Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús Kristur — Lykillinn að þekkingunni á Guði

Jesús Kristur — Lykillinn að þekkingunni á Guði

4. kafli

Jesús Kristur — Lykillinn að þekkingunni á Guði

1, 2. Hvernig hafa trúfélög heimsins farið skemmdarhöndum um lykilinn að þekkingunni á Guði?

 ÞÚ stendur við útidyrnar og fálmar eftir lyklunum. Það er kalt og dimmt og þú vilt komast inn sem fyrst — en lykillinn virkar ekki. Hann virðist vera sá rétti en lásinn haggast ekki. En gremjulegt! Þú lítur aftur á lyklana þína. Ertu að nota þann rétta? Hefur einhver skemmt lykilinn?

2 Þetta er góð mynd af því sem trúmálaglundroðinn í heiminum hefur gert við þekkinguna á Guði. Eiginlega hafa margir farið skemmdarhöndum um lykilinn sem opnar okkur leið til skilnings á henni — Jesú Krist. Sum trúfélög hafa fjarlægt lykilinn, með öllu hunsað Jesú. Önnur hafa afskræmt hlutverk Jesú, tilbeðið hann sem Guð alvaldan. Án nákvæms skilnings á þessari aðalpersónu, Jesú Kristi, getum við ekki með nokkru móti öðlast þekkingu á Guði.

3. Hvers vegna mætti kalla Jesú lykilinn að þekkingunni á Guði?

3 Þú manst ef til vill eftir að Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Með því að segja þetta var Jesús ekki að gorta. Ritningin leggur hvað eftir annað áherslu á nauðsyn nákvæmrar þekkingar á Guði. (Efesusbréfið 4:13; Kólossubréfið 2:2; 2. Pétursbréf 1:8; 2:20) „[Jesú Kristi] bera allir spámennirnir vitni,“ benti Pétur postuli á. (Postulasagan 10:43) Og Páll postuli skrifaði: „Í [Jesú] eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ (Kólossubréfið 2:3) Páll sagði jafnvel að öll fyrirheit Jehóva rættust vegna Jesú. (2. Korintubréf 1:20) Jesús Kristur er þess vegna sjálfur lykillinn að þekkingunni á Guði. Þekking okkar á Jesú verður að vera laus við alla rangtúlkun á eðli hans og á hlutverki hans í tilhögun Guðs. En hvers vegna álíta fylgjendur Jesú hann vera miðpunktinn í tilgangi Guðs?

HINN FYRIRHEITNI MESSÍAS

4, 5. Hvaða vonir voru bundnar við Messías og hvernig litu lærisveinar Jesú á hann?

4 Frá því á dögum hins trúfasta manns, Abels, hafa þjónar Guðs litið með eftirvæntingu fram til sæðisins sem Jehóva Guð spáði sjálfur um. (1. Mósebók 3:15; 4:1-8; Hebreabréfið 11:4) Opinberað hafði verið að sæðið myndi þjóna tilgangi Guðs sem Messías en það orð þýðir „hinn smurði.“ Hann myndi ‚taka burt syndina‘ og í Sálmunum var því spáð hve dýrlegt ríki hans yrði. (Daníel 9:24-26, Biblían 1859; Sálmur 72:1-20) Hver myndi reynast vera Messías?

5 Ímyndaðu þér hve spenntur ungur Gyðingur, Andrés að nafni, hefur verið þegar hann hlýddi á orð Jesú frá Nasaret. Andrés flýtti sér til bróður síns, Símonar Péturs, og sagði við hann: „Við höfum fundið Messías!“ (Jóhannes 1:41) Lærisveinar Jesú voru sannfærðir um að hann væri hinn fyrirheitni Messías. (Matteus 16:16) Og sannkristnir menn hafa verið fúsir til að leggja lífið að veði fyrir þá trú að Jesús hafi svo sannarlega verið sá Messías, eða Kristur, sem spáð var um. Hvaða sannanir hafa þeir haft? Tökum til athugunar þrjá flokka sönnunargagna í þessu máli.

SANNANIR ÞESS AÐ JESÚS HAFI VERIÐ MESSÍAS

6. (a) Hvaða ætt skyldi geta af sér fyrirheitna sæðið og hvernig vitum við að Jesús var af þeirri ætt? (b) Hvers vegna væri ógerningur fyrir nokkurn, sem uppi væri eftir árið 70 og fullyrti að hann væri Messías, að sanna það?

