Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús Kristur – sendur af Guði?

Jesús Kristur – sendur af Guði?

6. kafli

Jesús Kristur – sendur af Guði?

1, 2. (a) Hvaða rök hníga að því að Jesús Kristur hafi verið til? (b) Hvaða spurningum er varpað fram um Jesú?

 NÆR ALLIR nútímamenn hafa heyrt getið um Jesú Krist. Hann hefur haft meiri áhrif á gang sögunnar en nokkur annar maður. Meira að segja það tímatal, sem er í gildi víðast í heiminum, miðast við það ár sem hann er talinn vera fæddur! Ártöl fyrir þann tíma eru oft auðkennd með f. Kr., en það merkir fyrir Krist, en ártöl eftir það ár með e. Kr., sem merkir eftir Krist.

2 Jesús er því engin þjóðsagnapersóna; hann var til í raun og veru. „Jafnvel andstæðingar kristninnar til forna véfengdu aldrei [tilvist] Jesú,“ segir Encyclopædia Britannica. Við spyrjum því: Hver var Jesús? Var hann í raun og veru sendur af Guði? Hvers vegna er hann svona þekktur?

HANN VAR TIL ÁÐUR EN HANN VARÐ MAÐUR

3. (a) Hvers son átti María að fæða að sögn engilsins? (b) Hvernig gat meyjan María fætt Jesú?

3 Ólíkt öllum öðrum mönnum fæddist Jesús af mey. Hún hét María. Engill sagði um barn hennar: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta.“ (Lúkas 1:28-33; Matteus 1:20-25) En hvernig gat kona, sem hafði aldrei haft kynmök við mann, eignast barn? Það gerðist fyrir áhrif heilags anda Guðs. Jehóva flutti líf síns volduga andasonar á himnum inn í móðurlíf meyjarinnar Maríu. Það var kraftaverk! En tæpast ætti honum, sem áskapaði fyrstu konunni þann stórfenglega eiginleika að geta eignast börn, að vera um megn að láta konu eignast barn án mannlegs föður. Biblían segir: „Þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu.“ — Galatabréfið 4:4.

4. (a) Hvers konar líf hafði Jesús haft áður en hann fæddist sem barn? (b) Hvað sagði Jesús til að sýna að hann hefði lifað áður á himnum?

4 Áður en Jesús fæddist í mannlegri mynd á jörðinni hafði hann verið voldug andavera á himnum. Hann hafði andalíkama, ósýnilegan augum mannanna, alveg eins og Guð. (Jóhannes 4:24) Jesús talaði oft um þá háu stöðu sem hann hafði haft á himnum. Einu sinni bað hann: „Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ (Jóhannes 17:5) Hann sagði áheyrendum sínum líka: „Þér eruð neðan að, ég er ofan að.“ „En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?“ „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ — Jóhannes 8:23; 6:62; 8:58; 3:13; 6:51.

5. (a) Hvers vegna hefur Jesús verið kallaður „Orðið,“ hinn ‚frumgetni‘ og ‚eingetni‘? (b) Hvaða verki hafði Jesús unnið að með Guði?

5 Áður en Jesús kom til jarðarinnar var hann kallaður Orðið Guðs. Titill þessi sýnir að hann þjónaði á himnum sem talsmaður Guðs. Hann er einnig kallaður ‚hinn frumgetni‘ sonur Guðs, svo og „eingetinn“ sonur hans. (Jóhannes 1:14; 3:16; Hebreabréfið 1:6) Það þýðir að hann var skapaður á undan öllum öðrum andasonum Guðs, og að hann er sá eini sem var beint skapaður af Guði. Biblían útskýrir að þessi ‚frumgetni‘ sonur hafi tekið þátt með Jehóva í að skapa alla aðra hluti. (Kólossubréfið 1:15, 16) Þegar því Guð sagði, „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd,“ var hann að tala við þennan son. Já, sá hinn sami og síðar kom til jarðarinnar og fæddist af konu hafði tekið þátt í að skapa alla hluti! Hann hafði þegar lifað á himnum með föður sínum um óþekktan árafjölda! — 1. Mósebók 1:26; Orðskviðirnir 8:22, 30; Jóhannes 1:3.

