Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða afleiðingar hefur uppreisnin haft?

Hvaða afleiðingar hefur uppreisnin haft?

7. hluti

Hvaða afleiðingar hefur uppreisnin haft?

1-3. Hvernig hefur tíminn sannað að Jehóva hefur á réttu að standa?

TIL hvaða niðurstöðu hefur aldalöng stjórn manna óháð Guði leitt varðandi deiluna um rétt Guðs til að stjórna? Hafa menn reynst betri stjórnendur en Guð? Svo sannarlega ekki ef við dæmum út frá harðýðgi manna hver gegn öðrum í tímans rás.

2 Það hafði hörmulegar afleiðingar að fyrstu foreldrar okkar skyldu hafna stjórn Guðs. Þeir leiddu þjáningar yfir sig og allt mannkynið sem frá þeim er komið. Og þeir gátu engum um kennt nema sjálfum sér. Orð Guðs segir: „Þeir hafa sjálfir hegðað sér skaðvænlega; þeir eru ekki börn hans, gallinn er þeirra eigin.“ — 5. Mósebók 32:5NW.

3 Sagan hefur sýnt að Guð hafði rétt fyrir sér er hann gaf Adam og Evu þá viðvörun að færu þau út fyrir þann ramma þar sem þau nutu ráðstafana Guðs myndu þau hrörna og að lokum deyja. (1. Mósebók 2:17; 3:19) Þau færðu sig undan stjórn Guðs og með tímanum hrörnuðu þau og dóu.

4. Hvers vegna erum við öll fædd ófullkomin, veikjumst og deyjum?

4 Rómverjabréfið 5:12 útskýrir það sem kom síðan fyrir alla afkomendur þeirra: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam, ættföður mannkynsins] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna.“ Þegar því fyrstu foreldrar okkar risu upp gegn tilsjón Guðs urðu þeir gallaðir og syndarar. Í samræmi við lögmál erfðafræðinnar var ófullkomleikinn, sem af því leiddi, eini arfurinn sem þeir gátu gefið afkomendum sínum. Af þeirri ástæðu höfum við öll fæðst gölluð, undirorpin sjúkdómum og dauða.

5, 6. Hvað hefur sagan sýnt um viðleitni mannsins til að færa sannan frið og farsæld?

5 Margar aldir eru liðnar. Heimsveldi hafa komið og farið. Allar hugsanlegar tegundir stjórnarfars hafa verið reyndar. Þó hafa hræðilegir atburðir hvað eftir annað komið fyrir mennina. Ætla mætti að eftir sex þúsund ár hefðu mennirnir náð svo langt að koma á friði, réttlæti og velsæld um heim allan og að nú væri svo komið að þeir hefðu fullkomlega á valdi sínu jákvæða eiginleika eins og góðvild, hluttekningu og samvinnu.

6 Raunin er hins vegar þveröfug. Ekkert það stjórnarform, sem menn hafa nokkru sinni fundið upp, hefur fært öllum sannan frið og velsæld. Núna á 20. öldinni einni höfum við séð milljónir myrtar á kerfisbundinn hátt í útrýmingarherferð nasista og meira en 100 milljónir strádrepnar í styrjöldum. Á okkar tímum hefur óteljandi fjöldi fólks verið pyndaður, drepinn eða fangelsaður vegna umburðarleysis eða stjórnmálaágreinings.

Staða mála nú á dögum

7. Hvernig má lýsa ástandi mannkynsins nú á dögum?

7 Hugleiddu þar að auki ástand mannkynsins í heild nú á dögum. Í heiminum er skefjalaust ofbeldi og glæpir. Fíkniefnaneysla er faraldur. Samræðissjúkdómar eru heimsfarsótt. Hið hræðilega alnæmi leggst á milljónir manna. Tugir milljóna deyja úr hungri eða af sjúkdómum ár hvert á meðan lítill hópur manna er vellauðugur. Menn menga jörðina og fara ránshendi um hana. Fjölskyldulífi og siðgæði hefur alls staðar hrakað. Lífið nú á dögum endurspeglar svo sannarlega ófrýnilega stjórn ‚guðs þessarar aldar,‘ Satans. Hann er höfðingi heims sem er kaldlyndur, óbilgjarn og gjörspilltur. — 2. Korintubréf 4:4.

