Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað verður um látna ástvini okkar?

Hvað verður um látna ástvini okkar?

9. kafli

Hvað verður um látna ástvini okkar?

1. Hvernig líður fólki þegar dauðinn hremmir ástvin?

 „DAUÐI ástvinar veldur þjáningu vegna þess að dáinn maður tapast inn í tómarúm sem enginn skilur.“ Þetta sagði sonur þegar faðir hans dó og móðir hans skömmu síðar. Honum var innanbrjósts eins og hann væri að „drukkna tilfinningalega“ vegna sársaukans og hins mikla missis sem hann fann fyrir. Þú hefur ef til vill þjáðst á svipaðan hátt. Þú kannt að hafa velt því fyrir þér hvar ástvinir þínir séu og hvort þú sjáir þá nokkurn tíma aftur.

2. Hvaða erfiðar spurningar koma upp í tengslum við dauðann?

2 Sagt hefur verið við suma syrgjandi foreldra: „Guð tínir fegurstu blómin til að hafa hjá sér á himni.“ Er það í rauninni þannig? Eru látnir ástvinir okkar farnir yfir á andlegt tilverusvið? Er það ástandið sem sumir kalla „nirvana“ og lýst er sem alsælu þar sem menn eru bæði lausir við þjáningar og þrár? Hafa ástvinir okkar gengið gegnum hlið inn til eilífs lífs í paradís? Eða er það eins og aðrir fullyrða, að við dauðann hrapi þeir sem hafa misboðið Guði niður í endalausa kvalavist? Geta látnir haft áhrif á líf okkar? Til að fá sönn svör við slíkum spurningum verðum við að leita til orðs Guðs, Biblíunnar.

HVAÐ ER „ANDINN“ Í MANNINUM?

3. Hvaða skoðanir höfðu Sókrates og Platón á dauðanum og hvaða áhrif hefur það á fólk nú á tímum?

3 Forn-grísku heimspekingarnir Sókrates og Platón héldu því fram að hið innra með manninum hlyti að búa eitthvað ódauðlegt og eðlislægt — sál sem lifir af dauðann og deyr í raun aldrei. Núna trúa þessu milljónir manna um víða veröld. Þessi trú hefur orðið til þess að óttinn við hina dánu er oft engu minni en áhyggjurnar af velferð þeirra. Biblían kennir okkur eitthvað allt annað um hina látnu.

4. (a) Hvað segir 1. Mósebók um sálina? (b) Hvað setti Guð í Adam til að hann yrði lifandi?

4 Þegar við hugleiðum ástand hinna dánu verðum við að muna að fyrsti forfaðir okkar, Adam, hafði ekki sál. Hann var sál. Með stórkostlegri sköpunarathöfn myndaði Guð manninn — sálina — af frumefnum jarðarinnar og blés síðan „lífsanda“ í hann. Fyrsta Mósebók 2:7 segir: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Andardrátturinn viðhélt lífi Adams. En þegar Guð setti lífsandann í Adam gerði hann meira en að blása lofti í lungu hans. Biblían talar um „lífsanda“ sem virkan kraft í jarðneskum lífverum. — 1. Mósebók 7:22.

5, 6. (a) Hvað er „lífsandinn“? (b) Hvað gerist þegar „andinn,“ sem nefndur er í Sálmi 146:4, hættir að halda líkamanum lifandi?

5 Hvað er þessi „lífsandi“? Það er hinn ómissandi lífsneisti sem Guð setti í líflausan líkama Adams. Þessum anda eða krafti var síðan haldið við með önduninni. En hver er sá „andi“ sem talað er um í Sálmi 146:4? Það vers segir um þá sem deyja: „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ Þegar biblíuritararnir notuðu orðið „andi“ á þennan hátt höfðu þeir ekki í huga sál sem leysist úr viðjum líkamans og heldur áfram að lifa eftir að hann deyr.

6 „Andinn,“ sem fer frá mönnum við dauðann, er lífskrafturinn sem átti upptök sín hjá skapara okkar. (Sálmur 36:10; Postulasagan 17:28) Þessi lífskraftur hefur ekkert af persónueinkennum verunnar sem hann heldur lifandi, ekkert frekar en rafmagn tekur á sig einkenni tækisins sem það knýr. Þegar einhver deyr hættir andinn (lífskrafturinn) að knýja líkamsfrumurnar, ekki ósvipað ljósi sem slokknar þegar rafmagnið er tekið af. Þegar lífskrafturinn hættir að halda mannslíkamanum gangandi deyr maðurinn — sálin. — Sálmur 104:29; Prédikarinn 12:1, 7.

