Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna guðrækilegt líf færir hamingju

Hvers vegna guðrækilegt líf færir hamingju

13. kafli

Hvers vegna guðrækilegt líf færir hamingju

1. Hvers vegna getum við sagt að vegur Jehóva færi hamingju?

 JEHÓVA er ‚hinn sæli Guð‘ og hann vill að þú hafir ánægju af lífinu. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Þér er gagnlegt að ganga á vegi hans og það veitir þér friðsæld sem er djúp og varanleg eins og sístreymandi fljót. Ganga á vegi Guðs fær mann líka til að vinna án afláts réttlætisverk „sem bylgjur sjávarins“ er ekki verður tölu á komið. Það færir sanna hamingju. — Jesaja 48:17, 18.

2. Hvernig geta kristnir menn verið hamingjusamir þó að þeir sæti stundum illri meðferð?

2 ‚Menn þjást stundum fyrir að gera það sem rétt er,‘ andmæla ef til vill einhverjir. Rétt er það og slíkt kom líka fyrir postula Jesú. En þótt þeir væru ofsóttir voru þeir glaðir og héldu áfram að „boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:40-42) Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessu, meðal annars þann að þó að við lifum guðrækilega er það engin trygging fyrir því að alltaf sé komið vel fram við okkur. „Já,“ skrifaði Páll postuli, „allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Ástæðan fyrir því er sú að Satan og heimur hans eru andsnúnir þeim sem lifa guðrækilega. (Jóhannes 15:18, 19; 1. Pétursbréf 5:8) Sönn hamingja er ekki háð ytri aðstæðum. Hún stafar öllu heldur af sannfæringu um að maður sé að gera það sem rétt er og njóti þar af leiðandi velþóknunar Guðs. — Matteus 5:10-12; Jakobsbréfið 1:2, 3; 1. Pétursbréf 4:13, 14.

3. Hvaða áhrif ætti tilbeiðslan á Jehóva að hafa á mann?

3 Til eru menn sem finnst að þeir geti aflað sér hylli Guðs með tilbeiðsluathöfnum af og til en geti síðan gleymt honum þess á milli. Sönn tilbeiðsla á Jehóva Guði er ekki þannig. Hún hefur áhrif á hegðun manns allar vökustundir hans frá degi til dags, ár eftir ár. Þess vegna er hún líka nefnd ‚vegurinn.‘ (Postulasagan 19:9; Jesaja 30:21) Guðrækilegir lífshættir krefjast þess að við tölum og breytum í samræmi við orð Guðs.

4. Hvers vegna er gagnlegt að gera þær breytingar sem þarf til að lifa samkvæmt leiðbeiningum Guðs?

4 Þegar nýir nemendur Biblíunnar sjá að þeir þurfa að breyta ýmsu hjá sér til þess að þóknast Jehóva er þeim kannski spurn hvort guðrækilegt líf sé í raun þess virði að lifa því. Þú getur verið viss um að svo sé. Af hverju? Af því að „Guð er kærleikur“ og leiðbeiningum hans er þess vegna ætlað að koma okkur að gagni. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Guð er auk þess vitur og veit hvað okkur er fyrir bestu. Þar sem Jehóva Guð er alvaldur getur hann veitt okkur styrk til að leggja af slæman ávana sem við viljum losa okkur við af því að okkur langar til að gleðja hann. (Filippíbréfið 4:13) Við skulum athuga nokkrar frumreglur sem eru samtvinnaðar guðrækni og sjá hvernig það færir hamingju að fylgja þeim.

HEIÐARLEIKI HEFUR HAMINGJU Í FÖR MEÐ SÉR

5. Hvað segir Biblían um lygar og þjófnað?

5 Jehóva er hinn „trúfasti Guð.“ (Sálmur 31:6) Vafalaust þráir þú að fylgja fordæmi hans og vera þekktur sem trúverðugur maður. Heiðarleiki færir mönnum sjálfsvirðingu og vellíðunartilfinningu. En sökum þess að óheiðarleiki er svo almennur í þessum synduga heimi þarfnast kristnir menn þessarar áminningar: „Talið sannleika hver við sinn náunga . . . Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér . . . svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ (Efesusbréfið 4:25, 28) Kristnir launþegar skila heiðarlegu dagsverki. Án leyfis vinnuveitanda síns taka þeir ekki hluti sem hann á. Hvort sem það er á vinnustað, í skóla eða á heimilinu verður tilbiðjandi Jehóva að ‚breyta vel [„heiðarlega,“ NW] í öllum greinum.‘ (Hebreabréfið 13:18) Hver sá sem leggur í vana sinn að ljúga og stela getur ekki notið hylli Guðs. — 5. Mósebók 5:19; Opinberunarbókin 21:8.

