Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðsríki er við völd

Guðsríki er við völd

10. kafli

Guðsríki er við völd

1, 2. Hvernig hafa stjórnir manna reynst ófullnægjandi?

 EF TIL vill hefur þú keypt tæki eða áhald sem síðan virkaði ekki þegar til átti að taka. Segjum að þú hafir kallað á viðgerðarmann. Stuttu eftir að hann „gerði við“ tækið bilaði það samt aftur. Var það ekki gremjulegt?

2 Því er líkt farið með stjórnir manna. Mannkynið hefur alltaf þráð stjórn sem tryggt gæti frið og hamingju. Ötul viðleitni til að bæta úr ágöllum samfélagsins hefur þó ekki borið árangur sem skyldi. Fjölmargir friðarsáttmálar hafa verið gerðir — og síðan sviknir. Hvaða stjórn hefur þar fyrir utan getað upprætt fátækt, fordóma, glæpi, sjúkdóma og umhverfisspjöll? Það er ekki hægt að bæta úr þeim ágöllum sem stjórn manna hefur. Jafnvel Salómon, hinn vitri konungur Ísraels, spurði: „Maðurinn — hvernig fær hann skynjað veg sinn?“ — Orðskviðirnir 20:24.

3. (a) Hver var þungamiðjan í prédikun Jesú? (b) Hvernig lýsa sumir Guðsríki?

3 Ekki örvænta! Traust heimsstjórn er ekki bara draumsýn. Hún var þungamiðjan í prédikun Jesú. Hann kallaði hana „Guðs ríki“ og kenndi fylgjendum sínum að biðja um komu þess. (Lúkas 11:2; 21:31) Vissulega er Guðsríki stundum nefnt á nafn innan trúarhópa. Raunin er sú að fólk í milljónatali biður daglega um það þegar það fer með faðirvorið. En fólk gefur mismunandi svör þegar spurt er: „Hvað er Guðsríki?“ Sumir segja: „Það er í hjarta manns.“ Aðrir kalla það himininn. Svar Biblíunnar er ótvírætt eins og við munum sjá.

RÍKI SEM HEFUR TILGANG

4, 5. Hvers vegna kaus Jehóva að sýna drottinvald sitt í nýrri mynd og hverju kemur það til leiðar?

4 Jehóva Guð hefur alltaf verið konungur eða æðsti stjórnandi alheimsins. Sú staðreynd að hann skapaði allt hefur hann upp í þá háu stöðu. (1. Kroníkubók 29:11; Sálmur 103:19; Postulasagan 4:24) En ríkið, sem Jesús prédikaði, er lægra sett eða minni háttar en drottinvald Guðs yfir öllum alheimi. Þetta Messíasarríki hefur sérstakan tilgang. Hver er hann?

5 Eins og útskýrt er í 6. kafla gerðu fyrstu mannhjónin uppreisn gegn yfirráðum Guðs. Vegna deiluefnisins, sem þá kom upp, kaus Jehóva að sýna drottinvald sitt í nýrri mynd. Guð kunngerði þann tilgang sinn að framkalla „sæði“ sem myndi mola höggorminn, Satan, og fjarlægja áhrif erfðasyndar mannkynsins. „Sæðið“ er fyrst og fremst Jesús Kristur og það er fyrir atbeina „Guðsríkis“ sem Satan verður gersigraður. Jesús Kristur notar þetta ríki til að endurreisa stjórn yfir allri jörðinni í nafni Jehóva og sanna réttmæti drottinvalds Guðs í eitt skipti fyrir öll. — 1. Mósebók 3:15; Sálmur 2:2-9.

6, 7. (a) Hvar er Guðsríki og hverjir eru konungurinn og meðstjórnendur hans? (b) Hverjir eru þegnar Guðsríkis?

6 Samkvæmt þýðingu íslensku biblíunnar frá 1981 á orðum Jesú til illgjarnra farísea sagði hann: „Guðs ríki er innra með yður.“ (Lúk. 17:21) Átti Jesús við að Guðsríki væri í hjörtum þessara spilltu manna? Nei. Nákvæmari þýðing á frumgríska textanum er þessi: „Guðs ríki er meðal yðar.“ (Biblían 1981, neðanmáls) Jesús, sem var meðal þeirra, var þannig að vísa til sjálfs sín sem framtíðarkonungsins. Guðsríki er langt frá því að vera eitthvað sem maður hefur í hjarta sínu heldur er það raunveruleg og starfandi stjórn með stjórnanda og þegna. Það er himnesk stjórn enda nefnt bæði ‚himnaríki‘ og ‚Guðsríki.‘ (Matteus 13:11; Lúkas 8:10) Daníel spámaður sá stjórnanda þess í sýn sem einhvern „sem mannssyni líktist“ og leiddur var fyrir alvaldan Guð og gefið varanlegt „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ (Daníel 7:13, 14) Hver er þessi konungur? Biblían kallar Jesú Krist ‚Mannssoninn.‘ (Matteus 12:40; Lúkas 17:26) Já, Jehóva útnefndi son sinn, Jesú Krist, sem konung.