ÆVI HANS Á JÖRÐINNI

6. (a) Hvaða atburðir gerðust skömmu fyrir og eftir fæðingu Jesú? (b) Hvar fæddist Jesús og hvar ólst hann upp?

6 María var heitbundin Jósef. Þegar hann komst á snoðir um að hún væri barnshafandi hélt hann að hún hefði haft kynmök við annan mann og ákvað því að kvænast henni ekki. En Jósef tók Maríu samt sem áður fyrir konu þegar Jehóva sagði honum að barnið væri getið fyrir atbeina heilags anda síns. (Matteus 1:18-20, 24, 25) Jesús fæddist síðan þegar þau voru stödd í bænum Betlehem. (Lúkas 2:1-7; Míka 5:2) Meðan Jesús var enn smábarn reyndi Heródes konungur að drepa hann, en Jehóva varaði Jósef við þannig að hann forðaði sér með fjölskyldu sína til Egyptalands. Eftir dauða Heródesar konungs fluttust Jósef og María með Jesú til bæjarins Nasaret í Galíleu. Þar ólst hann upp. — Matteus 2:13-15, 19-23.

7. (a) Hvað gerðist þegar Jesús var tólf ára? (b) Hvaða iðn lærði Jesús þegar hann ólst upp?

7 Þegar Jesús var 12 ára fór hann með fjölskyldu sinni til Jerúsalem til að halda páskahátíðina. Á meðan hann var þar eyddi hann þrem dögum í musterinu við að hlusta á kennarana og spyrja þá spurninga. Allir sem heyrðu til hans furðuðu sig á kunnáttu hans. (Lúkas 2:41-52) Á uppvaxtarárum sínum í Nasaret lærði Jesús trésmíði. Vafalaust lærði hann iðnina hjá fósturföður sínum, Jósef, sem einnig var trésmiður. — Markús 6:3; Matteus 13:55.

8. Hvað gerðist þegar Jesús var þrítugur?

8 Er Jesús var þrítugur átti sér stað mikil breyting í lífi hans. Hann fór til Jóhannesar skírara og bað hann að skíra sig, að færa sig alveg á kaf í vatn Jórdanárinnar. Biblían greinir svo frá: „En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ (Matteus 3:16, 17) Jóhannes gat ekki verið í nokkrum vafa um að Jesús væri sendur af Guði.

9. (a) Hvenær varð Jesús Kristur og hvers vegna þá? (b) Hvað var Jesús að bjóða sig fram til að gera þegar hann skírðist?

9 Með því að úthella heilögum anda sínum yfir Jesú var Jehóva að smyrja hann eða skipa til að vera konungur síns komandi ríkis. Með slíkri smurningu andans varð Jesús „Messías“ eða „Kristur,“ en orð þessi koma úr hebresku og grísku og merkja „smurður.“ Þar með varð hann Jesús Kristur eða Jesús hinn smurði. Postuli hans, Pétur, talaði því um „Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti.“ (Postulasagan 10:38) Með því að skírast í vatni var Jesús auk þess að bjóða sig Guði til að vinna það verk sem Guð hafði sent hann til jarðar til að gera. Hvert var þetta mikilvæga verk?

HVERS VEGNA HANN KOM TIL JARÐAR

10. Til að kenna hvaða sannindi kom Jesús til jarðar?

10 Jesús útskýrði hvers vegna hann hafði komið til jarðar þegar hann sagði rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) En hvaða sérstök sannindi var Jesús sendur til jarðar til að gera mönnum kunnug? Í fyrsta lagi sannindi um sinn himneska föður. Hann kenndi fylgjendum sínum að biðja að nafn föður hans mætti ‚helgast,‘ vera virt sem heilagt. (Matteus 6:9) Og í bæn sagði hann: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér.“ (Jóhannes 17:6) Einnig sagði hann: „Mér ber . . . að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ — Lúkas 4:43.

