Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig varð alheimurinn til? — enn ágreiningsmál

Hvernig varð alheimurinn til? — enn ágreiningsmál

Annar kafli

Hvernig varð alheimurinn til? — enn ágreiningsmál

GEIMFÖRUM þykir stórkostlegt að taka myndir af jörðinni í gegnum glugga geimfars þar sem hún gnæfir yfir þá. „Það er besti þáttur geimferðanna,“ sagði einn þeirra. En í samanburði við sólkerfið virðist jörðin mjög lítil. Inni í kúlu á stærð við sólina gætu rúmast milljón hnettir jafnstórir jörðinni og væri þó enn eftir ónotað rými. En skyldu slíkar staðreyndir um alheiminn koma lífi þínu og hugsanlegum tilgangi með því eitthvað við?

Förum í huganum í stutt ferðalag út í geiminn til þess að fá meiri yfirsýn yfir jörðina og sólina. Sólin okkar er aðeins ein af ógurlegum fjölda stjarna í einum af þyrilörmum Vetrarbrautarinnar * sem er sjálf aðeins örsmár hluti alheimsins. Með berum augum er frá jörðu hægt að sjá nokkra ljósflekki sem eru í raun aðrar vetrarbrautir eða stjörnuþokur, þar á meðal hina stórfenglegu Andrómeduþoku sem er stærri en Vetrarbrautin. Þyngdaraflið heldur Vetrarbrautinni, Andrómeduþokunni og um það bil 20 öðrum stjörnuþokum saman í þyrpingu sem út af fyrir sig er aðeins lítill hluti af risastórri reginþyrpingu. Í alheiminum eru óteljandi reginþyrpingar en þar með er ekki öll sagan sögð.

Þyrpingunum er ekki dreift jafnt um geiminn. Settar á stóran mælikvarða líta þær út eins og þunnar breiður og þræðir utan um gríðarstór kúlulaga tómarúm. Sumar eru svo langar og breiðar að þær minna á mikla landamæramúra. Þetta kemur sjálfsagt mörgum á óvart sem ímynda sér að alheimurinn hafi myndast af sjálfu sér í tilviljunarkenndri geimsprengingu. „Því betur sem við náum að skoða alheiminn í allri sinni dýrð,“ skrifar reyndur greinahöfundur í tímaritið Scientific American, „þeim mun erfiðara reynist okkur að útskýra með einfaldri kenningu hvernig hann varð eins og hann er.“

Vísbending um upphaf

Allar einstakar stjörnur, sem við sjáum, eru í Vetrarbrautinni okkar. Fram til ársins 1920 virtist hún vera eina stjörnuþokan. Líklega er þér þó kunnugt um að seinni tíma athuganir með kröftugri sjónaukum hafa leitt annað í ljós. Alheimurinn hefur að geyma að minnsta kosti 50.000.000.000 stjörnuþokur. Hér er ekki verið að tala um 50 milljarða stjarna — heldur í það minnsta 50 milljarða stjörnuþoka eða vetrarbrauta, hver og ein með milljarða stjarna sem líkja má við sólina okkar. Það var þó ekki hinn svimandi fjöldi risastórra stjörnuþoka sem hristi upp í hugmyndum vísindamanna á þriðja áratugnum heldur sú staðreynd að stjörnuþokurnar eru allar á hreyfingu.

Stjörnufræðingar uppgötvuðu merkilega staðreynd: Þegar menn létu ljósið frá stjörnuþoku fara í gegnum strending sáu þeir að tognað hafði á ljósbylgjunum, en það gefur til kynna að ljósgjafinn hreyfist frá okkur með ógnarhraða. Því meiri sem fjarlægðin til stjörnuþokunnar var því hraðar virtist hún hörfa. Það bendir til þess að alheimurinn sé að víkka út. *

Þó að við séum kannski hvorki sérfræðingar né áhugamenn um stjörnufræði er okkur ljóst að sé alheimurinn að þenjast út gefur það mikið til kynna um fortíðina — og hugsanlega líka um okkar eigin framtíð. Eitthvað hlýtur að hafa komið þessu ferli af stað — einhver kraftur nógu öflugur til að yfirvinna hið feikilega þyngdarafl sem allur massi alheimsins býr yfir. Það er full ástæða til að spyrja: ‚Hvaðan gæti slíkur kyngikraftur verið kominn?‘

Þó að flestir vísindamenn séu þeirrar skoðunar að alheimurinn hafi í upphafi verið mjög lítill og þéttur efnismassi (ástand sem sumir kalla „sérstæðu“) getum við ekki sneitt hjá lykilspurningunni: „Ef alheimurinn var eitt sinn í fortíðinni nálægt þeirri sérstæðu að vera óendanlega smár og óendanlega þéttur, verðum við að spyrja hvað kom þar á undan og hvað var utan við alheiminn. . . . Við verðum að horfast í augu við spurninguna um sjálft upphafið.“ — Sir Bernard Lovell.