6 Ættleggur Jesú er það fyrsta sem byggja má á til að auðkenna hann sem hinn fyrirheitna Messías. Jehóva hafði sagt þjóni sínum Abraham að fyrirheitna sæðið kæmi í ætt hans. Ísak, sonur Abrahams, Jakob, sonur Ísaks, og Júda, sonur Jakobs, fengu hver og einn svipað loforð. (1. Mósebók 22:18; 26:2-5; 28:12-15; 49:10) Ættleggur sá sem Messías kæmi fram í var öldum síðar afmarkaður enn meir þegar Davíð konungi var sagt að ætt hans myndi geta af sér Messías. (Sálmur 132:11; Jesaja 11:1, 10) Frásagnir guðspjallamannanna Matteusar og Lúkasar staðfesta að Jesús hafi verið af þeirri ætt. (Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-38) Þó að Jesús hafi átt marga hatramma óvini bar enginn þeirra brigður á ætterni hans sem var vel þekkt. (Matteus 21:9, 15) Því er greinilegt að ætterni hans verður ekki dregið í efa. Hins vegar voru ættarskrár Gyðinga eyðilagðar þegar Rómverjar jöfnuðu Jerúsalem við jörðu árið 70 e.o.t. Hver sá sem eftir þann tíma fullyrti að hann væri hinn fyrirheitni Messías gæti aldrei sannað það.

7. (a) Hver er annar flokkur sönnunargagna um að Jesús hafi verið Messías? (b) Hvernig uppfylltist Míka 5:1 í tengslum við Jesú?

7 Uppfylltir spádómar er annar flokkur sönnunargagna. Fjölmargir spádómar Hebresku ritninganna lýsa ýmsum hliðum á æviferli Messíasar. Á áttundu öld f.o.t. sagði spámaðurinn Míka fyrir að þessi mikli stjórnandi skyldi fæðast í Betlehem, þýðingarlitlum bæ. Tveir bæir í Ísrael voru nefndir Betlehem en spádómurinn tiltók hvorn þeirra átt væri við: Betlehem Efrata, fæðingarstað Davíðs konungs. (Míka 5:1) Foreldrar Jesú, Jósef og María, bjuggu í Nasaret, um 150 kílómetra norður af Betlehem. Þegar María var þunguð gaf rómverski stjórnandinn, Ágústus keisari, út þau fyrirmæli að hver og einn skyldi láta skrásetja sig í heimaborg sinni. * Jósef varð því að fara með þungaða konu sína til Betlehem þar sem Jesús síðan fæddist. — Lúkas 2:1-7.

8. (a) Hvenær og með hvaða atburði hófust 69 ‚sjöundirnar‘? (b) Hve langar voru 69 ‚sjöundirnar‘ og hvað gerðist þegar þeim lauk?

8 Á sjöttu öld f.o.t. spáði Daníel spámaður að ‚Messías, höfðinginn‘ kæmi fram 69 ‚sjöundum‘ eftir að sú skipun gekk út að Jerúsalem skyldi endurreist. (Daníel 9:24, 25, Biblían 1859) Hver þessara ‚sjöunda‘ eða vikna var sjö ára tímabil. * Samkvæmt Biblíunni og mannkynssögunni var skipunin um endurreisn Jerúsalem gefin út árið 455 f.o.t. (Nehemíabók 2:1-8) Messías átti þess vegna að koma fram 483 (69 sinnum 7) árum eftir 455 f.o.t. Það leiðir okkur til ársins 29 e.o.t., nákvæmlega þess árs sem Jehóva smurði Jesú með heilögum anda. Þannig varð Jesús „Kristur“ (sem þýðir „Hinn smurði“) eða Messías. — Lúkas 3:15, 16, 21, 22.

9. (a) Hvernig uppfylltist Sálmur 2:2? (b) Nefndu nokkra aðra spádóma sem uppfylltust á Jesú. (Sjá töflu.)

9 Að sjálfsögðu viðurkenndu ekki allir Jesú sem hinn fyrirheitna Messías og Ritningin hafði spáð því. Guð innblés Davíð konungi að bera fram spádóminn sem skráður er í Sálmi 2:2: „Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða.“ Þessi spádómur gaf í skyn að leiðtogar í fleiri en einu landi myndu sameinast um að ráðast á þann sem Jehóva hafði smurt, Messías. Og þannig fór. Trúarleiðtogar Gyðinga, Heródes konungur og rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus áttu allir þátt í lífláti Jesú. Góð vinátta tókst upp frá því með Heródesi og Pílatusi sem höfðu verið óvinir. (Matteus 27:1, 2; Lúkas 23:10-12; Postulasagan 4:25-28) Frekari sannanir um að Jesús hafi verið Messías má sjá á meðfylgjandi töflu sem nefnd er „Nokkrir einstakir Messíasarspádómar.“

