Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frjáls vilji er dásamleg gjöf

Frjáls vilji er dásamleg gjöf

5. hluti

Frjáls vilji er dásamleg gjöf

1, 2. Hvaða dásamleg gjöf er hluti af eðli okkar?

TIL að skilja hvers vegna Guð hefur leyft þjáningar og hvað hann muni gera í því máli þurfum við að gera okkur ljóst hvernig hann gerði okkur úr garði. Hann gerði meira en að skapa okkur með aðeins líkama og heila. Hann áskapaði okkur einnig sérstaka andlega og tilfinningalega eiginleika.

2 Frjáls vilji er grundvallarþáttur í andlegu og tilfinningalegu eðli okkar. Já, Guð áskapaði okkur frjálsræði til að velja. Þar gaf hann okkur dásamlega gjöf.

Hvernig við erum gerð

3-5. Hvers vegna kunnum við að meta frjálsan vilja?

3 Við skulum íhuga hvernig frjáls vilji tengist því að Guð leyfi þjáningar. Til að byrja með skalt þú íhuga eftirfarandi: Kannt þú að meta það að geta valið hvað þú gerir og segir, borðar og klæðist, hvers konar starf þú stundar og hvar og hvernig þú býrð, eða myndir þú vilja að einhver læsi þér fyrir hvert orð og hverja athöfn allar stundir lífsins?

4 Enginn eðlilegur maður vill láta taka svo gersamlega af sér ráðin yfir eigin lífi. Hvers vegna ekki? Vegna þess hvernig Guð bjó okkur til. Biblían segir okkur að Guð hafi skapað manninn ‚eftir sinni mynd, líkan sér,‘ og einn af eiginleikum Guðs er frelsi til að velja. (1. Mósebók 1:26; 5. Mósebók 7:6) Þegar hann skapaði manninn gaf hann honum þennan sama dásamlega eiginleika — frjálsan vilja. Þess vegna er okkur skapraun að því að sæta kúgun af hendi yfirvalda.

5 Frelsisþráin er því engin tilviljun af því að Guð er Guð frelsisins. Biblían segir: „Þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ (2. Korintubréf 3:17) Guð lét því frjálsan vilja vera okkur eðlislægan. Þar sem hann vissi hvernig hugur okkar og tilfinningar myndu starfa vissi hann að við yrðum hamingjusömust með frjálsan vilja.

6. Hvernig skapaði Guð heila okkar til að starfa í samræmi við frjálsan vilja?

6 Samhliða frjálsum vilja gaf Guð okkur hæfnina til að hugsa, vega og meta málin, taka ákvarðanir og greina rétt frá röngu. (Hebreabréfið 5:14) Frjáls vilji átti því að grundvallast á skynsamlegu vali. Við erum ekki gerð eins og hugsunarlaus vélmenni sem hafa engan sjálfstæðan vilja. Ekki vorum við heldur sköpuð til að hegða okkur samkvæmt eðlishvöt eins og dýrin. Stórkostlegur heili okkar var þess í stað hannaður til að starfa í samræmi við valfrelsi okkar.

Besta byrjunin

7, 8. Hvaða góða byrjun gaf Guð fyrstu foreldrum okkar?

7 Umhyggja Guðs sást á því að fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu, var auk frjálsa viljans gefið allt það sem menn gátu með sanngirni óskað sér. Þau voru sett í stóran lystigarð, paradís. Efnislegum þörfum þeirra var ríkulega mætt. Þau höfðu fullkominn huga og líkama og þurftu því ekki að hrörna er árin liðu, veikjast og deyja — þau hefðu getað lifað að eilífu. Þau hefðu getað eignast fullkomin börn sem einnig hefðu getað lifað hamingjusöm um eilífð. Vaxandi fólksfjöldinn hefði haft það ánægjulega verkefni að gera að lokum alla jörðina að paradís. — 1. Mósebók 1:26-30; 2:15.

8 Biblían segir varðandi það sem látið var í té: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Biblían segir einnig um Guð: „Fullkomin eru verk hans.“ (5. Mósebók 32:4) Já, skaparinn gaf mannkyninu fullkomna byrjun. Hún hefði ekki getað verið betri. Sannarlega reyndist hann umhyggjusamur Guð.

