Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig varð lífið til?

Hvernig varð lífið til?

Þriðji kafli

Hvernig varð lífið til?

JÖRÐIN morar af lífi. Allt frá snæviþöktum heimskautunum til Amasonregnskógarins, Saharaeyðimörkinni til fenjasvæðanna í Flórída, dimmu hafdjúpinu til sólríkra fjallatinda er líf að finna í ríkum mæli. Þessu lífi er líka einkar lagið að koma okkur á óvart.

Lífið birtist í svo margvíslegum myndum, stærðum og magni að það slær ímyndunarafli okkar alveg við. Milljón skordýrategundir suða og iða um alla jörðina. Í sjó og vötnum synda meira en 20.000 tegundir fiska — sumir á stærð við hrísgrjón en aðrir eins langir og stór vörubíll. Í það minnsta 350.000 plöntutegundir — nokkrar mjög kynlegar en flestar dásamlegar — prýða þurrlendið. Um loftið fljúga meira en 9000 fuglategundir. Þessar sköpunarverur, maðurinn meðtalinn, mynda síbreytilega sjónarspilið og margslungna en samræmda samspilið sem við nefnum lífheim.

Hin yndislega fjölbreytni lífríkisins er þó ekki það sem kemur hvað mest á óvart heldur hve heilsteyptur sá hlekkur er sem tengir lífverurnar saman. Lífefnafræðingar, sem rannsaka uppbyggingu lífveranna á jörðinni, segja okkur að allar lífverur — teygjudýr sem menn — séu háðar stórkostlegu samspili: samvinnunni milli kjarnsýra (DNA og RNA) og prótínsameinda. Hið margbrotna ferli, sem þessi efnasambönd eiga þátt í, á sér stað í bókstaflega öllum líkamsfrumum okkar, alveg eins og það á sér stað í frumum kólibrífugla, ljóna og hvala. Þetta samspil, sem alls staðar er eins, framkallar hið fallega og margvíslega mósaík lífsins. Hvernig varð þetta samspil til? Já, hvernig varð lífið til?

Líklega fellst þú á það að eitt sinn hafi ekkert líf verið til á jörðinni. Vísindin eru á þeirri skoðun og sama gildir um margar trúarbækur. Þér er þó sjálfsagt kunnugt um að vísindin og trúarbrögðin hafa ólíkar útskýringar á því hvernig lífið hófst á jörðinni.

Milljónir manna af öllum menntunarstigum trúa því að greindur skapari, frumhönnuður alls, hafi búið til lífið á jörðinni. Á hinn bóginn segja margir vísindamenn að lífið hafi orðið til af hreinni tilviljun úr ólífrænu efni með einni efnabreytingunni á fætur annarri. Hvort er rétt?

Við ættum ekki að halda að þessi spurning komi okkur ekki við né þeirri viðleitni okkar að gera lífið tilgangsríkara. Eins og þegar hefur verið bent á er ein af grundvallarspurningunum, sem menn hafa leitað svars við, þessi: Hvaðan erum við, mennirnir sem lifum hér á jörðinni, komnir?

Nám í náttúruvísindum snýst yfirleitt meira um það hvernig hinar ýmsu lífverur hafa aðlagast umhverfinu og lifað af heldur en ítarlega umfjöllun um hina miðlægu spurningu um sjálfan uppruna lífsins. Þú hefur ef til vill tekið eftir því að tilraunir til að útskýra hvaðan lífið kom eru venjulega settar fram með alhæfingum eins og þessari: ‚Á milljónum ára leiddu árekstrar milli sameinda á einhvern hátt til þess að líf myndaðist.‘ En er slík alhæfing virkilega fullnægjandi skýring? Með henni væri sagt að vegna orku frá sólinni, eldingum eða eldgosum hefði eitthvert lífvana efni komist á hreyfingu, skipulag komist á það og það að lokum orðið lifandi — allt án nokkurrar stýringar eða hjálpar. Þvílíkt risastökk hefði það verið – frá ólífrænu efni yfir í lifandi! Gæti það hafa gerst þannig?

