Hverjir fara til himna og hvers vegna?
14. kafli
Hverjir fara til himna og hvers vegna?
1. Hvernig svara margir þeirri spurningu hverjir fari til himna og hvers vegna?
MARGIR SEGJA að allir góðir menn fari til himna. En þegar þeir eru að því spurðir hvers vegna þeir fari til himna svara þeir: ‚Til að vera hjá Guði,‘ eða ‚Það eru launin fyrir að vera góður.‘ Hvað kennir Biblían um þetta efni?
2, 3. (a) Hvernig getum við vitað með vissu að sumir menn munu fara til himna? (b) Hvaða spurningum þarf að svara?
2 Biblían segir berlega að Jesús hafi verið vakinn upp frá dauðum og farið til himna. Hún segir einnig að aðrir menn myndu verða teknir þangað. Kvöldið fyrir dauða sinn sagði Jesús sínum trúföstu postulum: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ — Jóhannes 14:1-3.
3 Augljóst er að Jesús var að segja postulunum að þeir yrðu teknir til himna til að vera með honum. Páll postuli sagði frumkristnum mönnum oftsinnis frá þessari stórfenglegu von. Til dæmis skrifaði hann: „En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.“ (Filippíbréfið 3:20, 21; Rómverjabréfið 6:5; 2. Korintubréf 5:1, 2) Slík fyrirheit eru orsökin fyrir því að milljónir manna hafa vonast eftir himnavist. En fara allir góðir menn til himna?
FARA ALLIR GÓÐIR MENN TIL HIMNA?
4, 5. Hvað sannar að Davíð og Job fóru ekki til himna?
4 Skömmu eftir að Jesús var vakinn upp frá dauðum sagði Pétur postuli stórum hópi Gyðinga um ættföðurinn Davíð: „Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags. Ekki steig Davíð upp til himna.“ (Postulasagan 2:29, 34) Hinn góði maður Davíð fór því ekki upp til himna. Hvað um hinn réttláta Job?
5 Þegar Job var sem þjáðastur bað hann til Guðs: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum [gröfinni], fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!“ Job vænti þess að þegar hann dæi myndi hann liggja meðvitundarlaus í gröfinni. Hann vissi að hann færi ekki til himna. En hann hafði von eins og hann lét í ljós: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar [þann tíma sem hann lægi í gröfinni], þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ — Jobsbók 14:13-15.
6, 7. (a) Hvað sýnir að enginn sem dó á undan Kristi fór til himna? (b) Hvað verður um alla trúfasta menn sem dóu á undan Kristi?
6 Jóhannes, sem skírði Jesú, var líka góður maður. Þó sagði Jesús: „Hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.“ (Matteus 11:11) Jesús tók svo til orða vegna þess að Jóhannes skírari mun ekki fara til himna. Þegar Jesús var á jörðinni voru liðin meira en 4000 ár síðan Adam og Eva gerðu uppreisn. Þá sagði hann: „Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.“ — Jóhannes 3:13.
7 Að sögn Jesú hafði því enginn maður stigið upp til himna öll þau 4000 ár sem þá voru liðin af sögu mannkynsins. Davíð, Job og Jóhannes skírari verða reistir upp til lífs á jörðinni. Reyndar höfðu allir trúfastir menn og konur, sem dóu á undan Jesú, von um að lifa aftur á jörðinni, ekki á himnum. Þeir verða vaktir upp frá dauðum til að verða jarðneskir þegnar ríkis Guðs. — Sálmur 72:7, 8; Postulasagan 17:31.
HVERS VEGNA SUMIR TRÚFASTIR MENN FARA TIL HIMNA
8. Svörin við hvaða spurningum eru mikilvæg og hvers vegna?
8 Hvers vegna fór Jesús til himna? Hvaða verk hefur hann þar að vinna? Svörin við þessum spurningum skipta miklu máli vegna þess að þeir sem fara til himna munu taka þátt í verki Jesú með honum. Þeir fara til himna í þeim tilgangi.
9, 10. Hverjir eiga, samkvæmt Daníelsbók, aðild að ríkisstjórn Guðs auk Krists?
9 Við höfum lært í fyrri köflum þessarar bókar að Jesús muni ríkja yfir nýrri paradísarjörð sem konungur himneskrar ríkisstjórnar Guðs. Löngu áður en Jesús kom til jarðar boðaði Daníelsbók í Biblíunni að ‚mannssyninum‘ yrði „gefið vald.“ „Mannssonurinn“ er Jesús Kristur. (Markús 14:41, 62) Og Daníel heldur áfram: „Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ — Daníel 7:13, 14.
10 En mikilvægt er að gefa því gaum að Daníelsbók segir að ‚mannssonurinn‘ ríki ekki einn. Biblían segir: „En ríki, vald og máttur . . . mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans [það er, lýðsins] mun verða eilíft ríki.“ (Daníel 7:27) Að hér skuli talað um ‚heilagan lýð‘ og ‚ríki hans‘ segir okkur að aðrir muni fara með völd ásamt Kristi í ríkisstjórn Guðs.
