Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar jörðin er full af þekkingu á Guði

Þegar jörðin er full af þekkingu á Guði

19. kafli

Þegar jörðin er full af þekkingu á Guði

1, 2. Hvernig varð sköpunarverk Jehóva fyrir skemmdum?

 SJÁÐU fyrir þér mikinn listmálara sem er nýbúinn að leggja síðustu hönd á stórkostlegt málverk. Hann álítur það með réttu vera mjög gott — algert meistaraverk. En um nóttina kemur afbrýðisamur keppinautur hans og skemmir það. Listamaðurinn tekur það skiljanlega mjög nærri sér. Hann vill svo sannarlega sjá skemmdarvarginn settan bak við lás og slá. Og þú getur rétt ímyndað þér hversu mjög listmálarann langar til að gera við sköpunarverk sitt til að það nái aftur fyrri fegurð.

2 Líkt og listamaður skapaði Jehóva meistaraverk þegar hann bjó til jörðina og setti mennina á hana. Þegar hann hafði skapað manninn og konuna lýsti hann því yfir að allt verk sitt á jörðinni væri „harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Adam og Eva voru börn Guðs og hann elskaði þau. Hann sá fyrir sér hamingjuríka og dýrlega framtíð þeim til handa. Satan fékk þau að vísu til að gera uppreisn en hið dásamlega sköpunarverk Guðs varð ekki fyrir óbætanlegum skemmdum. — 1. Mósebók 3:23, 24; 6:11, 12.

3. Hvað er „hið sanna líf“?

3 Guð hefur ákveðið að lagfæra skemmdirnar. Hann óskar þess innilega að sjá okkur lifa á þann hátt sem hann hafði upphaflega í hyggju. Tilvera okkar, sem er bæði stutt og hlaðin erfiðleikum, er ekki „hið sanna líf“ vegna þess að hún stendur langt að baki því sem Jehóva hafði í huga. „Hið sanna líf,“ sem Guð vill að við öðlumst, er „eilífa lífið“ við fullkomnar aðstæður. — 1. Tímóteusarbréf 6:12, 19.

4, 5. (a) Hvernig verður vonin um paradís að veruleika? (b) Hvers vegna ætti framtíðarvon okkar að vera okkur hugstæð?

4 Þekkingunni á Guði fylgir ábyrgð gagnvart Jehóva. (Jakobsbréfið 4:17) En hugleiddu þá blessun sem þú munt hljóta ef þú beitir þeirri þekkingu og sækist eftir eilífu lífi. Í orði sínu, Biblíunni, hefur Jehóva Guð dregið upp fagra mynd af því lífi í paradís á jörð sem brátt verður að veruleika. Við erum fólk Jehóva og að sjálfsögðu þjónum við Guði ekki einungis til að fá laun fyrir það. Við þjónum Guði af því að við elskum hann. (Markús 12:29, 30) Enn fremur ávinnum við okkur ekki líf með því að þjóna Jehóva. Eilíft líf er gjöf Guðs. (Rómverjabréfið 6:23) Við höfum gott af því að velta fyrir okkur slíku lífi vegna þess að vonin um paradís minnir okkur á hvers konar Guð Jehóva er — Guð sem ‚umbunar þeim sem leita hans.‘ (Hebreabréfið 11:6) Von, sem brennur heitt í huga okkar og hjarta, gerir okkur kleift að þola þrengingar í heimi Satans. — Jeremía 23:20.

5 Beinum núna athygli okkar að hinni biblíulegu von um eilíft líf í paradís á jörð í framtíðinni. Hvernig verður lífið þegar jörðin er full af þekkingu á Guði?

