Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

8. kafli

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

1, 2. Hvernig bregst fólk oft við mannlegum þjáningum?

 ÞEGAR hamfarir skella á með miklu eigna- og manntjóni fá margir ekki skilið hvers vegna slíkar hörmungar eiga sér stað. Rót kemst á huga manna við að sjá hve glæpir og ofbeldi er orðið útbreitt, grimmilegt og tilefnislaust fyrirbæri. Þú hefur ef til vill líka velt því fyrir þér hvers vegna Guð leyfir þjáningar.

2 Margir hafa glatað trúnni á Guð vegna þess að þeir fundu engin svör við þessari spurningu. Þeim finnst hann ekki hafa neinn áhuga á mannkyninu. Aðrir sem fallast á að þjáningar séu hluti af lífinu verða bitrir og kenna Guði um allt hið illa í mannlegu samfélagi. Ef þér er þannig innanbrjósts mun það sem Biblían fullyrðir um þessi mál sjálfsagt vekja áhuga þinn.

ÞJÁNINGAR ERU EKKI SÖK GUÐS

3, 4. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva veldur ekki illsku og þjáningum?

3 Biblían fullvissar okkur um að þjáningarnar, sem við sjáum í kringum okkur, séu ekki af völdum Jehóva Guðs. Kristni lærisveinninn Jakob skrifaði: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Af þessum sökum gæti Guð ekki hafa valdið hinum fjölmörgu þrautum sem hrjá mannkynið. Hann hvorki leggur raunir á fólk til að gera það hæft til lífs á himni né lætur það þjást vegna illgerða sem það á að hafa framið í fyrra lífi. — Rómverjabréfið 6:7.

4 Þó að margt hræðilegt hafi verið gert í nafni Guðs eða nafni Krists er samt ekkert í Biblíunni sem bendir til að annar hvor þeirra hafi nokkru sinni lagt blessun sína yfir slíkt athæfi. Guð og Kristur hafa ekkert með þá að gera sem segjast þjóna þeim en jafnframt svindla og svíkja, drepa, ræna og rupla og gera margt annað sem veldur mönnum þjáningum. Raunin er sú að „vegur hins óguðlega er [Jehóva] andstyggilegur.“ Guð „er fjarlægur óguðlegum.“ — Orðskviðirnir 15:9, 29.

5. Hverjir eru nokkrir af eiginleikum Jehóva og hvaða tilfinningar ber hann til sköpunarvera sinna?

5 Biblían segir um Jehóva að hann sé „mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Hún lýsir yfir að ‚Jehóva hafi mætur á réttlæti.‘ (Sálmur 37:28; Jesaja 61:8) Hann er ekki langrækinn. Hann annast sköpunarverur sínar af mikilli umhyggju og gefur þeim allt sem þeim er fyrir bestu. (Postulasagan 14:16, 17) Jehóva hefur gert það allt frá upphafi lífsins á jörðinni.

FULLKOMIN BYRJUN

6. Hvernig vísa sumar þjóðsögur óbeint til upphafstíma mannkynsins?

6 Við erum öll orðin vön því að sjá og finna sársauka og þjáningar. Það kann þess vegna að vera erfitt að ímynda sér þjáningarlausa tíma en þannig var málum háttað í byrjun mannkynssögunnar. Jafnvel þjóðsögur sumra þjóða vísa óbeint til svo ánægjulegs upphafs. Í grískri goðafræði var sú fyrsta af „fimm öldum mannsins“ kölluð „gullöldin.“ Þá lifðu menn í hamingju, lausir við strit, sársauka og ellihrörnun. Kínverskar goðsagnir segja að í stjórnartíð Gula keisarans (Huang-Ti) hafi fólk lifað í friði og í sátt og samlyndi við náttúruöflin og villidýrin. Persar, Egyptar, Tíbetbúar, Perúmenn og Mexíkóar hafa allir þjóðsögur um hamingjutíma og fullkomleika við upphaf mannkynssögunnar.

7. Af hverju skapaði Guð jörðina og mannkynið?

7 Goðsagnir þjóðanna enduróma einungis elstu, skráðu heimildina um sögu manna, Biblíuna. Hún upplýsir okkur um að Guð hafi sett fyrstu mennsku hjónin, Adam og Evu, í paradís sem kölluð var Edengarður og boðið þeim: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Fyrstu foreldrar okkar voru fullkomnir og áttu þær framtíðarhorfur að sjá alla jörðina verða að paradís þar sem fullkomnir menn byggju við varanlegan frið og hamingju. Guð skapaði jörðina og mannkynið í þessum tilgangi. — Jesaja 45:18.