7 Jesús stjórnar ekki einn. Með honum eru 144.000 sem „út eru leystir frá jörðunni“ til að vera konungar með honum og prestar. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3; Lúkas 22:28-30) Þegnar Guðsríkis verða menn er búa sem ein fjölskylda á allri jörðinni og lúta yfirráðum Krists. (Sálmur 72:7, 8) Hvernig getum við þó verið viss um að Guðsríki muni í rauninni sanna réttmæti drottinvalds Guðs og endurskapa paradísarástand hér á jörð?

RAUNVERULEIKI GUÐSRÍKIS

8, 9. (a) Hvaða dæmi má nota til að lýsa hve áreiðanleg fyrirheitin um Guðsríki eru? (b) Hvers vegna getum við verið viss um raunveruleika Guðsríkis?

8 Ímyndaðu þér að heimili þitt hafi eyðilagst í eldi. Núna hefur vinur, sem hefur til þess alla burði, lofað að hjálpa þér við að endurreisa húsið og sjá fjölskyldu þinni fyrir matvælum. Myndir þú ekki trúa þessum vini þínum ef hann hefði alltaf sagt þér sannleikann? Segjum að þú kæmir heim úr vinnu næsta dag og sæir verkamenn þegar farna að hreinsa upp brunarústirnar og fjölskyldu þína sitja að snæðingi. Eflaust yrðir þú algerlega sannfærður um að þegar stundir liðu yrði ekki aðeins öllu kippt í lag heldur yrði ástandið jafnvel betra en áður.

9 Jehóva hefur á svipaðan hátt veitt okkur fullvissu um það að Guðsríki sé raunveruleiki. Eins og sýnt er í Hebreabréfinu í Biblíunni voru margir þættir lögmálsins eins og táknmyndir þess fyrirkomulags sem verður í Guðsríki. (Hebreabréfið 10:1) Einnig mátti fá nokkra hugmynd um Guðsríki af hinu jarðneska konungsríki í Ísrael. Þar var engin venjuleg stjórn vegna þess að stjórnendurnir sátu á „konungsstóli [Jehóva].“ (1. Kroníkubók 28:5; 29:23) Auk þess hafði verið spáð: „Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur [„uns Síló kemur,“ NW], og þjóðirnar ganga honum á hönd.“ (1. Mós. 49:10) * Já, það var inn í þessa konungsætt Júda að Jesús, hinn varanlegi konungur stjórnar Guðs, fæddist. — Lúkas 1:32, 33.

10. (a) Hvenær var grundvöllurinn að Messíasarríki Guðs lagður? (b) Í hvaða mikilvægu starfi á jörðinni tækju væntanlegir meðstjórnendur Jesú forystuna?

10 Grundvöllurinn að Messíasarríki Guðs var lagður með valinu á postulum Jesú. (Efesusbréfið 2:19, 20; Opinberunarbókin 21:14) Þeir voru fyrstir hinna 144.000 sem ríkja myndu á himni sem meðkonungar Jesú Krists. Meðan þessir væntanlegu meðstjórnendur væru á jörðinni tækju þeir forystuna í boðunarherferð í samræmi við fyrirmæli Jesú: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“ — Matteus 28:19.

11. Hvernig fer prédikunarstarfið um Guðsríki fram nú á tímum og hvaða árangur ber það?

11 Fyrirmælunum um að gera menn að lærisveinum er núna hlýtt í meiri mæli en nokkru sinni fyrr. Vottar Jehóva kunngera fagnaðarerindið um Guðsríki um alla jörðina í samræmi við spádómsorð Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Mikið fræðslustarf fer núna fram og er það ein hliðin á þessari prédikun Guðsríkis. Þeir sem fylgja lögum og frumreglum Guðsríkis njóta núna þegar friðar og einingar sem stjórnir manna geta ekki náð fram. Allt þetta er greinilegur vitnisburður um það að Guðsríki er raunveruleiki.

12. (a) Hvers vegna er við hæfi að kalla boðendur Guðsríkis votta Jehóva? (b) Hver er munurinn á Guðsríki og stjórnum manna?