Á miðöldum hefðu menn hugsanlega ekki átt í erfiðleikum með að taka við slíkri skýringu því að þá var almennt trúað á sjálfkviknun lífs — þá hugmynd að líf gæti kviknað sjálfkrafa úr lífvana efni. Á 17. öld sannaði loksins ítalski læknirinn Francesco Redi að maðkar komi ekki fram í úldnu kjöti nema flugur hafi náð að verpa þar eggjum sínum. Engir maðkar mynduðust í kjöti sem flugur komust ekki að. En þó að dýr á stærð við flugur yrðu ekki til af sjálfu sér, hvað um örverurnar sem komu fram í mat — hvort sem hann var lokaður af eða ekki? Þó að seinni tilraunir gæfu til kynna að örverur kviknuðu ekki af sjálfu sér hélt málið áfram að valda deilum. Þá kom Louis Pasteur fram með niðurstöður rannsókna sinna.

Margir muna hvernig Pasteur vann að því að leysa ýmsar spurningar í tengslum við gerjun og smitsjúkdóma. Hann gerði líka tilraunir til að komast að því hvort agnarlitlar lífverur gætu myndast af sjálfu sér. Eins og þú hefur ef til vill lesið sýndi Pasteur fram á að jafnvel örsmáar bakteríur myndast ekki í dauðhreinsuðu vatni sem óhreinindum er haldið frá. Árið 1864 lýsti hann yfir: „Kenningin um sjálfkviknun lífs á aldrei eftir að ná sér eftir það banahögg sem þessi einfalda tilraun veitti henni.“ Sú fullyrðing stendur enn. Engin tilraun hefur nokkru sinni búið til líf úr lífvana efni.

Hvernig gat lífið þá orðið til á jörðinni? Segja má að nútímatilraunir til að svara þeirri spurningu hefjist með verkum rússneska lífefnafræðingsins Alexanders I. Oparins upp úr 1920. Hann lagði fram, eins og aðrir vísindamenn hafa síðan gert, nokkurs konar handrit að leikriti í þremur þáttum þar sem leiksviðið er jörðin. Sett er á svið það sem fullyrt er að hafi gerst á jörðinni. Í fyrsta þætti sjást frumefni eða hráefni jarðarinnar umbreytast í sameindahópa. Í næsta þætti er hoppað upp í stórar sameindir og í síðasta þætti leikritsins er kynnt til sögunnar stökkið upp í fyrstu lifandi frumuna. En gerðist þetta þannig?

Leikritið byggist á þeirri hugmynd að frumandrúmsloft jarðar hafi verið verulega frábrugðið því sem nú er. Ein kenningin gengur út frá því að óbundið súrefni hafi vart verið að finna og að frumefnin köfnunarefni, vetni og kolefni hafi myndað ammóníak og metan. Hugmyndin er sú að þegar eldingar og útfjólublátt ljós klauf andrúmsloft, sem myndað var úr þessum lofttegundum og vatnsgufu, hafi sykrur og amínósýrur orðið til. Hafðu þó hugfast að þetta er kenning.

Samkvæmt þessu tilgátuleikriti skoluðust slíkar sameindablöndur út í höfin eða önnur vötn. Þegar tímar liðu söfnuðust sykrur, sýrur og önnur sambönd saman í „forlífræna súpu“ þar sem amínósýrur runnu til dæmis saman og urðu að prótínum. Kenningin segir þessa framrás hafa haldið áfram og efnasambönd, sem nefnd eru núkleótíð, hafi myndað keðjur og orðið að kjarnsýru eins og DNA. Þetta á allt saman að hafa undirbúið sviðið fyrir lokaþátt þessa sameindaleikrits.

Þessum síðasta þætti, sem engar heimildir eru til um, mætti lýsa sem ástarsögu. Prótínsameindir og DNA-sameindir hittast af tilviljun, kannast hvor við aðra og fallast í faðma. Þá, rétt áður en tjaldið fellur, fæðist fyrsta lifandi fruman. Ef þú fylgdist með þessu leikriti væri þér ef til vill spurn: ‚Er þetta sannsögulegt eða skáldskapur? Er nokkur leið að lífið á jörðinni hafi orðið til á þennan hátt?‘

Kviknaði líf á tilraunastofu?

