Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Settu þér það mark að þjóna Guði að eilífu

Settu þér það mark að þjóna Guði að eilífu

18. kafli

Settu þér það mark að þjóna Guði að eilífu

1, 2. Hvað þarf meira til en að búa yfir þekkingu á Guði?

 ÍMYNDAÐU þér að þú standir fyrir framan læstar dyr að herbergi þar sem mikill fjársjóður er inni. Segjum að einhver, sem til þess hafi heimild, hafi gefið þér lykilinn og sagt þér að ganga í þennan fjársjóð að vild. Sá lykill kemur þér að engu gagni nema þú notir hann. Eins verður þú að nota þekkingu, eigi hún að koma þér að notum.

2 Þetta á alveg sérstaklega við um þekkinguna á Guði. Nákvæm þekking á Jehóva Guði og Jesú Kristi getur leitt til eilífs lífs. (Jóhannes 17:3) Sá möguleiki verður þó ekki að veruleika við það eitt að búa yfir þekkingu. Þú þarft að beita þekkingunni á Guði í lífi þínu, alveg eins og þú myndir nota dýrmætan lykil. Jesús sagði að þeir sem gera vilja Guðs muni „ganga inn í himnaríki.“ Slíkir einstaklingar fá þau sérréttindi að þjóna Guði að eilífu! — Matteus 7:21; 1. Jóhannesarbréf 2:17.

3. Hvað vill Guð að við gerum?

3 Eftir að hafa lært hver sé vilji Guðs er lífsnauðsynlegt að gera hann. Hvað heldur þú að Guð vilji að þú gerir? Það má draga saman í þrjú orð: Líkir eftir Jesú. Fyrra Pétursbréf 2:21 segir: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ Til að gera vilja Guðs þarft þú þar af leiðandi að fylgja fordæmi Jesú eins nákvæmlega og hægt er. Það er á þann hátt sem þú notar þekkinguna á Guði.

HVERNIG JESÚS NOTAÐI ÞEKKINGUNA Á GUÐI

4. Hvers vegna veit Jesús svona mikið um Jehóva og hvernig hefur hann notað þessa þekkingu?

4 Jesús Kristur býr yfir meiri þekkingu á Guði en nokkur annar. Hann bjó og starfaði með Jehóva Guði á himni í óratíma áður en hann kom til jarðarinnar. (Kólossubréfið 1:15, 16) Hvað gerði Jesús við alla þessa þekkingu? Hann lét sér ekki nægja að búa einungis yfir henni. Hann lifði samkvæmt henni. Þess vegna var hann svona vingjarnlegur, þolinmóður og kærleiksríkur í samskiptum sínum við annað fólk. Þannig líkti Jesús eftir himneskum föður sínum og breytti í samræmi við þekkingu sína á háttum Jehóva og persónuleika. — Jóhannes 8:23, 28, 29, 38; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

5. Hvers vegna lét Jesús skírast og hvernig stóð hann við það sem hann tók á sig með skírninni?

5 Þekkingin, sem Jesús hafði, fékk hann líka til að stíga þýðingarmikið skref. Hann fór frá Galíleu til Jórdanárinnar þar sem Jóhannes skírði hann. (Matteus 3:13-15) Hvað táknaði skírn Jesú? Sem Gyðingur fæddist hann inn í þjóð sem var vígð Guði. Þar af leiðandi hafði Jesús verið vígður frá fæðingu. (2. Mósebók 19:5, 6) Með því að láta skírast bauð hann sig Jehóva til að gera það sem var vilji Guðs með hann á þeim tíma. (Hebreabréfið 10:5, 7) Jesús stóð við það sem hann tók á sig með skírninni. Hann lagði sig allan fram í þjónustu Jehóva og notaði hvert tækifæri til að miðla mönnum af þekkingu sinni á Guði. Jesús hafði yndi af því að gera vilja Guðs og hann sagði jafnvel að það væri eins og matur fyrir sig. — Jóhannes 4:34.

6. Á hvaða hátt afneitaði Jesús sjálfum sér?

6 Jesús gerði sér að fullu ljóst að það yrði honum dýrkeypt að gera vilja Jehóva og myndi jafnvel kosta hann lífið. Engu að síður afneitaði Jesús sjálfum sér og lét sínar eigin þarfir mæta afgangi. Að gera vilja Guðs hafði alltaf forgang. Hvernig getum við fylgt fullkomnu fordæmi Jesú hvað þetta snertir?