11. (a) Hvers vegna taldi Jesús starf sitt svo þýðingarmikið? (b) Hvað lét Jesús aldrei hjá líða að gera? Hvað ættum við því að gera?

11 Hversu mikilvægt var Jesú það starf að boða nafn föður síns og ríki? Hann sagði lærisveinum sínum: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Hvers vegna áleit Jesús verk Guðs vera jafnnauðsynlegt fæðunni? Það var vegna þess að Guðsríki er verkfæri Guðs til að uppfylla sínar stórfenglegu fyrirætlanir með mannkynið. Það er þetta ríki sem mun uppræta alla mannvonsku og hreinsa nafn Jehóva af þeirri smán sem það hefur mátt þola. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:3, 4) Jesús lét því ekkert tækifæri ónotað til að boða nafn Guðs og ríki. (Matteus 4:17; Lúkas 8:1; Jóhannes 17:26; Hebreabréfið 2:12) Hann talaði alltaf sannleikann, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Með því gaf hann fyrirmynd sem við ættum að fylgja ef við viljum þóknast Guði. — 1. Pétursbréf 2:21.

12. Nefnið aðra þýðingarmikla ástæðu fyrir komu Jesú til jarðar.

12 En til að gera okkur mögulegt að hljóta eilíft líf undir stjórn ríkis Guðs varð Jesús að úthella lífsblóði sínu og deyja. Tveir af postulum Jesú sögðu um það: „Vér . . . erum réttlættir fyrir blóð hans.“ „Blóð Jesú, sonar [Guðs] hreinsar oss af allri synd.“ (Rómverjabréfið 5:9; 1. Jóhannesarbréf 1:7) Ein mikilvæg ástæða fyrir komu Jesú til jarðarinnar var því sú að hann skyldi deyja fyrir okkur. Hann sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) En hvað merkir það að Kristur hafi gefið líf sitt til „lausnargjalds“? Hvers vegna var nauðsynlegt að hann úthellti blóði sínu og dæi til að við gætum orðið hólpin?

HANN GAF LÍF SITT SEM LAUSNARGJALD

13. (a) Hvað er lausnargjald? (b) Hvert er lausnargjaldið sem Jesús greiddi til að leysa okkur frá synd og dauða?

13 Orðið „lausnargjald“ er oft nefnt þegar mannrán hefur verið framið. Þegar mannræningi hefur annan mann á valdi sínu segist hann ef til vill munu láta hann lausan ef ákveðin fjárhæð sé greidd í lausnargjald. Lausnargjald er því verðmæti sem veitir frelsi manni sem er í haldi. Það er greitt til að hann glati ekki lífi sínu. Fullkomið mannslíf Jesú var gefið til að leysa mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. (1. Pétursbréf 1:18, 19; Efesusbréfið 1:7) Hvers vegna var þörf á slíkri lausn?

14. Hvers vegna var þörf á lausnargjaldinu sem Jesús greiddi?

14 Orsökin var sú að Adam, forfaðir okkar allra, hafði gert uppreisn. Löglaus verknaður hans gerði hann að syndara því að Biblían útskýrir að ‚syndin sé lögmálsbrot.‘ (1. Jóhannesarbréf 3:4; 5:17) Afleiðingin varð sú að hann var ekki verðugur þess að hljóta eilíft líf að gjöf frá Guði. (Rómverjabréfið 6:23) Adam fyrirgerði því fullkomnu mannslífi sínu í paradís á jörð. En hann fyrirgerði þessum stórfenglega framtíðarmöguleika fyrir öll þau börn sem hann myndi eignast. ‚En hvers vegna,‘ kannt þú að spyrja, ‚þurftu öll börn hans að deyja fyrst það var Adam sem syndgaði?‘

