Hvers vegna Guð hefur leyft þjáningar
6. hluti
Hvers vegna Guð hefur leyft þjáningar
1, 2. Hvernig spilltu fyrstu foreldrar okkar hinni góðu byrjun sem Guð gaf þeim?
HVAÐ fór úrskeiðis? Hvað gerðist sem eyðilagði þá góðu byrjun sem Guð gaf fyrstu foreldrum okkar í paradísargarðinum Eden? Hvers vegna hefur illska og þjáningar, í stað friðar og fegurðar paradísar, ráðið ríkjum um þúsundir ára?
2 Ástæðan er sú að Adam og Eva misnotuðu frjálsan vilja sinn. Þau misstu sjónar á þeirri staðreynd að þau voru ekki sköpuð til að þrífast aðskilin frá Guði og lögum hans. Þau
ákváðu að verða óháð Guði í þeirri trú að það myndi bæta líf þeirra. Þau stigu þess vegna út fyrir þau mörk sem Guð hafði sett frjálsum vilja þeirra. — 1. Mósebók, 3. kafli.Deilan um alheimsdrottinvald
3-5. Hvers vegna eyddi Guð ekki einfaldlega Adam og Evu og byrjaði upp á nýtt?
3 Hvers vegna eyddi Guð ekki einfaldlega Adam og Evu og byrjaði upp á nýtt með önnur hjón? Vegna þess að alheimsdrottinvald hans, það er að segja óafsalanlegur réttur hans til að ríkja, hafði verið vefengdur.
4 Spurningin var: Hver hefur rétt til að stjórna og stjórn hvers er rétt? Guð er alvaldur og skapari allra sköpunarvera og það gefur honum rétt til að ríkja yfir þeim. Stjórn hans er best fyrir þær allar af því að hann er alvitur. En nú hafði stjórn Guðs verið vefengd. Einnig mátti spyrja hvort eitthvað væri að sköpunarverki hans — manninum. Við munum athuga síðar hvernig spurningin um hollustu manna tengist þessu máli.
5 Sjálfstæði það sem maðurinn tók sér gagnvart Guði leiddi af sér aðra spurningu: Gæti mönnum farnast betur ef Guð stjórnaði þeim ekki? Skaparinn vissi auðvitað svarið en örugg leið til að mennirnir kæmust að raun um það var að veita þeim hið algera frelsi sem þeir vildu. Þeir völdu þá stefnu af frjálsum vilja og því leyfði Guð það.
6, 7. Hvers vegna hefur Guð leyft mönnum að hafa algert frelsi svona lengi?
6 Með því að ætla mönnum nægan tíma til tilrauna með algert frelsi myndi Guð útkljá í eitt skipti fyrir öll hvort menn væru betur settir undir stjórn hans en á eigin vegum. Og tíminn, sem gefinn væri, þyrfti að vera nógu langur til að leyfa mönnum að ná að eigin mati hátindi afreka sinna á sviði stjórnmála, iðnaðar, vísinda og lækninga.
7 Þess vegna hefur Guð gefið manninum lausan tauminn allt fram á okkar dag til að tvímælalaust megi sjá hvort stjórn manna óháð Guði geti lánast. Maðurinn hefur þannig getað valið milli gæsku og grimmdar, milli kærleiks og haturs, milli réttlætis og ranglætis. En hann hefur einnig verið látinn standa frammi fyrir afleiðingunum af vali sínu: Góðvild og friði eða illsku og þjáningum.
Andaverur gera uppreisn
8, 9. (a) Hvernig braust út uppreisn í andaheiminum? (b) Hverja, fyrir utan Adam og Evu, fékk Satan til að gera uppreisn?