EFTIR HARMAGEDÓN — PARADÍS Á JÖRÐ

6. Hvað er Harmagedón og hvað þýðir það fyrir mannkynið?

6 Eins og áður hefur verið sýnt fram á mun Jehóva Guð bráðlega eyða hinu núverandi illa heimskerfi. Heimurinn nálgast hratt það sem Biblían kallar Harmagedón. Þegar sumir heyra þetta orð dettur þeim ef til vill helst í hug allsherjar kjarnorkubál sem afleiðingu átaka stríðandi þjóða. Harmagedón er þó ekkert í líkingu við það. Eins og Opinberunarbókin 16:14-16 sýnir, er Harmagedón ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Það er stríð sem nær til „konunga allrar heimsbyggðarinnar“ sem þýðir að allar þjóðir blandast í það. Sonur Jehóva Guðs, hinn skipaði konungur, mun bráðlega ríða fram til orrustu. Það er alveg víst hvernig henni lyktar. Öllum sem standa gegn Guðsríki og eru hluti af illum heimi Satans verður útrýmt. Þeir einir, sem eru Jehóva trúfastir, lifa af. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 19:11-21.

7. Hvar verða Satan og illir andar hans meðan Kristur ríkir í þúsund ár og hvernig kemur það mannkyninu að gagni?

7 Ímyndaðu þér að þú hafir lifað af þessar hamfarir. Hvernig verður lífið á jörðinni í nýja heiminum sem Guð hefur heitið? (2. Pétursbréf 3:13) Við þurfum ekki að geta okkur til um það af því að Biblían segir okkur það. Orð hennar um þetta eru mjög spennandi. Við fáum að vita að Satan og illir andar hans verða teknir úr umferð, læstir niðri í undirdjúpi athafnaleysis á meðan Jesús Kristur ríkir í þúsund ár. Þessar illu og meinfýsnu sköpunarverur fá þá ekki lengur að sniglast á bak við tjöldin, æsa til illinda og reyna að reka okkur út í ótrúmennsku gagnvart Guði. Hvílíkur léttir! — Opinberunarbókin 20:1-3.

8, 9. Hvað verður um böl, sjúkdóma og ellihrörnun í nýja heiminum?

8 Þegar fram líða stundir hverfa hvers kyns sjúkdómar. (Jesaja 33:24) Lamaðir munu þá standa, ganga, hlaupa og dansa á heilbrigðum, sterkum fótleggjum. Eftir áralanga vist í sínum þögla heimi geta heyrnarlausir greint ánægjulegu hljóðin í kringum sig. Hinir blindu taka andköf af hrifningu þegar fyrir augum þeirra opnast heimur stórfenglegrar litadýrðar og lögunar. (Jesaja 35:5, 6) Loksins geta þeir séð andlit ástvina sinna! Ef móðu ber af og til fyrir augu þeirra er það aðeins vegna gleðitáranna.

9 Reyndu að sjá þetta fyrir þér. Engin þörf verður lengur á gleraugum, hækjum, stöfum, lyfjum, tannlæknastofum eða sjúkrahúsum. Geðsjúkdómar og þunglyndi ræna fólk aldrei framar hamingjunni né heldur munu sjúkdómar spilla æsku nokkurs manns. Ellihrörnuninni verður snúið við. (Jobsbók 33:25) Við verðum heilbrigðari og sterkari. Hvern morgun vöknum við hress og endurnærð eftir góðan nætursvefn, hlaðin lífsorku og áköf í að takast á við líflegan dag og ánægjuleg störf.

10. Hvaða verkefni munu þeir sem lifa af Harmagedón takast á hendur?

10 Þeir sem lifa af Harmagedón fá fjöldann allan af skemmtilegum verkefnum til að fást við. Þeir breyta jörðinni í paradís. Hinn gamli, mengaði heimur verður hreinsaður burt uns ekki er ögn eftir. Fátækrahverfi og spillt landsvæði munu víkja fyrir fögrum útivistarsvæðum og görðum. Allir búa í þægilegu og skemmtilegu húsnæði. (Jesaja 65:21) Með tíð og tíma stækka þessi paradísarsvæði á jörðinni og renna saman uns allur hnötturinn samræmist þeim fegurðarstaðli sem skaparinn setti forðum í Edengarðinum. Það verður einstaklega ánægjulegt að taka þátt í þessu endurreisnarstarfi.

