Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilbeiðslu hverra viðurkennir Guð?

Tilbeiðslu hverra viðurkennir Guð?

5. kafli

Tilbeiðslu hverra viðurkennir Guð?

1. Hvað vildi samversk kona vita um tilbeiðslu?

 HEFUR þú einhvern tíma velt því fyrir þér hverjir tilbiðji Guð á þann hátt sem hann viðurkennir? Slík spurning kann að hafa komið upp í huga konu þegar hún talaði við Jesú Krist nálægt Garísímfjalli í Samaríu. Hún vakti athygli á mismuninum á tilbeiðslu Samverja og Gyðinga með því að segja: „Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.“ (Jóhannes 4:20) Sagði Jesús samversku konunni að Guð viðurkenndi alla tilbeiðslu eða sagði hann að mæta þyrfti sérstökum kröfum til að þóknast Guði?

2. Hvað sagði Jesús þegar hann svaraði samversku konunni?

2 Svar Jesú var óvænt: „Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.“ (Jóhannes 4:21) Samverjar höfðu lengi óttast Jehóva og tilbeðið aðra guði á Garísímfjalli. (2. Konungabók 17:33) Núna sagði Jesús Kristur að hvorki sá staður né Jerúsalem yrði mikilvægur í sannri tilbeiðslu.

TILBEIÐSLA Í ANDA OG SANNLEIKA

3. (a) Hvers vegna þekktu Samverjar ekki Guð í raun og veru? (b) Hvernig gætu trúfastir Gyðingar og aðrir kynnst Guði?

3 Jesús sagði því næst við samversku konuna: „Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.“ (Jóhannes 4:22) Samverjar höfðu rangtrúarhugmyndir og viðurkenndu aðeins fyrstu fimm bækur Biblíunnar sem innblásnar — og þá einungis í eigin endurskoðaðri útgáfu er þekkt var sem Fimmbókarit Samverja. Þar af leiðandi þekktu þeir ekki Guð í raun og veru. Gyðingum hafði hins vegar verið trúað fyrir biblíulegri þekkingu. (Rómverjabréfið 3:1, 2) Biblían gaf trúföstum Gyðingum, og hverjum þeim öðrum sem vildu hlusta, það sem þeir þurftu til að þekkja Guð.

4. Hvað þurftu bæði Gyðingar og Samverjar að gera, samkvæmt orðum Jesú, ef tilbeiðsla þeirra átti að vera Guði þóknanleg?

4 Jesús sýndi að bæði Gyðingar og Samverjar þyrftu í raun að breyta tilbeiðsluháttum sínum til að þóknast Guði. Hann sagði: „Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23, 24) Við þurfum að tilbiðja Guð „í anda,“ knúin af hjörtum sem eru full trúar og kærleika. Það er hægt að tilbiðja Guð ‚í sannleika‘ með því að nema orð hans, Biblíuna, og með því að tilbiðja hann í samræmi við opinberaðan sannleika hans. Er það þér kappsmál?

5. (a) Hvað þýðir „tilbeiðsla“? (b) Hvað verðum við að gera ef við viljum að Guð viðurkenni tilbeiðslu okkar?

5 Jesús undirstrikaði að Guð vill sanna tilbeiðslu. Það sýnir að til eru tilbeiðsluform sem Jehóva viðurkennir ekki. Að tilbiðja Guð þýðir að gefa honum lotningarfullan heiður og veita honum heilaga þjónustu. Ef þú vildir sýna voldugum þjóðhöfðingja heiður er líklegt að þú myndir vera ákafur í að þjóna honum og gera það sem honum væri þóknanlegt. Við viljum þóknast Guði meira en nokkrum öðrum. Í stað þess að segja einfaldlega: ‚Ég er sæll í minni trú,‘ þurfum við því að fullvissa okkur um að tilbeiðsla okkar standist kröfur Guðs.

AÐ GERA VILJA FÖÐURINS

6, 7. Hvers vegna viðurkennir Jesús ekki suma sem segjast vera lærisveinar hans?

