Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnilegt skipulag Guðs

Sýnilegt skipulag Guðs

23. kafli

Sýnilegt skipulag Guðs

1. Hvað segir Biblían um ósýnilegt skipulag Guðs?

 HVERNIG getum við fullyrt að Guð hafi sýnilegt skipulag? Meðal annars vegna þess að hann hefur ósýnilegt skipulag. Jehóva skapaði kerúba, serafa og marga aðra engla til að gera vilja sinn á himnum. (1. Mósebók 3:24; Jesaja 6:2, 3; Sálmur 103:20) Jesús Kristur er erkiengillinn sem er þeim öllum æðri. (1. Þessaloníkubréf 4:16; Júdasarbréfið 9; Opinberunarbókin 12:7) Biblían lýsir englunum svo að þeir myndi ‚hásæti og herradóma, tignir og völd.‘ (Kólossubréfið 1:16; Efesusbréfið 1:21) Allir þjóna þeir Jehóva og lúta boðum hans, vinna sem ein heild það verk sem hann felur þeim. — Daníel 7:9, 10; Jobsbók 1:6; 2:1.

2. Hvernig sýnir efnisheimurinn, sem Guð skapaði, að hann leggur mikla áherslu á skipulag?

2 Hið efniskennda sköpunarverk Guðs gefur líka nokkra hugmynd um þá áherslu sem Guð leggur á skipulag. Svo nefnd séu dæmi eru þúsundir milljarða stjarna í alheiminum sem raðað er í stórar þyrpingar, kallaðar vetrarbrautir. Þessar vetrarbrautir hreyfast um geiminn með skipulegum hætti, svo og hinar einstöku stjörnur sem mynda vetrarbrautirnar. Reikistjarnan okkar, Jörðin, fer til dæmis einn hring um sólina, sem er okkar næsta stjarna, á nákvæmlega 365 dögum, 5 stundum, 48 mínútum og 45,51 sekúndu. Efnisheimurinn ber vott um nákvæma skipulagningu!

3. Hvað lærum við af reglunni og skipulaginu meðal ósýnilegra sköpunarvera Guðs og í efnislegu sköpunarverki hans?

3 Segir þetta frábæra skipulag efnisheimsins og ósýnilegra sköpunarvera Guðs okkur eitthvað? Já, það segir okkur að Jehóva sé Guð skipulags og reglu. Slíkur Guð lætur menn, sem elska hann, ekki vera án handleiðslu og skipulags.

SÝNILEGT SKIPULAG GUÐS FYRR OG NÚ

4, 5. Hvernig vitum við að Guð stýrði þjónum sínum með skipulegum hætti á dögum Abrahams og Ísraelsþjóðarinnar?

4 Biblían ber því vott að Jehóva hefur alltaf leiðbeint þjónum sínum á skipulega vísu. Menn trúarinnar, svo sem Abraham, tóku góða forystu í tilbeiðslunni á Jehóva meðal fjölskyldna sinna og hjúaliðs. Jehóva gerði Abraham vilja sinn kunnan með því að tala við hann. (1. Mósebók 12:1) Og Guð gaf Abraham fyrirmæli um að láta leiðbeiningarnar berast til annarra: „Ég hefi útvalið hann [Abraham], til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu [Jehóva].“ (1. Mósebók 18:19) Hér var góð regla til að ákveðinn hópur manna gæti tilbeðið Jehóva á réttan hátt.

5 Þegar Ísraelsmönnum fjölgaði og þeir fóru að teljast í milljónum lét Jehóva ekki hvern og einn tilbiðja sig eins og honum sýndist best, án nokkurrar reglu eða skipulags. Ísraelsþjóðin myndaði skipulag manna sem tilbað Guð í einingu. Ísraelsþjóðin var kölluð „söfnuður Jehóva.“ (4. Mósebók 20:4, NW; 1. Kroníkubók 28:8, NW) Hefðir þú verið sannur tilbiðjandi Jehóva á þeim tíma hefðir þú orðið að tilheyra söfnuði dýrkenda hans, ekki getað staðið utan hans. — Sálmur 147:19, 20.

6. (a) Hvernig sýndi Guð að fylgjendur Krists höfðu velþóknun hans? (b) Hvaða heimildir eru um að kristni söfnuðurinn hafi verið skipulag manna sem tilbað Guð?