11. Hvert verður samband manna við náttúruna og dýrin?

11 Allt verður þetta unnið undir leiðsögn Guðs til þess að engin umhverfisspjöll verði. Friður ríkir þá milli manna og dýra. Maðurinn mun á ný taka að sér ábyrga ráðsmennsku yfir jörðinni og annast dýrin vel í stað þess að deyða þau að tilefnislausu. Sjáðu fyrir þér úlfa og lömb, ljón og kálfa á beit saman án þess að húsdýrunum stafi nokkur hætta af. Jafnvel smábarn þarf ekki að óttast villidýr, og grimmir og blóðþyrstir menn spilla ekki heldur friðsæld jarðarinnar. (Jesaja 11:6-8) Sannarlega mun friður ríkja í þessum nýja heimi!

UMBREYTING MANNKYNSINS

12. Hvernig er Jesaja 11:9 að uppfyllast núna, og hvernig uppfyllist þessi spádómur í paradís?

12 Jesaja 11:9 segir okkur hvers vegna enginn mun lengur valda skaða á jörðinni. Þar stendur: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ Hér er átt við fólk af því að dýr geta ekki aflað sér ‚þekkingar á Jehóva‘ og breytt sér sjálf þar sem eðlishvatir stjórna hegðun þeirra. En þekkingin á skaparanum breytir fólki. Vafalaust hefur þú nú þegar breytt einhverju hjá sjálfum þér vegna þess að þú ert byrjaður að beita þekkingunni á Guði í lífi þínu. Milljónir manna hafa gert það. Þessi spádómur er þar af leiðandi strax farinn að uppfyllast á þeim sem þjóna Jehóva. En hann bendir líka fram til þess tíma þegar fólk um alla jörð losar sig við allar dýrslegar eða ofbeldisfullar tilhneigingar og verður friðsamt að eilífu.

13. Hvaða fræðslustarf mun fara fram á jörðinni?

13 Þegar jörðin er full af þekkingu á Guði verður dásamlegt að lifa! Þá verður unnið umfangsmikið fræðslustarf undir leiðsögn konungsins Jesú Krists og 144.000 meðstjórnenda hans. Nýjar ‚bækur‘ verða þá teknar í notkun. Þetta eru greinilega ritaðar leiðbeiningar frá Guði og á þeim verður byggð sú fræðsla sem íbúar jarðarinnar fá. (Opinberunarbókin 20:12) Í stað þess að temja sér vopnaburð læra menn að búa saman í friði. Öll eyðingarvopn verða að eilífu horfin. (Sálmur 46:10) Íbúum nýja heimsins verður kennt að umgangast meðbræður sína af kærleika og virðingu.

14. Hvernig breytist heimurinn þegar mannkynið verður ein, sameinuð fjölskylda?

14 Mannkynið verður ein, sameinuð fjölskylda. Ekkert mun hindra eininguna og bræðralagið. (Sálmur 133:1-3) Engu húsi þarf að læsa til að halda þjófum frá. Friður ríkir í hverju hjarta, á hverju heimili, alls staðar á jörðinni. — Míka 4:4.

HIN GLEÐILEGA UPPRISA

15. Hvaða tveir hópar verða reistir upp til lífs á jörð?

15 Í þúsundáraríkinu á upprisan sér stað. Þeir sem hafa syndgað af ásettu ráði gegn heilögum anda Guðs, starfskrafti hans, með því að breyta þvert gegn því sem andinn hefur birt eða gefið leiðsögn um og sjá ekki eftir því, verða ekki reistir upp. (Matteus 23:15, 33; Hebreabréfið 6:4-6) Það er að sjálfsögðu Guð sem dæmir um hver hafi syndgað á þann hátt. En tveir aðgreindir hópar verða reistir upp frá dauðum — „réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Þar eð röð og regla verður á öllu er skynsamlegt að álykta að þeir fyrstu, sem boðnir verða velkomnir aftur til lífs á jörðinni, verði þeir réttlátu, þeir sem hafa þjónað Jehóva trúfastlega. — Hebreabréfið 11:35-39.

16. (a) Hverjir verða meðal þeirra ‚réttlátu‘ sem reistir verða upp til lífs á jörð? (b) Hvaða trúfasta menn fornaldar langar þig sérstaklega til að hitta og hvers vegna?