„TIL MOLDAR SKALT ÞÚ AFTUR HVERFA!“

7. Hvað kæmi fyrir Adam ef hann óhlýðnaðist Guði?

7 Jehóva útskýrði greinilega hvað dauðinn þýddi fyrir syndarann Adam. Guð sagði: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Hvert hyrfi Adam aftur? Til jarðarinnar, til moldarinnar sem hann hafði verið skapaður úr. Við dauðann myndi Adam einfaldlega hætta að vera til!

8. Hvernig hafa menn sem sálir enga yfirburði fram yfir dýrin?

8 Hvað þetta snertir er dauði manna í engu frábrugðinn dauða dýra. Þau eru líka sálir og sami andinn eða lífskrafturinn heldur þeim lifandi. (1. Mósebók 1:24, NW) Í Prédikaranum 3:19, 20 segir hinn vitri maður Salómon: „Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga [í dauðanum] fram yfir skepnuna . . . Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ Yfirburðir mannsins fram yfir skepnuna eru þeir að hann var skapaður í mynd Guðs, endurspeglaði eiginleika Jehóva. (1. Mósebók 1:26, 27) Við dauðann hverfa samt bæði menn og skepnur aftur til moldarinnar.

9. Hvert er ástand hinna dánu og hvert fara þeir?

9 Salómon útskýrir enn fremur hvað dauðinn þýðir: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ Já, hinir dauðu hafa alls enga vitund. Í ljósi þess kemur Salómon með hvatningu: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:5, 10) Hvert fara hinir dánu? Til dánarheima (séol á hebresku), almennrar grafar mannkynsins. Látnir ástvinir okkar eru sér ekki meðvitandi um neitt. Þeir þjást ekki og þeir geta ekki haft áhrif á okkur á nokkurn hátt.

10. Af hverju getum við sagt að dauðinn þurfi ekki að vera endanlegur?

10 Verðum við öll og ástvinir okkar að láta okkur nægja að lifa einungis í fáein ár og vera eftir það ekki til um alla eilífð? Ekki samkvæmt Biblíunni. Við uppreisn Adams gerði Jehóva Guð þegar í stað ráðstafanir til að þurrka út hræðilegar afleiðingar erfðasyndarinnar. Dauðinn var ekki hluti af tilgangi Guðs með mannkynið. (Esekíel 33:11; 2. Pétursbréf 3:9) Dauðinn þarf því ekki að vera endanlegur, hvorki fyrir okkur né ástvini okkar.

„ER SOFNAÐUR“

11. Hvernig lýsti Jesús ástandi látins vinar síns, Lasarusar?

11 Það er tilgangur Jehóva að bjarga okkur og látnum ástvinum okkar frá Adamsdauðanum. Orð Guðs talar þess vegna um að hinir látnu sofi. Þegar til dæmis Jesús Kristur frétti að vinur hans, Lasarus, væri dáinn sagði hann við lærisveina sína: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ Af því að lærisveinarnir skildu ekki samstundis hvað þessi orð þýddu sagði Jesús blátt áfram: „Lasarus er dáinn.“ (Jóhannes 11:11, 14) Jesús fór síðan til þorpsins Betaníu þar sem systur Lasarusar, Marta og María, syrgðu bróður sinn. Þegar Jesús sagði við Mörtu: „Bróðir þinn mun upp rísa,“ tjáði hún trú sína á þá fyrirætlun Guðs að gera að engu áhrif dauðans á mannkynið. Hún sagði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ — Jóhannes 11:23, 24.

12. Hvaða von hafði Marta, sem misst hafði ástvin, um hina dauðu?

12 Í orðum Mörtu kemur ekkert fram um ódauðlega sál sem lifir áfram annars staðar eftir dauðann. Hún trúði ekki að Lasarus væri þegar farinn yfir á eitthvert andasvið þar sem tilvera hans héldi áfram. Marta treysti á hina dásamlegu von um upprisu frá dauðum. Skilningur hennar var ekki sá að ódauðleg sál hefði horfið úr líkama Lasarusar heldur að dáinn bróðir hennar væri hættur að vera til. Upprisa bróður hennar yrði leiðin til að bæta úr því.