Þessi útþensla alheimsins bendir ekki aðeins til einhvers ógnarafls sem varð að vera fyrir hendi heldur þurfti líka framsýni og greind vegna þess að útþensluhraðinn virðist stilltur af mikilli nákvæmni. „Hefði alheimurinn þanist út einum milljón milljónasta hluta hraðar,“ segir Lovell, „væri núna svo komið að allt efni alheimsins væri tvístrað í sundur. . . . Og ef útþenslan hefði verið einum milljón milljónasta hluta hægari hefði þyngdaraflið látið alheiminn falla saman áður en tilvist hans hefði náð einum milljarði ára. Engar langlífar stjörnur hefðu orðið til og ekkert líf.“

Tilraunir til að skýra upphafið

Geta sérfræðingar núna útskýrt hvernig alheimurinn varð til? Margir vísindamenn, sem þykir óþægileg sú hugmynd að æðri vitsmunir hafi skapað alheiminn, setja fram þá tilgátu að alheimurinn hafi skapað sig sjálfur á einhvern hátt úr engu. Finnst þér það hljóma skynsamlega? Slíkar tilgátur fela yfirleitt í sér eitthvert tilbrigði kenningar (óðaþenslulíkan) * sem eðlisfræðingurinn Alan Guth setti fram árið 1979. Seinna viðurkenndi þó dr. Guth að kenning hans „skýri ekki hvernig alheimurinn varð til úr engu.“ Dr. Andrei Linde var afdráttarlausari í orðum í grein í tímaritinu Scientific American: „Að skýra þessa upphaflegu sérstæðu — hvar og hvenær þetta allt saman hófst — er enn það vandamál sem er erfiðast viðureignar í nútímaheimsfræði.“

Ef sérfræðingar geta í rauninni hvorki skýrt hvernig alheimurinn varð til né hvað gerðist í frumbernsku hans ættum við þá ekki að leita skýringa annars staðar? Gild ástæðu er til að skoða vísbendingar sem mörgum sést yfir en geta gefið góða innsýn í þetta viðfangsefni. Þessar vísbendingar koma fram í tengslum við nákvæmar mælingar á fjórum grundvallarkröftum sem ráða öllum eiginleikum efnisheimsins og þeim breytingum sem geta orðið á honum. Við það eitt að heyra minnst á grundvallarkrafta hugsa kannski sumir: ‚Þetta er aðeins fyrir eðlisfræðinga.‘ En svo er ekki. Það er vel þess virði að hugleiða grundvallarstaðreyndirnar vegna þess að þær hafa áhrif á okkur öll.

Fínstilling

Þessir fjórir grundvallarkraftar eru að verki bæði í óravíðáttu geimsins og í óendanlegri smæð frumeindarinnar. Já, þeir verka á allt sem við sjáum í kringum okkur.

Frumefni, sem eru okkur lífsnauðsynleg (einkum kolefni, súrefni og járn), gætu ekki verið til ef fínstillingu þessara fjögurra krafta í alheiminum væri ekki til að dreifa. Við höfum þegar nefnt einn kraftinn, þyngdaraflið. Annar er rafsegulkrafturinn. Ef hann væri svo um munar veikari héldust rafeindirnar ekki á braut um kjarna frumeindarinnar. ‚Væri það alvarlegt mál?‘ kynni einhver að spyrja. Já, vegna þess að frumeindirnar gætu þá ekki sameinast til að mynda sameindir. Ef þessi kraftur væri á hinn bóginn mun sterkari drægjust rafeindirnar inn að kjarna frumeindarinnar. Þá gætu engar efnafræðilegar breytingar átt sér stað milli frumeinda — og þar með væri lífið útilokað. Það má því ljóst vera að tilvera okkar og líf er háð fínstillingu rafsegulkraftsins.