6 Við skulum lesa Matteus 7:21-23 og sjá hvort við getum fundið eitthvað sem sýnir ótvírætt hvort öll tilbeiðsla sé Guði þóknanleg. Jesús sagði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?‘ Þá mun ég votta þetta: ‚Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.‘“

7 Það er alveg nauðsynlegur þáttur í sannri tilbeiðslu að viðurkenna Jesú Krist sem herra. En eitthvað myndi á vanta í tilbeiðslu margra þeirra sem segðust vera lærisveinar Jesú. Hann sagði að sumir myndu gera „mörg kraftaverk,“ eins og verk sem álitin yrðu kraftaverkalækningar. Þeir myndu þó láta undir höfuð leggjast að gera það sem Jesús sagði að væri lífsnauðsynlegt. Þeir væru ekki að ‚gera vilja föður hans.‘ Ef við viljum þóknast Guði verðum við að læra hver vilji hans er og síðan gera hann.

NÁKVÆM ÞEKKING VEITIR VERND

8. Hvers er krafist af okkur til að gera vilja Guðs og hvaða ranghugmyndir verðum við að forðast?

8 Þörf er á nákvæmri þekkingu bæði á Jehóva Guði og Jesú Kristi til að gera vilja Guðs. Slík þekking leiðir til eilífs lífs. Vissulega viljum við öll taka það alvarlega að afla okkur nákvæmrar þekkingar frá orði Guðs, Biblíunni. Sumir segja að menn þurfi engar áhyggjur að hafa svo framarlega sem þeir séu einlægir og kostgæfir í tilbeiðslu sinni. Aðrir fullyrða: ‚Því minna sem maður veit þeim mun minna er vænst af manni.‘ Samt hvetur Biblían okkur til að auka sífellt þekkingu okkar á Guði og tilgangi hans. — Efesusbréfið 4:13; Filippíbréfið 1:9; Kólossubréfið 1:9.

9. Hvernig verndar nákvæm þekking okkur og hvers vegna þörfnumst við slíkrar verndar?

9 Slík þekking er vernd gegn því að tilbeiðsla manns spillist. Páll postuli talaði um andaveru sem þykist vera ‚ljósengill.‘ (2. Korintubréf 11:14) Í slíku dulargervi reynir þessi andavera — Satan — að leiða okkur á villigötur til þess að við gerum það sem er andstætt vilja Guðs. Aðrar andaverur, sem eru í félagi við Satan, hafa einnig verið að spilla tilbeiðslu fólks eins og sjá má af orðum Páls: „Það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði.“ (1. Korintubréf 10:20) Líklega hafa margir haldið að tilbeiðsla þeirra væri rétt þó að hún væri í raun ekki í samræmi við vilja Guðs. Með blekkingum voru þeir leiddir út í óhreina, falska tilbeiðslu. Við munum fræðast meira um Satan og illa anda hans síðar en þessir óvinir Guðs hafa vissulega lengi spillt tilbeiðslu manna.

10. Hvað myndir þú gera ef einhver eitraði vatnsbólið þitt, og hvað gerir nákvæm þekking á orði Guðs okkur fær um að gera?

10 Ef þú vissir að einhver hefði eitrað vatnsbólið sem þú færð vatn úr myndir þú þá halda áfram að drekka vatnið? Þú tækir án efa strax til við að finna öruggt og hreint vatnsból. Nákvæm þekking á orði Guðs gerir okkur fær um að bera kennsl á sanna trú og hafna óhreinindum sem Guð vill ekki sjá í tilbeiðslu okkar.

MANNASETNINGAR SEM LÆRDÓMAR

11. Hvað var að tilbeiðslu margra Gyðinga?

11 Á jarðvistardögum Jesú breyttu margir Gyðingar ekki í samræmi við nákvæma þekkingu á Guði. Þeir glötuðu þess vegna tækifærinu til að öðlast þá stöðu að Jehóva liti á þá sem hreina. Páll skrifaði um þá: „Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.“ (Rómverjabréfið 10:2) Þeir ákváðu sjálfir hvernig skyldi tilbiðja Guð í stað þess að gefa gaum að því sem hann sagði.