15. Hvers vegna hafa börn Adams þurft að þjást og deyja úr því að það var hann sem syndgaði?

15 Ástæðan er sú að Adam gaf börnum sínum, þeirra á meðal öllum núlifandi mönnum, synd og dauða í arf eftir að hann var orðinn syndari. (Jobsbók 14:4; Rómverjabréfið 5:12) „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 3:23; 1. Konungabók 8:46) Jafnvel hinn guðhræddi maður Davíð sagði: „Sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ (Sálmur 51:7) Fólk hefur þess vegna dáið vegna syndarinnar sem það fékk í arf frá Adam. Hvernig gat þá líf Jesú frelsað alla menn úr fjötrum syndar og dauða?

16. (a) Hvernig fylgdi Guð því lagaákvæði sínu að ‚gjalda skyldi líf fyrir líf‘ þegar hann sá fyrir lausnargjaldinu? (b) Hvers vegna var Jesús eini maðurinn sem gat greitt lausnargjaldið?

16 Þar á í hlut lagaákvæði í lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni. Það er á þá lund að ‚gjalda þurfi líf fyrir líf.‘ (2. Mósebók 21:23; 5. Mósebók 19:21) Með óhlýðni sinni glataði hinn fullkomni maður Adam fullkomnu lífi í paradís á jörð, sjálfum sér og öllum börnum sínum til handa. Jesús Kristur gaf sitt eigið fullkomna líf til að endurkaupa það sem Adam hafði glatað. Já, Jesús „gaf sjálfan sig til samsvarandi lausnargjalds fyrir alla.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6, New World Translation) Þar sem Jesús var fullkominn maður, eins og Adam hafði verið, er hann kallaður „hinn síðari Adam.“ (1. Korintubréf 15:45) Enginn annar maður en Jesús hefði getað greitt lausnargjaldið, vegna þess að Jesús er einasti maðurinn, sem til hefur verið, sem hefur verið jafningi Adams meðan hann var fullkominn, mannlegur sonur Guðs. — Sálmur 49:8; Lúkas 1:32; 3:38.

17. Hvenær var lausnargjaldið greitt Guði?

17 Jesús dó þegar hann var 33 1⁄2 árs að aldri. En á þriðja degi eftir dauða hans var hann aftur vakinn upp til lífs. Fjörutíu dögum síðar steig hann upp til himna. (Postulasagan 1:3, 9-11) Þar, orðinn andavera á ný, gekk hann ‚fyrir auglit Guðs okkar vegna‘ og færði honum verðmæti lausnarfórnar sinnar. (Hebreabréfið 9:12, 24) Þá var lausnargjaldið greitt Guði á himnum. Nú stóð mönnum lausnin til boða. En hvenær verður hún að veruleika?

18. (a) Hvernig getum við nú þegar notið góðs af lausnargjaldinu? (b) Hvaða möguleika opnar lausnargjaldið okkur í framtíðinni?

18 Lausnarfórn Jesú getur komið okkur að gagni nú þegar. Hvernig? Ef við iðkum trú á hana getum við staðið hrein frammi fyrir Guði og orðið aðnjótandi elskuríkrar umhyggju hans og gæslu. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 13-15) Mörg okkar kunna að hafa drýgt skelfilegar syndir áður en við kynntumst Guði. Jafnvel núna gerum við mistök, stundum mjög alvarleg. En við getum óhikað leitað fyrirgefningar Guðs vegna lausnargjaldsins, í trausti þess að hann muni heyra bæn okkar. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2; 1. Korintubréf 6:9-11) Á dögum, sem eru ókomnir, mun lausnargjaldið opna okkur leiðina til að hljóta eilíft líf að gjöf frá Guði í hans réttláta nýja heimi. (2. Pétursbréf 3:13) Þá munu allir sem iðka trú á lausnargjaldið verða leystir algerlega úr fjötrum syndar og dauða. Þeir geta hlakkað til þess að lifa sem fullkomnir menn að eilífu!

