Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bókin sem opinberar þekkinguna á Guði

Bókin sem opinberar þekkinguna á Guði

2. kafli

Bókin sem opinberar þekkinguna á Guði

1, 2. Hvers vegna þörfnumst við leiðsagnar skapara okkar?

 ÞAÐ liggur í hlutarins eðli að kærleiksríkur Guð láti mannkyninu í té bók með leiðbeiningum og leiðsögn. Og ertu ekki sammála því að menn þarfnist leiðsagnar?

2 Fyrir meira en 2500 árum skrifaði spámaður og sagnfræðingur: „[Það er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Sannleiksgildi þessarar fullyrðingar er augljósara núna en nokkru sinni fyrr. Sagnfræðingurinn William H. McNeill sagði: „Það sem maðurinn hefur upplifað á þessari reikistjörnu hefur verið næstum óslitin röð erfiðleika og upplausnar á ríkjandi skipan samfélagsins.“

3, 4. (a) Með hvaða hugarfari ættum við að hefja nám í Biblíunni? (b) Hvernig munum við halda áfram rannsókn okkar á Biblíunni?

3 Biblían mætir til fulls þörfum manna fyrir viturlega leiðsögn. Að vísu finnst mörgum yfirþyrmandi að blaða í gegnum Biblíuna í fyrsta sinn. Hún er stór bók og sumir hlutar hennar eru ekki auðskildir. En ef þér væri fengið í hendur réttarskjal þar sem tilgreint væri hvað þú þyrftir að gera til að öðlast verðmætan arf, myndir þú þá ekki taka þér tíma til að kanna það vandlega? Ef þér fyndist erfitt að skilja einhverja hluta skjalsins myndir þú líklega leita aðstoðar einhvers sem hefði reynslu í slíkum málum. Hvers vegna ekki að skoða Biblíuna út frá sama sjónarhorni? (Postulasagan 17:11) Meira er í húfi en efnislegur arfur. Eins og við lærðum í kaflanum hér á undan getur þekking á Guði leitt til eilífs lífs.

4 Við skulum rannsaka bókina sem leiðir í ljós þekkinguna á Guði. Við byrjum á stuttu yfirliti yfir Biblíuna. Síðan verður rætt um ástæður þess að margt upplýst fólk trúir því að hún sé innblásið orð Guðs.

ÞAÐ SEM BIBLÍAN INNIHELDUR

5. (a) Hvað innihalda Hebresku ritningarnar? (b) Hvað er að finna í Grísku ritningunum?

5 Biblían inniheldur 66 bækur í tveimur hlutum sem oft eru nefndir Gamla testamentið og Nýja testamentið. Þrjátíu og níu biblíubækur voru skrifaðar að mestu á hebresku og 27 á grísku. Hebresku ritningarnar, sem ná frá 1. Mósebók til loka Malakí, spanna sköpunina og fyrstu 3500 ár mannkynssögunnar. Þegar við skoðum þennan hluta Biblíunnar fræðumst við um samskipti Guðs við Ísraelsmenn — frá því að þeir urðu þjóð á 16. öld f.o.t. og fram á 5. öld f.o.t. * Grísku ritningarnar, sem hefjast á Matteusarguðspjalli og lýkur með Opinberunarbókinni, leggja megináhersluna á kenningar og starf Jesú Krists og lærisveina hans á fyrstu öld e.o.t.

6. Af hverju ættum við að nema alla Biblíuna?

6 Sumir halda því fram að „Gamla testamentið“ sé fyrir Gyðinga og „Nýja testamentið“ sé fyrir kristna menn. En 2. Tímóteusarbréf 3:16 segir að „sérhver ritning [sé] innblásin af Guði og nytsöm.“ Þar af leiðandi verður almennilegt nám í Ritningunni að ná til allrar Biblíunnar. Í raun og veru bæta þessir tveir hlutar Biblíunnar hvor annan upp, mynda samstæða heild til að byggja upp heildarstef.

7. Hvert er stef Biblíunnar?

7 Ef til vill hefur þú sótt guðsþjónustur eða trúarlegar samkomur í áraraðir og heyrt lesið upp úr Biblíunni, jafnvel lesið í henni sjálfur hér og þar. Vissir þú að í Biblíunni er gegnumgangandi meginhugsun frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar? Já, samhljóma stef gengur í gegnum Biblíuna. Hvaða stef er það? Það er réttlæting þess að Guð ríki yfir mannkyninu og hvernig kærleiksríkur tilgangur hans verður að veruleika fyrir tilstuðlan ríkis hans. Við sjáum síðar hvernig Guð mun láta tilgang sinn ná fram að ganga.