11. Hvað sýnir að fyrstu fylgjendur Krists munu stjórna með honum?
11 Síðasta kvöldið, sem Jesús var með ellefu trúföstum postulum sínum, sagði hann þeim að þeir myndu stjórna með honum í ríki Guðs. Hann sagði: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og ég fæ yður ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ (Lúkas 22:28, 29) Síðar fengu Páll postuli og Tímóteus aðild að þessum sáttmála um ríkið. Þess vegna skrifaði Páll Tímóteusi: „Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja.“ (2. Tímóteusarbréf 2:12) Og Jóhannes postuli skrifaði um þá sem munu „ríkja sem konungar yfir jörðinni,“ (NW) „ráða ríkjum á jörðinni“ (Lifandi orð) ásamt Jesú Kristi. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 20:6.
12. Hvaða staðreynd viðvíkjandi ‚afkvæmi‘ Abrahams sýnir að Kristur mun eiga sér meðstjórnendur?
12 Þeir sem fara til himna fara því þangað til að verða meðstjórnendur Krists í himneskri ríkisstjórn Guðs. Enda þótt fyrst og fremst Jesús sé ‚sæði‘ fyrirheitisins velur Guð aðra úr hópi mannanna til að stjórna með Jesú í ríki hans. Með því verða þeir hluti af ‚sæðinu‘ eða ‚afkvæminu‘ eins og Biblían segir: „Ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ — Galatabréfið 3:16, 29; Jakobsbréfið 2:5.
HVERSU MARGIR FARA TIL HIMNA?
13. (a) Hvers vegna fara smábörn ekki til himna? (b) Hvernig lýsti Jesús fjölda þeirra sem fá ríkið í hendur?
13 Fyrst þeir sem fara til himna eiga að ríkja yfir jörðinni má ljóst vera að þeir eru fyrst prófreyndir sem fylgjendur Krists. Það þýðir að hvítvoðungar og lítil börn, sem ekki hafa verið prófreynd að fullu með áralangri, kristilegri þjónustu, fara ekki til himna. (Matteus 16:24) En slík börn, sem deyja, hafa þá von að verða vakin upp frá dauðum til að lifa á jörðinni. (Jóhannes 5:28, 29) Heildarfjöldi þeirra sem fara til himna verður því lítill í samanburði við þá mörgu sem fá líf á jörðinni undir stjórn Guðsríkis. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ — Lúkas 12:32.
14. Hversu margir mynda ‚litlu hjörðina‘ sem fer til himna?
14 Hversu smár verður hópur þeirra sem ríkja með Kristi? Verða það aðeins postularnir og aðrir af fyrstu fylgjendum Jesú? Nei, Biblían sýnir að fleiri verða í ‚litlu hjörðinni.‘ Í Opinberunarbókinni 14:1, 3 segir Biblían: „Enn sá ég sýn: Lambið [Jesús Kristur] stóð á Síonfjalli [á himnum] og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, . . . þeir sem út eru leystir [eða teknir] frá jörðunni.“ Þú veitir því eftirtekt að einungis 144.000 einstaklingar sjást með Lambinu, Jesú Kristi, á Síonfjalli á himnum. (Hebreabréfið 12:22) Biblían opinberar þannig að ekki fari allir góðir menn til himna, heldur aðeins 144.000 prófreyndir og trúfastir einstaklingar sem þangað fari til að ríkja með Kristi.
HVERS VEGNA ERU ÞEIR TEKNIR FRÁ JÖRÐINNI?
15. Hvers vegna velur Guð stjórnendur ríkisins úr hópi mannanna?
15 En hvers vegna velur Guð þessa stjórnendur úr hópi mannanna? Hvers vegna lætur hann ekki englana ríkja með Kristi? Því er til að svara að það var hér á jörðinni sem réttur Jehóva til að stjórna var véfengdur. Það var hér sem trúfesti manna við Guð var prófreynd við mikla andstöðu djöfulsins. Það var hér sem Jesús sannaði óhagganlega hollustu við Guð þegar hann var reyndur, og gaf líf sitt sem lausnargjald fyrir mannkynið. Þess vegna ákvað Jehóva að taka frá jörðinni „litla hjörð“ manna til að ríkja með syni hans í ríkinu á himnum. Þeir hafa, með trúfesti sinni við Guð, afsannað þá ásökun djöfulsins að menn þjóni Guði aðeins af eigingjörnum hvötum. Vel á því við að Jehóva skuli nota þessa menn sér til dýrðar. — Efesusbréfið 1:9-12.
