Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók sem „talar“ lifandi tungumál

Bók sem „talar“ lifandi tungumál

Bók sem „talar“ lifandi tungumál

Ef tungumálið, sem bók er skrifuð á, deyr út er næsta víst að bókin hljóti sömu örlög. Fáir nútímamenn geta lesið fornmálin sem Biblían var skrifuð á. Þó er hún í fullu fjöri. Hún lifði af vegna þess að menn „kenndu“ henni að „tala“ lifandi tungur mannkyns. Þýðendurnir, sem hjálpuðu henni að „læra“ önnur tungumál, virtust á stundum standa frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum.

AÐ ÞÝÐA Biblíuna, sem í eru meira en 1100 kaflar og 31.000 vers, er tilkomumikið verkefni. Á umliðnum öldum hafa þó þýðendur, sem helguðu sig því verkefni, fúslega tekið þeirri áskorun. Margir þeirra voru fúsir til að þola þrautir og jafnvel deyja fyrir starf sitt. Sagan af því, hvernig mönnum tókst að þýða Biblíuna á tungumálin sem mannkynið talar, greinir frá ótrúlegri þrautseigju og hugvitssemi. Skoðum aðeins lítinn hluta þeirrar hrífandi sögu.

Það sem þýðendur þurftu að glíma við

Hvernig er hægt að þýða bók á tungumál sem ekki á sér neitt letur? Margir biblíuþýðendur þurftu einmitt að glíma við slíkan vanda. Dæmi um það er Wulfila sem á fjórðu öld tók sér fyrir hendur að þýða Biblíuna á gotnesku, tungumál sem talað var á þeim tíma en átti sér ekkert letur. Wulfila sigraðist á vandanum með því að búa til gotneska stafrófið sem hefur 27 stafi og er einkum byggt á grísku og latnesku stafrófunum. Gotneskri þýðingu hans á næstum allri Biblíunni var lokið fyrir árið 381.

Á níundu öld langaði tvo grískumælandi bræður, Kyrillos (sem upphaflega hét Konstantin) og Meþódíos sem báðir voru afburða fræðimenn og málfræðingar, að þýða Biblíuna fyrir slavneskumælandi fólk. En fornslavneska — móðir slavneskra mála nútímans — átti sér ekkert letur. Bræðurnir tveir smíðuðu því stafróf til þess að geta þýtt Biblíuna. Þannig gat Biblían „talað“ til enn fleiri manna, þeirra sem tilheyrðu hinum slavneska málheimi.

Á 16. öld hóf William Tyndale að þýða Biblíuna úr frummálunum á ensku en mætti harðri andstöðu bæði kirkju og ríkis. Tyndale, sem hlotið hafði menntun í Oxford, vildi búa til þýðingu sem jafnvel „drengur, sem stýrir plóginum,“ gæti skilið.1 En til þess varð hann að flýja til Þýskalands þar sem „Nýjatestamenti“ hans á ensku var prentað árið 1526. Þegar eintökum af því var smyglað til Englands vakti það slíka reiði yfirvalda að þau hófu að brenna þau opinberlega. Tyndale var seinna svikinn í hendur óvina sinna. Rétt áður en hann var hengdur og síðan brenndur kallaði hann hárri röddu: „Drottinn, opna augu Englandskonungs!“2

Haldið var áfram að þýða Biblíuna; þýðendurnir létu ekki stöðva sig. Árið 1800 höfðu í það minnsta hlutar Biblíunnar „lært að tala“ 68 tungumál. Með stofnun biblíufélaga, sér í lagi Breska og erlenda biblíufélagsins árið 1804, „lærði“ Biblían síðan fljótlega enn fleiri ný tungumál. Ungir menn í hundraðatali buðu sig fram til að fara sem trúboðar til annarra landa, margir fyrst og fremst í þeim tilgangi að þýða Biblíuna.