Skoðum þetta út frá stærri mælikvarða, alheiminum sjálfum: Lítils háttar frávik í styrk rafsegulkraftsins hefðu áhrif á sólina og breyttu þar af leiðandi ljósinu sem nær til jarðar með þeim afleiðingum að ljóstillífun plantna yrði erfið eða útilokuð. Slík frávik myndu líka ræna vatninu sínum einstæðu eiginleikum sem eru lífinu alger nauðsyn. Enn aftur má sjá að líf okkar er háð því að rafsegulkrafturinn sé nákvæmlega rétt stilltur.

Styrkleikahlutfallið milli rafsegulkraftsins og hinna kraftanna þriggja er ekki síður mikilvægt. Eðlisfræðingar hafa til dæmis reiknað út að rafsegulkrafturinn sé 10.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000 (1040) sinnum sterkari en þyngdaraflið. Halda mætti að eitt núll í viðbót (1041) breytti litlu. Það þýddi þó að þyngdaraflið yrði hlutfallslega veikara og dr. Reinhard Breuer skýrir út hver afleiðingin yrði: „Minna þyngdarafl hefði í för með sér minni stjörnur og þyngdaraflsþrýstingurinn í iðrum stjarnanna næði ekki að þrýsta hitastiginu nógu hátt til að koma kjarnasamruna af stað: sólin gæti ekki skinið.“ Þú getur ímyndað þér hvað það þýddi fyrir okkur!

Hvað nú ef þyngdaraflið væri hlutfallslega sterkara svo að talan væri aðeins með 39 núllum (1039)? „Með einungis þessari örlitlu breytingu,“ heldur Breuer áfram, „myndi líftími stjarna eins og sólarinnar styttast verulega.“ Aðrir vísindamenn álíta að fínstillingin sé jafnvel enn nákvæmari en þessar tölur gefa til kynna.

Sólin okkar og aðrar stjörnur hafa tvo merkilega eiginleika: þær framleiða orku á hagkvæman hátt í óralangan tíma og senda hana linnulaust frá sér í stöðugu magni. Lítum á einfalt dæmi: Við vitum að til þess að bílvél gangi vel og nýti orkuna sem best þarf hlutfallið milli eldsneytis og lofts að vera nákvæmlega rétt; verkfræðingar hanna flókinn vélbúnað og tölvukerfi til að ná sem bestum afköstum út úr vélinni. Ef þannig háttar til um einfalda bílvél, hvað má þá segja um hagkvæmu „brennsluna“ sem á sér stað í stjörnum eins og sólinni okkar? Meginkraftarnir, sem þar eru að verki, eru fínstilltir eins og best verður á kosið fyrir tilveru lífsins. Er sú nákvæma fínstilling hrein tilviljun? Fyrir manninn Job, sem uppi var í fornöld, var lögð þessi spurning: „Lýstir þú yfir hvaða reglur skyldu stýra himnunum, eða settir þú náttúrulögmálin á jörðinni?“ (Jobsbók 38:33, The New English Bible) Það gerði enginn maður. Hvaðan er þá þessi nákvæmni komin?

Kjarnakraftarnir tveir

Uppbygging alheimsins kallar á miklu meira en að fínstilla einungis þyngdaraflið og rafsegulkraftinn. Tveir aðrir náttúrlegir kraftar snerta einnig líf okkar.

Þessir tveir kraftar eru að verki í kjarna frumeindarinnar og þeir bera ríkulega vitni um fyrirhyggju. Líttu á sterka kjarnakraftinn sem heldur saman róteindum og nifteindum frumeindarkjarnans. Vegna þessarar samtengingar geta ólík frumefni myndast — létt frumefni (eins og helíum og súrefni) og þung frumefni (eins og gull og blý). Ef þessi bindikraftur væri einungis 2 hundraðshlutum veikari má ætla að aðeins vetni væri til. Ef krafturinn væri aftur á móti örlítið sterkari væri aðeins að finna þyngri frumefni en ekkert vetni. Hefði það áhrif á líf okkar? Já, ef ekkert vetni væri í alheiminum hefði sólin ekki eldsneytið sem hún þarf til að geisla frá sér þeirri orku sem lífið þarfnast. Og að sjálfsögðu hefðum við hvorki vatn né fæðu því að án vetnis væri hvorugt til.