10. Hvernig bar Jehóva vitni um að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías?

10 Vitnisburður Jehóva Guðs er þriðji flokkur sönnunargagna til stuðnings því að Jesús hafi verið Messías. Jehóva sendi engla til að láta menn vita að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. (Lúkas 2:10-14) Á jarðvistardögum Jesú talaði Jehóva sjálfur af himni ofan og tjáði velþóknun sína á Jesú. (Matteus 3:16, 17; 17:1-5) Jehóva Guð gaf Jesú mátt til að gera kraftaverk. Sérhvert þeirra var enn ein sönnun frá Guði um að Jesús væri Messías af því að Guð gæfi aldrei svikara mátt til að framkvæma kraftaverk. Með heilögum anda sínum innblés Jehóva frásagnir guðspjallanna og þannig varð vitnisburðurinn um að Jesús væri Messías varðveittur í Biblíunni og er hún útbreiddasta bókin í sögu mannkynsins og sú sem þýdd hefur verið á flest tungumál. — Jóhannes 4:25, 26.

11. Hve umfangsmikil eru sönnunargögnin um að Jesús hafi verið Messías?

11 Þegar allir þessir sönnunarflokkar eru lagðir saman er þar að finna hundruð staðreynda sem auðkenna Jesú sem hinn fyrirheitna Messías. Því má ljóst vera að sannkristnir menn hafa með réttu álitið hann vera þann sem „allir spámennirnir [bera] vitni“ og lykilinn að þekkingunni á Guði. (Postulasagan 10:43) En það er meira sem hægt er að læra um Jesú Krist en að hann hafi verið Messías. Hver var uppruni hans? Hvernig var hann?

TILVERA JESÚ ÁÐUR EN HANN VARÐ MAÐUR

12, 13. (a) Hvernig vitum við að Jesús var til á himni áður en hann kom til jarðarinnar? (b) Hver er „Orðið“ og hvað gerði hann áður en hann varð maður?

12 Tilveru Jesú mætti skipta í þrjú stig. Það fyrsta hófst löngu áður en hann fæddist á jörðinni. Míka 5:1 (Biblían 1859) sagði uppruna Messíasar vera „frá aldaöðli, í frá dögum eilífðarinnar.“ Og Jesús sagði beinlínis að hann væri kominn „ofan að,“ það er að segja frá himni. (Jóhannes 8:23; 16:28) Hve lengi hafði hann verið til á himni áður en hann kom til jarðarinnar?

13 Jesús var kallaður „eingetinn“ sonur Guðs vegna þess að Jehóva skapaði hann beint. (Jóhannes 3:16) Jesús varð þannig „frumburður allrar sköpunar“ og Guð notaði hann síðan til að skapa alla aðra hluti. (Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14) Jóhannes 1:1 segir að „Orðið“ (Jesús áður en hann varð maður) hafi verið hjá Guði „í upphafi.“ Orðið var þess vegna hjá Jehóva þegar ‚himinn og jörð‘ voru sköpuð. Guð var að ávarpa Orðið þegar hann sagði: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mósebók 1:1, 26) Á sama hátt hlýtur Orðið að hafa verið hin ástkæra „verkstýra“ Guðs sem lýst er í Orðskviðunum 8:22-31 sem persónugervingi viskunnar, starfandi af krafti við hlið Jehóva að sköpun allra hluta. Eftir að Jehóva hafði skapað Orðið eyddi það óralöngum tíma með Guði á himni áður en það varð maður á jörð.

14. Af hverju er Jesús kallaður „ímynd hins ósýnilega Guðs“?

14 Ekki er því að undra að Kólossubréfið 1:15 kalli Jesú „ímynd hins ósýnilega Guðs.“ Náinn félagsskapur í ótal ár lét hlýðinn soninn verða nákvæma eftirmynd föður síns, Jehóva. Þetta er önnur ástæða þess að Jesús er lykillinn að hinni lífgefandi þekkingu á Guði. Allt það sem Jesús gerði þegar hann var á jörðinni er nákvæmlega það sem Jehóva hefði gert. Þar af leiðandi aukum við þekkingu okkar á Jehóva með því að kynnast Jesú. (Jóhannes 8:28; 14:8-10) Greinilega er því lífsnauðsynlegt að læra meira um Jesú Krist.