6. Hvernig gæti heiðarleiki guðhrædds manns orðið Jehóva til dýrðar?

6 Margvísleg blessun fylgir því að vera heiðarlegur. Selina er fátæk ekkja í Afríku sem elskar Jehóva Guð og réttlátar frumreglur hans. Dag nokkurn fann hún poka með bankabók og miklum peningum. Með hjálp símaskrár gat hún haft upp á eigandanum — kaupmanni sem hafði verið rændur. Maðurinn trúði ekki sínum eigin augum þegar Selina heimsótti hann, þrátt fyrir að hún væri talsvert veik, og skilaði öllu innihaldi pokans. „Slíkan heiðarleika verður að launa,“ sagði hann og rétti henni fjárupphæð. Meira máli skipti þó að þessi maður fór lofsamlegum orðum um trúarbrögð Selinu. Já, heiðarleiki prýðir kenningu Biblíunnar, er Jehóva Guði til dýrðar og færir hinum heiðarlegu tilbiðjendum hans hamingju. — Títusarbréfið 2:10; 1. Pétursbréf 2:12.

ÖRLÆTI FÆRIR HAMINGJU

7. Hvað er rangt við þátttöku í fjárhættuspilum?

7 Það færir hamingju að vera örlátur en ásælnir munu hins vegar ekki „Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:10) Algeng mynd ásælninnar er fjárhættuspil sem er tilraun til að græða peninga á annarra kostnað. Jehóva hefur ekki velþóknun á þeim sem eru „gefnir fyrir ljótan [„óheiðarlegan,“ NW] gróða.“ (1. Tímóteusarbréf 3:8) Jafnvel þar sem fjárhættuspil er löglegt og menn taka þátt í því sér til skemmtunar geta þeir ánetjast því og stuðlað að iðkun sem leggur líf margra í rúst. Fjárhættuspil leiðir oft þrengingar yfir fjölskyldu fjárhættuspilarans sem hefur ef til vill litla fjármuni eftir til kaupa á lífsnauðsynjum. — 1. Tímóteusarbréf 6:10.

8. Hvernig var Jesús góð fyrirmynd í örlæti og hvernig getum við verið örlát?

8 Vegna kærleika síns og örlætis er kristnum mönnum það ánægja að aðstoða aðra, einkum þurfandi trúbræður sína. (Jakobsbréfið 2:15, 16) Áður en Jesús kom til jarðarinnar horfði hann á örlæti Guðs gagnvart mannkyninu. (Postulasagan 14:16, 17) Jesús notaði tíma sinn og hæfileika mönnum til gagns og gaf jafnvel líf sitt í þágu mannkynsins. Hann talaði því af eigin reynslu þegar hann sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Jesús fór einnig viðurkenningarorðum um fátæku ekkjuna sem af örlæti lagði tvo smápeninga í fjárhirslu musterisins. Hún gaf „alla björg sína.“ (Markús 12:41-44) Ísraelsmenn til forna og kristnir menn á fyrstu öldinni eru dæmi um fólk sem hafði ánægju af því að vera örlátt á efnislegan stuðning til safnaðarins og boðunar Guðsríkis. (1. Kroníkubók 29:9; 2. Korintubréf 9:11-14) Kristnir menn nú á tímum láta ekki aðeins fé af hendi rakna í þessum tilgangi heldur færa Guði lofgerðarfórnir með gleði og nota líf sitt í þjónustunni við hann. (Rómverjabréfið 12:1; Hebreabréfið 13:15) Jehóva blessar þá fyrir að nota tíma sinn, krafta og annað sem þeir hafa fram að færa, þar með talda fjármuni sína, til að styðja sanna tilbeiðslu og stuðla að prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki um allan heim. — Orðskviðirnir 3:9, 10.

