Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig bænin getur hjálpað okkur

Hvernig bænin getur hjálpað okkur

27. kafli

Hvernig bænin getur hjálpað okkur

1. Hvaða hjálpar þörfnumst við frá Guði og hvernig fáum við hana?

 EIGI KRISTNIR MENN að forðast ill áhrif heimsins þurfa þeir mjög á þeirri hjálp að halda sem fæst með bæninni. Jesús sagði: „Faðirinn himneski [mun] gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13) Við höfum þörf fyrir heilagan anda eða starfskraft Guðs, alveg eins og við þurfum að nema orð hans og hafa samfélag við sýnilegt skipulag hans. En við þurfum að biðja um heilagan anda til að fá hann.

2. (a) Hvað er bæn? (b) Nefnið dæmi um mismunandi bænir. (c) Hvers vegna er bænin þýðingarmikil?

2 Bæn er lotningarfullt tal við Guð. Hún getur verið í mynd bónar svo sem þegar Guð er beðinn einhvers. En bæn getur líka verið þakkar- eða lofgjörð til Guðs. (1. Kroníkubók 29:10-13) Til að hafa gott samband við okkar himneska föður verðum við að tala reglulega við hann í bæn. (Rómverjabréfið 12:12; Efesusbréfið 6:18) Starfskraftur Guðs, sem við fáum með því að biðja um hann, getur styrkt okkur til að gera vilja hans, þrátt fyrir alla þá erfiðleika eða freistingar sem Satan eða heimur hans getur leitt yfir okkur. — 1. Korintubréf 10:13; Efesusbréfið 3:20.

3. (a) Hvaða kraft getum við sótt til Guðs? (b) Hvernig aðeins getum við varðveitt gott samband við Guð?

3 Vera má að þú eigir í harðri baráttu við að losa þig við ávana eða breytni sem er ekki Guði þóknanleg. Ef svo er skalt þú leita hjálpar Jehóva. Snúðu þér til hans í bæn. Páll postuli gerði það og hann skrifaði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13; Sálmur 55:23; 121:1, 2) Kona, sem hætti siðlausu líferni, sagði: „Hann er sá eini sem er nógu sterkur til að hjálpa okkur úr slíkum farvegi. Við verðum að hafa persónulegt samband við Jehóva, og eina leiðin til að halda slíku persónulegu sambandi er sú að biðja.“

4. Hvernig fékk maður nokkur styrk til að hætta að reykja?

4 Sumir segja samt: ‚Ég hef oft beðið Guð að hjálpa mér en get samt ekki hætt að gera það sem er rangt.‘ Margir reykingamenn hafa sagt það. Þegar einn þeirra var spurður: „Hvenær biður þú?“ svaraði hann: „Á kvöldin áður en ég fer að sofa, á morgnana þegar ég fer á fætur, og þegar ég hef látið undan og fengið mér reyk segi ég Jehóva að ég sé hryggur yfir því sem ég hef gert.“ Vinur hans sagði: „Þarft þú ekki mest á hjálp Guðs að halda á því augnabliki sem þú ert að teygja þig í tóbakið? Þá ættir þú að biðja Jehóva að styrkja þig.“ Þegar maðurinn gerði það fékk hann hjálp til að hætta að reykja.

5. (a) Hvað þarf að gera til að þjóna Guði á réttan hátt? (b) Hvers vegna getur oft verið sársaukafullt að hætta syndsamlegu athæfi?

5 Með þessu er ekki verið að segja að þú munir eiga auðvelt með að gera það sem rétt er, þótt þú biðjir til Guðs, nemir orð hans og hafir samfélag við sýnilegt skipulag hans. Þú þarft eftir sem áður að taka á; heyja harða baráttu sem getur jafnvel verið sársaukafull. (1. Korintubréf 9:27) Slæmur ávani getur haft í för með sér geysisterka löngun í það sem rangt er. Þess vegna er það yfirleitt sársaukafullt að hætta syndsamlegu athæfi. Ert þú fús til að þjást til að gera það sem rétt er? — 1. Pétursbréf 2:20, 21.

BÆNIR SEM GUÐ HEYRIR

6. (a) Hvers vegna finnst mörgum erfitt að biðja? (b) Hvað þurfum við að gera til að fá bænheyrslu?

