Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna hrörnum við og deyjum?

Hvers vegna hrörnum við og deyjum?

6. kafli

Hvers vegna hrörnum við og deyjum?

1. Hvað hafa vísindamenn ekki getað útskýrt varðandi mannslífið?

 VÍSINDAMENN vita ekki hvers vegna menn hrörna og deyja. Svo virðist sem frumur okkar ættu að halda áfram að endurnýjast og að við ættum að lifa að eilífu. Bókin Hyojun Soshikigaku (Almenn vefjafræði) segir: „Það er mikil ráðgáta hvernig öldrun fruma tengist ellihrörnun og dauða einstaklingsins.“ Margir vísindamenn álíta að ævilengdinni séu sett „náttúrleg, meðfædd“ takmörk. Heldur þú að það sé rétt hjá þeim?

2. Hvað hafa sumir gert vegna þess hve lífið er hverfult?

2 Menn hafa alltaf þráð langlífi og hafa jafnvel reynt að öðlast ódauðleika. Á fjórðu öld f.o.t. vaknaði áhugi kínverskra aðalsmanna á lyfjum sem talin voru geta náð fram ódauðleika. Þegar nokkrir kínverskir keisarar, sem seinna voru uppi, tóku inn svokallaðan lífselixír — gerðan úr kvikasilfri — létu þeir lífið. Út um alla jörð trúir fólk því að dauðinn sé ekki endirinn á tilveru þess. Búddhatrúarmenn, hindúar, múslímar og fleiri ala með sér von um líf eftir dauðann. Í kristna heiminum sjá margir fyrir sér framhaldslíf í himnasælu.

3. (a) Hvers vegna þrá menn eilíft líf? (b) Hvaða spurningum um dauðann þarf að svara?

3 Hugmyndir um hamingju eftir dauðann bera glöggt vitni um þrá eftir eilífu lífi. „Jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra,“ segir Biblían um hvernig Guð hefur áskapað okkur vitund um eilífðina. (Prédikarinn 3:11) Hann skapaði fyrstu mannverurnar með þær framtíðarhorfur að lifa að eilífu á jörðinni. (1. Mósebók 2:16, 17) Hvers vegna deyja mennirnir þá? Hvernig kom dauðinn inn í heiminn? Þekkingin, sem Guð veitir, varpar ljósi á þessar spurningar. — Sálmur 119:105.

ÍSKYGGILEG LAUNRÁÐ

4. Hvernig benti Jesús á lögbrjótinn sem ber ábyrgð á því að menn deyja?

4 Glæpamaður reynir að hylja slóð sína. Svo hefur einnig reynst vera um þann sem ábyrgur er fyrir glæp sem valdið hefur dauða milljarða manna. Með kænskubrögðum hefur hann hjúpað dauða mannsins leyndarhulu. Jesús Kristur benti á þennan lögbrjót þegar hann sagði við þá sem leituðust við að lífláta hann: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum [„og var ekki staðfastur í sannleikanum,“ Biblían 1859], því í honum finnst enginn sannleikur.“ — Jóhannes 8:31, 40, 44.

5. (a) Hvert var upphaf þess sem síðar varð Satan djöfullinn? (b) Hvað þýða orðin „Satan“ og „djöfull“?

5 Já, djöfullinn er illgjarn „manndrápari.“ Biblían leiðir í ljós að hann er raunveruleg vera, ekki einungis hið illa í hjarta mannsins. (Matteus 4:1-11) Þó að hann væri skapaður sem réttlátur engill „var [hann] ekki staðfastur í sannleikanum.“ Það er sannarlega við hæfi að kalla hann Satan, djöfulinn. (Opinberunarbókin 12:9) Hann er kallaður Satan, eða „andstæðingur,“ vegna þess að hann veitir Jehóva andstöðu. Þessi glæpavera er einnig kölluð „djöfull“ sem þýðir „rógberi“ vegna þess að hún hefur farið með guðlastandi rangfærslur um Guð.