ANNAÐ SEM STUÐLAR AÐ HAMINGJU

9. Hvað er rangt við ofneyslu áfengra drykkja?

9 Til þess að vera hamingjusamir verða kristnir menn líka að „varðveita mannvit sitt [„dómgreind sína,“ NW].“ (Orðskviðirnir 5:1, 2) Það krefst þess að þeir lesi og hugleiði vandlega orð Guðs og heilnæm biblíurit. En sumt þarf að forðast. Óhófleg neysla áfengra drykkja getur til dæmis sljóvgað dómgreind manna. Í slíku ásigkomulagi leiðast margir út í siðlausa hegðun, verða ofbeldisfullir og valda banaslysum. Ekki er því að undra að Biblían skuli segja að drykkjumenn muni ekki Guðsríki erfa. (1. Korintubréf 6:10) Sannkristnir menn eru staðráðnir í að vera „hóglátir“ eða „sýna heilbrigða skynsemi“ (NW) og forðast þess vegna drykkjuskap. Það stuðlar að hamingju þeirra á meðal. — Títusarbréfið 2:2-6.

10. (a) Hvers vegna nota kristnir menn ekki tóbak? (b) Hvaða hagur er í því að losa sig við fíkniávana?

10 Hreinn líkami stuðlar að hamingju. Samt ánetjast margir skaðlegum efnum. Tökum tóbaksnotkun sem dæmi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skýrir svo frá að reykingar „verði þremur milljónum manna að bana ár hvert.“ Það getur verið erfitt að hætta að reykja vegna tímabundinna fráhvarfseinkenna. Hins vegar komast margir sem hafa hætt að reykja að því að heilsa þeirra hefur batnað og meira fé er aflögu til heimilisþarfa. Já, sigrist menn á tóbaksávananum eða fíkn í önnur skaðleg efni stuðlar það að hreinum líkama, hreinni samvisku og sannri hamingju. — 2. Korintubréf 7:1.

HAMINGJA Í HJÓNABANDI

11. Hvað þarf til að hjónabandið sé löglegt, varanlegt og heiðvirt?

11 Þau sem búa saman sem eiginmaður og eiginkona ættu að gæta þess að hjónaband þeirra sé löglega skráð hjá borgaralegum yfirvöldum. (Markús 12:17) Þau þurfa einnig að líta á hjúskap sem alvarlega ábyrgð. Sambúðarslit geta að vísu reynst nauðsynleg ef um er að ræða vísvitandi vanrækslu á framfærsluskyldu, verulegar líkamsmeiðingar eða algera ógnun við andlega velferð. (1. Tímóteusarbréf 5:8; Galatabréfið 5:19-21) En orð Páls postula í 1. Korintubréfi 7:10-17 hvetja hjón til að halda áfram að búa saman. Til að hamingja þeirra sé sönn verða þau að sjálfsögðu að vera hvort öðru trú. Páll skrifaði: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) „Hjónasængin“ vísar til kynmaka milli manns og konu sem eru löglega gift hvort öðru. Ekkert annað kynferðislegt samband, svo sem hjúskapur við fleiri en eina konu, er hægt að segja að sé „í heiðri hafður“ eða „heiðarlegur“ (Bi. 1859) í öllum greinum. Þar að auki fordæmir Biblían kynmök fyrir hjónaband og kynvillu. — Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:18.

12. Nefndu nokkrar slæmar afleiðingar kynmaka utan hjónabands.

12 Menn geta haft líkamlega nautn fáein andartök af kynmökum utan hjónabands en þau leiða ekki til sannrar hamingju. Þau eru Guði vanþóknanleg og geta skilið eftir ör á samvisku manna. (1. Þessaloníkubréf 4:3-5) Kynferðislegt siðleysi getur haft sorglegar afleiðingar eins og alnæmi og aðra samræðissjúkdóma. „Áætlað hefur verið að meira en 250 milljónir manna um heim allan smitist árlega af lekanda og um 50 milljónir af sárasótt,“ segir í læknisfræðilegri skýrslu. Þar við bætist vandinn sem fylgir óvelkomnum þungunum. Alþjóðleg samtök, sem beita sér fyrir fyrirhyggju í barneignum, greina svo frá að í heiminum verði árlega meira en 15 milljónir stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára þungaðar og þriðjungur þeirra fari í fóstureyðingu. Athugun sýndi að í einu Afríkulandi valda fylgikvillar fóstureyðinga meira en 72 af hundraði allra dauðsfalla meðal unglingsstúlkna. Sumir sem drýgja hór sleppa kannski við sjúkdóma og þungun en ekki við tilfinningaskaða. Margir glata sjálfsvirðingunni og fá jafnvel óbeit á sjálfum sér.

13. Hvaða fleiri erfiðleikum valda hjúskaparbrot og hvað bíður þeirra sem halda áfram að vera frillulífismenn og hórkarlar?

