Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er hinn sanni Guð?

Hver er hinn sanni Guð?

3. kafli

Hver er hinn sanni Guð?

1. Hvers vegna eru margir sammála upphafsorðum Biblíunnar?

 ÞEGAR þú lítur til himins á heiðskírri nóttu finnst þér þá stjörnumergðin ekki alveg undraverð? Hvernig er hægt að skýra tilvist hennar? Og hvað um lífverurnar á jörðinni — litskrúðug blóm, fugla með hrífandi söng sínum og kraftmikla hvali sem bylta sér á haffletinum, svo að aðeins fátt eitt sé nefnt? Þetta gæti ekki hafa orðið til af tilviljun. Það er engin furða að margir skuli vera sammála upphafsorðum Biblíunnar: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.

2. Hvað segir Biblían um Guð og hvað hvetur hún okkur til að gera?

2 Hugmyndir manna um Guð eru mjög misjafnar. Sumir álíta að Guð sé ópersónubundið afl. Milljónir tilbiðja dána forfeður sína í þeirri trú að Guð sé of fjarlægur til þess að hægt sé að nálgast hann. En Biblían opinberar að hinn sanni Guð sé raunveruleg persóna sem sýnir innilegan áhuga á okkur sem einstaklingum. Af þeirri ástæðu hvetur hún okkur til að ‚leita Guðs‘ og segir: „Eigi er hann langt frá neinum af oss.“ — Postulasagan 17:27.

3. Hvers vegna er ógerningur að gera mynd af Guði?

3 Hvernig lítur Guð út? Fáeinir þjóna hans hafa í sýn séð hversu dýrlegur hann er. Í þessum sýnum hefur hann birst sitjandi á hásæti og ægilegri birtu stafað frá honum. Þeir sem litu slíkar sýnir lýstu hins vegar aldrei sérstöku andliti. (Daníel 7:9, 10; Opinberunarbókin 4:2, 3) Það er vegna þess að „Guð er andi.“ Hann hefur ekki efnislegan líkama. (Jóhannes 4:24) Í raun er ógerningur að gera nákvæma, efnislega mynd af skapara okkar vegna þess að „enginn [maður] hefur nokkurn tíma séð Guð.“ (Jóhannes 1:18; 2. Mósebók 33:20) Biblían kennir okkur samt margt um Guð.

HINN SANNI GUÐ HEFUR NAFN

4. Nefndu nokkra merkingarþrungna titla sem Guði eru gefnir í Biblíunni.

4 Í Biblíunni er hinn sanni Guð auðkenndur með orðum eins og „Almáttugur Guð,“ ‚Hinn hæsti,‘ ‚skapari,‘ ‚kennari,‘ „Herra“ og ‚konungur eilífðar.‘ (1. Mósebók 17:1; Sálmur 50:14; Prédikarinn 12:1; Jesaja 30:20, NW; Postulasagan 4:24; 1. Tímóteusarbréf 1:17) Ef við hugleiðum slíka titla getur það hjálpað okkur að auka þekkingu okkar á Guði.

5. Hvert er nafn Guðs og hve oft kemur það fyrir í Hebresku ritningunum?

5 Guð hefur engu að síður einstætt nafn sem kemur fyrir næstum 7000 sinnum í Hebresku ritningunum einum — oftar en nokkur titla hans. Fyrir um það bil 1900 árum hættu Gyðingar, vegna hjátrúar, að segja nafn Guðs upphátt. Hebreskan í Biblíunni var skrifuð án sérhljóða. Sökum þess er engin leið að segja með nákvæmni til um það hvernig Móses, Davíð eða aðrir til forna báru fram nafn Guðs sem stafsett var með fjórum samhljóðum (יהוה). Sumir fræðimenn hafa sett fram þá tilgátu að nafn Guðs hafi verið borið fram „Jahve“ en þeir geta ekki verið vissir um það. Framburðurinn „Jehóva“ hefur verið þekktur í íslensku um aldir og samsvarandi framburður á mörgum tungumálum er almennt viðurkenndur nú á dögum.

HVERS VEGNA ÞÚ ÆTTIR AÐ NOTA NAFN GUÐS

6. Hvað segir Sálmur 83:19 um Jehóva og af hverju ættum við að nota nafn hans?

6 Hið sérstaka nafn Guðs, Jehóva, þjónar því hlutverki að greina hann frá öllum öðrum guðum. Af þeirri ástæðu birtist nafnið svona oft í Biblíunni, einkum hebreskum texta hennar. Margir þýðendur láta undir höfuð leggjast að nota nafn Guðs en Sálmur 83:19 segir greinilega: „Megi [þeir] komast að raun um, að þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ Þess vegna er viðeigandi fyrir okkur að nota einkanafn Guðs þegar við tölum um hann.

