Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig við vitum að við lifum á „síðustu dögum“

Hvernig við vitum að við lifum á „síðustu dögum“

9. hluti

Hvernig við vitum að við lifum á „síðustu dögum“

1, 2. Hvernig getum við vitað hvort við lifum á síðustu dögum?

HVERNIG getum við verið viss um að við lifum á þeim tíma þegar Guðsríki mun grípa til aðgerða gegn núverandi stjórnskipan manna? Hvernig getum við vitað að nú sé mjög nærri sá tími er Guð mun binda enda á alla illsku og þjáningar?

2 Lærisveinar Jesú Krists vildu fá að vita um þessi mál. Þeir spurðu hann hvert yrði „tákn“ nærveru hans sem valdhafa Guðsríkis og „endaloka veraldar.“ (Matteus 24:3) Jesús svaraði með því að segja nákvæmlega frá aðstæðum og atburðum sem skekja myndu allan heiminn og í sameiningu sýna að mannkynið lifði nú á „endalokunum,“ á „síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (Daníel 11:40; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Höfum við núna á þessari öld séð þetta samsetta tákn? Já, það höfum við í ríkum mæli.

Heimsstyrjaldir

3, 4. Hvernig falla styrjaldir þessarar aldar að spádómi Jesú?

3 Jesús spáði að ‚þjóð mundi rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.‘ (Matteus 24:7) Árið 1914 dróst heimurinn út í styrjöld þar sem herir og ríki voru virkjuð á þann hátt sem átti sér ekkert fordæmi í fyrri styrjöldum mannkynssögunnar. Sagnfræðingar þess tíma viðurkenndu það með því að kalla hana „stríðið mikla.“ Það var fyrsta styrjöld sinnar tegundar í sögunni, fyrsta heimsstyrjöldin. Um 20.000.000 hermanna og óbreyttra borgara týndu lífi, miklu fleiri en í nokkurri styrjöld fram að því.

4 Fyrri heimsstyrjöldin markaði upphaf síðustu daga. Jesús sagði að þessir og aðrir atburðir yrðu „upphaf fæðingarhríðanna.“ (Matteus 24:8) Það reyndist rétt þar sem síðari heimsstyrjöldin krafðist jafnvel enn fleiri mannslífa, 50.000.000 hermanna og óbreyttra borgara. Á 20. öldinni hafa meira en 100.000.000 manna verið drepnar í styrjöldum, meira en fjórfalt fleiri en samanlagt á 400 árum þar á undan. Sannarlega hrikalegur áfellisdómur yfir stjórn manna.

Aðrar sannanir

5-7. Hvað annað ber því vitni að núna séu síðustu dagar?

5 Jesús tók fram önnur einkenni sem myndu fylgja hinum síðustu dögum: „Þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum.“ (Lúkas 21:11) Þetta kemur vel heim og saman við atburðarásina upp frá 1914 þar sem slíkar hörmungar hafa valdið miklum mun meiri neyð en fyrr á tímum.

6 Reglulega verða meiriháttar jarðskjálftar sem kosta mörg mannslíf. Spánska veikin ein og sér lagði að velli um 20.000.000 manna upp úr fyrri heimsstyrjöldinni — sumir áætla jafnvel 30.000.000 eða fleiri. Alnæmi hefur lagt hundruð þúsunda í gröfina og gæti bætt þar við milljónum í náinni framtíð. Ár hvert deyja milljónir manna úr hjartabilun, krabbameini eða öðrum sjúkdómum. Auk þess deyja milljónir hægum hungurdauða. Það fer ekki á milli mála að ‚riddarar Opinberunarbókarinnar‘ hafa með styrjöldum sínum, matvælaskorti og farsóttum brytjað niður gífurlegan fjölda manna síðan 1914. — Opinberunarbókin 6:3-8.

7 Jesús spáði einnig þeirri aukningu glæpa sem öll lönd finna fyrir. Hann sagði: „Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ — Matteus 24:12.

8. Hvernig á spádómurinn í 2. Tímóteusarbréfi 3. kafla við okkar daga?

8 Spádómar Biblíunnar sögðu líka fyrir það siðferðishrun sem augljóst er um heim allan nú á tímum: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. . . . En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-13) Allt hefur þetta ræst beint fyrir augum okkar.

Annar þáttur

9. Hvað gerðist á himni á sama tíma og hinir síðustu dagar hófust á jörðinni?

9 Það er annað sem veldur því að þjáningar hafa aukist svo gegndarlaust á þessari öld. Um leið og hinir síðustu dagar hófust árið 1914 gerðist nokkuð sem setti mannkynið í enn meiri hættu. Þá gerðist það sem spádómur í síðustu bók Biblíunnar greinir frá: „Þá hófst stríð á himni: Míkael [Kristur í himnesku valdi] og englar hans fóru að berjast við drekann [Satan]. Drekinn barðist og englar hans [djöflarnir], en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ — Opinberunarbókin 12:7-9.

