Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig við getum vitað að til er Guð

Hvernig við getum vitað að til er Guð

3. hluti

Hvernig við getum vitað að til er Guð

1, 2. Hvaða meginregla hjálpar okkur að ákveða hvort til sé Guð?

EIN leið til að komast að raun um hvort Guð sé til er að beita þessari margreyndu meginreglu: Það þarf smið til að búa til smíðisgrip. Því flóknari sem smíðin er þeim mun hæfari verður smiðurinn að vera.

2 Líttu til dæmis á hlutina heima hjá þér. Einhver þurfti að búa til eða smíða borð, stóla, rúm, potta, pönnur, diska og önnur mataráhöld og sama gildir um veggina, gólfin og loftin. Þó er þetta tiltölulega einföld smíði. Úr því að það þarf smið til að búa til einfalda smíðisgripi, er þá ekki rökrétt að það þurfi enn hæfari smið til að búa til flókna hluti?

Hinn mikilfenglegi alheimur

3, 4. Hvernig hjálpar alheimurinn okkur að vita að Guð er til?

3 Það þarf úrsmið til að smíða úr. Hvað um sólkerfið okkar sem er óendanlega miklu flóknara, með sólinni og reikistjörnum hennar er snúast í kringum hana með nákvæmni upp á brot úr sekúndu öld eftir öld? Hvað um hina mikilfenglegu vetrarbraut sem við eigum heima í og í eru meira en 100 milljarðar stjarna? Hefur þú einhvern tíma litið upp í næturhimininn til að mæna á vetrarbrautina? Varstu hrifinn? Reyndu þá að gera þér í hugarlund hina ótrúlegu stærð alheimsins sem í eru ótal milljarðar vetrarbrauta eins og okkar. Hreyfingar þessara himinhnatta eru einnig svo áreiðanlegar að þeim hefur verið líkt við mjög nákvæmt úr.

4 Ef úr, sem er tiltölulega einfalt, gefur til kynna að úrsmiður hafi verið að verki gefur hinn óendanlega flóknari og mikilfenglegi alheimur vissulega til kynna tilvist hönnuðar og smiðs. Þess vegna hvetur Biblían okkur til að ‚hefja upp augu okkar til hæða og litast um‘ og spyr því næst: „Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann [Guð], sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ (Jesaja 40:26) Alheimurinn á þess vegna tilvist sína að þakka ósýnilegu, stýrandi og skynsömu afli — Guði.

Einstök hönnun jarðar

5-7. Hvaða staðreyndir varðandi jörðina sýna að hún átti sér hönnuð?

5 Því meir sem vísindamenn rannsaka jörðina, þeim mun betur gera þeir sér ljóst að hún er alveg sérstaklega hönnuð sem bústaður mannsins. Hún er í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sólu til að fá ljós og hita í hæfilegum mæli. Árleg hringferð jarðarinnar um sólu með nákvæmlega réttum möndulhalla veldur árstíðaskiptum á stórum hluta hennar. Með því að jörðin snýst að auki heilan snúning um möndul sinn á 24 stundum skiptast reglubundið á birta og myrkur. Hún hefur lofthjúp með alveg réttri blöndu lofttegunda til þess að við getum andað og fengið vörn gegn skaðlegum geimgeislum. Á henni er einnig hið lífsnauðsynlega vatn og jarðvegur þar sem matjurtir vaxa.

6 Án samvinnu allra þessara þátta, og fleiri til, væri lífið óhugsandi. Var þetta allt saman tilviljun? Tímaritið Science News segir: “Það virðist sem svo sérstakar og nákvæmar aðstæður hefðu varla getað orðið til af tilviljun.“ Nei, það gátu þær ekki. Þær komu til vegna markvissrar hönnunar frábærs hönnuðar.

7 Færir þú inn í fínt hús og sæir að þar væru ríflegar matarbirgðir, í því væri frábært hita- og loftræstikerfi, svo og góð pípulögn með rennandi vatni, hvaða ályktun myndir þú draga? Að það hafi allt orðið til af sjálfu sér? Nei, þú myndir vissulega álykta að skynsamur maður hefði hannað það og smíðað af mikilli natni. Jörðin var einnig hönnuð og smíðuð af mikilli natni til þess að búa hana öllu því sem byggjendur hennar myndu þurfa og hún er miklu flóknari og betur útbúin en nokkurt hús.