7. Hvað kennir merking nafnsins Jehóva okkur um Guð?

7 Nafnið Jehóva er mynd hebreskrar sagnar sem merkir „að verða.“ Nafn Guðs merkir því „hann lætur verða.“ Með því auðkennir Jehóva Guð sjálfan sig sem þann er hefur mikil áform. Hann lætur alltaf fyrirætlanir sínar eða tilgang verða að veruleika. Einungis hinn sanni Guð getur með réttu borið þetta nafn. Mennirnir geta aldrei verið vissir um að áform þeirra heppnist. (Jakobsbréfið 4:13, 14) Jehóva einn getur sagt: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín . . . fyrr en það hefir . . . komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.

8. Hvaða fyrirætlun tilkynnti Jehóva fyrir munn Móse?

8 Hebresku ættfeðurnir Abraham, Ísak og Jakob ‚ákölluðu nafn Jehóva‘ hver og einn en þeir þekktu ekki til fulls þýðingu nafns Guðs. (1. Mósebók 21:33; 26:25; 32:9; 2. Mósebók 6:3) Þegar Jehóva opinberaði síðar þann tilgang sinn að frelsa afkomendur þeirra, Ísraelsmenn, úr ánauð í Egyptalandi og gefa þeim land „sem flýtur í mjólk og hunangi“ kann það að hafa virst útilokað. (2. Mósebók 3:17) Engu að síður undirstrikaði Guð eilífa þýðingu nafns síns með því að segja við spámann sinn Móse: „Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ‚[Jehóva], Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.‘ Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.“ — 2. Mósebók 3:15.

9. Hvaða álit hafði Faraó á Jehóva?

9 Móse bað Faraó, konung Egyptalands, að leyfa Ísraelsmönnum að fara út í eyðimörkina til að tilbiðja Jehóva. En Faraó, sem sjálfur var álitinn guð og sem tilbað aðra egypska guði, svaraði: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki [Jehóva], og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara.“ — 2. Mósebók 5:1, 2.

10. Til hvaða aðgerða greip Jehóva í Forn-Egyptalandi til að láta áform sín, er snertu Ísraelsmenn, ná fram að ganga?

10 Jehóva greip þá til aðgerða, einnar af annarri, til að láta tilgang sinn ná fram að ganga og tók á málunum í samræmi við merkingu nafns síns. Hann leiddi tíu plágur yfir Forn-Egypta. Síðasta plágan drap alla frumburði Egyptalands, þar með talinn son hins hrokafulla Faraós. Þá vildu Egyptar ólmir að Ísraelsmenn færu. En svo hrifnir voru sumir Egyptar af mætti Jehóva að þeir fóru með Ísraelsmönnum út úr Egyptalandi. — 2. Mósebók 12:35-38.

11. Hvaða kraftaverk gerði Jehóva við Rauðahafið og hvað urðu óvinir hans að viðurkenna?

11 Hinn þrjóski Faraó og her hans lagði upp með hundruð stríðsvagna til að ná aftur þrælum sínum. Þegar Egyptar nálguðust, klauf Guð Rauðahafið með kraftaverki svo að Ísraelsmenn gátu gengið gegnum það á þurru. Þegar eftirreiðarmennirnir komu út á sjávarbotninn lét Jehóva „vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega.“ Stríðsmenn Egypta hrópuðu upp yfir sig: „Flýjum fyrir Ísrael, því að [Jehóva] berst með þeim móti Egyptum.“ En það var um seinan. Hinir miklu vatnsveggir steyptust niður og „huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós.“ (2. Mósebók 14:22-25, 28) Jehóva ávann sér þannig mikið nafn og þessi atburður hefur ekki fallið í gleymsku allt til þessa dags. — Jósúabók 2:9-11.

12, 13. (a) Hvaða þýðingu hefur nafn Guðs fyrir okkur nú á tímum? (b) Hvað er áríðandi að fólk læri núna og hvers vegna?

12 Nafnið, sem Guð hefur áunnið sér, hefur mikla þýðingu fyrir okkur nú á tímum. Nafn hans, Jehóva, veitir tryggingu fyrir því að hann muni láta allt sem hann hefur áformað verða að veruleika, þar með talinn þann upprunalega tilgang sinn að jörðin verði að paradís. (1. Mósebók 1:28; 2:8) Í því augnamiði mun Guð útrýma öllum sem eru andvígir drottinvaldi hans nú á dögum. Hann hefur sagt: „Ég vil auglýsa mig dýrlegan . . . í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 38:23) Þá mun Guð uppfylla fyrirheit sitt um að frelsa tilbiðjendur sína og leiða þá inn í nýjan réttlætisheim. — 2. Pétursbréf 3:13.

