Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Illir andar eru máttugir

Illir andar eru máttugir

10. kafli

Illir andar eru máttugir

1. Hvers vegna trúa svo margir að þeir geti talað við hina dánu?

 OFT SEGIST fólk hafa talað við hina dánu. Kunnur biskup Biskupakirkjunnar, James A. Pike, sem nú er látinn, sagðist hafa talað við látinn son sinn, Jim. Að sögn Pike sagði sonur hans honum: „Það er múgur manna í kringum mig, og hendur sem eins og lyfta mér upp . . . Ég var svo óhamingjusamur þangað til ég gat látið þig vita.“

2. (a) Hvers vegna getur enginn talað við hina dánu? (b) Hvaða spurningar vakna því?

2 Slík reynsla er svo algeng að ljóst má vera að margir hafa talað við einhvern frá andaheiminum. En þeir hafa ekki talað við hina dánu. Biblían er mjög skýr þegar hún segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Ef það eru ekki hinir dánu sem eru að tala frá andaheiminum, hverjir tala þá? Hverjir þykjast vera dánir menn?

3. (a) Hverjir þykjast vera látnir menn og hvers vegna? (b) Hverjum gefa illir andar oft upplýsingar?

3 Það gera illir andar. Þessir andar eru englarnir sem slógust í lið með Satan í uppreisn gegn Guði. Hvers vegna þykjast þeir vera menn sem hafa dáið? Það er til að ýta undir trú manna á að hinir dánu séu enn á lífi. Illir andar hafa auk þess fengið marga til að trúa þeirri lygi að dauðinn sé aðeins breyting frá einni tilveru til annarrar. Til að útbreiða þessa lygi hafa illir andar á sínum snærum andamiðla, spámenn, spákonur og særingamenn sem búa yfir sérstakri þekkingu sem aðeins virðist vera komin frá dánu fólki.

HANN LÉST VERA SAMÚEL UPPVAKINN

4. (a) Hvers vegna var Sál konungur áfjáður í hjálp? (b) Hver voru lagaboð Guðs um andamiðla og spásagnamenn?

4 Í Biblíunni er dæmi um illan anda sem lést vera látinn spámaður Guðs, Samúel. Það gerðist á 40. ríkisári Sáls konungs. Filistar höfðu dregið saman mikinn her og lagt í herför gegn hersveitum Sáls, og hann var mjög hræddur. Sál þekkti lagaboð Guðs: „Farið ekki til þeirra, sem fara til frétta af dauðum, eða spásagnarmanna; farið ei til frétta við þá, að þér saurgizt ekki af þeim.“ (3. Mósebók 19:31, Ísl. bi. 1859) Þegar tímar liðu hafði Sál hins vegar gerst fráhverfur Jehóva. Því fór svo að Samúel, sem þá var enn á lífi, neitaði að hitta Sál framar. (1. Samúelsbók 15:35) Og nú, þegar vandi steðjaði að, var Sál konungur örvæntingarfullur vegna þess að Jehóva hlustaði ekki á áköll hans um hjálp.

5. (a) Hvar leitaði Sál hjálpar? (b) Hvað gat andamiðillinn gert?

5 Sál var svo áfjáður að vita hvað myndi gerast að hann fór til andamiðils í Endór. Andamiðillinn, sem var kona, gat kallað fram persónu í einhverri mynd sem hún gat séð. Af lýsingu miðilsins þóttist Sál geta þekkt „Samúel.“ Andaveran, sem þóttist vera Samúel, mælti: „Hví hefir þú ónáðað mig og látið kalla mig fram?“ Sál svaraði: „Ég er í miklum nauðum staddur. Filistar herja á mig.“ Andinn svaraði: „Hví spyr þú mig þá, fyrst [Jehóva] er frá þér vikinn og orðinn óvinur þinn?“ Hin illa andavera, sem þóttist vera Samúel látinn, sagði síðan Sál að hann yrði drepinn í stríði við Filista. — 1. Samúelsbók 28:3-19.

