Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig þú getur nálægt þig Guði

Hvernig þú getur nálægt þig Guði

16. kafli

Hvernig þú getur nálægt þig Guði

1. Hvað er augljóslega svipað í mörgum trúarbrögðum?

 HELGISIÐIRNIR í búddhamusteri í einu Austurlandanna vöktu furðu konu sem kom þangað sem ferðamaður. Enda þótt líkneskin væru ekki af Maríu eða Kristi voru margir helgisiðanna líkir þeim sem viðhafðir voru í heimakirkju hennar. Til dæmis tók hún eftir því að notuð voru talnabönd og farið með bænaþulur. Hún er ekki ein um að hafa komið auga á hversu lík trúarbrögðin eru á margan hátt. Hvort sem er í austri eða vestri eru þær merkilega svipaðar aðferðirnar sem trúhneigðir menn nota til að reyna að nálægja sig Guði eða því sem tilbeiðsla þeirra beinist að.

2. Hvernig hefur bæninni verið lýst og hver er ástæðan fyrir því að margir biðja?

2 Margir reyna einkum að nálægja sig Guði með því að biðja til hans. Bæn hefur verið lýst sem „athöfn af hálfu mannsins til að komast í samband við hið heilaga — Guð, guðina, hið yfirskilvitlega tilverusvið eða ofurmannleg öfl.“ (The New Encyclopædia Britannica) Þegar sumir nálgast Guð í bæn er hugur þeirra hins vegar einungis bundinn við það hvaða hag þeir geti sjálfir haft af því. Til dæmis spurði maður nokkur einn af vottum Jehóva: „Ef þú biður fyrir mér leysast þá vandamálin sem ég á við að stríða í fjölskyldunni og í vinnunni, og verð ég heilsubetri?“ Maðurinn virðist hafa haldið það, en margir biðja og komast að raun um að vandamál þeirra láta samt ekki undan síga. Því mætti spyrja: ‚Af hverju ættum við að nálægja okkur Guði?‘

HVERS VEGNA VIÐ ÆTTUM AÐ NÁLÆGJA OKKUR GUÐI

3. Hvert ættum við að beina bænum okkar og hvers vegna?

3 Bæn er ekki innantómur helgisiður og ekki er hún heldur aðeins leið til að öðlast eitthvað. Veigamikil ástæða fyrir því að nálægja sig Guði er sú að eiga náið samband við hann. Bænum okkar skyldi því beint til Jehóva Guðs. „[Jehóva] er nálægur öllum sem ákalla hann,“ sagði sálmaritarinn Davíð. (Sálmur 145:18) Jehóva býður okkur að eignast friðsælt samband við sig. (Jesaja 1:18) Þeir sem taka boði hans samsinna sálmaritaranum sem sagði: „En mín gæði eru það að vera nálægt Guði.“ Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem nálægja sig Jehóva Guði munu njóta sannrar hamingju og hugarfriðar. — Sálmur 73:28.

4, 5. (a) Hvers vegna er mikilvægt að biðja til Guðs? (b) Hvers konar samband við Guð getum við öðlast með hjálp bænarinnar?

4 Hvers vegna að biðja til Guðs um hjálp ef hann ‚veit hvers við þörfnumst áður en við biðjum hann‘? (Matteus 6:8; Sálmur 139:4) Bænir sýna að við trúum á Guð og lítum svo á að „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ sé frá honum komin. (Jakobsbréfið 1:17; Hebreabréfið 11:6) Jehóva hefur ánægju af bænum okkar. (Orðskviðirnir 15:8) Það gleður hann að heyra okkur þakka honum og vegsama með innihaldsríkum orðum, alveg eins og faðir hefur ánægju af því að heyra barn sitt mæla fram einlæg þakkarorð. (Sálmur 119:108) Ef gott samband ríkir milli föður og barns birtist það meðal annars í hlýlegum samræðum þeirra. Barn, sem er elskað, langar til að tala við föður sinn. Sama gildir um samband okkar við Guð. Ef við kunnum í raun að meta það sem við lærum um Jehóva og kærleikann sem hann hefur sýnt okkur munum við þrá að tjá okkur við hann í bæn. — 1. Jóhannesarbréf 4:16-18.