12 Jehóva sagði Ísraelsmönnum: „Þér eruð mínir vottar, . . . minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ (Jesaja 43:10-12) Jesús, „votturinn trúi,“ kunngerði af kostgæfni fagnaðarerindið um Guðsríki. (Opinberunarbókin 1:5; Matteus 4:17) Þess vegna er við hæfi að boðendur Guðsríkis nú á tímum beri nafnið sem Guð hefur úthlutað þeim, vottar Jehóva. En af hverju verja vottar Jehóva svona miklum tíma og erfiði í að tala við aðra um Guðsríki? Þeir gera það af því að Guðsríki er eina von mannkynsins. Stjórnir manna leysast upp fyrr eða síðar en Guðsríki mun aldrei gera það. Jesaja 9:6, 7 kallar stjórnanda þess, Jesú, ‚Friðarhöfðingja‘ og bætir síðan við: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ Guðsríki er ekki eins og stjórnir manna — einn daginn við völd en sviptar völdum þann næsta. Daníel 2:44 segir: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. . . . Sjálft mun það standa að eilífu.“

13. (a) Nefndu nokkur þeirra vandamála sem Guðsríki mun taka á með góðum árangri. (b) Af hverju getum við verið viss um að loforð Guðs rætist?

13 Hvaða mennskur konungur gæti látið útrýma styrjöldum, glæpum, sjúkdómum, hungri og húsnæðisleysi? Hvaða jarðneskur stjórnandi gæti þar að auki reist upp til lífs þá sem dánir eru? Guðsríki og konungur þess geta það og munu gera það. Guðsríki mun ekki reynast gallagripur eins og tæki sem ekki virkar og sífellt þarfnast viðgerða. Öllu heldur mun Guðsríki ná góðum árangri vegna þess að Jehóva lofar: „Mitt orð, það er útgengur af mínum munni . . . hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ (Jesaja 55:11) Fyrirætlun Guðs bregst ekki en hvenær átti stjórn Guðsríkis að taka við völdum?

STJÓRN GUÐSRÍKIS — HVENÆR?

14. Hvaða misskilnings gætti hjá lærisveinum Jesú um Guðsríki en hvað vissi Jesús um stjórnartíð sína?

14 „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Þessi spurning, sem lærisveinar Jesú báru fram, leiddi í ljós að enn sem komið var þekktu þeir ekki tilgang Guðsríkis né hvenær því var ætlað að taka við völdum. Jesús varaði þá við að vera með ágiskanir um það og sagði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ Jesús vissi að stjórn hans yfir jörðinni biði framtíðarinnar, löngu eftir upprisu hans og uppstigningu til himna. (Postulasagan 1:6-11; Lúkas 19:11, 12, 15) Ritningin hafði spáð því. Hvernig þá?

15. Hvernig varpar Sálmur 110:1 ljósi á tímasetningu stjórnartíðar Jesú?

15 Spádómleg skírskotun til Jesú sem „herra“ fólst í orðum Davíðs konungs þegar hann sagði: „Svo segir [Jehóva] við herra minn: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘“ (Sálmur 110:1; samanber Postulasöguna 2:34-36.) Þessi spádómur gefur til kynna að stjórn Jesú hæfist ekki strax eftir uppstigningu hans til himna heldur biði hann við hægri hönd Guðs. (Hebreabréfið 10:12, 13) Hversu lengi stæði sú bið? Hvenær hæfist stjórn hans? Biblían hjálpar okkur að finna svörin.

16. Hvað gerðist árið 607 f.o.t og hvernig tengdist það Guðsríki?

16 Eina borgin á allri jörðinni, sem Jehóva lagði nafn sitt við, var Jerúsalem. (1. Konungabók 11:36) Hún var líka höfuðborg þess jarðneska ríkis sem naut eitt sinn velþóknunar Guðs og var táknrænt fyrir himneskt ríki Guðs. Þess vegna hafði það mikla þýðingu þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.o.t. Með þessum atburði rofnaði í langan tíma bein stjórn Guðs yfir fólki sínu á jörðinni. Um sex öldum síðar gaf Jesús til kynna að þetta hlé á stjórn Guðs stæði enn þegar hann sagði: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ — Lúkas 21:24.

17. (a) Hverjir eru „tímar heiðingjanna“ og hve lengi áttu þeir að standa yfir? (b) Hvenær hófust „tímar heiðingjanna“ og hvenær lauk þeim?