6 Margir eiga erfitt með að biðja. „Ég á erfitt með að biðja til einhvers sem ég get ekki séð,“ viðurkenndi ung kona. Enginn maður hefur séð Guð og þess vegna þurfum við að trúa til að biðja til hans og fá bænheyrslu. Við þurfum að trúa að Jehóva sé í raun og veru til og geti gert það sem við biðjum hann um. (Hebreabréfið 11:6) Ef við höfum slíka trú og nálgumst Guð með einlægu hjarta getum við treyst að hann hjálpi okkur. (Markús 9:23) Rómverski herforinginn Kornelíus tilheyrði enn ekki skipulagi Guðs þegar hann bað Guð í einlægni að leiðbeina sér, en samt sem áður svaraði Guð bæn hans. — Postulasagan 10:30-33.

7. (a) Hvers konar bænir eru Guði þóknanlegar? (b) Hvers konar bænir heyrir Guð ekki?

7 Sumum finnst erfitt að orða hugsun sína. Það ætti þó ekki að koma í veg fyrir að við tölum við Guð í bæn. Við getum treyst að hann viti hvers við þörfnumst og skilji það sem við viljum segja. (Matteus 6:8) Hvort kannt þú betur að meta að barn tjái þér þakkir sínar í einlægni með sínu einfalda orðfæri, eða með hástemmdu orðalagi sem einhver hefur kennt því að þylja utan að? Faðir okkar á himnum kann að meta það sem við segjum honum með einföldum orðum í fullri einlægni. (Jakobsbréfið 4:6; Lúkas 18:9-14) Ekki þarf að taka sér í munn sérstök orð eða trúarlegt orðfæri. Guð hlustar ekki einu sinni á þá sem biðja með óvenjulegum eða háfleygum orðum til að sýnast fyrir öðrum, né þá sem þylja sömu þuluna aftur og aftur án þess að vera einlægir. — Matteus 6:5, 7.

8. (a) Hvað sýnir að Guð getur heyrt bænir sem beðnar eru í hljóði? (b) Segir Biblían að vera þurfi í ákveðinni stellingu eða á ákveðnum stað til að biðja?

8 Guð getur heyrt bæn okkar þótt við biðjum í hljóði. Guð svaraði einlægri beiðni Nehemía og Hönnu þótt þau bæðu í hljóði. (Nehemía 2:4-8; 1. Samúelsbók 1:11-13, 19, 20) Stellingin, sem beðið er í, skiptir ekki heldur aðalmáli. Þú getur beðið í hvaða stellingu sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Biblían sýnir þó að viðeigandi er að vera í stellingu sem tjáir auðmýkt, svo sem að lúta höfði eða krjúpa á kné. (1. Konungabók 8:54; Nehemía 8:6; Daníel 6:11; Markús 11:25; Jóhannes 11:41) Jesús benti auk þess á að gott væri að biðja einkabæna í einrúmi, þar sem aðrir sjá ekki til. — Matteus 6:6.

9. (a) Hvern eigum við alltaf að ávarpa í bænum okkar og hvers vegna? (b) Í nafni hvers eigum við að bera bænir okkar fram til að Guð hafi velþóknun á þeim?

9 Bæn er snar þáttur í tilbeiðslu okkar. Þess vegna eigum við í bænum okkar aðeins að ávarpa skapara okkar, Jehóva Guð, engan annan. (Matteus 4:10) Biblían sýnir auk þess að kristnir menn verða að nálgast Guð fyrir milligöngu Jesú sem gaf líf sitt til að taka burt syndir okkar. Með því er átt við að við ættum að biðja bæna okkar í Jesú nafni. — Jóhannes 14:6, 14; 16:23; Efesusbréfið 5:20; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

10. (a) Bænir hverra heyrir Guð ekki? (b) Hvaða skilyrði þurfum við að uppfylla til að Guð heyri bænir okkar?

10 Eru allar bænir Jehóva þóknanlegar? Biblían segir: „Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, — jafnvel bæn hans er andstyggð.“ (Orðskviðirnir 28:9; 15:29; Jesaja 1:15) Ef við viljum að Guð heyri bænir okkar er þess vegna algert skilyrði að við gerum vilja hans, hlýðum lögum hans. Að öðrum kosti mun Guð ekki hlusta á okkur frekar en siðprúður maður hlustar á útvarpsdagskrá sem hann álítur ósiðlega. Biblían segir: „Hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:22.

11. Hvað þýðir það að vinna að því sem við biðjum um?

11 Þetta þýðir að við verðum að vinna að því sem við biðjum um. Til dæmis væri rangt að biðja Guð um hjálp til að hætta notkun tóbaks eða kannabisefna, og fara síðan út til að kaupa það. Jafn-þýðingarlaust er að biðja Jehóva um hjálp til að forðast siðleysi, og lesa síðan rit og horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem hafa siðleysi sem aðalinntak. Sé veikleikinn fjárhættuspil er gagnslaust að biðja Guð um hjálp til að hætta fjárhættuspili, og fara síðan rakleiðis á veðreiðar eða aðra staði þar sem fjárhættuspil er stundað. Eigi Guð að heyra bænir okkar þurfum við að sýna honum í verki að við meinum það sem við segjum.