Hún lærir tungumál Afríku

Í Afríku var árið 1800 aðeins um tylft tungumála sem áttu sér ritmál. Hundruð annarra talaðra mála urðu að bíða uns einhver fyndi upp skrifkerfi fyrir þau. Trúboðar komu og lærðu tungumálin án þess að hafa nokkur stafrófskver eða orðabækur til að styðjast við. Síðan strituðu þeir við að búa til aðferð til að færa málin í letur og að því búnu kenndu þeir fólkinu að lesa letrið. Þeir gerðu þetta til þess að fólkið gæti, er fram liðu stundir, lesið Biblíuna á sínu eigin tungumáli.3

Einn slíkra trúboða var Skoti að nafni Robert Moffat. Árið 1821, þá 25 ára gamall, setti Moffat á laggirnar trúboðsstöð meðal tsúanamælandi manna í sunnanverðri Afríku. Til að læra tungumál þeirra blandaði hann geði við þá og fór stundum langt inn í land til að búa meðal þeirra. „Fólkið var vingjarnlegt,“ skrifaði hann síðar, „og málvillurnar mínar urðu til þess að menn skelltu oft upp úr. Það kom aldrei fyrir að nokkur þeirra leiðrétti orð eða setningu hjá mér fyrr en hann eða hún hafði hermt svo rækilega eftir vitleysunni að aðrir skemmtu sér hið besta.“4 Moffat lét ekki deigan síga og náði að lokum góðum tökum á tungumálinu og bjó til letur fyrir það.

Árið 1829 lauk Moffat við þýðingu Lúkasarguðspjalls eftir að hafa starfað átta ár meðal tsúanamanna. Til að fá það prentað ferðaðist hann um 1000 kílómetra í uxakerru til strandar og tók þaðan skip til Höfðaborgar. Þar gaf landstjórinn honum leyfi til að nota prentvél ríkisins en Moffat varð sjálfur að annast setningu og prentun og gaf að lokum guðspjallið út árið 1830. Tsúanamenn gátu nú í fyrsta sinn lesið hluta Biblíunnar á sinni eigin tungu. Árið 1857 lauk Moffat við þýðingu allrar Biblíunnar á tsúana.

Moffat lýsti síðar viðbrögðum tsúanamanna þegar þeir fyrst fengu Lúkasarguðspjall á eigin tungumáli. Hann sagði: „Ég veit um fólk sem kom hundruð mílna veg til að ná sér í eintak af Lúkasi. . . . Ég hef séð það taka við hlutum af Lúkasarguðspjalli og gráta yfir þeim og halda þeim að barmi sér og tárfella af þakklæti uns ég hef orðið að segja við fleiri en einn: ‚Þú skemmir bækurnar með tárunum.‘“5

Það var vegna trúfastra þýðenda eins og Moffats að margir Afríkumenn — sem sumir hverjir sáu í fyrstu enga þörf á rituðu máli — gátu í fyrsta sinn tjáð sig skriflega. Þýðendurnir trúðu þó að þeir væru að gefa íbúum Afríku jafnvel enn dýrmætari gjöf — Biblíuna á þeirra eigin tungu. Núna „talar“ Biblían öll eða hlutar hennar fleiri en 600 afrísk tungumál.

Hún lærir tungumál Asíu

Á meðan þýðendur í Afríku streittust við að búa til letur fyrir tungumálin sem einungis voru til í munni manna, stóðu þýðendur annars staðar á hnettinum frammi fyrir gerólíkum vanda — þýðingu yfir á tungumál sem þegar höfðu flókið ritletur. Sá vandi blasti við þeim sem þýddu Biblíuna á tungumál Asíu.

Við upphaf 19. aldar fóru William Carey og Joshua Marshman til Indlands og náðu góðum tökum á mörgum ritmálanna þar. Með hjálp prentarans Williams Wards þýddu þeir í það minnsta hluta Biblíunnar á nálega 40 tungumál.6 Rithöfundurinn J. Herbert Kane segir um William Carey: „Hann kom fram með fallegan og lipran talmálsstíl [bengalí tungumálsins] sem leysti af hólmi hina gömlu, klassísku mynd málsins og með því gerði hann málið skiljanlegra og aðgengilegra fyrir lesandann.“7

