Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað býr að baki snilldarverkinu?

Hvað býr að baki snilldarverkinu?

Fimmti kafli

Hvað býr að baki snilldarverkinu?

EINS og fram hefur komið í fyrri köflum hafa vísindauppgötvanir nú á tímum gefið okkur gnægð sannfærandi vitnisburðar um að hvort tveggja alheimurinn og lífið á jörðu hafi átt sér upphaf. Hvað kom þeim af stað?

Eftir að hafa skoðað fyrirliggjandi vitnisburð er það niðurstaða margra að einhver frumorsök hljóti að hafa verið til. Engu að síður kunna þeir að veigra sér við að tengja þessa orsök við einhverja persónu. Slík tregða gegn því að tala um skapara endurspeglar viðhorf ýmissa vísindamanna.

Albert Einstein var til dæmis sannfærður um að alheimurinn ætti sér upphaf og hann lét í ljós löngun „til að vita hvernig Guð skapaði heiminn.“ Einstein játaði þó ekki trú á Guð sem persónu; hann talaði um „trúartilfinningu“ sem nær um heima og geima og „þekkir engar kreddur og engan Guð sem skapaður er í mynd mannsins.“ Efnafræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Kenichi Fukui lét á líkan hátt í ljós trú á stórfenglegt burðarvirki í alheiminum. Hann sagði að „þessi miklu orsakatengsl og burðarvirki megi tjá með orðum eins og ‚Algildi‘ eða ‚Guð.‘“ Sjálfur kallaði hann þau „séreinkenni náttúrunnar.“

Er þér ljóst að slík trú á ópersónulega orsök á sér hliðstæðu í allflestum austurlenskum trúarbrögðum? Margir Austurlandabúar trúa því að náttúran hafi orðið til af sjálfu sér. Þessi hugmynd kemur jafnvel fram í kínversku stöfunum fyrir náttúru sem bókstaflega þýða „verður til af sjálfu sér“ eða „er til af sjálfu sér.“ Einstein áleit að búddhatrú næði vel að túlka trúartilfinningar hans. Búddha hélt því fram að það skipti ekki sérstöku máli hvort skapari hafi lagt hönd að verki við sköpun heimsins og mannsins eða ekki. Eins er í sjintótrúnni ekki að finna neina útskýringu á því hvernig náttúran varð til og sjintótrúarmenn trúa að guðirnir séu andar hinna látnu sem samlagi sig ef til vill náttúrunni.

Það er athyglisvert að slíkur hugsunargangur er ekki fjarri skoðunum sem voru vinsælar í Grikklandi til forna. Heimspekingurinn Epíkúros (341-270 f.o.t.) er sagður hafa trúað því að ‚guðir séu of fjarri til að geta gert okkur skaða eða gagn.‘ Hann hélt því fram að maðurinn væri náttúruafurð, líklega til kominn vegna sjálfkviknunar lífvera og vals náttúrunnar á þeim hæfustu. Svipaðar hugmyndir nú á tímum eru þannig langt frá því að vera nýjar.

Grísku stóuspekingarnir voru samtíðarmenn fylgismanna Epíkúrosar. Þeir settu náttúruna í sæti Guðs. Þeir hugðu að við dauðann gangi ópersónuleg orka frá manninum aftur til orkuhafsins sem er Guð. Þeim fannst að ekkert væri betra en að lifa í samræmi við náttúrulögmálin. Hefur þú heyrt svipaðar skoðanir nú á dögum?

Deilt um hvort Guð sé persóna

Engu að síður ættum við ekki að afskrifa allan fróðleik frá Grikklandi til forna sem skemmtilega en úrelta sögu. Þekktur kennari á fyrstu öld gekk út frá trúarhugmyndum í því landi þegar hann flutti eina af áhrifamestu ræðum mannkynssögunnar. Læknirinn og sagnfræðingurinn Lúkas færði ræðuna í letur og við finnum hana í 17. kafla Postulasögunnar. Hún getur hjálpað okkur að komast að niðurstöðu um einhverja frumorsök og sjá hvar við föllum inn í myndina. En hvernig má vera að ræða, flutt fyrir 1900 árum, hafi einhverja þýðingu fyrir einlægt fólk nú á tímum sem leitar að tilgangi í lífinu?

