Hvað gerist við dauðann?
8. kafli
Hvað gerist við dauðann?
1. Hvaða spurninga spyr fólk oft um hina dánu?
VERA MÁ að þú þekkir þá tómleikakennd sem fylgir fráfalli ástvinar. Þú ert hryggur og finnst þú hjálparvana! Ekki er nema eðlilegt að spyrja: Hvað verður um manninn þegar hann deyr? Er hann enn þá einhvers staðar á lífi? Munu þeir sem lifa nokkurn tíma geta notið félagsskapar á jörðinni við þá sem nú eru látnir?
2. Hvað varð um fyrsta manninn, Adam, þegar hann dó?
2 Hjálplegt er, til að fá svör við slíkum spurningum, að vita hvað varð um Adam þegar hann dó. Þegar hann syndgaði sagði Guð við hann: „Þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Hugleiddu hvað þetta merkir. Adam var ekki til áður en Guð skapaði hann úr efnum jarðarinnar. Þegar hann dó komst hann aftur í sama ástand og hann var í áður — hann var ekki til.
3. (a) Hvað er dauðinn? (b) Hvað segir Prédikarinn 9:5, 10 um ástand hinna dánu?
3 Einfaldlega sagt er dauðinn andhverfa lífsins. Biblían sýnir það í Prédikaranum 9:5, 10. Versin hljóða svo: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“
4. (a) Hvað verður um getu mannsins til að hugsa við dauðann? (b) Hvers vegna hætta öll skilningarvit mannsins að starfa við dauðann?
4 Þessi orð merkja að hinir dánu geta ekkert gert og hafa enga tilfinningu. Þeir hafa enga hugsun lengur eins og Biblían segir: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform [hugsun, NW] þeirra að engu.“ (Sálmur 146:3, 4) Við dauðann „líður burt“ andi mannsins eða lífskraftur sem hann heldur við með önduninni. Hann er ekki lengur til. Skynjun mannsins, heyrn, sjón, snertiskyn, lyktarskyn og bragðskyn, sem eru öll háð því að hann geti hugsað, hættir því að starfa. Að sögn Biblíunnar eru hinir dánu algerlega án meðvitundar.
5. (a) Hvernig sýnir Biblían að dánir menn og dánar skepnur eru í sama ásigkomulagi? (b) Hver er ‚andinn‘ sem lætur bæði menn og skepnur lifa?
5 Bæði menn og dýr eru algerlega án meðvitundar þegar þau eru dáin. Um það segir Biblían: „Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi. Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ (Prédikarinn 3:19, 20) ‚Andinn,‘ sem gerir dýrin lifandi, er sá hinn sami og gerir mennina lifandi. Þegar þessi „andi“ eða ósýnilegi lífskraftur líður burt hverfa bæði menn og skepnur til duftsins sem þau eru gerð úr.
SÁLIN DEYR
6. Hvernig sýnir Biblían að dýr eru sálir?
6 Sumir segja að maðurinn sé ólíkur dýrunum að því leyti að hann hafi sál en dýrin ekki. En 1. Mósebók 1:20 og 30 segir að Guð hafi skapað „lifandi skepnur,“ (á frummálinu: „lifandi sálir“) til að lifa í vötnunum, og að dýrin hafi „lifandi sál.“ Sumar biblíuþýðingar tala um „skepnur“ og „líf“ í staðinn fyrir „sál,“ en í mörgum þeirra kemur fram í neðanmálsathugasemdum að þar standi orðið „sál“ í frummálinu. Fjórða Mósebók 31:28 er einn af þeim stöðum í Biblíunni þar sem dýr eru kölluð sálir. Þar er talað um „eina sál af hverjum fimm hundruðum — af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði.“
7. Hvað segir Biblían til að sanna að sálir bæði dýra og manna deyja?
7 Úr því að dýr eru sálir deyja sálir þeirra þegar þau deyja. Biblían segir: „Sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.“ (Opinberunarbókin 16:3) Hvað um mannssálina? Eins og við lærðum í kaflanum á undan skapaði Guð ekki manninn með sál. Maðurinn er sál. Eins og við er að búast deyr því sál mannsins þegar maðurinn deyr. Biblían endurtekur það aftur og aftur. Hún segir hvergi að sálin deyi ekki eða sé ódauðleg. „Allir sem hníga í duftið munu falla fram, og enginn nokkurn tíma halda sál sinni á lífi,“ segir Sálmur 22:29 (vers 30 í íslensku biblíunni) í þýðingu New World Translation. „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ útskýrir Esekíel 18:4. Esekíel 13:19, Postulasagan 3:23 og Jakobsbréfið 5:20 tala ýmist um að sálin geti tortímst og dáið eða að hægt sé að frelsa hana frá dauða.