19. (a) Hvaða áhrif hefur lausnargjaldið á þig? (b) Hvernig segir Páll postuli að við ættum að sýna þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið?

19 Hvernig er þér innanbrjósts nú er þú hefur lært um lausnargjaldið? Finnur þú ekki í hjarta þér til hlýju í garð Jehóva Guðs þegar þér verður ljóst að honum er svo annt um þig að hann gaf sinn ástkæra son fyrir þig? (Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Og leiddu líka hugann að kærleika Krists. Hann kom fúslega til jarðarinnar til að deyja fyrir okkur. Ættum við ekki að vera þakklát? Páll útskýrði hvernig við ættum að sýna þakklæti okkar, þegar hann sagði: „Hann dó fyrir alla til að allir sem lifa . . . lifi ekki framar til að þóknast sjálfum sér heldur honum sem dó og reis upp þeirra vegna.“ (2. Korintubréf 5:14, 15, Lifandi orð) Munt þú sýna þakklæti þitt með því að nota líf þitt til að þjóna Guði og himneskum syni hans, Jesú Kristi?

HVERS VEGNA JESÚS GERÐI KRAFTAVERK

20. Hvers verðum við vísari um Jesú af því er hann læknaði holdsveika manninn?

20 Jesús er mjög kunnur fyrir kraftaverkin sem hann gerði. Hann fann mjög til með fólki sem var í vanda statt og var mjög fús að nota því til hjálpar þann mátt sem Guð gaf honum. Sem dæmi má nefna að maður haldinn hinni óttalegu holdsveiki kom til hans og sagði: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Jesús „kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: ‚Ég vil, verð þú hreinn!‘“ Og sjúki maðurinn læknaðist! — Markús 1:40-42.

21. Hvernig hjálpaði Jesús mannfjöldanum?

21 Lítum á annað atvik sem Biblían greinir frá, og reynum að gera okkur í hugarlund sterkar tilfinningar Jesú til þess fólks sem svo er lýst: „Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá. Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.“ — Matteus 15:30, 31.

22. Hvað sýnir að Jesú var annt um þá sem hann hjálpaði?

22 Auðsætt er af því sem Jesús sagði lærisveinum sínum þá, að honum var mjög annt um þetta þjáða fólk og vildi í raun og sannleika hjálpa því. Hann sagði: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni.“ Og með aðeins sjö brauðhleifum og fáeinum smáfiskum vann Jesús það kraftaverk að metta „fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.“ — Matteus 15:32-38.

23. Hvað kom Jesú til að reisa upp látinn son ekkju nokkurrar?

23 Öðru sinni mætti Jesús líkfylgd sem var á leið út úr borginni Naín. Biblían lýsir atvikinu svo: „Þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, . . . Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana.“ Hann skynjaði glöggt sorg hennar. Jesús ávarpaði því líkið og skipaði: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Og undur og stórmerki! „Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.“ Gerðu þér í hugarlund hvernig þessari móður hlýtur að hafa liðið! Hvernig hefði þér liðið? Fréttirnar af þessum einstæða atburði bárust út um allt. Engin furða að Jesús er svo vel þekktur. — Lúkas 7:11-17.

24. Hvað sýndu kraftaverk Jesú um framtíðina?

24 Kraftaverkin, sem Jesús gerði, komu mönnum þó aðeins að gagni um stundarsakir. Fólk, sem hann læknaði, fékk ýmsa krankleika aftur, og þeir sem hann reisti upp dóu um síðir. En kraftaverk Jesú sönnuðu að hann var sendur af Guði, að hann var í raun og sannleika sonur Guðs. Og þau sönnuðu að með krafti Guðs er hægt að leysa öll vandamál mannkynsins. Þau sýndu í smáum mæli það sem mun gerast á jörðinni þegar ríki Guðs stjórnar. Þá verða hinir hungruðu saddir, hinir sjúku læknaðir og jafnvel hinir dánu reistir upp! Sjúkdómar, dauði og aðrir erfiðleikar munu aldrei aftur fá að baka mönnum óhamingju. Það mun verða mikil blessun! — Opinberunarbókin 21:3, 4; Matteus 11:4, 5.

