Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stattu gegn illum andaverum

Stattu gegn illum andaverum

12. kafli

Stattu gegn illum andaverum

1. Hvernig brást Jesús við þegar hann stóð andspænis illum öndum?

 STRAX eftir skírn sína fór Jesús Kristur út í eyðimörk Júdeu til að biðjast fyrir og hugleiða. Þar reyndi Satan djöfullinn að fá hann til að brjóta lög Guðs. En Jesús hafnaði tálbeitu djöfulsins og lét hann ekki veiða sig í gildru. Jesús stóð andspænis öðrum illum öndum meðan hann þjónaði hér á jörð. Hann ávítaði þá hvað eftir annað og stóð gegn þeim. — Lúkas 4:1-13; 8:26-34; 9:37-43.

2. Hvaða spurningar tökum við til athugunar?

2 Frásagnir Biblíunnar af þessum samfundum ættu að sannfæra okkur um að illar andaverur séu til. Þær reyna að leiða fólk á villigötur en við getum séð við þeim. Hvaðan koma illir andar? Hvers vegna reyna þeir að blekkja menn? Hvaða aðferðum beita þeir til að ná markmiði sínu? Ef við finnum svörin við slíkum spurningum hjálpar það okkur að standa gegn illum andaverum.

ILLIR ANDAR — UPPRUNI ÞEIRRA OG MARKMIÐ

3. Hvernig varð Satan djöfullinn til?

3 Jehóva Guð skapaði aragrúa andavera löngu áður en hann skapaði manninn. (Jobsbók 38:4, 7) Eins og útskýrt er í 6. kafla glæddi einn þessara engla með sér löngun til að láta mennina tilbiðja sig í stað þess að tilbiðja Jehóva. Til að ná því fram stóð þessi illi engill gegn skaparanum og rægði hann, hélt því jafnvel fram við fyrstu konuna að Guð væri lygari. Það var því vel við hæfi að þessi uppreisnargjarna andavera yrði þekkt sem Satan (andstæðingur) djöfullinn (rógberi). — 1. Mósebók 3:1-5; Jobsbók 1:6.

4. Hvernig syndguðu sumir englar á dögum Nóa?

4 Seinna skipuðu aðrir englar sér við hlið Satans djöfulsins. Á dögum hins réttláta manns Nóa yfirgáfu sumir þeirra þjónustu sína á himni og klæddust holdlegum líkömum til að fullnægja fýsn sinni í kynmök við jarðneskar konur. Vafalaust var það fyrir áhrif Satans að þessir englar óhlýðnuðust Guði á þennan hátt. Afleiðingin varð sú að þeir urðu feður bastarða sem nefndir voru nefilim (NW) og urðu risar og yfirgangsseggir. Þegar Jehóva lét flóðið mikla skella yfir eyddi það spilltu fólki og þessum ónáttúrlegu afkvæmum óhlýðnu englanna. Uppreisnargjörnu englarnir sluppu við eyðingu með því að afklæðast holdlegum líkömum sínum og hverfa til andasviðsins á ný. En Guð setti hömlur á þessa illu anda með því að halda þeim útlægum í andlegu myrkri. (1. Mósebók 6:1-7, 17; Júdasarbréfið 6) Satan, ‚höfðingi illu andanna,‘ og illir englar hans hafa engu að síður haldið ótrauðir áfram uppreisn sinni. (Lúkas 11:15) Hverju keppa þeir að?

5. Hvert er takmark Satans og illra anda hans og hvað nota þeir til að ginna fólk?

5 Satan og illu andarnir keppa að því í vonsku sinni að snúa fólki gegn Jehóva Guði. Þessar illu verur hafa þess vegna afvegaleitt, hrætt og ráðist á fólk frá því að sögur hófust. (Opinberunarbókin 12:9) Dæmi frá okkar tímum staðfesta að árásir illu andanna eru illskeyttari núna en þær hafa nokkurn tíma áður verið. Til að ginna fólk nota illu andarnir oft spíritisma í öllum sínum myndum. Hvernig beita illu andarnir þessum brögðum og hvernig getur þú varið þig?