ILLKVITTIN ÖGRUN

8. Hvaða fyrirmælum var ætlast til að Adam og Eva hlýddu, en hvað gerðist?

8 Til að Adam og Eva nytu áfram velþóknunar Guðs þyrftu þau að láta ógert að eta af „skilningstrénu góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Ef þau hefðu hlýtt fyrirmælum Jehóva hefði ekki orðið nein þjáning til að spilla lífi manna. Með hlýðni við fyrirmæli Guðs hefðu þau sýnt kærleika sinn til Jehóva og trúfesti sína gagnvart honum. (1. Jóhannesarbréf 5:3) En eins og við lærðum í 6. kafla skipuðust málin ekki á þann veg. Fyrir áeggjan Satans át Eva ávöxt af þessu tré. Síðar fékk Adam sér líka af forboðna ávextinum.

9. Hvaða deiluefni, sem snerti Jehóva, vakti Satan upp?

9 Sérðu alvöru þess sem gerðist? Satan var að ráðast á stöðu Jehóva sem hins hæsta. Með því að segja „vissulega munuð þið ekki deyja!“ rengdi djöfullinn orð Guðs sem hafði sagt: ‚Þú skalt vissulega deyja.‘ Næstu orð Satans gáfu í skyn að Jehóva héldi Adam og Evu óupplýstum um þann kost að verða eins og Guð og þurfa því ekki á honum að halda til að ákvarða hvað væri gott og illt. Ögrun Satans bar þar af leiðandi brigður á réttmæti og lögmæti stöðu Jehóva sem æðsta valdhafa alheimsins. — 1. Mósebók 2:17; 3:1-6.

10. Að hverju lét Satan liggja um mennina?

10 Satan djöfullinn lét líka að því liggja að menn myndu hlýða Jehóva einungis svo lengi sem þeir hefðu hag af hlýðni við Guð. Með öðrum orðum voru heilindi og ráðvendni manna dregin í efa. Ákæra Satans var sú að enginn maður myndi sjálfviljugur halda áfram að sýna Guði trúfesti. Þessi illgjarna staðhæfing Satans kemur greinilega í ljós í frásögn Biblíunnar af Job, trúföstum þjóni Jehóva sem varð fyrir mikilli prófraun einhvern tíma fyrir árið 1600 f.o.t. Ef þú lest fyrstu tvo kaflana í Jobsbók getur þú komið auga á ástæðuna fyrir þjáningum manna og hvers vegna Guð leyfir þær.

11. Hvers konar maður var Job en hvaða ákæru kom Satan með?

11 Job, „maður ráðvandur og réttlátur,“ varð fyrir árás Satans. Hún hófst með því að Satan vændi Job um slæmar hvatir og bar upp spurninguna: „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt?“ Síðan rægði djöfullinn lævíslega bæði Guð og Job þegar hann kom með þá ákæru að Jehóva hefði keypt sér trúfesti Jobs með því að vernda hann og blessa. „En rétt þú út hönd þína,“ sagði Satan ögrandi við Jehóva, „og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:8-11.

12. (a) Hvaða spurningum yrði aðeins svarað ef Guð leyfði Satan að reyna Job? (b) Hver varð niðurstaðan af prófraun Jobs?

12 Þjónaði Job Jehóva einfaldlega vegna alls þess góða sem hann fékk frá Guði? Gæti ráðvendni Jobs staðist prófraun? Og bar Jehóva auk þess nægilegt traust til þjóns síns til að leyfa að hann yrði reyndur? Þessum spurningum fengist svarað ef Jehóva leyfði Satan að leiða hinar þyngstu prófraunir yfir Job. Trúfesti Jobs í prófraununum, sem Guð lét viðgangast, eins og sagt er frá í Jobsbók, hrakti rækilega ákærurnar gegn réttlæti Jehóva og ráðvendni mannsins. — Jobsbók 42:1, 2, 12.

13. Hvernig snertir það okkur sem gerðist í Eden og það sem kom fyrir Job?

13 Atburðirnir í Edengarðinum og það sem kom fyrir manninn Job ristir þó dýpra. Deiluefnin, sem Satan vakti upp, snerta allt mannkynið, líka okkur sem núna erum uppi. Nafn Guðs var rægt og brigður bornar á drottinvald hans. Heiðarleiki mannsins, sköpunarverks Guðs, var dreginn í efa. Þessi deiluefni varð að útkljá.