8. Hvað opinberar Biblían um persónuleika Guðs?

8 Auk þess að draga upp mynd af tilgangi Guðs opinberar Biblían persónuleika hans. Frá Biblíunni lærum við til dæmis að Guð hefur tilfinningar og að það skiptir hann máli hvað við veljum. (Sálmur 78:40, 41; Orðskviðirnir 27:11; Esekíel 33:11) Sálmur 103:8-14 segir að Guð sé „náðugur og miskunnsamur . . . þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ Hann meðhöndlar okkur með meðaumkun, ‚minnist þess að við erum gerð úr mold‘ og hverfum til hennar við dauðann. (1. Mósebók 2:7; 3:19) Sannarlega sýnir hann dásamlega eiginleika. Langar þig ekki til að tilbiðja slíkan Guð?

9. Hvernig gefur Biblían okkur skýra mynd af stöðlum Guðs og hvaða gagn getum við haft af slíkri þekkingu?

9 Biblían gefur okkur skýra mynd af stöðlum Guðs. Þeir eru stundum settir fram sem lög. Oftar endurspeglast þeir þó í frumreglum sem kenndar eru með raunhæfum dæmum. Guð lét skrá niður vissa atburði í sögu Ísraels til forna okkur til gagns. Þessar hreinskilnu frásagnir sýna hvað gerist þegar fólk starfar í samræmi við tilgang Guðs, svo og hin sorglegu málalok þegar fólk fer sína eigin leið. (1. Konungabók 5:4; 11:4-6; 2. Kroníkubók 15:8-15) Lestur slíkra raunsannra frásagna snertir án efa hjörtu okkar. Ef við reynum að sjá fyrir okkur atburðina sem greint er frá getum við sett okkur í spor fólksins sem þar kemur við sögu. Þannig getum við haft gagn af góðum fordæmum og forðast þær tálsnörur sem illvirkjar lenda í. Ein mikilvæg spurning kallar þó á svar: Hvernig getum við verið viss um að það sem við lesum í Biblíunni sé virkilega innblásið af Guði?

GETUR ÞÚ TREYST BIBLÍUNNI?

10. (a) Hvers vegna finnst sumum að Biblían sé úrelt? (b) Hvað segir 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17 okkur um Biblíuna?

10 Ef til vill hefur þú tekið eftir því að margar bækur, sem bjóða fram ráðgjöf, úreldast á aðeins fáeinum árum. Hvað um Biblíuna? Hún er mjög gömul og næstum 2000 ár eru liðin síðan síðustu orð hennar voru skrifuð. Sumum finnst þess vegna að hún eigi ekki við um okkar tíma. En sé Biblían innblásin af Guði ættu ráð hennar alltaf að eiga við þrátt fyrir háan aldur hennar. Ritningin ætti enn að vera „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

11-13. Hvers vegna getum við sagt að Biblían sé hagnýt á okkar tímum?

11 Nákvæm athugun leiðir í ljós að frumreglur Biblíunnar eiga ekki síður við nú á tímum en þær gerðu þegar þær voru fyrst færðar í letur. Þegar til dæmis er fjallað um manneðlið endurspeglar Biblían næman skilning sem gildir um sérhverja kynslóð manna. Við getum auðveldlega séð þetta af fjallræðu Jesú, en hana er að finna í Matteusarguðspjalli, 5. til 7. kafla. Þessi ræða vakti slíka hrifningu hjá indverska leiðtoganum Mohandas K. Gandhi að fréttir herma að hann hafi sagt við breskan stjórnarerindreka: „Þegar þín þjóð og mín geta sameinast um þær kenningar sem Kristur setti fram í fjallræðunni þá munum við ekki aðeins hafa leyst vandamál okkar ríkja heldur líka alls heimsins.“

12 Það er engin furða að fólk sé hrifið af kenningum Jesú. Í fjallræðunni sýndi hann okkur leiðina til sannrar hamingju. Hann útskýrði hvernig ætti að setja niður deilur. Jesús gaf leiðbeiningar um hvernig ætti að biðja til Guðs. Hann benti á viturlegasta viðhorfið til efnislegra þarfa og gaf gullnu regluna um rétta framkomu við aðra. Hvernig sjá ætti við trúarloddurum og hvernig öðlast mætti örugga framtíð var líka tekið til umfjöllunar í þessari ræðu.