8 Það er annað atriði sem skoða þarf. Upprunalegir foreldrar okkar voru ekki þeir einu sem risu upp gegn stjórn Guðs. En hverjir aðrir voru til á þeim tíma? Andaverur. Áður en Guð skapaði mennina skapaði hann æðra lífsform, mikinn fjölda engla sem lifa skyldu á hinu himneska tilverusviði. Þeir voru einnig skapaðir með frjálsan vilja og líka með þörfina á að lúta stjórn Guðs. — Jobsbók 38:7; Sálmur 104:4, NW; Opinberunarbókin 5:11.
9 Biblían sýnir að uppreisn braust fyrst út á andasviðinu. Andavera vildi algert frelsi. Hún vildi jafnvel fá til sín tilbeiðslu manna. (Matteus 4:8, 9) Þessi andi og uppreisnarseggur átti þátt í því að fá Adam og Evu til að gera uppreisn er hann fullyrti ranglega að Guð neitaði þeim um einhver gæði. (1. Mósebók 3:1-5) Því er hann kallaður djöfull (rógberi) og Satan (andstæðingur). Seinna tældi hann aðrar andaverur til uppreisnar. Þær urðu þekktar sem illir andar eða djöflar. — 5. Mósebók 32:17; Opinberunarbókin 12:9; 16:14.
10. Hvaða afleiðingar hafði uppreisn mannsins og andaveranna?
10 Með því að rísa upp gegn Guði gáfu mennirnir sig undir áhrifavald Satans og djöfla hans. Þess vegna kallar Biblían Satan „guð þessarar aldar“ sem „hefur blindað huga hinna vantrúuðu.“ Sökum þess segir orð Guðs að „allur heimurinn [sé] á valdi hins vonda.“ Sjálfur Jesús kallaði Satan „höfðingja þessa heims.“ — 2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19; Jóhannes 12:31.
Tvö deilumál
11. Varðandi hvaða annað deiluefni ögraði Satan Guði?
11 Satan vakti upp annað deiluefni sem ögrar Guði. Í raun ásakaði hann Guð um að hafa gert mistök í því hvernig hann skapaði manninn og fullyrti að enginn myndi vilja gera það sem rétt væri ef þjarmað væri að honum. Hann hélt því meira að segja fram að menn myndu jafnvel formæla Guði lentu þeir í raunum. (Jobsbók 2:1-5) Á þennan hátt dró Satan í efa hollustu mannsins sem sköpunarveru.
12-14. Hvernig myndi tíminn leiða í ljós sannleikann varðandi það tvennt sem Satan gerði að deiluefni?
12 Guð hefur þess vegna gefið nægan tíma til að allar skynsemigæddar sköpunarverur sæju hvernig þetta deilumál, svo og deilan um drottinvald Guðs, yrði leyst. (Samanber 2. Mósebók 9:16.) Reynsla mannkynssögunnar myndi, þegar yfir lyki, leiða í ljós sannleikann í þessum tveimur málum.
13 Hvað myndi tíminn leiða í ljós varðandi deilumálið um alheimsdrottinvald, um réttmæti stjórnar Guðs? Gætu menn stjórnað mönnum betur en Guð? Myndi eitthvert stjórnkerfi manna, óháð Guði, skapa hamingjuríkan heim, lausan við styrjaldir, glæpi og ranglæti? Myndi nokkurt kerfi útrýma fátækt og færa öllum hagsæld, hvað þá ráða niðurlögum sjúkdóma, ellihrörnunar og dauða? Stjórn Guðs var útbúin til að gera það allt. — 1. Mósebók 1:26-31.
14 Hvað myndi tíminn leiða í ljós, viðvíkjandi seinna deilumálinu, um gildi mannsins sem sköpunarveru? Voru það mistök hjá Guði að skapa manninn á þennan hátt? Myndi nokkur maður breyta rétt ef á reyndi? Myndi nokkurt fólk sýna að það tæki stjórn Guðs fram yfir óháða stjórn mannanna?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 13]
Guð hefur veitt mönnunum tíma til að ná hátindi afreka sinna.
[Rétthafi]
Geimskutlan: Byggt á mynd frá NASA