Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjölskylda sem er Guði til heiðurs

Fjölskylda sem er Guði til heiðurs

15. kafli

Fjölskylda sem er Guði til heiðurs

1-3. Af hverju eru sumir ófærir um að leysa vandamál sem algengt er að komi upp hjá hjónum og foreldrum, en hvers vegna getur Biblían komið til hjálpar?

 HUGSUM okkur að þú ætlir sjálfur að byggja þér hús. Fyrst verður þú þér úti um lóð. Með ákafri eftirvæntingu sérðu húsið fyrir þér í huganum. En hvað nú ef þig skortir bæði verkfæri og smíðaþekkingu? Strit þitt verður þá til lítils.

2 Mörg hjón sjá fyrir sér hamingjusama fjölskyldu þegar þau hefja sambúð en búa þó hvorki yfir þeim „verkfærum“ né þeirri hæfni sem þarf til að skapa farsælt heimilislíf. Skömmu eftir brúðkaupsdaginn fer hegðun þeirra að taka á sig slæma mynd. Deilur og þjark verða daglegt brauð. Þegar þeim fæðast börn komast faðirinn og móðirin að raun um að þau ráða ekkert betur við foreldrahlutverkið en hjónabandið.

3 En sem betur fer getur Biblían veitt hjálp. Frumreglur hennar eru eins og verkfæri sem gera þér kleift að koma þér upp hamingjusamri fjölskyldu. (Orðskviðirnir 24:3) Við skulum skoða hvers vegna hægt er að segja það.

FRUMREGLUR SEM STUÐLA AÐ HAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI

4. Hvers vegna má búast við vandamálum milli hjóna og hvaða leiðbeiningar er að finna í Biblíunni?

4 Hversu vel sem hjón virðast eiga saman er þó alltaf munur á skapgerð þeirra, reynslu frá æskuárunum og fjölskyldunum sem þau koma frá. Þess vegna verður að gera ráð fyrir einhverjum vandamálum eftir brúðkaupsdaginn. Hvernig verður tekið á þeim? Þegar smiðir reisa hús skoða þeir teikningarnar. Þær eru leiðbeiningarnar sem farið skal eftir. Í Biblíunni er að finna leiðbeiningar Guðs um hvernig gera megi heimilislífið hamingjuríkt. Við skulum núna skoða nokkrar þeirra.

5. Hvernig leggur Biblían áherslu á mikilvægi tryggðar í hjónabandi?

5 Tryggð. Jesús sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ * (Matteus 19:6) Páll postuli skrifaði: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Þeim sem er í hjónabandi ætti að finnast það skylda sín gagnvart Jehóva að vera maka sínum ávallt trúr. — 1. Mósebók 39:7-9.

6. Hvernig stuðlar tryggð að farsælu hjónabandi?

6 Tryggð færir hjónabandinu reisn og öryggi. Tryggur eiginmaður og trygg eiginkona vita að þau muni styðja hvort annað í blíðu og stríðu. (Prédikarinn 4:9-12) Hversu ólíkt er það ekki þeim sem hlaupa frá hjónabandinu við fyrstu merki um erfiðleika. Slíkir einstaklingar eru fljótir að álykta að þeir hafi ‚valið sér rangan maka,‘ að ‚ástin sé kulnuð‘ og að málið lagist með nýjum maka. En það gefur hvorugu hjónanna tækifæri til að þroskast tilfinningalega. Þess í stað má allt eins vera að hinir ótrygglyndu taki sömu vandamálin með sér inn í nýtt hjónaband. Sá sem á fínt hús en kemst að raun um að þakið lekur reynir örugglega að gera við það. Hann flytur ekki bara í annað hús. Að skipta um maka er á sama hátt ekki leiðin til að útkljá þau deilumál sem búa að baki hjónabandserjum. Þegar vandamál koma upp skaltu ekki reyna að losa þig úr hjónabandinu heldur skaltu leggja þig allan fram um að varðveita það. Með slíkri tryggð meðhöndlar þú samband ykkar hjónanna eins og eitthvað sem er þess virði að halda vörð um, viðhalda og hlúa að.

7. Af hverju eiga hjón oft erfitt með að tjá sig hvort við annað, en hvaða hjálp er í því að íklæðast „hinum nýja manni“?