Hinum þekkta kennara, Páli, hafði verið boðið að ávarpa hæstarétt í Aþenu. Þar hitti hann fyrir fylgismenn Epíkúrosar og stóuspekinga sem trúðu ekki á Guð sem persónu. Í inngangsorðum sínum nefndi Páll að hann hefði séð í borg þeirri altari sem á var letrað „Ókunnum guði“ (gríska: Agnostoi Þeoi). Það er áhugavert að sumir álíta að breski líffræðingurinn Thomas H. Huxley (1825-1895) hafi ýjað að þessu þegar hann bjó til orðið „agnostic“ sem heiti á efasemdamönnum. Huxley notaði orðið um þá sem halda því fram að „menn viti ekki og geti ekki vitað neitt um hina hinstu orsök hlutanna (Guð) og grundvallareðli þeirra.“ En er það rétt, sem margir halda fram, að maðurinn geti ekkert vitað um skaparann?

Í sannleika sagt er það rangtúlkun á því sem Páll var að segja; röksemdir hans voru allt aðrar. Í stað þess að fullyrða að Guð yrði mönnum alltaf ókunnugur var hann einfaldlega að segja að hann væri ókunnur þessum Aþeningum. Páll hafði ekki handbæran eins margþættan vísindalegan vitnisburð um tilvist skapara og við höfum nú á dögum. Samt var Páll í engum vafa um að til er greindur Hönnuður sem er persóna með eiginleika sem laða okkur að honum. Taktu eftir hvernig Páll hélt máli sínu áfram:

„Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður. Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð. Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:23-26) Er þetta ekki athyglisverð röksemdafærsla?

Já, í stað þess að gefa í skyn að ekki væri hægt að þekkja Guð var Páll að undirstrika að þeir sem reistu altarið í Aþenu, svo og margir áheyrenda hans, þekktu Guð ekki enn. Því næst hvatti Páll þá — og alla sem síðan hafa lesið ræðu hans — til að leitast við að kynnast Guði af því að „hann [er eigi] langt frá neinum af oss.“ (Postulasagan 17:27) Ljóst er að Páll kom þeirri staðreynd hæversklega á framfæri að við getum séð vitnisburð um skapara allra hluta með því að skoða sköpun hans. Þegar við gerum það getum við líka komið auga á nokkra af eiginleikum hans.

Við höfum hér að framan skoðað ýmislegt sem bendir til skapara. Eitt er hinn gríðarstóri og snilldarlega skipulagði alheimur sem greinilega á sér upphaf. Annað er lífið á jörðinni, þar með talin sú hönnun sem líkamsfrumur okkar bera vitni um. Hið þriðja er mannsheilinn sem gerir okkur meðvitandi um okkur sjálf og fær um að hafa áhuga á framtíðinni. En lítum núna á tvö önnur dæmi um handaverk skaparans sem snerta okkur dag hvern. Þegar við gerum það ættir þú að spyrja sjálfan þig: ‚Hvað sýnir þetta mér um persónuleika hans sem hannaði þetta og bjó það til?‘

Við getum lært af sköpunarverkinu

Það eitt að skoða sköpunarverkið segir okkur mikið um skaparann. Páll nefndi dæmi um þetta við annað tækifæri þegar hann ávarpaði mannfjölda í Litlu-Asíu: „[Skaparinn] hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu. En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði.“ (Postulasagan 14:16, 17) Taktu eftir dæminu sem Páll gaf um hvernig skaparinn hefur vitnað um persónuleika sinn með því að veita mannkyninu fæðu.

Í sumum löndum nú á tímum kann fólk að taka það sem sjálfsagðan hlut að nóg sé til af matvælum. Annars staðar kostar það mikið basl að fá nóg að borða. Í báðum tilvikum er það þó visku og gæsku skaparans að þakka að við höfum yfir höfuð möguleika á að fá næringarríkan mat.

