Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur öðlast hamingjuríka framtíð!

Þú getur öðlast hamingjuríka framtíð!

1. kafli

Þú getur öðlast hamingjuríka framtíð!

1, 2. Hvað vill skapari þinn að þú öðlist?

 HLYLEGT faðmlag ástvinar. Hjartanlegur hlátur yfir góðum málsverði með kærum vinum. Ánægjan af því að horfa á börnin sín í gáskafullum leik. Slík augnablik eru sólskinsstundir í lífinu. Mörgum virðist lífið hins vegar bjóða aðeins upp á hvert alvarlega vandamálið á fætur öðru. Ef það á við um þig skaltu þó ekki láta hugfallast.

2 Guð vill að þú njótir varanlegrar hamingju við bestu aðstæður í dásamlegu umhverfi. Þetta er ekki aðeins draumsýn því að Guð býður þér í raun lykilinn að slíkri hamingju í framtíðinni. Sá lykill er þekking.

3. Hvaða þekking er lykill að hamingjunni og hvers vegna getum við verið viss um að Guð geti veitt okkur þá þekkingu?

3 Hér er verið að tala um sérstaka tegund þekkingar sem er langtum æðri speki manna. Það er „þekking á Guði.“ (Orðskviðirnir 2:5) Fyrir næstum 2000 árum sagði biblíuritari: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Ímyndaðu þér þá þekkingu sem skapari allra hluta hlýtur að búa yfir. Biblían segir að Guð hafi tölu á öllum stjörnunum og kalli þær allar með nafni. Okkur er það næstum óskiljanlegt af því að í vetrarbrautinni okkar eru hundruð milljarða stjarna og stjörnufræðingar segja að til séu um það bil hundrað milljarðar annarra vetrarbrauta. (Sálmur 147:4) Guð veit líka allt um okkur. Hver annar gæti því veitt betri svör við helstu spurningum lífsins? — Matteus 10:30.

4. Hvers vegna ættum við að vænta þess að Guð sjái okkur fyrir leiðsögn og hvaða bók mætir þeirri þörf?

4 Sjáðu fyrir þér tvo menn reyna að gera við bílana sína. Annar gefst upp og kastar gramur frá sér verkfærunum. Hinn gerir rólegur við bilunina, snýr lyklinum í kveikjulásnum og brosir þegar vélin fer í gang og gengur þýðlega. Það væri ekki erfitt að giska á hvor þessara tveggja manna hafi verið með leiðbeiningabók frá framleiðandanum. Væri ekki skynsamlegt að ætla að Guð fengi okkur leiðbeiningar í hendur til leiðsagnar í lífinu? Þú veist ef til vill að Biblían staðhæfir að hún sé einmitt slík leiðbeiningabók og leiðsögn frá skapara okkar, til þess gerð að veita þekkingu á Guði. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

5. Hve verðmæt er þekkingin sem Biblían inniheldur?

5 Ef fullyrðing Biblíunnar er rétt ímyndaðu þér þá hvílíka fjársjóði þekkingar bókin sú hlýtur að innihalda. Í Orðskviðunum 2:1-5 hvetur hún okkur til að leita að speki eða hyggindum, grafa eftir þeim eins og fólgnum fjársjóði — ekki í hugskoti manna heldur í sjálfu orði Guðs. Ef við leitum þar munum við „öðlast þekking á Guði.“ Þar sem Guð skilur takmarkanir okkar og þarfir veitir hann okkur leiðbeiningar sem hjálpa okkur að lifa friðsælu og hamingjuríku lífi. (Sálmur 103:14; Jesaja 48:17) Þar að auki færir þekkingin á Guði okkur spennandi gleðifregnir.

EILÍFT LÍF!

6. Hvaða fullvissu veitti Jesús Kristur varðandi þekkinguna á Guði?

6 Hin alþekkta, sögulega persóna Jesús Kristur lýsti þessum þætti þekkingarinnar á Guði með skýrum orðum. Hann sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Hugsaðu þér — þekking sem leiðir til eilífs lífs!

7. Hvað ber vitni um að Guð ætlaði okkur ekki að deyja?

7 Ýttu ekki hugmyndinni um eilíft líf strax til hliðar sem draumsýn. Líttu í stað þess á hvernig mannslíkaminn er gerður. Hann er stórkostlega hannaður til að geta fundið bragð, heyrt, þefað, séð og snert. Það er svo margt á jörðinni sem gælir við skilningarvit okkar — ljúffengur matur, þýður fuglasöngur, ilmandi blóm, fagurt landslag, ánægjulegur félagsskapur. Undraverður heili okkar er miklu meira en ofurtölva af því að hann gerir okkur fært að meta og hafa ánægju af öllu slíku. Heldur þú að skapari okkar vilji að við deyjum og glötum þessu öllu? Væri ekki skynsamlegra að álykta að hann vilji að við lifum hamingjusöm og njótum lífsins að eilífu? Það er einmitt það sem þekking á Guði getur þýtt fyrir þig.

LÍF Í PARADÍS

8. Hvað segir Biblían um framtíð mannkynsins?

8 Það sem Biblían segir um framtíð jarðarinnar og mannkynsins mætti draga saman í eitt orð: Paradís! Jesús Kristur nefndi hana þegar hann mælti til deyjandi manns: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, NW) Þegar minnst var á paradís komu vafalaust fram í huga þessa manns hamingjuríkar aðstæður fyrstu foreldra okkar, Adams og Evu. Guð skapaði þau fullkomin og þau bjuggu á svæði sem líktist lystigarði og Guð hafði hannað og gróðursett. Vel var við hæfi að kalla það Eden sem merkir unaður.