Snemma á sjötta áratugnum hugðust vísindamenn reyna kenningu Alexanders Oparins. Það var fullreynd staðreynd að líf kemur aðeins af lífi, en vísindamenn settu engu að síður fram þá tilgátu að í árdaga gæti líf hafa komið fram hægt og rólega af lífvana efni við aðrar aðstæður en núna eru. Væri hægt að sýna fram á það? Vísindamaðurinn Stanley L. Miller, sem starfaði á rannsóknarstofu Harolds Ureys, tók vetni, ammóníak, metan og vatnsgufu (gengið var út frá því að frumandrúmsloftið hafi verið þannig), setti í lokaða flösku, lét vatn sjóða í botni hennar (þar var komið frumhafið) og lét rafneista (eins og eldingu) skjótast í gegnum loftblönduna. Áður en vika var liðin myndaðist örlítið af rauðleitu klístri sem Miller efnagreindi og fann að var ríkt af amínósýrum — undirstöðuefni prótína. Það er harla líklegt að þú hafir heyrt um þessa tilraun af því að árum saman hefur verið til hennar vísað í kennslubókum og kennslustundum eins og hún útskýri hvernig lífið hófst á jörðinni. En gerir hún það?

Satt að segja er gildi tilraunar Millers dregið nú orðið stórlega í efa. (Sjá „Sígild en umdeild,“ blaðsíðu 36 og 37.) Engu að síður leiddi hinn góði árangur, sem hún virtist gefa, til annarra tilrauna þar sem mönnum tókst jafnvel að fá fram vissa efnisþætti sem finnast í kjarnsýrum (DNA eða RNA). Bjartsýni ríkti meðal sérfræðinga á þessu sviði vegna þess að þeir virtust hafa leikið eftir fyrsta þáttinn í sameindaleikritinu. Og svo virtist sem tilraunastofuútgáfur á seinni þáttunum tveimur kæmu í kjölfarið. Efnafræðiprófessor fullyrti: „Útskýringin á því hvernig þróunargangverkið myndaði frumstæð lífkerfi er vel innan seilingar.“ Vísindarithöfundur komst svo að orði: „Spekingarnir gátu sér til að vísindamenn myndu, líkt og doktor Frankenstein í bók Mary Shelleys, innan tíðar töfra fram lifandi verur á rannsóknarstofum sínum og sýna þar með nákvæmlega hvernig lífið kom fram í upphafi.“ Leyndardómurinn um sjálfkrafa upphaf lífsins var að margra mati leystur. — Sjá „Hægri handar og vinstri handar,“ blaðsíðu 38.

Hugmyndirnar breytast — ráðgáturnar ekki

Þessi bjartsýni er hins vegar rokin út í veður og vind á þeim árum sem síðan eru liðin. Áratugir hafa liðið og ráðgátur lífsins eru enn sem fyrr torskildar. Um 40 árum eftir tilraun sína sagði prófessor Miller við Scientific American: „Spurningin um uppruna lífsins hefur reynst miklu erfiðari viðureignar en ég og flestir aðrir gerðum okkur í hugarlund.“ Viðhorf annarra vísindamanna hafa á sama hátt breyst. Nefna má líffræðiprófessorinn Dean H. Kenyon sem var annar höfundur bókarinnar Biochemical Predestination er kom út árið 1969 og setti fram lífefnafræðilegar skýringar á uppruna lífsins. Seinna komst hann þó að þeirri niðurstöðu að það sé „í grundvallaratriðum óhugsandi að efni og orka hafi án aðstoðar raðað sér skipulega upp í lifandi kerfi.“

