Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn dásamlegi nýi heimur sem Guð býr til

Hinn dásamlegi nýi heimur sem Guð býr til

10. hluti

Hinn dásamlegi nýi heimur sem Guð býr til

1, 2. Hvað mun gerast eftir að hreinsað hefur verið til í stríðinu við Harmagedón?

HVAÐ mun gerast eftir að Guð hefur hreinsað til í stríðinu við Harmagedón? Þá mun hefjast nýtt og dýrlegt tímaskeið. Þeir sem lifðu af Harmagedón hafa þegar sannað hollustu sína við stjórn Guðs og eru nú komnir inn í nýja heiminn. Hrífandi tímar eru gengnir í garð þegar dásamlegar blessanir streyma frá Guði til manna.

2 Undir handleiðslu Guðsríkis munu þeir sem lifðu af hefjast handa við að byggja upp paradís. Krafta sína munu þeir helga óeigingjörnum verkefnum sem verða öllum þálifandi mönnum til blessunar. Jörðin mun byrja að breytast í fallegt, friðsælt og fullnægjandi heimili handa mannkyninu.

Réttlæti kemur í stað mannvonsku

3. Hvaða létti munu menn verða varir við strax eftir Harmagedón?

3 Allt verður þetta mögulegt við það að eyða heimi Satans. Aldrei framar verða til sundrandi falstrúarbrögð, þjóðfélagskerfi eða ríkisstjórnir. Aldrei framar mun til vera djöfullegur áróður til að blekkja fólk; áróðursmeistararnir og verkfæri þeirra munu tortímast með kerfi Satans. Hugsaðu þér: Búið verður að hreinsa burt allt hið eitraða andrúmsloft frá heimi Satans. Hvílíkur léttir!

4. Lýstu þeirri breytingu á kennslu sem eiga mun sér stað.

4 Í stað niðurrifshugmynda stjórnkerfa mannanna kemur þá uppbyggjandi fræðsla frá Guði. „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva].“ (Jesaja 54:13) Þessi heilnæma fræðsla ár eftir ár mun sannarlega leiða til þess að „jörðin [verður] full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Fólk mun ekki lengur læra það sem illt er heldur munu ‚byggjendur jarðríkis þá læra réttlæti.‘ (Jesaja 26:9) Uppbyggjandi hugsanir og verk verða ríkjandi einkenni manna. — Postulasagan 17:31; Filippíbréfið 4:8.

5. Hvað verður um alla illsku og illmenni?

5 Þar af leiðandi munu morð, ofbeldi, nauðganir, rán og hver önnur glæpaverk ekki fyrirfinnast lengur. Enginn mun þurfa að þjást vegna illvirkja annarra. Orðskviðirnir 10:30 segja: „Hinn réttláti bifast ekki að eilífu, en hinir óguðlegu munu ekki byggja landið.“

Fullkomin heilsa veitt á ný

6, 7. (a) Hvaða harðan veruleika mun stjórn Guðsríkis binda enda á? (b) Hvernig sýndi Jesús það meðan hann var á jörðinni?

6 Í nýja heiminum verða aftur teknar allar hinar slæmu afleiðingar upphaflegu uppreisnarinnar. Til dæmis mun stjórn Guðsríkis útrýma sjúkdómum og ellihrörnun. Jafnvel þótt þú búir núna við tiltölulega góða heilsu er hinn harði veruleiki sá að þegar þú eldist daprast sjónin, tennurnar ganga úr sér, heyrnin sljóvgast, húðin hrukkast og innri líffæri gefa sig uns þú deyrð að lokum.

7 Þessar þjakandi afleiðingar arfsins frá fyrstu foreldrum okkar munu hins vegar brátt heyra sögunni til. Manst þú hvað það var sem Jesús sýndi fram á varðandi heilsu manna þegar hann var hér á jörðu? Biblían greinir svo frá: „Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá. Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá.“ — Matteus 15:30, 31.

8, 9. Lýstu þeirri hamingju sem verða mun í nýja heiminum þegar fullkomin heilsa verður veitt á ný.

8 Þvílík hamingja verður í nýja heiminum þegar öll okkar mein munu hverfa. Aldrei aftur mun vanheilsa kvelja okkur. „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 33:24; 35:5, 6.

9 Verður það ekki hrífandi að vakna hvern morgun og gera sér ljóst að maður geislar af hreysti og heilbrigði? Verður það ekki gleðilegt fyrir aldraða að komast að raun um að þeir hafa endurheimt æskuþróttinn að fullu og munu öðlast þann fullkomleika sem Adam og Eva nutu í upphafi? Loforð Biblíunnar hljóðar svo: „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ (Jobsbók 33:25) Þvílík ánægja það verður að henda þessum gleraugum, heyrnartækjum, hækjum, hjólastólum og lyfjum. Aldrei verður aftur þörf á sjúkrahúsum, læknum og tannlæknum.