5 Þegar við nálgumst hinn hæsta Guð ættum við að gera það með viðeigandi lotningu þótt engin ástæða sé til að gera sér um of áhyggjur af því hvaða orð við notum nákvæmlega. (Hebreabréfið 4:16) Við höfum alltaf aðgang að Jehóva. Hvílík sérréttindi eru það ekki að geta ‚úthellt hjarta sínu fyrir Guði‘ í bæn. (Sálmur 62:9) Ef við kunnum að meta Jehóva leiðir það til hlýlegs sambands við hann, eins og þess sem hinn trúfasti maður Abraham naut sem vinur Guðs. (Jakobsbréfið 2:23) En þegar við biðjum til hins æðsta drottinvalds alheimsins verðum við að fylgja þeim skilyrðum sem hann setur fyrir því að nálgast hann.

SKILYRÐI ÞESS AÐ NÁLÆGJA SIG GUÐI

6, 7. Hvers krefst Guð af okkur þegar við biðjum til hans þó að hann fari ekki fram á greiðslu fyrir að heyra bænir okkar?

6 Þarf fjármuni til þess að nálgast Guð? Margir fá klerka til að biðja fyrir sér gegn greiðslu. Sumir trúa því jafnvel að þeir fái bænheyrslu í réttu hlutfalli við fjárframlög sín. Orð Guðs segir hins vegar ekki að við þurfum að reiða af hendi fé til að nálgast Jehóva í bæn. Menn geta endurgjaldslaust notið andlegu fæðunnar frá honum og þeirrar blessunar sem bænasamband við hann færir. — Jesaja 55:1, 2.

7 Hver eru þá skilyrðin? Rétt viðhorf, sem nær til hjartans, er eitt af því sem nauðsynlegt er. (2. Kroníkubók 6:29, 30; Orðskviðirnir 15:11) Í hjarta okkar verðum við að trúa á Jehóva Guð sem þann „sem heyrir bænir“ og að hann „umbuni þeim, er hans leita.“ (Sálmur 65:3; Hebreabréfið 11:6) Við verðum líka að vera af hjarta lítillát. (2. Konungabók 22:19; Sálmur 51:19) Í einni af dæmisögum sínum benti Jesús Kristur á að auðmjúkur tollheimtumaður með hógvært hjarta reyndist réttlátari en oflætisfullur farísei. (Lúkas 18:10-14) Minnumst þess, þegar við nálgumst Guð í bæn, að „sérhver hrokafullur maður er [Jehóva] andstyggð.“ — Orðskviðirnir 16:5.

8. Hverju verðum við að hreinsa okkur af ef við viljum að Guð svari bænum okkar?

8 Ef við þráum að Guð svari bænum okkar verðum við að hreinsa okkur af syndugri hegðun. Þegar lærisveinninn Jakob hvatti aðra til að nálægja sig Guði bætti hann við: „Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ (Jakobsbréfið 4:8) Jafnvel illgerðamenn geta eignast friðsælt samband við Jehóva ef þeir iðrast og láta af fyrri breytni. (Orðskviðirnir 28:13) Við getum ekki fengið áheyrn hjá Jehóva ef við aðeins þykjumst hafa hreinsað okkur. „Augu [Jehóva] eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit [Jehóva] er gegn þeim, sem illt gjöra,“ segir orð Guðs. — 1. Pétursbréf 3:12.