Bæði menn og skepnur geta fengið fæðu vegna þess að í náttúrunni eru margbrotnar hringrásir, svo sem hringrás vatns, kolefnis, fosfórs og köfnunarefnis. Alkunnugt er að við hina lífsnauðsynlegu ljóstillífun nota plönturnar koltvíildi og vatn sem hráefni til að framleiða sykrur og nota sólarljósið sem orkugjafa. Svo vill til að plönturnar gefa frá sér súrefni meðan á ljóstillífuninni stendur. Er hægt að kalla það „úrgangsefni“? Þessi aukaafurð er okkur ekkert úrgangsefni. Okkur er lífsnauðsynlegt að anda inn súrefni og nota það við efnaskipti eða bruna fæðunnar í líkamanum. Við efnaskiptin verður til koltvíildi sem við öndum frá okkur og plönturnar endurvinna sem hráefni í ljóstillífunina. Við höfum sjálfsagt lært um þetta ferli í líffræðitímum í skóla en það gerir það ekkert síður lífsnauðsynlegt og undursamlegt. En þetta ferli er þó aðeins byrjunin.

Fosfór er nauðsynlegur til orkuflutnings í líkamsfrumum manna og dýra. Hvaðan fáum við fosfórinn? Enn á ný frá plöntunum. Þær taka til sín ólífræn fosföt úr jarðveginum og breyta þeim í lífræn fosföt. Við borðum plöntur sem innihalda fosfór í þessu formi og notum hann til lífsnauðsynlegrar starfsemi. Að því búnu hverfur fosfórinn aftur til jarðvegsins í mynd „úrgangs“ frá líkamanum sem plönturnar geta á ný tekið til sín.

Við þurfum einnig köfnunarefni en það er að finna í sérhverri prótín- og DNA-sameind í líkamanum. Hvernig fáum við þetta frumefni sem við getum ekki lifað án? Þó að um það bil 78 prósent af andrúmsloftinu umhverfis okkur sé köfnunarefni geta hvorki plöntur né dýr tekið það milliliðalaust til sín. Þess vegna verður að breyta köfnunarefni loftsins í aðra mynd áður en plönturnar geta innbyrt það og menn og dýr síðan nýtt sér köfnunarefnið. Hvernig á þessi binding eða umbreyting úr lofttegund í fast efni sér stað? Á ýmsa lund. Ein leiðin er þrumuveður. * Binding köfnunarefnis á sér líka stað fyrir áhrif gerla sem hafast við í örðum á rótum belgjurta eins og gulertu, sojabauna og refasmára. Þessir gerlar breyta köfnunarefni loftsins í efnasambönd sem jurtirnar geta notað. Þegar við borðum grænmeti verður þetta til þess að við fáum köfnunarefni sem líkaminn þarf til að framleiða prótín. Það er stórmerkilegt að finna megi belgjurtaafbrigði í regnskógum hitabeltisins, í eyðimörkum og jafnvel í freðmýrum. Og ef þessi svæði brenna eru belgjurtirnar yfirleitt fyrstu plönturnar til að nema þar land á ný.

Þetta eru sannarlega frábær endurvinnslukerfi. Sérhvert þeirra nýtir sér vel úrgang annarra vinnslukerfa. Orkan, sem til þarf, kemur aðallega frá sólinni, sem er hrein, ótæmandi og stöðug orkulind. Viðleitni manna til að endurnýta hráefni kemst í engan samjöfnuð við þetta. Það er jafnvel ekki tryggt að þær framleiðsluvörur, sem sagðar eru vistvænar, stuðli að hreinna umhverfi vegna þess að endurvinnsluaðferðir manna eru svo margþættar. Tímaritið U.S.News & World Report benti á í þessu sambandi að vörur ætti að framleiða á þann hátt að auðvelt væri að endurvinna úr þeim verðmætu efnisþættina. Er það ekki einmitt það sem við sjáum í þessum hringrásum náttúrunnar? Hvað segir það um fyrirhyggju og visku skaparans?

Óhlutdrægur og réttlátur

Til að auðvelda okkur að koma auga á nokkra af eiginleikum skaparans skulum við skoða enn eitt kerfið — ónæmiskerfið í líkama okkar. Þar koma gerlar líka við sögu.