7 Tjáskipti. „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin,“ segir orðskviður í Biblíunni. (Orðskviðirnir 15:22) Sum hjón eiga þó erfitt með að tjá sig sín á milli. Hví skyldi það vera? Það er vegna þess að menn tjá sig ekki allir eins, og þessar ólíku aðferðir leiða oft til verulegs misskilnings og gremju. Uppeldið getur átt hér hlut að máli. Til dæmis hafa sumir ef til vill alist upp við sífellt rifrildi foreldra sinna. Sem fullorðnir menn og gengnir í hjónaband vita þeir ef til vill ekki hvernig þeir eiga að tala vingjarnlega og ástúðlega við maka sinn. Þrátt fyrir það þarf heimilið ekki að falla í það far að verða ‚fullt hús af deilum.‘ (Orðskviðirnir 17:1) Biblían leggur áherslu á að menn íklæðist „hinum nýja manni“ og hún sér ekki í gegnum fingur við illgjarna beiskju, hávaða og lastmæli. — Efesusbréfið 4:22-24, 31.

8. Hvað getur komið að gagni þegar þig greinir á við maka þinn?

8 Hvað getur þú gert þegar ósætti kemur upp? Ef ykkur fer að hitna í hamsi gæti verið skynsamlegt að fylgja ráðleggingunni í Orðskviðunum 17:14: „Lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ Já, þú gætir frestað umræðunum þangað til síðar, þegar bæði þú og maki þinn hafið stillt skap ykkar. (Prédikarinn 3:1, 7) Þú skalt undir öllum kringumstæðum leitast við að vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ (Jakobsbréfið 1:19) Markmið þitt ætti að vera að ráða bót á ástandinu, ekki að vinna þrætumálið. (1. Mósebók 13:8, 9) Bæði það sem þú segir og hvernig þú segir það ætti að vera til þess fallið að róa þig og maka þinn. (Orðskviðirnir 12:18; 15:1, 4; 29:11) En umfram allt skuluð þið ekki ala á gremju ykkar heldur leita hjálpar með því að biðja saman í auðmýkt til Guðs. — Efesusbréfið 4:26, 27; 6:18.

9. Hvers vegna er hægt að segja að tjáskipti hefjist í hjartanu?

9 Orðskviður í Biblíunni segir: „Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna á vörum hans.“ (Orðskviðirnir 16:23) Lykillinn að árangursríkum tjáskiptum er þess vegna í raun og veru hjartað en ekki munnurinn. Hvaða augum lítur þú maka þinn? Biblían hvetur kristna menn til að vera „hluttekningarsamir.“ (1. Pétursbréf 3:8) Getur þú gert það þegar eitthvað hvílir þungt á maka þínum? Ef svo er mun það hjálpa þér að vita hvernig þú eigir að tala til hans. — Jesaja 50:4.

10, 11. Hvernig getur eiginmaður farið eftir ráðunum í 1. Pétursbréfi 3:7?

10 Virðing. Kristnum eiginmönnum er sagt að ‚búa með skynsemi saman við konur sínar sem veikari ker og veita þeim virðingu.‘ (1. Pétursbréf 3:7) Að veita konu sinni virðingu felur í sér að viðurkenna gildi hennar. Eiginmaður sem býr „með skynsemi“ saman við konu sína ber virðingu fyrir tilfinningum hennar, hinum sterku hliðum hennar, greind hennar og reisn. Hann ætti líka að vilja fræðast um hvernig Jehóva lítur á konur og vill að komið sé fram við þær.

11 Segjum að á heimili þínu hafir þú mjög nytsamlegt ílát sem er einstaklega fíngert. Myndir þú ekki fara mjög varlega með það? Pétur notaði orðalagið „veikari ker“ í svipuðum dúr og það ætti að fá kristinn eiginmann til að sýna ástkærri eiginkonu sinni nærgætni og virðingu.

12. Hvernig getur eiginkona sýnt að hún beri lotningu fyrir manni sínum?

12 En hvaða ráðleggingar gefur Biblían eiginkonu? Páll skrifaði: „Konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:33) Rétt eins og konan þarf að finna að maki hennar virði hana og elski innilega þarf eiginmaðurinn að hafa það á tilfinningunni að konan hans beri virðingu fyrir honum. Eiginkona, sem ber virðingu fyrir manni sínum, færi ekki í hugsunarleysi að bera út galla hans, hvort sem hann er kristinn maður eða ekki. Hún myndi ekki svipta hann reisn sinni með því að gagnrýna hann og gera lítið úr honum, hvorki þegar þau eru ein né innan um annað fólk. — 1. Tímóteusarbréf 3:11; 5:13.

