum að Guð hefði aldrei birst þeim í sýnilegri mynd. (5. Mósebók 4:15-19) Meira að segja hljóðar eitt af boðorðunum tíu svo: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir . . . Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær.“ (2. Mósebók 20:4, 5) Aðeins má tilbiðja Jehóva. Biblían sýnir æ ofan í æ hversu rangt er að falla fram fyrir líkneski eða að tilbiðja nokkurn eða nokkuð nema Jehóva. — Jesaja 44:14-20; 46:6, 7; Sálmur 115:4-8.

30. (a) Hvað sögðu Jesús og postular hans sem sýnir að rangt er að nota líkneski? (b) Hvað ætti að gera við líkneski samkvæmt 5. Mósebók 7:25?

30 Eins og vænta má notaði Jesús aldrei líkneski í guðsdýrkun sinni. „Guð er andi,“ útskýrði hann, „og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Í samræmi við þetta ráð notuðu engir af fyrstu fylgjendum Jesú líkneski til hjálpar við guðsdýrkun sína. Páll postuli skrifaði meira að segja: „Því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.“ (2. Korintubréf 5:7) Og Jóhannes, postuli hans, varaði við: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Væri ekki hyggilegt af þér að svipast um á heimili þínu og spyrja þig hvort þú fylgdir þessu ráði? — 5. Mósebók 7:25.

31. (a) Hvað mun fá okkur til að hlýða lögum Guðs, jafnvel þótt við skiljum ekki til fulls ástæðuna fyrir ákveðnu lagaákvæði? (b) Hvað ættum við að reyna að gera og hvaða boð ættum við að þiggja?

31 Að tilbiðja Jehóva, skaparann, á þann veg sem hann leiðbeinir er öruggt ráð til að veita okkur ósvikna hamingju. (Jeremía 14:22) Biblían sýnir að kröfur hans eru okkur til góðs, taka mið af eilífri velferð okkar. Stundum getur takmörkuð þekking okkar og reynsla orðið þess valdandi að við skiljum ekki til fulls hvers vegna ákveðið lagaboð, sem Guð hefur sett, er svo þýðingarmikið, eða hvernig það er okkur til góðs. En það óhagganlega traust, að Guð viti miklu meira en við, ætti að fá okkur til að hlýða honum af fúsu hjarta. (Sálmur 19:8-12) Við skulum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að kynnast Jehóva, til að þiggja boð hans: „Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir [Jehóva], skapara vorum, því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir.“ — Sálmur 95:6, 7.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 42]

Nokkrir staðir þar sem nafn Guðs kemur fyrir í gömlu heimilisútgáfu Biblíunnar.

2. Mósebók 6:2, 3

2 Og Guð talaði við Móse og sagði við hann: Eg er Jahve! 3 Eg birtist Abraham, Ísak og Jakob sem »almáttugur Guð«*, en undir nafninu Jahve hefi eg eigi opinberast þeim. 4 Eg gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem

Sálmur 83:17, 19

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu,

að þeir megi leita nafns þíns, Jahve!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur,

lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Jahve,

hinn hæsti yfir allri jörðunni.

Jesaja 12:1, 2

12 Á þeim degi skaltu segja: »Eg vegsama þig Jahve, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig. 2 Sjá, Guð er mitt hjálpræði; eg er öruggur og óttast eigi, því að Jah, Jahve er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði«. 3 Og þér munuð með fögnuði vatn ausa úr lindum

Jesaja 26:4

ganga, sá er trúnaðinn varðveitir 3 og hefir stöðugt hugarfar; þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig. 4 Treystið Jahve æ og ætíð, því að Jah, Jahve er eilíft bjarg. 5 Því að hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum; háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. 6 Fætur troða hana niður,

[Myndir á blaðsíðu 34, 35]

Ef hús er byggt af einhverjum . . . hlýtur alheimurinn, langtum flóknari, að vera það líka

[Mynd á blaðsíðu 39]

Fyrst Jesús sagði í bæn til Guðs að Guðs vilji, ekki hans eigin, skyldi verða, geta þeir tveir ekki verið sama persónan.

[Mynd á blaðsíðu 40, 41]

Hvernig getur heilagur andi verið persóna úr því að hann fyllti um 120 lærisveina samtímis?

[Mynd á blaðsíðu 45]

Er rétt að nota líkneski eða myndir til tilbeiðslu?