SKREF SEM LEIÐA TIL EILÍFS LÍFS

7. Nefndu nokkur skref sem stíga verður til að vera hæfur til skírnar.

7 Við erum ekki fullkomin eins og Jesús og verðum þess vegna að stíga nokkur mikilvæg skref til að ná þeim áfanga að geta látið skírast. Það fyrsta sem við þurfum að gera er að afla okkur nákvæmrar þekkingar á Jehóva Guði og Jesú Kristi og láta hana ná til hjartans. Þegar við gerum það fær það okkur til að sýna trú og bera djúpan kærleika til Guðs. (Matteus 22:37-40; Rómverjabréfið 10:17; Hebreabréfið 11:6) Löngun okkar til að fylgja lögum Guðs, frumreglum og stöðlum ætti að fá okkur til að iðrast og af guðhræðslu láta í ljós hryggð vegna fyrri synda. Það leiðir til sinnaskipta, það er að segja að við snúum okkur og hverfum af sérhverri rangri braut sem við fylgdum þegar við bjuggum ekki yfir þekkingu á Guði. (Postulasagan 3:19) Ef við erum enn að iðka í laumi einhverja synd í stað þess að breyta rétt höfum við að sjálfsögðu hvorki snúið okkur í raun og veru né heldur blekkt Guð. Jehóva sér í gegnum alla hræsni. — Lúkas 12:2, 3.

8. Hvað ættir þú að gera ef þig langar til að taka þátt í prédikunarstarfinu?

8 Þar sem þú hefur núna aflað þér þekkingar á Guði finnst þér þá ekki við hæfi að íhuga hvernig þessi andlegu mál snerta þig persónulega? Líklega vilt þú ákafur segja ættingjum þínum, vinum og öðrum frá því sem þú ert að læra. Vera má að þú sért þegar farinn að gera það, alveg eins og Jesús sagði öðrum frá fagnaðarerindinu við óformlegar aðstæður. (Lúkas 10:38, 39; Jóhannes 4:6-15) Núna langar þig kannski til að gera meira. Kristnir öldungar munu með ánægju tala við þig til að komast að raun um hvort þú sért fær um að taka þátt í boðunarstarfi votta Jehóva og uppfyllir skilyrðin sem sett eru. Ef þú gerir það munu öldungarnir ganga þannig frá málum að þú getir farið með votti út í boðunarstarfið. Lærisveinar Jesú fylgdu leiðbeiningum hans til þess að starf þeirra færi skipulega fram. (Markús 6:7, 30; Lúkas 10:1) Sams konar aðstoð kemur þér að notum þegar þú átt hlutdeild í að útbreiða boðskapinn um Guðsríki hús úr húsi og á annan hátt. — Postulasagan 20:20, 21.

9. Hvernig vígir maður sig Guði og hvernig hefur slík vígsla áhrif á líf manns?

9 Góð leið til að finna þá sem hneigjast til réttlætis er að boða fagnaðarerindið alls konar fólki á starfssvæði safnaðarins. Það starf er eitt af þeim góðu verkum sem sanna að þú hefur trú. (Postulasagan 10:34, 35; Jakobsbréfið 2:17, 18, 26) Ef þú sækir kristnar samkomur reglulega og tekur virkan þátt í boðunarstarfinu sýnir þú líka að þú hafir iðrast og tekið sinnaskiptum og sért núna staðráðinn í að lifa í samræmi við þekkinguna á Guði. Hvert er næsta rökrétta skrefið? Það er að vígja sig Jehóva Guði. Það þýðir að þú segir Guði í einlægri bæn að þú gefir honum af fúsum vilja og öllu hjarta líf þitt til að gera vilja hans. Það er leiðin til að vígja sig Jehóva og taka á sig hið ljúfa ok Jesú Krists. — Matteus 11:29, 30.

