Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilgangur Guðs nær fram að ganga

Tilgangur Guðs nær fram að ganga

8. hluti

Tilgangur Guðs nær fram að ganga

1, 2. Hvernig hefur Guð verið að gera ráðstafanir til að útrýma þjáningum?

STJÓRN upreisnargjarnra manna og djöfla hefur valdið afturför mannkynsins um margar aldir. Guð hefur þó ekki litið fram hjá þjáningum okkar. Hann hefur þess í stað allar þessar aldir verið að gera ráðstafanir til að losa mennina úr greipum illsku og þjáninga.

2 Á tíma uppreisnarinnar í Eden hóf Guð að opinbera þann tilgang sinn að mynda stjórn sem myndi gera jörðina að paradísarheimili fyrir mennina. (1. Mósebók 3:15) Síðar gerði Jesús, sem helsti talsmaður Guðs, þessa komandi stjórn Guðs að stefi prédikunar sinnar. Hann sagði að hún væri eina von mannkynsins. — Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10; 12:21.

3. Hvað kallaði Jesús hina komandi stjórn yfir jörðinni og hvers vegna?

3 Jesús kallaði þessa væntanlegu stjórn Guðs „himnaríki“ af því að henni var ætlað að stjórna frá himni. (Matteus 4:17) Hann kallaði hana líka „Guðs ríki“ af því að Guð yrði höfundur hennar. (Lúkas 17:20) Í aldanna rás innblés Guð skrifurum sínum að rita niður spádóma um þá sem myndu skipa þessa stjórn og um það sem hún kæmi til leiðar.

Nýr konungur jarðar

4, 5. Hvernig sýndi Guð að Jesús væri útvalinn konungur hans?

4 Það var Jesús sem fyrir næstum tvö þúsund árum uppfyllti hina mörgu spádóma um þann er myndi verða konungur Guðsríkis. Hann reyndist vera sá sem Guð valdi stjórnanda þessa himneska ríkis yfir mannkyninu. Eftir dauða Jesú reisti Guð hann til lífs á himni sem volduga, ódauðlega andaveru. Það voru margir vottar að upprisu hans. — Postulasagan 4:10; 9:1-9; Rómverjabréfið 1:1-4; 1. Korintubréf 15:3-8.

5 Jesús ‚settist því næst við hægri hönd Guðs.‘ (Hebreabréfið 10:12) Þar beið hann þess tíma er Guð myndi veita honum vald til að hefjast handa sem konungur Guðsríkis á himnum. Þetta uppfyllti spádóminn í Sálmi 110:1 þar sem Guð segir Jesú: „Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.“

6. Hvernig sýndi Jesús að hann var hæfur til að vera konungur Guðsríkis?

6 Meðan Jesús var á jörðinni sýndi hann að hann væri hæfur til slíkrar stöðu. Hann valdi að varðveita hollustu sína við Guð þrátt fyrir ofsóknir. Með því sýndi hann að Satan hafði logið þegar hann fullyrti að enginn maður myndi sýna Guði trúfesti þegar á reyndi. Jesús, fullkominn maður, „hinn síðari Adam,“ sýndi að Guð hafði ekki gert mistök við sköpun fullkominna manna. — 1. Korintubréf 15:22, 45; Matteus 4:1-11.

7, 8. Hvaða góð verk vann Jesús á meðan hann var á jörðinni og hvað sýndi hann fram á?

7 Hvaða stjórnandi hefur nokkurn tíma látið jafngott af sér leiða og Jesús gerði sín fáu þjónustuár? Með krafti frá heilögum anda Guðs læknaði Jesús sjúka, bæklaða, blinda, heyrnarlausa og mállausa. Hann reisti jafnvel upp dána. Hann sýndi í litlum mæli hvað hann mundi gera fyrir mannkynið í stórum mæli um alla jörðina þegar hann kæmist til valda sem konungur Guðsríkis. — Matteus 15:30, 31; Lúkas 7:11-16.

8 Jesús gerði svo margt gott er hann var á jörðinni að lærisveinn hans, Jóhannes, sagði: „En margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.“ — Jóhannes 21:25. *

9. Hvers vegna hópaðist heiðarlegt fólk til Jesú?

9 Jesús var gæskuríkur og hluttekningarsamur og bar mikinn kærleika til manna. Hann hjálpaði fátækum og undirokuðum en gerði þó auðmönnum og áhrifamönnum ekki lægra undir höfði. Heiðarlegt fólk brást vel við kærleiksríku boði Jesú þegar hann sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Guðhrætt fólk hópaðist til hans og hlakkaði til stjórnartíðar hans. — Jóhannes 12:19.

Meðstjórnendur

10, 11. Hverjir munu taka þátt í því með Jesú að ríkja yfir jörðinni?

10 Guðsríki á himni hefur aðstoðarfólk við stjórnsýsluna alveg eins og ríkisstjórnir manna. Fleirum en Jesú er ætlað að taka þátt í að ríkja yfir jörðinni af því að Jesús hét nánum félögum sínum að þeir myndu ríkja með honum sem konungar yfir mannkyninu. — Jóhannes 14:2, 3; Opinberunarbókin 5:10; 20:6.

11 Þar af leiðandi er takmarkaður hópur manna einnig reistur upp til lífs á himni ásamt Jesú. Þeir mynda Guðsríki sem mun færa mannkyninu eilífa blessun. (2. Korintubréf 4:14; Opinberunarbókin 14:1-3) Þannig hefur Jehóva í aldanna rás lagt grunninn að stjórnskipan sem mun færa mönnum endalausa blessun.

Óháð stjórn verður að víkja

12, 13. Hvað er Guðsríki núna í viðbragðsstöðu til að gera?

12 Á þessari öld hefur Guð blandað sér beint í málefni jarðarinnar. Eins og fjallað verður um í 9. hluta þessa bæklings sýnir Biblían að Guðsríki undir stjórn Krists var stofnsett árið 1914 og er núna í viðbragðsstöðu til að eyða öllu kerfi Satans. Guðsríki er reiðubúið til að „drottna [„sigra,“ NW] mitt á meðal óvina [Krists].“ — Sálmur 110:2.

13 Viðvíkjandi þessu segir spádómurinn í Daníel 2:44: „Á dögum þessara konunga [sem nú eru uppi] mun Guð himnanna hefja ríki [á himni], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða [stjórn manna verður aldrei aftur leyfð]. Það [Guðsríki] mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“

14. Hvaða hagur mun verða af því að bundinn verður endi á stjórn manna?

14 Stjórn Guðsríkis yfir jörðinni verður alger þegar öllum stjórnkerfum, sem eru óháð Guði, hefur verið rutt úr vegi. Og þar sem Guðsríki stjórnar frá himni geta menn aldrei spillt þeirri stjórn. Stjórnvaldið mun vera þar sem það var í upphafi, á himni, hjá Guði. Og þar sem stjórn Guðs mun stýra allri jörðinni verður enginn blekktur framar með falstrú eða ófullnægjandi heimspeki og stjórnmálakenningum manna. Engu slíku verður leyft að vera til. — Matteus 7:15-23; Opinberunarbókin, 17. til 19. kafli.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Fjallað er í heild um ævi Jesú í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur, gefin út árið 1997 af Vottum Jehóva.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 18]

Þegar Jesús var á jörðinni læknaði hann sjúka og reisti upp látna til að sýna hvað hann myndi gera í nýja heiminum.

[Myndir á blaðsíðu 19]

Guðsríki á himni mun ryðja úr vegi öllum stjórnkerfum sem lúta ekki leiðsögn Guðs.