HVERNIG ÚTKLJÁ MÆTTI DEILUNA

14. Hvað gæti sá gert sem stæði frammi fyrir illgjarnri ögrun og ákæru?

14 Tökum dæmi til skýringar: Segjum að þú sért ástríkt foreldri nokkurra barna í hamingjusamri fjölskyldu. Nú ber einn nágranna þinna út lygar, sakar þig um að vera slæmt foreldri. Hvað ef nágranninn segir að börnunum þínum þyki ekki vænt um þig, þau dvelji hjá þér aðeins vegna þess að þau þekki ekkert skárra og að þau færu ef tækifæri byðist. ‚Fáránlegt!‘ kynnir þú að segja. En hvernig gætir þú afsannað slíka ákæru? Hún myndi kannski gera suma foreldra hamstola af bræði. Slík viðbrögð myndu ekki aðeins auka á vandann heldur líka styrkja ósannindin. Fullnægjandi leið til að taka á slíku máli væri að gefa ákæranda þínum færi á að sanna fullyrðingu sína og börnum þínum tækifæri til að sýna að þau elski þig af einlægni.

15. Hvernig kaus Jehóva að meðhöndla ögrun Satans?

15 Jehóva er eins og kærleiksríka foreldrið. Líkja má Adam og Evu við börnin og Satan fellur vel í hlutverk ósannsögla nágrannans. Af hyggindum eyddi Guð ekki strax Satan, Adam og Evu heldur leyfði þessum illvirkjum að lifa áfram um stund. Það gaf fyrstu foreldrum okkar tíma til að eignast afkomendur, og það hefur gefið djöflinum tækifæri til að sanna hvort staðhæfing hans væri rétt til þess að útkljá mætti deiluefnin. Guð vissi hins vegar strax að sumir menn yrðu honum trúfastir og sönnuðu með því Satan lygara. Sannarlega erum við Jehóva þakklát fyrir að hann skuli hafa haldið áfram að blessa og hjálpa þeim sem elska hann. — 2. Kroníkubók 16:9; Orðskviðirnir 15:3.

HVAÐ HEFUR SANNAST?

16. Hvernig hefur heimurinn komist á vald Satans?

16 Næstum alla mannkynssöguna hefur Satan haft frjálsar hendur til að útfæra ráðabrugg sitt um yfirráð yfir mannkyninu. Meðal annars hefur hann haft áhrif á stjórnmálaveldin og ýtt undir trúarbrögð sem lymskulega beina tilbeiðslu manna til hans í stað Jehóva. Djöfullinn hefur þannig orðið „guð þessarar aldar“ og hann er kallaður ‚höfðingi þessa heims.‘ (2. Korintubréf 4:4; Jóhannes 12:31) Víst er að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þýðir það að Satan hafi sannað þá staðhæfingu sína að hann gæti dregið alla menn frá Jehóva Guði? Vissulega ekki! Á meðan Jehóva hefur leyft áframhaldandi tilvist Satans hefur hann haldið áfram að láta sinn eigin tilgang ná fram að ganga. Hvað leiðir Biblían þá í ljós varðandi það að Guð skuli hafa leyft illskuna?

17. Hvað ættum við að hafa hugfast viðvíkjandi því sem veldur illsku og þjáningum?

17 Jehóva er ekki valdur að illsku og þjáningum. Þar sem Satan er höfðingi þessa heims og guð þessarar aldar eru hann og stuðningsmenn hans ábyrgir fyrir núverandi ásigkomulagi samfélags manna og allri þeirri eymd sem mannkynið hefur liðið. Enginn getur með réttu sagt að Guð valdi slíkum þrautum. — Rómverjabréfið 9:14.

18. Hvað hefur sannast um þá hugmynd að vera sjálfstæður gagnvart Guði, sökum þess að Jehóva hefur leyft tilvist illsku og þjáninga?

18 Vegna þess að Jehóva hefur leyft illsku og þjáningar hefur sannast að sjálfstæði manna gagnvart Guði hefur ekki leitt til betri heims. Óneitanlega hefur hver hörmungin á fætur annarri einkennt söguna. Ástæða þess er sú að menn hafa kosið að fara sínar eigin sjálfstæðu leiðir og hafa ekki tekið neitt raunverulegt tillit til orðs Guðs og vilja. Þegar þjóð Jehóva til forna og leiðtogar hennar gerðust „fráhverfir í rásinni“ og höfnuðu orði hans hafði það hörmulegar afleiðingar í för með sér. Fyrir munn spámanns síns Jeremía sagði Guð við hana: „Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði [Jehóva], hvaða visku hafa þeir þá?“ (Jeremía 8:5, 6, 9) Almennt fylgja menn ekki stöðlum Jehóva og hafa því orðið eins og skip án stýris sem hrekst fram og aftur í ólgusjó.