ÞÝÐING SKÍRNARINNAR FYRIR ÞIG

10. Hvers vegna ættir þú að láta skírast eftir að þú hefur vígt þig Jehóva?

10 Jesús mælti fyrir um að allir sem gerast lærisveinar hans verði að láta skírast. (Matteus 28:19, 20) Hvers vegna er það nauðsynlegt eftir að þú hefur vígt þig Guði? Jehóva veit að þú elskar hann af því að þú hefur vígt þig honum. En þú vilt vafalaust stíga frekari skref til þess að láta aðra vita um kærleika þinn til Guðs. Með skírninni gefst þér tækifæri til að gera vígslu þína til Jehóva Guðs heyrinkunnuga. — Rómverjabréfið 10:9, 10.

11. Hver er merking skírnarinnar?

11 Skírnin er þrungin táknrænni merkingu. Þegar þú ert færður í kaf, eða „grafinn,“ í vatnið er eins og þú sért dáinn þinni fyrri lífsstefnu. Þegar þú kemur upp úr vatninu er eins og þú komir fram til að hefja nýtt líf, líf sem stjórnast af vilja Guðs en ekki þínum eigin. Það þýðir vitaskuld ekki að þér verði aldrei framar á mistök, af því að við erum öll ófullkomin og syndgum þar af leiðandi daglega. Sem vígður, skírður þjónn Jehóva mun samband þitt við hann aftur á móti vera sérstakt. Vegna þess að þú hefur iðrast og í auðmýkt gengist undir skírn er Jehóva fús til að fyrirgefa þér syndir þínar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Skírn leiðir þannig til hreinnar samvisku frammi fyrir Guði. — 1. Pétursbréf 3:21.

12. Hvað þýðir það að vera skírður (a) „í nafni föður“? (b) ‚í nafni sonar‘? (c) ‚í nafni heilags anda‘?

12 Jesús gaf fylgjendum sínum þau fyrirmæli að skíra nýja lærisveina „í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matteus 28:19) Hvað átti Jesús við? Skírn „í nafni föður“ gefur til kynna að sá sem verið er að skíra fallist af öllu hjarta á að Jehóva Guð sé skaparinn og réttmætur drottinvaldur alheimsins. (Sálmur 36:10; 83:19; Prédikarinn 12:1) Að vera skírður ‚í nafni sonar‘ þýðir að skírnþeginn viðurkennir Jesú Krist — og sér í lagi lausnarfórn hans — sem einu hjálpræðisleiðina sem Guð veitir mönnum. (Postulasagan 4:12) Skírn ‚í nafni heilags anda‘ merkir að skírnþeginn gerir sér ljóst að heilagur andi Jehóva, starfskraftur hans, sé verkfæri Guðs til að koma fyrirætlunum sínum í framkvæmd og gefa þjónum sínum kraft til að gera réttlátan vilja hans í samvinnu við skipulag hans sem hann leiðir með anda sínum. — 1. Mósebók 1:2; Sálmur 104:30; Jóhannes 14:26; 2. Pétursbréf 1:21.

ERT ÞÚ TILBÚINN AÐ LÁTA SKÍRAST?

13, 14. Hvers vegna ættum við ekki að óttast að velja það að þjóna Jehóva Guði?

13 Er skírnin skref sem þú ættir að hræðast vegna þess að hún hefur svona mikla þýðingu og er mikilvægasti áfanginn í lífi manns? Alls ekki! Þó að þú ættir að sjálfsögðu ekki að líta á það sem lítið mál að ákveða að láta skírast er það tvímælalaust viturlegasta ákvörðunin sem þú nokkurn tíma getur tekið.

14 Skírnin ber vitni um að þú hafir valið að þjóna Jehóva Guði. Hugsaðu til þeirra sem þú þekkir. Þjóna þeir ekki allir einhverjum herra á einn eða annan hátt? Sumir eru mammonsþrælar. (Matteus 6:24) Aðrir leggja allt kapp á að ná sem lengst í starfsgrein sinni, ellegar þeir þjóna sjálfum sér með því að setja uppfyllingu eigin óska fremst í lífi sínu. Enn aðrir þjóna falsguðum. En þú hefur kosið að þjóna hinum sanna Guði, Jehóva. Enginn annar sýnir eins mikla gæsku, meðaumkun og kærleika. Guð göfgar menn með því að veita þeim tilgangsríkt starf sem vísar þeim veginn til frelsunar. Hann umbunar þjónum sínum með eilífu lífi. Þú hefur sannarlega enga ástæðu til að óttast það að fylgja fordæmi Jesú og helga Jehóva líf þitt. Það er í rauninni eina stefnan í lífinu sem er Guði þóknanleg og fullkomið vit er í. — 1. Konungabók 18:21.