Rannsóknarstofuvinna staðfestir einmitt það mat Kenyons að „grundvallarveila [sé] í öllum þeim kenningum sem núna eru uppi um efnafræðilegan uppruna lífsins.“ Eftir að Miller og aðrir höfðu myndað amínósýrur fóru vísindamenn að reyna að búa til prótín og DNA sem hvort tveggja eru forsendur lífs á jörðinni. Hver er útkoman eftir þúsundir tilrauna með svokallaðar forlífsaðstæður? Í bókinni The Mystery of Life’s Origin: Reassessing Current Theories segir: „Það er sláandi munur á því hversu verulegum árangri menn ná í að búa til amínósýrur og því hve illa þeim tekst til að mynda prótín og DNA.“ Viðleitnin til hins síðarnefnda hefur „jafnan misheppnast.“

Í raun og veru nær leyndardómurinn yfir meira en það hvernig fyrstu prótínsameindirnar og kjarnsýrusameindirnar (DNA eða RNA) urðu til. Hann snýst líka um það hvernig þær vinna saman. „Það er samvinna þessara tveggja sameinda sem gerir núverandi líf á jörðinni mögulegt,“ segir The New Encyclopædia Britannica. En hvernig þessi samvinna gat komist á er, að sögn þessa uppsláttarrits, enn þá „óleyst vandamál sem skiptir sköpum í tengslum við spurninguna um uppruna lífsins.“

Í viðauka A, „Lífsnauðsynleg samvinna“ (á blaðsíðu 45-47), eru rifjaðir upp nokkrir grundvallarþættir hinnar áhugaverðu samvinnu milli prótína og kjarnsýra í frumum mannslíkamans. Þó að við gerum ekki meira en rétt að skyggnast þar inn í ríki líkamsfrumna okkar vaknar hjá okkur aðdáun á starfi vísindamanna á þessu sviði. Þeir hafa varpað ljósi á óheyrilega margslungna starfsemi er á sér stað hvert andartak sem við lifum en fæst okkar leiða svo mikið sem hugann að. Það er yfirþyrmandi hve starfsemin er flókin og krefst mikillar nákvæmni og það leiðir okkur eðlilega aftur að spurningunni: Hvernig varð allt þetta til?

Þú veist ef til vill að vísindamenn á þessu sviði eru ekki hættir að reyna að setja saman hugsanlegan söguþráð fyrir leikritið um upphaf hins fyrsta lífs. Nýju handritin reynast þó ekki sannfærandi. (Sjá viðauka B, „Frá ‚RNA-heiminum‘ eða öðrum heimi?“, blaðsíðu 48.) Klaus Dose við lífefnafræðistofnunina í Mainz í Þýskalandi segir til dæmis: „Eins og er lýkur allri umfjöllun um helstu kenningar og tilraunir á þessu sviði annaðhvort með þrátefli eða með því að menn játa fáfræði sína.“

Árið 1996 var haldin alþjóðleg ráðstefna um uppruna lífsins en engar lausnir voru í sjónmáli. Tímaritið Science greindi þess í stað frá því að vísindamennirnir, næstum 300 að tölu sem þar voru saman komnir, hefðu „glímt við ráðgátuna um það hvernig [DNA og RNA] sameindirnar komu fyrst fram og hvernig þær þróuðust í frumur sem fjölguðu sér sjálfar.“

Menn þurfa bæði að vera greindir og hámenntaðir til að geta rannsakað og útskýrt að einhverju leyti hvað gerist á sameindastiginu í frumum okkar. Er rökrétt að halda að flókið ferli hafi í upphafi átt sér stað í „forlífrænni súpu,“ stjórnlaust, sjálfkrafa og af tilviljun? Þurfti ekki meira til?

Hvers vegna þessar ráðgátur?

Núna er hægt að líta yfir vangaveltur manna í næstum hálfa öld og þúsundir tilrauna til að sanna að lífið hafi orðið til af sjálfu sér. Fari maður út í slíka athugun er erfitt að vera ósammála nóbelsverðlaunahafanum Francis Crick, en hann sagði um kenningarnar um uppruna lífsins: „[Þar eru] of margar tilgátur að leita uppi of fáar staðreyndir.“ Það er því skiljanlegt að ýmsir vísindamenn, sem rannsaka staðreyndirnar, álykti að lífið sé allt of flókið til að spretta upp af sjálfu sér jafnvel við skipulagðar aðstæður á rannsóknarstofu, hvað þá í stjórnlausu umhverfi.