Fjórði krafturinn, sem hér er til umræðu, nefndur veiki kjarnakrafturinn, stýrir sundrun geislavirkra efna. Hann hefur líka áhrif á kjarnasamrunann sem á sér stað í sólinni. ‚Er þessi kraftur fínstilltur?‘ kannt þú að spyrja. Stærðfræðingurinn og eðlisfræðingurinn Freeman Dyson segir um það: „Veiki kjarnakrafturinn er milljón sinnum veikari en . . . [sá sterki]. Hann er nákvæmlega það veikur að vetnið í sólinni brennur hægt og stöðugt. Ef veiki krafturinn væri mun öflugri eða mun veikari væri allt líf, sem háð er stjörnum sem líkjast sólinni, í vanda statt.“ Já, þessi nákvæmi brennsluhraði vermir jörðina — en brennir hana ekki upp — og heldur í okkur lífinu.

Þar fyrir utan álíta vísindamenn að veiki krafturinn hafi hlutverki að gegna í sprengingum sprengistjarna. Þeir telja þessar sprengingar vera það gangverk sem býr til og dreifir út flestum frumefnum. „Ef þessir kjarnakraftar væru á einhvern veg aðeins öðruvísi en þeir í raun eru, gætu stjörnurnar ekki framleitt þau frumefni sem þú og ég erum búin til úr,“ segir eðlisfræðingurinn John Polkinghorne.

Fleira mætti tína til en þú skilur líklega hvert verið er að fara. Það er undravert hve nákvæmlega fínstilltir þessir fjórir grundvallarkraftar eru. „Allt í kringum okkur virðumst við sjá vísbendingar um að náttúran hafi hitt naglann á höfuðið,“ skrifaði prófessor Paul Davies. Já, hin nákvæma stilling grundvallarkraftanna hefur gert tilvist og starfsemi sólarinnar mögulega, svo og okkar yndislegu jarðar með lífsnauðsynlega vatninu, skapað skilyrðin fyrir andrúmsloftið sem lífið getur ekki heldur án verið svo og hin mörgu og mikilsverðu frumefni á jörðinni. En spyrðu nú sjálfan þig: ‚Hvers vegna er fínstillingin svona hárnákvæm og hvað býr þar að baki?‘

Hin fullkomnu skilyrði á jörðinni

Tilvera okkar krefst nákvæmni á öðrum sviðum einnig. Lítum á mál jarðarinnar og hvernig hún er staðsett í sólkerfinu. Í Jobsbók í Biblíunni er að finna þessa auðmýkjandi spurningu: „Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? . . . Hver ákvað mál hennar?“ (Jobsbók 38:4, 5) Núna kalla þessar spurningar á svar meira en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna? Vegna þeirra furðulegu staðreynda sem hafa uppgötvast um jörðina — þar með talin stærð hennar og staða í sólkerfinu.

Hvergi í alheiminum hefur fundist reikistjarna sem líkist jörðinni. Sumir vísindamenn benda að vísu á óbeinar sannanir um að í kringum vissar stjörnur snúist hnettir sem eru mörg hundruð sinnum stærri en jörðin. En jörðin okkar er af nákvæmlega réttri stærð til að gera líf okkar mögulegt. Hvernig þá? Ef jörðin væri aðeins stærri væri þyngdarafl hennar meira og vetni, sem er létt lofttegund, félli saman og gæti ekki yfirunnið þyngdarafl jarðar. Andrúmsloftið væri þá ólífvænlegt. Ef jörðin væri á hinn bóginn lítið eitt minni hyrfi hið lífsnauðsynlega súrefni út í geiminn og vatnið á yfirborði jarðar gufaði upp. Í báðum tilvikum væri ekki líft fyrir mennina á jörðinni.

Fjarlægð jarðar frá sólu er líka eins og best verður á kosið til að líf geti þrifist. Stjörnufræðingurinn John Barrow og stærðfræðingurinn Frank Tipler rannsökuðu „hlutfallið milli radíusar jarðar og fjarlægðar frá sólu.“ Þeir komust að þeirri niðurstöðu að líf manna væri útilokað ef „þetta hlutfall væri örlítið öðruvísi en við sjáum það vera.“ Prófessor David L. Block segir: „Útreikningar sýna að hefði jörðin verið sett aðeins 5 af hundraði nær sólinni hefðu stjórnlaus gróðurhúsaáhrif [ofhitnun jarðar] skollið á fyrir um það bil 4000 milljónum ára. Ef jörðin væri á hinn bóginn aðeins einum af hundraði fjær sólinni hefði stjórnlaus jökulmyndun [risastórar ísbreiður náð að þekja mest allan hnöttinn] átt sér stað fyrir um 2000 milljónum ára.“ — Our Universe: Accident or Design?