8. Hvað annað varðandi jörðina sýnir kærleiksríka umhyggju Guðs fyrir okkur?

8 Hugleiddu einnig hversu margt er til sem eykur ánægjuna af lífinu. Líttu á fjölbreytt og fagurlitað blómaskrúðið með þægilegri angan sem menn hafa ánægju af. Þá má nefna hið mikla fæðuúrval sem er svo ljúffengt á bragðið. Á jörðinni eru skógar, fjöll og vötn og önnur sköpunarverk sem gleðja augað. Eykur ekki líka fagurt sólarlag lífsgleði okkar? Og sé litið til dýraríkisins, er þá ekki gáskafullur leikur og aðlaðandi eðli hvolpa, kettlinga og annars ungviðis okkur til yndisauka? Á jörðinni er okkur búin mörg óvænt ánægja sem er ekki alger nauðsyn til lífsviðurværis. Það sýnir að jörðin var hönnuð af natni og umhyggju, með mennina í huga, til þess að við værum ekki aðeins til heldur myndum njóta lífsins.

9. Hver bjó til jörðina og hvers vegna bjó hann hana til?

9 Hin rökrétta niðurstaða er þess vegna sú að viðurkenna gjafara allra þessara hluta, eins og biblíuritarinn gerði sem sagði um Jehóva Guð: „Þú hefir gjört himin og jörð.“ Í hvaða tilgangi? Hann svarar með því að lýsa Guði sem þeim „er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ — Jesaja 37:16; 45:18.

Hin furðulega fruma

10, 11. Hvers vegna er lifandi fruma svo furðuleg?

10 Hvað um lifandi verur? Verður ekki einhver að hafa smíðað þær? Skoðaðu til dæmis fáeina af hinum furðulegu eiginleikum lifandi frumu. Sameindalíffræðingurinn Michael Denton segir í bók sinni Evolution: A Theory in Crisis: „Jafnvel einfaldasta lífkerfið á jörðinni nú á tímum, gerilfrumur, eru geysilega flókin fyrirbæri. Þó að smæstu gerilfrumurnar séu ótrúlega smáar, . . . er hver þeirra í rauninni verksmiðja í mjög smækkaðri mynd með þúsundum snilldarlega hannaðra vélarhluta er mynda margslungið sameindagangvirki . . . langtum flóknari en nokkur vél er menn smíða og hún á sér alls enga hliðstæðu í hinum ólífræna heimi.“

11 Um erfðalykilinn í sérhverri frumu fullyrðir hann: „Hæfni DNA [deoxyríbósakjarnsýru] til að geyma upplýsingar er langtum fremri því sem þekkist hjá nokkru öðru kerfi; hún er svo mikilvirk að allar þær upplýsingar, sem þarf til að tilgreina nákvæmlega hvern einasta hluta jafnflókinnar lífveru og maðurinn er, vega minna en nokkrir þúsundmilljónustu hlutar úr grammi. . . . Við hliðina á því stigi hugvits og margslunginnar smíði, sem birtist í þessu sameindagangvirki lífsins, virðist jafnvel fullkomnasti [tækjabúnaður] okkar klunnalegur. Við finnum til smæðar okkar.“

12. Hvað sagði vísindamaður um uppruna frumunnar?

12 Denton bætir við: „Einfaldasta frumutegundin, sem við þekkjum, er svo flókin að það er ómögulegt að samþykkja að slíkt fyrirbæri hafi orðið til við það að einhvers konar fáránlegur og óhemjuólíklegur atburður hafi skyndilega fleygt því saman.“ Hönnuður og smiður hlýtur að hafa verið þar að verki.

Hinn ótrúlegi heili okkar

13, 14. Hvers vegna er heilinn enn furðulegri en lifandi fruma?

13 Síðan segir þessi vísindamaður: „Þegar fjallað er um flókin fyrirbæri er einstök fruma ekkert í samanburði við kerfi eins og spendýrsheila. Mannsheilinn er samsettur úr um það bil tíu þúsund milljónum taugafrumna. Út frá hverri taugafrumu liggja einhvers staðar á bilinu tíu þúsund til eitt hundrað þúsund tengiþræðir sem fruman notar til að tengjast öðrum taugafrumum í heilanum. Að öllu samanlögðu nálgast heildartengingafjöldinn í mannsheilanum það að vera . . . þúsund milljón milljónir.“

14 Michael Denton heldur áfram: „Jafnvel þótt aðeins einn hundraðasti af tengingunum í heilanum væri sérstaklega skipulagður væri þar samt komið kerfi með miklu fleiri sérhæfðar tengingar en gervallt fjarskiptanet jarðarinnar.“ Því næst spyr hann: „Er hugsanlegt að einhvers konar tilviljunarferli hafi nokkurn tíma sett saman slík kerfi?“ Svarið getur greinilega ekki verið annað en: Nei. Heilinn hlýtur að hafa átt sér umhyggjusaman hönnuð og smið.