Ef háþróuð vísindi geta ekki sannað að líf hafi getað orðið til af sjálfu sér hvers vegna halda þá sumir vísindamenn enn í slíkar kenningar? Fyrir fáeinum áratugum varpaði prófessor J. D. Bernal nokkru ljósi á þetta mál í bókinni The Origin of Life: „Með því að beita hinum ströngu vinnureglum vísindaaðferðarinnar á þetta viðfangsefni [sjálfkviknun lífs], er gerlegt að sýna á áhrifaríkan hátt á mörgum stöðum í framsetningunni að lífið hefði ekki getað komið fram; ólíkindin eru of mikil, líkurnar á að líf verði til eru of litlar.“ Hann bætti við: „Því miður, frá þessum sjónarhóli séð, er líf að finna hér á jörðinni með öllum sínum fjölbreytileika og starfsemi, og maður verður að umsnúa rökunum til að útskýra tilveru þess.“ Og sú staða hefur ekkert breyst.

Leiddu hugann að því sem verið er að staðhæfa með slíkri röksemdafærslu. Menn geta alveg eins sagt: ‚Það er vísindalega rétt að fullyrða að lífið hafi ekki getað orðið til af sjálfu sér. En sjálfkviknun lífs er eini möguleikinn sem við tökum til greina. Þess vegna er nauðsynlegt að umsnúa rökunum til að þau styðji þá tilgátu að lífið hafi kviknað af sjálfu sér.‘ Ert þú sáttur við slíkar röksemdir? Kallar slík rökfærsla ekki á heilmikinn ‚umsnúning‘ staðreynda?

Til eru þó mjög færir og virtir vísindamenn sem sjá ekki þörf á að umsnúa staðreyndum til að láta þær falla að ráðandi viðhorfum um uppruna lífsins. Þess í stað leyfa þeir staðreyndunum að benda til skynsamlegrar niðurstöðu. Hvaða staðreyndum og hvaða niðurstöðu?

Upplýsingar og vitsmunir

Prófessor Maciej Giertych, nafnkunnur erfðafræðingur við trjáfræðistofnun pólsku akademíunnar svaraði þegar haft var viðtal við hann í heimildarmynd:

„Okkur er orðið ljóst hvílíkt ógrynni upplýsinga er geymt í genunum. Vísindin þekkja enga leið til þess að þær upplýsingar geti komið fram af sjálfu sér. Tilviljunarkennd atburðarás safnar þeim ekki saman; til þess þarf vitsmuni. Orð verða ekki til við það eitt að hræra saman stöfum.“ Hann bætti við: „Til dæmis verður hið afarflókna afritunarkerfi DNA, RNA og prótína að hafa verið fullkomið allt frá byrjun. Að öðrum kosti gátu lífkerfin ekki verið til. Eina rökrétta skýringin er sú að vitsmunir búi að baki þessu óhemjumagni upplýsinga.“

Því meira sem við lærum um furður lífsins þeim mun rökréttara er að fallast á þessa niðurstöðu: Uppruni lífsins krefst vitsmuna. En hvaðan eru þeir vitsmunir komnir?

Eins og áður hefur verið bent á draga milljónir menntaðra manna þá ályktun að á bak við tilurð lífsins á jörðinni hljóti að standa æðri vitsmunir, hönnuður. Já, eftir að hafa kannað málið af sanngirni hafa þeir viðurkennt að skynsamlegt sé, jafnvel á þessari vísindaöld, að samsinna biblíuskáldinu sem fyrir löngu sagði um Guð: „Hjá þér er uppspretta lífsins.“ — Sálmur 36:10.

Vera má að þú sért ekki kominn að ákveðinni niðurstöðu enn þá, en beinum samt athygli okkar núna að nokkrum undraverðum atriðum sem tengjast þér sjálfum. Slík athugun er mjög gagnleg og getur varpað verulegu ljósi á þetta mál sem snertir líf okkar allra.

[Rammagrein á blaðsíðu 30]

Var það allt saman tilviljun?

