Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Núna eru síðustu dagar!

Núna eru síðustu dagar!

11. kafli

Núna eru síðustu dagar!

1. Hvers vegna finnst sumum erfitt að átta sig á málunum þegar þeir virða fyrir sér ástand heimsmála en hvar er hægt að finna áreiðanlega útskýringu á heimsatburðunum?

 HVERNIG stendur á því að ástandið er orðið eins og raun ber vitni í þessum taumlausa heimi? Hvert stefnir mannkynið? Hefur þú einhvern tíma spurt slíkra spurninga? Mörgum finnst erfitt að átta sig á málunum þegar þeir virða fyrir sér heimsástandið. Blákaldur raunveruleiki eins og styrjaldir, sjúkdómar og glæpir lætur fólk velta fyrir sér hvernig framtíðin verði eiginlega. Stjórnmálaleiðtogar hafa ekki miklar vonir fram að færa. En Guð útskýrir í orði sínu hvers vegna við lifum slíka ólgutíma nú á dögum. Biblían veitir okkur áreiðanlegar upplýsingar um það hvar við erum stödd í tímans rás. Hún sýnir okkur að við lifum á hinum „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

2. Hvaða spurningu báru lærisveinar Jesú upp við hann og hvernig svaraði hann?

2 Hugleiddu til dæmis hvernig Jesús svaraði nokkrum spurningum sem lærisveinar hans báru fram. Þremur dögum fyrir dauða Jesú spurðu þeir hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ * (Matteus 24:3) Sem svar við því greindi Jesús frá sérstökum heimsatburðum og aðstæðum sem myndu sýna greinilega að síðustu dagar þessarar óguðlegu veraldar eða heimskerfis væru runnir upp.

3. Hvers vegna versnaði ástandið á jörðinni þegar Jesús hóf að ríkja?

3 Eins og sýnt var fram á í 10. kafla getum við dregið þá ályktun af tímatali Biblíunnar að Guðsríki sé nú þegar við völd. En hvernig má það vera? Ástand mála hefur versnað en ekki batnað. Í rauninni bendir það sterklega til þess að Guðsríki hafi tekið við völdum. Hvers vegna? Sálmur 110:2 segir okkur að um stund myndi Jesús ríkja ‚mitt á meðal óvina sinna.‘ Það fyrsta sem hann gerði sem konungur á himni var að varpa Satan og djöflaenglum hans niður til nágrennis jarðarinnar. (Opinberunarbókin 12:9) Hvaða áhrif hafði það? Nákvæmlega þau sem Opinberunarbókin 12:12 spáði: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Þessi ‚naumi tími‘ stendur núna yfir.

4. Hver eru nokkur einkenni hinna síðustu daga og hvað gefa þau til kynna? (Sjá ramma.)

4 Þegar Jesús var spurður að því hvert yrði tákn komu hans og enda veraldar er þess vegna engin furða að hann skuli hafa komið með svar sem kallar á alvarlega umhugsun. Ýmsa þætti þess tákns má finna í rammanum á blaðsíðu 102. Eins og sjá má, upplýsa kristnu postularnir Páll, Pétur og Jóhannes okkur nánar um hina síðustu daga. Flest einkenni táknsins og hinna síðustu daga tengjast vissulega aðstæðum sem eru mönnum mjög erfiðar. En uppfylling þessara spádóma ætti að sannfæra okkur um að endir þessarar illu veraldar eða heimskerfis er nálægur. Við skulum líta vandlega á nokkur helstu einkenni hinna síðustu daga.

EINKENNI HINNA SÍÐUSTU DAGA

5, 6. Hvernig hafa spádómar um hernaðarátök og hungursneyð uppfyllst?

5 „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4) Rithöfundurinn Ernest Hemingway kallaði fyrri heimsstyrjöldina „tröllauknustu, grimmilegustu og stjórnlausustu fjöldadráp sem átt hafa sér stað á jörðinni.“ Samkvæmt bókinni The World in the Crucible — 1914-1919 var hér á ferðinni „ný vídd í styrjöldum, fyrsta allsherjarstyrjöldin sem mannkynið hafði kynnst. Lengd hennar, harka og umfang var langt umfram það sem áður var þekkt eða almennt búist við.“ Síðan kom seinni heimsstyrjöldin sem olli miklu meiri eyðileggingu en sú fyrri. „Tuttugasta öldin,“ segir söguprófessorinn Hugh Thomas, „hefur einkennst af vélbyssunni, skriðdrekanum, B-52 flugvélinni, kjarnorkusprengjunni og að síðustu flugskeytinu. Hún hefur fengið að þola blóðugri og skaðlegri styrjaldir en nokkurt annað skeið sögunnar.“ Að vísu var mikið talað um afvopnun eftir að kalda stríðinu lauk. Samt var áætlað í einni skýrslunni að eftir fyrirhugaða fækkun yrðu enn eftir 10.000 til 20.000 kjarnaoddar — meira en 900-faldur sá sprengistyrkur sem notaður var í síðari heimsstyrjöldinni.