15. Hvaða orð láta aðrir falla um heilann?

15 Fullkomnustu tölvur virðast frumstæðar í samanburði við mannsheilann. Morton Hunt, sem skrifar um vísindi, sagði: „Hið virka minni okkar geymir nokkur þúsund milljón sinnum meiri upplýsingar en stór rannsóknartölva.“ Af þeim sökum ályktaði taugaskurðlæknirinn dr. Robert J. White: „Ég á einskis annars úrkosti en að viðurkenna tilvist æðri vitsmunaveru sem er ábyrg fyrir hönnun og mótun þessa ótrúlega sambands heila og huga — sem er algerlega ofvaxið skilningi mannsins. . . . Ég verð að trúa að einhvers konar vitsmunir séu frumkvöðull alls þessa, að til sé einhver sem lét það verða til.“ Þessi einhver varð einnig að vera umhyggjusamur.

Einstakt blóðrásarkerfi

16-18. (a) Á hvaða vegu er blóðrásarkerfið einstakt? (b) Að hvaða niðurstöðu ættum við að komast?

16 Leiddu einnig hugann að hinu einstaka blóðrásarkerfi sem flytur næringarefni og súrefni og veitir vörn gegn sýkingum. Bókin ABC’s of the Human Body segir um rauðu blóðkornin, einn helsta hluta þessa kerfis: „Einn blóðdropi inniheldur meira en 250 milljónir aðskilinna blóðkorna . . . Líkaminn inniheldur ef til vill 25 billjónir slíkra frumna og væri þeim dreift út myndu þær þekja fjóra tennisvelli. . . . Endurnýjun þeirra fer fram með hraða sem nemur 3 milljónum nýrra frumna á sekúndu.“

17 Varðandi hvítu blóðkornin, sem er annar hluti þessa einstaka blóðrásarkerfis, segir þetta sama heimildarrit: „Enda þótt aðeins sé til ein tegund rauðra blóðkorna er hvítu blóðkornin að finna í mörgum afbrigðum, og er hver tegund hæf til að berjast fyrir líkamann á mismunandi hátt. Ein tegundin eyðir til dæmis dauðum frumum. Aðrar tegundir framleiða mótefni gegn veirum, afeitra aðskotaefni eða bókstaflega éta upp og melta gerla.“

18 Sannarlega stórkostlegt kerfi og skipulagt út í æsar. Vissulega hlýtur hvaðeina sem er svo vel saman sett og veitir slíka rækilega vörn að eiga sér mjög snjallan og umhyggjusaman skipuleggjanda — Guð.

Önnur undur

19. Hvernig er augað í samanburði við tækjabúnað manna?

19 Undur mannslíkamans eru mörg. Eitt þeirra er augað, svo snilldarlega hannað að engin myndavél getur líkt eftir því. Stjörnufræðingurinn Robert Jastrow sagði: „Augað virðist vera sérhannað; enginn sjónaukahönnuður hefði getað gert betur.“ Og tímaritið Popular Photography segir: „Sjónarsvið mannsaugans er langtum stærra en ljósmyndafilmu. Það sér í þrívídd, undir feiknalega gleiðu horni, án bjögunar, jafnvel sífellda hreyfingu . . . Það er ekki sanngjarnt að líkja myndavél við mannsaugað. Augað er líkara ótrúlega fullkominni ofurtölvu með gervigreind og getu til gagnavinnslu. Það vinnur með hraða og aðferðum sem eru langt fyrir ofan nokkurn tækjabúnað manna, tölvu eða myndavél.“

20. Hvað annað er furðulegt við mannslíkamann?

20 Hugleiddu einnig hvernig hin margslungnu líffæri líkamans vinna saman án meðvitaðrar áreynslu af okkar hálfu. Til dæmis setjum við ofan í magann margvíslega fæðu og drykki en líkaminn vinnur engu að síður úr þeim orku. Reyndu að setja svo margbreytileg efni í eldsneytisgeymi bifreiðar og sjáðu hversu langt hún kemst. Þá má nefna það kraftaverk sem barnsfæðing er; yndislegt barn verður til — eftirmynd foreldra sinna — á aðeins níu mánuðum. Og hvað um hæfni aðeins nokkurra ára barns til að læra að tala flókið tungumál?