6 Hvaða skipan ríkti á fyrstu öldinni? Biblían kennir okkur að fylgjendur sonar Guðs, Jesú Krists, hafi notið hylli hans. Jehóva úthellti heilögum anda sínum yfir þá. Hann gaf sumum hinna frumkristnu mátt til að lækna sjúka, vekja upp dauða og vinna önnur kraftaverk, til að sýna að nú notaði hann hið kristna skipulag en ekki Ísraelsþjóðina. Hver sem les kristnu Grísku ritningarnar sér að kristni söfnuðurinn var skipulag manna sem tilbað Guð eftir ákveðinni reglu. Þeir fengu meira að segja fyrirmæli um að koma saman í þeim tilgangi. (Hebreabréfið 10:24, 25) Hefðir þú verið sannur tilbiðjandi Jehóva á fyrstu öldinni hefðir þú orðið að tilheyra hinu kristna skipulagi.

7. Hvernig vitum við að Guð hefur aldrei notað nema eitt skipulag í einu?

7 Hefur Jehóva nokkurn tíma notað fleiri en eitt skipulag samtímis? Á dögum Nóa naut aðeins Nói og þeir sem með honum voru í örkinni verndar Guðs og lifðu flóðið af. (1. Pétursbréf 3:20) Á fyrstu öldinni voru ekki tveir eða fleiri kristnir söfnuðir heldur aðeins eitt skipulag sem Guð átti samskipti við. Það var „einn . . . Drottinn, ein trú, ein skírn.“ (Efesusbréfið 4:5) Jesús Kristur sagði að á okkar dögum yrði aðeins ein uppspretta þaðan sem þjónar Guðs fengju andlegar leiðbeiningar.

8. Hvernig benti Jesús á að Guð myndi aðeins hafa eitt sýnilegt skipulag á jörðinni á okkar dögum?

8 Þegar Jesús talaði um nærveru sína sem konungur Guðsríkis sagði hann: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Fann Kristur ‚trúan og hyggin þjón,‘ hóp manna sem útbýtti andlegum „mat“ eða fræðslu, þegar hann sneri aftur sem konungur Guðsríkis árið 1914? Já, hann fann slíkan ‚þjón‘ myndaðan af þeim sem eftir voru af 144.000 ‚bræðrum‘ hans á jörðinni. (Opinberunarbókin 12:10; 14:1, 3) Frá 1914 hafa milljónir manna tekið við þeim „mat“ sem þeir útbýta, og farið að iðka sanna trú með þeim. Þetta skipulag þjóna Guðs er þekkt undir heitinu vottar Jehóva.

9. (a) Hvers vegna bera þjónar Guðs nafnið vottar Jehóva? (b) Hvers vegna kalla þeir samkomustaði sína Ríkissali?

9 Vottar Jehóva leita leiðsagnar hjá Guði og orði hans í öllu sem þeir gera. Nafnið vottar Jehóva sýnir meira að segja að aðalstarf þeirra er að bera vitni um nafn og ríki Jehóva Guðs eins og Kristur gerði. (Jóhannes 17:6; Opinberunarbókin 1:5) Þeir kalla samkomustaði sína „Ríkissali“ vegna þess að Guðsríki í höndum Messíasar, Krists, er aðalinntak Biblíunnar. Úr því að ljóst er að kristni söfnuðurinn á fyrstu öld naut velvildar Guðs byggja vottar Jehóva skipulag sitt eftir þeirri fyrirmynd. Athugum í stuttu máli frumkristna söfnuðinn og tökum eftir hversu líkt honum hið sýnilega skipulag Guðs nú á dögum er.

FYRIRMYNDIN FRÁ FYRSTU ÖLDINNI

10. Nefnið sumt af því sem einkenndi kristna söfnuðinn á fyrstu öld.

10 Hvar sem kristna menn var að finna á fyrstu öldinni komu þeir saman í hóp til að dýrka Guð. Þessir söfnuðir komu reglulega saman til náms og samvista. (Hebreabréfið 10:24, 25) Helsta verk þeirra var að prédika ríki Guðs og kenna eins og Kristur gerði. (Matteus 4:17; 28:19, 20) Ef einhver í söfnuðinum fór út á braut rangrar breytni var honum vikið úr honum. — 1. Korintubréf 5:9-13; 2. Jóhannesarbréf 10, 11.