HVERNIG ILLIR ANDAR REYNA AÐ LEIÐA ÞIG AFVEGA

6. Hvað er spíritismi og hverjar eru nokkrar myndir hans?

6 Hvað er spíritismi eða andatrú? Það er að komast í samband við illa anda, annaðhvort beint eða í gegnum mennskan miðil. Illir andar nota spíritisma á sama hátt og veiðimenn nota agn: til að laða bráðina að. Á sama hátt og veiðimaður notar margs konar agn til að lokka dýr í gildrur sínar, ýta illir andar undir ýmsar myndir spíritisma til að ná fólki undir áhrifavald sitt. (Samanber Sálm 119:110.) Nokkrar þessara mynda eru það að fara með spásagnir eða galdur, leita fyrirboða, magna seið, leggja á álög, leita ráða hjá andamiðli og leita frétta af framliðnum.

7. Hversu útbreiddur er spíritisminn og hvers vegna blómstrar hann jafnvel í svonefndum kristnum löndum?

7 Agnið virkar því að spíritisminn dregur að sér fólk um allan heim. Þeir sem búa í frumskógarþorpum fara til töfralækna og skrifstofufólk í borgum leitar ráða hjá stjörnuspekingum. Spíritisminn blómstrar jafnvel í svonefndum kristnum löndum. Kannanir sýna að í Bandaríkjunum einum eru um 30 tímarit helguð ýmsum tegundum spíritisma og er samanlagt upplag þeirra meira en 10.000.000 eintaka. Brasilíumenn eyða ár hvert meira en 35 milljörðum króna í hluti sem tengjast spíritisma. Áttatíu af hundraði þeirra sem venja komur sínar á spíritistasamkomur þar í landi eru skírðir kaþólikkar sem einnig sækja messu. Þar eð sumir klerkar iðka spíritisma heldur margt trúað fólk að slík iðkun sé Guði þóknanleg. En er það svo?

HVERS VEGNA BIBLÍAN FORDÆMIR IÐKUN SPÍRITISMA

8. Hvert er hið biblíulega viðhorf til spíritisma?

8 Ef þér hefur verið kennt að sumar myndir spíritisma séu leiðir til að ná sambandi við góða anda kemur það sem Biblían segir um spíritisma þér ef til vill á óvart. Þjóð Jehóva fékk þessa viðvörun: „Farið ekki til þeirra, sem fara til frétta af dauðum, eða spásagnarmanna; farið ei til frétta við þá, að þér saurgist ekki af þeim.“ (3. Mósebók 19:31; 20:6, 27, Bi. 1859) Opinberunarbókin í Biblíunni varar við að „töframenn [„þeir sem iðka spíritisma,“ NW]“ muni enda í „díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar [eilífi] dauði.“ (Opinberunarbókin 21:8; 22:15) Jehóva hefur vanþóknun á öllum tegundum spíritisma. (5. Mósebók 18:10-12) Hvers vegna?

9. Af hverju getum við ályktað að boðskapur frá andaheiminum nú á tímum sé ekki frá Jehóva?

9 Áður en Biblían var fullgerð sendi Jehóva góða anda, eða réttláta engla, til að koma boðum til vissra manna. Frá því að ritun Biblíunnar var lokið hefur hún veitt þá leiðsögn sem menn þurfa til að geta þjónað Jehóva á þann hátt sem hann viðurkennir. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Hebreabréfið 1:1, 2) Hann sniðgengur ekki sitt heilaga orð með því að gefa miðlum einhvern boðskap. Allur boðskapur nú á tímum frá andaheiminum kemur frá illum öndum. Iðkun spíritisma getur leitt til áreitni illra anda eða jafnvel til þess að menn verði haldnir illum öndum. Þess vegna varar Guð okkur af kærleika við að flækjast í spíritistaiðkanir. (5. Mósebók 18:14; Galatabréfið 5:19-21) Ef við héldum áfram að iðka spíritisma eftir að hafa kynnst viðhorfi Jehóva til hans værum við að taka afstöðu með hinum uppreisnargjörnu illu öndum og yrðum óvinir Guðs. — 1. Samúelsbók 15:23; 1. Kroníkubók 10:13, 14; Sálmur 5:5.