9. Fyrir milligöngu hvers ættum við að nálgast Jehóva og hvers vegna?

9 Biblían segir: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Spyrja mætti hvernig við getum þá nálgast Jehóva Guð. Biblían svarar: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1) Þó að við séum syndarar getum við nálgast Guð með djörfung, óhrædd við að ávarpa hann fyrir milligöngu Jesú Krists sem dó sem lausnargjald fyrir okkur. (Matteus 20:28) Hann er eini tengiliðurinn sem við höfum til þess að nálgast Jehóva Guð. (Jóhannes 14:6) Við megum alls ekki taka verðgildi friðþægingarfórnar Jesú sem sjálfsögðum hlut og iðka synd af ásettu ráði. (Hebreabréfið 10:26) Ef við gerum okkar besta til að halda okkur frá því sem er illt en misstígum okkur samt endrum og eins, getum við iðrast og beðið Guð um að fyrirgefa okkur. Þegar við nálgumst hann með auðmjúku hjarta heyrir hann bæn okkar. — Lúkas 11:4.

TÆKIFÆRI TIL AÐ TALA VIÐ GUÐ

10. Hvernig getum við líkt eftir Jesú hvað bænina varðar og hvenær er viðeigandi að hafa einkabæn?

10 Jesús Kristur mat samband sitt við Jehóva mjög mikils. Þar af leiðandi tók Jesús sér tíma til að tala við Guð í einkabænum. (Markús 1:35; Lúkas 22:40-46) Það er rétt af okkur að líkja eftir fordæmi Jesú og biðja reglulega til Guðs. (Rómverjabréfið 12:12) Það er viðeigandi að hefja daginn með bænarorðum, og áður en við förum að sofa er rétt að þakka Jehóva fyrir það sem áorkað var þann dag. Meðan dagurinn er að líða skaltu gera þér far um að nálgast Guð „á hverri tíð.“ (Efesusbréfið 6:18) Við getum jafnvel beðið í hljóði í hjarta okkar, vitandi að Jehóva heyrir til okkar. Einkasamtal við Guð styrkir samband okkar við hann og daglegar bænir til Jehóva hjálpa okkur að nálgast hann æ meir.

11. (a) Hvers vegna ættu meðlimir fjölskyldunnar að biðja saman? (b) Hvað merkir það að segja „amen“ í lok bænar?

11 Jehóva hlustar einnig á bænir sem bornar eru fram í þágu hóps manna. (1. Konungabók 8:22-53) Hver fjölskylda getur nálægt sig Guði í bæn sem heimilisfaðirinn flytur fyrir hönd hinna. Það styrkir fjölskylduböndin og Jehóva verður börnunum raunverulegur þegar þau heyra foreldra sína biðja auðmjúklega til Guðs. Á samkomum votta Jehóva fer venjulega einhver með bæn fyrir hönd allra sem þar eru. Ef við erum á slíkri samkomu ættum við að hlusta af athygli til þess að geta í lok bænarinnar sagt af hjartans einlægni „amen“ sem þýðir „verði svo.“ — 1. Korintubréf 14:16.

BÆNIR SEM JEHÓVA HEYRIR

12. (a) Af hverju svarar Guð ekki sumum bænum? (b) Hvers vegna skyldum við ekki láta bænir okkar snúast eingöngu um persónulegar þarfir okkar?

12 Sumum kann að finnast að Guð svari ekki bænum þeirra jafnvel þótt þeir biðji til hans fyrir milligöngu Krists. Jóhannes postuli sagði hins vegar: „Ef vér biðjum um eitthvað eftir [Guðs] vilja, þá heyrir hann oss.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Við þurfum því að biðja samkvæmt Guðs vilja. Honum er umhugað um andlega velferð okkar og þess vegna er allt sem viðkemur andlegu lífi okkar viðeigandi bænarefni. Við verðum að sporna gegn þeirri tilhneigingu að fjalla einungis um líkamlegar þarfir. Þó að það sé til dæmis rétt að biðja um innsæi og styrk til að kljást við veikindi ættu áhyggjur af heilsunni ekki að bera andleg hugðarefni ofurliði. (Sálmur 41:2-4) Kristin kona, sem gerði sér ljóst að hún hefði of miklar áhyggjur af heilsunni, bað Jehóva um hjálp til að sjá veikindi sín í réttu ljósi. Afleiðingin varð sú að heilsuvandamál hennar urðu miklu minna mál fyrir hana og henni fannst að sér hefði verið gefið „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) Löngun hennar til að veita öðrum andlega aðstoð jókst til muna og hún hóf að boða Guðsríki í fullu starfi.