10. Hvað verður um dauðann?

10 Menn sem eru svona heilbrigðir munu ekki vilja deyja. Og þeir munu ekki þurfa þess af því að mannkynið mun ekki lengur vera í helgreipum arfborins ófullkomleika og dauða. Kristi „ber að ríkja, uns [Guð] leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ „Náðargjöf Guðs er eilíft líf.“ — 1. Korintubréf 15:25, 26; Rómverjabréfið 6:23; sjá einnig Jesaja 25:8.

11. Hvernig dregur Opinberunarbókin saman þá blessun sem veitast mun í nýja heiminum?

11 Síðasta bók Biblíunnar dregur saman þá blessun sem mun streyma frá umhyggjusömum Guði til mannkynsins í paradís, er hún segir: „Og [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Hinir dánu snúa aftur

12. Hvernig sýndi Jesús upprisuvaldið sem Guð gaf honum?

12 Jesús gerði meira en að lækna sjúka og lamaða. Hann náði mönnum einnig út úr dánarheimum. Þannig sýndi hann hið dásamlega vald sem Guð hafði gefið honum til að reisa fólk upp frá dauðum. Manst þú eftir frásögninni af því þegar Jesús kom í hús manns sem átti dóttur er var nýdáin? Jesús sagði við látnu stúlkuna: „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“ Með hvaða árangri? „Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um.“ Þegar viðstaddir sáu það urðu þeir „frá sér numdir af undrun.“ Þeir réðu sér varla fyrir gleði. — Markús 5:41, 42; sjá einnig Lúkas 7:11-16; Jóhannes 11:1-45.

13. Hvers konar fólk verður reist upp frá dauðum?

13 Í nýja heiminum ‚munu upp rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Þegar sá tími er kominn mun Jesús nota valdið frá Guði til að reisa upp hina dánu. Hann útskýrði hvers vegna þegar hann sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa [„lifna,“ NW], þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:25) Hann sagði einnig: „Allir þeir, sem í gröfunum [„minningargröfunum,“ NW] eru [eru í minni Guðs], munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

14. Hvaða hlutir verða óþarfir úr því að dauðinn verður ekki lengur til?

14 Mikil verður gleðin um gervalla jörð þegar hver hópurinn á fætur öðrum af dánu fólki snýr aftur til lífsins og sameinast ástvinum sínum. Aldrei framar birtast dánartilkynningar eftirlifendum til hugarangurs. Í stað þess má vel vera að hið gagnstæða gerist: Ástvinum til gleði birtist tilkynningar um hverjir hafa nýlega risið upp. Jarðarfarir, bálfarir og kirkjugarðar verða því úr sögunni.

Sannarlega friðsæll heimur

15. Hvernig verður spádómur Míka að veruleika í fyllsta skilningi?

15 Sannur friður á öllum sviðum lífsins mun verða að veruleika. Styrjaldir, stríðsæsingamenn og hergagnaframleiðsla munu tilheyra liðinni tíð. Hvers vegna? Vegna þess að sundrandi þjóða-, þjóðflokka- og kynþáttahagsmunir munu hverfa. Í fyllsta skilningi ‚mun þá engin þjóð sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.‘ — Míka 4:3.

16. Hvernig mun Guð sjá um að styrjaldir verða ógerningur?

16 Þetta kann að hljóma furðulega í ljósi þess að saga mannsins einkennist af látlausum og grimmilegum styrjöldum. En þær hafa komið til vegna þess að menn og djöflar héldu um stjórnartaumana. Í nýja heiminum, undir stjórn Guðsríkis, mun eftirfarandi eiga sér stað: „Komið, skoðið dáðir [Jehóva] . . . Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ — Sálmur 46:9, 10.

17, 18. Hvaða samband mun ríkja milli manna og dýra í nýja heiminum?

17 Milli manna og dýra mun einnig ríkja friður eins og var í Eden. (1. Mósebók 1:28; 2:19) Guð segir: „Á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og . . . læt þá búa örugga.“ — Hósea 2:18.

18 Hversu víðtækur verður sá friður? „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ Aldrei framar munu dýr ógna mönnunum eða sjálfum sér. Jafnvel „ljónið mun hey eta sem naut.“ — Jesaja 11:6-9; 65:25.

Jörðinni breytt í paradís

19. Í hvað verður jörðinni breytt?

19 Allri jörðinni verður breytt í paradísarheimili handa mannkyninu. Þess vegna gat Jesús lofað manni sem trúði á hann: „Þú munt vera með mér í paradís.“ Biblían segir: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. . . . Því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.“ — Lúkas 23:43, NW; Jesaja 35:1, 6.