13. Hvaða vald hefur Jesús fengið frá Guði og hvernig sýndi hann vald sitt?

13 Jesús Kristur er sá sem Jehóva Guð hefur veitt vald til að endurleysa mannkynið. (Hósea 13:14) Jesús svaraði því fullyrðingu Mörtu með þessum orðum: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:25) Jesús sýndi valdið sem Guð hafði gefið honum í þessu sambandi þegar hann fór til grafar Lasarusar, sem hafði verið dáinn í fjóra daga, og endurreisti hann til lífsins. (Jóhannes 11:38-44) Ímyndaðu þér gleði þeirra sem sáu Jesú Krist reisa Lasarus eða aðra upp frá dauðum. — Markús 5:35-42; Lúkas 7:12-16.

14. Hvers vegna er upprisan ósamrýmanleg hugmyndinni um ódauðlega sál?

14 Veltu þessu fyrir þér stundarkorn: Enginn þyrfti á upprisu að halda, eða að fá lífið á ný, ef ódauðleg sál lifði af líkamsdauðann. Einhverjum eins og Lasarusi væri í raun og veru enginn greiði gerður með því að reisa hann aftur upp til ófullkomins lífs á jörðinni ef hann hefði þegar hlotið dásamlega umbun á himni. Raunin er sú að Biblían notar hvergi orðalagið „ódauðleg sál.“ Í stað þess segir Ritningin að mannssálin, sem syndgar, deyi tvímælalaust. (Esekíel 18:4, 20) Biblían bendir því á upprisuna sem hið raunverulega úrræði gegn dauðanum.

„ALLIR ÞEIR, SEM Í GRÖFUNUM ERU“

15. (a) Hvað þýðir orðið „upprisa“? (b) Af hverju er það engum erfiðleikum háð fyrir Jehóva Guð að reisa upp sérhvern einstakling?

15 Orðið, sem lærisveinar Jesú notuðu yfir „upprisu,“ þýðir bókstaflega að vera „reistur upp“ eða „reistur á fætur.“ Þetta merkir að vera reistur upp frá líflausu ástandi dauðans — reistur á fætur upp úr almennri gröf mannkynsins. Jehóva Guð getur auðveldlega reist mann upp frá dauðum. Hvers vegna? Vegna þess að lífið er í upphafi komið frá Jehóva. Nú á tímum er hægt að taka upp á myndband hvernig fólk talar og lítur út og hlusta síðan og horfa á það efir að fólkið er dáið. Vissulega getur því almáttugur skapari okkar geymt hjá sér allt sem varðar sérhvern einstakling og reist sömu persónuna upp frá dauðum og gefið henni nýmyndaðan líkama.

16. (a) Hvaða loforð gaf Jesús um alla í gröfunum? (b) Hvað ákvarðar hvernig upprisu hver og einn fær?

16 Jesús Kristur sagði: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Allir þeir sem eru í minni Jehóva verða reistir upp og fá fræðslu um vegu hans. Þeir sem breyta í samræmi við þekkinguna á Guði munu reynast hafa risið upp til lífsins. Upprisan mun hins vegar reynast til sakfellandi dóms fyrir þá sem hafna kennslu Guðs og yfirráðum.

17. Hverjir verða reistir upp?

17 Eðlilega verða þeir reistir upp sem hafa gengið braut réttlætisins sem þjónar Jehóva. Upprisuvonin gaf meira að segja mörgum styrk til að horfast í augu við dauðann, sér í lagi frammi fyrir heiftarlegum ofsóknum. Þeir vissu að Guð gæti reist þá upp til lífs á ný. (Matteus 10:28) En milljónir manna hafa dáið án þess að sýna hvort þær myndu fara eftir réttlátum stöðlum Guðs. Þessir menn verða einnig reistir upp. Með fullu trausti á tilgang Jehóva sagði Páll postuli: „Þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:15.

18. (a) Hvaða sýn fékk Jóhannes postuli um upprisuna? (b) Hverju er eytt í ‚eldsdíkinu‘ og hvað táknar þetta ‚díki‘?