8. Hvers vegna getum við ekki kallað afreksverk mannsins sannar framfarir?

8 Guð hefur veitt mönnum nægilegan tíma til að ná hátindi vísindalegra og efnislegra framfara sinna. En eru það ósviknar framfarir þegar vélbyssur, skriðdrekar, sprengjuþotur og kjarnorkuflugskeyti leysa af hólmi boga og örvar? Eru það framfarir þegar menn geta ferðast út í geiminn en ekki búið saman í friði á jörðinni? Eru það framfarir þegar fólk er hrætt við að vera á ferli á strætum úti á kvöldin eða jafnvel á daginn sums staðar?

Það sem tíminn hefur sýnt

9, 10. (a) Hvað hafa þær aldir, sem liðnar eru, greinilega sýnt? (b) Hvers vegna tekur Guð ekki frá mönnum frjálsan vilja?

9 Margra alda reynsla hefur sýnt að maðurinn getur engan veginn stýrt skrefum sínum svo vel fari án stjórnar Guðs. Það er ekkert frekar gerlegt fyrir hann en það að halda lífi án þess að borða, drekka eða anda. Vitnisburðurinn er skýr: Við vorum gerð til að vera háð leiðsögn skapara okkar jafnáreiðanlega og við vorum sköpuð til að vera háð fæðu, vatni og lofti.

10 Með því að leyfa illskuna hefur Guð í eitt skipti fyrir öll fært sönnur á sorglegar afleiðingar þess að misnota hinn frjálsa vilja. Og frjáls vilji er slík dýrindisgjöf að í stað þess að taka hana frá mönnum hefur Guð leyft þeim að sjá hvað misnotkun hennar þýðir. Orð Guðs mælir sannleika þegar það segir: „Það [er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Það fer einnig með rétt mál er það segir: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Jeremía 10:23; Prédikarinn 8:9.

11. Hefur eitthvert stjórnskipulag manna útrýmt þjáningum?

11 Það að Guð skuli hafa leyft stjórn manna í sex þúsund ár sýnir á ljóslifandi hátt að menn geta ekki stöðvað þjáningar. Menn hafa aldrei gert það. Salómon konungur í Ísrael gat til dæmis ekki í sinni tíð, með allri sinni visku, auðæfum og valdi, bætt úr því böli sem leiddi af stjórn manna. (Prédikarinn 4:1-3) Á sama hátt eru þjóðaleiðtogar okkar daga ófærir um að útrýma þjáningum, jafnvel með nýjasta tæknibúnaði. Og ekki er nóg með það heldur hefur sagan sýnt að óháðir stjórn Guðs hafa mennirnir aukið á þjáningarnar í stað þess að útrýma þeim.

Langtímaviðhorf Guðs

12-14. Hvaða gagn til langs tíma leiðir af því að Guð hefur leyft þjáningar?

12 Það hefur verið okkur sársaukafullt að Guð skuli hafa leyft þjáningar. En hann hefur skoðað málið til langs tíma, vitandi um heilladrjúgar afleiðingar þess þegar til lengdar lætur. Viðhorf Guðs mun koma sköpunarverum hans að gagni, ekki aðeins um nokkur ár eða nokkur þúsund heldur um milljónir ára, já, um alla eilífð.

13 Komi nokkru sinni upp sú staða einhvern tíma í framtíðinni að einhver misnoti frjálsan vilja sinn til þess að draga í efa aðferðir Guðs yrði ekki nauðsynlegt að veita honum tíma til að sanna skoðun sína. Guð hefur þegar veitt uppreisnarseggjum þúsundir ára og með því sett lagalegt fordæmi sem beita má um alla eilífð hvar sem er í alheiminum.

14 Sökum þess að Jehóva hefur leyft illsku og þjáningar núna mun þegar hafa verið sannað nægjanlega að ekkert það sem er í ósamræmi við hann fær þrifist. Sýnt mun hafa verið tvímælalaust að ekkert sjálfstætt ráðabrugg manna eða andavera geti orðið til varanlegs gagns. Því mun Guð þá vera í fullum rétti að útrýma skjótlega sérhverjum uppreisnarsegg. „[Jehóva] . . . útrýmir öllum níðingum.“ — Sálmur 145:20; Rómverjabréfið 3:4.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 15]

Þegar fyrstu foreldrar okkar höfðu valið sjálfstæði gagnvart Guði fóru þau smám saman að hrörna og dóu að lokum.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Stjórn manna án tengsla við Guð hefur reynst skelfileg.

[Rétthafi]

Mynd frá bandarísku strandgæslunni.