21. Hvað segja sanngjarnir menn þegar þeir hugleiða dásemdir mannslíkamans?

21 Já, hin mörgu furðulegu og margslungnu sköpunarverk í mannslíkamanum fylla okkur óttablandinni aðdáun. Enginn verkfræðingur gæti leikið þetta eftir. Gætu þau verið verk blindrar tilviljunar? Örugglega ekki. Þess í stað taka sanngjarnir menn undir með sálmaritaranum þegar þeir íhuga alla hina dásamlegu eiginleika mannslíkamans: „Ég lofa þig [Guð] fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín.“ — Sálmur 139:14.

Hinn mesti smiður

22, 23. (a) Hvers vegna ættum við að viðurkenna tilvist skaparans? (b) Hvað segir Biblían réttilega um Guð?

22 Biblían fullyrðir: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Þar sem sérhvert hús, þótt einfalt sé, hlýtur að hafa verið byggt af einhverjum þá hlýtur einnig einhver að hafa búið til hinn margfalt flóknari alheim, svo og hið fjölbreytta líf á jörðinni. Þar sem við viðurkennum tilvist manna sem fundu upp tæki eins og flugvélar, sjónvörp og tölvur, ættum við þá ekki líka að viðurkenna tilvist hans sem gaf mönnunum heila til að búa til slíka hluti?

23 Biblían gerir það og kallar hann ‚Jehóva Guð, . . . þann er skóp himininn og þandi hann út, þann er breiddi út jörðina með öllu því sem á henni vex, þann er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni.‘ (Jesaja 42:5) Biblían lýsir yfir með réttu: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.

24. Hvernig getum við vitað að til er Guð?

24 Já, við getum vitað að til er Guð vegna þess sem hann hefur skapað. „Því að hið ósýnilega eðli [Guðs], . . . er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ — Rómverjabréfið 1:20.

25, 26. Hvers vegna er misnotkun hlutar engin rök gegn því að einhver hafi smíðað hann?

25 Þótt einhver smíðisgripur sé misnotaður þýðir það ekki að enginn hafi smíðað hann. Flugvél má nota í friðsamlegum tilgangi sem farþegavél. En það má líka nota hana til eyðileggingar sem sprengjuflugvél. Notkun flugvélar sem morðtóls þýðir ekki að enginn hafi smíðað hana.

26 Þó að mennirnir hafi svo oft sýnt illsku þýðir það á sama hátt ekki að enginn hafi búið þá til, að Guð sé ekki til. Þess vegna kemst Biblían réttilega svo að orði: „Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: ‚Hann hefir eigi búið mig til,‘ og smíðin geti sagt um smiðinn: ‚Hann kann ekki neitt?‘“ — Jesaja 29:16.

27. Hvers vegna getum við vænst þess af Guði að hann svari spurningum okkar varðandi þjáningar?

27 Skaparinn hefur birt visku sína í hinu furðulega flókna sköpunarverki sínu. Hann hefur sýnt að hann beri í rauninni umhyggju fyrir okkur með því að gera jörðina kjörinn stað til að lifa á, með því að smíða líkama okkar og huga á svona dásamlegan hátt og með því að búa til fjölmargt sem við getum haft gleði af. Vissulega myndi hann sýna sams konar visku og umhyggju með því að veita okkur svör við spurningum eins og: Hvers vegna hefur Guð leyft þjáningar? Hvað mun hann gera í því máli?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 5]

Jörðin, með lofthjúp sem skýlir henni, er einstakt heimili sem umhyggjusamur Guð hefur búið okkur.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Jörðin var búin til með kærleiksríkri umhyggju til þess að við gætum notið lífsins til fulls.

[Mynd á blaðsíðu 7]

‚Heili okkar er með fleiri tengingar en gervallt fjarskiptanet jarðarinnar.‘ — Sameindalíffræðingur

[Mynd á blaðsíðu 8]

„Augað virðist vera sérhannað; enginn sjónaukahönnuður hefði getað gert betur.“ — Stjarnfræðingur