Við ofannefnda nákvæmni má síðan bæta þeirri staðreynd að jörðin snýst einn snúning um möndul sinn á sólarhring sem er nákvæmlega réttur hraði til að hitastigið verði hæfilegt. Það tekur Venus 243 daga að snúast einn hring. Ímyndaðu þér að jörðin væri jafnhægfara. Við gætum ekki lifað af þann ógurlega hita og kulda sem svo langir dagar og nætur hefðu í för með sér.

Annar mikilvægur þáttur er sporbaugur jarðar um sólu. Halastjörnur hreyfast eftir víðum sporöskjulaga ferli. Við megum þakka fyrir að sama gildi ekki um jörðina. Braut hennar er næstum hringlaga. Það kemur líka í veg fyrir banvænar hitasveiflur hjá okkur.

Við ættum ekki heldur að líta fram hjá því hvar sólkerfið okkar er staðsett. Ef það væri nær miðju Vetrarbrautarinnar kæmi fram bjögun í sporbaug jarðar vegna aðdráttarafls nærliggjandi stjarna. Væri það aftur á móti sett út við jaðar Vetrarbrautarinnar sæist varla nokkur stjarna á næturhimninum. Stjörnuskin er ekki lífsnauðsynlegt en gerir það ekki næturhimininn margfalt fegurri? Út frá núverandi hugmyndum um alheiminn hafa vísindamenn líka reiknað út að við jaðar Vetrarbrautarinnar hefði ekki verið til nægilegt magn frumefnanna sem þarf til að mynda sólkerfi eins og okkar. *

Lög og regla

Þú þekkir líklega af reynslunni að allt hefur tilhneigingu til að brotna niður á einhvern hátt, regla verður að óreglu. Sérhver húseigandi hefur tekið eftir því að hlutir vilja grotna niður og skemmast séu þeir látnir eiga sig. Vísindamenn kalla þessa tilhneigingu „annað lögmál varmafræðinnar.“ Við sjáum þetta lögmál daglega að verki. Nýr bíll eða tjaldvagn, sem skilinn er eftir í hirðuleysi, verður að lokum hræ eitt. Yfirgefin bygging breytist í rústir. Hvað um alheiminn? Lögmálið gildir þar líka. Því mætti ætla að reglan í gervöllum alheiminum myndi með tíð og tíma lúta í lægra haldi fyrir algerri óreiðu.

Þetta virðist hins vegar ekki vera að gerast í alheiminum, eins og stærðfræðiprófessorinn Roger Penrose uppgötvaði þegar hann kannaði á hve háu stigi skipulagsleysi (óreiðu) væri að finna í hinum sýnilega alheimi. Rökrétt túlkun slíkrar niðurstöðu er að álykta að strax í upphafi hafi regla verið á alheiminum og að þar sé enn ákaflega mikið skipulag. Stjarneðlisfræðingurinn Alan Lightman tók fram að vísindamönnum „finnist það furðulegt að alheimurinn skuli strax í upphafi hafa verið í svo stórlega skipulögðu ástandi.“ Hann bætti við að „sérhver lífseig kenning í heimsfræði ætti á endanum að geta skýrt þennan óreiðuvanda“ — hvers vegna alheimurinn sé ekki nú þegar á tjá og tundri.

Staðreyndin er sú að tilvera okkar gengur í berhögg við þetta viðurkennda lögmál, annað lögmál varmafræðinnar. Hvers vegna erum við þá til hér á jörðinni? Eins og áður var vikið að er þetta grundvallarspurning sem við ættum að vilja fá svarað.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Vetrarbrautin okkar er um ein trilljón kílómetra í þvermál — já, 1.000.000.000.000.000.000 kílómetrar! Það tekur ljósið 100.000 ár að fara þá vegalengd og í þessari stjörnuþoku einni eru meira en 100 milljarðar stjarna.