12. (a) Hvað getum við nefnt í bænum okkar? (b) Hvað verðum við að læra til að bænir okkar séu Guði þóknanlegar?

12 Hvaða einkamál getum við þá talað um við Jehóva í bænum okkar? Í rauninni má nefna í bæn allt sem hefur áhrif á samband okkar við Guð, svo sem heilsu okkar eða uppeldi barna. (2. Konungabók 20:1-3; Dómarabókin 13:8) Jóhannes postuli skrifaði: „Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Það sem máli skiptir er að bón okkar sé í samræmi við vilja Guðs. Það hefur í för með sér að við þurfum fyrst að læra hver vilji hans er. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Ef við síðan tökum mið af vilja Guðs og fyrirætlunum þegar við biðjum, í stað þess að hugsa einungis um það sem að okkur snýr, verða bænir okkar Jehóva þóknanlegar. Rétt er að þakka Jehóva dag hvern fyrir allt það góða sem hann gefur okkur. — Jóhannes 6:11, 23; Postulasagan 14:16, 17.

13. (a) Hverju ættum við að gefa mestan gaum í bænum okkar, að sögn Jesú? (b) Hvað ættum við líka að biðja um sem hefur minni þýðingu?

13 Jesús kenndi lærisveinum sínum fyrirmyndarbæn til að þeir mættu vita hvers konar bænir Guð heyrir. (Matteus 6:9-13) Í bæninni kemur fram að nafn Guðs, ríki og vilji hans á jörðinni skipta mestu máli. Því næst megum við biðja um það sem snýr að þörfum sjálfra okkar, svo sem daglegu viðurværi, fyrirgefningu synda og því að hann frelsi okkur undan freistingum og hinum vonda, Satan djöflinum.

BÆNIR SEM HJÁLPA ÖÐRUM

14. Hvernig kemur fram í Biblíunni að mikilvægt sé að biðja fyrir öðrum?

14 Með fordæmi sínu sýndi Jesús hvílíka þýðingu það hefur að biðja fyrir öðrum. (Lúkas 22:32; 23:34; Jóhannes 17:20) Páll postuli gerði sér fulla grein fyrir gildi slíkra bæna og bað oft aðra um að biðja fyrir sér. (1. Þessaloníkubréf 5:25; 2. Þessaloníkubréf 3:1; Rómverjabréfið 15:30) Meðan hann var í fangelsi skrifaði hann: „Ég vona, að ég vegna bæna yðar muni vera gefinn yður.“ (Fílemonsbréfið 22; Efesusbréfið 6:18-20) Páll var leystur úr haldi skömmu síðar og það gefur til kynna hvaða gildi þær bænir höfðu sem beðnar voru fyrir honum.

15. Hvers getum við beðið í þágu þeirra sem við elskum?

15 Páll hjálpaði líka öðrum með því að biðja fyrir þeim. „Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar,“ skrifaði hann. (2. Þessaloníkubréf 1:11) Og í bréfi til annars safnaðar sagði hann: „Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt . . . heldur til þess að þér gjörið hið góða.“ (2. Korintubréf 13:7) Gott er að fylgja fordæmi Páls og biðja ákveðinna bæna fyrir öðrum sem við elskum. „Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.“ — Jakobsbréfið 5:13-16.

16. (a) Hvenær ættum við að biðja til að fá þá hjálp sem við þurfum? (b) Hvers vegna er bænin mjög mikil sérréttindi?

16 Einn af þjónum orðsins spyr oft þá sem hann nemur Biblíuna með: „Biður þú við önnur tækifæri en biblíunámið sem við höfum einu sinni í viku?“ Við þurfum að tala oft við Guð í bæn til að fá þá hjálp sem við þurfum á að halda. (1. Þessaloníkubréf 5:17; Lúkas 18:1-8) Lærðu að tala auðmjúklega við hann eins og þú myndir tala við ástkæran vin sem þú treystir. Hvílík sérréttindi að geta ávarpað í bæn hinn dýrlega drottinvald alheimsins, hann sem „heyrir bænir,“ í þeirri vissu að hann hlusti á okkur! — Sálmur 65:3.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 227]

Hvað ættir þú að gera þegar þín er freistað til að reykja — biðja um hjálp eða láta undan?

[Mynd á blaðsíðu 229]

Biður þú um hjálp og gerir síðan eitthvað sem getur leitt til rangrar breytni?

[Mynd á blaðsíðu 230]

Biður þú í einrúmi eða aðeins með öðrum?