LÍF JESÚ Á JÖRÐINNI

15. Hvernig gat Jesús fæðst fullkominn?

15 Annað stigið í tilveru Jesú var hér á jörðinni. Hann beygði sig fúslega undir það að Guð flytti líf hans frá himni inn í móðurlíf trúfastrar meyjar sem hét María og var Gyðingur. Hinn máttugi heilagi andi, eða starfskraftur, Jehóva ‚yfirskyggði‘ Maríu og olli því að hún varð þunguð og fæddi fullkomið barn. (Lúkas 1:34, 35) Jesús erfði ekki ófullkomleikann af því að sá sem gaf honum lífið var fullkominn. Hann var alinn upp á látlausu heimili sem kjörsonur smiðsins Jósefs og var elstur nokkurra barna í þeirri fjölskyldu. — Jesaja 7:14; Matteus 1:22, 23; Markús 6:3.

16, 17. (a) Hvaðan fékk Jesús mátt til að framkvæma kraftaverk? Nefndu nokkur þeirra. (b) Nefndu nokkra eiginleika sem Jesús sýndi.

16 Þegar Jesús var 12 ára var strax orðið ljóst hve mjög hann helgaði sig Jehóva Guði. (Lúkas 2:41-49) Eftir að Jesús óx upp og hóf prédikunarstarf sitt 30 ára að aldri sýndi hann líka djúpan kærleika sinn til mannanna. Þegar heilagur andi Guðs veitti honum mátt til að framkvæma kraftaverk læknaði hann fullur samúðar sjúka menn, fatlaða, limlesta, blinda, heyrnarlausa og líkþráa. (Matteus 8:2-4; 15:30) Jesús saddi hungur þúsunda. (Matteus 15:35-38) Hann lægði storm sem ógnaði öryggi vina hans. (Markús 4:37-39) Hann reisti jafnvel látna upp frá dauðum. (Jóhannes 11:43, 44) Þessi kraftaverk eru traustar, sögulegar staðreyndir. Jafnvel óvinir Jesú viðurkenndu að hann ‚gerði mörg tákn.‘ — Jóhannes 11:47, 48.

17 Jesús ferðaðist um allt heimaland sitt og fræddi fólk um Guðsríki. (Matteus 4:17) Hann sýndi einnig frábært fordæmi í þolinmæði og sanngirni. Jafnvel þegar lærisveinar hans brugðust honum sagði hann með vorkunnsemi: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ (Markús 14:37, 38) Jesús var samt óragur og ómyrkur í máli við þá sem fyrirlitu sannleikann og kúguðu hjálparvana menn. (Matteus 23:27-33) En umfram allt líkti hann fullkomlega eftir kærleiksfordæmi föður síns. Jesús var jafnvel fús til að deyja til þess að ófullkomnu mannkyni veittist framtíðarvon. Það er því engin furða að við skulum hiklaust geta bent á Jesú sem lykilinn að þekkingunni á Guði. Já, hann er hinn lifandi lykill. En hvers vegna segjum við lifandi lykill? Það leiðir okkur að þriðja stiginu í tilveru hans.

JESÚS NÚ Á TÍMUM

18. Hvernig ættum við að sjá Jesú Krist fyrir okkur núna?

18 Þó að Biblían greini frá dauða Jesú er hann á lífi núna. Hundruð manna á fyrstu öldinni urðu sjónarvottar að því að hann væri upprisinn. (1. Korintubréf 15:3-8) Eins og spáð hafði verið settist hann eftir það við hægri hönd föður síns og beið þess að taka við völdum sem konungur á himni. (Sálmur 110:1; Hebreabréfið 10:12, 13) Hvernig ættum við því að sjá Jesú fyrir okkur nú á tímum? Ættum við að hugsa okkur hann sem hjálparvana hvítvoðung í jötu eða sem þjáðan mann sem verið er að lífláta? Nei. Hann er voldugur, ríkjandi konungur. Núna er þess skammt að bíða að hann láti stjórn sína yfir jörðinni, sem á í svo miklum vanda, koma í ljós.

19. Til hvaða aðgerða grípur Jesús í náinni framtíð?

19 Í Opinberunarbókinni 19:11-15 er konunginum Jesú Kristi glögglega lýst sem komandi í miklum mætti til að eyða hinum illu. Þessum kærleiksríka, himneska stjórnanda hlýtur að vera mikið í mun að binda enda á þjáningarnar sem hrjá milljónir manna nú á dögum. Og það er honum jafnmikið kappsmál að hjálpa þeim sem leitast við að líkja eftir því fullkomna fordæmi sem hann gaf þegar hann var á jörðinni. (1. Pétursbréf 2:21) Hann vill varðveita þá í gegnum ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem núna nálgast óðfluga og er nefnt Harmagedón, svo að þeir geti lifað að eilífu sem jarðneskir þegnar hins himneska ríkis Guðs. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 16:14, 16.