^ gr. 8 Árið 1995 tóku vísindamenn eftir undarlegri hegðun fjarlægustu stjörnunnar sem sést hefur (SN 1995K) þegar hún sprakk í stjörnuþoku sinni. Eins og sprengistjörnur í nærliggjandi stjörnuþokum varð þessi stjarna skjannabjört og dofnaði síðan hægt en þó á miklu lengri tíma en áður hafði þekkst. Tímaritið New Scientist setti þetta upp í línurit og sagði til skýringar: „Lögun ljóskúrfunnar . . . er teygð út í tíma nákvæmlega í þeim mæli sem vænta mætti ef stjörnuþokan fjarlægðist okkur með hálfum hraða ljóssins.“ Hver var niðurstaðan? Þetta er „besta vísbendingin, sem enn hefur fengist, um að alheimurinn sé í raun og veru að þenjast út.“

^ gr. 13 Óðaþenslukenningin er tilgáta um hvað gerðist sekúndubroti eftir upphaf alheimsins. Talsmenn hennar halda því fram að alheimurinn hafi í upphafi verið örsær (smærri en sést í venjulegri smásjá) en síðan þanist út með meira en ljóshraða, en þessi staðhæfing verður ekki sannreynd á rannsóknarstofu. Þessi kenning er enn verulega umdeild.

^ gr. 34 Vísindamenn hafa komist að því að í frumefnunum birtist furðuleg regla og samræmi. Athyglisverðar upplýsingar um það er að finna í viðaukanum: „Byggingareiningar alheimsins“ á blaðsíðu 26.

[Rammagrein á blaðsíðu 15]

Reynt að koma tölu á stjörnurnar

Mönnum reiknast til að í Vetrarbrautinni séu meira en 100.000.000.000 (100 milljarðar) stjarna. Ímyndaðu þér að alfræðibók notaði eina blaðsíðu til umfjöllunar um hverja og eina af þessum stjörnum — sólin og sólkerfið okkar fengi eina síðu. Í hve mörgum bindum þyrfti þetta fræðirit að vera til að fjalla um allar stjörnurnar í Vetrarbrautinni?

Ef þykkt hvers bindis væri eins og almennt tíðkast um uppsláttarrit er sagt að þessi alfræðibók kæmist ekki fyrir í New York Public Library, bókasafni með 412 kílómetra af hillurými!

Hversu lengi værir þú að lesa þessar blaðsíður? „Það tæki meira en tíu þúsund ár að blaða í gegnum þetta rit á hraðanum ein blaðsíða á sekúndu,“ segir bókin Coming of Age in the Milky Way. Þó eru stjörnurnar, sem mynda stjörnuþokuna sem við búum í, Vetrarbrautina, aðeins lítið brot stjarnanna í þeim 50.000.000.000 (50 milljarðar) stjörnuþoka sem menn áætla að séu í alheiminum. Ef í alfræðiritinu væri blaðsíða fyrir hverja og eina af þessum stjörnum nægðu ekki allar bókasafnshillur heimsins undir það. „Því meira sem við vitum um alheiminn,“ segir þessi bók, „þeim mun betur sjáum við hve lítið við vitum.“

[Rammagrein á blaðsíðu 16]

Orð Jastrows um „upphafið“

Robert Jastrow, prófessor í stjörnufræði og jarðfræði við Columbia University, skrifar: „Þeir eru ekki margir stjörnufræðingarnir sem bjuggust við því að þessi atburður — skyndileg fæðing alheimsins — yrði sannaður sem vísindaleg staðreynd, en notkun stjörnusjónauka við könnun himingeimsins hefur neytt þá til þeirrar niðurstöðu.“

Jastrow kemur síðan inn á það sem af þessu leiðir: „Að færð skuli hafa verið stjarnfræðileg sönnun fyrir upphafi setur vísindamenn í vandræðalega stöðu vegna þess að þeir trúa því að sérhver afleiðing eigi sér náttúrlega orsök . . . Breski stjörnufræðingurinn E. A. Milne hefur skrifað: ‚Við getum ekki komið með neinar fullyrðingar um stöðu mála [í upphafi]; á hinu guðdómlega sköpunaraugnabliki var enginn til að fylgjast með Guði og vitna síðan um atburðinn.‘“ — The Enchanted Loom — Mind in the Universe.

[Rammagrein á blaðsíðu 17]

Fjórir grundvallarkraftar eðlisfræðinnar

1. Þyngdarafl — mjög veikur kraftur hvað snertir frumeindirnar. Hann hefur áhrif á stóra hluti — reikistjörnur, stjörnur, stjörnuþokur.