13 Þó að fyrirgefa megi hjúskaparbrot er það gild biblíuleg ástæða fyrir þolandann að skilja við maka sinn. (Matteus 5:32; samanber Hósea 3:1-5.) Þegar slíkt siðleysi veldur hjúskaparslitum getur það skilið eftir sig djúpt tilfinningasár hjá saklausa makanum og börnunum. Mönnum til gagns bendir orð Guðs á að óhagstæður dómur hans muni koma yfir iðrunarlausa frillulífismenn og hórkarla. Auk þess sýnir Biblían greinilega að þeir sem ástunda kynferðislegt siðleysi „munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19, 21.

„ERU EKKI AF HEIMINUM“

14. (a) Nefndu nokkrar myndir skurðgoðadýrkunar sem guðrækinn maður forðast. (b) Hvaða leiðbeiningar eru gefnar í Jóhannesi 17:14 og Jesaja 2:4?

14 Þeir sem þrá að þóknast Jehóva og njóta blessunar Guðsríkis forðast skurðgoðadýrkun í sérhverri mynd. Biblían sýnir að það er rangt að búa sér til og tilbiðja líkneski, þar með talin líkneski af Kristi eða Maríu, móður Jesú. (2. Mósebók 20:4, 5; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Sannkristnir menn sýna þess vegna ekki helgimyndum, krossum og líkneskjum lotningu. Þeir forðast líka lúmskari myndir skurðgoðadýrkunar, eins og fánahyllingar og söngva sem lofsama þjóðir. Þegar þrýst er á þá til að gera slíkt minnast þeir orða Jesú við Satan: „[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Matteus 4:8-10) Jesús sagði að fylgjendur hans væru „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14) Það merkir að vera hlutlaus í stjórnmálum og lifa friðsamlega í samræmi við Jesaja 2:4 sem segir: „Hann [Jehóva Guð] mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“

15. Hvað er Babýlon hin mikla og hvað gera margir nýir biblíunemendur til að fara út úr henni?

15 Það að vera „ekki af heiminum“ merkir líka að slíta öll tengsl við ‚Babýlon hina miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða. Óhrein tilbeiðsla breiddist út frá Babýlon til forna uns hún réð lögum og lofum í andlegu lífi fólks um alla jörð. „Babýlon hin mikla“ nær yfir öll trúarbrögð sem kenna og iðka það sem ekki samræmist þekkingunni á Guði. (Opinberunarbókin 17:1, 5, 15) Enginn trúfastur tilbiðjandi Jehóva vill eiga hlut í samtrúarlegum athöfnum með því að taka þátt í tilbeiðslu með öðrum trúarbrögðum eða eiga andlegt samneyti við nokkurn hluta Babýlonar hinnar miklu. (4. Mósebók 25:1-9; 2. Korintubréf 6:14) Þar af leiðandi senda margir nýir biblíunemendur því trúfélagi, sem þeir tilheyra, úrsagnarbréf. Það færir þá síðan nær hinum sanna Guði, eins og lofað var: „[Jehóva segir]: ‚Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.‘“ (2. Korintubréf 6:17; Opinberunarbókin 18:4, 5) Langar þig ekki ákaft til þess að okkar himneski faðir taki þig þannig að sér?

ÁRLEGAR HÁTÍÐIR OG VENJUR VEGNAR OG METNAR

16. Hvers vegna halda sannkristnir menn ekki jól?

16 Guðrækilegt líf leysir okkur undan þeirri byrði sem það oft er að halda veraldlega helgidaga hátíðlega. Til dæmis kemur ekki fram í Biblíunni nákvæmlega á hvaða degi Jesús fæddist. ‚Ég hélt að Jesús væri fæddur 25. desember,‘ segir ef til vill einhver. Það getur ekki verið af því að hann dó um vorið árið 33 og var þá 33 1/2 árs gamall. Þegar hann fæddist voru fjárhirðar „úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.“ (Lúkas 2:8) Í Ísrael er kalt og votviðrasamt síðari hluta desembermánaðar og fé er þá haft í skýli að næturlagi til að verja það fyrir vetrarveðrinu. Rómverjar héldu 25. desember hátíðlegan sem fæðingardag sólguðs síns. Öldum eftir að Jesús var á jörðinni tóku fráfallskristnir menn upp þessa dagsetningu til að halda fæðingu Krists hátíðlega. Sannkristnir menn halda ekki jól eða nokkra aðra hátíð sem grundvallast á falstrúarhugmyndum. Sökum þess að þeir tilbiðja Jehóva einan taka þeir ekki heldur þátt í veraldlegum hátíðum sem hefja synduga menn eða þjóðir upp til skýjanna.