19. Hvaða sannanir höfum við um að Satan geti ekki snúið öllum mönnum gegn Guði?

19 Með því að Guð hefur leyft illsku og þjáningar hefur einnig sannast að Satan hefur ekki getað gert allt mannkynið fráhverft Jehóva Guði. Sagan sýnir að alltaf hafi verið til einstaklingar sem hafa haldið áfram að vera Guði trúfastir, alveg sama hvaða freistingar eða raunir voru á þá lagðar. Í aldanna rás hefur Jehóva sýnt kraft sinn við ýmis tækifæri þjónum sínum í hag og nafn hans hefur verið kunngert um alla jörðina. (2. Mósebók 9:16; 1. Samúelsbók 12:22) Ellefti kafli Hebreabréfsins segir frá langri röð trúfastra manna, þar með taldir Abel, Enok, Nói, Abraham og Móse. Hebreabréfið 12:1 kallar þá „fjölda votta.“ Þeir voru dæmi um menn sem sýndu óbifanlega trú á Jehóva. Nú á tímum hafa líka margir látið lífið í órjúfanlegri ráðvendni við Guð. Með trú sinni og kærleika hafa slíkir einstaklingar sannað endanlega að Satan getur ekki snúið öllum mönnum gegn Guði.

20. Hvað hefur sannast varðandi Guð og mannkynið sökum þess að Jehóva hefur leyft að illska og þjáningar héldu áfram?

20 Að síðustu skal nefnt að sökum þess að Jehóva hefur leyft að illska og þjáningar héldu áfram, hefur fengist sönnun fyrir því að einungis Jehóva, skaparinn, hafi hæfni og rétt til að ríkja yfir mannkyninu, því til eilífrar blessunar og farsældar. Um aldir hefur mannkynið reynt margs konar stjórnarhætti. En hver hefur árangurinn orðið? Hin margslungnu vandamál og kreppur, sem þjóðirnar standa núna frammi fyrir, eru ríflegur vitnisburður þess að sannarlega ‚drottni einn maðurinn yfir öðrum honum til ógæfu,‘ eins og Biblían bendir á. (Prédikarinn 8:9) Einungis Jehóva getur komið okkur til bjargar og látið upphaflegan tilgang sinn verða að veruleika. Hvernig mun hann gera það og hvenær?

21. Hvað verður gert við Satan og hver verður notaður til að framkvæma það?

21 Strax eftir að Adam og Eva urðu fórnarlömb ráðabruggs Satans tilkynnti Guð hvernig hann hyggðist frelsa mannkynið. Jehóva sagði eftirfarandi um Satan: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Þessi yfirlýsing tryggði að djöflinum yrði ekki leyft að vinna illvirki sín að eilífu. Sem konungur Messíasarríkisins, hið fyrirheitna sæði, mun Jesús Kristur ‚merja höfuð Satans.‘ Já, „bráðlega“ mun Jesús mola uppreisnarsegginn Satan! — Rómverjabréfið 16:20.

HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ GERA?

22. (a) Hvaða spurningar verður þú að horfast í augu við? (b) Hvað geta þeir sem eru trúfastir Guði verið vissir um þótt Satan úthelli heift sinni yfir þá?

22 Þegar þú veist núna um hvað er deilt, hvoru megin ætlar þú þá að standa? Munt þú sanna með breytni þinni að þú sért trúfastur stuðningsmaður Jehóva? Þar sem Satan veit að hann hefur nauman tíma mun hann gera allt til að úthella heift sinni yfir þá sem vilja varðveita ráðvendni við Guð. (Opinberunarbókin 12:12) En þú getur leitað hjálpar hjá Guði af því að ‚Jehóva veit hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu.‘ (2. Pétursbréf 2:9) Hann lætur ekki freista þín um megn fram og hann opnar þér leið til að standast freistingar. — 1. Korintubréf 10:13.

23. Hvers getum við örugg hlakkað til?

23 Við skulum örugg líta með eftirvæntingu til þess tíma þegar konungurinn Jesús Kristur grípur til aðgerða gegn Satan og öllum sem fylgja honum. (Opinberunarbókin 20:1-3) Jesús mun ryðja úr vegi öllum þeim sem eru samábyrgir fyrir því öngþveiti og þeirri eymd sem mannkynið hefur mátt þola. Uns sá tími kemur heldur lát ástvina áfram að vera einstaklega sársaukafull þjáning. Lestu næsta kafla til að komast að því hvað verður um þá.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvernig vitum við að Jehóva er ekki valdur að þjáningum manna?

Hvaða deiluefni vakti Satan upp í Eden sem varð augljóst á dögum Jobs?

Hvað hefur sannast vegna þess að Guð hefur leyft þjáningar?

[Spurningar]