13. Hvernig er hægt að láta skoðanir sínar í ljósi á friðsaman hátt?

13 Þetta þýðir ekki að eiginkonan geti ekki látið skoðun sína í ljósi. Ef eitthvað angrar hana getur hún kurteislega fært það í tal. (1. Mósebók 21:9-12) Hvernig hún kemur hugmyndum á framfæri við bónda sinn mætti líkja við að kasta til hans bolta. Hún getur kastað honum mjúklega til hans svo að hann eigi létt með að grípa hann, eða hún getur þeytt honum í hann af slíku afli að það meiði hann. Í stað þess að hjónin hreyti ásökunum hvort í annað er sannarlega miklu betra að þau tali vingjarnlega og blíðlega saman. — Matteus 7:12; Kólossubréfið 4:6; 1. Pétursbréf 3:3, 4.

14. Hvað ættir þú að gera ef maki þinn sýnir lítinn áhuga á að beita frumreglum Biblíunnar í hjónabandinu?

14 Eins og komið hefur fram geta frumreglur Biblíunnar hjálpað þér að skapa hamingjuríkt hjónaband. En hvað nú ef maki þinn sýnir lítinn áhuga á því sem Biblían hefur fram að færa? Þú getur engu að síður komið miklu til leiðar með því að beita þekkingunni á Guði þegar þú sinnir þínu hlutverki. Pétur skrifaði: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ (1. Pétursbréf 3:1, 2) Að sjálfsögðu gildir sama um eiginmann ef konan hans er áhugalaus um Biblíuna. Láttu frumreglur Biblíunnar gera þig að betri eiginmanni eða eiginkonu óháð því hvað maki þinn kýs að gera. Þekkingin á Guði getur einnig gert þig að betra foreldri.

BÖRN ALIN UPP Í SAMRÆMI VIÐ ÞEKKINGUNA Á GUÐI

15. Hvernig ganga gallaðar uppeldisaðferðir stundum mann fram af manni, en hvernig er hægt að rjúfa þann hring?

15 Enginn verður leikinn trésmiður aðeins með því að eignast sög og hamar. Á sama hátt verður fólk ekki góðir foreldrar einungis með því að eignast börn. Meðvitað eða ómeðvitað veita foreldrar börnum sínum oft sams konar uppeldi og þeir fengu sjálfir. Gallaðar uppeldisaðferðir berast þannig stundum frá kynslóð til kynslóðar. Forn hebreskur málsháttur segir: „Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar.“ Ritningin sýnir samt að menn þurfa ekki að ganga þá braut sem foreldrar þeirra gengu. Þeir geta valið aðra leið, þá sem tekur mið af fyrirmælum Jehóva. — Esekíel 18:2, 14, 17.

16. Hvers vegna er mikilvægt að sjá fyrir þörfum fjölskyldu sinnar og hvað felst í því?

16 Jehóva ætlast til að kristnir foreldrar veiti börnum sínum rétta leiðsögn og umhyggju. Páll skrifaði: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Hér er fast að orði kveðið. Það eru sérréttindi og ábyrgð guðhrædds manns að sjá vel fyrir þörfum fjölskyldu sinnar og í því felst að sjá fyrir líkamlegum, andlegum og tilfinningalegum þörfum barna sinna. Biblían setur fram frumreglur sem geta hjálpað foreldrum að skapa börnum sínum gott umhverfi. Hugleiddu nokkrar þeirra.

17. Hvað er nauðsynlegt eigi börnin þín að hafa lög Guðs föst í huga og hjarta?

17 Sýndu gott fordæmi. Foreldrar í Ísrael fengu þessi fyrirmæli: „Þú skalt brýna [orð Guðs] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Foreldrar áttu að kenna börnum sínum staðla Guðs. En formálinn að þessum fyrirmælum var eftirfarandi: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.“ (5. Mósebók 6:6, 7) Foreldrar geta ekki gefið börnum sínum það sem þeir eiga ekki sjálfir. Lög Guðs verða fyrst að vera þér hugföst ef þú vilt að þau festist í huga og hjarta barna þinna. — Orðskviðirnir 20:7; samanber Lúkas 6:40.

18. Hvernig hefur Jehóva gefið foreldrum frábært fordæmi í því að láta í ljósi væntumþykju?

18 Fullvissaðu þau um ást þína. Þegar Jesús var skírður lýsti Jehóva yfir: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ (Lúkas 3:22) Jehóva viðurkenndi þannig son sinn, tjáði hiklaust velþóknun sína á honum og fullvissaði hann um ást sína. Jesús sagði seinna við föður sinn: „Þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.“ (Jóhannes 17:24) Sem guðhræddir foreldrar skuluð þið þess vegna tjá börnum ykkar væntumþykju ykkar, bæði með orðum og látbragði — og gerið það oft. Minnist þess alltaf að „kærleikurinn byggir upp.“ — 1. Korintubréf 8:1.