18 Jóhannes postuli fékk að sjá í hrífandi sýn upprisna menn standa frammi fyrir hásæti Guðs. Jóhannes skrifaði síðan: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“ (Opinberunarbókin 20:12-14) Sjáðu þetta fyrir þér. Allir dánir, sem eru í minni Guðs, eiga í vændum að vera leystir frá Helju (hades á grísku), séol, almennri gröf mannkynsins. (Sálmur 16:10; Postulasagan 2:31) Þeim gefst tækifæri til að sýna með verkum sínum hvort þeir vilji þjóna Guði. „Dauðanum og Helju“ verður kastað í það sem kallað er „eldsdíkið“ og táknar algera eyðingu á sama hátt og orðið „helvíti.“ * (Lúkas 12:5) Almenn gröf mannkynsins verður þá tæmd og hún hættir að vera til þegar upprisunni er að fullu lokið. Hversu hughreystandi er það ekki að læra frá Biblíunni að Guð kvelji ekki nokkurn mann! — Jeremía 7:30, 31.

REISTIR UPP TIL AÐ LIFA HVAR?

19. Hvers vegna verða sumir reistir upp til himna og hvers konar líkama gefur Guð þeim?

19 Takmarkaður hópur karla og kvenna verður reistur upp til lífs á himni. Sem konungar og prestar með Jesú Kristi mun þessi hópur eiga hlutdeild í að gera að engu sérhver áhrif dauðans sem mannkynið erfði frá fyrsta manninum, Adam. (Rómverjabréfið 5:12; Opinberunarbókin 5:9, 10) Hversu marga tekur Guð til himna til að ríkja með Kristi? Samkvæmt Biblíunni verða þeir aðeins 144.000. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1) Jehóva gefur öllum sem fá slíka upprisu andalíkama til þess að þeir geti lifað á himni. — 1. Korintubréf 15:35, 38, 42-45; 1. Pétursbréf 3:18.

20. Hvað fær hlýðið mannkyn að reyna og þar með talið upprisið fólk?

20 Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem dáið hafa verða reistir upp til lífs í paradís á jörð. (Sálmur 37:11, 29; Matteus 6:10) Ástæða þess að reisa suma upp til himna er að hluta sú að láta tilgang Guðs með jörðina ná algerlega fram að ganga. Jesús Kristur og þessar 144.000 á himni munu stig af stigi leiða hlýðið mannkyn aftur til þess fullkomleika sem fyrstu foreldrar okkar vörpuðu frá sér. Upprisið fólk er hér með talið eins og Jesús gaf til kynna þegar hann sagði við hinn deyjandi mann sem festur var upp á staur við hlið hans: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:42, 43, NW.

21. Hvað verður um dauðann samkvæmt orðum Jesaja spámanns og Jóhannesar postula?

21 Í paradís á jörðinni verður dauðinn, sem veldur svo miklu tilgangsleysi nú á dögum, afmáður. (Rómverjabréfið 8:19-21) Spámaðurinn Jesaja lýsti yfir að Jehóva Guð muni „afmá dauðann að eilífu.“ (Jesaja 25:8) Jóhannes postuli fékk að sjá í sýn þá tíma þegar hlýðnir menn fá að reyna frelsi frá kvöl og dauða. Já, „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:1-4.

22. Hvaða áhrif hefur þekkingin á upprisunni á þig?

22 Skýrar kenningar Biblíunnar leysa allan rugling um það sem gerist við dauðann. Ritningin segir hreint og beint að dauðinn sé „síðasti óvinurinn“ sem verður eytt. (1. Korintubréf 15:26) Hvílíkan styrk og hughreystingu getum við ekki sótt í þekkinguna á upprisuvoninni! Og hversu glöð getum við ekki verið yfir því að látnir ástvinir okkar, sem eru í minni Guðs, vakni af dauðasvefni til að fá að njóta allra þeirra dásemda sem Guð hefur fyrirbúið þeim sem elska hann! (Sálmur 145:16) Slíkum blessunum verður komið á fyrir tilstuðlan Guðsríkis. En hvenær átti stjórn þess að hefjast? Látum okkur sjá.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Á grísku Gehenna sem var sorphaugur Jerúsalemborgar á dögum Krists.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvað er andinn í mönnunum?

Hvernig myndir þú lýsa ástandi hinna dánu?

Hverjir verða reistir upp?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 85]

Eins og Jesús kallaði Lasarus úr gröfinni verða milljónir reistar upp frá dauðum.

[Mynd á blaðsíðu 86]

Gleði verður allsráðandi þegar ‚Guð uppsvelgir dauðann að eilífu.‘