12. Hvað saurgaði tilbeiðslu Ísraelsmanna og hver var afleiðingin?

12 Upprunalega var trú Ísraelsmanna sú hreina tilbeiðsla sem Guð gaf þeim en er tímar liðu saurgaðist hún af kenningum og heimspeki manna. (Jeremía 8:8, 9; Malakí 2:8, 9; Lúkas 11:52) Þó að trúarleiðtogar Gyðinga, kallaðir farísear, álitu að tilbeiðsla þeirra væri Guði þóknanleg sagði Jesús við þá: „Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ — Markús 7:6, 7.

13. Hvernig kynnum við að gera það sama og farísearnir?

13 Er mögulegt að við kynnum að fara að eins og farísearnir? Það gæti gerst ef við fylgdum trúarlegum erfðavenjum sem gengið hafa mann fram af manni í stað þess að rannsaka það sem Guð hefur sagt um tilbeiðslu. Páll varaði við þessari mjög svo raunverulegu hættu og skrifaði: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Það er því ekki nóg að gera bara ráð fyrir að tilbeiðsla manns þóknist Guði. Eins og samverska konan, sem hitti Jesú, höfum við ef til vill tekið tilbeiðsluhætti okkar í arf frá foreldrum okkar. En við þurfum að vera viss um að tilbeiðsla okkar sé Guði þóknanleg.

VARASTU AÐ MISBJÓÐA GUÐI

14, 15. Hvers vegna þurfum við að vera varkár jafnvel þótt við búum yfir nokkurri þekkingu á vilja Guðs?

14 Ef við erum ekki varkár gerum við kannski eitthvað sem er Guði vanþóknanlegt. Til dæmis féll Jóhannes postuli fyrir fætur engils „til að tilbiðja hann.“ En engillinn sagði: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð.“ (Opinberunarbókin 19:10) Sérðu þar af leiðandi nauðsyn þess að fullvissa þig um að tilbeiðsla þín sé ekki saurguð af neins konar skurðgoðadýrkun? — 1. Korintubréf 10:14.

15 Þegar nokkrir kristnir menn fóru að taka upp trúarsiði sem voru Guði ekki þóknanlegir spurði Páll: „Hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju? Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum. Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.“ (Galatabréfið 4:8-11) Þessir einstaklingar höfðu öðlast þekkingu á Guði en seinna farið inn á ranga braut með því að fylgja trúarsiðum og halda hátíðisdaga sem Jehóva viðurkenndi ekki. Eins og Páll sagði þurfum við að halda áfram að ‚meta rétt, hvað Drottni þóknast.‘ — Efesusbréfið 5:10.

16. Hvernig hjálpa Jóhannes 17:16 og 1. Pétursbréf 4:3 okkur að ákvarða hvort hátíðisdagar og helgisiðir séu Guði þóknanlegir?

16 Við verðum að gæta þess að forðast trúarlega hátíðisdaga og aðra siði sem ganga þvert á frumreglur Guðs. (1. Þessaloníkubréf 5:21) Jesús sagði um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Tekur trúfélag þitt þátt í helgiathöfnum og hátíðisdögum sem brjóta gegn frumreglunni um að vera hlutlaus í málefnum heimsins? Eða taka áhangendur þíns trúfélags stundum þátt í siðum og hátíðum sem kunna að fela í sér hegðun er jafnast á við það sem Pétur postuli lýsti? Hann skrifaði: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ — 1. Pétursbréf 4:3.

17. Af hverju ættum við að forðast allt það sem endurspeglar anda heimsins?

17 Jóhannes postuli lagði áherslu á nauðsyn þess að forðast hverja þá siði sem endurspegla anda hins óguðlega heims í kringum okkur. Jóhannes skrifaði: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Tókstu eftir að „sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“? Já, ef við gerum vilja Guðs og forðumst athafnir sem endurspegla anda þessa heims getum við haft von um eilíft líf!

