Bók sem fólk ætti að lesa
Bók sem fólk ætti að lesa
„Biblíuna ætti ekki að taka alvarlega.“ Svo mælti háskólaprófessor við opinskáa unga konu.
„Hefur þú nokkurn tíma lesið Biblíuna?“ spurði hún.
Það kom á prófessorinn og hann varð að játa að það hefði hann ekki gert.
„Hvernig getur þú haft slíkt álit á bók sem þú hefur aldrei lesið?“
Konan hafði nokkuð til síns máls. Prófessorinn ákvað að lesa Biblíuna og mynda sér að því búnu skoðun á henni.
BIBLÍUNNI, sem er safn 66 ritsmíða, hefur verið lýst sem „líklega áhrifamesta safni bóka í mannkynssögunni.“1 Áhrifa hennar gætir vissulega í sumum af mestu listaverkum heimsins, bókmenntum og tónverkum. Hún hefur haft veruleg áhrif á löggjöf. Bókmenntastíll hennar hefur verið dásamaður og margt vel menntað fólk hefur haft hana í miklum hávegum. Hún hefur haft óhemju djúpstæð áhrif á líf fólks af öllum stigum þjóðfélagsins. Hún hefur kallað fram merkilega mikla hollustu hjá mörgum lesenda sinna. Sumir hafa jafnvel hætt lífinu fyrir það eitt að lesa hana.
En jafnframt ríkir tortryggni í garð Biblíunnar. Til er fólk sem hefur fastmótaðar skoðanir á henni þó að það hafi sjálft aldrei lesið hana. Það viðurkennir kannski bókmenntalegt eða sögulegt gildi hennar en því er spurn: Hvernig gæti bók, skrifuð fyrir þúsundum ára, með nokkru móti skipt menn máli í heimi nútímans? Við lifum á „öld upplýsinga.“ Við getum nálgast upplýsingar um tækninýjungar og atburði líðandi stundar næstum jafnóðum og þeir eiga sér stað. Ráð „sérfræðinga“ um nálega allt sem nútímamaðurinn þarf að glíma við eru auðfáanleg. Er nokkur möguleiki á að Biblían hafi að geyma upplýsingar sem hafa hagnýtt gildi nú á tímum?
Þessi bæklingur leitast við að svara slíkum spurningum. Hann er ekki saminn til að þröngva upp á þig trúarskoðunum heldur er honum ætlað að sýna fram á að Biblían, þessi áhrifavaldur í sögunni, er bók sem er þess virði að þú skoðir hana. Árið 1994 var gefin út skýrsla þar sem fram kemur að sumir kennarar séu eindregið þeirrar skoðunar að Biblían sé svo greypt í menningu Vesturlanda að „hver sá, trúaður eða trúlaus, sem þekkir ekki kenningar og frásagnir Biblíunnar, sé menningarlega óupplýstur.“2
Eftir að hafa lesið það sem stendur í þessum bæklingi má vera að þú fallist á að Biblían sé bók sem fólk ætti í það minnsta að lesa, hvort sem það er trúhneigt eða ekki.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 3]
„Upplýsingu mína þakka ég blátt áfram lestri einnar bókar. — Einnar bókar? Já, og það er gömul, einföld bók, hæversk eins og náttúran, jafneðlileg og hún; . . . og þessi bók er kölluð líka á ofur látlausan hátt Bókin, Biblían.“ — Heinrich Heine, þýskur rithöfundur á 19. öld.3