16 Í stað þess að heyra fréttir um styrjaldir, hörmungar og dauðsföll, fá þjónar Jehóva dásamlegar fréttir af upprisunni. Það verður spennandi að frétta um endurkomu trúfastra einstaklinga eins og Abels, Enoks, Nóa, Abrahams, Söru, Jobs, Móse, Rahab, Rutar, Davíðs, Elía og Esterar. Ímyndaðu þér hversu hrífandi sögulegar upplýsingar þau geta komið með þegar þau greina frá einstökum atriðum í tengslum við margar af frásögnum Biblíunnar. Vafalaust verða þau, ásamt hinum ‚réttlátu‘ sem látist hafa á seinni tímum, ekki síður áköf að frétta um endalok heimskerfis Satans og hvernig Jehóva helgaði nafn sitt og réttlætti drottinvald sitt.

17. Hvaða aðstoð munu hinir trúföstu veita öðrum sem fá upprisu?

17 Þetta trúfasta fólk kemur að miklum notum meðan á næsta stigi upprisunnar stendur, þegar milljarðar þeirra sem „ranglátir“ töldust verða leystir úr viðjum dauðans. Stærstum hluta mannkynsins gafst aldrei tækifæri til að kynnast Jehóva. Satan ‚blindaði huga þeirra.‘ (2. Korintubréf 4:4) En verk djöfulsins verður að engu gert. Þegar hinir ranglátu rísa upp er jörðin orðin fögur og friðsæl. Vel skipulagt fólk býður þá velkomna og fræðir þá um Jehóva og ríkjandi son hans, Jesú Krist. Þegar milljarðar upprisinna manna fara að kynnast skapara sínum og elska hann fyllist jörðin af þekkingu á Guði á þann hátt sem aldrei áður hefur gerst.

18. Hvernig heldur þú að þér verði innanbrjósts þegar þú býður upprisna ástvini velkomna til lífs á ný?

18 Hvílíkan fögnuð mun upprisan ekki vekja í brjóstum okkar. Hver hefur ekki þurft að þjást vegna óvinarins, dauðans? Já, hver hefur ekki fundið fyrir mikilli vanmáttarkennd þegar sjúkdómar, elli, slys eða ofbeldi hafa valdið mannsláti og slitið sundur kærleiks- eða vinarbönd? Ímyndaðu þér hversu fögnuðurinn verður mikill við endurfundina í paradís. Mæður og feður, synir og dætur, vinir og ættingjar munu hlaupa í fang hver annars, hlæjandi og grátandi af gleði.

LOKSINS FULLKOMIN!

19. Hvaða kraftaverk á sér stað í þúsundáraríkinu?

19 Dásamlegt kraftaverk mun eiga sér stað út í gegnum allt þúsundáraríkið, og verður ef til vill sá þáttur þúsund ára stjórnar Krists sem hrífur mannkynið hvað mest. Jehóva mun fela syni sínum að nota verðmæti lausnarfórnarinnar til gagns öllum þeim sem sýna trúfesti og hlýðni, körlum jafnt sem konum. Á þann hátt verður öll synd fjarlægð og mannkyninu lyft upp til fullkomleikans. — 1. Jóhannesarbréf 2:2; Opinberunarbókin 21:1-4.

20. (a) Hvað þýðir það að vera fullkominn? (b) Hvenær munu þeir sem lifa af Harmagedón og þeir sem verða reistir upp frá dauðum byrja að lifa í algerum skilningi?

20 Fullkominn! Hvað þýðir það? Það þýðir að líf manna verður sambærilegt við það líf sem Adam og Eva nutu áður en þau syndguðu gegn Jehóva Guði. Bæði á líkama og huga, svo og tilfinningalega, siðferðilega og andlega — á allan hugsanlegan hátt — munu menn mæta þeim stöðlum sem Guð setur. En verða þá allir menn eins? Langt frá því! Allt sköpunarverk Jehóva — svo sem trén, blómin og dýrin — kennir okkur að hann hefur yndi af fjölbreytni. Fullkomnir menn munu hafa mismunandi persónuleika og hæfileika. Hver og einn fær að njóta lífsins eins og Guð ætlaðist til að það yrði. Opinberunarbókin 20:5 segir: „En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin.“ Á sama hátt og múgurinn mikli, sem lifir af Harmagedón, verða hinir upprisnu lifandi í algerum skilningi þegar þeir verða fullkomnir og lausir við syndina.