10, 11. Hvaða áhrif hafði það á mannkynið þegar Satan og djöflum hans var varpað niður til jarðarinnar?

10 Hvaða afleiðingar hafði þetta fyrir mannkynið? Spádómurinn heldur áfram: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Já, Satan veit að kerfi hans er á síðasta snúningi og hann gerir allt sem hann getur til að snúa mönnum gegn Guði áður en honum og heimi hans verður rutt úr vegi. (Opinberunarbókin 12:12; 20:1-3) Hvílík auvirðing hefur orðið hlutskipti þessara andavera af því að þær misnotuðu frjálsan vilja sinn. Hversu hræðilegt ástand hefur verið á jörðinni undir áhrifum þeirra, einkum síðan 1914.

11 Ekki er að undra að Jesús skyldi spá um okkar tíma: „Þá verða . . . ógnir og tákn mikil á himni.“ — Lúkas 21:11.

Stjórn manna og djöfla mun senn ljúka

12. Hver er einn af síðustu spádómunum sem á eftir að uppfyllast fyrir endalok þessa heimskerfis?

12 Hversu margir biblíuspádómar eiga enn eftir að uppfyllast áður en Guð eyðir núverandi kerfi? Mjög fáir. Einn hinna síðustu er í 1. Þessaloníkubréfi 5:3 sem segir: „Á meðan þeir eru að tala um frið og öryggi dynja skyndilega hörmungar yfir þá.“ (The New English Bible) Þetta sýnir að endir þessa kerfis hefst „á meðan þeir eru að tala.“ Heimurinn sér ekki fyrir tortíminguna sem skella mun á þegar menn síst búast við henni, þá er athygli þeirra snýst um frið þann og öryggi sem þeir vonast eftir.

13, 14. Hvaða hörmungatímum spáði Jesús og hvernig mun þeim ljúka?

13 Tíminn er að hlaupa frá þessum heimi sem er undir áhrifavaldi Satans. Brátt mun hann líða undir lok á hörmungatíma sem Jesús lýsti svo: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ — Matteus 24:21.

14 Hámark ‚þrengingarinnar miklu‘ mun verða styrjöld Guðs við Harmagedón. Það er sá tími sem Daníel spámaður talaði um þegar Guð mun „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki.“ Það mun þýða endalok allra núverandi stjórna manna sem ekki lúta leiðsögn Guðs. Stjórn Guðsríkis frá himni mun þá taka algerlega í sínar hendur stjórn allra málefna manna. Daníel spáði að aldrei aftur yrðu stjórnartaumarnir fengnir í hendur nokkurri „annarri þjóð.“ — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14-16.

15. Hvað mun verða um áhrif Satans og djöfla hans?

15 Á sama tíma munu og hverfa öll áhrif Satans og djöfla hans. Þeim uppreisnargjörnu andaverum verður rutt úr vegi svo að þær geti ‚ekki framar leitt þjóðirnar afvega.‘ (Opinberunarbókin 12:9; 20:1-3) Þessar andaverur hafa verið dæmdar til dauða og bíða eyðingar. Hvílíkur léttir það verður mannkyninu að vera laust við auvirðandi áhrif þeirra.

Hverjir munu lifa af og hverjir ekki?

16-18. Hverjir munu lifa af endi þessa heimskerfis og hverjir ekki?

16 Hverjir munu lifa af og hverjir ekki þegar dómi Guðs er fullnægt á þessum heimi? Biblían sýnir að þeir sem vilja stjórn Guðs muni njóta verndar og lifa af. Þeir sem vilja ekki stjórn Guðs munu enga vernd fá heldur verða eytt ásamt heimi Satans.

17 Orðskviðirnir 2:21, 22 segja: „Hinir hreinskilnu [þeir sem gefa sig stjórn Guðs á vald] munu byggja landið [„jörðina,“ NW], og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu [þeir sem ekki gefa sig stjórn Guðs á vald] munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“

18 Sálmur 37:10, 11 segir einnig: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Vers 29 bætir við: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“

19. Hvaða ráðleggingar ættum við að taka til okkar?

19 Við ættum að taka til okkar ráðleggingarnar í Sálmi 37:34 þar sem segir: „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið [„jörðina,“ NW], og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ Vers 37 og 38 segja: „Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.“

20. Hvers vegna getum við sagt að það sé spennandi að vera uppi nú á tímum?

20 Það er sannarlega hughreystandi, já, hrífandi að vita að Guð ber í raun umhyggju fyrir okkur og að hann muni innan tíðar binda enda á alla illsku og þjáningar. Eftirvænting okkar er mikil þegar við gerum okkur ljóst hversu stutt er í uppfyllingu þessara dýrlegu spádóma.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Biblían spáði atburðunum sem mundu vera „tákn“ hinna síðustu daga.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Bráðlega verður þeim eytt í Harmagedón sem gefa sig ekki stjórn Guðs á vald. Þeir sem gefa sig henni á vald munu lifa af inn í réttlátan nýjan heim.