6 „Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:5, 6, 8) Frá 1914 hafa geisað að minnsta kosti 20 meiri háttar hungursneyðir. Meðal þeirra svæða, sem orðið hafa illa úti, eru Bangladess, Búrúndí, Eþíópía, Grikkland, Indland, Kambódía, Kína, Nígería, Rúanda, Rússland, Sómalía og Súdan. En það er ekki alltaf skortur á matvælum sem veldur hungursneyð. „Matvælabirgðir heimsins hafa á síðustu áratugum aukist hraðar en fólksfjöldinn,“ sagði hópur landbúnaðarvísindamanna og hagfræðinga. „En þar sem að minnsta kosti 800 milljónir manna búa ennþá við sára fátækt, . . . er þeim ókleift að kaupa nægilegt magn af þessum nægtum til að ná sér upp úr þrálátri vannæringu.“ Í öðrum tilvikum koma stjórnmálaafskipti við sögu. Dr. Abdelgalil Elmekki við Tórontóháskóla tilgreinir tvö dæmi þar sem þúsundir sveltu á sama tíma og lönd þeirra fluttu út óhemju magn matvæla. Ríkisstjórnirnar virtust hafa miklu meiri áhuga á að afla sér erlends gjaldeyris til að fjármagna styrjaldir sínar en að brauðfæða íbúana. Hver var niðurstaða dr. Elmekki? Hungursneyð er oft „spurning um dreifingu og stjórnarstefnu.“

7. Hvernig er málum háttað um drepsóttir nú á tímum?

7 „Drepsóttir.“ (Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8) Spænska inflúensan frá 1918-19 kostaði að minnsta kosti 21 milljón mannslífa. „Aldrei fyrr hefur herjað á heiminn tortímandi sem deyddi svo margar mannverur með svo skjótum hætti,“ skrifar A. A. Hoehling í bókinni The Great Epidemic. Nú á dögum geisa enn drepsóttir. Ár hvert deyja fimm milljónir úr krabbameini, meira en þrjár milljónir hvítvoðunga og barna verða niðurgangssóttum að bráð og berklar bana þremur milljónum. Sýking í öndunarfærum, einkum lungnabólga, dregur árlega 3,5 milljónir barna yngri en fimm ára til dauða. Og gífurlegur fjöldi manna — 2,5 milljarðar eða helmingur íbúa heimsins — þjáist af sjúkdómum sem eiga rætur að rekja til ónógs eða mengaðs vatns og lélegrar hreinlætisaðstöðu. Alnæmi er alvarleg áminning um að þrátt fyrir þýðingarmikil afrek læknisfræðinnar sé maðurinn ófær um að útrýma drepsóttum.

8. Hvernig er ljóst að ‚fégirnd‘ er mjög almenn?

8 „Mennirnir verða . . . fégjarnir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:2) Út um allan heim virðist fólk hafa óseðjandi löngun í meiri efni. „Velgengni“ manns er oft mæld eftir því hve mikið er í launaumslaginu og „afrek“ hans eftir eignum hans. „Efnishyggja mun halda áfram að vera ein af driffjöðrum bandarísks samfélags . . . og einnig sífellt mikilvægara afl á öðrum mörkuðum,“ lét framkvæmdastjóri auglýsingafyrirtækis hafa eftir sér. Er þetta þróun mála í þínu byggðarlagi?

9. Hvað má segja um þá óhlýðni við foreldra sem spáð var?

9 „Foreldrum óhlýðnir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:2) Foreldrar nú á tímum, kennarar og aðrir þekkja af eigin raun að mörg börn eru ókurteis og óhlýðin. Sum þessara barna eru annaðhvort að bregðast við eða líkja eftir slæmri hegðun foreldra sinna. Börn eru í auknum mæli að missa trúna á — og rísa upp gegn — skólanum, lögunum, trúarbrögðum og foreldrum sínum. „Þróunin virðist sú,“ segir gamalreyndur kennari, „að þau beri nánast enga virðingu fyrir einu né neinu.“ Til allrar hamingju sýna þó mörg guðhrædd börn fyrirmyndarhegðun.

10, 11. Hvað ber vitni um að menn séu grimmir og skorti eðlilegt kærleiksþel?