13 Allir sem óska eftir velþóknun Guðs verða að læra að ákalla nafn hans í trú. Biblían lofar: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ (Rómverjabréfið 10:13) Já, nafnið Jehóva er þrungið merkingu. Að ákalla Jehóva sem Guð þinn og frelsara getur leitt þig til óslitinnar hamingju.

EIGINLEIKAR HINS SANNA GUÐS

14. Hvaða grundvallareiginleika Guðs dregur Biblían skýrt fram?

14 Athugun á frelsun Ísraelsmanna út úr Egyptalandi dregur skýrt fram fjóra grundvallareiginleika sem Guð býr yfir í fullkomnu jafnvægi. Samskipti hans við Faraó opinberuðu hið ógurlega vald hans. (2. Mósebók 9:16) Hversu meistaralega Guð meðhöndlaði þessar flóknu aðstæður sýndi óviðjafnanlega visku hans. (Rómverjabréfið 11:33) Hann opinberaði réttlæti sitt þegar hann veitti hinum þrjósku andstæðingum og kúgurum þjóðar sinnar verðskuldaða refsingu. (5. Mósebók 32:4) Sá eiginleiki Guðs, sem hæst ber, er kærleikur. Jehóva sýndi framúrskarandi kærleika með því að uppfylla loforð sitt um niðja Abrahams. (5. Mósebók 7:8) Hann sýndi einnig kærleika þegar hann leyfði sumum Egyptum að hafna falsguðum og öðlast mikla blessun vegna þess að þeir tóku afstöðu með hinum eina sanna Guði.

15, 16. Á hvaða hátt hefur Guð sýnt kærleika?

15 Þegar þú lest Biblíuna tekur þú eftir því að kærleikur er fremsti eiginleiki Guðs og að hann sýnir hann á margan hátt. Til dæmis var það af kærleika sem hann varð skapari og byrjaði á því að láta andaverur njóta lífsgleðinnar með sér. Þessi hundruð milljóna engla elska Guð og lofa hann. (Jobsbók 38:4, 7; Daníel 7:10) Guð sýndi líka kærleika með því að skapa jörðina og gera hana að ánægjulegu heimili fyrir mannkynið. — 1. Mósebók 1:1, 26-28; Sálmur 115:16.

16 Við höfum hag af kærleika Guðs á svo margan hátt að það verður ekki allt talið upp. Nefna má að sökum þess hversu undursamlega Guð, í kærleika sínum, skapaði mannslíkamann er okkur gert mögulegt að hafa mikla ánægju af lífinu. (Sálmur 139:14) Kærleikur hans birtist í því að hann „hefur gefið [okkur] regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt [okkur] fæðu og fyllt hjörtu [okkar] gleði.“ (Postulasagan 14:17) Guð „lætur“ jafnvel „sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:45) Kærleikur fær líka skapara okkar til að hjálpa okkur að öðlast þekkinguna á Guði og þjóna honum sem hamingjusamir tilbiðjendur hans. Svo sannarlega „er [Guð] kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) En það eru margar fleiri hliðar á persónuleika hans.

„MISKUNNSAMUR OG LÍKNSAMUR GUГ

17. Hvað lærum við um Guð í 2. Mósebók 34:6, 7?

17 Eftir að Ísraelsmenn fóru gegnum Rauðahafið þurftu þeir að kynnast Guði enn betur. Móse fann fyrir þessari þörf og bað: „Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum.“ (2. Mósebók 33:13) Móse kynntist Guði betur eftir að hafa heyrt Guð sjálfan lýsa yfir: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Hjá Guði er jafnvægi milli kærleika og réttlætis; hann hlífir ekki þeim sem syndga af ásettu ráði við afleiðingum misgerða sinna.

18. Hvernig hefur Jehóva reynst miskunnsamur?

18 Eins og Móse komst að raun um sýnir Jehóva miskunn. Miskunnsamur maður sýnir vorkunnsemi þeim sem þjást og reynir að bæta úr ástandi þeirra. Þannig hefur Guð sýnt mannkyninu meðaumkun og gert ráðstafanir til að ráða varanlega bót á þjáningum, sjúkdómum og dauða. (Opinberunarbókin 21:3-5) Það getur hent tilbiðjendur Guðs að lenda í hörmungum vegna aðstæðna í þessum illa heimi, eða þá að þeir komast í vandræði vegna óviturlegrar hegðunar. En ef þeir leita auðmjúkir hjálpar hjá Jehóva mun hann hughreysta þá og hjálpa þeim. Af hverju? Af því að hann er miskunnsamur og tekur blíðlega tillit til tilbiðjenda sinna. — Sálmur 86:15; 1. Pétursbréf 5:6, 7.