11, 12. (a) Hvað sannar að frumkristni söfnuðurinn fékk fyrirmæli og leiðbeiningar frá postulunum og öldungunum í Jerúsalem? (b) Hvað er átt við með „guðræðislegri forystu“? (c) Hvaða afleiðingu hafði það fyrir söfnuðina að fylgja slíkri forystu?

11 Voru þessir kristnu söfnuðir á fyrstu öldinni óháðir hver öðrum? Tóku þeir hver sína eigin ákvörðun í hinum ýmsu málum? Nei, af Biblíunni má sjá að þeir voru sameinaðir í einni kristinni trú. Allir söfnuðirnir fylgdu forystu og leiðbeiningum sama aðila. Þegar til dæmis kom upp deila um umskurnina tóku einstakir söfnuðir eða einstaklingar ekki sjálfstæðar ákvarðanir um það hvað gera skyldi. Þess í stað voru Páll postuli, Barnabas og fleiri sendir „á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.“ Þegar þessir þroskuðu menn tóku ákvörðun með hjálp orðs Guðs og „heilags anda“ sendu þeir trúfasta menn til safnaðanna til að flytja þeim úrskurðinn. — Postulasagan 15:2, 27-29.

12 Hvaða afleiðingar hafði það að söfnuðirnir fengu þessa handleiðslu og fyrirmæli frá Guði? Biblían segir: „Þeir [Páll postuli og félagar hans] fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær. En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ (Postulasagan 16:4, 5) Allir söfnuðirnir fylgdu því sem öldungaráðið í Jerúsalem hafði ákveðið og styrktust í trúnni.

GUÐRÆÐISLEG FORYSTA NÚ Á DÖGUM

13. (a) Hvaða hópur manna veitir sýnilegu skipulagi Guðs nú á dögum forystu og hvar hefur hann aðsetur? (b) Hvert er samband hins stjórnandi ráðs og ‚hins trúa og hyggna þjóns‘?

13 Sýnilegt skipulag Guðs nú á dögum lýtur einnig guðræðislegri forystu og handleiðslu. Í aðalstöðvum votta Jehóva í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum er stjórnandi ráð kristinna öldunga frá ýmsum heimshlutum, sem hefur nauðsynlega yfirumsjón með starfsemi þjóna Guðs um heim allan. Þeir sem mynda hið stjórnandi ráð eru allir af hópi ‚trúa og hyggna þjónsins.‘ Það er talsmaður þessa trúa ‚þjóns.‘

14. Á hverju byggir hið stjórnandi ráð þjóna Guðs ákvarðanir sínar?

14 Mennirnir í stjórnandi ráðinu hafa að baki sér áralanga reynslu í þjónustu Guðs eins og postularnir og öldungarnir í Jerúsalem. Hins vegar láta þeir ekki mannlega visku stýra ákvörðunum sínum. Forystan er guðræðisleg; þeir fylgja fordæmi hins stjórnandi ráðs í Jerúsalem á fyrstu öld sem byggði ákvarðanir sínar á orði Guðs undir handleiðslu heilags anda. — Postulasagan 15:13-17, 28, 29.

ALÞJÓÐASKIPULAGI STJÓRNAÐ

15. Hvernig kemur fram í orðum Jesú í Matteusi 24:14 að Guð myndi hafa stórt skipulag á jörðinni á tíma endalokanna?

15 Jesús Kristur gaf vísbendingu um hversu stórt það skipulag yrði sem Guð myndi hafa á jörðinni á tíma endalokanna, þegar hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Hugsaðu um hversu feikilegt starf það er að segja þeim þúsundum milljóna manna, sem byggja jörðina, frá stofnsettu ríki Guðs. Er hið kristna skipulag nútímans, sem lýtur handleiðslu hins stjórnandi ráðs, fullbúið til að anna þessu mikla verki?

16. (a) Hvers vegna hafa vottar Jehóva reist margar stórar prentsmiðjur? (b) Hvað er prentað í þessum prentsmiðjum?

16 Vottar Jehóva prédika nú boðskapinn um Guðsríki í rúmlega 200 löndum og eyjum hafsins um allan hnöttinn. Til að hjálpa þeim rúmlega 3.500.000 boðberum Guðsríkis (árið 1988) að anna þessu verki hafa verið reistar stórar prentsmiðjur víða um heim. Þar eru prentaðar biblíur og biblíurit í stórum stíl. Hvern vinnudag eru að meðaltali prentaðar og sendar út frá þessum prentsmiðjum yfir tvær milljónir eintaka af tímaritunum Varðturninn og Vaknið!