„Tilviljun og ekkert annað en tilviljun kom því öllu til leiðar, frá frumsúpunni til mannsins,“ sagði nóbelsverðlaunahafinn Christian de Duve og var þá að tala um uppruna lífsins. En er það rökleg skýring á tilurð lífsins að segja að tilviljun hafi verið þar að verki?

Hvað er átt við með orðinu tilviljun? Sumir hugsa sér tilviljun sem stærðfræðileg líkindi, eins og líkurnar á að nefna réttu hliðina þegar kastað er upp peningi. En margir vísindamenn nota orðið „tilviljun“ ekki þannig í tengslum við uppruna lífsins. Hið óljósa orð „tilviljun“ er notað í staðinn fyrir nákvæmara orð eins og „orsök,“ sérstaklega þegar orsökin er óþekkt.

„Það að persónugera ‚tilviljun‘ eins og við værum að tala um orsakavald,“ segir lífeðlisfræðingurinn Donald M. MacKay, „eru óréttmæt skipti á vísindalegu hugtaki yfir í goðsagnalegt hugtak með hálfgerðum trúarblæ.“ Robert C. Sproul bendir sömuleiðis á eftirfarandi: „Með því að kalla hina óþekktu orsök ‚tilviljun‘ í svo langan tíma fer fólk að gleyma því að orðið sé staðgengill fyrir annað hugtak. . . . Sú forsenda að ‚tilviljun jafngildi óþekktri orsök‘ hefur farið að þýða í hugum margra að ‚tilviljun jafngildi orsök.‘“

Nóbelsverðlaunahafinn Jacques L. Monod er einn þeirra sem hafa notað þessa röksemdafærslu að tilviljun jafngildi orsök. „Hrein tilviljun, algerlega óbundin en blind tilviljun, er sjálf driffjöðrin í hinu stórbrotna hönnunarferli þróunarinnar,“ skrifaði hann. „Maðurinn veit loksins að hann er einn í tilfinningalausri óravíðáttu alheimsins og er þar orðinn til einungis af tilviljun.“ Tökum eftir að hann segir: ‚AF tilviljun.‘ Monod gerir það sama og margir aðrir – hann setur tilviljunina á stall sem frumorsök sköpunarinnar. Tilviljun er teflt fram sem skýringu á því hvernig lífið varð til á jörðinni.

Í orðabókum má finna þá skilgreiningu á „tilviljun“ að hún sé „það afl í tilverunni, óhlutgert og stefnulaust, sem álitið er að standi á bak við óútreiknanlega atburði.“ Ef menn tala um að lífið hafi orðið til af tilviljun eru þeir þar af leiðandi að segja að það hafi orðið til vegna orsakavalds sem er óþekktur. Gæti verið að sumir séu nánast að skrifa „Tilviljun“ með stórum staf og séu þess vegna í raun og veru að tala um skapara?

[Rammi á blaðsíðu 35]

„[Minnsta bakterían] líkist svo miklu meira fólki en efnablöndum Stanley Millers vegna þess að hún býr þegar yfir þessum [lífefnafræðilegu] eiginleikum. Það er því styttri leið frá bakteríu yfir til fólks en frá amínósýrublöndu til bakteríunnar.“ — Lynn Margulis, líffræðiprófessor.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 36, 37]

Sígild en umdeild

Tilraun Stanley Millers frá árinu 1953 er oft tilgreind sem sönnun þess að lífið hefði getað kviknað af sjálfu sér í árdaga. En gildi skýringar hans hvílir á þeirri forsendu að frumandrúmsloft jarðar hafi verið „afoxað“ sem þýðir að í því hafi verið aðeins örlítið af óbundnu súrefni. Hvers vegna?

Bókin The Mystery of Life’s Origin: Reassessing Current Theories bendir á að ef mikið af óbundnu súrefni hefði verið til staðar ‚myndi ekki nokkur amínósýra myndast, og þó einhverjar hefðu gert það af tilviljun hefðu þær óðara sundrast.‘ * Hversu traustar voru forsendur þær sem Miller gaf sér um frumandrúmsloftið?

