Bók sem menn rangfæra
Bók sem menn rangfæra
„Kennisetningin um tvöfalda hreyfingu jarðarinnar um öxul sinn og um sólina er ósönn og algerlega í mótsetningu við Heilaga ritningu.“ Svo fullyrti ráðið, sem ákvað hvaða bækur færu á bannlista rómversk-kaþólsku kirkjunnar, í úrskurði sínum árið 1616.1 Er Biblían í raun og veru ósamhljóða vísindalegum staðreyndum eða hafa menn rangfært orð hennar?
VETURINN 1609-10 beindi Galíleó Galíleí nýsmíðuðum sjónauka sínum til himins og uppgötvaði fjögur tungl sem snerust um reikistjörnuna Júpíter. Það sem hann sá kollvarpaði þeirri ríkjandi skoðun að allir himinhnettir hlytu að snúast um jörðina. Áður hafði pólski stjörnufræðingurinn, Nikulás Kópernikus, sett fram þá kenningu árið 1543 að reikistjörnurnar snerust í kringum sólina. Galíleó sannreyndi að það væri vísindaleg sannindi.
Í augum kaþólskra guðfræðinga var þetta hins vegar villutrú. Kirkjan hafði um langan aldur haldið því fram að jörðin væri miðja alheimsins.2 Sú skoðun var byggð á bókstaflegri túlkun ritningarstaða er drógu upp mynd af jörðinni sem grundvallaðri „á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Galíleó var stefnt til Rómar þar sem hann kom fram fyrir Rannsóknarréttinn. Hann var látinn sæta ströngum yfirheyrslum, neyddur til að draga til baka niðurstöður sínar og dvelja í stofufangelsi það sem eftir var ævinnar.
Árið 1992, um 350 árum eftir lát Galíleós, viðurkenndi kaþólska kirkjan loksins að hann hefði þrátt fyrir allt haft á réttu að standa.3 En fyrst Galíleó hafði rétt fyrir sér fór þá Biblían með rangt mál?
Að finna hinn rétta skilning á biblíutexta
Galíleó trúði að Biblían væri sönn. Þegar vísindalegar uppgötvanir hans stönguðust á við ríkjandi túlkun vissra biblíuversa dró hann þá ályktun að hinn rétti skilningur biblíutextans færi fram hjá guðfræðingunum. Þegar allt kemur til alls „geta tvenn sannindi aldrei stangast á“ skrifaði hann.4 Hann nefndi þann möguleika að nákvæm framsetning vísindanna væri ekki í mótsögn við hið hversdagslega orðfæri Biblíunnar. En guðfræðingarnir létu sér ekki segjast. Þeir stóðu fast á því að allar fullyrðingar Biblíunnar um jörðina skyldu teknar bókstaflega. Afleiðingin varð sú að þeir höfnuðu ekki aðeins uppgötvunum Galíleós heldur fór hin sanna merking í slíku orðalagi Biblíunnar fyrir ofan garð og neðan hjá þeim.
Í raun og veru ætti heilbrigð skynsemi að segja okkur að þegar Biblían talar um ‚fjögur skaut [horn] jarðarinnar‘ þýðir það ekki að biblíuritararnir hafi álitið jörðina vera bókstaflegan ferhyrning. (Opinberunarbókin 7:1) Biblían er skrifuð á máli almúgans og notar oft litríkt líkingamál. Þegar Biblían því segir að jörðin hafi ‚fjögur skaut,‘ varanlegan ‚grundvöll,‘ ‚stólpa‘ og „hornstein“ er hún ekki að bjóða upp á vísindalega lýsingu á jörðinni; hún er augljóslega að nota myndlíkingar eins og við gerum oft í daglegu máli. * — Jesaja 51:13; Jobsbók 38:6.
Ævisöguritarinn L. Geymonat segir í bók sinni Galileo Galilei: „Þröngsýnir guðfræðingar, sem vildu takmarka vísindin við röksemdafærslu frá Biblíunni, kæmu því einu til leiðar að kasta rýrð á Biblíuna sjálfa.“5 Það gerðu þeir líka. Raunar var það túlkun guðfræðinga á Biblíunni — en ekki Biblían sjálf — sem lagði óskynsamlegar hömlur á vísindin.
Eins má segja að bókstafstrúarmenn rangtúlki Biblíuna nú á dögum þegar þeir staðhæfa að jörðin hafi verið sköpuð á sex dögum sem hver var einn sólarhringur. (1. Mósebók 1:3-31) Slík skoðun kemur hvorki heim og saman við vísindin né Biblíuna. Orðið „dagur“ er í Biblíunni eins og í daglegu máli teygjanlegt hugtak og getur merkt mislangt tímabil. Í 1. Mósebók 2:4 er rætt um alla sköpunardagana sex sem einn altækan „dag.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „dagur“ í Biblíunni, getur einfaldlega þýtt „langur tími.“6 Það eru þess vegna engin biblíuleg rök fyrir þeirri staðhæfingu að sköpunardagarnir hafi verið einn sólarhringur hver. Bókstafstrúarmenn rangfæra Biblíuna með því að halda slíku fram. — Sjá einnig 2. Pétursbréf 3:8.
Í aldanna rás hafa guðfræðingar oft dregið upp ranga mynd af Biblíunni. Hugleiddu hvernig trúarbrögð kristna heimsins hafa á ýmsan hátt gefið rangar hugmyndir um það sem Biblían segir.
Trúarbrögðin gefa villandi hugmynd um hana
Athafnir þeirra sem segjast fylgja Biblíunni spilla oft orðstír bókarinnar sem þeir segjast hafa í heiðri. Svonefndir kristnir menn hafa úthellt hver annars blóði í nafni Guðs. Samt áminnir Biblían fylgjendur Krists um að ‚elska hver annan.‘ — Jóhannes 13:34, 35; Matteus 26:52.
Sumir klerkar rýja hjarðir sínar inn að skinninu, lokka út úr þeim peninga sem mikið var haft fyrir að afla, og eru þar komnir langan veg frá fyrirmælum Biblíunnar: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ — Matteus 10:8; 1. Pétursbréf 5:2, 3.
Greinilega er ekki hægt að dæma Biblíuna út frá orðum og athöfnum þeirra sem vitna í hana eða segjast lifa eftir henni. Fordómalaus maður kann því að vilja komast sjálfur að raun um hvað Biblían fjallar um og hvers vegna hún er svona merkileg bók.
[Neðanmáls]
^ gr. 8 Jafnvel raunsæjustu stjörnufræðingar nútímans tala um að sólin, stjörnurnar og stjörnumerkin „komi upp“ og „setjist“ — þó að þau virðist í rauninni aðeins hreyfast vegna snúnings jarðar.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Tveir af sjónaukum Galíleós.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Galíleó frammi fyrir rannsóknardómurum sínum.