10. Hvað eru spásagnir og hvers vegna ættum við að forðast þær?

10 Ein vinsæl mynd spíritismans er spásagnir — tilraun til að skyggnast inn í framtíðina eða hið óþekkta með hjálp anda. Spásagnir eru meðal annars stjörnuspeki, það að horfa í kristalskúlu, draumaráðningar, lófalestur og það að spá í spil, eins og tarotspil. Margir líta á spásagnir sem meinlaust gaman en Biblían sýnir að spásagnamenn og illir andar eru nátengdir. Til dæmis nefnir Postulasagan 16:16-19 „spásagnaranda“ sem gerði stúlku nokkurri kleift að „spá.“ Hæfileiki hennar til að segja fyrir um framtíðina glataðist hins vegar þegar illi andinn var rekinn úr henni. Spásagnir eru greinilega agn sem illu andarnir nota til að lokka fólk í gildru sína.

11. Hvernig leiða tilraunir til að hafa samband við hina látnu fólk í gildru?

11 Ef þú ert í sorg vegna láts ástkærs fjölskyldumeðlims eða náins vinar gætir þú auðveldlega látið annað agn ginna þig. Andamiðill veitir þér ef til vill sérstakar upplýsingar eða talar með röddu sem virðist vera rödd hins látna. Gættu þín! Tilraunir til að eiga tjáskipti við hina látnu leiða í gildru. Af hverju? Af því að hinir látnu geta ekki talað. Þú manst sjálfsagt að orð Guðs segir greinilega að þegar menn deyja ‚verði þeir aftur að jörðu, á þeim degi verði áform þeirra að engu.‘ Hinir dauðu „vita ekki neitt.“ (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5, 10) Við ákveðin tækifæri hafa illu andarnir átt það til að líkja eftir rödd framliðins manns og veita andamiðli upplýsingar um hinn látna. (1. Samúelsbók 28:3-19) Hver ‚sá er leitar frétta af framliðnum‘ er þar af leiðandi að láta illa anda ginna sig í snöru og breytir þvert gegn vilja Jehóva Guðs. — 5. Mósebók 18:11, 12; Jesaja 8:19.

ÞEIR RÁÐAST Á ÞÁ SEM ÞEIR GETA EKKI LOKKAÐ

12, 13. Hvað ber því vitni að illu andarnir haldi ótrauðir áfram að freista manna og áreita þá?

12 Ef þú fylgir ráðleggingum orðs Guðs um spíritisma lítur þú ekki við agni illu andanna. (Samanber Sálm 141:9, 10; Rómverjabréfið 12:9.) Þýðir það að illu andarnir hætti að reyna að hremma þig? Því fer fjarri! Eftir að Satan hafði freistað Jesú þrisvar „vék hann frá honum að sinni.“ (Lúkas 4:13) Illu andarnir reyna ekki aðeins að lokka til sín menn; þeir ráðast líka á þá.