6. Hvers vegna getur það ekki hafa verið Samúel sem talaði við Sál?

6 Bersýnilega var það ekki Samúel sem andamiðillinn hafði náð sambandi við. Samúel var látinn og látinn maður ‚verður aftur að jörðu, á þeim degi verða áform hans [hugsanir hans, NW] að engu.‘ (Sálmur 146:4) Með því að hugleiða málið ögn getum við séð að röddin var í rauninni ekki rödd hins látna Samúels. Samúel var spámaður Guðs og hafði því barist gegn andamiðlum. Og, eins og fram hefur komið, hafði hann í lifanda lífi neitað að tala framar við hinn óhlýðna Sál. Ef Samúel hefði verið enn á lífi er afar ósennilegt að hann hefði leyft andamiðli að koma á fundi með sér og Sál. Íhugaðu einnig þetta: Jehóva hafði neitað að gefa Sál frekari upplýsingar. Gat andamiðill neytt Jehóva til að flytja Sál boðskap fyrir milligöngu hins látna Samúels? Gætu hinir lifandi í raun og veru talað við látna ástvini myndi Guð kærleikans áreiðanlega ekki segja að þeir hefðu ‚saurgast,‘ orðið óhreinir af því að leita til andamiðils.

7. Hvaða aðvörun gaf Guð til að vernda þjóna sína fyrir illum öndum?

7 Sannleikurinn er sá að illum öndum gengur það eitt til að vinna mönnum tjón og þess vegna varar Jehóva þjóna sína við þeim til að vernda þá. Lestu eftirfarandi varnaðarorð til Ísraelsþjóðarinnar. Þau gefa þér hugmynd um þær aðferðir sem illir andar beita til að leiða fólk á villigötur. Biblían segir: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá, er slíkt gjörir, er [Jehóva] andstyggilegur.“ (5. Mósebók 18:10-12) Við ættum að vilja vita hvað illir andar gera til að vinna fólki tjón nú á dögum, og hvernig við getum varist þeim. En áður en við skoðum það skulum við athuga hvenær og hvernig illir andar urðu til.

ENGLAR SEM URÐU ILLIR ANDAR

8. (a) Hverja fékk Satan líka til að gera uppreisn gegn Guði? (b) Hvert fóru þeir þegar þeir hættu störfum sínum á himni?

8 Þegar engill nokkur laug að Evu í Edengarðinum gerði hann sig að hinum illskeytta anda, Satan djöflinum. Síðan fór hann að reyna að fá aðra engla til að snúast líka gegn Guði. Með tíð og tíma tókst honum það. Sumir englar hættu því verki sem Guð hafði falið þeim á himnum, komu niður til jarðar og gerðu sér mannslíkama af holdi. Kristni lærisveinninn Júdas skrifaði um þá þegar hann minntist á „englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað.“ (Júdasarbréfið 6) Hvers vegna komu þeir til jarðarinnar? Hvaða ranga löngun vakti Satan í hjörtum þeirra til að fá þá til að yfirgefa þá góðu stöðu sem þeir höfðu á himnum?

9. (a) Hvers vegna komu englarnir til jarðar? (b) Hvernig sýnir Biblían fram á að það sem þeir gerðu var rangt?

9 Biblían segir okkur það: „Sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.“ (1. Mósebók 6:2) Englarnir klæddust líkama af holdi og komu þeir til jarðarinnar til að hafa kynmök við fagrar konur. En englum var ekki ætlað að eiga slík ástarævintýri; þau voru óhlýðnisverk. Biblían segir að það sem þeir gerðu hafi verið jafnrangt og kynvilluathafnir Sódómu- og Gómorrubúa. (Júdasarbréfið 6, 7) Hvaða afleiðingar hafði þessi óhlýðni?

10, 11. (a) Hvers konar börn eignuðust englarnir? (b) Hvað varð um risana þegar flóðið kom? (c) Hvað varð um englana í flóðinu?

10 Englunum og konum þeirra fæddust börn. En þessi börn voru ólík venjulegum börnum. Þau héldu áfram að stækka og stækka þar til þau urðu risavaxin og um leið óguðleg. Biblían kallar þau ‚kappana sem í fyrndinni voru víðfrægir.‘ Þessir risar reyndu að neyða alla menn til að verða vondir eins og þeir. Biblían segir afleiðinguna hafa orðið þá að „illska mannsins var mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ (1. Mósebók 6:4, 5) Jehóva lét því flóðið koma. Risarnir, einnig kallaðir „nefilím,“ og allir óguðlegir menn drukknuðu. En hvað varð um englana sem höfðu komið til jarðarinnar?

11 Þeir drukknuðu ekki. Þeir afklæddust holdlegum líkömum sínum og sneru aftur til himna sem andaverur. En nú fengu þeir ekki að verða aftur hluti af skipulagi hinna heilögu engla sem þjóna Guði. Biblían segir: „Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.“ — 2. Pétursbréf 2:4.