17. Hvers vegna heldur guðrækið fólk ekki upp á afmæli og hvers vegna eru kristin börn ánægð engu að síður?

17 Biblían nefnir sérstaklega afmæli aðeins tveggja manna og hvorugur þeirra þjónaði Guði. (1. Mósebók 40:20-22; Matteus 14:6-11) Þar sem Ritningin gefur ekki upp fæðingardag hins fullkomna manns Jesú Krists, hvers vegna ættum við þá að gefa fæðingardögum ófullkominna manna sérstakan gaum? (Prédikarinn 7:1) Guðræknir foreldrar bíða að sjálfsögðu ekki eftir sérstökum degi til að sýna börnum sínum kærleika. Þrettán ára kristin stúlka sagði: „Við fjölskyldan gerum margt skemmtilegt. . . . Það er mjög náið samband milli mín og foreldra minna. Þegar aðrir krakkar spyrja hvers vegna ég held ekki hátíðisdaga segi ég þeim að hjá mér sé hver dagur hátíð.“ Sautján ára kristinn unglingur sagði: „Heima hjá mér gefum við gjafir allan ársins hring.“ Gjafir, sem menn gefa af eigin hvötum, gleðja meira en skyldugjafir.

18. Hvaða hátíð bauð Jesús fylgjendum sínum að halda árlega og á hvað minnir hún okkur?

18 Fyrir þá sem leggja sig fram um að lifa guðrækilegu lífi er aðeins einn dagur á ári sem sérstaklega skal halda hátíðlegan. Það er kvöldmáltíð Drottins, oft nefnd minningarhátíðin um dauða Krists. Um hana gaf Jesús fylgjendum sínum þessi fyrirmæli: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19, 20; 1. Korintubréf 11:23-25) Þegar Jesús stofnsetti þessa máltíð að kvöldi 14. dags nísanmánaðar árið 33 notaði hann ósýrt brauð og rautt vín sem táknmyndir um syndlausan líkama sinn og fullkomið blóð sitt. (Matteus 26:26-29) Kristnir menn, sem smurðir eru með heilögum anda Guðs, neyta af brauðinu og víninu. Þeir hafa fengið aðild að nýja sáttmálanum og sáttmálanum um ríkið og þeir hafa himneska von. (Lúkas 12:32; 22:20, 28-30; Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 14:1-5) Allir sem viðstaddir eru þetta kvöld, er ber upp á 14. dag nísanmánaðar hins forna tímatals Gyðinga, hafa engu að síður gagn af veru sinni þar. Þeir eru minntir á þann kærleika sem Jehóva Guð og Jesús Kristur sýndu með lausnarfórninni er friðþægir fyrir syndir og gerir þeim sem njóta velþóknunar Guðs mögulegt að öðlast eilíft líf. — Matteus 20:28; Jóhannes 3:16.

ATVINNA OG SKEMMTUN

19. Hvaða vandi mætir kristnum mönnum þegar þeir eru að vinna fyrir sér og sínum?

19 Á sannkristnum mönnum hvílir sú skyldukvöð að vera ólatir við vinnu og að afla lífsnauðsynja. Það veitir þeim sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá ánægjutilfinningu að uppfylla þessa skyldu. (1. Þessaloníkubréf 4:11, 12) Ef atvinna kristins manns bryti í bága við Biblíuna gæti hann að sjálfsögðu ekki verið ánægður. Þó er stundum erfitt fyrir kristinn mann að finna starf sem samræmist stöðlum Biblíunnar. Til dæmis er farið fram á það við suma starfsmenn að þeir blekki viðskiptavinina. Á hinn bóginn munu margir atvinnurekendur hliðra til málum svo að þau gangi ekki gegn samvisku heiðarlegs launþega þar sem þeir vilja ekki missa áreiðanlegan starfsmann úr vinnu. Hvernig sem málin skipast getur þú verið viss um að Guð blessi viðleitni þína til að finna starf sem þú getur gegnt með hreinni samvisku. — 2. Korintubréf 4:2.