13 Rifjaðu upp fyrri athugun okkar á árás Satans á Job, þjón Guðs. Djöfullinn lét hann missa búpening sinn og olli dauða flestra þjóna hans. Satan deyddi jafnvel börn Jobs. Því næst sló hann Job kvalafullum sjúkdómi. En Job varðveitti ráðvendni sína við Guð og hlaut mikla blessun. (Jobsbók 1:7-19; 2:7, 8; 42:12) Allar götur síðan hafa illu andarnir gert suma mállausa eða blinda og haldið áfram að hafa nautn af þjáningum manna. (Matteus 9:32, 33; 12:22; Markús 5:2-5) Frásagnir herma að illir andar beiti sumt fólk nú á tímum kynferðislegri áreitni og valdi geðbilun hjá öðru. Enn aðra eggja þeir til morða og sjálfsvíga sem eru syndir gegn Guði. (5. Mósebók 5:17; 1. Jóhannesarbréf 3:15) Engu að síður hefur þúsundum manna, sem eitt sinn voru fastir í snöru illu andanna, tekist að rífa sig lausar. Hvernig fóru þeir að því? Þeim tókst það með því að stíga mikilvæg skref.

HVERNIG STANDA MÁ GEGN ILLUM ÖNDUM

14. Hvernig getur þú staðið gegn illum öndum í samræmi við fordæmi kristinna manna í Efesus á fyrstu öld?

14 Hvaða leið getur þú farið til að standa gegn illum öndum og forða þér og fjölskyldu þinni frá snörum þeirra? Kristnir menn í Efesus á fyrstu öld, sem höfðu iðkað spíritisma áður en þeir tóku trú, stigu ákveðin skref. Við lesum að „allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi.“ (Postulasagan 19:19) Jafnvel þótt þú hafir ekki iðkað spíritisma skaltu losa þig við allt sem tengist spíritisma á einhvern hátt. Þar með teljast bækur, tímarit, myndbönd, veggspjöld, hljómplötur eða áhöld sem notuð eru við iðkun spíritisma. Til þessa teljast líka líkneski, töfragripir og aðrir hlutir sem fólk ber á sér til verndar, svo og gjafir frá þeim sem iðka spíritisma. (5. Mósebók 7:25, 26; 1. Korintubréf 10:21) Tökum dæmi: Hjón í Taílandi höfðu lengi mátt þola áreitni illra anda. Þá losuðu þau sig við alla muni sem tengdust spíritisma. Hver var árangurinn? Þau losnuðu við árásir illu andanna og gátu við svo búið tekið góðum andlegum framförum.

15. Hvaða annað skref er nauðsynlegt að taka til að standa gegn illum andaverum?

15 Annað nauðsynlegt skref, til þess að standa gegn illum öndum, er að fylgja ráðleggingum Páls postula um að klæðast öllum þeim andlegu herklæðum sem Guð gefur. (Efesusbréfið 6:11-17) Kristnir menn verða að efla varnir sínar gegn illum öndum. Hvað felst í þessu skrefi? „Takið umfram allt,“ sagði Páll, „skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.“ Því sterkari sem trú þín er þeim mun hæfari ert þú til að standa gegn illum andaverum. — Matteus 17:14-20.

16. Hvernig getur þú styrkt trú þína?

16 Hvernig getur þú styrkt trú þína? Það getur þú gert með því að halda áfram að nema Biblíuna og beita ráðleggingum hennar í lífinu. Styrkleiki trúarinnar er að miklu leyti undir því kominn hversu traustur grundvöllur hennar — þekkingin á Guði — er. Ertu ekki sammála því að hin nákvæma þekking, sem þú hefur öðlast og hugleitt alvarlega þegar þú hefur verið að nema Biblíuna, hafi byggt upp trú þína? (Rómverjabréfið 10:10, 17) Ugglaust mun trú þín þess vegna styrkjast enn meira þegar þú heldur áfram þessu námi og gerir þér að venju að sækja samkomur votta Jehóva. (Rómverjabréfið 1:11, 12; Kólossubréfið 2:6, 7) Hún mun verða mikill varnarveggur gegn árásum illra anda. — 1. Jóhannesarbréf 5:5.