19, 20. Hvað er fólgið í því að veita börnum réttan aga og hvernig geta foreldrar haft gagn af fordæmi Jehóva?

19 Agi. Biblían leggur áherslu á mikilvægi kærleiksríks aga. (Orðskviðirnir 1:8) Foreldrar, sem svíkjast undan þeirri ábyrgð að leiðbeina börnum sínum núna, þurfa að öllum líkindum að horfast í augu við átakanlegar afleiðingar þess seinna. En foreldrar eru einnig varaðir við að fara út í hinar öfgarnar. „Þér feður,“ skrifaði Páll, „verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) Foreldrar verða að forðast að leiðrétta börnin um of, eða þrástaglast á göllum þeirra og gagnrýna viðleitni þeirra.

20 Jehóva Guð, himneskur faðir okkar, gefur rétta fordæmið í því að veita aga. Átölur hans fara aldrei út í öfgar. „Ég [vil] hirta þig í hófi,“ sagði Guð við þjóð sína. (Jeremía 46:28) Foreldrar ættu að líkja eftir Jehóva í þessu efni. Agi, sem fer út fyrir sanngjörn mörk eða fer lengra en að veita þá leiðréttingu og kennslu sem honum er ætlað, reitir svo sannarlega til reiði.

21. Hvernig geta foreldrar lagt mat á hvort þeir séu að beita réttum aga?

21 Hvernig geta foreldrar metið hvort þeir séu að beita réttum aga? Þeir gætu spurt sig hverju agi þeirra komi til leiðar. Hann ætti að veita kennslu. Barnið ykkar ætti að skilja hvers vegna verið er að aga það. Foreldrar ættu líka að gæta að því hvaða eftirköst átölur þeirra hafa. Að vísu verða næstum öll börn sár í fyrstu þegar þau fá aga. (Hebreabréfið 12:11) En agi ætti aldrei að gera barn óttaslegið eða láta það halda að það sé yfirgefið eða að illska sé því ásköpuð. Áður en Jehóva vandaði um við þjóð sína sagði hann: „Óttast þú ekki, . . . því að ég er með þér!“ (Jeremía 46:28) Já, umvöndunin ætti að vera sett þannig fram að barnið finni að þið elskið það og viljið hjálpa því.

AÐ NEMA „HOLLAR LÍFSREGLUR“

22, 23. Hvernig getur þú numið þær lífsreglur sem þarf til að skapa hamingjusama fjölskyldu?

22 Við getum verið þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa séð fyrir þeim „verkfærum“ sem við þurfum til að skapa hamingjuríkt fjölskyldulíf. En það eitt að eiga verkfærin nægir ekki. Við verðum að æfa okkur í að nota þau rétt. Smiður getur til dæmis tamið sér slæman ávana við notkun verkfæra sinna. Sumum þeirra beitir hann ef til vill alveg öfugt og þá er mjög líklegt að vinnulag hans leiði til lélegrar smíði. Þú ert þér kannski meðvitandi núna um óheppilegar venjur sem hafa læðst inn í fjölskyldu þína. Sumar eru ef til vill rótgrónar og erfitt að breyta þeim. Fylgdu engu að síður ráði Biblíunnar: „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur.“ — Orðskviðirnir 1:5.

23 Þú getur „numið“ eða tileinkað þér hollar lífsreglur með því að halda áfram að afla þér þekkingar á Guði. Vertu vakandi fyrir biblíulegum frumreglum sem eiga við fjölskyldulífið og gerðu þær breytingar sem þörf er á. Taktu eftir þroskuðu kristnu fólki sem sýnir gott fordæmi sem hjón og foreldrar. Talaðu við það. Umfram allt skaltu ræða áhyggjuefni þín við Jehóva í bæn. (Sálmur 55:23; Filippíbréfið 4:6, 7) Hann getur hjálpað þér að eignast hamingjuríkt fjölskyldulíf sem heiðrar hann.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Eina biblíulega ástæða hjónaskilnaðar, sem leyfir fólki að giftast á ný, er ‚hórdómur‘ — kynmök utan hjónabands. — Matteus 19:9.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvernig stuðlar tryggð, tjáskipti og virðing að hamingjusömu hjónabandi?

Á hvaða hátt geta foreldrar fullvissað börn sín um ást sína?

Hver er rétta leiðin til að veita aga?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls. 147]