13 Í fjallræðunni, sem og vítt og breitt á blöðum sínum, segir Biblían okkur greinilega hvað við eigum að gera og hvað við eigum að forðast til að bæta hlutskipti okkar í lífinu. Svo hagnýtar eru ráðleggingar hennar að sérfræðingur í fræðslumálum fann sig knúinn til að segja: „Enda þótt ég starfi sem ráðgjafi við menntaskóla og hafi bæði B.A.- og M.A.-gráðu og hafi lesið mikinn fjölda bóka um geðheilbrigði og sálfræði, uppgötvaði ég að heilræði Biblíunnar um atriði eins og hvernig lifa megi í farsælu hjónabandi, fyrirbyggja unglingaafbrot og eignast og eiga vini, standa langtum framar hverju því sem ég hef lesið eða numið í háskóla.“ Auk þess að vera hagnýt og eiga við á öllum tímum er Biblían áreiðanleg.

NÁKVÆM OG ÁREIÐANLEG

14. Hvað sýnir að Biblían er vísindalega nákvæm?

14 Þó að Biblían sé ekki kennslubók í vísindum er hún vísindalega nákvæm. Á þeim tímum til dæmis, þegar flestir álitu að jörðin væri flöt, vísaði spámaðurinn Jesaja til hennar sem „kringlu“ (hebreska orðið er chugh sem hér ber með sér hugmyndina um hnött). (Jesaja 40:22) Hugmyndin um hnattlaga jörð hlaut ekki almenna viðurkenningu fyrr en árþúsundum eftir daga Jesaja. Auk þess segir í Jobsbók 26:7 — skrifuð fyrir meira en 3000 árum — að Guð láti „jörðina svífa í tómum geimnum.“ Biblíufræðimaður segir: „Þeir sem afneita innblæstri Heilagrar ritningar eiga erfitt með að svara því hvernig Job vissi sannleikann sem stjörnufræðin hefur sýnt fram á, þann að jörðin hangi að því er virðist óstudd í tómum geimnum.“

15. Hvernig eykur frásagnarstíllinn í Biblíunni traust okkar til hennar?

15 Frásagnarstíllinn í Biblíunni eflir einnig traust okkar á þessari aldagömlu bók. Ólíkt goðsögnum eru atburðirnir, sem Biblían fjallar um, tengdir ákveðnu fólki og tíma. (1. Konungabók 14:25; Jesaja 36:1; Lúkas 3:1, 2) Sagnfræðingar til forna ýktu nær alltaf sigra valdhafa sinna og leyndu ósigrum þeirra og mistökum en ritarar Biblíunnar voru aftur á móti hreinskilnir og heiðarlegir — jafnvel um sínar eigin alvarlegu syndir. — 4. Mósebók 20:7-13; 2. Samúelsbók 12:7-14; 24:10.

BÓK SPÁDÓMA

16. Hvað ber þess sterkast vitni að Biblían sé innblásin af Guði?

16 Uppfylltir spádómar bera þess óyggjandi vitni að Biblían sé innblásin af Guði. Biblían inniheldur marga spádóma sem hafa uppfyllst í smáatriðum. Augljóst er að hér getur ekki aðeins verið um verk manna að ræða. Hvað stendur þá að baki þessum spádómum? Biblían segir sjálf: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda,“ eða starfskrafti Guðs. (2. Pétursbréf 1:21) Hugleiddu nokkur dæmi.

17. Hvaða spádómar sögðu fyrir fall Babýlonar og hvernig uppfylltust þeir?

17 Fall Babýlonar. Jesaja og Jeremía sögðu báðir fyrir um að Babýlon myndi falla fyrir Medum og Persum. Athyglisvert er að spádómur Jesaja um þennan atburð var skráður um það bil 200 árum áður en Medar og Persar unnu Babýlon. Eftirfarandi þættir spádómsins eru núna skráðir á spjöld sögunnar: Áin Efrat var þurrkuð upp með því að vatninu var veitt í stöðuvatn gert af mannahöndum (Jesaja 44:27; Jeremía 50:38); slök öryggisgæsla var við þau hlið Babýlonar sem áin rann um (Jesaja 45:1); og sigur valdhafa sem bar nafnið Kýrus. — Jesaja 44:28.

18. Hvernig uppfylltist spádómur í Biblíunni á uppgangi og falli ‚Grikklands konungs‘?

18 Uppgangur og fall ‚Grikklands konungs.‘ Í sýn sá Daníel geithafur stanga niður hrút og brjóta af honum bæði hornin. Síðan brotnaði hið mikla horn geithafursins og fjögur horn spruttu upp í staðinn. (Daníel 8:1-8) Daníel fékk þessa útskýringu: „Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.“ (Daníel 8:20-22) Í fullu samræmi við þennan spádóm kollvarpaði ‚Grikklands konungur,‘ Alexander mikli, hinu tvíhyrnda heimsveldi Meda og Persa. Alexander dó árið 323 f.o.t. og svo fór að ríkið skiptist milli fjögurra af hershöfðingjum hans. Ekkert þeirra ríkja jafnaðist hins vegar á við veldi Alexanders.