12. (a) Hvað varð um illu englana þegar þeir sneru aftur til himna? (b) Hvers vegna geta þeir ekki íklæðst mannslíkama aftur? (c) Hvað gera þeir þess vegna nú?

12 Þessir illu englar voru ekki settir í bókstaflega myrkrahella. Gríska orðið tartaros, þýtt ‚myrkrahellar‘ eða ‚myrkrafjötur‘ í íslensku biblíunni nú, en oft ranglega þýtt ‚helvíti‘ (sjá til dæmis íslensku biblíuna frá 1859), er látið lýsa niðurlægingu englanna. Þeir voru útilokaðir frá öllu andlegu ljósi frá skipulagi Guðs, og þeirra bíður aðeins eilíf tortíming. (Jakobsbréfið 2:19; Júdasarbréfið 6) Frá dögum flóðsins hefur Guð ekki leyft þessum djöflaenglum að íklæðast líkömum af holdi, þannig að þeir geta ekki fullnægt ónáttúrlegum kynlífsfýsnum sínum beinlínis. Engu að síður geta þeir enn haft hættuleg áhrif á fólk. Með hjálp þessara djöfla „afvegaleiðir“ Satan meira að segja „alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Hinn hraði vöxtur kynferðisglæpa, ofbeldis og annarrar rangsleitni nú á tímum sýnir að við þurfum að gæta þess að láta þá ekki leiða okkur á villigötur.

ÞANNIG AFVEGALEIÐA ILLIR ANDAR

13. (a) Hvernig leiða illir andar menn á villigötur? (b) Hvað er spíritismi og hvað segir Biblían um hann?

13 Við höfum áður lært að Satan, „guð þessarar aldar,“ beitir fyrir sig veraldlegum stjórnum og falstrúarbrögðum til að blinda fólk fyrir sannindum Biblíunnar. (2. Korintubréf 4:4) Önnur aðferð, sem hefur reynst illum öndum happasæl til að leiða menn og konur á villigötur, er andatrúin, spíritisminn. Hvað er spíritismi? Spíritismi er það að komast í samband við illa anda, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu mennskra miðla. Spíritismi kemur mönnum undir áhrif illu andanna. Biblían varar okkur eindregið við því að koma nálægt nokkrum athöfnum sem tengdar eru spíritisma. — Sjá Galatabréfið 5:19-21 og Opinberunarbókina 21:8 í biblíuútgáfunni Lifandi orð.

14. (a) Hvað eru spásagnir? (b) Hvað segir Biblían um þær?

14 Spásagnir eru algeng mynd spíritisma. Spásagnir felast í því að reyna að komast á snoðir um atburði framtíðarinnar, eða um eitthvað óþekkt, með hjálp ósýnilegra anda. Það má sjá af því sem kristni lærisveinninn Lúkas skrifaði: „Dag einn, er við vorum á leið til bænastaðarins á árbakkanum, mættum við þjónustustúlku sem hafði illan anda. Hún spáði fyrir fólki og græddi þannig mikla peninga handa eigendum sínum.“ Páll postuli gat frelsað stúlkuna undan valdi þessa illa anda, og hún gat ekki lengur sagt fyrir um framtíðina. — Postulasagan 16:16-19, Lifandi orð.

15. (a) Nefnið sumt af því sem er tengt spíritisma. (b) Hvers vegna er hættulegt að taka þátt í slíku?

15 Margir hafa áhuga á spíritisma vegna þeirrar dulúðar sem hann er hjúpaður. Þeir hrífast af honum. Þeir fara því að fást við kukl, svartagaldur, dáleiðslu, galdra, stjörnuspár, andaglas, „ouijaborð“ eða eitthvað annað sem tengt er spíritisma. Þeir lesa bækur um þessi fyrirbæri eða sjá um þær kvikmyndir í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi. Þeir fara jafnvel á miðilsfundi þar sem andamiðill reynir að ná sambandi við andaheiminn. En allt slíkt er óhyggilegt af manni sem vill þjóna hinum sanna Guði. Það er hættulegt og getur valdið margs kyns erfiðleikum. Auk þess mun Guð dæma og vísa á bug öllum sem iðka spíritisma. — Opinberunarbókin 22:15.