19. Hvers vegna getum við sagt að Guð sé líknsamur?

19 Margir sem fara með völd koma harðneskjulega fram við aðra. Hins vegar er Jehóva mjög líknsamur við mennska þjóna sína. Þó að hann sé æðsti valdhafi alheimsins sýnir hann mannkyninu í heild framúrskarandi gæsku. (Sálmur 8:4, 5; Lúkas 6:35) Jehóva er einnig líknsamur einstaklingum, svarar þegar þeir sárbiðja um velþóknun. (2. Mósebók 22:26, 27; Lúkas 18:13, 14) Guð er að sjálfsögðu ekki skyldugur til að sýna nokkrum velþóknun eða miskunn. (2. Mósebók 33:19) Þess vegna þurfum við að sýna að við metum mikils miskunn Guðs og líknsemi. — Sálmur 145:1, 8.

SEINN TIL REIÐI, ÓVILHALLUR OG RÉTTLÁTUR

20. Hvað sýnir að Jehóva er bæði seinn til reiði og óvilhallur?

20 Jehóva er seinn til reiði. Það þýðir þó ekki að hann grípi aldrei í taumana því að það gerði hann þegar hann eyddi hinum þrjóska Faraó og her hans í Rauðahafinu. Jehóva er líka óvilhallur. Kjörþjóð hans, Ísrael, missti þess vegna að lokum velþóknun hans vegna linnulausrar rangsleitni sinnar. Guð viðurkennir sem tilbiðjendur sína menn af öllum þjóðum, en aðeins þá sem laga sig að réttlátum vegum hans. — Postulasagan 10:34, 35.

21. (a) Hvað kennir Opinberunarbókin 15:2-4 okkur um Guð? (b) Hvað auðveldar okkur að gera það sem Guð segir að sé rétt?

21 Opinberunarbókin í Biblíunni dregur skýrt fram mikilvægi þess að fræðast um ‚réttláta dóma‘ Guðs. Hún segir okkur að himneskar verur syngi: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ (Opinberunarbókin 15:2-4) Við sýnum Jehóva heilnæman ótta, eða lotningu, með því að laga okkur að því sem hann segir vera rétt. Það verður auðveldara ef við minnum okkur á visku Guðs og kærleika. Öll fyrirmæli hans eru okkur fyrir bestu. — Jesaja 48:17, 18.

‚JEHÓVA, GUÐ VOR, ER EINN‘

22. Hvers vegna tilbiðja þeir ekki þrenningu sem viðurkenna Biblíuna?

22 Forn-Egyptar tilbáðu marga guði en Jehóva er „vandlátur Guð“ og krefst algerrar hollustu. (2. Mósebók 20:5) Móse áminnti Ísraelsmenn: „[Jehóva], er vor Guð; hann einn er [Jehóva].“ (5. Mósebók 6:4) Jesús Kristur endurtók þessi orð. (Markús 12:28, 29) Þeir sem viðurkenna Biblíuna sem orð Guðs tilbiðja þess vegna ekki þrenningu sem í eru þrjár persónur eða guðir í einum. Staðreyndin er jafnvel sú að orðið „þrenning“ kemur hvergi fyrir í Biblíunni. Hinn sanni Guð er ein persóna, aðgreindur frá Jesú Kristi. (Jóhannes 14:28; 1. Korintubréf 15:28) Heilagur andi Guðs er ekki persóna. Hann er starfskraftur Jehóva sem hinn Alvaldi notar til að láta tilgang sinn ná fram að ganga. — 1. Mósebók 1:2; Postulasagan 2:1-4, 32, 33; 2. Pétursbréf 1:20, 21.

23. (a) Hvernig mun kærleikur þinn til Guðs vaxa? (b) Hvað sagði Jesús um kærleiksríkan Guð og hvað þurfum við að læra um Krist?

23 Þegar þú hugleiðir hve dásamlegur Jehóva er fellstu þá ekki á að hann verðskuldi tilbeiðslu þína? Þegar þú nemur orð hans, Biblíuna, muntu kynnast honum betur og læra hvers hann krefst af þér og það mun verða þér til heilla og hamingju að eilífu. (Matteus 5:3, 6) Þar að auki mun kærleikur þinn til Guðs vaxa. Það er vel við hæfi af því að Jesús sagði: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:30) Jesús bar greinilega slíkan kærleika til Guðs. En hvað opinberar Biblían um Jesú Krist? Hvert er hlutverk hans í fyrirætlunum Guðs?

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvert er nafn Guðs og hve oft er það notað í Hebresku ritningunum?

Af hverju ættir þú að nota nafn Guðs?

Hvaða eiginleikar Jehóva Guðs höfða einkum til þín?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Hve vel þekkir þú þann sem allt hefur skapað?