„Þó að áhugi manna á gerlum beinist iðulega að skaðlegum áhrifum þeirra,“ segir í The New Encyclopædia Britannica, „eru flestir gerlar skaðlausir mönnum og margir þeirra eru raunar til gagns.“ Satt að segja eru þeir lífsnauðsynlegir. Gerlar gegna veigamiklu hlutverki í köfnunarefnishringrásinni sem minnst var á hér áður, svo og í hringrásum koltvíildis og nokkurra frumefna. Við þurfum líka að hafa gerla í meltingarfærunum. Við höfum um 400 afbrigði í neðri hluta meltingarvegarins, digurgirninu, og þau eiga þátt í vinnslu K-vítamíns og meðhöndlun úrgangsefna. Það er okkur líka í hag að gerlar skuli aðstoða kýr við að breyta grösum í mjólk. Aðra gerla þarf til að gerjun eigi sér stað. Án þeirra gætum við ekki framleitt osta, skyr, jógúrt, súrmeti og annað slíkt. En hvað gerist ef gerlar komast í þá líkamshluta sem þeir eiga ekki heima í?

Þá leggja allt að tveimur billjónum hvítra blóðkorna í líkamanum til atlögu við gerlana sem gætu skaðað okkur. Daniel E. Koshland, ritstjóri tímaritsins Science, lýsir því þannig: „Ónæmiskerfið er hannað til að bera kennsl á aðskotadýr. Í þeim tilgangi myndar það um 1011 [100.000.000.000] mismunandi ónæmisskynjara þannig að hver sem lögun eða mynd aðskotadýrsins kann að vera er alltaf fyrir hendi einhver samsvarandi skynjari til að greina það og sjá um að því verði eytt.“

Ein af þeim frumutegundum, sem líkaminn notar til varnar aðskotadýrum, er gleypillinn sem ber nafn með rentu af því að hann gleypir aðskotaefni í blóðinu. Þegar gleypillinn hefur étið innrásarveiru brýtur hann veiruna niður í litla mola. Því næst hefur hann eitthvert prótín úr veirunni til sýnis. Þessi litli prótínbútur virkar eins og rauður fáni á ónæmiskerfið, viðvörunarmerki um að framandi lífverur leiki lausum hala inni í okkur. Ef önnur fruma í ónæmiskerfinu, aðstoðar-T-fruman, kannast við vírusprótínið skiptist hún á efnaboðum við gleypilinn. Boðefnin eru í sjálfu sér stórmerkileg prótín sem gegna furðulega margþættu hlutverki við að stilla og efla viðbrögð ónæmiskerfisins við innrás. Þetta samspil leiðir til þróttmikillar baráttu gegn þessari sérstöku veirutegund. Á þennan hátt tekst okkur yfirleitt að ráða niðurlögum sýkinga.

Í rauninni kemur miklu fleira hér við sögu, en þessi stutta lýsing sýnir þó hve flókið ónæmiskerfið er. Hvernig fengum við þennan margbrotna búnað? Við fengum hann ókeypis og var ekkert litið til efnahags fjölskyldunnar eða þjóðfélagsstöðu. Til samanburðar má taka óréttlætið innan þeirrar heilbrigðisþjónustu sem flestum jarðarbúum stendur til boða. „Í augum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar snýst síaukið óréttlætið bókstaflega um líf og dauða vegna þess að fátækir gjalda hins félagslega misréttis með heilsu sinni,“ skrifaði Hiroshi Nakajima aðalframkvæmdastjóri þeirrar stofnunar. Það er því skiljanlegt að fólk kveini eins og íbúi fátækrahverfis í São Paulo: „Góð heilbrigðisþjónusta er fyrir okkur eins og vara í sýningarglugga í glæsilegri verslanamiðstöð. Við getum skoðað hana en höfum ekki efni á að kaupa hana.“ Milljónir manna um allan heim eru í sömu stöðu.

Slíkt óréttlæti fékk Albert Schweitzer til að fara til Afríku til að veita bágstöddum læknishjálp og störf hans tryggðu honum nóbelsverðlaunin. Hvaða eiginleika eignum við körlum og konum sem hafa unnið góðverk af slíku tagi? Líklega viðurkennum við að þau séu mannvinir með ríka réttlætiskennd, fólk sem trúir því að íbúar þróunarlandanna eigi líka rétt á heilbrigðisþjónustu. Hvaða ályktun getum við þá dregið um hann sem útbjó okkur með hið dásamlega ónæmiskerfi án tillits til efnahags okkar eða þjóðfélagsstöðu? Talar það ekki enn skýrara máli um kærleika skaparans, óhlutdrægni og réttlæti?