17. (a) Hvers vegna eru gefin út biblíurit? (b) Hverju er þér boðið að taka þátt í?

17 Öll þessi biblíurit eru samin og prentuð til að hjálpa mönnum að auka þekkingu sína á stórfenglegum fyrirætlunum Jehóva. Þess vegna eru orðin „kunngerir ríki Jehóva“ hluti af titli tímaritsins Varðturninn. Þér er boðið að taka þátt í að dreifa þessum biblíuritum og útskýra fyrir öðrum þau sannindi Biblíunnar sem þau segja frá. Getur þú til dæmis hugsað þér að segja einhverjum frá þeim mikilvægu atriðum sem þú hefur lært í þessari bók, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð?

18. (a) Hvers konar skipulag er skipulag Guðs nú á dögum? (b) Hvers vegna þarf fólk Guðs á mikilli hvatningu að halda?

18 Eins og á fyrstu öldinni er skipulag Guðs nú á dögum skipulag vígðra og skírðra prédikara Guðsríkis. Markmiðið með því er að hjálpa öllum, sem því tilheyra, að eiga þátt í að prédika. Allir hafa þeir mikla þörf fyrir hvatningu og andlegan styrk, því að Satan og þeir sem honum tekst að hafa áhrif á reyna að berjast gegn boðskapnum um Guðsríki. Slíkir andstæðingar fengu Jesú tekinn af lífi fyrir að prédika það, og Biblían varar við því að fylgjendur hans verði líka ofsóttir. — Jóhannes 15:19, 20; 2. Tímóteusarbréf 3:12.

19. (a) Hverjir hafa það verkefni að hjálpa og styrkja þjóna Guðs? (b) Hvernig er söfnuðurinn verndaður fyrir slæmum áhrifum sem gætu spillt honum?

19 Eins og á fyrstu öldinni eru nú útnefndir „öldungar“ til að hjálpa sérhverjum söfnuði og að styrkja hann. Með ráðleggingum út af Biblíunni geta þeir hjálpað þér að takast á við hin ýmsu vandamál. Þessir öldungar standa einnig vörð um ‚hjörð Guðs.‘ Fari einhver í söfnuðinum út á braut syndarinnar, og vilji ekki snúa við, sjá „öldungarnir“ til þess að honum sé vikið úr söfnuðinum, hann sé gerður rækur. Þannig er söfnuðinum haldið andlega hreinum og heilbrigðum. — Títusarbréfið 1:5; 1. Pétursbréf 5:1-3; Jesaja 32:1, 2; 1. Korintubréf 5:13.

20. (a) Hverja sendi hið stjórnandi ráð í Jerúsalem á fyrstu öldinni til safnaðanna, og hvers vegna? (b) Hverja sendir hið stjórnandi ráð til safnaðanna nú á dögum?

20 Á fyrstu öldinni sendi hið stjórnandi ráð í Jerúsalem sérstaka fulltrúa, svo sem Pál og Sílas, til safnaðanna til að flytja þeim fyrirmæli og hvetja þá, og eins gerir hið stjórnandi ráð nútímans nú á tímum endalokanna. (Postulasagan 15:24-27, 30-32) Um það bil tvisvar á ári dvelur reyndur prédikari, nefndur farandhirðir, eina viku hjá hverjum söfnuði í farandsvæði sínu.

21. Hvernig er farandhirðirinn söfnuðunum til hjálpar?

21 Út um heiminn eru liðlega 60.000 söfnuðir votta Jehóva, og þeim er skipt í farandsvæði sem í eru um 20 söfnuðir. Þegar farandhirðirinn heimsækir söfnuðina í sínu farandsvæði uppbyggir hann boðbera Guðsríkis með því að fara með þeim út á akurinn og taka þátt í prédikun þeirra og kennslu. Auk þess að hvetja þá á þann hátt gefur hann þeim tillögur um hvernig þeir geti bætt þjónustu sína. — Postulasagan 20:20, 21.

22. (a) Hvað er haldið tvisvar á ári til að styrkja fólk Guðs? (b) Hvað er þér boðið?