16. Hvernig sýnir Biblían að kristnir menn eiga í baráttu við illa anda?

16 Jafnvel sá sem gerir allt sem í hans valdi stendur til að halda sér frá spíritisma getur orðið fyrir árásum illra anda. Minnstu þess að Jesús Kristur heyrði rödd sjálfs djöfulsins sem reyndi að freista hans til að brjóta lög Guðs. (Matteus 4:8, 9) Aðrir þjónar Guðs hafa orðið fyrir slíkum árásum. Páll postuli sagði: „Baráttan, sem vér eigum í, er . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ Það þýðir að sérhver þjónn Guðs þarf að ‚taka alvæpni Guðs til að hann geti veitt mótstöðu.‘ — Efesusbréfið 6:11-13.

STAÐIÐ GEGN ÁRÁSUM ILLRA ANDA

17. Hvað ættir þú að gera ef „rödd“ frá andaheiminum talar til þín?

17 Hvað ættir þú að gera ef „rödd“ úr andaheiminum talaði til þín? Hvað ættir þú að gera ef „röddin“ þættist vera dáinn ættingi eða góður andi? Hvað gerði Jesús þegar ‚höfðingi illu andanna‘ talaði til hans? (Matteus 9:34) Hann sagði „Vík brott, Satan!“ (Matteus 4:10) Það getur þú líka gert. Auk þess getur þú ákallað Jehóva þér til hjálpar. Þú getur beðið upphátt og nefnt nafn Guðs. Mundu að hann er máttugri en illu andarnir. Fylgdu þessum viturlegu ráðleggingum. Hlustaðu ekki á slíkar raddir úr andaheiminum. (Orðskviðirnir 18:10; Jakobsbréfið 4:7) Þetta ber ekki að skilja svo að allir sem heyra „raddir“ sæti ásóknum illra anda. Stundum má rekja slíkt til ákveðinna líkamlegra eða geðrænna sjúkdóma.

18. Hvaða fordæmi frumkristinna manna í Efesus er gott að fylgja ef við viljum losna úr viðjum spíritisma?

18 Vera kann að þú hafir áður fyrr tekið þátt í einhverjum andatrúarathöfnum og viljir nú hætta því. Hvað getur þú gert? Hyggilegt er af þér að athuga fordæmi frumkristinna manna í Efesus. Eftir að þeir höfðu tekið við orði Jehóva, sem Páll postuli prédikaði, segir Biblían: „Og allmargir, er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi.“ Og þessar bækur voru virtar á samtals 50.000 silfurpeninga! (Postulasagan 19:19, 20) Skynsamlegt er af þér að fylgja fordæmi þeirra sem gerðust fylgjendur Krists í Efesus, og eyðileggja hluti sem þú átt og standa í beinum tengslum við spíritisma, hversu dýrmætir sem þeir eru.

19. (a) Hvað vita fæstir sem eiga eitthvað við spíritisma? (b)  Hvað verðum við að gera ef við viljum lifa hamingjusöm að eilífu á jörðinni?

19 Mikill áhugi er nú fyrir dulrænum fyrirbærum og því sífellt fleiri sem eiga eitthvað við spíritisma í einni eða annarri mynd. Flestir þeirra vita aftur á móti ekki að þeir eru í rauninni að komast undir áhrif illra anda. Það er engin saklaus skemmtun því að illir andar geta unnið mönnum mikið tjón. Þeir eru illskeyttir. Og áður en Kristur fangelsar þá með tortímingu að eilífu gera þeir allt sem þeir geta til að koma mönnum undir sín illu áhrif. (Matteus 8:28, 29) Viljir þú lifa hamingjusamur að eilífu á jörð, eftir að öll mannvonska og illska er afmáð, þarft þú að varast að komast undir áhrif illra anda, með því að halda þér frá spíritisma í sérhverri mynd.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 91]

Við hvern náði andamiðillinn í Endór sambandi?

[Mynd á blaðsíðu 92, 93]

Englasynir Guðs tóku eftir dætrum mannanna.

[Mynd á blaðsíðu 94]

Englarnir, sem holdguðust, drukknuðu ekki. Þeir lögðu til hliðar holdslíkama sína og sneru aftur til himna.

[Mynd á blaðsíðu 97]

Biblían aðvarar: ‚Forðist spíritisma í sérhverri mynd.‘

[Mynd á blaðsíðu 98]

Þeir sem tóku kristna trú í Efesus brenndu bækur sínar um spíritisma — gott fordæmi fyrir okkur nú.