20. Hvers vegna ættum við að vanda valið á skemmtiefni okkar?

20 Þar sem Guð vill að þjónar hans séu ánægðir þurfum við að fá endurnærandi afþreyingu og hvíld milli þess sem við vinnum hörðum höndum. (Markús 6:31; Prédikarinn 3:12, 13) Heimur Satans ýtir undir óguðlega skemmtun. En til þess að þóknast Guði verðum við að velja vandlega þær bækur sem við lesum, útvarpsdagskrá og tónlist sem við hlustum á, þá hljómleika, kvikmyndir og leikrit sem við förum á og þá sjónvarpsþætti og myndbönd sem við horfum á. Ef við höfum fram að þessu valið okkur skemmtun sem gengur í berhögg við varnaðarorðin í ritningarstöðum eins og 5. Mósebók 18:10-12, Sálmi 11:5 og Efesusbréfinu 5:3-5, munum við gleðja Jehóva og verða sjálf ánægðari ef við lagfærum þau mál.

VIRÐING FYRIR LÍFI OG BLÓÐI

21. Hvaða áhrif ætti virðing fyrir lífinu að hafa á viðhorf okkar til fóstureyðingar, svo og á venjur okkar og hegðun?

21 Til að njóta sannrar hamingju þurfum við að líta á mannslífið sem heilagt, alveg eins og Jehóva gerir. Orð hans fyrirbýður okkur að fremja morð. (Matteus 19:16-18) Lögmálið, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, sýnir að hann lítur meira að segja á ófætt barn sem dýrmætt líf — ekki eitthvað sem má eyða. (2. Mósebók 21:22, 23) Við megum ekki heldur láta eins og lífið sé lítils virði með því að nota tóbak, misbjóða líkama okkar með fíkniefnum eða áfengi eða taka óþarfa áhættu. Við skyldum hvorki taka þátt í lífshættulegum athöfnum né hunsa varúðarráðstafanir sökum þess að það gæti bakað okkur blóðsekt. — 5. Mósebók 22:8.

22. (a) Hvert er viðhorf guðrækins manns til blóðs og notkunar þess? (b) Blóð hvers er eina blóðið sem sannarlega bjargar mannslífum?

22 Jehóva sagði Nóa og fjölskyldu hans að blóðið táknaði sálina eða lífið. Guð bannaði þeim þess vegna stranglega að neyta nokkurs blóðs. (1. Mósebók 9:3, 4) Vegna þess að við erum niðjar þeirra eru þessi lög bindandi fyrir okkur öll. Jehóva sagði Ísraelsmönnum að hella skyldi blóðinu á jörðina og maðurinn mætti ekki nota það í sína þágu. (5. Mósebók 12:15, 16) Lög Guðs um blóðið voru ítrekuð þegar kristnir menn á fyrstu öld fengu fyrirmælin: „Haldið yður frá . . . blóði.“ (Postulasagan 15:28, 29) Vegna virðingar fyrir heilagleika lífsins þiggur guðrækið fólk ekki blóðgjöf, jafnvel þótt aðrir haldi því eindregið fram að slík aðgerð muni bjarga lífi þess. Margar aðrar læknisaðgerðir, sem völ er á í staðinn og vottar Jehóva geta fallist á, hafa reynst mjög áhrifaríkar og gera sjúklinginn ekki berskjaldaðan fyrir áhættunni sem fylgir blóðgjöfum. Kristnir menn vita að einungis úthellt blóð Jesú bjargar með sanni mannslífum. Trú á það veitir fyrirgefningu og von um eilíft líf. — Efesusbréfið 1:7.

23. Hvaða umbun fylgir guðrækilegu lífi?

23 Greinilega krefst það fyrirhafnar að lifa guðrækilegu lífi. Það getur orðið til þess að fjölskyldan eða kunningjarnir hæðist að manni. (Matteus 10:32-39; 1. Pétursbréf 4:4) En umbunin, sem fylgir slíku líferni, gerir miklu meira en að vega upp á móti hvaða prófraunum sem er. Því fylgir hrein samviska og heilnæmur félagsskapur þeirra sem einnig tilbiðja Jehóva. (Matteus 19:27, 29) Ímyndaðu þér þar að auki að lifa að eilífu í réttlátum, nýjum heimi Guðs. (Jesaja 65:17, 18) Og hversu gleðilegt er ekki að fara eftir ráðum Biblíunnar og gleðja með því hjarta Jehóva! (Orðskviðirnir 27:11) Það er því engin furða að guðrækilegt líf færi mönnum hamingju. — Sálmur 128:1, 2.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Nefndu nokkrar ástæður þess að guðrækilegt líf færir mönnum hamingju.

Hvaða breytingar kallar guðrækilegt líferni ef til vill á?

Hvers vegna viltu lifa guðrækilegu lífi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 125, 126]

Störf að andlegum málum og afþreying í góðu hófi inn á milli stuðlar að hamingju þeirra sem lifa guðrækilegu lífi.