20. Hvað gerir Jesús fyrir mannkynið í þúsund ára friðarstjórnartíð sinni?

20 Í þúsund ára friðarstjórnartíð sinni, sem spáð var um, mun Jesús framkvæma kraftaverk í þágu alls mannkynsins. (Jesaja 9:6, 7; 11:1-10; Opinberunarbókin 20:6) Jesús læknar þá öll mein og bindur enda á dauðann. Hann reisir milljarða manna upp frá dauðum til þess að þeim gefist líka tækifæri til að lifa að eilífu á jörðinni. (Jóhannes 5:28, 29) Þér mun áreiðanlega finnast spennandi að lesa meira um Messíasarríki hans síðar í þessari bók. Vertu viss um eitt: Við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hve dásamlegt líf okkar verður undir stjórn Guðsríkis. Það er svo sannarlega mikilvægt að kynnast Jesú Kristi betur! Já, það er bráðnauðsynlegt að við missum aldrei sjónar á Jesú, hinum lifandi lykli að þekkingunni á Guði sem leiðir til eilífs lífs.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Þessi skrásetning auðveldaði Rómaveldi að innheimta skatta. Óafvitandi stuðlaði Ágústus þar af leiðandi að uppfyllingu spádóms um stjórnanda sem myndi ‚senda skattheimtumann til landsins.‘ Í sama spádómi var sagt að „sáttmálshöfðinginn,“ eða Messías, yrði ‚eyddur‘ á dögum eftirmanns þessa stjórnanda. Jesús var tekinn af lífi í stjórnartíð Tíberíusar, eftirmanns Ágústusar. — Daníel 11:20-22.

^ gr. 8 Algengt var meðal Gyðinga til forna að hugsa í sjöundum ára. Sjöundi hver dagur var til dæmis hvíldardagur og sjöunda hvert ár var á sama hátt hvíldarár. — 2. Mósebók 20:8-11; 23:10, 11.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvernig studdi ættleggur Jesú þá staðhæfingu hans að hann væri Messías?

Nefndu nokkra Messíasarspádóma sem uppfylltust á Jesú.

Hvernig sýndi Guð beinlínis að Jesús væri Hinn smurði?

Hvers vegna er Jesús hinn lifandi lykill að þekkingunni á Guði?

[Spurningar]

[Kort á blaðsíðu 37]

NOKKRIR EINSTAKIR MESSÍASARSPÁDÓMAR

SPÁDÓMUR ATBURÐUR UPPFYLLING

ÆSKA HANS

Jesaja 7:14 Fæddur af mey Matteus 1:18-23

Jeremía 31:15 Börn myrt eftir fæðingu Matteus 2:16-18

hans

PRÉDIKUN HANS

Jesaja 61:1, 2 Umboð hans frá Guði Lúkas 4:18-21

Jesaja 9:1, 2 Prédikun hans lét fólk Matteus 4:13-16

sjá mikið ljós

Sálmur 69:10 Vandlátur vegna húss Jehóva Jóhannes 2:13-17

Jesaja 53:1 Menn trúðu ekki á hann Jóhannes 12:37, 38

Sakaría 9:9; Innreið í Jerúsalem á ösnufola; Matteus21:1-9

hylltur sem konungur og sem

sá er kemur í nafni Jehóva

SVIKINN OG DEYDDUR

Sálmur 41:10; 109:8 Einn postuli ótrúr; svíkur Postulasagan

Jesú og annar kemur 1:15-20

í staðinn

Sakaría 11:12 Svikinn fyrir 30 Matteus26:14, 15

silfurpeninga

Sálmur 27:12 Falsvitni notuð gegn honum Matteus 26:59-61

Sálmur 22:19 Hlut kastað um kyrtil hans Jóhannes 19:23,

24

Jesaja 53:12 Talinn með syndurum Matteus 27:38

Sálmur 22:8, 9 Hrakyrtur á dánarstund Markús 15:29-32

Sálmur 69:22 Gefin vínsýra Markús 15:23, 36

Jesaja 53:5, NW; Stunginn Jóhannes 19:34, 37

Sakaría 12:10

Jesaja 53:9 Legstaður með ríkum Matteus 27:57-60

Sálmur 16:8-11, Reistur upp áður en hann Postulasagan

NW,neðanmáls rotnar 2:25-32; 13:34-37

[Mynd á blaðsíðu 35]

Guð gaf Jesú máttinn til að lækna sjúka.