FYLGDU HÁUM STÖÐLUM GUÐS

18. Hvaða ranghugmyndir höfðu sumir Korintumenn um hegðun og hvaða lærdóm ættum við að draga af því?

18 Guð vill að tilbiðjendur hans hegði sér samkvæmt háum siðgæðisstöðlum hans. Nokkrir í Korintu til forna héldu ranglega að Guð umbæri siðlausa hegðun. Við getum séð hve rangt þeir höfðu fyrir sér ef við lesum 1. Korintubréf 6:9, 10. Ef Guð á að viðurkenna tilbeiðslu okkar verðum við að þóknast honum í orðum og gerðum. Gera tilbeiðsluhættir þínir þér kleift að gera það? — Matteus 15:8; 23:1-3.

19. Hvernig hefur sönn tilbeiðsla áhrif á framkomu okkar við aðra?

19 Samskipti okkar við annað fólk ættu líka að endurspegla staðla Guðs. Jesús Kristur hvatti okkur til að koma fram við aðra eins og við vildum að þeir kæmu fram við okkur, en það er hluti sannrar tilbeiðslu. (Matteus 7:12) Taktu líka eftir því sem hann sagði um bróðurelsku: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Lærisveinar Jesú verða að elska hver annan og gera bæði trúbræðrum sínum og öðrum gott. — Galatabréfið 6:10.

TILBEIÐSLA AF ALLRI SÁLU

20, 21. (a) Hvers konar tilbeiðslu krefst Guð? (b) Hvers vegna hafnaði Jehóva tilbeiðslu Ísraelsmanna á dögum Malakí?

20 Vera má að þú viljir í hjarta þínu að Guð viðurkenni tilbeiðslu þína. Sé svo verður þú að líta tilbeiðslu sömu augum og Jehóva. Lærisveinninn Jakob lagði áherslu á að það er viðhorf Guðs, ekki okkar, sem mestu máli skiptir. Jakob sagði: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ (Jakobsbréfið 1:27) Við þurfum hvert og eitt, af löngun til að þóknast Guði, að rannsaka tilbeiðslu okkar til að fullvissa okkur um að hún sé ekki saurguð af óguðlegum athöfnum eða að við séum ekki að vanrækja eitthvað sem Guð telur mikilvægt. — Jakobsbréfið 1:26.

21 Aðeins hrein tilbeiðsla, veitt af allri sálu, er Jehóva þóknanleg. (Matteus 22:37; Kólossubréfið 3:23) Þegar Ísraelsþjóðin veitti Guði eitthvað minna en það sagði hann: „Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber?“ Þeir misbuðu Guði með því að bjóða honum blindar, haltar eða sjúkar skepnur sem fórnargjafir og hann hafnaði slíkri tilbeiðslu. (Malakí 1:6-8) Jehóva er verðugur hreinustu tilbeiðslu sem hugsast getur og hann þiggur ekkert minna en dýrkun sem beinist að honum einum. — 2. Mósebók 20:5; Orðskviðirnir 3:9; Opinberunarbókin 4:11.

22. Hvað munum við forðast og hvað munum við gera ef við viljum að Guð viðurkenni tilbeiðslu okkar?

22 Samverska konan, sem ræddi við Jesú, virtist hafa áhuga á að tilbiðja Guð á þann hátt sem væri Guði þóknanlegur. Ef það er líka löngun okkar munum við forðast allar saurgandi kenningar og siði. (2. Korintubréf 6:14-18) Við leggjum okkur þá í líma við að öðlast nákvæma þekkingu á Guði og gera vilja hans. Við munum gæta þess vandlega að mæta þeim kröfum sem hann gerir til tilbeiðslu okkar. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Vottar Jehóva leitast einmitt við að gera það og þeir hvetja þig hlýlega til að taka með þeim þátt í að tilbiðja Guð „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Jesús sagði: „Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.“ (Jóhannes 4:23) Vonandi ert þú slíkur einstaklingur. Þú vilt, eins og samverska konan, vafalaust eignast eilíft líf. (Jóhannes 4:13-15) En núna hrörnar fólk með aldrinum og deyr. Næsti kafli útskýrir hvers vegna.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvaða tilbeiðslu viðurkennir Guð eins og sjá má af Jóhannesi 4:23, 24?

Hvernig getum við komist að raun um hvort vissar siðvenjur og hátíðir séu Guði þóknanlegar?

Nefndu sumt af því sem krafist er til að tilbeiðsla sé Guði þóknanleg.

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls. 44]