10 „Grimmir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:3) Gríska orðið, sem þýtt er „grimmir,“ merkir ‚ótaminn, villtur, skortandi mannlega samúð og tilfinningu.‘ Hversu vel hæfir þetta ekki mörgum ofbeldisseggjum nú á dögum. „Lífið er svo fullt af blóðugum hryllingi og öðru því sem getur valdið sálrænu áfalli að það þarf stáltaugar til að lesa fréttirnar á degi hverjum,“ sagði í leiðara dagblaðs. Öryggisvörður í fjölbýlishúsi benti á að margir unglingar virtust loka augunum fyrir afleiðingum gerða sinna. Hann sagði: „Þau virðast hugsa sem svo: ‚Ég veit ekkert hvað verður á morgun. Ég tek það sem ég vil í dag.‘“

11 „Kærleikslausir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:3) Þetta er þýðing á grísku orði sem merkir „harðbrjósta, ómennskur“ og felur í sér „skort á eðlilegu kærleiksþeli, eins og innan fjölskyldu.“ (The New International Dictionary of New Testament Theology) Já, kærleiksþel skortir oft í því umhverfi þar sem það ætti helst að blómstra — á heimilinu. Fréttir af misþyrmingum á mökum, börnum og jafnvel öldruðum foreldrum eru orðnar uggvænlega algengar. Rannsóknarhópur hafði þetta að segja: „Ofbeldi gagnvart fólki — hvort sem það eru pústrar eða hrindingar, hnífsstungur eða byssuskot — er tíðara innan fjölskyldunnar en á nokkrum öðrum stað í samfélagi okkar.“

12. Hvers vegna má segja að menn hafi aðeins á sér yfirskyn guðhræðslunnar?

12 „Hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:5) Biblían býr yfir krafti til að breyta lífi fólks til betri vegar. (Efesusbréfið 4:22-24) Samt nota margir nú á tímum trúarbrögð sín sem skálkaskjól fyrir alls konar athæfi sem er Guði vanþóknanlegt. Trúarleiðtogar horfa oft fram hjá lygum, þjófnaði og kynferðislegu siðleysi. Mörg trúfélög boða kærleika en styðja hernaðaraðgerðir. „Í nafni alvalds skapara,“ segir í ritstjórnargrein í tímaritinu India Today, „hefur maðurinn framið hin ægilegustu ódæðisverk gagnvart meðbræðrum sínum.“ Eins og kunnugt er brutust tvenn blóðugustu átökin á síðari tímum — fyrri og síðari heimsstyrjöldin — út í hjarta kristna heimsins.

13. Hvað ber þess vitni að verið sé að eyða jörðina?

13 ‚Eyða jörðina.‘ (Opinberunarbókin 11:18) Meira en 1600 vísindamenn frá öllum heimshornum, þar með taldir 104 nóbelsverðlaunahafar, skrifuðu undir viðvörun sem Samtök áhyggjufullra vísindamanna (Union of Concerned Scientists, skammstafað UCS) sendu frá sér, en þar segir: „Það stefnir í árekstur milli mannskepnunnar og lífríkisins. . . . Það eru ekki nema fáeinir áratugir þangað til ekki verður lengur mögulegt að afstýra hættunni.“ Þar sagði einnig að þeir lifnaðarhættir mannsins, sem ógnuðu lífinu, „kynnu að breyta heiminum í slíkum mæli að hann gæti ekki lengur viðhaldið lífi á þann hátt sem við þekkjum.“ Ósoneyðing, vatnsmengun, eyðing skóglendis, dvínandi frjósemi jarðvegs og útrýming margra dýra- og plöntutegunda var tilfært sem vandamál sem þyrfti tafarlaust að takast á við. „Hvernig við fiktum við lífríkið þar sem eitt kerfið er svo öðru háð,“ sögðu UCS-samtökin, „getur hrint af stað víðtækum áhrifum, meðal annars hruni lífkerfa sem við höfum takmarkaðan skilning á hvernig dafna.“

14. Hvernig gætir þú sannað að Matteus 24:14 sé að uppfyllast á okkar dögum?

14 „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ (Matteus 24:14) Jesús spáði að fagnaðarerindið um Guðsríki yrði prédikað um allan heim, öllum þjóðum til vitnisburðar. Með hjálp Guðs og blessun verja vottar Jehóva milljörðum klukkustunda til þessa verkefnis að prédika og gera menn að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20) Já, vottarnir gera sér ljóst að þeir væru blóðsekir ef þeir boðuðu ekki fagnaðarerindið. (Esekíel 3:18, 19) Það gleður þá mjög að á hverju ári skuli þúsundir manna bregðast þakklátar við boðskapnum um Guðsríki og skipa sér í raðir sannkristinna manna, það er að segja þeirra sem eru vottar um Jehóva. Það eru ómetanleg sérréttindi að fá að þjóna Jehóva og útbreiða þekkinguna á honum. Eftir að fagnaðarerindið hefur verið prédikað um alla heimsbyggðina kemur endir þessa illa kerfis.