Frelsinu settar skorður

9, 10. Hvers vegna verður að tempra frjálsan vilja á réttan hátt?

9 Var það hins vegar ætlun Guðs að hinn frjálsi vilji væri takmarkalaus? Ímyndaðu þér erilsama borg án umferðarlaga þar sem menn gætu ekið í allar áttir án hraðatakmarkana. Vildir þú aka við slíkar kringumstæður? Nei, umferðin væri stjórnlaus og slysin létu örugglega ekki á sér standa.

10 Sama gildir um frjálsa viljann sem Guð hefur gefið. Takmarkalaust frelsi myndi þýða stjórnleysi í samfélaginu. Það verða að vera til lög til að stýra athöfnum manna. Orð Guðs segir: „Hegðið ykkur eins og frjálsir menn og notið aldrei frelsi ykkar sem afsökun fyrir illskunni.“ (1. Pétursbréf 2:16, The Jerusalem Bible) Guð vill að frjálsum vilja séu settar skorður í almannaþágu. Hann ætlaði okkur ekki að hafa algert frelsi heldur afstætt frelsi er lyti lögum og reglum.

Lögum frá hverjum?

11. Lögum hvers vorum við gerð til að hlýða?

11 Lögum hvers vorum við gerð til að hlýða? Annar hluti versins í 1. Pétursbréfi 2:16 (JB) segir: „Þið eruð einskis þrælar nema Guðs.“ Hér er ekki átt við harða þrælkun heldur merkir þetta þess í stað að við erum sköpuð til að vera hamingjusömust þegar við lútum lögum Guðs. (Matteus 22:35-40) Lög hans veita bestu leiðsögnina, betri en nokkur lög af hendi manna. „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — Jesaja 48:17.

12. Hvaða valfrelsi höfum við innan ramma laga Guðs?

12 Jafnframt er rúm fyrir mikið valfrelsi innan þeirra marka sem lög Guðs setja. Það leiðir af sér fjölbreytni og gerir mannkynið heillandi. Hugsaðu þér hinn fjölbreytta mat, klæðnað, tónlist, listaverk og heimili út um gervallan heim. Vissulega viljum við frekar fá að velja sjálf í slíkum málum en að láta einhvern annan ákveða þau fyrir okkur.

13. Hvaða náttúrulögmálum verðum við að lúta í eigin hag?

13 Við vorum því sköpuð þannig að okkur líður best þegar við lútum lögum Guðs um mannlega hegðun. Það líkist því að lúta náttúrulögmálum Guðs. Ef við til dæmis hunsum þyngdarlögmálið og stökkvum fram af hengiflugi slösumst við eða bíðum bana. Ef við hunsum líkamslögmálin og hættum að borða, drekka vatn eða draga andann munum við deyja.

14. Hvernig vitum við að maðurinn var ekki skapaður til að vera óháður Guði?

14 Jafnörugglega og okkur var ásköpuð sú þörf að lúta náttúrulögmálum Guðs var okkur ásköpuð sú þörf að lúta siðferðislögum og félagslegum lögum Guðs. (Matteus 4:4) Mennirnir voru ekki skapaðir til að farnast vel óháðir skapara sínum. Spámaðurinn Jeremía segir: „Það [er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum. Refsa [„leiðréttu,“ New World Translation] oss, [Jehóva].“ (Jeremía 10:23, 24) Mennirnir voru því á allan hátt skapaðir til að lifa undir stjórn Guðs en ekki sinni eigin.

15. Hefðu lög Guðs verið byrði fyrir Adam og Evu?

15 Það hefði ekki verið mikil byrði fyrir fyrstu foreldra okkar að hlýða lögum Guðs. Öllu heldur hefði það stuðlað að velferð þeirra og alls mannkyns. Hefðu fyrstu hjónin haldið sér innan ramma laga Guðs hefði allt farið vel. Þá værum við núna í dásamlegri paradís unaðarins sem kærleiksríkt og sameinað mannkyn. Illska, þjáningar og dauði hefðu aldrei komið til sögunnar.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 11]

Skaparinn gaf mönnum fullkomna byrjun.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Vildir þú aka í þungri umferð ef það væru engin umferðarlög?