22 Söfnuðirnir eru líka hvattir og styrktir í trúnni þegar allir söfnuðir í hverju farandsvæði koma saman tvisvar á ári á eins eða tveggja daga mót. Á slíku móti geta verið allt frá tvö eða þrjú hundruð upp í 2000 eða fleiri gestir. Þér er velkomið að sækja næsta mót sem haldið er fyrir þá sem búa í þínu byggðarlagi. Við þykjumst fullvissir um að þér muni þykja mótið andlega hressandi og gagnlegt.

23. (a) Hvaða annað mót er haldið einu sinni á ári? (b) Nefndu dæmi um hversu fjölmennt slíkt mót hefur verið.

23 Auk þessa eru haldin árlega langtum stærri mót, kölluð umdæmismót (nefnt landsmót sé það jafnframt eina slíka mótið fyrir boðbera viðkomandi lands), sem standa í nokkra daga. Gerðu það sem þú getur til að sækja næsta umdæmismót til að þú getir séð með eigin augum hversu ánægjuleg og andlega auðgandi slík mót eru. Með nokkurra ára millibili eru haldin enn þá stærri alþjóðamót eða hjá stórum þjóðum landsmót, í stað umdæmismótanna. Hið stærsta, sem haldið hefur verið á einum stað, var átta daga mót árið 1958 í Yankee Stadium og Polo Grounds í New York. Þá voru 253.922 viðstaddir til að heyra opinbera fyrirlesturinn „Guðsríki stjórnar — er heimsendir í nánd?“ Síðan hefur enginn einn samkomustaður reynst nægilega stór til að halda svo fjölmennt mót, þannig að stórmótin hafa verið haldin í mörgum af stærstu borgum veraldar.

SAMKOMUR SAFNAÐANNA

24. Hvaða fimm samkomur halda söfnuðir þjóna Guðs vikulega?

24 Hið stjórnandi ráð votta Jehóva sér einnig um að í öllum söfnuðum þeirra fari fram biblíufræðsla sem er eins um allan heim. Hver söfnuður heldur fimm samkomur í viku. Þær eru kallaðar guðveldisskóli, þjónustusamkoma, opinber fyrirlestur, Varðturnsnám og safnaðarbóknám. Vera má að þú hafir enn ekki kynnst þessum samkomum og verður þeim því lýst lítillega hér.

25, 26. Hvaða tilgangi þjóna guðveldisskólinn og þjónustusamkoman?

25 Guðveldisskólinn er til þess ætlaður að hjálpa nemendunum að þjálfa sig í að tala við aðra um ríki Guðs. Með nokkru millibili halda þeir sem innritaðir eru stuttar ræður um biblíulegt efni fyrir viðstöddum. Síðan gefur reyndur öldungur leiðbeiningar og ráð til betrumbóta.

26 Þjónustusamkoman er yfirleitt haldin sama kvöld. Dagskrá þessarar samkomu birtist í Ríkisþjónustu okkar, litlu riti sem hið stjórnandi ráð gefur út mánaðarlega. Á þessari samkomu eru gefnar hagnýtar ábendingar og sýnikennsla í því hvernig best sé að kynna boðskapinn um Guðsríki. Kristur gaf fordæmið fyrir því þegar hann hvatti fylgjendur sína og gaf þeim fyrirmæli um hvernig þeir skyldu inna þjónustu sína af hendi. — Jóhannes 21:15-17; Matteus 10:5-14.

27, 28. Hvers konar samkomur eru opinberi fyrirlesturinn, Varðturnsnámið og safnaðarbóknámið?

27 Opinberi fyrirlesturinn og Varðturnsnámið eru yfirleitt á sunnudögum. Sérstök áhersla er lögð á að bjóða þeim sem nýlega hafa sýnt áhuga að sækja opinberu samkomuna, en á henni flytur hæfur þjónn orðsins erindi út af Biblíunni. Í Varðturnsnáminu er farið yfir biblíugrein í nýlegu hefti Varðturnsins með spurningum og svörum.

28 Þær samkomur, sem hér hafa verið nefndar, eru haldnar í Ríkissalnum þar sem allur söfnuðurinn kemur saman, en einu sinni í viku koma saman smærri hópar á einkaheimilum til safnaðarbóknámsins. Biblíunámsrit, svo sem bókin sem þú ert að lesa, er notað sem undirstaða umræðnanna sem standa í eina klukkustund.

29. (a) Hvaða minningarhátíð halda sannkristnir menn árlega? (b) Hverjir mega taka af brauðinu og víninu?