LÁTTU VITNISBURÐINN HREYFA VIÐ ÞÉR

15. Hvernig endar hið núverandi illa heimskerfi?

15 Hvenær endar þetta heimskerfi? Biblían spáir ‚mikilli þrengingu‘ sem hefst með árás stjórnmálaafla þessa heims á ‚Babýlon hina miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða. (Matteus 24:21; Opinberunarbókin 17:5, 16) Jesús sagði að á þessu tímabili mundi „sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.“ (Matteus 24:29) Þetta kann að merkja bókstafleg fyrirbæri á himninum. Hvað sem því líður munu þeir sem „skína“ í trúmálaheiminum, frömuðir hans, verða afhjúpaðir og að engu gerðir. Þá mun Satan, kallaður „Góg í Magóglandi,“ nota spillta menn til að gera allsherjarárás á fólk Jehóva. En Satan mun ekki hafa árangur sem erfiði af því að Guð mun koma fólki sínu til bjargar. (Esekíel 38:1, 2, 14-23) „Sú mikla þrenging“ nær hámarki í Harmagedón, ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Það mun hreinsa út hverjar einustu leifar hins jarðneska skipulags Satans og opna endalausum blessunum leið til að streyma til þeirra manna sem lifa af. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 11:15; 16:14, 16; 21:3, 4.

16. Hvernig vitum við að það sem spáð var að einkenna myndi hina síðustu daga eigi við okkar tíma?

16 Einir sér gætu sumir hlutar spádómanna, sem lýsa hinum síðustu dögum, einnig virst eiga við önnur tímaskeið sögunnar. En séu allir þættir þeirra hins vegar lagðir saman benda þeir tvímælalaust á okkar daga. Þetta má skýra með dæmi: Línurnar á fingri manns mynda í sameiningu fingraför eða mynstur sem enginn annar getur átt. Á svipaðan hátt hafa hinir síðustu dagar sitt eigið mynstur tákna eða atburða. Þeir mynda „fingraför“ sem eiga ekki við nokkurt annað tímabil. Þegar við þar að auki tökum inn í myndina þá ritningarstaði sem sýna að himneskt ríki Guðs sé nú þegar við völd, höfum við traustan grundvöll til að álykta að núna séu svo sannarlega hinir síðustu dagar. Við þetta má svo bæta að Biblían sýnir skýrt og skilmerkilega að þess sé skammt að bíða að hinu núverandi illa heimskerfi verði eytt.

17. Hvað ætti vitneskjan um að núna séu hinir síðustu dagar að fá okkur til að gera?

17 Hvernig ætlar þú að bregðast við vitnisburðinum um að núna séu hinir síðustu dagar? Hugleiddu þetta: Ef ofsaveður er í aðsigi gerum við varúðarráðstafanir án tafar. Það sem Biblían spáir að komi fyrir núverandi heimskerfi ætti alveg eins að knýja okkur til athafna. (Matteus 16:1-3) Við getum greinilega séð að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. Það ætti að fá okkur til að gera hverjar þær lagfæringar sem þörf er á til að öðlast velþóknun Guðs. (2. Pétursbréf 3:3, 10-12) Jesús vísar á sjálfan sig sem miðlara hjálpræðisins og kemur með þessa áríðandi hvatningu: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ — Lúkas 21:34-36.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Skýringaritið Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine segir að gríska orðið aíon, sem íslenska biblían þýðir hér með orðinu „veröld,“ „merki tímabil af ótilgreindri lengd, eða tímaskeið sem skoðað er út frá því sem á sér stað á því sérstaka tímabili.“

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvað átti, samkvæmt spádómum Biblíunnar, að gerast í heiminum þegar Kristur byrjaði að ríkja?

Hver eru nokkur einkenni hinna síðustu daga?

Hvað sannfærir þig um að núna séu hinir síðustu dagar?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 102]

NOKKUR EINKENNI HINNA SÍÐUSTU DAGA

• Hernaður sem á sér ekkert fordæmi. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4.

• Hungursneyð. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:5, 6, 8.

• Drepsóttir. — Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8.

• Lögleysi magnast. — Matteus 24:12.

• Eyðing jarðarinnar. — Opinberunarbókin 11:18.

• Jarðskjálftar. — Matteus 24:7.

• Örðugir tímar. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

• Gegndarlaus fégirnd. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

• Óhlýðni við foreldra. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

• Kærleiksleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

• Munaðarlífið elskað meira en Guð. — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

• Taumleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

• Menn elska ekki það sem gott er. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

• Yfirvofandi hættu enginn gaumur gefinn. — Matteus 24:39.

• Spottarar hafna sönnunum um síðustu daga. — 2. Pétursbréf 3:3, 4.

• Guðsríki prédikað um allan heim. — Matteus 24:14.

[Heilsíðumynd á bls. 101]