13. Nefndu nokkur málefni sem er við hæfi að fjalla um í bænum okkar, samkvæmt því sem fram kemur í Matteusi 6:9-13.

13 Hvað getum við tekið fram í bænum okkar til þess að Jehóva heyri þær með ánægju? Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum hvernig ætti að biðja. Í bæninni, sem hann gaf sem fyrirmynd og skráð er í Matteusi 6:9-13, tók hann nokkur dæmi um tilhlýðilegt bænarefni. Hvað ætti að vera efst á blaði í bænum okkar? Nafn Jehóva Guðs og ríki hans verður að hafa algeran forgang. Það er við hæfi að biðja um efnislegar nauðsynjar. Einnig er mikilvægt að biðja um fyrirgefningu synda og að láta ekki leiðast í freistni heldur vera frelsaður frá hinum vonda, Satan djöflinum. Jesús vildi ekki að við værum sífellt að þylja þessa bæn, færum með hana aftur og aftur án þess að hugsa um hvað hún þýddi. (Matteus 6:7) Hvað segði það um sambandið milli föður og barns ef barnið notaði sömu orðin í hvert sinn sem það talaði við föður sinn?

14. Hvað fleira en beiðni ætti að koma fram í bænum okkar?

14 Við ættum ekki einungis að bera fram óskir og innilega beiðni til Guðs í bænum okkar heldur líka vegsama hann og þakka honum. (Sálmur 34:2; 92:2; 1. Þessaloníkubréf 5:18) Við getum líka beðið fyrir öðrum. Bænir, sem varða andlega bræður okkar og systur sem eru þjáð eða ofsótt, sýna áhuga okkar á þeim og það gleður Jehóva að heyra okkur tjá slíkan samhug með þeim. (Lúkas 22:32; Jóhannes 17:20; 1. Þessaloníkubréf 5:25) Páll postuli skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

HALTU ÓTRAUÐUR ÁFRAM AÐ BIÐJA

15. Hvað ættum við að hafa í huga ef Guð virðist ekki ætla að svara bænum okkar?

15 Þó að þú sért að tileinka þér þekkingu á Guði finnst þér ef til vill að bænum þínum sé stundum ósvarað. Ástæðan gæti verið sú að tími Guðs er ekki kominn til að svara tiltekinni bæn. (Prédikarinn 3:1-9) Jehóva kann að leyfa einhverju ástandi að vara um hríð en hann svarar vissulega bænum og veit hvenær best er að gera það. — 2. Korintubréf 12:7-9.

16. Hvers vegna ættum við að halda ótrauð áfram að biðja og hvaða áhrif getur það haft á samband okkar við Guð?

16 Ef við höldum ótrauð áfram að biðja sýnir það að við höfum einlægan áhuga á því sem við erum að bera upp við Guð. (Lúkas 18:1-8) Til dæmis biðjum við Jehóva kannski um að hjálpa okkur að vinna bug á vissum veikleika, og við sýnum að við meinum það í einlægni með því að halda áfram að biðja um það og breyta í samræmi við bæn okkar. Við ættum að vera nákvæm og heiðarleg í bænum okkar. Það er sérstaklega mikilvægt að biðja ákaft þegar við verðum fyrir freistingu. (Matteus 6:13) Ef við höldum áfram að biðja og reynum jafnframt að hafa hemil á syndugum hvötum okkar munum við sjá hvernig Jehóva liðsinnir okkur. Það byggir upp trú okkar og styrkir samband okkar við hann. — 1. Korintubréf 10:13; Filippíbréfið 4:13.