15. Hvað hamlar sumum að láta skírast?

15 Skírnin er þó ekki skref sem þú ættir að stíga vegna utanaðkomandi þrýstings. Hún er einkamál milli þín og Jehóva. (Galatabréfið 6:4) Þegar þér hefur miðað áfram í andlegu tilliti hefur þessi spurning kannski komið upp í huga þinn: „Hvað hamlar mér að skírast?“ (Postulasagan 8:35, 36) Þú gætir spurt sjálfan þig: ‚Heldur andstaða fjölskyldunnar aftur af mér? Er ég ennþá flæktur í eða að fást við eitthvað sem er óbiblíulegt eða syndugt? Gæti verið að ég sé hræddur við að falla í áliti í samfélaginu?‘ Þetta er sumt af því sem þú ættir að hugleiða en leggðu raunsætt mat á vægi þessara þátta.

16. Hvaða gagn munt þú hafa af því að þjóna Jehóva?

16 Það er ekki raunsætt að meta kostnaðinn án þess að taka samtímis með í reikninginn hagnaðinn af því að þjóna Jehóva. Íhugaðu til dæmis andstöðu af hálfu fjölskyldunnar. Jesús lofaði að jafnvel þótt svo færi að ættingjar lærisveina hans sneru við þeim baki, vegna þess að þeir fylgdu honum, fengju þeir mun stærri andlega fjölskyldu. (Markús 10:29, 30) Þessir trúfélagar munu sýna þér bróðurkærleika, hjálpa þér að standast ofsóknir og veita þér stuðning á veginum til lífsins. (1. Pétursbréf 5:9) Sér í lagi geta öldungar safnaðarins hjálpað þér að takast með góðum árangri á við vandamál og aðrar erfiðar aðstæður sem upp koma. (Jakobsbréfið 5:14-16) Varðandi það að falla í áliti í þessum heimi gætir þú spurt sjálfan þig: ‚Hvað kemst hugsanlega í samjöfnuð við það að eiga velþóknun skapara alheimsins og hafa valið lífsstefnu sem gleður hann?‘ — Orðskviðirnir 27:11.

LÍF SEM ER Í SAMRÆMI VIÐ VÍGSLU ÞÍNA OG SKÍRN

17. Hvers vegna ættir þú að líta á skírnina sem upphaf frekar en endi?

17 Mikilvægt er að muna að andlegum þroska lýkur ekki með skírninni. Skírnin markar þvert á móti upphaf ævilangrar þjónustu við Guð sem vígður þjónn orðsins og einn af vottum Jehóva. Þó að skírnin hafi geysilega þýðingu er hún ekki trygging fyrir hjálpræði. Jesús sagði ekki: ‚Hver sá sem lætur skírast mun hólpinn verða.‘ Þess í stað sagði hann: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Þar af leiðandi er bráðnauðsynlegt að þú leitir fyrst Guðsríkis með því að láta líf þitt snúast um það framar öllu öðru. — Matteus 6:25-34.

18. Nefndu nokkur markmið sem stefna skyldi að eftir skírnina.

18 Til að láta ekki deigan síga í þjónustu þinni við Jehóva þarft þú að setja þér andleg markmið. Eitt verðugt mark til að stefna að er að hafa reglubundið einkanám í orði Guðs til þess að auka þekkingu sína á honum. Hafðu það á dagskrá þinni að lesa Biblíuna daglega. (Sálmur 1:1, 2) Sæktu kristnar samkomur að staðaldri. Þeir sem þú umgengst þar munu hjálpa þér að verða andlega sterkur. Hví ekki að setja sér líka það mark að gefa athugasemdir á safnaðarsamkomum og vegsama með því Jehóva og leitast við að uppbyggja aðra? (Rómverjabréfið 1:11, 12) Enn eitt markmið gæti verið að biðja innihaldsríkari bæna. — Lúkas 11:2-4.