Adoniram Judson, sem fæddur var og uppalinn í Bandaríkjunum, ferðaðist til Búrma og hóf árið 1817 að þýða Biblíuna á búrmönsku. Hann skrifaði lýsingu á því hve erfitt væri að ná nægilega góðum tökum á Austurlandamáli til að geta þýtt Biblíuna á það: „Þegar við förum að leggja stund á tungumál sem talað er hinum megin á hnettinum af fólki sem hefur allt annan þankagang en við og málfræðin og uppbygging tungunnar er okkur þar af leiðandi algerlega framandi auk þess sem bókstafirnir og orðin líkjast ekki hið minnsta nokkru tungumáli sem við höfum komist í kynni við, og þegar við höfum hvorki orðabók né túlk og verðum að botna eitthvað í málinu áður en við getum notfært okkur aðstoð innfædds kennara — þá kallar það á þrotlausa vinnu!“8

Hvað Judson snerti kallaði það á 18 ára þrotlausa vinnu. Síðustu hlutar búrmönsku biblíunnar voru prentaðir árið 1835. Dvöl hans í Búrma varð honum hins vegar dýrkeypt. Meðan hann vann að þýðingunni var hann sakaður um njósnir og eyddi þess vegna næstum tveimur árum í fangelsi morandi í moskítóflugum. Skömmu eftir að hann var leystur úr haldi dóu konan hans og ung dóttir úr hitasótt.

Þegar Robert Morrison kom 25 ára gamall til Kína árið 1807 tók hann sér fyrir hendur að þýða Biblíuna á kínversku. Það var fram úr hófi erfitt verkefni vegna þess að kínverskt ritmál er eitthvert hið flóknasta sem til er. Morrison hafði aðeins takmarkaða þekkingu á kínversku en hann hafði byrjað að nema hana aðeins tveimur árum áður. Hann varð líka að kljást við kínversk lög sem leituðust við að viðhalda einangrun Kína. Kínverjum var bannað, að viðlagri dauðarefsingu, að kenna útlendingum tungumálið. Fyrir útlending var það dauðasök að þýða Biblíuna á kínversku.

Ótrauður en varkár hélt Morrison áfram að nema tungumálið og lærði það fljótt. Innan tveggja ára fékk hann starf sem þýðandi fyrir Austur-Indíu-félagið. Á daginn vann hann fyrir félagið, en í leynum og í stöðugri hættu að upp um hann kæmist vann hann að þýðingu Biblíunnar. Árið 1814, sjö árum eftir að hann kom til Kína, var hann með kristnu Grísku ritningarnar tilbúnar til prentunar.9 Fimm árum síðar lauk hann Hebresku ritningunum með hjálp Williams Milne.

Það var gríðarlegt afrek — Biblían gat núna „talað“ tungumál sem fleira fólk talaði en nokkurt annað tungumál í heiminum. Þýðingar á önnur asísk tungumál fylgdu í kjölfarið, þökk sé hæfum þýðendum. Núna eru hlutar Biblíunnar fáanlegir á meira en 500 af tungumálum Asíu.

Hvers vegna strituðu menn eins og Tyndale, Moffat, Judson og Morrison árum saman, og hættu jafnvel lífi sínu sumir hverjir, til að þýða bók fyrir fólk sem þeir þekktu ekki og jafnvel fyrir fólk sem talaði tungumál sem aldrei höfðu verið færð í letur? Sannarlega ekki til að öðlast frægð eða fjárhagslegan hagnað. Þeir trúðu að Biblían væri orð Guðs og að hún ætti að „tala“ til manna — allra manna — á þeirra eigin tungu.

Hvort sem þú álítur Biblíuna vera orð Guðs eða ekki fellst þú kannski á að sú ósérplægni, sem þessir trúföstu þýðendur sýndu, sé allt of fátíð í heiminum nú á dögum. Er ekki bók, sem fær menn til að sýna slíka óeigingirni, þess virði að kanna hana?

[Skyringarmynd á blaðsíðu 12]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Tungumálafjöldinn sem hlutar Biblíunnar hafa verið prentaðir á síðan árið 1800.

68, 107, 171, 269, 367, 522, 729, 971, 1199, 1762, 2123

1800 1900 1995

[Mynd á blaðsíðu 10]

Tyndale þýðir Biblíuna.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Robert Moffat

[Mynd á blaðsíðu 12]

Adoniram Judson

[Mynd á blaðsíðu 13]

Robert Morrison