19. Hvaða spádómar uppfylltust á Jesú Kristi?

19 Ævi Jesú Krists. Hebresku ritningarnar innihalda fjölda spádóma sem uppfylltust á fæðingu, starfi, dauða og upprisu Jesú. Til dæmis spáði Míka, meira en 700 árum fyrirfram, að Messías, eða Kristur, skyldi fæðast í Betlehem. (Míka 5:1; Lúkas 2:4-7) Jesaja, sem var samtímamaður Míka, spáði að Jesús yrði barinn og að hrækt yrði á hann. (Jesaja 50:6; Matteus 26:67) Fimm hundruð árum fyrirfram spáði Sakaría að Messías yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga. (Sakaría 11:12; Matteus 26:15) Meira en þúsund árum áður en Jesús, Messías, dó spáði Davíð kringumstæðum sem tengdust þeim dauða. (Sálmur 22:8, 9, 19; Matteus 27:35, 39-43) Og um það bil fimm öldum fyrirfram opinberaði spádómur Daníels hvenær Messías myndi birtast, svo og hversu lengi hann myndi prédika og hvenær hann dæi. (Daníel 9:24-27, Biblían 1859) Þetta er aðeins sýnishorn spádómanna sem uppfylltust á Jesú Kristi. Þér mun finnast það þess virði að lesa miklu meira um hann síðar.

20. Hvaða traust ætti það að veita okkur að spádómar Biblíunnar skuli hafa uppfyllst svo fullkomlega?

20 Margir aðrir langtímaspádómar í Biblíunni hafa þegar uppfyllst. ‚En hvernig varðar það líf mitt?‘ spyrð þú ef til vill. Ef einhver hefði alltaf sagt þér sannleikann í mörg ár færir þú þá allt í einu að draga orð hans í efa ef hann segði þér eitthvað nýtt? Nei! Guð hefur sagt sannleikann í Biblíunni frá upphafi til enda. Ætti það ekki að byggja upp traust þitt á því sem Biblían lofar, eins og spádómum hennar um komandi paradís á jörð? Svo sannarlega getum við átt sömu fullvissu og Páll, einn af lærisveinum Jesú á fyrstu öldinni, sem skrifaði að „Guð, [sé] sá er ekki lýgur.“ (Títusarbréfið 1:2) Þegar við lesum Ritninguna og förum eftir ráðleggingum hennar erum við auk þess að nýta okkur visku sem menn geta ekki öðlast af eigin rammleik af því að Biblían er bókin sem veitir þekkingu á Guði sem leiðir til eilífs lífs.

‚SÆKSTU EFTIR‘ ÞEKKINGU Á GUÐI

21. Hvað ættir þú að gera ef þér finnst þú ekki ráða við það að fylgja einhverju sem þú lærir frá Biblíunni?

21 Þegar þú nemur Biblíuna er líklegt að þú lærir ýmislegt sem er frábrugðið því sem þér hefur áður verið kennt. Ef til vill kemst þú jafnvel að raun um að sumir af þeim trúarsiðum, sem þér þykir vænt um, eru Guði ekki þóknanlegir. Þú munt læra að Guð hefur staðla um rétt og rangt sem eru hærri en þeir sem þessi eftirláti heimur setur sér. Þetta gerir þig ef til vill máttvana í fyrstu. En sýndu þrautseigju. Rannsakaðu vandlega Ritninguna til að finna þekkinguna á Guði. Vertu opinn fyrir þeim möguleika að ráðleggingar Biblíunnar kalli á að þú lagfærir hugsun þína og hegðun.

22. Hvers vegna ert þú að nema Biblíuna og hvernig getur þú hjálpað öðrum að skilja það?

22 Vinir og ættingjar kunna af góðum hug að setja sig upp á móti því að þú nemir Biblíuna, en Jesús sagði: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ (Matteus 10:32, 33) Sumir óttast ef til vill að þú ánetjist einhverjum sértrúarflokki eða verðir ofstækismaður. Hins vegar ert þú í rauninni aðeins að leitast við að öðlast nákvæma þekkingu á Guði og sannindum hans. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Til þess að hjálpa öðrum að skilja þetta skaltu vera skynsamur og sanngjarn, ekki þrætugjarn, þegar þú talar við þá um það sem þú ert að læra. (Filippíbréfið 4:5) Mundu að margir ‚vinnast orðalaust‘ þegar þeir sjá sannanir þess að biblíuþekking komi fólki í raun og veru að gagni. — 1. Pétursbréf 3:1, 2.