29 Auk þessara vikulegu samkoma halda vottar Jehóva sérstaka samkomu ár hvert á dánardegi Jesú. Þegar Jesús lagði drög að þessari minningarhátíð um dauða sinn sagði hann: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19, 20) Við einfalda athöfn notaði hann vín og ósýrt brauð sem tákn um það líf sem hann var í þann mund að fórna í þágu mannkynsins. Á þessari árlegu minningarhátíð gefa þeir sem eftir eru á jörðinni af 144.000 smurðum fylgjendum Krists, tákn um himneska von sína með því að neyta af brauðinu og víninu.

30. (a) Hverjir aðrir mega sækja minningarhátíðina og hvaða von bera þeir í brjósti? (b) Hvernig lýsti Jesús slíkum mönnum?

30 Þær milljónir annarra manna, sem sækja þessa minningarhátíð í Ríkissölum um alla jörðina, neyta ekki brauðsins og vínsins heldur fylgjast með því sem fram fer. Þeir eru minntir á það sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert til að þeir geti hlotið lausn undan synd og dauða. En í stað þess að hlakka til lífs á himnum fagna þeir þeim framtíðarhorfum að eiga að lifa eilíflega í paradís á jörð. Þeir eru eins og Jóhannes skírari sem kallaði sig ‚vin brúðgumans‘ en leit ekki á sig sem hluta af brúði Krists sem mynduð er af 144.000 einstaklingum. (Jóhannes 3:29) Þessar milljónir manna eru af hópi þeirra ‚annarra sauða‘ sem Jesús talaði um. Þeir tilheyra ekki ‚litlu hjörðinni,‘ heldur þjóna, eins og Jesús sagði, sem einn maður með ‚litlu hjörðinni‘ þannig að allir til samans ‚verði ein hjörð.‘ — Jóhannes 10:16; Lúkas 12:32.

GUÐI ÞJÓNAÐ MEÐ SKIPULAGI HANS

31. Hvað bendir til að Guð hafi ekki velþóknun á þeim sem halda sambandi við fölsk trúarbrögð um leið og þeir reyna að tilheyra skipulagi hans?

31 Auðsætt er að Jehóva Guð hefur sýnilegt skipulag nú á dögum eins og hann hafði forðum daga! Hann notar það nú til að þjálfa menn fyrir það líf sem bíður þeirra í réttlátri nýrri skipan hans. En við getum ekki bæði tilheyrt skipulagi Guðs og fölskum trúarbrögðum. Orð Guðs segir: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? . . . Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ Guð býður þess vegna: „Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim.“ — 2. Korintubréf 6:14-17.

32. (a) Hvað verðum við að gera ef við eigum að ‚fara burt frá þeim‘? (b) Hvaða blessun getur fallið okkur í skaut ef við byrjum að þjóna Guði með sýnilegu guðveldisskipulagi hans?

32 Hvað merkir það að ‚fara burt frá þeim‘? Við getum tæpast hlýtt því boði ef við höldum áfram að tilheyra eða styðja annað trúfélag en það sem Jehóva Guð notar. Ef einhver okkar tilheyrir enn slíku trúfélagi þarf hann að segja sig úr því. Ef við förum burt frá þeim sem iðka falska trú og förum að þjóna Guði með sýnilegu skipulagi hans, verðum við í hópi þeirra manna sem Guð segir um: „Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.“ — 2. Korintubréf 6:16.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 192]

Hafði Guð fleiri en eitt skipulag á tímum flóðsins?

[Myndir á blaðsíðu 196]

HÖFUÐSTÖÐVAR VOTTA JEHÓVA Í NEW YORK

AÐALSKRIFSTOFUR

Tölvubúnaður

PRENTSMIÐJAN Í BROOKLYN

Hverfipressa

Bókband

Afgreiðsla

[Myndir á blaðsíðu 197]

NOKKRAR AF MÖRGUM ÖÐRUM PRENTSMIÐJUM VARÐTURNSINS

Brasilía

England

Suður-Afríka

Wallkill, New York

Kanada

[Myndir á blaðsíðu 198]

Hluti 253.922 gesta á móti votta Jehóva í New York árið 1958.

Polo Grounds

Yankee Stadium

[Mynd á blaðsíðu 201]

Markviss biblíufræðsla fer fram á samkomum votta Jehóva.