Hvernig við kynnumst skaparanum

Kerfin, sem við höfum nefnt hér að framan, eru aðeins fáein skýr dæmi um handaverk skaparans, en leiða þau ekki í ljós að hann er raunveruleg og greind persóna sem gædd er aðlaðandi eiginleikum? Skoða mætti fjölmörg önnur dæmi. Líklega er það þó reynsla okkar úr daglega lífinu að ekki nægi að skoða verk einhverrar persónu til að þekkja hana vel. Það væri jafnvel mögulegt að misskilja hana ef við fengjum ekki heildstæða mynd af henni. Og ef rógur hefði verið í gangi um þessa persónu eða rangfærslur væri þá ekki gott að hitta hana og heyra hennar hlið á málinu? Við gætum rætt við hana til að komast að raun um hvernig hún bregst við ýmsum aðstæðum og hvaða eiginleika hún hefur.

Að sjálfsögðu getum við ekki rætt augliti til auglitis við hinn volduga skapara alheimsins. En hann hefur opinberað margt um sjálfan sig sem raunverulega persónu í bók sem er fáanleg, í heild eða að hluta til, á meira en 2000 tungumálum, þar á meðal þínu. Þessi bók, Biblían, býður þér að kynnast skaparanum og rækta vináttu við hann. „Nálægið yður Guði,“ segir hún, „og þá mun hann nálgast yður.“ Hún sýnir líka hvernig hægt sé að verða vinur hans. (Jakobsbréfið 2:23; 4:8) Kærir þú þig um það?

Í því augnamiði bjóðum við þér að skoða raunsanna og hrífandi frásögn skaparans af sköpunarstarfi sínu.

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Eldingar breyta nokkru magni köfnunarefnis í efnasambönd sem falla til jarðar með regninu. Plönturnar taka þau til sín eins og áburð sem náttúran leggur þeim til. Eftir að menn og skepnur hafa etið plöntur og notað þetta köfnunarefni hverfur það aftur til jarðvegsins sem ammóníumsambönd og sum þeirra umbreytast að lokum aftur í köfnunarefnisloft.

[Rammi á blaðsíðu 79]

Skynsamleg niðurstaða

Vísindamenn eru nær á einu máli um að alheimurinn eigi sér upphaf. Flestir eru líka á því að eitthvað raunverulegt hljóti að hafa verið til á undan þessu upphafi. Sumir vísindamenn tala um orku sem alltaf hefur verið til. Aðrir segja að fyrir „upphafið“ hafi ríkt alger óreiða. Þótt menn noti mismunandi hugtök ganga flestir út frá því að eitthvað hafi verið til, eitthvað án upphafs, sem náði óendanlega langt aftur í tímann.

Spurningin er þar af leiðandi einungis sú hvort við gerum ráð fyrir að þetta eilífa sé eitthvað eða einhver. Hvor kosturinn finnst þér skynsamlegri eftir að hafa hugleitt það sem vísindin hafa lært um upphaf og eðli alheimsins og lífsins sem þar er að finna?

[Rammi á blaðsíðu 80]

„Höfuðfrumefnunum í lífverum — kolefni, köfnunarefni og brennisteini — er fyrir milligöngu gerla breytt úr ólífrænum, loftkenndum efnasamböndum í aðra mynd sem plöntur og dýr geta nýtt sér.“ — The New Encyclopædia Britannica.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 78]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

Hver er niðurstaða þín?

Alheimurinn

↓ ↓

hafði ekkert hafði

upphaf upphaf

↓ ↓

án orsakar orsakaðist af

↓ ↓

EINHVERJUM EINHVERJU

eilífum eilífu

[Mynd á blaðsíðu 75]

Margir Austurlandabúar trúa því að náttúran hafi orðið til af sjálfu sér.

[Mynd á blaðsíðu 76]

Páll stóð á þessari hæð með Akrópólis í bakgrunninum og flutti ræðu um Guð sem vakti menn til umhugsunar.

[Mynd á blaðsíðu 83]

Guð gaf mönnum ónæmiskerfi er skarar fram úr öllu sem læknavísindin bjóða upp á.