21. (a) Hvað á sér stað við lok þúsundáraríkis Krists? (b) Hvað kemur að lokum fyrir Satan og alla sem taka afstöðu með honum?

21 Fullkomnum mönnum mætir lokaprófraun. Við lok þúsundáraríkisins verða Satan og illir andar hans leystir úr undirdjúpinu um stuttan tíma og þeim leyft að reyna í síðasta sinn að snúa fólki frá Jehóva. Nokkrir munu setja rangar óskir ofar kærleikanum til Guðs, en þessi uppreisn stendur stutt. Jehóva eyðir slíkum eigingjörnum mönnum og Satan og allir illir andar hans fá sömu útreið. Allir sem rangindi fremja verða þá horfnir að eilífu. — Opinberunarbókin 20:7-10.

HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ GERA?

22. Hvað hlakkar þú til að gera í paradís?

22 Þeir sem elska Jehóva Guð og búa í paradís á jörð munu eiga eilífðina fyrir sér. Við getum tæplega ímyndað okkur hversu mikil gleði þeirra verður. Þessi gleði stendur þér til boða. Tónlist, listsköpun, handiðn — afrek fullkominna manna á því sviði munu skara fram úr bestu verkum mestu meistaranna í gamla heiminum. Það er eðlilegt því að mennirnir verða þá orðnir fullkomnir og hafa ótakmarkaðan tíma til umráða. Ímyndaðu þér hvað þú getur gert sem fullkominn maður. Hugleiddu líka hvað þú og aðrir menn geta þá lært um sköpunarverk Jehóva — allt frá milljörðum vetrarbrauta í himingeimnum til smæstu öreinda. Allt sem mannkynið afrekar mun auka enn á gleði hins kærleiksríka, himneska föður okkar, Jehóva. — Sálmur 150:1-6.

23. Hvers vegna verður líf í paradís aldrei leiðigjarnt?

23 Lífið verður ekki leiðigjarnt. Það verður sífellt áhugaverðara þegar tímar líða. Ástæðan er sú að þekkingunni á Guði eru engin takmörk sett. (Rómverjabréfið 11:33) Um alla eilífð verður ávallt meira til að læra og nýr sjóndeildarhringur til að kanna. (Prédikarinn 3:11) Og þegar þú heldur áfram að fræðast um Jehóva Guð munt þú halda áfram að lifa — ekki aðeins fáein ár heldur að eilífu! — Sálmur 22:27.

24, 25. Hvers vegna ættir þú að lifa núna í samræmi við þekkinguna á Guði?

24 Er nokkurt erfiði of mikið eða fórn of stór fyrir yndislega framtíð í paradís á jörð? Að sjálfsögðu ekki! Jehóva hefur rétt þér lykilinn að þessari stórkostlegu framtíð. Sá lykill er þekkingin á Guði. Ætlar þú að nota hann?

25 Ef þú elskar Jehóva munt þú hafa yndi af að gera vilja hans. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þegar þú leggur kapp á að ganga á vegum hans mun sannarlega mikil blessun falla þér í skaut. Ef þú nýtir þér þekkinguna á Guði getur hún fært þér hamingjuríkara líf, jafnvel í þessum hrjáða heimi. Þar að auki munt þú í framtíðinni öðlast mikla umbun af því að þetta er sú þekking sem leiðir til eilífs lífs! Núna er hentugur tími fyrir þig að hefjast handa. Vertu staðráðinn í að lifa í samræmi við þekkinguna á Guði. Sýndu kærleika þinn til Jehóva. Heiðraðu hans heilaga nafn og sannaðu Satan lygara. Þá mun Jehóva Guð, uppspretta sannrar speki og þekkingar, fagna yfir þér í sínu kærleiksríka hjarta. (Jeremía 31:3; Sefanía 3:17) Hann mun elska þig að eilífu!

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvað er „hið sanna líf“?

Hvað gerist á jörðinni eftir Harmagedón?

Hverjir verða reistir upp til lífs á jörðinni?

Hvernig verður mannkynið fullkomið og að lokum reynt?

Hver er von þín í tengslum við paradís?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 188, 189]

Vonast þú til að lifa í paradís þegar jörðin er full af þekkingu á Guði?