6. Hvers vegna reis Satan upp gegn Guði?

6 Hvað fékk Satan til að gera uppreisn gegn Guði? Ágirnd. Hann ágirntist tilbeiðsluna sem Jehóva fékk frá manninum. Djöfullinn vísaði ekki á bug lönguninni til að fá slíka tilbeiðslu sem með réttu tilheyrði skaparanum einum. (Samanber Esekíel 28:12-19.) Í stað þess ól engillinn, sem varð Satan, með sér þessa ágjörnu löngun uns hún varð ‚þunguð og fæddi synd.‘ — Jakobsbréfið 1:14, 15.

7. (a) Hvað veldur dauða manna? (b) Hvað er synd?

7 Við höfum borið kennsl á sökudólginn sem framdi glæpinn er leiddi til þess að mennirnir deyja. En hvað er það sem raunverulega veldur dauða mannsins? Biblían segir: „Syndin er broddur dauðans.“ (1. Korintubréf 15:56) Og hvað er synd? Til að skilja þetta orð skulum við skoða merkinguna sem það bar í frummálum Biblíunnar. Hebresku og grísku sagnirnar, sem venjulega eru þýddar „að syndga,“ merkja „að missa“ í merkingunni að missa marks eða ná ekki takmarki. Hvaða markmiði nær enginn okkar? Því markmiði að hlýða Guði fullkomlega. En hvernig kom syndin inn í heiminn?

HVERNIG LAUNRÁÐUNUM VAR HRUNDIÐ Í FRAMKVÆMD

8. Hvernig reyndi Satan að fá til sín tilbeiðslu manna?

8 Satan hugsaði vandlega út launráð sem hann hélt að myndu færa honum stjórnina yfir öllum mönnum og tilbeiðslu þeirra. Hann ákvað að telja fyrstu mennsku hjónin, Adam og Evu, á að syndga gegn Guði. Jehóva hafði gefið fyrstu foreldrum okkar skilning sem leitt hefði til eilífs lífs. Þau vissu að skapari þeirra var góður af því að hann hafði sett þau í hinn fagra Edengarð. Adam fann sérstaklega fyrir gæsku himnesks föður síns þegar Guð gaf honum fagra og hjálpsama eiginkonu. (1. Mósebók 1:26, 29; 2:7-9, 18-23) Áframhaldandi líf fyrstu mennsku hjónanna var háð hlýðni við Guð.

9. Hvaða fyrirmæli gaf Guð fyrstu mannverunum og hvers vegna voru þau sanngjörn?

9 Guð bauð Adam: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og [„því á hverjum degi sem,“ Biblían 1859] þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Sem skaparinn hafði Jehóva Guð rétt til að setja siðgæðisstaðla og skilgreina hvað væri gott og hvað væri illt fyrir sköpunarverur sínar. Fyrirmæli hans voru sanngjörn af því að Adam og Evu var frjálst að eta ávexti af öllum hinum trjánum í garðinum. Þau gátu sýnt að þau kynnu að meta réttmæta stjórn Jehóva með því að hlýða lögum hans í stað þess að setja sér með hroka sína eigin siðgæðisstaðla.

10. (a) Hvernig nálgaðist Satan mennina til að fá þá til að taka afstöðu með sér? (b) Hvaða hvatir vændi Satan Jehóva um? (c) Hvað finnst þér um árás Satans á Guð?

10 Ráðabrugg djöfulsins var að draga fyrstu mannverurnar frá Guði. Í því skyni að tæla þær til að taka afstöðu með sér greip Satan til lyginnar. Djöfullinn notaði höggorm, líkt og búktalari notar brúðu, og spurði Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Þegar Eva vitnaði í fyrirmæli Guðs lýsti Satan yfir: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ Síðan vændi hann Jehóva um illar hvatir með því að segja: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:1-5) Djöfullinn lét með þessu í veðri vaka að Guð héldi einhverju góðu frá þeim. Hvílík rógsárás á hinn sannsögla, kærleiksríka, himneska föður, Jehóva!

11. Hvernig urðu Adam og Eva vitorðsmenn Satans?

11 Eva leit aftur á tréð og fannst nú ávöxtur þess sérstaklega eftirsóknarverður. Hún tók því af ávexti þess og át. Eiginmaður hennar tók síðan, af ásettu ráði, þátt í því með henni að óhlýðnast Guði og syndga. (1. Mósebók 3:6) Þó að Eva hafi verið tæld studdu bæði hún og Adam ráðabrugg Satans til að ríkja yfir mannkyninu. Í raun urðu þau vitorðsmenn hans. — Rómverjabréfið 6:16; 1. Tímóteusarbréf 2:14.