17. Hvaða skref þarf enn fremur að stíga til að standa gegn illum andaverum?

17 Hvaða frekari skref gæti sá stigið sem staðráðinn er í að standa gegn illum andaverum? Kristnir menn í Efesus þörfnuðust verndar vegna þess að þeir bjuggu í borg morandi í spíritisma. Því sagði Páll þeim: „Biðjið á hverri tíð í anda.“ (Efesusbréfið 6:18) Sökum þess að við búum í heimi sem er undirlagður af spíritisma er bráðnauðsynlegt að biðja ákaft um vernd Guðs til að geta staðið gegn illum öndum. (Matteus 6:13) Andleg aðstoð og bænir hinna útnefndu öldunga í kristna söfnuðinum kemur að góðum notum í þessu efni. — Jakobsbréfið 5:13-15.

LÁTTU EKKI DEIGAN SÍGA Í BARÁTTUNNI GEGN ILLUM ÖNDUM

18, 19. Hvað er hægt að gera ef illu andarnir ónáða mann aftur?

18 Sumir hafa hins vegar orðið fyrir ónæði illra anda jafnvel eftir að þeir stigu þessi grundvallarskref. Til dæmis nam maður nokkur á Fílabeinsströndinni Biblíuna með vottum Jehóva og eyðilagði alla töfra- og verndargripi sína. Að því búnu tók hann góðum framförum, vígði Jehóva líf sitt og var skírður. En viku eftir skírnina byrjuðu illu andarnir aftur að ónáða hann og raddir sögðu honum að kasta nýfundinni trú sinni. Ef eitthvað slíkt henti þig þýddi það þá að Jehóva veitti þér ekki lengur vernd? Það þarf ekki að vera.

19 Þó að hinn fullkomni maður, Jesús Kristur, nyti verndar Guðs heyrði hann rödd hinnar illu andaveru, Satans djöfulsins. Jesús sýndi hvað gera skuli í slíku tilviki. Hann sagði djöflinum: „Vík brott, Satan!“ (Matteus 4:3-10) Á sama hátt ættir þú að neita að hlusta á raddir frá andaheiminum. Stattu gegn illum öndum með því að ákalla Jehóva þér til hjálpar. Já, biddu upphátt og notaðu nafn Guðs. Orðskviðirnir 18:10 segja: „Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ Kristni maðurinn á Fílabeinsströndinni gerði það og illu andarnir hættu að áreita hann. — Sálmur 124:8; 145:18.

20. Hvað getur þú, í stuttu máli sagt, gert til að standa gegn illum öndum?

20 Jehóva hefur leyft illu öndunum að vera áfram til en hann sýnir mátt sinn, einkum í þágu fólks síns, og nafn hans er kunngert um alla jörðina. (2. Mósebók 9:16) Ef þú heldur þér nálægt Guði þarftu ekki að óttast illa anda. (4. Mósebók 23:21, 23; Jakobsbréfið 4:7, 8; 2. Pétursbréf 2:9) Máttur þeirra er takmarkaður. Þeim var refsað á dögum Nóa, varpað niður af himni á þessari öld og bíða nú lokadóms. (Júdasarbréfið 6; Opinberunarbókin 12:9; 20:1-3, 7-10, 14) Í raun eru þeir skelfingu lostnir vegna komandi eyðingar sinnar. (Jakobsbréfið 2:19) Hvort sem illir andar reyna að lokka þig með einhvers konar tálbeitu eða ráðast á þig á einhvern hátt getur þú veitt þeim mótspyrnu. (2. Korintubréf 2:11) Þú skalt sneiða hjá spíritisma í hvaða mynd sem er, fylgja ráðleggingunum í orði Guðs og sækjast eftir velþóknun Jehóva. Gerðu það án tafar vegna þess að líf þitt er undir því komið að þú standir gegn illum andaverum!

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvernig reyna illir andar að leiða fólk afvega?

Hvers vegna fordæmir Biblían spíritisma?

Hvernig er hægt að rífa sig lausan frá illum andaverum?

Hvers vegna ættir þú að halda áfram að standa gegn illum öndum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 110]

Hvert er viðhorf þitt til spíritismans í sínum mörgu myndum?