9. Hvernig var lífið í hinni upprunalegu paradís?

9 Sannarlega var þessi garður unaðslegur. Hann var raunveruleg paradís. Fallegu trén þar báru sum hver ljúffenga ávexti. Þegar Adam og Eva könnuðu heimkynni sín, drukku ferskt vatnið og tíndu ávexti af trjánum höfðu þau enga ástæðu til að vera áhyggjufull eða hrædd. Þeim stóð jafnvel ekki ógn af dýrunum af því að Guð hafði sett manninn og konu hans yfir þau öll til þess að drottna yfir þeim í kærleika. Þar að auki voru fyrstu mennsku hjónin stálhraust. Svo lengi sem þau héldu áfram að hlýða Guði blasti eílíf, hamingjurík framtíð við þeim. Þeim var gefið það ánægjulega starf að annast dásamlegt paradísarheimili sitt. Adam og Evu og afkomendum þeirra voru gefin þau fyrirmæli að ‚uppfylla jörðina og gjöra sér hana undirgefna,‘ færa út mörk paradísar uns jörðin væri öll orðin fagur og yndislegur staður. — 1. Mósebók 1:28.

10. Hvað hafði Jesús í huga þegar hann talaði um paradís?

10 Þegar Jesús nefndi paradís var hann hins vegar ekki að biðja deyjandi mann að hugsa um löngu liðna tíð. Nei, Jesús var að tala um framtíðina. Hann vissi að öll jörðin yrði paradís. Á þann hátt léti Guð upphaflegan tilgang sinn með mannkynið og jörðina rætast. (Jesaja 55:10, 11) Já, paradís verður endurreist! Og hvernig verður hún? Látum orð Guðs, Heilaga ritningu, svara því.

LÍF Í ENDURREISTRI PARADÍS

11. Hvað verður um sjúkdóma, ellihrörnun og dauða í endurreistri paradís?

11 Sjúkdómar, ellihrörnun og dauði verða ekki framar til. „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 35:5, 6) „Guð sjálfur mun vera hjá [mönnunum], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

12. Hvers vegna getum við verið viss um að í endurreistri paradís verði engir glæpir, ofbeldi og illska?

12 Glæpir, ofbeldi og illska verða að eilífu horfin. „Illvirkjarnir verða afmáðir . . . Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . þeir [eru] horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:9-11) „En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:22.

13. Hvernig kemur Guð á friði?

13 Friður mun ríkja um alla jörð. „Hann [Guð] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn.“ (Sálmur 46:10) „Réttlætið [skal] blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.“ — Sálmur 72:7.

14, 15. Hvað segir Biblían um húsnæði, vinnu og fæðu í endurreistri paradís?

14 Húsnæði manna verður öruggt og störfin ánægjuleg. „Þeir munu reisa hús og búa í þeim. . . . Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis.“ — Jesaja 65:21-23.

15 Nóg verður til af hollum mat. „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ (Sálmur 72:16) „Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.“ — Sálmur 67:7.

16. Hvers vegna verður yndislegt að lifa í paradís?

16 Eilíft líf í paradís á jörð verður yndislegt. „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.“ — Jesaja 35:1.

ÞEKKING OG FRAMTÍÐ ÞÍN

17. (a) Hvað ættir þú að gera ef líf í paradís höfðar til þín? (b) Hvernig vitum við að Guð kemur bráðum til leiðar miklum breytingum á jörðinni?

17 Ef líf í paradís höfðar til þín láttu þá ekkert aftra þér frá að öðlast þekkingu á Guði. Hann elskar mannkynið og mun gera þær breytingar sem þarf til að jörðin verði paradís. Myndir þú ekki stöðva eymdina og óréttlætið sem er svo ríkjandi í heiminum ef þú hefðir mátt til þess? Ættum við að vænta minna af Guði? Biblían lýsir á ljóslifandi hátt tímanum þegar Guð fjarlægir þetta heimskerfi, sem logar í deilum, og lætur fullkomið, réttlátt ríki koma í staðinn. (Daníel 2:44) En Biblían gerir miklu meira en að skýra okkur frá öllu þessu. Hún sýnir okkur hvernig við getum lifað af endalok þessa heimskerfis og fengið að lifa í hinum fyrirheitna, nýja heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13; 1. Jóhannesarbréf 2:17.

18. Hvað getur þekking á Guði gert fyrir þig núna?

18 Þekking á Guði getur einnig gert mikið fyrir þig nú þegar. Biblían hefur svör við dýpstu og áleitnustu spurningum lífsins. Ef þú þiggur leiðsögn hennar hjálpar það þér að byggja upp vináttu við Guð. Það eru stórkostleg sérréttindi! Og það gerir þér kleift að njóta þess friðar sem Guð einn getur gefið. (Rómverjabréfið 15:13, 33) Þegar þú hefst handa við að tileinka þér þessa lífsnauðsynlegu þekkingu ert þú að ráðast í mikilvægasta og umbunarríkasta verkefnið á ævinni. Þig mun aldrei iðra þess að afla þér þekkingar á Guði sem leiðir til eilífs lífs.

19. Hvaða spurningu athugum við í næsta kafla?

19 Við höfum vísað til Biblíunnar sem bókarinnar sem getur veitt okkur þekkingu á Guði. En hvernig vitum við að hún er ekki afurð mannlegrar visku heldur búi eitthvað miklu stórfenglegra að baki henni? Í næsta kafla tökum við þá spurningu til athugunar.

Reyndu þekkingu þína

Hvers vegna getur þekking á Guði leitt til eilífrar hamingju?

Hvernig verður lífið í hinni komandi paradís á jörð?

Af hverju hefur þú gagn af því að afla þér þekkingar á Guði núna?

[Spurningar]