12. Hvað hafði uppreisn manna gegn Guði í för með sér?

12 Adam og Eva urðu að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna. Þau urðu ekki eins og Guð, fengu ekki einstaka þekkingu. Í stað þess fundu þau til smánar og földu sig. Jehóva lét Adam svara til saka og kvað upp þennan úrskurð: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) „Á hverjum [þeim] degi“ sem fyrstu foreldrar okkar átu af skilningstrénu góðs og ills kvað Guð upp dóm yfir þeim og Adam og Eva dóu, frá sjónarhóli hans. Þau voru rekin út úr paradís og síðan lá leiðin einungis niður á við uns líkamar þeirra dóu.

HVERNIG SYND OG DAUÐI BREIDDUST ÚT

13. Hvernig barst syndin út til alls mannkynsins?

13 Svo virtist sem það ráðabrugg Satans að fá til sín lotningu mannsins hefði heppnast. En hann gat ekki haldið lífinu í tilbiðjendum sínum. Þegar syndin tók að verka á fyrstu mannhjónin gátu þau ekki lengur látið fullkomleika ganga í arf til afkomenda sinna. Eins og meitluð áletrun í stein var syndin greypt djúpt í arfbera fyrstu foreldra okkar. Þar af leiðandi gátu þeir aðeins fætt af sér ófullkomna afkomendur. Vegna þess að öll börn Adams og Evu voru getin eftir að þau syndguðu gekk synd og dauði í arf til afkomendanna. — Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12.

14. (a) Við hvern má líkja þeim sem neita því að þeir séu syndugir? (b) Hvernig var Ísraelsmönnum gert ljóst að þeir væru syndugir?

14 Þeir eru hins vegar margir nú á dögum sem ekki álíta sig syndara. Í sumum heimshlutum er hugmyndin um erfðasynd almennt óþekkt. En það afsannar ekki að syndin sé til. Drengur, sem er óhreinn í framan, kann að fullyrða að hann sé hreinn og lætur ekki sannfærast um annað fyrr en hann lítur í spegil. Ísraelsmenn til forna voru eins og slíkur drengur þegar þeir fengu lögmál Guðs fyrir milligöngu spámanns hans, Móse. Lögmálið sýndi greinilega að syndin væri til. „Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið,“ tekur Páll postuli fram. (Rómverjabréfið 7:7-12) Eins og drengurinn lítur í spegil gátu Ísraelsmenn notað lögmálið til að skoða sjálfa sig og séð að þeir voru óhreinir í augum Guðs.

15. Hvað kemur í ljós þegar horft er í þann spegil sem orð Guðs er?

15 Ef við lítum í þann spegil sem orð Guðs er og veitum stöðlum þess athygli getum við séð að við erum ófullkomin. (Jakobsbréfið 1:23-25) Hugleiddu til dæmis orð Jesú Krists til lærisveina sinna um að elska Guð og náungann, eins og þau eru skráð í Matteusi 22:37-40. Hversu oft missa menn ekki marks á þessu sviði! Margir fá jafnvel ekki hið minnsta samviskubit þótt þeir sýni hvorki Guði né náunga sínum kærleika. — Lúkas 10:29-37.

VARAÐU ÞIG Á KÆNSKUBRÖGÐUM SATANS!

16. Hvað getum við gert til að forðast að verða fórnarlömb kænskubragða Satans, og hvers vegna er það erfitt?

16 Satan leitast við að fá okkur til að drýgja vísvitandi synd. (1. Jóhannesarbréf 3:8) Er einhver leið til að komast hjá því að verða fórnarlamb kænskubragða hans? Já, en það krefst þess að við berjumst gegn tilhneigingum til vísvitandi syndar. Það er ekki auðvelt vegna þess að meðfædd tilhneiging okkar til að syndga er mjög sterk. (Efesusbréfið 2:3) Páll þurfti að standa í mikilli baráttu. Af hverju? Af því að syndin bjó í honum. Ef við viljum eiga velþóknun Guðs verðum við líka að berjast gegn hinum syndugu tilhneigingum sem búa innra með okkur. — Rómverjabréfið 7:14-24; 2. Korintubréf 5:10.