2. Rafsegulmagn — aðalaðdráttaraflið milli róteinda og rafeinda sem gerir myndun sameinda mögulega. Eldingar eru dæmi um afl þess.

3. Sterki kjarnakrafturinn (sterk víxlverkun) — krafturinn sem heldur róteindum og nifteindum saman í frumeindarkjarnanum.

4. Veiki kjarnakrafturinn (veik víxlverkun) — krafturinn sem stýrir niðurbroti geislavirkra efna og hinum mikilvirka kjarnasamruna í sólinni.

[Rammagrein á blaðsíðu 20]

‚Samsafn tilviljana‘

„Gerum veika kraftinn eilítið sterkari og ekkert helíum hefði orðið til; gerum hann aðeins veikari og næstum allt vetni væri orðið að helíum.“

„Líkurnar á alheimi, þar sem eitthvert helíum er að finna og þar að auki sprengistjörnur, eru ákaflega litlar. Tilvera okkar er háð þessu samsafni tilviljana og auk þess enn afdrifaríkari tilviljun, en hún er styrkleikastig kjarnakraftanna sem [stjörnufræðingurinn Fred] Hoyle sagði fyrir um. Ólíkt öllum fyrri kynslóðum vitum við hvernig við urðum til hér á jörð. En eins og allar fyrri kynslóðir vitum við enn ekki hvers vegna.“ — New Scientist.

[Rammagrein á blaðsíðu 22]

„Hin hentuga stærð jarðarinnar, samsetning frumefna hennar og næstum hringlaga braut í bestu hugsanlegu fjarlægð frá langlífri stjörnu, sólinni, skapar skilyrði sem gerir vatni mögulegt að safnast saman á yfirborði jarðar.“ (Integrated Principles of Zoology, 7. útgáfa) Án vatns hefði ekkert líf orðið til á jörðinni.

[Rammagrein á blaðsíðu 24]

Trúir þú aðeins því sem þú sérð?

Margt skynsamt fólk viðurkennir tilvist hluta sem það getur ekki séð. Í janúarhefti tímaritsins Discover árið 1997 var greint frá því að stjörnufræðingar hefðu uppgötvað það sem þeir álykta að sé um tylft reikistjarna á braut um fjarlægar stjörnur.

„Enn sem komið er þekkjast nýju reikistjörnurnar aðeins af þeim truflandi áhrifum sem þyngdarafl þeirra hefur á hreyfingu móðurstjarnanna.“ Já, sýnileg áhrif þyngdaraflsins gaf stjörnufræðingunum ástæðu til að trúa á tilvist ósýnilegra himinhnatta.

Vísindamönnum nægðu óbeinar sannanir til að viðurkenna tilvist þess sem enn var ósýnilegt. Þeir þurftu ekki beinlínis að sjá það. Margir sem trúa á skapara álykta sem svo að þeir hafi sams konar grundvöll til að viðurkenna tilvist Guðs sem þeir geta ekki séð.

[Rammagrein á blaðsíðu 25]

Sir Fred Hoyle segir í bókinni The Nature of the Universe: „Til að komast fram hjá spurningunni um sköpun yrði að reikna með að allt efni alheimsins væri óendanlega gamalt, og það getur ekki verið. Vetni er sífellt að breytast í helíum og hin frumefnin . . . Hvernig má þá vera að alheimurinn samanstandi næstum eingöngu af vetni? Ef efnið væri óendanlega gamalt væri það algerlega útilokað. Við sjáum þar af leiðandi að með alheiminn eins og hann er getum við ekki vikið okkur undan spurningunni um sköpun.“

[Mynd á blaðsíðu 12, 13]

Það fer ekki mikið fyrir sólinni okkar í Vetrarbrautinni. Hér er því lýst með ferningi í þyrilstjörnuþokunni NGC 5236.

Í Vetrarbrautinni eru meira en 100 milljarðar stjarna og hún er aðeins ein af 50 milljörðum stjörnuþoka í hinum þekkta alheimi.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Stjörnufræðingurinn Edwin Hubble (1889-1953) gerði sér grein fyrir að færsla litrófslína ljóss frá fjarlægum stjörnuþokum (rauðvik) sýnir að alheimurinn okkar þenst út og á sér þess vegna upphaf.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Kraftarnir, sem stjórna sólinni, eru stilltir nákvæmlega rétt til að líf geti þrifist á jörðinni.