23. Hvernig getur þú ‚sóst‘ eftir þekkingu á Guði?

23 Biblían hvetur okkur eindregið: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk.“ (1. Pétursbréf 2:2) Nýfætt barn er háð næringu frá móður sinni og gengur fast eftir því að þeirri þörf sé mætt. Á sama hátt erum við háð þekkingu frá Guði. ‚Sækstu‘ eftir orði hans með því að halda áfram námi þínu. Settu þér meira að segja það markmið að lesa daglega í Biblíunni. (Sálmur 1:1-3) Það mun færa þér ríkulega blessun því að Sálmur 19:11 segir um lög Guðs: „Að halda þau hefir mikil laun í för með sér.“

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Skammstafanirnar f.o.t og e.o.t. þýða „fyrir okkar tímatal“ og „eftir okkar tímatali“ sem er nákvæmara en „fyrir Krist“ og „eftir Krist.“

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Á hvaða hátt er Biblían ólík öllum öðrum bókum?

Hvers vegna getur þú treyst Biblíunni?

Hvað er þér sönnun þess að Biblían sé innblásið orð Guðs?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 14]

NÝTTU ÞÉR VEL BIBLÍUNA ÞÍNA

Það þarf ekki að vera erfitt að kynnast Biblíunni. Notaðu efnisyfirlitið í henni til að læra á niðurröðun biblíubókanna.

Bókum Biblíunnar er skipt niður í kafla og vers til að auðvelt sé að fletta upp í henni. Kaflaskiptingunni var bætt inn í á 13. öld og á 16. öld virðist franskur prentari hafa sett inn í Grísku ritningarnar þá skiptingu í vers sem enn er notuð. Fyrsta biblían, sem var allri skipt niður í bæði kafla og vers, var frönsk útgáfa, gefin út árið 1553.

Þegar vísað er til ritningarstaða í þessari bók gefur fyrsta talan til kynna kaflann og sú næsta sýnir versið. Til dæmis er með tilvitnuninni „Orðskviðirnir 2:5“ átt við 5. versið í 2. kafla Orðskviðanna. Með því að fletta upp tilvísuðum ritningarstöðum mun þér fljótlega finnast þægilegt að rata í Biblíunni.

Besta leiðin til að kynnast Biblíunni er að lesa hana daglega. Það kann að virðast veruleg vinna við fyrstu sýn. En ef þú lest þrjá til fimm kafla á dag, lætur kaflafjöldann ráðast af lengd þeirra, tekur það þig eitt ár að lesa alla Biblíuna. Hvers vegna ekki að byrja strax í dag?

[Rammi á blaðsíðu 18]

BIBLÍAN — EINSTÖK BÓK

• Biblían er „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þó að menn hafi skrifað orðin stjórnaði Guð hugsun þeirra þannig að Biblían er í raun og veru ‚orð Guðs.‘ — 1. Þessa­lon­íku­bréf 2:13.

• Það tók 16 aldir að skrifa Biblíuna og um 40 menn, sprottnir úr margvíslegum jarðvegi, lögðu þar hönd á plóginn. Fullgerð er Biblían engu að síður sjálfri sér samkvæm frá upphafi til enda.

• Biblían hefur staðið af sér hatrammari deilur en nokkur önnur bók. Á miðöldum var fólk brennt á báli fyrir það eitt að eiga eintak af Ritningunni.

• Biblían er útbreiddasta bók í heimi. Hún hefur verið þýdd, í heild eða að hluta til, á fleiri en 2000 tungumál. Eintökin, sem prentuð hafa verið, skipta milljörðum og vart er sá staður á jörðinni að ekki sé hægt að finna þar eintak af Biblíunni.

• Elsta hluta Biblíunnar má rekja aftur til 16. aldar f.o.t. Þá voru hvorki komin fram helgiritin Rigveda (sem komu fram í kringum 1300 f.o.t.) hjá hindúum, né „Körfurnar þrjár“ (á fimmtu öld f.o.t.) hjá búddhatrúarmönnum, ekki heldur Kóran múhameðstrúarmanna (á sjöundu öld e.o.t) né Nihongi sintotrúarinnar (720 e.o.t).

[Heilsíðumynd á bls. 20]