8. Hvernig vitum við að mannssálin Jesús Kristur dó?
8 Í spádómi um Jesú Krist segir Biblían: „Hann gaf líf sitt [á frummálinu: „sál sína“] í dauðann . . . hann bar syndir margra.“ (Jesaja 53:12) Kenningin um lausnargjaldið sannar að það var sál (Adam) sem syndgaði, og til að endurleysa mennina þurfti að fórna samsvarandi sál (manni). Þegar Kristur ‚úthellti sál sinni í dauðann‘ greiddi hann lausnargjaldið. Mannssálin Jesús dó.
9. Hvað merkja orðin ‚andinn fer til Guðs sem gaf hann‘?
9 Eins og við höfum séð er „andinn“ ekki hið sama og sálin. Andinn er lífskraftur okkar. Þessi lífskraftur er í sérhverri líkamsfrumu jafnt manna sem dýra. Öndunin viðheldur honum eða lætur hann lifa. Hvað á Biblían þá við þegar hún segir að við dauðann ‚hverfi moldin aftur til jarðarinnar og andinn til Guðs sem gaf hann‘? (Prédikarinn 12:7) Við dauðann fjarar lífskrafturinn út í öllum frumum líkamans og líkaminn byrjar að rotna. En með þessu er ekki átt við að lífskraftur okkar fari bókstaflega frá jörðinni um himingeiminn til Guðs. Andinn hverfur aftur til Guðs í þeim skilningi að von okkar um líf í framtíðinni er að öllu leyti bundin Guði. Hann einn er þess megnugur að gefa aftur andann eða lífskraftinn til að við getum lifað á ný. — Sálmur 104:29, 30.
LASARUS – MAÐUR SEM VAR DÁINN Í FJÓRA DAGA
10. Hvað sagði Jesús um ástand Lasarusar enda þótt hann væri dáinn?
10 Það sem henti Lasarus hjálpar okkur að skilja hvert ástand hinna dánu er, en hann var dáinn í fjóra daga. Jesús hafði sagt lærisveinum sínum: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ En lærisveinarnir svöruðu: „Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum.“ Þá sagði Jesús þeim berum orðum: „Lasarus er dáinn.“ Hvers vegna sagði Jesús að Lasarus svæfi fyrst hann var í rauninni dáinn? Við skulum leita svars við því.
11. Hvað gerði Jesús fyrir hinn látna Lasarus?
11 Þegar Jesús nálgaðist þorpið, sem Lasarus hafði búið í, kom Marta, systir Lasarusar, til móts við hann. Síðan fóru þau ásamt fjölmenni að gröfinni þar sem Lasarus hafði verið lagður. Gröfin var höggvin í klett og steinn lagður fyrir opið. Jesús sagði: „Takið steininn frá!“ En Lasarus hafði verið dáinn í fjóra daga og Marta mótmælti: „Herra, það er komin nálykt af honum.“ En steinninn var tekinn frá og Jesús hrópaði: „Lasarus, kom út!“ Og það gerði hann! Hann kom út, lifandi, enn þá vafinn líkblæjum. „Leysið hann og látið hann fara,“ sagði Jesús. — Jóhannes 11:11-44.
12, 13. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að Lasarus var meðvitundarlaus meðan hann var dáinn? (b) Hvers vegna sagði Jesús að Lasarus væri sofandi þegar hann var í rauninni dáinn?
12 Hugleiddu nú í hvaða ástandi Lasarus var þá fjóra daga sem hann var dáinn. Var hann á himnum? Hann var góður maður. Lasarus sagði ekkert um að hann hefði verið á himnum, en það hefði hann vafalaust gert ef hann hefði verið þar. Nei, Lasarus var dáinn alveg eins og Jesús hafði sagt. Hvers vegna sagði Jesús þá lærisveinum sínum fyrst að Lasarus væri aðeins sofandi?
13 Jesús vissi að hinn látni Lasarus var meðvitundarlaus eins og Biblían segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) En lifandi mann er hægt að vekja af djúpum svefni. Jesús ætlaði því að sýna fram á að hann gæti, fyrir tilstyrk þess máttar sem Guð gaf honum, vakið vin sinn Lasarus upp frá dauðum.
14. Til hvers ætti vitneskjan um mátt Krists til að vekja upp dána að hvetja okkur?
14 Sá sem sefur mjög djúpum svefni man ekkert meðan á honum stendur. Eins er með hina dánu. Þeir hafa alls enga skynjun. Þeir eru ekki lengur til. En á tilsettum tíma Guðs munu hinir dánu, sem Guð hefur endurleyst, verða vaktir til lífs. (Jóhannes 5:28) Þessi vitneskja ætti vissulega að hvetja okkur til að vilja hljóta hylli Guðs. Ef við gerum það mun Guð, jafnvel þótt við deyjum, minnast okkar og lífga okkur við aftur. — 1. Þessaloníkubréf 4:13, 14.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 76]
ADAM — gerður af moldu . . . hvarf aftur til moldar
[Mynd á blaðsíðu 78]
Í hvaða ástandi var Lasarus áður en Jesús vakti hann upp?