16. Hvers vegna getum við verið þakklát að stjórnendur Guðsríkis hafa búið á jörðinni?
16 Hugsaðu þér líka hversu gott það verður að hafa sem yfirvald menn sem hafa reynst Guði trúfastir á jörðinni, margir hverjir jafnvel fórnað lífi sínu í þágu Guðsríkis. (Opinberunarbókin 12:10, 11; 20:4) Englar hafa ekki gengist undir slíkar prófraunir. Þeir hafa ekki fengið að reyna vandamálin sem mannkynið hefur mátt þola. Þeir myndu ekki skilja til fullnustu hvernig það er að vera syndugur maður og eiga við að stríða þau vandamál sem við mennirnir höfum. En hinir 144.000 munu skilja það vegna þess að þeir hafa sjálfir glímt við sömu vandamál. Sumir þeirra hafa þurft að sigrast á mjög syndsamlegum iðkunum og vita hversu erfitt það getur verið. (1. Korintubréf 6:9-11) Þeir munu því vera skilningsríkir gagnvart jarðneskum þegnum sínum. — Hebreabréfið 2:17, 18.
SÖFNUÐUR GUÐS
17. Um hvað er orðið „söfnuður“ notað?
17 Biblían segir okkur að Kristur sé höfuð safnaðar Guðs og að þeir sem mynda hann lúti Jesú. (Efesusbréfið 5:23, 24) Orðið „kirkja“ er því notað um söfnuð Guðs, ekki einhverja byggingu. Það merkir hópur kristinna manna. (1. Korintubréf 15:9) Nú til dags tölum við gjarnan um söfnuð kristinna manna sem við höfum samfélag við. Með sama hætti lesum við í Biblíunni um ‚söfnuð Laódíkeumanna‘ og í bréfi Páls til Fílemons um ‚söfnuðinn sem kom saman í húsi hans.‘ — Kólossubréfið 4:16; Fílemonsbréfið 2.
18. (a) Hverjir mynda ‚söfnuð lifanda Guðs‘? (b) Hvað er þessi söfnuður einnig nefndur í Biblíunni?
18 Þegar Biblían aftur á móti talar um ‚söfnuð lifanda Guðs‘ er hún að tala um sérstakan hóp fylgjenda Krists. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Þeir eru einnig kallaðir ‚söfnuður frumgetinna sem á himnum eru skráðir.‘ (Hebreabréfið 12:23) Þessi „söfnuður Guðs“ er því myndaður af öllum kristnum mönnum á jörðinni sem hafa von um líf á himnum. Þegar allt er talið eru aðeins 144.000 einstaklingar í ‚söfnuði Guðs.‘ Nú eru aðeins fáeinir þeirra, litlar leifar, enn á jörðinni. Kristnir menn, sem bera í brjósti von um eilíft líf á jörðinni, vænta andlegrar leiðsagnar frá þeim sem mynda þennan ‚söfnuð lifanda Guðs.‘ Biblían kallar söfnuð þessara 144.000 einnig „brúðina, eiginkonu lambsins,“ „líkama Krists,“ „musteri Guðs,“ „Ísrael Guðs“ og „nýja Jerúsalem.“ — Opinberunarbókin 21:9; Efesusbréfið 4:12; 1. Korintubréf 3:17; Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 21:2.
HIÐ NÝJA Í FYRIRÆTLUN GUÐS
19. Hvaða nýjung kom Guð fram með til að fullna upphaflega fyrirætlun sína með jörðina?
19 Jehóva Guð breytti ekki fyrirætlun sinni með jörðina og mannkynið á henni eftir að Adam leiddi það út á braut syndar og dauða. Hefði Guð gert það hefði það þýtt að hann gæti ekki látið upphaflegan tilgang sinn ná fram að ganga. Tilgangur hans var frá upphafi sá að láta alla jörðina vera paradís sem væri byggð hamingjusömu, heilbrigðu fólki, og sú fyrirætlun er óbreytt. Hið eina nýja, sem Guð skaut inn í, var sú ráðstöfun að koma á fót nýrri stjórn til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. Eins og við höfum séð fer sonur hans, Jesús Kristur, með æðsta vald innan stjórnarinnar, og 144.000 einstaklingar verða valdir úr hópi mannanna til að ríkja á himni með honum. — Opinberunarbókin 7:4.
20. (a) Hverjir mynda ‚nýja himininn‘ og ‚nýju jörðina‘? (b) Hvað þarft þú að gera til að verða hluti ‚nýju jarðarinnar‘?
20 Þessir stjórnendur á himni munu mynda ‚nýjan himin‘ í nýrri skipan Guðs. Ljóst er þó að eigi að vera slíkir réttlátir stjórnendur yfir jörðinni hljóta að vera einhverjir þegnar sem þeir stjórna. Biblían kallar þegnana ‚nýja jörð.‘ (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4) Í þeirra hópi verða Job, Davíð og Jóhannes skírari — já, allir trúfastir menn sem voru uppi áður en Kristur kom til jarðarinnar. En þeir sem mynda hina ,nýju jörð‘ verða miklu fleiri, þeirra á meðal menn sem lifa af endalok þessa illa heimskerfis. Verður þú einn þeirra sem lifir af? Langar þig til að verða þegn stjórnar Guðs? Ef svo er þarft þú að uppfylla ýmis skilyrði.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 121]
Fóru þessir góðu menn til himna?
Davíð konungur
Job
Jóhannes skírari
[Mynd á blaðsíðu 121]
Síðasta kvöld sitt með postulunum sagði Jesús að þeir myndu ríkja með honum í ríki föður hans.