STJÓRNANDI RÍKIS GUÐS

25. Í hvaða þrjú skeið má skipta ævi Jesú?

25 Skipta má ævi sonar Guðs í þrennt. Fyrsti hlutinn er sá óþekkti árafjöldi sem hann var hjá föður sínum á himnum áður en hann varð maður. Annar hlutinn er þau 33 1⁄2 ár sem hann var á jörðinni, og síðasti hlutinn er líf hans á himnum nú sem andavera. Hvaða stöðu hefur hann gegnt á himnum síðan hann var reistur upp?

26. Til hvers sannaði Jesús sig verðugan með trúfesti sinni á jörðinni?

26 Augljóst er að Jesús átti að verða konungur. Meira að segja engillinn sagði Maríu: „Hann mun ríkja . . . að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:33) Meðan þjónusta hans á jörðinni stóð yfir talaði hann sífellt um ríki Guðs. Hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Komi ríki þitt, verði vilji þinn, svo á jörðu sem á himni.“ Og hann hvatti þá til að ‚leita fyrst ríkis Guðs.‘ (Matteus 6:10, 33, Ísl. bi. 1912) Með trúfesti sinni á jörðinni sannaði Jesús sig verðugan þess að vera konungur Guðsríkis. Tók hann völd sem konungur jafnskjótt og hann sneri aftur til himna?

27. (a) Hvað gerði Jesús eftir að hann sneri aftur til himna? (b) Hvert var fyrsta verk Jesú sem konungur Guðríkis?

27 Nei, það gerði hann ekki. Páll postuli vitnar í Sálm 110:1 og segir: „Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.“ (Hebreabréfið 10:12, 13) Jesús beið þess að Jehóva fyrirskipaði: „Drottna þú mitt á meðal óvina þinna!“ (Sálmur 110:2) Þegar sá tími kom byrjaði hann á því að úthýsa Satan og englum hans, gera þá ræka frá himnum. Lyktum þessa stríðs á himnum er lýst svo: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.“ (Opinberunarbókin 12:10) Eins og sjá má í fyrri kafla í þessari bók sýna staðreyndir að þetta stríð á himnum hefur þegar verið háð, og Jesús Kristur ríkir á þessari stundu mitt á meðal óvina sinna.

28. (a) Hvað mun Kristur bráðlega gera? (b) Hvað verðum við að gera til að njóta verndar hans?

28 Kristur og himneskir englar hans munu mjög bráðlega ganga fram til að losa jörðina við allar þær veraldlegu stjórnir sem nú eru. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 17:14) Biblían segir að hann hafi „biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota.“ (Opinberunarbókin 19:11-16) Við verðum að iðka trú á Jesú Krist til að sanna okkur verðug verndar í þessari tortímingu sem koma mun. (Jóhannes 3:36) Við verðum að gerast lærisveinar hans og beygja okkur undir hann sem konung okkar á himnum. Ætlar þú að gera það?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 58]

Jesús kvaddi trésmíðaiðnina til að láta skírast og verða smurður af Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 63]

Jesús var jafningi hins fullkomna manns Adams.

[Mynd á blaðsíðu 64]

Jesús kenndi í brjósti um sjúka og hungraða og hjálpaði þeim.

[Mynd á blaðsíðu 67]

Jesús sýndi, með því að reisa upp dána, hvað hann mun gera í miklu stærri mæli þegar ríki Guðs fer með völd.