17. Hvaða gagn höfum við af því að biðja til Guðs þegar við þjónum honum?

17 Ef við gerum okkur far um að leita ávallt til Jehóva í bæn þegar við veitum honum heilaga þjónustu mun okkur verða ljóst að við þjónum honum ekki í eigin mætti. Það er Jehóva sem kemur málunum í framkvæmd. (1. Korintubréf 4:7) Ef við viðurkennum það gerir það okkur auðmjúk og auðgar samband okkar við hann. (1. Pétursbréf 5:5, 6) Við höfum sannarlega gildar ástæður til að halda ótrauð áfram að biðja. Einlægar bænir og dýrmæt þekking á því hvernig nálgast megi kærleiksríkan, himneskan föður okkar mun veita okkur sanna hamingju í lífinu.

TJÁSKIPTI VIÐ JEHÓVA ERU EKKI EINHLIÐA

18. Hvernig getum við hlustað á Guð?

18 Ef þú vilt að Guð heyri bænir þínar verður þú að hlusta á það sem hann segir. (Sakaría 7:13) Hann sendir ekki lengur boðskap sinn með innblásnum spámönnum og svo sannarlega notar hann ekki neins konar andamiðla. (5. Mósebók 18:10-12) En við getum hlustað á Guð með því að nema orð hans, Biblíuna. (Rómverjabréfið 15:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við þurfum kannski að venja okkur á að langa í hollan mat, og um andlegu fæðuna gildir það sama. Við erum þess vegna hvött til að ‚sækjast eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk.‘ Glæddu með þér löngun í andlega fæðu með því að lesa orð Guðs daglega. — 1. Pétursbréf 2:2, 3; Postulasagan 17:11.

19. Hvaða gagn hefur þú af því að hugleiða vandlega það sem þú lest í Biblíunni?

19 Hugleiddu vandlega það sem þú lest í Biblíunni. (Sálmur 1:1-3; 77:12, 13) Það þýðir að íhuga efnið rækilega. Líkja má því við að melta fæðu. Þú getur melt andlega fæðu með því að tengja það sem þú ert að lesa við það sem þú þegar veist. Hugleiddu hvernig efnið hefur áhrif á líf þitt, eða veltu fyrir þér hvað það leiðir í ljós um eiginleika Jehóva og hvernig hann tekur á málum. Þannig getur þú með einkanámi innbyrt þá andlegu fæðu sem Jehóva veitir. Það mun draga þig nær Guði og hjálpa þér að takast á við vandamál hins daglega lífs.

20. Hvernig getur nærvera okkar á kristnum samkomum hjálpað okkur að nálægja okkur Guði?

20 Þú getur líka nálægt þig Guði með því að hlusta á umfjöllun um orð hans á kristnum samkomum, alveg eins og Ísraelsmenn hlustuðu með eftirtekt þegar þeir söfnuðust saman til að hlýða á upplestur lögmálsins. Fræðarar þess tíma lásu lögmálið upp skýrt og skilmerkilega og hjálpuðu þannig áheyrendum sínum að skilja hið upplesna orð og breyta eftir því. Því fylgdi mikil gleði. (Nehemíabók 8:8, 12) Vendu þig þess vegna á að sækja samkomur votta Jehóva. (Hebreabréfið 10:24, 25) Það eflir trúarskilning þinn og hjálpar þér síðan að beita þekkingunni á Guði í lífinu og þá mun hamingja þín aukast. Auk þess mun það að tilheyra hinu kristna bræðrafélagi, sem nær um allan heim, hjálpa þér að halda þér nálægt Jehóva. Og eins og við munum sjá getur þú fundið raunverulegt öryggi meðal fólks Guðs.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvers vegna ættir þú að nálægja þig Jehóva?

Nefndu nokkur skilyrði sem við þurfum að uppfylla til að geta nálægt okkur Guði.

Hvað getur þú fjallað um í bænum þínum?

Af hverju ættir þú að halda ótrauður áfram að biðja?

Hvernig getur þú hlustað á Jehóva nú á tímum?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls. 157]