19. Hvaða eiginleika getur heilagur andi hjálpað þér að sýna?

19 Ef líf þitt á að vera í samræmi við merkingu skírnar þinnar þarft þú sífellt að gefa gætur að því sem þú gerir og láta heilagan anda Guðs glæða hjá þér eiginleika eins og kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi eða sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23; 2. Pétursbréf 3:11) Mundu að Jehóva gefur heilagan anda sinn öllum þeim sem biðja um hann og hlýða Guði sem trúfastir þjónar hans. (Lúkas 11:13; Postulasagan 5:32) Biddu þess vegna Guð um anda hans og biddu hann líka að hjálpa þér að sýna eiginleika sem eru honum þóknanlegir. Slíkir eiginleikar munu koma æ betur í ljós í tali þínu og hegðun eftir því sem þú lætur anda Guðs hafa áhrif á þig. Að sjálfsögðu er hver einstaklingur í kristna söfnuðinum að leitast við að ‚íklæðast hinum nýja manni‘ — þroska með sér nýjan persónuleika — til þess að líkjast Kristi enn meir. (Kólossubréfið 3:9-14) Í þeirri viðleitni þurfum við að yfirstíga mismunandi hindranir sökum þess að við erum mislangt komin í andlegum þroska. Þar sem þú ert ófullkominn verður þú að leggja hart að þér til að ‚íklæðast‘ eiginleikum sem líkjast þeim er Kristur sýndi. En þú skalt aldrei örvænta um árangur því að þetta er hægt með hjálp Guðs.

20. Á hvaða vegu getur þú líkt eftir Jesú í boðunarstarfinu?

20 Eitt þeirra andlegu markmiða, sem þú ættir að setja þér, er að líkjast Jesú meira í því að þjóna með gleði. (Hebreabréfið 12:1-3) Hann elskaði boðunarstarfið. Ef þú hefur þau sérréttindi að eiga þátt í prédikunarstarfinu um Guðsríki þá skaltu ekki láta það verða aðeins vanaverk. Leitastu við að hafa, eins og Jesús, innilega ánægju af því að fræða aðra um ríki Guðs. Notfærðu þér leiðbeiningarnar sem söfnuðurinn lætur í té til að hjálpa þér að taka framförum sem kennari. Vertu þar að auki fullviss um að Jehóva getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að sinna vel þjónustu þinni. — 1. Korintubréf 9:19-23.

21. (a) Hvernig vitum við að Jehóva lítur á trúfasta, skírða einstaklinga sem gersemar? (b) Hvað sýnir að skírnin sé okkur mikilvæg til þess að lifa af þegar Guð fullnægir dómi sínum á þessu illa heimskerfi?

21 Sá sem er vígður og skírður og leitast trúfastur við að fylgja Jesú er einstakur í augum Guðs. Jehóva, sem rannsakar hjörtu allra þeirra milljóna manna sem til eru, veit hve fátíðir slíkir menn eru. Hann telur þá vera fjársjóði, „gersemar.“ (Haggaí 2:7) Biblíuspádómar sýna að slíkir menn hafa í augum Guðs fengið á sig „merki“ sem táknar að þeir muni lifa af þegar hann fullnægir innan skamms dómi sínum á þessu illa heimskerfi. (Esekíel 9:1-6; Malakí 3:16, 18) Ert þú ‚ætlaður [„réttilega hneigður,“ NW] til eilífs lífs‘? (Postulasagan 13:48) Er það einlæg löngun þín að vera „merktur“ sem þjónn Guðs? Vígsla og skírn eru hluti af því „merki“ og alger nauðsyn til að lifa af.

22. Hvaða framtíðarvon hefur hinn ‚mikli múgur‘?

22 Eftir að flóðið, sem náði um alla jörðina, sjatnaði komu Nói og fjölskylda hans út úr örkinni inn á hreinsaða jörð. „Mikill múgur,“ sem notar þekkinguna á Guði í lífi sínu og öðlast velþóknun Jehóva, hefur á sama hátt nú á tímum von um að lifa af endi þessa illa heimskerfis og lifa að eilífu á jörð sem ávallt verður hrein. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Hvernig verður það líf?

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvernig vill Jehóva að þú notir þekkingu þína á honum?

Nefndu nokkur skref sem leiða til skírnar.

Hvers vegna er skírn ekki endir heldur upphaf?

Hvernig getum við lifað í samræmi við vígslu okkar og skírn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 172]

Hefur þú vígt þig Guði í bæn?

[Mynd á blaðsíðu 174]

Hvað hamlar þér að skírast?