20. Hvers vegna mun hungur aldrei aftur hrjá mannkynið?

20 Undir stjórn Guðsríkis mun hungur aldrei aftur hrjá milljónir. „Gnóttir korns munu vera á jörðinni, á fjallatindunum mun vera meira en nóg.“ „Tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð.“ — Sálmur 72:16, NW; Esekíel 34:27.

21. Hvað mun verða um húsnæðisleysi, fátækrahverfi og vandræðahverfi?

21 Aldrei framar mun verða fátækt, heimilislaust fólk, fátækrahverfi eða hverfi sem undirlögð eru glæpum. „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Jesaja 65:21, 22; Míka 4:4.

22. Hvernig lýsir Biblían blessun þeirri sem fylgir stjórn Guðs?

22 Menn munu njóta allrar þessarar blessunar og meira til í paradís. Sálmur 145:16 segir: „Þú [Guð] lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Það er því ekki undarlegt að spádómur í Biblíunni skuli segja: „Hinir hógværu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. . . . Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:11, 29.

Skaði fortíðarinnar þurrkaður út

23. Hvernig mun Guðsríki gera að engu allar þær þjáningar sem við höfum mátt reyna?

23 Stjórn, Guðsríkis mun gera að engu allan þann skaða sem mannkynið hefur orðið fyrir síðastliðin sex þúsund ár. Gleðin þá mun gera miklu meira en að vega upp á móti hverri þeirri þjáningu sem menn kunna að hafa mátt þola. Slæmar minningar um fyrri þjáningar munu ekki ónáða menn. Hvern dag munu uppbyggjandi hugsanir og störf fylla líf manna og valda því að sársaukafullar minningar þurrkast smám saman út.

24, 25. (a) Hvaða framvindu spáði Jesaja? (b) Hvers vegna getum við verið viss um að minningar um fyrri þjáningar muni dofna?

24 Hinn umhyggjusami Guð lýsir yfir: „Ég skapa nýjan himin [nýja himneska stjórn yfir mannkyninu] og nýja jörð [réttlátt mannfélag], og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ „Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.“ — Jesaja 14:7; 65:17, 18.

25 Guð mun þess vegna fyrir tilstuðlan ríkis síns snúa algerlega við því slæma ástandi sem hefur varað svo lengi. Um alla eilífð mun hann sýna hversu mikla umhyggju hann ber fyrir okkur með því að úthella yfir okkur blessun sem mun margfalt vega upp á móti hverjum þeim sársauka sem við kunnum að hafa orðið fyrir á árum áður. Fyrri erfiðleikar, sem við höfum mátt þola, munu fölna sem óljósar minningar, ef við þá kærum okkur nokkuð um að muna eftir þeim.

26. Hvers vegna mun Guð bæta okkur upp allar fyrri þjáningar?

26 Á þennan hátt mun Guð bæta okkur upp þær þjáningar sem við kunnum að hafa mátt þola í þessum heimi. Hann veit að það var ekki okkur að kenna að við fæddumst ófullkomin, af því að við tókum ófullkomleikann í arf frá fyrstu foreldrum okkar. Það var ekki okkar sök að fæðast inn í heim sem Satan ríkti yfir, því að hefðu Adam og Eva reynst trúföst hefðum við þess í stað fæðst inn í paradís. Í gæsku sinni og meðaumkun mun Guð því gera meira en að bæta fyrir þá slæmu fortíð sem okkur hefur verið íþyngt með.,

27. Hvaða spádómar munu rætast á stórkostlegan hátt í nýja heiminum?

27 Í nýja heiminum fær mannkynið að reyna það frelsi sem spáð er í Rómverjabréfinu 8:21, 22: „Sjálf sköpunin [mun] verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ Fólk mun þá sjá algera uppfyllingu bænarinnar: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Hið stórkostlega ástand á jörðu sem er paradís mun endurspegla ástandið á himni.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Í nýja heiminum munu aldraðir endurheimta æskuþrótt sinn.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Öllum sjúkdómum og allri bæklun verður útrýmt í nýja heiminum.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Í nýja heiminum verða dánir reistir upp til lífs á ný.

[Mynd á blaðsíðu 26]

‚Þeir munu ekki temja sér hernað framar.‘

[Mynd á blaðsíðu 27]

Milli manna og dýra mun ríkja alger friður í paradís.

[Mynd á blaðsíðu 27]

‚Guð mun ljúka upp hendi sinni og seðja allt sem lifir með blessun.‘

[Mynd á blaðsíðu 28]

Guðsríki mun gera meira en bæta okkur upp alla þá þjáningu sem við höfum mátt þola.