17 Á meðan „tímar heiðingjanna“ væru að líða yrði veraldlegum stjórnum leyft að hindra starfsemi þeirrar stjórnar sem hefði velþóknun Guðs. Þetta tímabil hófst með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. og af orðum Daníels má sjá að það héldi áfram í „sjö tíðir.“ (Daníel 4:23-25) Hve langur tími er það? Biblían sýnir að þrjár og hálf „tíð“ jafngildi 1260 dögum. (Opinberunarbókin 12:6, 14, Biblían 1912) Tvöfalt það tímabil, eða sjö tíðir, yrðu 2520 dagar. En ekkert markvert gerðist við lok þess stutta tímabils. Ef við setjum „dag fyrir ár hvert“ í spádómi Daníels og teljum 2520 ár frá árinu 607 f.o.t. komum við hins vegar til ársins 1914 e.o.t. — 4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6.

18. Hvað gerði Jesús skömmu eftir að hann tók við ríkisvaldi og hvaða áhrif hafði það á jörðina?

18 Hóf Jesús að ríkja á himni á þeim tíma? Í næsta kafla verður rætt um hinar biblíulegu ástæður fyrir því að segja að svo hafi verið. Stjórn Jesú myndi samt ekki strax í upphafi einkennast af friði á jörðinni. Opinberunarbókin 12:7-12 sýnir að þegar eftir að Jesús tæki við ríkisvaldi myndi hann ryðja Satan og djöflaenglum hans burt af himni. Það myndi leiða hörmungar yfir jörðina en það er hughreystandi að lesa að djöfullinn hafi aðeins „nauman tíma“ eftir. Bráðlega getum við fagnað, ekki aðeins vegna þess að Guðsríki er við völd heldur líka vegna þess að það færir jörðinni og hlýðnum mönnum blessanir. (Sálmur 72:7, 8) Hvernig vitum við að það gerist bráðlega?

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Nafnið Síló merkir „hann hvers það er; hann sem það tilheyrir.“ Er tímar liðu varð augljóst að „Síló“ var Jesús Kristur, „ljónið af Júda ættkvísl.“ (Opinberunarbókin 5:5) Í sumum af arameiskum þýðingum („Targúm“) Gyðinga á Hebresku ritningunum er „Messías“ eða „konungurinn Messías“ einfaldlega sett í stað orðsins „Síló.“

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvað er Guðsríki og hvaðan stjórnar það?

Hver ríkir í Guðsríki og hverjir eru þegnar þess?

Hvernig hefur Jehóva fullvissað okkur um að ríki hans sé raunverulegt?

Hvenær hófust „tímar heiðingjanna“ og hvenær lauk þeim?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 94]

NOKKRIR MIKILVÆGIR ATBURÐIR SEM TENGJAST GUÐSRÍKI

• Jehóva kunngerir þann tilgang sinn að framkalla „sæði“ sem myndi mola höfuð höggormsins, Satans djöfulsins. — 1. Mósebók 3:15.

• Árið 1943 f.o.t. gefur Jehóva til kynna að þetta „sæði“ yrði maður og afkomandi Abrahams. — 1. Mósebók 12:1-3, 7; 22:18.

• Lagasáttmálinn, sem gefinn var Ísrael árið 1513 f.o.t, sýnir „skugga hins góða, sem er í vændum.“ — 2. Mósebók 24:6-8; Hebreabréfið 10:1.

• Hið jarðneska konungsríki Ísraels hefst árið 1117 f.o.t og heldur seinna áfram í ættlegg Davíðs. — 1. Samúelsbók 11:15; 2. Samúelsbók 7:8, 16.

• Jerúsalem er lögð í eyði árið 607 f.o.t og „tímar heiðingjanna“ hefjast. — 2. Konungabók 25:8-10, 25, 26; Lúkas 21:24.

• Árið 29 e.o.t er Jesús smurður sem útnefndur konungur og heldur áfram þjónustu sinni á jörð. — Matteus 3:16, 17; 4:17; 21:9-11.

• Árið 33 e.o.t. stígur Jesús upp til himna til að bíða þar við hægri hönd Guðs uns stjórn hans hefst. — Postulasagan 5:30, 31; Hebreabréfið 10:12, 13.

• Jesús er settur í hásæti í hinu himneska ríki árið 1914 e.o.t þegar „tímar heiðingjanna“ eru útrunnir. — Opinberunarbókin 11:15.

• Satan og djöflum hans er kastað niður til nágrennis jarðarinnar og leiða þeir auknar hörmungar yfir mannkynið. — Opinberunarbókin 12:9-12.

• Jesús hefur umsjón með prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki út um allan heim. — Matteus 24:14; 28:19, 20.