17. Hvað gerir baráttu okkar gegn syndugum tilhneigingum enn erfiðari?

17 Vegna þess að Satan leitar sífellt færis að lokka okkur til að brjóta lög Guðs er ekki auðvelt að berjast gegn syndinni. (1. Pétursbréf 5:8) Páll bar umhyggju fyrir trúbræðrum sínum og sagði: „En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ (2. Korintubréf 11:3) Satan beitir svipuðum brögðum nú á tímum. Hann reynir að sá sæði vantrúar um gæsku Jehóva og kosti þess að hlýðnast boðum Guðs. Djöfullinn reynir að notfæra sér meðfæddar, syndugar tilhneigingar okkar og fá okkur til að sýna hroka, ágirnd, hatur og fordóma.

18. Hvernig notar Satan heiminn til að ýta undir synd?

18 Eitt þeirra tækja, sem Satan notar gegn okkur, er heimurinn sem hann hefur á valdi sínu. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Ef við erum ekki á varðbergi mun spillt og óheiðarlegt fólk í heiminum í kringum okkur þröngva okkur til hegðunar sem brýtur í bága við siðgæðisstaðla Guðs. (1. Pétursbréf 4:3-5) Margir hunsa lög Guðs og þegar samviskan stingur þá bægja þeir óþægindunum jafnvel frá sér svo að hún verður að lokum ónæm. (Rómverjabréfið 2:14, 15; 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Sumir taka smám saman upp breytni sem jafnvel ófullkomin samviska þeirra leyfði þeim ekki áður fyrr. — Rómverjabréfið 1:24-32; Efesusbréfið 4:17-19.

19. Hvers vegna er ekki aðeins nóg að lifa hreinu lífi?

19 Í þessum heimi er það afrek að lifa hreinu lífi. En til að þóknast skapara okkar þarf meira til. Við verðum líka að trúa á Guð og finna fyrir ábyrgð gagnvart honum. (Hebreabréfið 11:6) „Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 4:17) Já, það er í sjálfu sér viss synd að hunsa Guð og boð hans að yfirlögðu ráði.

20. Hvernig gæti Satan reynt að hindra þig í að gera það sem rétt er, en hvað hjálpar þér að standa gegn slíkum þrýstingi?

20 Satan er mjög líklegur til að ýta undir andstöðu við þá viðleitni þína að nema Biblíuna til að afla þér þekkingar á Guði. Vonandi lætur þú slíkan þrýsting ekki hindra þig í að gera það sem er rétt. (Jóhannes 16:2) Þó að margir höfðingjar hafi trúað á Jesú þegar hann þjónaði hér á jörð gengust þeir ekki við því vegna þess að þeir óttuðust að samfélagið myndi sniðganga þá. (Jóhannes 12:42, 43) Satan reynir vægðarlaust að hræða kjarkinn úr hverjum þeim sem leitar þekkingarinnar á Guði. Þú ættir þó alltaf að muna og meta að verðleikum þá dásamlegu hluti sem Jehóva hefur gert. Þú gætir jafnvel hjálpað mótstöðumönnum að meta þá á sama hátt.

21. Hvernig getum við sigrað heiminn og okkar eigin syndugu tilhneigingar?

21 Svo lengi sem við erum ófullkomin drýgjum við synd. (1. Jóhannesarbréf 1:8) Engu að síður veitist okkur hjálp í þessari baráttu. Já, það er mögulegt að ganga með sigur af hólmi í baráttu okkar við hinn illa, Satan djöfulinn. (Rómverjabréfið 5:21) Undir lok þjónustu sinnar á jörðinni hvatti Jesús fylgjendur sína með þessum orðum: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Jafnvel ófullkomnir menn geta sigrað heiminn með hjálp Guðs. Satan hefur ekkert tak á þeim sem standa gegn honum og ‚gefa sig Guði á vald.‘ (Jakobsbréfið 4:7; 1. Jóhannesarbréf 5:18) Eins og við munum sjá hefur Guð opnað mönnum leið til að losna úr fjötrum syndar og dauða.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hver er Satan djöfullinn?

Hvers vegna hrörna menn og deyja?

Hvað er synd?

Hvernig fær Satan fólk til að syndga vísvitandi gegn Guði?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls. 54]