Í þekktri ritgerð, sem Miller gaf út tveimur árum eftir tilraun sína, skrifaði hann: „Þessar hugmyndir eru að sjálfsögðu tilgátur því að við vitum ekki hvort andrúmsloft jarðar var afoxað á mótunarskeiði hennar. . . . Engin bein vísbending um það hefur enn fundist.“ — Journal of the American Chemical Society, 12. maí 1955.

Hefur slík vísbending komið í leitirnar? Um 25 árum síðar skrifaði vísindarithöfundurinn Robert C. Cowen: „Vísindamenn sjá sig tilneydda til að endurskoða sumt af því sem þeir gengu út frá. . . . Litlar vísbendingar hafa komið fram til stuðnings hugmyndinni um vetnisauðugt og afoxað andrúmsloft heldur bendir ýmislegt í aðra átt.“ — Technology Review, apríl, 1981.

Hvað hefur gerst síðan þá? Árið 1991 skrifaði John Horgan í Scientific American: „Síðastliðin tíu ár eða þar um bil hafa efasemdir aukist um forsendurnar sem Urey og Miller gáfu sér um andrúmsloftið. Rannsóknarstofutilraunir og tölvulíkön af andrúmsloftinu . . . gefa til kynna að útfjólublá geislun frá sólu, sem ósonið í andrúmsloftinu hefur nú á tímum hemil á, hefði eyðilagt þær sameindir í andrúmsloftinu er væru að grunni til vetni. . . . Slíkt andrúmsloft [koltvíoxíð og köfnunarefni] hefði ekki verið vænlegt til myndunar amínósýra og annarra undanfara lífsins.“

Hvers vegna halda þá enn svo margir fast í það að andrúmsloft jarðar hafi verið afoxað, innihaldið lítið súrefni? Í Molecular Evolution and the Origin of Life svara Sidney W. Fox og Klaus Dose því þannig: Andrúmsloftið hlýtur að hafa skort súrefni meðal annars vegna þess að „rannsóknarstofutilraunir sýna að . . . súrefni myndi að mestu hindra framgang efnafræðilegrar þróunar“ og vegna þess að efnasambönd eins og amínósýrur „eru ekki stöðug á jarðsögulegu tímaskeiði sé súrefni fyrir hendi.“

Er þessi röksemdafærsla ekki komin í hring? Sagt er að frumandrúmsloftið hafi verið afoxað vegna þess að lífið hefði ekki getað kviknað af sjálfu sér að öðrum kosti. En ekki verður sagt með neinni vissu að það hafi verið afoxað.

Það er annað mikilvægt atriði: Ef lofttegundablandan er andrúmsloftið, rafneistinn hermir eftir eldingu og sjóðandi vatnið kemur í stað sjávarins, fulltrúi hvers er þá vísindamaðurinn sem útbýr og framkvæmir tilraunina?

[Neðanmáls]

^ gr. 50 Súrefni er afskaplega hvarfgjarnt. Það gengur til dæmis í efnasamband við járn og myndar ryð eða við vetni og myndar vatn. Ef mikið var um óbundið súrefni í loftinu þegar samsetning amínósýranna fór fram myndi það hafa gengið í efnasamband við lífrænu sameindirnar jafnóðum og þær mynduðust og rifið þær niður.

[Rammagrein á blaðsíðu 38]

Hægri handar og vinstri handar

Amínósýrusameindir eru annaðhvort vinstri handar eða hægri handar líkt og flestir hanskar. Þekktar eru um 100 amínósýrur en aðeins 20 eru notaðar í prótín og þær eru allar vinstri handar. Þegar vísindamenn búa til amínósýrur á rannsóknarstofum með því að líkja eftir því sem þeir telja að hugsanlega hafi gerst í forlífrænu súpunni, fá þeir jafnmikið af hægri handar og vinstri handar sameindum. „Þessi helmingaskipti,“ segir í The New York Times, „eru ekki einkennandi fyrir lífheiminn sem er háður vinstri handar amínósýrum einum.“ Hvers vegna lífverur eru byggðar úr vinstri handar amínósýrum eingöngu er „mikil ráðgáta.“ Jafnvel amínósýrur, sem fundist hafa í loftsteinum, „hafa flestar reynst vinstri handar.“ Dr. Jeffrey L. Bada, sem rannsakar vandkvæði í tengslum við uppruna lífsins, sagði að „einhver áhrifamáttur utan jarðarinnar gæti hafa gegnt hlutverki í að ákvarða upp á hvora höndina amínósýrur í lífríkinu yrðu.“

[Rammi á blaðsíðu 40]

„Þessar tilraunir . . . eru sagðar sýna að lífvana efni hafi myndað það sem hefur í reynd verið smíðað og hannað af hinum fluggreinda og bráðlifandi manni í þeirri viðleitni hans að sannreyna hugmyndir sem hann hefur í miklum mæli bundið sig í.“ — Origin and Development of Living Systems.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 41]

„Úthugsað vitsmunaverk“

Breski stjörnufræðingurinn Sir Fred Hoyle hefur varið áratugum í að kanna alheiminn og lífið í honum og jafnvel aðhyllst þá hugmynd að lífið hafi komið á jörðina utan úr geimnum. Í fyrirlestri við California Institute of Technology ræddi hann um niðurröðun amínósýra í prótínum.

„Hið stóra vandamál líffræðinnar,“ sagði Hoyle, „er ekki svo mjög sú hráa staðreynd að prótín eru samsett úr keðju amínósýra sem hlekkjast saman á vissan hátt, heldur það að hin afdráttarlausa niðurröðun amínósýranna gefur keðjunni athyglisverða eiginleika . . . Ef amínósýrurnar væru tengdar saman af handahófi yrði til gríðarlegur fjöldi keðja sem kæmu lifandi frumu að engu gagni. Þegar litið er til þess að dæmigert ensím er með keðju úr ef til vill 200 hlekkjum og það eru 20 möguleikar fyrir hvern hlekk, er auðvelt að sjá að möguleikarnir á gagnlausri niðurröðun eru gífurlegir, fleiri en öll atómin í öllum þeim vetrarbrautum sem sjást í stærstu sjónaukum. Hér erum við að tala um aðeins eitt ensím en til eru meira en 2000. Flest þeirra þjóna mjög ólíkum tilgangi. Hvernig er þá sú staða komin upp sem við sjáum í þessum málum?“

Hoyle bætti við: „Í stað þess að viðurkenna þann fjarstæðukennda möguleika að lífið hafi kviknað af völdum blindra náttúruafla virtist betra að ganga út frá því að uppruni lífsins væri úthugsað vitsmunaverk.“

[Rammi á blaðsíðu 44]

Prófessor Michael J. Behe hefur sagt: „Fyrir þann mann, sem telur sig ekki nauðbeygðan til að takmarka leit sína við óvitsmunalegar orsakir, er niðurstaðan einfaldlega sú að mörg hinna lífefnafræðilegu kerfa hafi verið hönnuð. Það voru ekki náttúrulögmálin sem sáu um þá hönnun og ekki heldur tilviljun og nauðsyn. Þau voru þvert á móti skipulögð frá grunni. . . . Undirstöðuþættir lífsins á jörðinni, þýðingarmestu einingar þess eru afrakstur vitsmuna.“

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 42]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

Leiftursýn inn í flókinn heim og margbrotna starfsemi líkamsfrumunnar nægir til að upp vakni spurningin: Hvernig varð þetta allt til?

Frumuhimna

Stjórnar því hvað fer inn í og út úr frumunni

Kjarni

Stjórnstöð frumunnar

Litningar

Innihalda DNA, vinnuteikningar frumunnar

Ríbósóm

Hér eru prótín framleidd

Kjarnakorn

Samsetningar- staður ríbósóma

Hvatberi

Framleiðslustaður þeirra sameinda sem sjá frumunni fyrir orku

[Mynd á blaðsíðu 33]

Margir vísindamenn viðurkenna núna að hinar flóknu sameindir, sem liggja til grundvallar lífinu, hafa ekki getað sprottið upp af sjálfu sér í einhverri forlífrænni súpu.